Dagbók: mars 2014

Mánudagur 31. 03. 14 - 31.3.2014 21:10

Það rifjaðist upp vegna umræðna um að Sveinn Andri Sveinsson væri enn einu sinni tekinn til við að ræða um að kljúfa Sjálfstæðisflokkinn að á landsfundi flokksins fyrir þingkosningar 2009 var ákveðið að setja það sem skilyrði fyrir stuðningi flokksins við ESB-aðildarumsókn að hún yrði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu.  Þetta var gert í sáttaskyni við minnihluta ESB-aðildarsinna innan flokksins. Þeir stóðu við sinn hluta sáttarinnar með auglýsingaherferð gegn henni fyrir þingkosningarnar.

Alþingi hafnaði sáttaleið Sjálfstæðisflokksins 16. júlí 2009.

Á landsfundinum 2009 og öllum landsfundum síðan hefur afdráttarlaus meirihluti fundarmanna verið andvígur aðild að ESB. Á fundunum síðan hefur hins vegar jafnan verið gerð tilraun til sátta við ESB-aðildarsinna. Á landsfundinum árið 2013 höfnuðu þeir sáttum, eftir það gekk fundurinn lengra í andstöðu sinni við aðildarviðræðurnar en ella hefði verið.

Það hefur jafnan verið kjarnaatriði hjá Sjálfstæðisflokknum að þjóðin veitti samþykki sitt til ESB-viðræðna. Nú hefur þetta atriði verið afbakað eins og annað vegna ESB-málsins og þar hafa Sveinn Andri og skoðanabræður hans verið fremstir í flokki. Langlundargeð forystu Sjálfstæðisflokksins gagnvart Sveini Andra og skoðanabræðrum hans er meira en góðu hófi gegnir, ekki síst vegna þess að þessi fámenni hópur metur það einskis þegar á hólminn er komið að tekið sé tillit til skoðana hans. Hópurinn krefst þess að farið sé á svig við vilja meirihluta sjálfstæðismanna.

Sveinn Andri á jafnan greiða leið að fjölmiðlum eins og ég lýsi á Evrópuvaktinni og lesa má hér.

Sunnudagur 30. 03. 14 - 30.3.2014 22:10

Aðalfundur Wagner-félagsins var haldinn í Norræna húsinu í gær. Að honum loknum var sýnd 110 mínútna löng heimildarmynd The Wagner Family eftir Tony Palmer frá árinu 2011. Þar birtist enn ein lýsingin á óvildinni sem ríkir meðal afkomenda Richards Wagners auk þess sem mikið var gert úr því hvernig nasistar níddust á listsköpun Wagners í eigin þágu undir forystu Adolfs Hitlers sem varð náinn vinur Winifred Wagners, tengdadóttur Wagners. Hún var ung send munaðarlaus frá Bretlandi til aldraðra hjóna í Berlín. Þau kynntu hana 17 ára fyrir Wagner-fjölskyldunni í Bayreuth í Bæjaralandi. Leiddu kynnin til að hún giftist hinum miklu eldri Siegfried, syni Richards. Vildi Cosima, móðir Siegfrieds, umfram allt að syni sínum tækist að viðhalda ættinni þótt hann væri samkynhneigður. Að Siegfried látnum og í miklum fjárhagsvanda kynntist Winifred Hitler. Segir í myndinni að aldrei hafi verið eins mikið umleikis við Wagner-reksturinn í Bayreuth en á árum síðari heimsstyrjaldarinnar þegar Hitler sendi þangað þúsundir hermanna til að uppljómast af hetjuverkum Wagners.

Bretinn Houston Stewart Chamberlain kvæntist Evu, dóttur Cosimu og Wagners. Ritverk hans voru gegnsýrð af gyðingahatri og boðskap sem kallaði á þýska þjóðernissinna. Hafa þau varpað skugga á minningu Richards Wagners að ósekju. Þau eru hins vegar svartur blettur á afkomendum hans eins og tengsl þeirra við Hitler.

Í myndinni er rætt við franska tónskáldið og hljómsveitarstjórann Pierre Boulez og er hann hinn eini sem ber blak af Wolfgang Wagner, sonarsyni Richards, syni Winifred og Siegfrieds, sem lengst stjórnaði Bayreuth-hátíðinni þar sem nokkrar óperur Wagners eru fluttar á hverju sumri og tryggði rekstrargrundvöll hennar. Wolfgang kom hingað til lands 1994 með seinni konu sinni, Gudrun, þegar stutta, íslenska útgáfan af Niflungahringnum var sýnd í Þjóðleikhúsinu. Vildi Wolfgang að Gudrun tæki við stjórn hátíðarinnar eftir sinn dag, hún andaðist áður en til þess kæmi. Fær hún slæm eftirmæli í kvikmyndinni.

Hálfsystur, Katharina, dóttir Wolfgangs og Gudrunar, og Eva Wagner-Pasquier, dóttir Wolfgangs af fyrra hjónabandi, tóku við stjórn hátíðarinnar haustið 2008 en Eva ætlar að hætta haustið 2015 og ósamið er um framhaldið við Katharinu. Stríðið um stjórnina í Bayreuth mun halda áfram.

 

 

Laugardagur 29. 03. 14 - 29.3.2014 22:10

 

 

Kvikmyndin Nói vekur misjafnar tilfinningar. Í Morgunblaðinu fær hún tvær stjörnur en fimm í Fréttablaðinu og fjórar í The Daily Telegraph í London. Þar segir að myndin sem Darren Aronofsky leikstýrir og þar sem Russell Crowe leikur Nóa „veki undrun og minni á kraftaverk“. Hún sé gerð af skarpskyggni og metnaði og boðskapur hennar sé meiri en felist í  beinni endursögn af frásögninni í Biblíunni.

Í hvert sinn sem ég minnist á Ingimar Karl Helgason sem ritstýrir Reykjavík vikublaði telur hann mig vilja svipta börn sín fyrirvinnu. Ég eyðilagði meira að segja fyrir honum barnaafmæli með því að gagnrýna efnistökin í þessu einkennilega blaði sem gefið er út af Ámunda Ámundasyni með stuðningi frá auglýsendum.

Ingimar Karl er ekki í aðdáandahópi Óðins Jónssonar, fráfarandi fréttastjóra ríkisútvarpsins. Hann gagnrýnir, eins og ég, að fréttamenn ríkisútvarpsins skuli hafa ályktað um að ekki hefði átt að reka Óðin eins og aðra í framkvæmdastjórn ríkisútvarpsins.  Bendir margt til að um persónulega óvild sé að ræða. Í pistli á netinu í dag víkur Ingimar Karl að mér og talar um: „botnlaus áróðursskrif Björns Bjarnasonar fyrrverandi ráðherra og alþingismanns, sem uppnefnir fréttastofuna ESB-RÚV og einstaka starfsmenn, enda þótt staðreyndir gefi ekkert tilefni til slíkra uppnefna“.  

Mönnum er frjálst að fjargviðrast yfir því sem Ingimar Karl kallar uppnefni en er þó ekki annað en einkunn sem ég hef ríkisútvarpinu þegar tilefni er til þess. Að ég „uppnefni“ starfsmenn ríkisútvarpsins er rangt. Ég gef alltaf ástæðu fyrir gagnrýni minni á fréttastofuna. Menn geta verið ósammála þeim dæmum sem ég nefni en að staðreyndir skorti er rangt hjá Ingimar Karli.

Ég ítreka undrun mína yfir þeirri breytingu sem orðið hefur á Reykjavík vikublaði undir ritstjórn Ingimars Karls og skil ekki hvernig nokkrum dettur í hug að efnistökin höfði til hins almenna lesanda í Reykjavík.

