Dagbók: júlí 2011

Sunnudagur 31. 07. 11. - 31.7.2011

Ég hef í mörg ár lesið Le Monde og dáðst að efnistökum blaðamanna þess þegar um flókin mál er að ræða þótt ég sé ekki sammála þeim skoðunum sem setja svip sinn á blaðið. Virðing mín á blaðinu er ekki reist á því sem ég hef lesið í því um Ísland, þótt margt af því sé hafið yfir gagnrýni. Sjaldan hef ég þó orðið meira undrandi en að sjá að blaðið birtir í enskri útgáfu á Le Monde diplomatique í ágúst 2011 grein eftir Robert Wade og Sillu (Sigurbjörgu) Sigurgeirsdóttur. Höfundar eru kynnti á þennan hátt í blaðinu:

„Robert Wade is professor of political economy at the London School of Economics; Silla Sigurgeirsdottir is lecturer in public policy at the University of Iceland. This is an updated version of “Lessons from Iceland”, first published in the New Left Review, London, September-October 2010.“

Þessi grein gefur brenglaða og að mörgu leyti alranga mynd af því sem gerst hefur hér á landi undanfarin ár og áratugi. Má lesa greinina hér. Hún er reist á samsæriskenningum þegar rætt er um íslensk stjórnmál og gefur alls ekki rétta mynd af þróun stjórnmála og viðskiptalífs eftir einkavæðingu bankanna.

Háskólakennararnir stökkva út í pólitísku laugina án þess að kunna sundtökin. Buslugangurinn er í samræmi við það.

Laugardagur 30. 07. 11. - 30.7.2011

Það rigndi ekki í Fljótshlíðinni í dag þrátt fyrir spá um hið gagnstæða. Rut efndi til flóamarkaðar og var hann vel sóttur enda er margt fólk á ferð auk þess sem heimamenn sýna framtakinu áhuga.

Ég skrifaði pistil í tilefni voðaverkanna í Noregi og þeirrar áráttu að reyna að samsama aðra með honum og viðhorfum hans.

42% Frakka segjast „mjög hlynntir“ því að reykingar verði bannaðar á baðströndum en aðeins 9% eru „mjög andvígir“ því. Konur (77% en 71% karla) og þeir sem eru eldri en 65 ára (82% en 73% yngri en 35 ára) lýsa miklum stuðningi við að reykingar verði bannaðar. Það þykir sérstaklega forvitnilegt við niðurstöðu könnunarinnar að þeir sem eru lengst til vinstri eru andvígastir banninu, 45% þeirra eru á móti því.

Þetta kemur fram í franska blaðinu Dimanche Ouest France nú um helgina en minnt er á að hinn 3. febrúar hafi borgarstjórnin í New York bannað reykingar í görðum borgarinnar, ströndum og á öðrum stöðum undir berum himni. Bæjarstjórnin í La Ciotat í Bouches-du-Rhône héraði við Miðjarðarhafsströnd Frakklands hefur bannað reykingar á ströndum bæjarins.

Það mundi auka þrifnað í Reykjavík ef bannað yrði að kasta tómum sígarettupökkum frá sér á almenningssvæðum. Þá yrði það til þess að auka heilbrigði borgarbúa að vinna enn frekar gegn reykingum. Ég tel hins vegar fráleitt að flytja sölu tóbaks inn í lyfjaverslanir.

Föstudagur 29. 07. 11. - 29.7.2011

Loks rigndi almennilega í Fljótshlíðinni. Það var orðið tímabært að bleyta duglega í jörðinni eftir þurrka undanfarið. Með kvöldinu dró frekar úr rigningunni. Hér skammt frá, í Kirkjulækjarkoti, halda hvítasunnumenn árlegt mót sitt.  Þeir hafa góða aðstöðu innan dyra fyrir samkomur sínar svo að rigning truflar þær ekki.
Fimmtudagur 28. 07. 11. - 28.7.2011

Nú liggur fyrir að ríkissjóður hefur tapað rúmum 4 milljörðum króna á því hvernig haldið var á málefnum Sjóvá sem eigendur fyrir hrun eyðilögðu með skammarlegri framgöngu sinni. Már Guðmundsson seðlabankastjóri sem stöðvaði hið gegnsæja söluferli á síðasta ári og beindi viðskiptunum á bakvið luktar dyr sagði við RÚV í kvöld að þrátt fyrir allt væri þetta góð niðurstaða  því að ríkið fengi tæpa fimm milljarða fyrir hlutinn.

