Dagbók: janúar 1997

Föstudagur 31.1.1997 - 31.1.1997 0:00

Föstudaginn 31. janúar efndum við Rut til kaffisamsætis fyrir stórmeistara í skák í tilefni af því, að hinn níundi hefur bæst í hópinn, Þröstur Þórhallsson.

Fimmtudagur 30.1.1997 - 30.1.1997 0:00

Fimmtudaginn 30. janúar tók ég þátt í ofangreindum hádegisfundi í Háskóla Íslands um nýsköpun, síðan fór ég í sjónvarpsviðtal við Dagsljós um húsnæðismál Listaháskóla Íslands. Um kvöldið bauð ég Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni, nýbökuðum prófessor og metsöluhöfundi, með mér á sýningu á einleik Sigrúnar Sólar í Gefin fyrir drama þessi dama eftir Megas.

Miðvikudagur 29.1.1997 - 29.1.1997 0:00

Miðvikudaginn 29. janúar svaraði ég tveimur fyrirspurnum á Alþingi um fatlaða nemendur á framhaldsskólastigi og námsval á Norðurlöndunum. Vil ég í þessu sambandi vekja athygli á því, að á heimasíðu menntamálaráðuneytisins er að finna mikið af upplýsingum meðal annars svör mín við fyrirspurnum á Alþingi og umræður um þær. Um kvöldið var móttaka hjá franska sendiherranum fyrir þá, sem tóku þátt í menningarhátíðinni í Normandie í nóvember og desember.

Þriðjudagur 28.1.1997 - 28.1.1997 0:00

Alþingi kom saman að nýju eftir jólahlé þriðjudaginn 28. janúar, síðdegis þann sama dag voru nokkur mál á mínu verksviði til umræðu, þar á meðal frv. til laga um almenningsbókasöfn og er framsöguræða mín á heimasíðunni.

Laugardagur 25.1.1997 - 25.1.1997 0:00

Laugardaginn 25. janúar klukkan 13.00 hófst kjördæmisþing reykvískra sjálfstæðismanna að Hótel Sögu og stóð það fram undir kl. 17.00. Upp úr 18.00 fórum við Rut í móttöku Hverfafélags sjálfstæðismanna í Hlíða- og Holtahverfi í Sundanesti, þaðan fórum við síðan á þorrablót sjálfstæðismanna í Valhöll og vorum ekki komin heim fyrr en undir miðnætti.

Föstudagur 24.1.1997 - 24.1.1997 0:00

Föstudaginn 24. janúar klukkan 14.00 var ég í Fræðslumiðstöð bílgreina í Borgarholtsskóla og tók þar þátt í hátíðlegri athöfn vegna þess, að Toyota í Japan og P. Samúelsson hf. umboðsmaður Toyota á Íslandi gáfu tæki fyrir 15 milljónir króna til fræðslumiðstöðvarinnar. Var síðan boðið til glæsilegrar veislu í kennslusalnum. Er mjög ánægjulegt, hve umboðsmenn bifreiða hafa sýnt mikinn áhuga á því að búa fræðslumiðstöðina sem best tækjum.

Fimmtudagur 23.1.1997 - 23.1.1997 0:00

Fimmtudaginn 23. janúar stóð til, að þinflokkur og miðstjórn Sjálfstæðisflokksins hittist á fundi í Varmahlíð í Skagafirði. Var ætlunin að rúta héldi héðan úr bænum klukkan 10 að morgni þessa dags. Vorum við milli 20 og 30 þar á þeim tíma. Niðurstaðan varð hins vegar sú, að vegna veðurs var hætt við ferðina norður. Var fundurinn í stað þess haldinn að Hótel Loftleiðum og stóð frá kl. 16.00 fram undir miðnætti.

Laugardagur 22.1.1997 - 22.1.1997 0:00

Eftir að ég kom frá Logalandi tók ég að búa mig undir að opna sýningu á nýjum aðföngum í Listasafni Íslands klukkan 20.00 laugardagskvöldið 22. janúar, er þetta jafnframt síðasta sýningin sem Bera Nordal stendur fyrir sem forstöðumaður safnsins. Gafst mér því jafnframt tækifæri til að þakka henni fyrir frábær störf í þágu safnsins.

Laugardagur 18.1.1997 - 18.1.1997 0:00

Í síðasta pistli sagði ég frá því, að eftir ritun hans ætlaði ég í senn að bregða mér í Borgarleikhúsið á 100 ára afmæli Leikfélags Reykjavíkur og síðan á tónleika hjá Kammermúsikklúbbnum. Afmælisveislan var svo löng, að ég komst því miður ekki á tónleikana, og kennir þetta mér, að færa ekkert inn í dagbókina fyrirfram. Síðara hluta vikunnar tókum við Rut okkur stutt frí og fórum meðal annars að Gullfossi í sólbjörtu frostveðri laugardaginn 18. janúar og var fossinn stórbrotinn í klakaböndum.

