Dagbók: maí 2008

Laugardagur, 31. 05. 08. - 31.5.2008 19:51

Aflinn, félag qi gong iðkenda á Íslandi, hélt aðalfund sinn klukkan 09.30 í dag í Café Flóra, Grasagarðinum, Laugardal. Við vorum kjörnir í aðalstjórn Viðar H. Eiríksson ritari, Logi Guðbrandsson gjaldkeri og ég formaður.

Starfsemi félagsins er blómleg og þeim fjölgar sífellt, sem sýna áhuga á að stunda qi gong. Aðstaða til þess er mjög góð í húsakynnum SÁÁ við Efstaleiti. Einnig stundar hópur æfingar í húsakynnum ÍSÍ í Laugardal.

Aflinn var einmitt stofnaður í Café Flóra 1. júní 2002 eins og sjá má hér á síðunni, þannig að þetta var sjötti aðalfundur félagsins.

Föstudagur, 30. 05. 08. - 30.5.2008 21:27

Þingi lauk um 02.20 í nótt. Ég va kominn í sund á venjulegum tíma 06.30 og síðan í qi gong 08.10.

Ríkisstjórn kom saman 09.30 og þar var rætt um jarðskjálftann í gær. Þeir Jón F. Bjartmarz og Víðir Reynisson komu á fundinn fyrir hönd almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra auk Þórunnar J. Hafstein, skrifstofustjóra í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Þau gerðu grein fyrir atburðum gærdagsins. Ég lagði fram tillögu um að stofna þjónustumiðstöð í þágu íbúa á jarðskjálftasvæðinu í samræmi við ákvæði almannavarnalaga, sem alþingi samþykkti í gærkvöldi. Tillagan var samþkkt.

Maud de Boer-Buzuicchio, aðstoðar-framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, kom á minn fund um hádegisbil. Hún hafði verið á fundi tengslanets kvenna á Bifröst.

Klukkan 14.30 var ég á blaðamannafundi í Skógarhlíð með Jóni F. Bjartmarz og Víði Reynissyni, þar sem við kynntum ákvörðun ríkisstjórnarinnar um þjónustumiðstöð á skjálftasvæðinu.

Klukkan 16.00 var ég við Grandagarð og sjóminjasafnið Víkina um borð í varðskipinu Óðni. Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, afhenti Guðmundi Hallvarðssyni, formanni hollvinasamtaka Óðins, varðskipið en það verður á morgun afhent sjóminjasafninu Víkinni til varðveislu. Flutti ég ávarp við athöfnina, sem Sigrún Magnúsdóttir safnstjóri stjórnaði. Þá söng lögreglukórinn. Ég skýrði frá því, að nú hefði nafnið Óðin verið gefið og þess vegna væri rétt að nýtt varðskip héti Þór.

Var ánægjulegt að ganga um Óðin og sjá hve skemmtilega og smekklega hefur verið búið um skipið sem safngrip. Ég þekki Óðin frá fornu fari frá því að ég var háseti þar um borð á fyrri hluta sjöunda áratugarins, þegar skipið var nýtt. Það hefur elst og varðveist vel.

Í Spegli hljóðvarps ríkisins ræddi Gunnar Gunnarsson við Sigurmar K. Albertsson lögfræðing um símahleranir kaldastríðsáranna og var Sigurmar að sjálfsögðu kynntur til sögunnar á þann veg, að treysta mætti óhlutdrægni hans. Sigurmar er sambýlismaður Álfheiðar Ingadótur, þingmanns vinstri/grænna, sem réðst að mér með offorsi í þingumræðum um hleranir 28. maí. Hvers vegna ætli Gunnar hafi valið Sigurmar til viðræðna um þetta deilumál?

Skrifin um hleranamálið taka á sig skrýtinn svip eins og hér má sjá. Víst er, að ég fer ekki varhluta af því, að sumum er ókleift að ræða þessi mál efnislega, af því að þeim er svo mikið í mun að reka hornin í mig. Hvað skyldi vandlætarinn Sigurður Þór annars segja um skrif Jónasar Kristjánssonar um föður minn? Undir hvað skyldi Sigurður Þór flokka þann hug, sem þar býr að baki?  

 

Fimmtudagur, 29. 05. 08. - 29.5.2008 23:01

Ég sat á fundi í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu klukkan 15.45, þegar allt lék á reiðiskjálfi vegna jarðskjálfta - Suðurlandsskjálfta. Hann reyndist 6,1 til 6,7 á Richter.

Fundinum var að ljúka og náðum við Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, sem sat hann, strax sambandi við almannavarnir en Víðir Reynisson, forstöðumaður þeirra, og hans menn brugðust skjótt við og virkjuðu samhæfingarstöðina við Skógarhlíð. Um klukkutíma síðar var ég í beinni útsendingu í sjónvarpi frá alþingishúsinu og gat þá skýrt frá því, að mikið lið björgunarmanna, lögreglumanna og slökkviliðs hefði verið virkjað á til að fara á skjálftasvæðið.

Ég hafði einnig samband við Ólaf Helga Kjartansson, lögreglustjóra á Selfossi, Jón Sigurðsson, yfirfangavörð á Litla Hrauni, og Siguðr K. Oddsson, þjóðgarðsvörð á Þingvöllum, til að vita um gang mála. Ólafur Helgi og Jón höfðu orðið varir við skjálftann og sögðu hann verulega öflugan og hefði allt lauslegt og meira en það farið af stað, en ekki orðið alvarleg slys á mönnum. Á Þingvöllum féll grjót í Almannagjá og við Öxarárfoss en ekki til tjóns eða vandræða.

Fyrst var haldið, að skjálftinn hefði verið suðvestur af Selfossi en síðar kom fram, að hann varð í austurhlíð Ingólfsfjalls og færðist skjótt vestur á sprungu um Hveragerði. Var höggið vegna skjálftans mikið á Selfossi og í Hveragerði og innbú fólks varð illa úti.