Þessar fjármálasviptingar á kostnað skattgreiðenda er í samræmi við annað undir stjórn Steingríms J. Sigfússonar. Nú berast fréttir um miklar blekkingar af hálfu ríkisstjórnarinnar vegna aðstoðar við Sparisjóð Keflavíkur. Engu er líkara en svarthol hafi verið í sparisjóðnum þegar hann var færður undir ríkisbankann, Landsbanka Íslands. Öll kurl eru ekki komin til grafar varðandi ráðstöfun á skattfé almennings í þágu sjóðsins.

Sparisjóður Keflavíkur var kominn af fótum fram eins og fjármálastofnanir almennt í árslok 2008. Hvers vegna var haldið áfram að dæla peningum í sparisjóðinn?  Nú finnst svarhol í bókhaldinu, þar skakkar tugum milljarða. Hefur þetta ekki verið þekkt stærð í stjórnkerfinu um nokkurt skeið? Sýndu ekki áreiðanleikakannanir að ósk erlendra lánadrottna að vandinn snerist um marga milljarða?

„Tæra vinstristjórnin“ réð nýtt fólk að sparisjóðnum,  þar á meðal sparisjóðsstjóra sem nú er fríhafnarforstjóri í Leifsstöð. Auðvelt er að benda á pólitísk afskipti af málefnum sparisjóðsins undir handarjaðri Steingríms J. Allar fjárráðstafanir þessa formanns VG í þágu sparisjóðsins eru sama merki brenndar og fjáraustur hans í Sjóvá. Fyrirhyggjuleysi ræður ferð í stað fjármálalegs aðhalds. Hið eina sem honum dettur svo í hug er að hækka skattana.

 

Miðvikudagur 27. 07. 11. - 27.7.2011

Í kvöld sýndi RÚV óvenjuleg tilþrif með því að sýna nýlegan Panorama-þátt frá BBC um Rupert Murdoch og fallvaltleika fjölmiðlaveldis hans. Þátturinn sýndi hve mjótt er á munum hjá þeim sem nota fjölmiðla til þess að skapa sér völd og áhrif. Einn afleikur á sviði sem snertir tilfinningar fólks getur skilið milli vinsælda og óvildar. Það hefur Murdoch reynt í Bretlandi.

Í Panorama kom ekki fram að það er síður en svo bundið við bresk blöð Murdochs að ritstjórnir kaupi upplýsingar sem aflað hefur verið á ólöglegan hátt af einkaspæjurum. Skýrsla sem birt var um málið árið 2006 leiðir í ljós að önnur blöð eru enn kræfari á þessu svið en Murdoch-blöðin. Þessi hnýsni um einkahagi fólks til að selja blöð eða hræða áhrifamenn til að hafa sig hæga gagnvart blöðunum eða eigendum þeirra hefur verið afhjúpuð á eftirminnilegan hátt í Bretlandi eins og sýnt var í Panorama-þættinum.

Hér á landi ber öðru hverju á því að fjölmiðlum sé beitt í þessu skyni. Á tíma Baugsmálsins kom til dæmis orðið „náhirð“ til sögunnar í áróðri Baugsmanna og gáfu þeir Baugsmiðlunum veiðileyfi á þá sem mynduðu þessara hirð. Reynir Traustason, ritstjóri DV, notar orðið enn í leiðara blaðs síns til að ná sér niðri á þeim sem eru undir illviljaðri smásjá blaðsins.

Að mati sífellt stærri hóps manna er gæðastimpill að verða fyrir aðkasti frá DV undir ritstjórn Reynis eða sitja undir persónulegum svívirðingum frá Ólafi Arnarsyni, stjörnupenna Pressunnar. Reynir og Ólafur hafa myndað bandalag um að viðhalda óvild í garð þeirra sem Baugsmenn áreittu á meðan þeir voru og hétu.

Þriðjudagur 26. 07. 11. - 26.7.2011

Eftir ríkisstjórnarfund í dag þar rætt var um viðbrögð íslenskra stjórnvalda vegna blóðbaðsins í Noregi 22. júlí sagði Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra að hann ætlaði að láta endurskoða vopnalögin. Hann sagði ekki til hvers en hugmyndin er ekki frumleg því að hún er einnig til umræðu í Danmörku eins og sjá má hér.

Í Danmörku ræða stjórnmálamenn um að PET, danska leyniþjónustan, eigi að taka þátt í útgáfu á leyfum til að eiga skotvopn. Í máli Ögmundar Jónassonar kom ekki fram hvort hann ætlaði að veita lögreglunni hér heimild til forvirkra rannsókna til að geta beitt nýjum aðferðum við útgáfu vopnaleyfa. Danskur lagaprófessor segir að menn geti ekki breytt vopnalögum á þann hátt að það útiloki voðaverk. Hið sama á vissulega við hér á landi.