Föstudagur 28. 03. 14 - 28.3.2014 20:30

Þröstur Ólafsson hagfræðingur ritar grein í Fréttablaðið í dag þar sem hann lýsir undrun sinni á ummælum Jóns Ólafssonar prófessors um Úkraínumenn og Rússa í Spegli ríkisútvarpsins í vikunni. „Mér brá því óneitanlega að heyra hann bera hálfgert blak af Rússum og segja að við þessu hafi lengi mátt búast,“ segir Þröstur og í lok greinarinnar:

„Nú hafa Rússar aftur sett hótun eða beitingu hervalds á dagskrá í viðskiptum milli ríkja í Evrópu. Í ár eru 100 ár liðin frá upphafi heimstyrjaldarinnar fyrri en 75 ár frá upphafi þeirrar síðari. Vonandi verður hægt að fá Rússa ofan af því að halda áfram á þessari háskabraut. Ef ekki, þá gæti ófriður verið aftur í boði.“

Þegar ræða Vladimírs Pútíns frá 18. mars 2014 til að réttlæta innlimun Krím í Rússland er lesin sést að eitthvað meira er í húfi. Hvað sem röksemdum Pútíns vegna Krím líður er forkastanlegt að fallist sé á aðferðina sem Pútín og hans menn beittu og leitt hefur til þeirrar stöðu sem Þröstur Ólafsson lýsir með orðunum að „þá gæti ófriður verið aftur í boði“ í Evrópu.

Ræðu Pútíns má lesa hér á ensku. Peggy Noonan, dálkahöfundur The Wall Street Journal, las ræðuna og lýsti henni svona:

„Hvað segir þessi merkilega ræða okkur? Þar er að finna röksemdir til að ganga lengra. Í Úkraínu situr til dæmis ríkisstjórn skipuð undirmálsmönnum sem aðrir stjórna – það þarf kannski að huga betur að því. Þar birtist mikil sorgartilfinning vegna sögulegra atburða og gengið að því vísu að áheyrendur séu sama sinnis. Þar birtist formleg óvild í garð Bandaríkjanna. […] Þar er boðað nýtt tímabil sem ekki hefur enn hlotið nafn. Dregin eru skil á milli áratuganna eftir fall Sovétríkjanna og þess sem við tekur – það er eitthvað harðneskjulegra, dekkra og árásargjarnara.

Hún segir okkur að þetta snýst ekki um Krím.

Hún segir okkur að þessu sé ekki lokið.“

Fimmtudagur  27. 03. 14 - 27.3.2014 21:15

Ríkisstjórnin hefur kynnt tillögur um skuldaniðurfærslu sem eru þúsundum manna til hagsbóta og undir forystu fréttastofu ríkisútvarpsins er hafin herferð til að mála aðgerðina í svo dökkum litum að meira að segja er vitnað í stjórnendur einhvers útvarpsþáttar sem ber hið niðurrífandi nafn Harmageddon til að undirstrika að hér sé eitthvað illt og vanskapað á ferð.

Stundum er tekið dæmi af sjónvarpsstöðinni Fox News og andstöðu hennar við demókrata í Bandaríkjunum til að hneykslast á hlutdrægni í fréttamennsku. Fréttamenn Fox News þykjast ekki vera óhlutdrægir.

Miðvikudaginn 25. mars kvaddi Össur Skarphéðinsson sér hljóðs á alþingi um störf þingsins. Honum tókst að ljúka máli sínu þótt farsími hans hringdi undir ræðu hans. Össur hvatti ríkisstjórnina til að vinna að afnámi gjaldeyrishafta í samvinnu við þingmenn. Taldi hann þetta vera „stærsta og erfiðasta og sennilega mikilvægasta efnið“ sem við þingmönnum blasti. Össur sagði:

„Mál eins og afnám gjaldeyrishafta er af þeirri stærðargráðu að mjög mikilvægt er að um það myndist mjög breið samstaða.[…] Sömuleiðis sagði Már Guðmundsson seðlabankastjóri fyrir skömmu að þegar Íslendingar réðust í afnám gjaldeyrishafta hefðu þeir bara eitt skot í byssunni. Ég tel mjög mikilvægt að það verði ekki feilskot vegna skorts á samráði af hálfu ríkisstjórnarinnar.“

Undir þessi hvatningar- og viðvörunarorð Össurar skal tekið. Gildi orðanna er þó fyrst og síðast að þau endurspegla kúvendingu Össurar í málinu. Á meðan hann gegndi embætti utanríkisráðherra og barðist fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu datt honum ekki í hug að losna mætti við gjaldeyrishöftin án þess að ganga í ESB eða að minnsta kosti að fá að kíkja í pakkann. Nú flytur hann ræðu um afnám haftanna og kjarni hennar er ekki nauðsyn aðildar að ESB heldur að hann verði hafður með í ráðum.

Meðferð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur á gjaldeyrishöftunum og hugmyndir hennar um afnám þeirra voru aldrei kynntar með sátt í huga heldur til að auka á ágreining um ESB-mál.

 

Miðvikudagur 26. 03. 14 - 26.3.2014 22:50

Í dag ræddi ég við Ásthildi Sturludóttur í þætti mínum á ÍNN og verður samtalið næst sýnt á miðnætti og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun. Ásthildur hefur verið bæjarstjóri í Vesturbyggð síðan haustið 2010. Þá var hún ráðin og ætlar að starfa áfram eftir kosningar í vor vilji þeir sem verða kjörnir að hún verði áfram. Hún ætlar ekki sjálf í framboð.

Í dag var greint frá samkomulagi Magnúsar Geirs Þórðarsonar útvarpsstjóra og Óðins Jónssonar fréttastjóra um að Óðinn sæki ekki að nýju um starf fréttastjóra sem hefur verið auglýst. Í stað þess dregur útvarpsstjóri uppsögn Óðins til baka og skýrt er frá að hann muni vinna við dagskrárgerð og fréttatengt efni.

Þessi frétt kemur ekki á óvart miðað við framgöngu fréttamannanna sem settu allt uppsagnar- og ráðningarferli hins nýja útvarpsstjóra í uppnám með ótímabærri ályktun á fundi sínum. Hún jafngilti því að þeir mundu ekki starfa undir stjórn annars en Óðins. Mátti draga þá ályktun að annað hvort yrði Óðinn endurráðin eða fréttastofan tæmdist. Útvarpsstjóra voru settir afarkostir.

Hafi legið fyrir þegar fréttamennirnir samþykktu ályktun sína að Óðinn ætlaði ekki að sækja um fréttastjórastöðuna að nýju má líta á ummælin í henni sem einkennilega umgjörð vinsamlega kveðju.    

Þriðjudagur 25. 03. 14 - 25.3.2014 22:30

Einkennilegt var að hlusta á Helga Seljan ræða við Gunnar Braga Sveinsson utanríkisráðherra í Kastljósi kvöldsins um ESB og lyktir eða framhald aðildarviðræðna eins og ekkert hefði komið fram annað en spurning um þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er staðfest í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og með öðrum opinberum skjölum að ESB stöðvaði aðildarviðræðurnar með því að afhenda ekki rýniskýrslu um sjávarútvegsmál. Engu að síður ræðir fréttaþáttarmaður ríkissjónvarpsins við utanríkisráðherra eins og ekkert hafi í skorist. Hvað veldur? Þekkingarleysi eða fréttastefna ESB-RÚV?

Erfitt er að átta sig á hvernig mönnum dettur í hug að þöggun dugi til að skjóta sér fram hjá að ræða stóra strandið í ESB-viðræðunum. Það verður aldrei unnt að þoka viðræðunum áfram nema Íslendingar sætti sig við að missa stjórn fiskveiðilögsögunnar utan 12 sjómílna. Þannig er staðan en á hana var ekki minnst í Kastljósinu, spurningarnar lutu meira að persónu utanríkisráðherrans en efni málsins.

Svipað var uppi á teningnum þegar Helgi Seljan ræddi um nýlega ferð Gunnars Braga til Kænugarðs. Sjónvarpsmaðurinn  hafði áhyggjur af illmennum í bráðabirgðastjórn Úkraínu. Er þetta aðalatriðið þegar rætt er um það sem er á döfinni í landinu? Eða á að ræða um stórpólitísk áhrif innlimunar Krím í Rússland?