Með reynsluna af 2000 skjálftanum lagði ég áherslu á, að almannvarnir einbeittu sér að því að ná sambandi við sem flesta íbúa á sem skemmstum tíma.

Klukkan 18.50 fór ég á fund með yfirstjórninni við Skógarhlíð og sá, hve vel og skipulega var staðið að öllum þáttum þar auk þess sem staðfest var, að Tetra fjarskiptakerfið hefði staðist þessa áraun með mikilli prýði og aldrei rofnað. Frá Skógarhlíðinni fór ég aftur í beint fréttasamtal við sjónvarp ríkisins.

Klukkan rúmlega 22.00 gaf Geir H. Haarde forsætisráðherra yfirlýsingu á alþingi fyrir hönd ríkisstjórnarinnar vegna jarðskjálftans og viðbragða við honum.

Miðvikudagur, 28. 05. 08. - 28.5.2008 21:37

Í dag var rætt um hleranir utan dagskrár á alþingi. Hér er ræða mín við upphaf umræðnanna.

Fréttastofa sjónvarps ríkisins tók til við að ættfæra mig í fréttum sínum í kvöld væntanlega til að gefa þeim orðum Steingríms J. Sigfússonar, einkaviðmælenda fréttastofunnar um svokallað hleranamál, aukinn þunga, að ég sé ekki fær um að ræða málið, þar sem faðir minn var dómsmálaráðherra fyrir 50 til 60 árum og stóð ásamt öðrum lýðræðissinnum í köldu stríði við kommúnista, sem vildu beita valdi til að ná undirtökum í þjóðfélaginu.

Hvers vegna lét fréttastofan þess ógetið, að Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingar, sem fór mikinn í þingsalnum vegna hlerana í dag ætti ættir að rekja til þeirra, sem koma við hleranasöguna samkvæmt frásögn Kjartans Ólafssonar? (Helgi var ættfærður, sonur Úlfs Hjörvars, í fréttum sjónvarps ríkisins kl. 22.00.) Eða að Álfheiður Ingadóttir, þingmaður vinstri/grænna, sem réðst að mér af alkunnu offorsi í ræðustól á alþingi vegna hleranamálsins er dóttir Inga R. Helgasonar, sem var á sínum tíma innsti koppur í búri kommúnista og sósíalista á Íslandi og kallaður „gullkistuvörður“ þeirra? Hvers vegna fer fréttastofan í manngreinaálit í fréttatengdum ættfærslum sínum?

Hin sífellda skírskotun Steingríms J. Sigfússonar til þess, sem gerðist vegna hlerana í Noregi, stenst ekki. Hér á landi er upplýst, að löglega var staðið að öllum ákvörðunum um hleranir. Málinu er á annan veg farið í Noregi.

Hið fréttnæma við framgöngu Steingríms J. Sigfússonar í sjónvarpinu var, að hann skyldi taka sér fyrir hendur að verja málstað þeirra, sem voru tilbúnir til að hafna lýðræði á tímum kalda stríðsins í því skyni að ná hér völdum undir handarjaðri Sovétríkjanna og Austur-Þýskalands.

Það er álíka illa rökstutt að telja mig ekki hæfan til að fjalla um þetta mál og telja réttmætt, að íslensk stjórnvöld eigi að biðjast afsökunar fyrir hönd þeirra dómara, sem heimiluðu lögreglunni að hlera síma.

Þriðjudagur 27. 05. 08. - 27.5.2008 22:48

Enn sannaðist í eldhúsdagsumræðum í kvöld, hve stjórnarandstaðan má sín lítils og hefur í raun ekkert til málanna að leggja. Hið eina, sem kom á óvart hjá henni, var, að þau Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, og Þuríður Backmann, þingmaður vinstri/grænna, skyldu hefja ræður sínar með vísan til sama ljóðs Einars Benediktssonar um að aðgát skuli höfð í nærveru sálar. Var þetta tilviljun? Átti þetta að sanna, hve samstillt stjórnarandstaðan er? Hvers vegna þetta ljóð?

Kjartan Ólafsson, fyrrverandi ritstjóri Þjóðviljans og framkvæmdastjóri Sósíalistaflokksins, birtir í Morgunblaðinu í dag samantekt sína upp úr gögnum um hleranir, sem hafa verið lögð á Þjóðskjalasafn. Í raun kemur ekkert nýtt fram í þessari grein. Nokkrir fjölmiðlamenn töldu þó ástæðu til að fylgja henni eftir og þá sérstaklega því agni Kjartans, að ég bæðist afsökunar vegna þess, sem fram kom í grein hans. Tilgangurinn er enn að teygja á umræðum um þetta þaulrædda mál.

Áhugamenn um umgjörð dómsúrskurðanna, sem Kjartan nefnir, ættu að lesa grein í hausthefti Þjóðmála árið 2006 eftir dr. Þór Whitehead: Smáríki og heimsbyltingin - Um öryggi Íslands á válegum tímum. Greinin er kynnt á þann hátt af ritstjóra Þjóðmála, að Þór segi frá viðbrögðum íslenska ríkisins við hættunni sem lýðræðisskipulaginu stóð af byltingarstarfsemi og ofbeldisverkum á tímum kreppu, heimsstyrjaldar og kaldastríðsins.

Í raun er dæmalaust léleg blaðamennska að ræða grein Kjartans og sleppa umgjörðinni og þeim kostum, sem blöstu við stjórnvöldum.

Viðbrögðin við því, sem ég svaraði mbl.is urðu ágætum bloggara til að setja þetta á síðuna sína. 