Raunar er jafnerfitt að átta sig á því hvert Ögmundur er að fara í ummælum um vopnalögin vegna atburðanna í Noregi og því sem hann segir um vandræðin í ríkisstjórninni við ákvörðun um nýtt fangelsi. Í nokkurn tíma hefur átt að taka ákvörðun um næsta skref vegna byggingar nýs fangelsis á næsta ríkisstjórnarfundi og þá meðal annars í dag. Það gerðist þó ekki og þá sagðist Ögmundur fagna því að ákvörðun ætti að taka fyrir lok ágúst!

Ef deilan um fangelsið snýst um hvort ríkið ætlar að reisa og eiga bygginguna eða hvort hún eigi að vera í einkaeign verður hún ekki leyst fyrir lok ágúst nema annar hvor gefi sig Ögmundur eða Steingrímur J. Augljóst er að ríkissjóður hefur ekki burði til að standa straum af byggingarkostnaðinum og skýrðist það enn betur en áður á ríkisstjórnarfundi í morgun þegar í ljós kom að Steingrímur J. hefur ekki sagt satt um hag ríkissjóðs. Hvers vegna vill Ögmundur fresta ákvörðun um einkaframkvæmdina fram undir lok ágúst? 

Mánudagur 25. 07. 11. - 25.7.2011

Norski fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik var leiddur fyrir dómara í Ósló í dag og úrskurðaður í átta vikna gæsluvarðhald. Gamall skólabróðir hans, Peter Svaar, sem nú er fréttamaður á NRK, norska útvarpinu, skrifar á vefsíðu þess:

„Allt sem hefur gerst eftir að sprengjan sprakk klukkan 15.28 á föstudag hefur verið samkvæmt áætlun hans [Breiviks] . Mesti ótti minn er sá að hann leiki áfram á okkur – fjölmiðla, almenningsálitið – eins og píanó.“

Um 150.000 manns fóru um götur Óslóar undir kvöld til að votta hinum látnu virðingu sína og aðstandendum þeirra samúð.

Nú hefur verið upplýst að PST, norska leyni- og öryggislögreglan, hafði athugað Breivik í mars vegna þess að hann keypti efni á válista frá Póllandi. Lögreglan gerði ekkert í málinu þar sem viðskiptin voru smávægileg og voru talin snerta búskap Breiviks.

Þetta atvik staðfestir tvennt: Með því að flytja út í sveit og þykjast stunda búskap tókst Breivik að skapa skjól til undirbúnings glæpaverki sínu. Forvirkar rannsóknarheimildir PST gera lögreglunni kleift að fylgjast með þeim sem kaupa hættuleg efni til innflutnings.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefur boðað að ríkisstjórnin ætli á fundi sínum á morgun að ræða ódæðisverk Breiviks með hliðsjón af aðstæðum hér á landi. Ætlar Jóhanna að beita sér fyrir því að íslenska lögreglan fái forvirkar rannsóknarheimildir á borð við þær sem norska lögreglan hefur? Hvað með Ögmund Jónasson innanríkisráðherra ætlar hann að beita sér fyrir lagasetningu um slíkar heimildir?

Sunnudagur 24. 07. 11. - 24.7.2011

Í morgun klukkan 09.00 sá ég beina útsendingu í danska sjónvarpinu frá messu í dómkirkjunni í Ósló þar sem minnst var voðaverkanna í borginni og Útey föstudaginn 22. júlí. Ég dáist af Jens Stoltenberg forsætisráðherra fyrir framgöngu hans og ávarp við athöfnina.

Mér þótti merkilegt að lesa í franska blaðinu Le Monde að í Noregi hefðu ekki verið lögfestar reglur um samræmd viðbrögð á hættutímum heldur er brugðist við hverju tilviki ad hoc það er eftir aðstæðum hverju sinni. Í tíð minni sem dómsmálaráðherra voru sett ný almannavarnalög þar sem meðal annars er mælt fyrir um viðbrögð í samræmi við hættustig eins og er í Frakklandi og fjölda annarra ríkja.

Í erlendum netmiðlum má lesa um spurningar til norsku lögreglunnar vegna þess að það tók hana 60 mínútur [ekki 90 mínútur eins og ég sagði hér á síðunni í gær] að komast í Útey.

Laugardagur 23. 07. 11. - 23.7.2011

Í dag skrifaði ég leiðara um hið ógnvekjandi ódæðisverk í Noregi á Evrópuvaktina og má lesa hann hér.