Spurning er hvort þeirri skoðun sé laumað að hlustendum frétta ríkisútvarpsins að ástæðulaust sé að dæma Pútín of hart vegna yfirgangs hans – sýna beri Rússum skilning.

Í Spegli ríkisútvarpsins var gefið til kynna að tatarar á Krím hefðu lagt innlimun í Rússland lið. Þetta stangast á við það sem segir í BBC. Þar er því haldið fram að tatarar hafi ekki tekið þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni í þágu innlimunarinnar. Ýmsir þeirra hafi raunar lýst ótta við að lenda að nýju undir stjórninni í Moskvu – Jósep Stalín flutti fjölmarga tatara nauðuga frá Krím til Síberíu árið 1944 fyrir að hafa starfað með nasistum.

 

Mánudagur 24. 03. 14 - 24.3.2014 21:40

Í dag birti Morgunblaðið grein mína ESB-viðræðunum lauk í mars 2011 og má lesa hana hér. Oft hef ég minnst á blekkingarleikinn vegna ESB-viðræðnanna. Við upphaf þeirra var sagt rangt frá hve langan tíma þær myndu taka. Eftir að þær hófust var eðli þeirra lýst á rangan hátt. Eftir að þeim var hætt kemur í ljós að þær hófust í raun aldrei. Síðan er rifist endalaust um hvernig eigi að binda enda á óskapnaðinn!

Saenskarnetverslanir.is er vefgátt að sænskum netfyrirtækjum sem selja og senda vörur sínar til Íslands. Vefurinn er í boði Sænska sendiráðsins á Íslandi og frí þjónusta fyrir kaupendur og seljendur. Skyldi engum hafa dottið í hug að veita svona þjónustu fyrir íslensk fyrirtæki? Er þetta ekki kjörið verkefni fyrir Íslandsstofu og sendiráðin?

Ég skrifaði leiðara á Evrópuvaktina og vakti athygli á að ESB hefði þröngvað þremur ráðherrum í þremur ólíkum löndum til að láta af embætti, Silvio Berlusconi, George Papandreou og Jóni Bjarnasyni. Þá skrifaði Jóhann Páll Jóhannsson, blaðamaður á DV, frétt eða fréttaskýringu sem mátti skilja á þann veg að ég hefði tekið upp hanskann fyrir Berlusconi! Þessi tegund af blaðamennsku er á lágu plani undir ritstjórn Reynis Traustasonar.

Sunnudagur 23. 03. 14 - 23.3.2014 21:55

Á vefsíðu utanríkisráðuneytisins er unnt að kynna sér fundargerðir hópanna sem Össur Skarphéðinsson skipaði til að ræða um aðild að ESB við menn frá Brussel. Þar má til dæmis lesa um 14. og síðasta fund samningahóps um sjávarútvegsmál. Hann var haldinn mánudaginn 29. október. Þar er skráð:

 „Formaður greindi frá stöðu mála í sjávarútvegskaflanum. Rýniskýrsla hefur ekki enn verið afgreidd af hálfu ESB og ekki liggur ljóst fyrir hvenær það mun verða. Upplýst verður um framvindu mála eftir því sem tilefni gefst til.“

Hópurinn hafði beðið eftir rýniskýrslunni frá því að rýnifundum lauk 2. mars 2011. Skýrslan hefur ekki borist enn þann dag í dag.

Össur og félagar gerðu fjölmargar tilraunir til að ná í rýniskýrsluna, skiptu meðal annars um ráðherra eins og hér er lýst. Allt kom fyrir ekki. Frakkar tóku pólitíska forystu gegn því að afhenda rýniskýrsluna en Spánverjar og Portúgalar voru með þeim í liði.

ESB-menn fá ekki heimild til að ræða við Íslendinga nema skilyrðum í áliti meirihluta utanríkismálanefndar sé breytt. Össur og Steingrímur J. treystu sér ekki til að hrófla við skilyrðunum, þeir fengu því ekki leyfi til að „kíkja í pakkann“.

Gengur einhver íslenskur stjórnmálamaður fram og segir: Sláum af í sjávarútvegsmálum og fáum að kíkja í pakkann! Ég veit ekki um neinn.

 

Laugardagur 22. 03. 14 - 22.3.2014 23:30

Sérstakt rannsóknarefni er að kynna sér í hvaða tilgangi fólk kemur saman á Austurvelli vegna ESB-aðildarumsóknarinnar. Sé það til þess að knýja á um framhald viðræðna fulltrúa Íslands og ESB ætti fólkið frekar að fara á Place Schuman í Brussel og mótmæla þar. Við torgið eru þrjár byggingar, hver á sína hlið torgsins: framkvæmdastjórnar ESB, ráðherraráðs ESB og íslenska sendiráðsins.

Framkvæmdastjórn ESB hefur ekki afhent sendiráði Íslands rýniskýrslu um sjávarútvegsmál. Síðasta fundi viðræðunefnda Íslands og ESB vegna hennar lauk 2. mars 2011. Íslenska sendiráðið hefur beðið eftir skýrslunni í rúm þrjú ár. Frakkar, Spánverjar og Portúgalar hafa beitt sér jafnlengi gegn afhendingu hennar í ráðherraráði ESB.

Þeir sem nú eru í stjórnarandstöðu á Alþingi Íslendinga reyndu árangurslaust í tvö ár að knýja ESB til að afhenda rýniskýrsluna um sjávarútvegsmál. Ráðherrar kenndu makríl um að það tækist ekki. Það var alrangt. Annað hékk á spýtunni: ESB vildi að Íslendingar hyrfu frá skilyrðum sínum í sjávarútvegsmálum.

Vill fólkið á Austurvelli að fallið verði frá þessum skilyrðum til að ESB samþykki að ræða áfram við fulltrúa Íslands? Tala ræðumenn um það á þessum fundum? Vita þeir almennt nokkuð um stöðuna í ESB-viðræðunum?

Sé við íslensk stjórnvöld að sakast vegna strands ESB-viðræðnanna er eðlilegt að spyrja: Viltu að slakað sé á íslenskum skilyrðum um sjávarútvegsmál?

Spyr einhver þessa á útifundum?

Ríkisstjórninni ber að ýta  ESB-málinu frá sér með skýrri einhliða yfirlýsingu. Það er ekki eftir neinu að bíða, ekki einu sinni utanríkismálanefnd alþingis.

Föstudagur 21. 03. 14 - 21.3.2014 23:20

Á FB sagði ég að tilgangur fréttamanna ríkisútvarpsins með því að slá skjaldborg um Óðin Jónsson fréttastjóra á sérstökum félagsfundi væri augljóslega að fæla hæft fólk frá að sækja um fréttastjórastarfið sem hefði verið auglýst. Skilaboðin væru: Við munum ekki una því að annar sé ráðinn en sá sem við samþykkjum.

Ég er viss um að á hvaða vinnustað sem er yrði litið á þetta sem hættulega meinsemd og í andstöðu við eðlilegt jafnvægi innan hans.

Orð Magnúsar Geirs Þórðarsonar útvarpsstjóra má skilja á þann veg að hann vilji uppræta smákóngaveldið innan ríkisútvarpsins. Fréttamennirnir eru á móti breytingu í þá veru. Þeir vilja halda í sinn smákóng.

Sumir þeirra sem gerðu athugasemd við FB-færslu mína töldu að í henni fælist andstaða við ESB-stefnu fréttastofunnar undir stjórn Óðins og þótti fráleitt að fundið væri að henni. Ég hef ekki minnst á ESB í þessu samhengi en viðbrögðin sýna að margir telja að ESB-sinnar missi spón úr aski sínum hætti Óðinn sem fréttastjóri. Draga þeir þá ályktun af fréttaflutningi undir hans stjórn.