Mánudagur, 26. 05. 08. - 26.5.2008 22:07

Samkvæmt starfsáætlun alþingis er þetta síðasta þingvikan að þessu sinni og síðan kemur alþingi að nýju saman í byrjun september. Hið sama gerist nú og jafnan áður, að löng ræðuhöld hefjast um mál, sem ella hefðu farið fremur hljóðlega til atkvæðagreiðslu að lokinni vandaðri meðferð í nefndum.

Í dag voru greidd atkvæði um fjögur frumvörp menntamálaráðherra um skólamál eftir 2. umræðu og nákvæma yfirferð í menntamálanefnd undir formennsku Sigurðar Kára Kristjánssonar. Þetta voru langar atkvæðagreiðslur, enda frumvörpin viðamikil og margar breytingartillögur bæði frá meirihluta og minnihluta.

Sunnudagur, 25. 05. 08. - 25.5.2008 16:11

Í Morgunblaðinu í dag er birt loftmynd af byggingaframkvæmdum Háskólans í Reykjavík milli Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar. Myndin sýnir vel, hve nærri aðstöðu Landhelgisgæslu Íslands á flugvellinum er farið auk þess sem þrengt er að Öskjuhlíðinni. Á myndasíðu minni hér á síðunni er að finna myndir, sem tengjast þessum miklu framkvæmdum.

Í Fréttablaðinu í dag er sagt frá niðurstöðu könnunar þess efnis, að Hanna Birna Kristjánsdóttir, forseti borgarstjórnar, njóti yfirgnæfandi stuðnings sem næsti borgarstjóri sjálfstæðismanna. Ég óska henni til hamingju með þetta verðskuldaða traust.

Atli Gíslason, þingmaður vinstri/grænna, virðist eftirlæti hjá fréttastofu hljóðvarps ríkisins. Hvað eftir annað hefur verið sagt frá því í dag, að hann flytji breytingartillögu við frumvarp frá mér, sem verður til umræðu á alþingi á morgun. Vill hann lögleiða refsingu við kaup á vændi en tillögu þess efnis var hafnað á alþingi í fyrra. Alþingi samþykkir lög en samt segir Atli af alkunnri nákvæmni í samtali við hljóðavarpið, að dómsmálaráðuneytið hafi afnumið refsingu við vændi. Jafnframt segist Atli hafa það frá lögreglunni, að vændi hafi aukist, eftir að alþingi samþykkti breytingar á hegningalögum á síðasta ári. Fréttamanninum dettur ekki í hug að spyrja Atla, hvernig lögregla haldi tölfræði um refsilaust athæfi. Miðað við ónákvæmni í frásögnum Atla af þeim málum, sem hann hefur tekið til umræðu á fyrsta þingvetri sínum, er sérkennilegt, að fréttastofa hljóðvarpsins leiti ekki staðfestingar þriðja aðila, áður en fréttir byggðar á ummælum Atla eru fluttar hvað eftir annað og meira að segja sem stórtíðindi í upphafi fréttatíma.

Laugardagur, 24. 05. 08. - 24.5.2008 22:10

Úrslitin í Evróvisjón-keppninni sýna áhrif minnihlutahópa innan einstakra Evrópuríkja. Þeir taka sig saman hver í sínu landi og greiða gamla ættlandinu atkvæði. Er ekki best að taka upp gamla fyrirkomulagið, að sérfróðir menn leggi mat á framlag þjóðanna?

Rússinn hafði heimsmeistara í skautadansi með sér og 300 m. kr. Stradivarius-fiðlu, sem naut sín ekki vel vegna hljóðblöndunar. Sigmar Guðmundsson, kynnir sjónvarpsins í Belgrad, taldi forvitnilegast við rússneska söngvarann, hvort hann mundi fara úr skyrtunni í lok lagsins - sem hann gerði ekki en vann samt.

Regína Ósk og Friðrik Ómar stóðu sig vel. Fengu 12 stig frá Dönum. Hlutu 14. sæti. Ég las einhvers staðar haft eftir kunnáttumanni, að við gætum vel við unað, yrðum við fyrir ofan 16. sæti.

Þrílembda ærin mín hefur það gott með afkomendum sínum.  Góður nágranni sagðist ekki hrifinn af þrílembum, en honum þótti lömbin mín lífvænleg og við töldum, að  þeim væri öllum fyrir bestu að komast sem fyrst í góða haga - og þeir eru góðir í Fljótshlíðinni núna, þar sem gróður er óvenju mikill. 

Það er dálítið skrýtið að hafa búið við það í allan vetur, að ærin væri líklega týnd á fjöllum og sjá hana síðan sprelllifandi með þremur lömbum. Ég þakka þeim, sem gættu hennar í Landeyjunum og létu síðan vita af henni.

Föstudagur, 23. 05. 08. - 23.5.2008 21:00

Þess var minnst í dag, að eitt ár var liðið frá myndun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar undir forsæti Geirs H. Haarde. Forsætisráðherra sagði réttilega í tilefni dagsins, að stefmumál ríkisstjórnarinnar samkvæmt sáttmála hennar hefðu að verulegu leyti náð fram að ganga á árinu.

Ríkisstjórnin minntist afmælisins á fundi sínum í morgun kl. 09.30 og kl. 14.30 var börnum úr Tjarnarborg, leikskólanum andspænis Ráðherrabústaðnum að Tjarnargötu 32, boðið til afmælisveislu í bústaðnum. Þar fengu börnin, kennarar þeirra og ráðherrar súkkulaðitertu í tilefni dagsins og Frissa fríska með.

