Fimmtudagur, 22. 05. 08.
Glæsilegt hjá Regínu Ósk og Friðriki Ómari í Evróvisjón - innilegar hamingjuóskir!
Ég hef áður lýst undrun minni yfir því, að þingmenn Samfylkingarinnar, Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformaður, og Árni Páll Árnason hafi kosið að agnúast út í embætti ríkislögreglustjóra í tilefni af umræðum um framtíðarskipan lögreglumála á Suðurnesjum. Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, undrast þetta líka eins og fram kom á alþingi í morgun, þegar hún spurði, hvort ríkisstjórnin ætlaði að fara að tillögu þeirra Lúðvíks og Árna og leggja embætti ríkislögreglustjóra niður.
Arnbjörg Sveinsdóttir þingflokksformaður Sjálfstæðismanna sagði réttilega, að Lúðvík lýsti persónulegri skoðun sinni. Afstaða okkar sjálfstæðismanna er skýr. Við viljum ekki, að hróflað sé við embættinu. Í frásögn ruv.is segir um umræðurnar vegna spurningar Sivjar:
„Birgir Ármannsson átti erfitt með að skilja gagnrýni Lúðvíks á embættið, það væri rétt að umsvif þess hefðu aukist - en verkefnin væru ærin. Hann velti því fyrir sér, hvort menn væru ósáttir við að efnahagsbrotadeildin hefði vaxið nokkuð.
„Finnst mönnum hún ekki hafa næg verkefni? Ég velti fyrir mér hvort mönnum finnist minni ástæða til að sinna alþjóðadeildarmálum. Eru menn ósáttir við greiningardeildina, sem skipuð er fjórum mönnum, og hefur greiningarhlutverki að gegna fyrir lögregluna allsstaðar á landinu og er starfsemi sem alltaf þarf að eiga sér stað í lögreglustarfi? Eru menn ósáttir við almannavarnadeildina, er það sem mönnum finnst hafa farið úr böndunum? Eru menn ósáttir við sérsveitina? Menn vita að það hefur fjölgað í sérsveitinni en það liggur líka fyrir að sérsveitarmenn sinna líka almennum löggæsluverkefnum þegar þeir eru ekki í sérsveitarverkefnum. Þetta verða menn að hafa í huga þegar þessi umræða er tekin,“ sagði Birgir Ármannsson.
Lúðvík svaraði fyrir sig og málefni Suðurnesja voru honum hugleikin. Hann sagðist vilja sjá fjármunina nýtta í nærsamfélaginu, fyrir almenning. „ Hér var talað áðan um öflugt eftirlit með útlendingum og alþjóðlegri glæpastarfsemi. Það eftirlit fer fyrst og fremst fram hjá embættinu á Suðurnesjum. Þar er öflugasta landamæravarsla í Evrópu. Því miður hafa komið fram hugmyndir sem setja það í uppnám. Staðreyndin er sú að það getur aldrei verið gott að nýta fjármuni á þann veg að tvær höfuðstöðvar séu byggðar upp með 500 metra radíus.“ “
Lúðvík Bergvinsson hefur um árabil agnúast út í embætti ríkislögreglustjóra, eins og sjá má á ræðum hans um embættið á alþingi. Að hann skuli kjósa að gera embættið að skotspæni vegna umræðna um nauðsynlegar breytingar á embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum, einkennist fyrst og síðast af málefnafátækt í gagnrýni á ákvörðun mína um skipulagsbreytingar á Suðurnesjum.
Lúðvík einfaldar mál sitt um of með fullyrðingu sinni um, hvar á landinu helst er fylgst með útlendingum og alþjóðlegri glæpastarfsemi.Eðlilega er landamæravarsla á landamærum og umsvifin mest hér á landi, þar sem flestir koma. Lúðvík nefnir ekki heimildir sínar fyrir því, að í Evrópu sé landamæravarsla öflugust á Keflavíkurflugvelli.
Metingur milli einstakra lögregluembætta endurspeglar metnað þeirra, sem þar starfa. Þennan metnað á að virkja til að gera enn betur. Að tala eitt embætti niður á kostnað annars eins og Lúðvík Bergvinsson tekur sér fyrir hendur er ekki sæmandi þingmanni. Embætti ríkislögreglustjóra gegnir mikilvægu hlutverki í löggæslukerfi landsins, ekkert kemur í stað þess.