Magnús Geir hefur fært málefnaleg rök fyrir almennri uppstokkun á ríkisútvarpinu. Viðbrögð fréttamannafélagsins eru ómálefnaleg. Félagsmenn vilja sérlausn fyrir sig. Hvers vegna? Hvaða sérhagsmuni er verið að verja?

Fimmtudagur 20. 03. 14 - 20.3.2014 21:40

Í dag var þess minnst á aðalfundi hvar.is að 15 ár eru liðin frá því að gerður var samningur um landsaðgang að Encyclopaediu Britannicu. Í ræðu sem ég flutti 5. september 2001 og lesa má hér  sagði ég:

„Samið hefur verið um aðgang að rafrænum gagnasöfnum, sem eru opin öllum landsmönnum á sama hátt og Encyclopaedia Britannica, en segja má að brautin hafi verið rudd með landsaðgangi að henni. Fari menn inn á vefsíðuna hvar.is sést best, hvað er í boði, en mér er sagt, að nú sé unnt að kynna sér efni 6300 rafrænna tímarita. Verkefnisstjórn á vegum [menntamála]ráðuneytisins hefur unnið að gerð samninga um þennan aðgang síðan í ársbyrjun 2000 og telur hún sig nú hafa náð samningum um öll tímarit og almenna gagnagrunna, sem einhverju skipta. Samningar hafa verið gerðir til loka árs 2002 en þá verður framhaldið metið með hliðsjón af því hversu vel grunnarnir hafa nýst og kostnaði. Nú er unnið að því að tryggja fjármögnun á grunnunum á þessu ári og því næsta. Næsta skref er að huga að samningum um sérfræðigrunna fyrir afmarkaða hópa notenda.“

Þessi stefna sem þarna var kynnt hefur skila góðum og miklum árangri eins og lýst var á aðalfundinum í dag.

Enn einu sinni urðu í dag umræður á alþingi í tilefni af ummælum Ólafs Ragnars Grímssonar um utanríkismál, nú vegna þess sem hann sagði á háskólaráðstefnu í Bodö. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sagði hið sama og forverar hans hafa sagt undanfarin ár að Ólafur Ragnar ætti sem forseti Íslands að fylgja og kynna utanríkisstefnu sem ríkisstjórnin hefði mótað.

Þessar umræður um yfirlýsingar Ólafs Ragnars eru orðnar næsta innantómar eftir að hann hefur setið á forsetastóli í næstum 18 ár og víst er að þær hafa engin áhrif á hann.

 


Miðvikudagur 19. 03. 14 - 19.3.2014 21:45

Eins og ég sagði frá í gær fór ég í viðtal við Árna Heimi Ingimundarson á Útvarpi Stami og má nálgast það og fleiri viðtöl Árna Heimis hér á þessari síðu.

Ólafur Ragnar Grímsson var í Bodö í Norður-Noregi í dag á ráðstefnu i Nordland-háskóla og setti ofan í við aðstoðarráðherra í norska utanríkisráðuneytinu fyrir að fara gagnrýnisorðum um yfirgang Pútíns og félaga á Krím-skaga og gagnvart Úkraínu. Taldi Ólafur Ragnar að með svona tali væri unnt að eyðileggja 10 ára viðleitni til að efla samstarf norðurskautsríkjanna á einni klukkustund. Sjá hér frásögn af ráðstefnunni.

Engum sem veit um áhuga Ólafs Ragnars á að tengja alla þræði heimsmála í gegnum norðurpólinn kemur á óvart að hann taki kipp og láti í sér heyra ef hann telur að hin nýja heimsmynd sem hann hefur kynnt á óteljandi ráðstefnu vera að bresta. Það er þó ekki við Norðmenn eða norsk stjórnvöld að sakast í því efni heldur Pútín og félaga sem leggja sig fram um að brjóta allar brýr að baki sér með fyrirlitningu sinni á alþjóðalögum. Ætli Ólafur Ragnar að verða hinn mikli brúarsmiður eftir það rof sem orðið hefur verður hann að láta að sér kveða annars staðar en á háskólaráðstefnu í Bodö.

Í ræðunni sem Ólafur Ragnar flutti í Nordland-háskólanum nefndi hann til sögunnar öll fyrirmennin sem hann hefur hitt á  fundum um málefni norðurslóða. Það sem kemur á óvart fyrir utan ávítur hans í garð norska embættismannsins er að hann skuli yfirleitt hafa gefið sér tíma til að fara til Bodö á þessum tíma og taka þar þátt í ráðstefnu með norskum aðstoðarráðherra, aðalræðismanni Rússa í Kirkenes, sendiherrum nokkurra erlendra ríkja í Osló auk fræðimanna.

.

Þriðjudagur 18. 03. 14 - 18.3.2014 22:50

Í kvöld sat ég fyrir svörum á Útvarpi Stam hjá Árna Heimi Ingimundarsyni og ræddum við um heima og geima í 80 mínútur. Á útvarpið má hlusta á rás 98,3 en Árni Heimir heldur úti þessari stöð á rásinni í einn mánuð.

Það verður forvitnilegt að sjá hvaða áhrif Krím-deilan hefur á stöðuna á norðurslóðum. Um það er meðal annars fjallað í grein í Politiken eins og lesa má hér.

Komi til þess að aukin spenna leiði til þess að skipaferðum fækki fyrir norðan Rússland breytast hugmyndir manna um aukin umsvif stórra skipafélaga hér á landi. Raunar ríkir mikil óvissa um hvort Ísland verði nokkru sinni millistöð eða hér verði gerð umskipunarhöfn fyrir risaskip í Norður-Íshafssiglingum.

Liður í utanríkisstefnunni sem Ólafur Ragnar Grímsson hefur mótað eru náin samskipti við Rússland og samband við Vladimír Pútín. Forsetinn verður að endurskoða afstöðu sína í ljósi yfirlýsinga Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra um að alþjóðasamfélagið verði að senda skýr og neikvæð skilaboð til stjórnvalda í Rússlandi.  Gunnar Bragi sagði í fréttatíma ríkisútvarpsins í dag:

„Við munum vera í þeim hópi sem gagnrýnir og mótmælir þessari aðferð rússneskra stjórnvalda. Það er mikilvægt að gera það mjög ákveðið. Við getum ekki horft upp á að hvort sem Rússar ákveði að halda áfram þessari vegferð sinni eða einhverjir aðrir grípa til þess að virða ekki landamæri eða sjálfsákvörðunarrétt og fullveldi ríkja, þá verðum við að stíga fast niður fæti og taka strax á málum.“

Vladimír Pútín á heimboð frá Ólafi Ragnari – skyldi boðið verða afturkallað?

Mánudagur 17. 03. 14 - 17.3.2014 22:50

Viðtal mitt á ÍNN við Ágúst Þór Árnason er komið á netið eins og má sjá hér.

Þetta samtal okkar og umræður á alþingi í síðustu viku urðu til þess að ég rýndi að nýju í bók Össurar Skarphéðinssonar Ár drekans þar sem hann lýsir árinu 2012 þegar hann gegndi embætti utanríkisráðherra. Í bókinni segir Össur oft frá ESB-viðræðunum eins og ég greini frá í frétt á Evrópuvaktinni í dag.

Fréttin sýnir að allt fram undir þetta hefur verið alið á þeirri blekkingu að ESB-viðræðurnar hafi verið á góðu róli undir forystu Össurar þegar staðreyndin er að síðan í mars 2011 hefur ESB haldið þeim í gíslingu með því að neita að sýna á spilin í sjávarútvegsmálum. Krafa ESB er augljós: að Íslendingar breyti þeim skilyrðum sem birtast í meirihlutaáliti utanríkismálanefndar alþingis frá sumrinu 2009. Össur og félagar treystu sér ekki til þess.

Þessi staða var á árinu 2012 falin á bakvið yfirlýsingar Össurar um að allt gengi að óskum, hann og menn hans, Evrópuvíkingarnir, eins og hann kallar embættismenn utanríkisráðuneytisins, ynnu hvern sigurinn eftir annan.