Í hádeginu fékk ég heimsókn frá feministum, sem vildu gera hreint í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu í tilefni af úrskurði ráðuneytisins vegna skemmtistaðarins Goldfingers í Kópavogi. Deilt er um, hvort hann starfi innan laga og er þá vísað til ákvæða um nektarstaði. Ráðuneytið telur í úrskurði sínum, að sýslumanninum í Kópaogi beri að leita að nýju álits lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, áður en sýslumaður tekur afstöðu til starfsleyfis staðarins, þar sem fyrri umsögn lögreglustjórans sé háð annmörkum. Í ljós kom, að þær, sem vildu gera hreint í ráðuneytinu, höfðu ekki lesið úrskurðinn og skýrði ég fyrir þeim, að það væri misskilningur, að ráðuneytið hefði leyft nektardans - það væri ekki í verkahring ráðuneytisins. Á hinn bóginn vildi ráðuneytið, að örugglega yrði farið að lögum við ákvörðun um leyfi eða bann og um það snerist úrskurður þess.

Um hádegisbil barst mér skýrsla ríkisendurskoðunar um embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum. Meginniðurstaða skýrslunnar er, að fara beri að tillögu minni og ákvörðun um að skipta embættinu í samræmi við verkaskiptingu innan stjórnarráðsins. Fróðlegt verður að fylgjast með því, hvernig forsætisnefnd þingsins stendur að því að kynna þessi sjónarmið ríkisendurskoðunar fyrir þingflokkum og hvetja þá til að framfylgja skýrslunni - eða til hvers bað forsætisnefnd um hana? Var það ekki til að greiða fyrir afgreiðslu málsins á alþingi?

Fimmtudagur, 22. 05. 08. - 22.5.2008 20:11

Glæsilegt hjá Regínu Ósk og Friðriki Ómari í Evróvisjón - innilegar hamingjuóskir!

Ég hef áður lýst undrun minni yfir því, að þingmenn Samfylkingarinnar, Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformaður, og Árni Páll Árnason hafi kosið að agnúast út í embætti ríkislögreglustjóra í tilefni af umræðum um framtíðarskipan lögreglumála á Suðurnesjum. Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, undrast þetta líka eins og fram kom á alþingi í morgun, þegar hún spurði, hvort ríkisstjórnin ætlaði að fara að tillögu þeirra Lúðvíks og Árna og leggja embætti ríkislögreglustjóra niður.

Arnbjörg Sveinsdóttir þingflokksformaður Sjálfstæðismanna sagði réttilega, að Lúðvík lýsti persónulegri skoðun sinni. Afstaða okkar sjálfstæðismanna er skýr. Við viljum ekki, að hróflað sé við embættinu. Í frásögn ruv.is segir um umræðurnar vegna spurningar Sivjar:

„Birgir Ármannsson átti erfitt með að skilja gagnrýni Lúðvíks á embættið, það væri rétt að umsvif þess hefðu aukist - en verkefnin væru ærin. Hann velti því fyrir sér, hvort menn væru ósáttir við að efnahagsbrotadeildin hefði vaxið nokkuð.

„Finnst mönnum hún ekki hafa næg verkefni?  Ég velti fyrir mér hvort mönnum finnist minni ástæða til að sinna alþjóðadeildarmálum. Eru menn ósáttir við greiningardeildina, sem skipuð er fjórum mönnum, og hefur greiningarhlutverki að gegna fyrir lögregluna allsstaðar á landinu og er starfsemi sem alltaf þarf að eiga sér stað í lögreglustarfi?   Eru menn ósáttir við almannavarnadeildina, er það sem mönnum finnst hafa farið úr böndunum? Eru menn ósáttir við sérsveitina? Menn vita að það hefur fjölgað í sérsveitinni en það liggur líka fyrir að sérsveitarmenn sinna líka almennum löggæsluverkefnum þegar þeir eru ekki í sérsveitarverkefnum. Þetta verða menn að hafa í huga þegar þessi umræða er tekin,“ sagði Birgir Ármannsson.

Lúðvík svaraði fyrir sig og málefni Suðurnesja voru honum hugleikin.  Hann sagðist vilja sjá fjármunina nýtta í nærsamfélaginu, fyrir almenning. „ Hér var talað áðan um öflugt eftirlit með útlendingum og alþjóðlegri glæpastarfsemi. Það eftirlit fer fyrst og fremst fram hjá embættinu á Suðurnesjum. Þar er öflugasta landamæravarsla í Evrópu. Því miður hafa komið fram hugmyndir sem setja það í uppnám. Staðreyndin er sú að það getur aldrei verið gott að nýta fjármuni á þann veg að tvær höfuðstöðvar séu byggðar upp með 500 metra radíus.“ “

Lesa meira

Miðvikudagur, 21. 05. 08. - 21.5.2008 21:38

Anna Guðný Júlíusdóttir, héraðsdómslögmaður, siglir í kjölfar hæstaréttarlögmannanna Atla Gíslasonar og Ragnars Aðalsteinssonar og sagði í Morgunblaðinu í morgun, „að dómsmálaráðherra hefði aukið enn fremur á þær takmarkanir sem nú þegar eru á möguleikum fólks til að leita sér gjafsóknar.“

Dæmalaust er að lesa þetta, þegar reglugerð, sem út kom 23. janúar 2008 mælir fyrir um, að þeir, sem eru með undir 1.600.000 kr. í árstekjur getið fengið gjafsókn með vísan til efnahags, en samkvæmt fyrri reglum var þessi fjárhæð 1.200.000 kr. Hvernig getur Anna Guðný rökstutt fullyrðingu sína? Ég spyr ekki Atla og Ragnar, þar sem þeir telja sig vera að slá pólitískar keilur með árásum á mig, ef að líkum lætur.

Þessi viðmiðunarmörk tekna hækka við hvert barn undir 18 ára aldri, einnig má hækka þær, ef framfærslukostnaður er óvenju hár, um er að ræða örorku eða óvenju há vaxtagjöld, svo að dæmi séu tekin. Ætla má, að lögmenn lesi reglur, áður en þeir leggja út af þeim. Mér virðist svo ekki vera.

Á fyrsta þingvetri sínum hefur Atli Gíslason, þingmaður vinstri/grænna oft farið af stað með mál í ræðustól, án þess að hafa fast land undir fótum. Vekja hin veikburða rök þingmannsins fyrir máli sínu sérstaka athygli vegna þess, að þar er á ferð þaulreyndur málflutningsmaður.

