13.3.2014 21:30

Fimmtudagur 13. 03. 14

Þegar allt er í óvissu um samskipti ESB og Rússlands vegna ögrana Pútíns í garð Úkraínumanna er ekki að undra að Brusselmenn forðist illdeilur við Norðmenn og setji ekki fyrir sig þótt makrílstofninum verði útrýmt – hann er þeim minna virði en aðgangur að olíu og gasi.

Danskir sjómenn knúðu á um samning milli Noregs og ESB vegna veiðiréttinda innan norskrar lögsögu og ákvörðunar um kvóta í Norðursjó. Færeyingum hafði verið ógnað af ESB og áttu mikið undir stuðningi Dana innan sambandsins. Þeim var því ljúft að taka þátt í þriggja strandríkja samkomulaginu til að losna undan refsivendi Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra ESB, og leggja sitt af mörkum til að drepa svo mikið af makríl að hann hætti að ganga í íslenska svo að ekki sé talað um grænlenska lögsögu.

Þetta er hin stórpólitíska umgjörð makrílsamningsins sem Færeyingar, Norðmenn og ESB gerðu miðvikudaginn 12. mars þegar þeir skildu Íslendinga útundan. Þríhliða samningur af þessu tagi er ekkert nýnæmi. Hið furðulegasta við hann nú er tilraun samningsaðilanna til að hindra að Íslendingar og Grænlendingar semji um hagkvæmustu nýtingu á makríl á svæðinu sem er fjærst yfirráðasvæði strandríkjanna þriggja.