Við blasir hins vegar að „slagplan“ Össurar var reist á rangri greiningu. Vandinn í sjávarútvegsmálum stafaði ekki af makrílhagsmunum heldur réðu Frakkar ferðinni. Þeim er sama um makríl. Þeir vildu ekki og vilja ekki að ESB stækki meira um þessar mundir.

Af bók Össurar má ráða með kröfum um trúnað í utanríkismálanefnd alþingis hafi verið komið í veg fyrir að rætt væri opinberlega um ESB-viðræðurnar á réttum grunni frá árinu 2011.

Sunnudagur 16. 03. 14 - 16.3.2014 22:50

Gjaldtakan við Geysi vekur að vonum mikla athygli. Tilraunir ríkisins til að stjórna henni hafa reynst árangurslausar. Innheimtan er því að öðrum þræði hluti þess andófs gegn ríkisvaldinu sem víða verður vart. Landeigendur vilja sjálfir taka ákvörðun um aðgang að eign sinni og hafa að engu vilja framkvæmdavaldsins. Höfðað er til sambærilegra tilfinninga hjá þeim sem boða til útifunda á Austurvelli undir merkinu thjod.is.

Það er ekki auðvelt fyrir stjórnmálamenn að fóta sig á þessum breytingaskeiði stjórnarhátta. Sé vilji til þjóðaratkvæðagreiðslna jafnríkur og þeir láta sem nú safna undirskriftum á vegum thjod.is er óhjákvæmilegt að bregðast við honum á stjórnmálavettvangi. Það verður best gert með setningu ákvæða um þjóðaratkvæðagreiðslu í stjórnarskrá og lög um framkvæmd atkvæðagreiðslunnar.

Skynsamlegt er að undirbúa hvert skref við innleiðingu almennrar reglu um þjóðaratkvæðagreiðslu vel með umræðum sem ekki eru litaðar af afstöðu til eins máls eins og er nú í tengslum við stöðvun ESB-viðræðnanna.

Laugardagur 15. 03. 14 - 15.3.2014 23:55

Þegar farið á sýningu sem hlotið hefur mikið lof kann maður að hafa myndað sér skoðun á þann veg að verkið stendur ekki undir væntingum þegar á hólminn er komið. Þetta átti ekki við um óperuna Ragnheiði eftir Gunnar Þórðarson og Friðrik Erlingsson í leikstjórn Stefáns Baldurssonar sem nú er sýnd í Hörpu. Naut ég þriðju sýningar hennar í kvöld.

Friðrik segir í leikskrá að óperuformið leyfi aðra framsetningu en öll önnur listform þar sem tónlistin magni tilfinningar og innra líf persónanna. Vissulega gerist þetta í Ragnheiði en tónlistin, umgjörðin öll og framganga söngvara er með þeim hætti að hvergi er ofgert, ekki leikið á tilfinningar áheyrenda heldur gengið beint til verks og hinir dramatísku atburðir bornir fram vafningalaust þannig að áhorfandinn er næsta berskjaldaður gagnvart harmleiknum. Styrkur sýningarinnar felst í einfaldleikanum.

Sagan gerist í Skálholti rúmum hundrað árum eftir siðaskipti. Athygli vekur hve miklum átrúnaði er lýst á Maríu mey, hina heilögu Guðsmóður, í sjálfum biskupsgarði. Þessa átrúnaðar gætir enn í dómkirkjunni í Skálholti. Í Hallgrímskirkju er einnig Maríualtari og hið sama er að segja um Háteigskirkju. Í sumum mótmælendakirkjum erlendis er bannað að syngja lofsöngva um heilaga Maríu eins og íslenskir kórar hafa kynnst.

Sýningunni í kvöld var tekið með kostum og kynjum.

Það er ótrúlegt að lesa frásagnir af útifundi á Austurvelli þar sem fluttar eru barátturæður sem reistar eru á þeirri skoðun að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hafi stöðvað ESB-viðræðurnar. Nú liggur ótvírætt fyrir að ESB stöðvaði viðræðurnar á árinu 2011 þegar fulltrúar þess neituðu að afhenda rýniskýrslu sína um sjávarútvegsmál. Því má velta fyrir sér hvort ríkisstjórnin hafi flýtt sér um of með tillögu sína um afturköllun. Betri greining á skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og ályktun dregin af henni hefði gert allan ófrið undanfarinna vikna óþarfan. Afturköllunin er vissulega nauðsynleg til að koma málinu úr farvegi Össurar Skarphéðinssonar en hún er óþörf til að stöðva viðræðurnar, Össur skildi við þær á skeri. ESB hefur engan áhuga á að losa þær þaðan.

Föstudagur 14. 03. 14 - 14.3.2014 23:40

Lengi hefur verið ljóst að ríkisútvarpið dregur taum flóttamanna og hælisleitenda í fréttum. Í dag var þátturinn Víðsjá notaður í þágu þessa baráttumáls stofnunarinnar. Rætt var við þrjá lögmenn sem helga sig málstað þeirra sem leita hingað án þess að hafa ótvíræðan rétt til búsetu eða dvalar lögum samkvæmt.

Þá var Jón Bjarki Magnússon, blaðamaður á DV, einnig í Víðsjá ef marka mátti afkynninguna. Jón Bjarki hefur sérhæft sig í gagnrýni á Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra vegna „lekamálsins“ svonefnda sem nú er til rannsóknar hjá saksóknara og lögreglu. Þar kemur hælisleitandi við sögu. Jón Bjarki hefur komið fram sem ljóðskáld undir merkjum samtakanna No Borders sem berjast fyrir auknum réttindum hælisleitenda.

Hvað sem málstaðnum líður er furðulegt að stofnun sem lögum samkvæmt ber að gæta óhlutdrægni skuli ekki huga að því grundvallaratriði í gerð þáttar um umdeilt þjóðfélagsmál að tryggja að allar hliðar málsins séu kynntar.

Fyrir um það bil tveimur áratugum neyddust bankastjórar Landsbanka Íslands til að segja af sér af því að þeir sögðu ekki rétt frá málavöxtum sem snerti risnu og laxveiðar. Var þáverandi viðskiptaráðherra meðal annars lagt til rangt efni í svar á alþingi. Spurningin er hvort sama atburðarás sé að endurtaka sig í Seðlabanka Íslands. Hafi sjálfstæði seðlabankans verið í húfi vegna ákvarðana um laun til bankastjórans er trúverðugleiki bankans í húfi vegna allrar stjórnsýslu í kringum málið.

 

Fimmtudagur 13. 03. 14 - 13.3.2014 21:30

Þegar allt er í óvissu um samskipti ESB og Rússlands vegna ögrana Pútíns í garð Úkraínumanna er ekki að undra að Brusselmenn forðist illdeilur við Norðmenn og setji ekki fyrir sig þótt makrílstofninum verði útrýmt – hann er þeim minna virði en aðgangur að olíu og gasi.

Danskir sjómenn knúðu á um samning milli Noregs og ESB vegna veiðiréttinda innan norskrar lögsögu og ákvörðunar um kvóta í Norðursjó. Færeyingum hafði verið ógnað af ESB og áttu mikið undir stuðningi Dana innan sambandsins. Þeim var því ljúft að taka þátt í þriggja strandríkja samkomulaginu til að losna undan refsivendi Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra ESB, og leggja sitt af mörkum til að drepa svo mikið af makríl að hann hætti að ganga í íslenska svo að ekki sé talað um grænlenska lögsögu.

Þetta er hin stórpólitíska umgjörð makrílsamningsins sem Færeyingar, Norðmenn og ESB gerðu miðvikudaginn 12. mars þegar þeir skildu Íslendinga útundan. Þríhliða samningur af þessu tagi er ekkert nýnæmi. Hið furðulegasta við hann nú er tilraun samningsaðilanna til að hindra að Íslendingar og Grænlendingar semji um hagkvæmustu nýtingu á makríl á svæðinu sem er fjærst yfirráðasvæði strandríkjanna þriggja.