 

Þriðjudagur, 20. 05. 08. - 20.5.2008 21:19

Í frásögn minni af Grænlandsferð um hvítasunnu sagði ég frá miklum hreindýrastofni Stefáns Hrafns Magnússonar í Isortoq. Birti ég þar tölur, sem Stefán Hrafn segir rangar. Í greinargóðu bréfi segist hann hafa leyfi fyrir 1477 ferkílómetra landi og Grænlandsstjórn setji engan staðal um fjölda hreindýra, það sé mál hans sjálfs hvort hann fylgi sjálfbærri beitarstefni eða dýr hans éti hann út á gaddinn.

Ég gat þess, að hreindýr kepptu við sauðnaut (moskuuxa) við byggðina Ivigtut um beitarland. Stefán Hrafn segir sauðnautin séu betur sett en hreindýr í fæðukeppni jórturdýra. 35 hreindýr frá sér hefðu farið á ís inn á sauðnautasvæði við Ivigtut, en 47 km eru frá býli Stefáns Hrafns til herstöðvarinnar í Grönnedal og Ivigtut, en aðeins eitt skref á milli lands hans og Ivigtut, sem verður í Nuuk-sýslu við stækkun sveitarfélaga frá með 1. janúar 2009 en Isortoq, býli Stefáns Hrafns, verður í syðsta sveitarfélaginu, Qaqorotoq-sýslu.

Stefán Hrafn er ekki sáttur við ákvörðun grænlenskra stjórnvalda um að koma á fót veiðisvæði 11 í Ivigtut. Þessa ákvörðun megi kenna við eignarnám frá sjónarhóli land- og dýraeigenda. Grænlenska veiðiþjóðin eigi erfitt með að viðurkenna, að dýr lúti eignarrétti og land beitar- og auðlindarétti.

Rannsóknir sýni, að 1477 ferkílómterar geti á þessum slóðum borið um 3400 hreindýr, hann eigi 2300 dýr í vetrarbeit og eftir burð á þeim tíma, sem ég var þarna á ferð, hafi dýrin líklega verið um 3600. Á svæði sínu sé rými fyrir 4800 hreindýr í sumarbeit.

Stefán Hrafn mótmælir sem sagt þeirri sögusögn, sem ég bar órökstutt á borð í frásögn minni, að hann hafi heimild fyrir 1800 hreindýrum en þau séu nú um 5000. Ég hef enga ástæðu til að rengja hann og birti leiðréttingu hans með glöðu geði, enda lék mér forvitni á að vita meira um þennan stórhuga hreindýrsbónda., sem hefur fjárfest tugmilljónir króna í útflutningssláturhúsi á býli sínu og selur afurðir sínar um heim allan. Sagt var frá því í Morgunblaðinu sl. haust, að hann hefði þá slátrað 1.100 dýrum. Stefáni Hrafni er að sjálfsögðu mikils virði, að ekki sé dregin sú mynd af búskap hans, að hann virði ekki kröfur um virðingu fyrir náttúrufari, dýrum og nágrönnum. Hér má lesa gamla grein um hann í Morgunblaðinu.

Úr því að ég ræði búskap er rétt að láta þess getið, að ein af þremur ám mínum, sem ég taldi týnda á fjalli, er komin í leitirnar þrílemb á bæ í Landeyjunum. Hinar tvær eru bornar, tvílembar, svo að nú eru tíu gripir í sauðfjárstofni mínum.

Mánudagur, 19. 05. 08. - 19.5.2008 20:27

Bjarni Benediktsson, formaður utanríkismálanefndar alþingis, flutti ræðu síðdegis á fundi Samtaka um vestræna samvinnu (SVS) og Varðbergs um varnarmálastofnun og loftrýmisgæslu. Hann rakti á skýran og vel rökstuddan hátt þróun mála frá leiðtogafundi NATO í Riga sumarið 2006, þegar Geir H. Haarde, forsætisráðherra, fór þess á leit við NATO, að tryggð yrði loftrýmisgæsla við Ísland og til þess, að sett voru varnarmálalög fyrir skömmu með skuldbindingum af Íslands hálfu í þágu þessa samstarfs NATO-ríkjanna um gæslu loftrýmisins.

Bjarni sýndi annars vegar, að ratsjáreftirlit frá Íslandi hefur verið fellt inn í evrópskt ratsjáreftirlit NATO og tengja stöðvarnar á Íslandi þetta net við ratsjárnet NATO í N-Ameríku. Á hinn bóginn brá Bjarni upp glærum frá utanríkisráðuneytinu, þar sem lýst er, hvernig loftrýmiseftirlitið fellur að varnarstefnu NATO frá 2003 um stöðugt eftirlit í lofti og ákvarðanir hermálanefndar bandalagsins um framkvæmd þessa eftirlits. Er umhugsunarefni, hvers vegna málið hefur ekki verið kynnt á þennan hátt áður.

Bjarni velti fyrir sér, hvers vegna Bandaríkjastjórn hefði ekki haft áhuga á að halda sjálf áfram rekstri ratsjárstöðvanna á Íslandi eftir 15. ágúst 2007. Taldi Bjarni, að aðhald í útgjöldum hefði ráðið þessari bandarísku ákvörðun - varnarmálaráðuneytið hefði vitað, að stöðvunum yrði ekki lokað, þótt fé til þeirra kæmi ekki frá Bandaríkjunum. Ég get staðfest af eigin reynslu, að Donald Rumsfeld, þáverandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hafði ekki hinn minnsta áhuga á ratsjárkerfinu, eftir að hann hafði kallað varnarliðið héðan á brott.