Miðvikudagur 17.1.1997 - 17.1.1997 0:00

Þriðja umræða um háskólafrumvörpin var síðdegis. Er óvenjulegt, að almennar umræður verði um frumvörp við þriðju umræðu. Þennan dag svaraði ég einnig fyrirspurn frá Ögmundi Jónassyni vegna drengs, sem ekki hefur fengið grunnskólavist utan lögheimilisveitarfélags síns. Birti Morgunblaðið þennan sama dag grein eftir Ögmund, þar sem hann lýsir ábyrgð á hendur menntamálaráðherra vegna drengsins. Þetta er rangt hjá þingmanninum, því að samkvæmt grunnskólalögum hvílir sú skylda á Reykjavíkurborg að sjá drengnum fyrir skólavist. Fram kom í svari mínu, að hér er um einstakt tilvik að ræða og einnig hitt, að af hálfu menntamálaráðuneytisins hefur verið unnið að því að greiða fyrir lausn málsins innan þess ramma, sem lögin setja afskiptum ráðuneytisins.

Sunnudagur 12.1.1997 - 12.1.1997 0:00

Þegar þetta er skrifað er ég síðdegis á sunnudegi 12. janúar að verða of seinn í afmælishátíð LR og síðan ætlum við að reyna að komast á tónleika hjá Kammermúsikklúbbnum.

Laugardagur 11.1.1997 - 11.1.1997 0:00

Síðdegis laugardaginn 11. janúar flutti ég ávarp (ljósmynd (11/1) og opnaði sýningu á fréttaljósmyndum í Gerðarsafni í Kópavogi á vegum Blaðamannafélagsins og Blaðaljósmyndarafélagsins. Að kvöldi laugardagsins 11. janúar vorum við á frumsýningu á Fögru veröld eftir Karl Ágúst Úlfsson í Borgarleikhúsinu.

Laugardagur 11.1.1997 - 11.1.1997 0:00

Síðdegis laugardaginn 11. janúar flutti ég ávarp (ljósmynd (11/1) og opnaði sýningu á fréttaljósmyndum í Gerðarsafni í Kópavogi á vegum Blaðamannafélagsins og Blaðaljósmyndarafélagsins.

Föstudagur 10.1.1997 - 10.1.1997 0:00

Síðdegis föstudaginn 10. janúar vorum við í Norræna húsinu vegma Mímis og þar flutti ég ávarp . Síðan fórum við í Ráðhúsið, þar sem sýningu á íslensku handverki var opnuð.

Fimmtudagur 9.1.1997 - 9.1.1997 0:00

Að kvöldi fimmtudagsins 9. janúar vorum við á frumsýningu Dómínó eftir Jökul Jakobsson í Borgarleikhúsinu.

Miðvikudagur 8.1.1997 - 8.1.1997 0:00

Í hádegi miðvikudagsins 8. janúar flutti ég hugleiðingu um jólabækur í Rótaryklúbbi Reykjavíkur. Að kvöldi þessa sama miðvikudags var okkur Rut boðið að snæða fimm réttaðan kvöldverð í sveinsprófi í framreiðslu og matreiðslu í Menntaskólanum í Kópavogi. Var þetta fyrsta sveinsprófið við hinar góðu aðstæður í skólanum.

Laugardagur 4.1.1997 - 4.1.1997 0:00

Síðdegis laugardaginn 4. janúar var efnt til ættarmóts afkomenda afa míns og ömmu í Ánanaustum, Björns Jónssonar skipstjóra og Önnu Pálsdóttur, en þau eignuðust þrettán börn og nálgast afkomendur þeirra óðfluga þriðja hundraðið. Ásta Björnsdóttir, móðursystir mín, er fyrsti afkomandi þeirra, fædd 1908 og hin hressasta, þótt hún nálgist óðfluga nírætt. Hún ávarpaði okkur og gladdi eins og ævinlega. Lokaorð hennar höfðu að geyma hvatningu til unga fólksins um að mennta sig, því að góð menntun yrði aldrei frá manni tekin, eins og hún orðaði það.

Föstudagur 3.1.1997 - 3.1.1997 0:00

Síðdegis föstudaginn 3. janúar komu rektorar Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og Kennaraháskóla Íslands til fundar við mig að eigin ósk. Ég hef ekki sagt frá slíkum fundum í ráðuneytinu hér í þessum pistlum, enda lít ég jafnan þannig á, að vangaveltur af því tagi geti dregið úr þeim trúnaði, sem ríkja verður í samskiptum manna. Að þessu sinni fór ekki á milli mála, að fjölmiðlum hafði verið greint frá fundinum fyrirfram án minnar vitundar og kom mér athygli þeirra því í opna skjöldu, þar sem þetta er í eina skiptið á ráðherraferli mínum, sem til þessa hefur komið.

Fimmtudagur 2.1.1997 - 2.1.1997 0:00

Síðdegis 2. janúar hittumst við Pétur Guðfinnsson, sem er útvarpsstjóri til 1. janúar 1998, og ræddum um málefni RÚV í beinni útsendingu undir stjórn Ævars Kjartanssonar.

Miðvikudagur 1.1.1997 - 1.1.1997 0:00

Að morgni nýársdags fórum við Rut í Dómkirkjuna og hlýddum á herra Ólaf Skúlason biskup flytja nýárspredikun sína. Síðdegis fór á nýársdag lá leið mín aftur að Bessastöðum, nú til að lyfta kampavínsglasi í tilefni nýja ársins.