Miðvikudagur 12. 03. 14 - 12.3.2014 21:40

Í dag ræddi ég við Ágúst Þór Árnason, brautarstjóra við lagadeild Háskólans á Akureyri, í þætti mínum á ÍNN. Ágúst Þór skrifar viðauka I við skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um ESB-viðræðurnar og ræðir þar um aðildarferlið á 58 bls. Segja má að þetta sé þungamiðja skýrslunnar. Við lestur viðauka Ágústs Þórs fæst sýn á lögfræðileg, stjórnmálaleg og sagnfræðileg álitaefni sem hafa verður í huga við mat á stöðu Íslands gagnvart ESB.

Segja má að aðildarferli Íslands hefjist í lok níunda áratugarins en við urðum eftir innan EES fyrir 20 árum þegar Austurríkismenn, Finnar og Svíar gerðust aðilar að ESB og Norðmenn reyndu það. Hefðum við ætlað inn í ESB hefði EES-samningurinn aldrei verið samþykktur á alþingi.

Engu er líkara en árið 2009 hafi þeir sem stóðu að ESB-umsókninni haldið að farið yrði með umsóknina á sama hátt og gert var á sínum tíma þegar þáverandi EFTA-ríki áttu í hlut. Ágúst Þór telur þetta benda til þess að ekki hafi verið staðið nægilega vel að greiningu og mati á stöðu Íslands þegar haldið var af stað. Til marks um það er sú skoðun utanríkisráðuneytisins að aðildarviðræðurnar tækju 18 mánuði.

Í samtali okkar segir Ágúst Þór að sú afstaða sé í raun einkennileg að hér tali menn eins og það sé á valdi Íslendinga að halda ESB-viðræðunum áfram þegar ESB hafi í raun stöðvað þær árið 2011 þegar Brusselmenn ákváðu að afhenda ekki rýniskýrsluna um sjávarútvegsmál. Hann segir því í lok samtals okkar að viðræðurnar hafi ekki stöðvast í ársbyrjun 2013 heldur á árinu 2011.

Næst má sjá samtal okkar á ÍNN klukkan 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Þriðjudagur 11. 03. 14 - 11.3.2014 22:30

Lýsingarnar á leitinni að MH370 Boeing 777 flugvélinni sem hvarf með 239 manns um borð á leiðinni frá Kuala Lumpur í Malasíu til Peking í Kína eru þess eðlis að í raun er enn erfitt að átta sig á hvað raunverulega hefur gerst.

Í BBC World Service heyrði ég samtal við ungan mann í Kuala Lumpur sem hafði hitt mennina tvo sem fóru um borð í flugvélina með stolin vegabréf og voru á leið um Peking til Evrópu, Frankfurt og Amsterdam. Hann er vinur annars þessara manna, 19 ára Írana, og sagðist hafa ekið mönnunum tveimur á flugvöllinn. Þegar fréttir bárust af hvarfi flugvélarinnar hefði móðir hins 19 ára Írana, búsett í Hamborg, haft samband við manninn í Kuala Lumpur og beðið hann að segja lögreglunni þar alla sólarsöguna. Hann sagðist hafa gert það að morgni sunnudags 9. mars, lögreglan hefði ekkert gert en sagt opinberlega að hún vissi ekkert hverjir mennirnir með stolnu vegabréfin væru.

Þá hefur dagblaðið Berita Harian í Malasíu eftir yfirmanni flughers landsins að klukkan 18.40 að ísl. tíma föstudaginn 7. mars hefði flugvélin sést í ratsjá nálægt smáeyjunni Pulau Perak í norðurenda Malakka-sunds í um 1.000 metra lægri flughæð en áður. Þá hafði vélin verið tvær stundir á lofti. Sé þetta rétt hefur flugvélin verið mun vestar en eðlilegt er á leið til Kína.

Loks eru getgátur um að vélinni hafi verið flogið til Norður-Kóreu.

Það er ótrúlegt að á tímum þessarar miklu leitar- og fjarskiptatækni skuli ekki takast að finna nein merki um svo stóra fullkomna flugvél.

Mánudagur  10. 03. 14 - 10.3.2014 21:00

Í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur var tónninn í fréttum af málþófi á alþingi sá að við stjórnarandstöðuna væri að sakast. Það væri henni til vansæmdar að fallast ekki án óþarfra málalenginga á óskir stjórnarflokkanna um afgreiðslu mála. Nú er öldin önnur í fréttum ríkisútvarpsins, af þeim verður helst ráðið að meirihluti þingmanna standi í vegi fyrir að hans eigin mál séu afgreidd. Það sé ríkisstjórninni að kenna að minnihluti þingmanna telji sig þurfa að koma í veg fyrir framgang mála ríkisstjórnarinnar.

Þetta er málflutningur í ætt við þá kenningu að Már Guðmundsson seðlabankastjóri hafi stofnað til málaferla gegn Seðlabanka Íslands til að auka á hróður bankans og skerpa sjálfstæði hans innan stjórnkerfisins. Már tapaði málinu á báðum dómstigum af því að dómrarar komust að þeirri niðurstöðu að seðlabankanum bæri að fara að landslögum – styrkti það bankann eða veikti? Már vildi að bankinn væri hafinn yfir landslög – bankinn hefur samkvæmt því veikst vegna málaferlanna og þarf auk þess að borga brúsann.

Viðtal Þóru Arnórsdóttur í Kastljósi við Gary Kasparov var fróðlegt, hér má sjá það.

Sunnudagur 09. 03. 14 - 9.3.2014 23:00

Már Guðmundsson seðlabankastjóri hefur snúist til varnar fyrir sjálfan sig vegna frétta um að seðlabankinn hafi borið kostnað vegna málaferlanna sem Már stofnaði til í því skyni að fá laun sín hækkuð. Málsvörnin felst í því að málið hafi aldrei snúist um Má heldur um seðlabankann og sjálfstæði hans – það hafi verið skerðing á sjálfstæðinu að kjararáð sá til þess að enginn á launum hjá ríkinu hefði hærri laun en Jóhanna forsætisráðherra.

Sé málum farið á þennan veg er undarlegt að Lára V. Júlíusdóttir, formaður bankaráðs seðlabankans, skuli ekki hafa tekið þetta fyrir í bankaráðinu. Hvers vegna lét hún hjá líða að ræða þetta prinsipp-mál á þeim vettvangi?

Hér er eitthvað málum blandið. Veikir málatilbúnaðurinn traust seðlabankans og ekki var það til að efla traustið að Már taldi mega rekja fréttina í Morgunblaðinu um greiðslu seðlabankans til þess hvað hann stóð sig vel í Kastljósinu hjá Helga Seljan! Þessi yfirlýsing seðlabankastjórans í fréttatíma sjónvarps ríkisins ber vott um sérkennilegt yfirlæti.

Höskuldur Ásgeirsson, fyrrv. forstjóri Flugstöðvar Leif Eiríkssonar, fann að því í grein í Morgunblaðinu fimmtudaginn 6. mars að Þórólfur Árnason gegndi bæði formennsku í stjórn Isavia og Fríhöfninni, undirfélags Isavia. Þórólfur bregst við í viðtali við Morgunblaðið laugardaginn 9. mars og segir „að sjálfstæði Fríhafnarinnar sé tryggt með því að þrír af fimm stjórnarmönnum hafi engin tengsl við Isavia. Þeim hafi verið fjölgað úr þremur í fimm í fyrra til þess að auka sjálfstæði dótturfélagsins“.

Þetta viðhorf Þórólfs er í ætt við furðulega málsvörn Más Guðmundssonar. Það er ný kenning í stjórnsýslunni að maður sé ekki vanhæfur af því að samstarfsmenn hans séu það ekki! Það er stórundarlegt að fjármálaráðuneytið skuli láta þessa ámælisverðu skipan mála í flugstöðinni líðast.