Sunnudagur, 18. 05. 08. - 18.5.2008 21:38

Það rigndi ekki, svo að ég notaði morguninn til að slá garðblettinn í Fljótshlíðinni, sem er í sjálfu sé nokkurt fyrirtæki, þegar sprettan hefur verið jafngóð og raun er.

Síðan litum við á tvö nýborin lömb okkar. Þau eru örnótt eins og mamman og auðþekkjanleg.

Á heimleið litum við inn í Tryggvaskála á Selfossi. Þar hefur Gunnar Sigurgeirsson sett upp ljósmyndasýningu, sem sýnir starf lögreglunnar og einnig flóð í Ölfusá. Var stöðugur straumur fólks stundina, sem við dvöldumst þar okkur til ánægju. Ber að fagna þessu framtaki og ekki síður því, að unnið er að varðveislu Tryggvaskála.

Ég man ekki, hvenær ég kom fyrst í Tryggvaskála. Það hlýtur að hafa verið á stjórnmálafundi með föður mínum. Einnig minnist ég þess, að hafa einhvern tíma stansað þar á ökuferð fyrir óralöngu og fengið sandköku með rjóma.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, forseti borgarstjórnar, var skelegg að venju og lét ekki neinn bilbug á sér finna í Mannamáli hjá Sigmund Erni á Stöð 2.

Laugardagur, 17. 05. 08. - 17.5.2008 23:12

Skruppum í Fljótshlíðina. Sprettan hefur verið svo mikil í hlýindum og rekju síðustu daga, að erfitt verður að hefja slátt umhverfis bæjarhúsið! Sauðburður hefur gengið vel. Hitt virðist ljóst, að ein af ánum mínum hefur týnst á fjalli í vetur.

Í vikunni var sagt frá því í 24 stundum, að ég ætti gamlan Ferguson hér fyrir austan og hafa fleiri minnst á þá frásögn við mig en annað, sem um gjörðir mínar hefur verið ritað í blöð undanfarið. Nú þarf ég að búa mig undir að þurrka af honum vetrarrykið og setja hann í gang fyrir sumarið.

Skrifaði pistil um þingbréf Höllu Gunnarsdóttur um loftrými.

Föstudagur, 16. 05. 08. - 16.5.2008 23:32

Fyrir fund ríkisstjórnar í Ráðherrabústaðnum í morgun hittu þau Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir forystumenn stjórnarandstöðunnar, þau Valgerði Sverrisdóttur, í fjarveru Guðna Ágústssonar, Steingrím J. Sigfússon og Guðjón Arnar Kristjánsson og skýrðu þeim frá samkomulagi, sem Seðlabanki Íslands hefði gert við seðlabanka í Noregi, Svíþjóð og Danmörku um aðgang að 500 milljónum evra í hverjum banka í forvarnarskyni fyrir krónuna - en í þessum þremur seðlabönkum ráðstafa menn eigin krónum en ekki evrum, þar sem ríkin eru utan evrulands.

Inn á ríkisstjórnarfund bárust fréttir um, að krónan hefði styrkst strax og seðlabankinn kynnti þetta samkomulag og birt var yfirlýsing Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, um frekari ráðstafanir til að efla traust á efnahagsþróuninni.

Tveggja daga flutningi Baugsmálsins lauk fyrir hæstarétti í gær. Niðurstaða réttarins verður væntanlega kynnt í júní. Líklegt er, að þjóðfélagsumræður taki nú á sig annan blæ, því að varnir Baugs hafa ekki aðeins verið í réttarsalnum heldur hafa þær einnig litað afstöðu til manna og málefna utan hans.

Ég sé, að einhverjir leggja þannig út af orðum mínum á fundi Sjálfstæðisflokksins um Evrópumál í Valhöll 15. maí, að ég sé andvígur þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Ég skil ekki, hvernig nokkur getur komist að þeirri niðurstöðu, þegar ég hef hvað eftir annað sagt, að ekkert verði að aðild Íslands, nema gengið verði til slíkrar atkvæðagreiðslu. Til hennar verður hins vegar ekki efnt, ef hvorki ríkisstjórn né meirihluti á alþingi standa að baki ákvörðun um aðild og leggja þar með grunn að því, að leitað sé álits þjóðarinnar.

Fimmtudagur, 15. 05. 08. - 15.5.2008 22:21

Efnt var til umræðu utan dagskrár á alþingi í dag að frumkvæði Sivjar Friðleifsdóttur (F) um embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum og sést hér upphafsræða mín í þeim.

Í seinni ræðu lýsti ég undrun á þeim málatilbúnaði Lúðvíks Bergvinssonar, þingflokksformanns Samfylkingarinnar, að leggja bæri niður embætti ríkislögreglustjóra.

Ég hef ekki enn áttað mig á því, hvað Lúðvík var að fara. Hann hefði frekar átt að nota tímann til að rökstyðja afstöðu sína gegn breytingum á embættinu á Suðurnesjum. Kannski treysti hann sér ekki til þess?

Klukkan 17.15 var ég á fjölsóttum fundi um Evrópumál í Valhöll, þar sem ég var framsögumaður ásamt Ragnheiði Elínu Árnadóttur, þingmanni, og Þórlindi Kjartanssyni, formanni SUS.

Ég hóf ræðu mína með því að vitna til þess, að á þingi hefði fyrr um daginn átt að ræða um lögreglustjóraembættið á Suðurnesjum, en þingmenn Samfylkingarinnar hefðu rætt um embætti ríkislögreglustjóra. Þetta minnti á, að menn færu að ræða aðild að Evrópusambandinu, þegar umræðurnar snerust í raun um allt annað.

Þessi flótti frá því að ræða kjarna málsins einkennir allan málflutning þeirra, sem hæst tala um aðild að Evrópusambandinu í efnahagsmál líðandi stundar.