Laugardagur 08. 03. 14 - 8.3.2014 22:10

Stuðningsmenn mótmælafundanna á Austurvelli draga úr eigin trúverðugleika og mótmælanna sjálfra með því að segja rangt frá fjölda fólks sem sækir fundina. Fréttastofa ríkisútvarpsins og fréttastofa 365 miðla eru notaðar til að miðla ofurtölum. Fréttastofa ríkisútvarpsins reyndi að skapa sér skjól í dag með því að vitna í lögregluna og segja á hverju hún reisti mat sitt. Hér skulu talnarunur ekki raktar en af þeim má ráða að óánægju gæti hjá stuðningsmönnum aðgerðanna, annars reyndu þeir ekki stöðugt að fjölga þátttakendum í fréttum.

Augljóst er að þeir sem að mótmælunum standa leggja sig fram um að ýta ESB-málinu til hliðar í kynningu á þeim. Í auglýsingum er látið sem þau beinist að kröfunni um að kjósendur komi að ákvörðunum. Markmiðið er að veikja trú manna á fulltrúalýðræðið með kröfu um beint lýðræði. Þetta er raunar í hróplegri andstöðu við ESB-aðild. Innan sambandsins er allt gert til að forðast þjóðaratkvæðagreiðslur.

Þótt ESB-málið sé hvatinn að mótmælafundunum hefur það horfið í skuggann sem sannar enn hve miklu skiptir að ýta því af innlendum stjórnmálavettvangi og snúa sér að því sem meiru skiptir.

Hin furðulega ráðstöfun Láru V, Júlíusdóttur, þáv. formanns bankaráðs Seðlabanka Íslands, að ákveða upp á sitt einsdæmi að láta bankann greiða málskostnað Más Guðmundssonar bankastjóra vegna kjaradeilu hans er aðeins lokapunktur í máli sem aldrei hefði orðið nema vegna þess að Már taldi sig svikinn af þeim sem fólu honum bankastjórnina, Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J. Sigfússyni. Hér á vefsíðunni rakti ég ítarlega á sínum tíma hvernig staðið var að því að fá Má til starfa sem seðlabankastjóra og allt möndlið í kringum launamál hans. Þar sögðu einhverjir ekki alla söguna og það hefur ekki heldur verið gert í þeim þætti sem hlýtur nú að boða endalokin á bankastjóraferli Más.

 

Föstudagur 07. 03. 14 - 7.3.2014 23:30

Fyrir nokkrum vikum hótaði Reynir Traustason, ritstjóri DV, mér vegna orða hér á síðunni um samtökin No Borders og ályktunar um að þau hefðu áhrif á ritstjórn DV. Ritstjórinn taldi það af og frá og lögfræðingur hans sendi mér ábyrgðarbréf með kröfum fyrir hönd skjólstæðings síns. Google sagði mér að Jón Bjarki Magnússon, rannsóknarblaðamaður á DV, hefði komið fram á samkomu á vegum samtakanna Attac og No Borders á menningarnótt við Hegningahúsið við Skólavörðustíg. Ég taldi Jón Bjarka hafa flutt ræðu en hann sagðist hafa farið með ljóð.

Málið er þannig vaxið að ætla má að einkum hafi vakað fyrir ritstjóranum að þagga niður í mér og fæla frá að gagnrýna efnistök DV eða skrif Jóns Bjarka. Hann skrifar nær daglega eitthvað misjafnt um Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra og leggur net sín þannig að allt er tortryggilegt sem snertir hana, þar á meðal frændfólk hennar. Jón Bjarki minnir í sömu andrá á rannsókn lögreglunnar á því sem DV telur leka úr innanríkisráðuneytinu. Blaðið segir nú að falsað minnisblað sé í umferð. Varla er það komið úr ráðuneytinu?

 

 

Fimmtudagur 06. 03. 14 - 6.3.2014 23:10

Miðaldastofa við Háskóla Íslands gengst í vetur fyrir fyrirlestraröð um klaustur á Íslandi. Í dag gerði Steinunn Kristjánsdóttir prófessor grein fyrir rannsókn sem hún er hefja á miðaldaklausturstöðum um land allt. Steinunn stjórnaði rannsóknum að Skriðuklaustri í 10 ár og gaf út bók um þær og niðurstöður sínar á síðasta ári.

Klaustur var lengst starfrækt að Þingeyrum í Austur-Húnavatnssýslu, rúm 400 ár. Steinunn sagði að undir lok apríl yrði hún með öðrum við frumrannsóknir að Þingeyrum.

Þeir fyrirlestrar sem ég hef sótt í þessari röð vekja meiri áhuga en húsrúm leyfir.

Miðvikudagur 05. 03. 14 - 5.3.2014 23:00

Rætt var við Má Guðmundsson seðlabankastjóra í Kastljósi kvöldsins. Hann útilokaði ekki að unnt yrði að losa um gjaldeyrishöftin á þessu ári. Meira að segja Helga Seljan datt ekki í hug að spyrja hvort það væri unnt án þess að ganga í ESB. Það sannaði aðeins að hann áttar sig á því eins og allir sem þekkja til mála að aðild að ESB er ekki forsenda þess að höftin hverfi. Það er algjörlega á valdi íslenskra stjórnvalda að taka ákvarðanir sem leiða til afnáms haftanna.

Eftir að niðurstöður í Pisa-könnunni birtust hvatti ég til þess að upplýst yrði að nýju opinberlega um árangur einstakra skóla. Þá var mér sagt að nálgast mætti þessar upplýsingar á vefsíðu Námsmatsstofnunar.

Í dag birti mbl.is frétt um að fulltrúar sjálfstæðismanna í skóla- og frístundaráði borgarstjórnar Reykjavíkur hafi flutt þessa tillögu í ráðinu:

„Skóla- og frístundaráð samþykkir að niðurstöður reykvískra grunnskóla í PISA-könnun 2012 verði gerðar opinberar. Sundurgreindar upplýsingar um árangur hvers skóla í einstökum greinum; lesskilningi, náttúrufræðilæsi og stærðfræðilæsi, verði sendar viðkomandi skólastjórnendum, skólaráði og stjórn foreldrafélags í því skyni að hvetja til upplýstrar umræðu um kennsluhætti og námsárangur. Slíkar upplýsingar hafa nú þegar verið unnar af tölfræði- og rannsóknaþjónustu skóla- og frístundasviðs.“

Tillagan var felld með fimm atkvæðum Besta flokksins, Samfylkingar og vinstri-grænna gegn tveimur atkvæðum sjálfstæðismanna. Í bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sagði meðal annars:

„Á Íslandi er sjálfstæði skóla mikið, sem er góðs viti, en samkvæmt rannsóknum Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) kemur í ljós að ef upplýsingar um árangur eru ekki tiltækar foreldrum og skólasamfélagi, þá vinnur það gegn kostum þess að skólar hafi mikið sjálfstæði. Því er það mjög mikilvægt að allir aðilar skólasamfélagsins hafi fjölbreytt gögn til að tryggja enn frekar gæði skólastarfsins.“

Það er mikill misskilningur að halda að leynd um árangur nemenda og skóla styrki skólastarf eða efli tengsl foreldra og skóla sem eru ein af meginforsendum góðs sambands skóla og samfélagsins og þar með heilbrigðs skólastarfs,

 


Þriðjudagur 04. 03. 14 - 4.3.2014 21:00

Margir hafa undrast hve fljótt tillaga utanríkisráðherra um að afturkalla umsóknina um aðild að ESB kom fram, að boðað hafi verið til þess sem í alþingi er kallaður útbýtingarfundur um kvöldmatarleyti á föstudegi til að leggja tillöguna fram. Fyrst á miðvikudeginum á undan, 19. febrúar, hófst umræða á þingi um skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, það er um úttektina á stöðunni í aðildarviðræðunum og var umræðunni um skýrsluna ekki lokið þegar utanríkisráðherra lagði fram tillögu sína um afturköllun.