Frá ræðu minni var vel sagt á ruv.is. og á mbl.is

Stöð 2 reyndi hins vegar að búa til ágreining milli mín og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, varaformanns Sjálfstæðisflokksins. Á fundinum var ég spurður, hvort mig greindi á við Þorgerði Katrínu vegna ummæla hennar í Kópavogi í gær og á Stöð 2 í dag. Ég sagðist hvorugt hafa heyrt.

Ef menn vilja efna til þjóðaratkvæðagreiðslu eða gera breytingar á stjórnarskrá, verður það ekki gert, án þess að fyrst liggi fyrir um hvað á að kjósa eða hvers vegna á að breyta - menn gerðu hvorugt, án þess að stjórnvöld hefðu fyrst tekið ákvörðun og hún væri þess eðlis, að krefðist stjórnarskrárbreytingar eða þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hver ætlar að gera slíka kröfu á þessu kjörtímabili?

Miðvikudagur, 14. 05. 08. - 14.5.2008 21:40

Í gær var sagt frá könnun, sem sýndi verulega fylgisminnkun borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna í Reykjavík. Afleiðingar OR/REI málsins hverfa ekki eins og dögg fyrir sólu, Borgarstjórn hefur ekki enn tekið á málefnum OR/REI af þeirri festu, sem þarf, sé vilji til að stýra inn á nýjar brautir.

Í dag bárust allt annars konar fréttir úr bæjarstjórn Akraness.

Sjálfstæðisflokkurinn myndar hreinan meirihluta í bæjarstjórn Akraness frá og með deginum í dag. Bæjarfulltrúi Frjálslyndra og óháðra, Karen Jónsdóttir, hefur gengið í Sjálfstæðisflokkinn. Karen myndaði áður meirihluta með Sjálfstæðisflokknum.

Varamaður Karenar í bæjarstjórn er Magnús Þór Hafsteinsson, varaformaður Frjálslynda flokksins. Hann tekur sinnaskiptum Karenar illa. Karen sættir sig ekki við andstöðu Magnúsar Þórs við þá ákvörðun bæjarstjórnarinnar, að palestínskar flóttakonur frá Írak fái hæli flóttamanna hér á landi með Akranes sem viðtökustað.

Gísli S. Einarsson, bæjarstjóri á Akranesi, sem á sínum tíma var þingmaður Alþýðuflokksins, hefur einnig ákveðið að ganga til liðs við Sjálfstæðisflokkinn. Flokkurnn hefur nú hreinan meirihluta í bæjarstjórn Akraness.

Hinn 24. apríl mynduðu fulltrúar A- og D-lista í bæjarstjórn Bolungarvíkur nýjan meirihluta. Hefur D-listi þrjá fulltrúa í bæjarstjórn og A-listi einn. Meirihlutasamstarf A-lista og K-lista í bæjarstjórn Bolungarvíkur sprakk mánudaginn 21. apríl.

Elías Jónatansson, oddviti D-lista, tók við embætti bæjarstjóra af Grími Atlasyni. 

Mótbyrinn gegn Sjálfstæðisflokknum vegna ástandsins í borgarstjórn Reykjavíkur dregur greinilega ekki úr áhuga á sveitarstjórnarsamstarfi við flokkinn utan borgarmarkanna.

Föstudagur, 09. 05. 08. - 9.5.2008 18:02

Um hádegisbil flutti ég ávarp við upphaf Lagadags 2008 og ræddi einkum um samskipti Íslands og Evrópusambandsins frá lögfræðilegum sjónarhóli.

Fimmtudagur, 08. 05. 08. - 8.5.2008 23:33

Dagurinn hófst á fundi með Ivan Bizjak, sem er einn af æðstu embættismönnum innan ráðherraráðs Evrópusambandisns á sviði Schengen-málefna. Hann er hér á landi í boði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og flutti fyrirlestur í hádeginu hjá lagadeild Háskóla Íslands. Við erum sammála um, að auka þurfi fræðilegan áhuga á þróun mála tengdum Schengen-samstarfinu. Réttarþróunin hefur verið mjög hröð á þessu sviði og nauðsynlegt að auka almenna vitneskju um hana.

Þá hitti ég Petras Baguska, dómsmálaráðherra Litháens, á fundi í Þjóðmenningarhúsinu og ræddum við sameiginleg málefni en þó sérstaklega framkvæmd á samkomulagi okkar frá því í febrúar um flutning litháiskra fanga héðan til afplánunar í Litháen. Ráðherrann fór með fylgdarliði sínu í heimsókn á Litla Hraun. Við hann birtist viðtal í Stöð 2 og einnig var rætt við ráðherra í sjónvarpinu.

Miðvikudagur, 07. 05. 08. - 7.5.2008 23:22

Við Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, rituðum í dag undir samkomulag um fjárstuðning við svonefndan meðferðargang á Litla Hrauni, 15 m. kr. fjárveitingu, sem tryggir framhald þessa starfs út þetta ár.

Í desember 2007 hófst tilraunaverkefni með föngum á Litla Hrauni, sem byggist á því, að þeir hætti fíkniefnaneyslu og fái meðferð gegn henni samhliða því að flytjast á sérstakan gang í fangelsinu. Tilraunin gaf mjög góða raun og nú hefur framhald hennar verið tryggt.

Þriðjudagur, 06. 05. 08. - 6.5.2008 22:50

Í dag var efnt til blaðamannafundar í flugskýli Landhelgisgæslu Íslands, þar sem kynnt var landhegisgæsluáætlun 2008 til 2010 auk þess sem blaðamönnum gafst tækifæri til að skoða nýju flugvél sænsku landhelgisgæslunnar.

Þarna gafst enn og aftur tækifæri til að vekja athygli á hinni miklu breytingu, sem er að verða á starfsemi gæslunnar vegna nýrra verkefna og nýrra tækja auk margvíslegs alþjóðlegs samstarfs.