Hér má sjá viðtal mitt við Gunnar Haraldsson, forstöðumann hagfræðistofnunar, um skýrsluna. 

Sé lagt mat á það sem Gunnar segir er auðvelt að komast að þeirri niðurstöðu að slíta beri ESB-viðræðunum, þeim sé í raun „sjálfhætt“ eins Ágúst Þór Árnason, einn skýrsluhöfunda, orðaði það, sjá hér.

Skýringin á því að utanríkisráðherra lagði fram tillögu sína svona fljótt með samþykki þingflokka ríkisstjórnarinnar var einfaldlega sú að ráðherrar og þingflokkarnir höfðu fengið kynningu á skýrslunni og höfðu sannfærst um að ekki bæri að halda áfram heldur ætti að slíta viðræðunum. Þeir gleymdu hins vegar að sjá til þess að koma efni skýrslunnar nægilega vel á framfæri við almenning og stjórnarandstaðan hafði greinilega ekki áhuga á að kynna sér skýrsluna eða öðrum efni hennar.

ESB-aðildarsinnar kusu að beina athygli frá efni málsins og snúa umræðunum þess í stað að spurningunni um þjóðaratkvæðagreiðslu og meint svik forystumanna Sjálfstæðisflokksins.

Þegar frá líður verður litið á um 500 ræður um fundarstjórn forseta á alþingi í umræðum um skýrsluna sem nýstárlega tilraun stjórnarandstöðu til að drepa mikilvægu máli á dreif.

Nú þegar lægir eftir fárviðrið í síðustu viku er tekið til við að fjalla um efni skýrslunnar. Þá munu allir skynsamir menn sjá að lengra verður ekki haldið á brautinni sem ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms J. mótaði inn í ESB. Málið er dautt hvernig svo sem alþingi kýs að ýta því til hliðar.

Mánudagur 03. 03. 14 - 3.3.2014 22:55

Dr. Andreas Schleicher, aðstoðarframkvæmdastjóri menntamála hjá  OECD, flutti ræðu  á Menntadegi atvinnulífsins í dag. OECD, efnahags- og framfarastofnunin í París, stendur á þriggja ára fresti að PISA-könnuninni á færni 15 ára nemenda í 65 löndum en niðurstöður síðustu könnunar voru kynntar í byrjun desember 2013. Hún sýndi að  íslenskum börnum hafði hrakað í stærðfræði, lesskilningi og náttúrufræði undanfarin ár. PISA-könnun OECD, mælir færni 15 ára nemenda 65 landa og er lögð  fyrir á þriggja ára fresti.   

Á ruv.is er haft eftir Schleicher:

„Nemendur [á Íslandi] virðast ekki fá allan sannleikann um námsframmistöðu sína frá skólakerfinu. Lítið er um hlutlausan samanburð og yfirsýn. Drengir hafa til dæmis mun hærra sjálfsmat en námsárangur þeirra endurspeglar. Greinilegur munur er á hugsunarhætti nemenda á Íslandi og t.d. nemenda í Austur-Asíu. Ef ég spyr íslenskan nemanda hvernig hann verði góður í stærðfræði segja margir hæfileika ráða því; að fæðist maður ekki sem stærðfræðiséní sé best að gera eitthvað annað. Ef nemendur í Austur-Asíu eru spurðir sömu spurningar svara þeir hins vegar að þetta sé undir þeim sjálfum komið. Þar gildir sú trú að skólinn snúist ekki um að draga fólk í dilka.“

Hvað felst í þessari ábendingu? Endurspeglar hún það sem dregið var fram íslenska skólakerfinu til ágætis til að vega gegn lélegri útkomu í Pisa-könnuninni: að nemendum liði vel íslenskum skólum. Þeim er talin trú um að þeir séu betri en þeir eru og fá ekki vitneskju um námsframmistöðu sína. Það er í raun furðulegt að búist sé við því að þeir sem eru í skólakerfi þar sem ekki er lögð áhersla á að árangur sé í samræmi við það sem maður leggur á sig standi sig vel í alþjóðlegum samanburði.

 

 

Sunnudagur 02. 03. 14 - 2.3.2014 20:10

Sorglegt er að fylgjast með því hvernig ESB-viðræðu- eða aðildarsinnar telja sér sæma að orða hugsanir sínar þegar þeir taka til við að bíta frá sér á opinberum vettvangi. Síðasta dæmið um þetta er bútur úr sjónvarpsþætti sem sýndur var í fréttum sjónvarpsins í kvöld þar sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir veittist að þeim sem eru ósammála henni um ESB-mál innan Sjálfstæðisflokksins.

Þegar við Friðrik Sophusson beittum okkur fyrir sátt um málið á landsfundinum árið 2011 var Þorgerður Katrín ósátt við niðurstöðuna og hún hefur líklega orðið enn ósáttari eftir síðasta landsfund á árinu 2013. Eitt er að verða undir á fundi sem á annað þúsund manns sækja annað að  hallmæla þeim sem menn eru ósammála með skammaryrðum. Það bendir ekki til þess að menn hafi trú á eigin málstað þegar gripið er til þess ráðs að útmála þá sem menn eru ósammála á þann veg sem heyra mátti í sjónvarpsfréttunum.

Á ríkisútvarpinu leggja menn sig fram um að leita þá uppi í röðum sjálfstæðismanna sem eru fulltrúar þeirra um það bil 10% flokksmanna sem sætta sig ekki við afstöðu meirihluta flokksmanna. Þegar sagt er frá því sem þetta fólk hefur til málanna að leggja er ekki vitnað til efnislegra sjónarmiða heldur beinist athygli fréttamanna að því sem snýr að Sjálfstæðisflokknum.

ESB-málið snýst ekki um Sjálfstæðisflokkinn heldur þá staðreynd að ESB-viðræðunum var siglt í strand í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og á alþingi er ekki meirihluti fyrir því að hrinda þeim af stað aftur.

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands var falið að gera úttekt á stöðu viðræðnanna. Höfundur þess hluta skýrslunnar sem snýr að aðildarferlinu kemst að þeirri niðurstöðu að viðræðunum sé „sjálfhætt“ eins og fram kom í kvöldfréttum ríkisútvarpsins í dag. Hér má lesa ummæli Ágústs Þórs Árnasonar um þetta efni.

 

 

Laugardagur 01. 03. 14 - 1.3.2014 23:10

Ólafur Teitur Guðnason bendir á fasbókarsíðu sinni á þá staðreynd að á alþingi hafi aldrei verið meirihluti fyrir aðild að ESB. Þetta er merkileg staðreynd í ljósi umræðnanna nú og þess að samt var sótt um aðild að sambandinu og stofnað til þess stórpólitíska vanda sem enn hefur ekki tekist að leysa. Ábyrgð þeirra stjórnmálamanna sem stóðu að þessu feigðarflani er mikil en þeir skorast undan henni með því að tala um tilgang umsóknarinnar á allt annan veg en stjórnmálamenn hvarvetna annars staðar: hann hafi ekki verið að ganga í ESB heldur kanna með hvaða skilyrðum hugsanlegt væri að gera það.

Alþingi verður að binda enda á umsóknarferlið og sjá til þess að það hefjist ekki að nýju án umboðs frá þjóðinni í atkvæðagreiðslu.

Tvær tillögur eru nú til umræðu og afgreiðslu í utanríkismálanefnd þingsins sem báðar miða að því að stöðva formlega ferlið sem hófst með samþykkt alþingis 16. júlí 2009. Þessa ákvörðun á alþingi að taka eitt og óstutt. Vilji menn halda af staða til Brussel að nýju ber að tryggja bæði meirihluta á alþingi og meðal þjóðarinnar.

Í dag tók ég mynd í vetrarblíðunni skammt frá Hlíðarenda í Fljótshlíð og má sjá hana hérna.