Mánudagur, 05. 05. 08. - 5.5.2008 21:55

Var klukkan 18.30 við skýli Landhelgisgæslu Íslands á Reykjavíkurflugvelli og tók þátt í athöfn við komu eftirlitsflugvélar sænsku landhelgisgæslunnar til landsins, en hún var í jómfrúferð sinni frá Toronto í Kanada. Þetta er samskonar vél og verið er að smíða fyrir landhelgisgæsluna og á að leysa Fokker-vél hennar af hólmi um mitt næsta ár, gangi allt samkvæmt áætlun.

Öll aðkoma að skýli gæslunnar á Reykjavíkurflugvelli hefur gjörbreyst vegna framkvæmdanna við Háskólann í Reykjavík, sem rýfur svæðið milli Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar en nú er valllendið á þessum slóðum allt horfið eins og varpfuglarnir.

Undrun vekur, að fjölmiðlar fylgist ekki betur en raun er með þessum miklu framkvæmdum í jaðri Vatnsmýrarinnar, en hann varð umræðuefni vegna ummæla Ólafs F. Magnússonar, borgarstjóra, um hugmyndir að skipulagi Vatnsmýrarinnar. Flugvöllurinn eru helstu stríðsminjarnar í Reykjavík, eins og dr. Þór Whitehead rifjaði upp í erindi í Þjóðmenningarhúsinu 30. apríl, þegar minnst var 100 ára fæðingardags föður míns. Gamli flugturninn er til dæmis einstakt mannvirki í flugsögu heimsins og ætti kannski erindi í raðskráningu á heimsminjaskrá UNESCO, ef fleiri slíkir væru til við N-Atlantshaf.

Sænska landgelgisgæsluvélin hafði einmitt viðdvöl í Goose Bay á Labrador og Narsarsuaq í Grænlandi á leið sinni til Reykjavíkur. Þessir flugvellir gegndu miklu hlutverki í síðari heimsstyrjöldinni og að henni lokinni.

Sýndar voru loftmyndir af Vatnsmýrinni í sjónvarpi í kvöld og þá sást vel, að Hringbrautin er ný austur-vestur braut, sem sker flugvöllinn, og Vatnsmýrina, frá miðborginni. Gaman væri að sjá loftmyndir af framkvæmdunum í nágrenni við flugskýli landhelgisgæslunnar.

Sunnudagur, 04. 05. 08. - 4.5.2008 22:12

Einkennilegt er, að lagt sé þannig út af orðum manna um nauðsyn stjórnarskrárbreytinga í umræðum um samskipti Íslands við Evrópusambandið (ESB), að þeir hallist að ESB-aðild. Mér heyrist þannig lagt út af réttmætum ábendingum Guðna Ágústssonar, formanns Framsóknarflokksins, á miðstjórnarfundi um helgina - en hann sagði óhjákvæmilegt að ræða breytingu á stjórnarskránni, tilhögun þjóðaratkvæðagreiðslu og önnur slík stjórnskipunarleg atriði í tengslum við umræður um tengsl Íslands og ESB. Hvernig í ósköpunum er unnt að túlka slíkar ábendingar á þann veg, að Guðni hafi skipt um skoðun og vilji Ísland inn í ESB?

Málsvarar ESB-aðildar kvarta gjarnan undan því, að ekki sé efnt til „Evrópuumræðna“ - þ. e. umræður um aðild að ESB samkvæmt þeirra orðabók. Með vísan til þessa segja málsvararnir að Guðni sé á leið í ESB, þegar hann tekur undir með þeim, sem telja nauðsynlegt að ræða og huga að heimavinnu og umboði íslenskra stjórnvalda, áður en farið er til viðræðna í Brussel.

Viðræður í Brussel leiða ekki til neinna sérlausna fyrir Ísland heldur tímabundinna undanþágna, á meðan Íslendingar laga sig að öllum skilyrðum ESB. Skoði menn samninga ESB við ný aðildarríki, sjá þeir, að þetta er meginreglan.

Föstudagur, 02. 05. 08. - 2.5.2008 22:16

Dómari við High Court í Englandi hefur ákveðið að taka til meðferðar, hvort bresku ríkisstjórninni beri að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um Lissabon-sáttmálann. Stuart Wheeler, milljónamæringur og stuðningsmaður Íhaldsflokksins, lagði málið fyrir dómarann á þeim grunni, að ríkisstjórnin hefði lofað að bera stjórnarskrá Evrópusambandsins (ESB) undir þjóðaratkvæði, Lissabon-sáttmálinn jafngilti slíkri stjórnarskrá. Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, hefur hafnað þjóðaraatkvæðagreiðslu, enda breyti Lissabon-sáttmálinn engu um stjórnarhætti í Bretlandi.

346 breskir þingmenn gegn 206 samþykktu Lissabon-sáttmálann í mars eftir sex vikna umræður. Sáttmálinn er nú til meðferðar í lávarðadeild þingsins og er stefnt að atkvæðagreiðslu þar 11. júni um það, hvort efnt skuli til þjóðaratkvæðagreiðslu, en málið verður flutt fyrir High Court 9. og 10. júní.

Íhaldsflokkurinn, stórsigurvegari í sveitarstjórnarkosningum í Englandi og Wales í gær, hefur sagt, að hann sé andvígur því að fullgilda Lissabon-sáttmálann.

Þegar þetta er skrifað sýnist fullvíst, að íhaldsmaðurinn Boris Johnson, fyrrverandi ritstjóri The Spectator, sigri Ken Livingstone, öfgafullan vinstrisinna og vin Hugos Chavez, í baráttunni um borgarstjórastólinn í London. Því er spáð að Livingstone mun beina reiði sinni gegn Gordon Brown og saka hann um að grafa undan sér.

Fimmtudagur, 01. 05. 08. - 1.5.2008 21:13

Dagurinn hefur verið hlýr og sólbjartur og túnin grænka hratt í Fljótshlíðinni.