Almennt er litið til norsks samfélags sem fyrirmyndar að því er varðar samheldni og stöðugleika. Þessi mynd skekkist við atburð eins og þennan. Er með ólíkindum að í opnu, lýðræðislegu þjóðfélagi telji einstaklingur svo að sér þrengt og skoðunum sínum að hann verði að grípa til fjöldamorða í því skyni að skapa sér svigrúm eða breyta stefnu samfélagsins. Í þessu ljósi ber að skoða yfirlýsingar norskra ráðamanna um að þeir ætli ekki að láta fólskuverkið vega að hinum samfélagslegu gildum.

Hryðjuverk af hvaða toga sem er kalla á samfélagsleg viðbrögð. Norska ríkið býr yfir öllum tækjum til að takast á við hættuna af hryðjuverkamönnum. Þar er öflug leyni- og öryggislögregla sem fylgist náið með hópum sem taldir eru líklegastir til að láta til skarar skríða. Starfa hóparnir í þágu pólitískra hugsjóna eða undir merkjum náttúru- og umhverfisverndar. Á hinu áttu norsk yfirvöld greinilega ekki von að einn af borgurum landsins gripi til vopna á þann hátt sem gert var 22. júlí. Að það tók lögreglu 90 mínútur að komast út í Útey til að bjarga unga fólkinu undan skothríðinni vekur strax spurningar og gagnrýni.

Jóhanna Sigurðardóttir sagði í sjónvarpi í dag að ríkisstjórnin mundi á næsta fundi sínum ræða aðgerðir til að efla öryggi hér á landi eftir voðaverkið í Noregi. Því miður var hún ekki spurð um í hverju aðgerðirnar ættu að felast.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur rætt um forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu án þess að þær eigi að snúa að hópum af pólitískum toga. Undir þá skilgreiningu falla umhverfis- og náttúruverndarsinnar og ýmsir hryðjuverkahópar. Þá segist ódæðismaðurinn í Ósló og Útey vinna að pólitísku markmiði með fjöldamorðinu. Ef fylgst hefði verið með vefsíðu hans hefði kannski mátt greina hvað fyrir honum vakti. Hann hafði hins vegar aldrei komist í kast við lögin og lá ekki undir grun þrátt fyrir öfgafullar skoðanir.

Ætlar Jóhanna að fá Ögmund ofan að fyrirvara sínum gagnvart forvirkum rannsóknarheimildum? Verður atvikið í Noregi til þess að ríkisstjórn Jóhönnu hefst handa við að koma á fót leyni- og öryggislögreglu hér á landi? Þar sem hún hefur aðild að ESB á stefnuskrá sinni slægi hún tvær flugur með þeirri ákvörðun, hún efldi innra öryggi og lagaði sig að kröfum ESB á sviði öryggismála.
Föstudagur 22. 07. 11. - 22.7.2011

Þegar Fréttatíminn er lesinn verða menn að hafa í huga að þar eru við stjórnvöl menn sem störfuðu árum saman á Baugsmiðlum. Jón Kaldal, ritstjóri Fréttatímans, veigraði sér ekki við að snúast til varnar fyrir eigendur Fréttablaðsins þegar hann sat þar sem ritstjóri og Baugsmenn sátu ákærðir fyrir rétti. Hann er því að verja eigið skinn þegar hann gerir lítið úr þeim sem gagnrýna Fréttablaðið fyrir eigendaþjónkun. Í nafnlausum dálki í Fréttatímanum 22. júlí segir meðal annars:

„Björn [Bjarnason] fullyrðir í bloggi sínu að póstum Jónínu hafi verið stolið. Ekkert liggur þó fyrir um það. Aldrei hefur verið upplýst eftir hvaða leiðum póstarnir bárust Fréttablaðinu.“

Ég hef ekki búið þá kenningu til að tölvubréfum Jónínu Benediktsdóttur hafi verið stolið. Það hef ég eftir Sigurjóni M. Egilssyni sem hreykir sér af því að hafa komið þessu efni í blaðið. Hann sagði 2. maí 2009 á vefsíðunni Eyjunni:

„Eftir á að hyggja tel ég möguleika á að sá sem stal tölvupóstum Jónínu Benediktsdóttur hafi fengið greitt fyrir þá. Ég er svo sem ekki viss, en eðlilega hef ég oftsinnis hugsað um þetta. “

Í Fréttatímanum er mér bent á að M. í nafni Sigurjóns stendur fyrir Magnús en ekki Már eins komist hafði inn í höfuðið á mér og þakka ég þá ábendingu og bið Sigurjón M. velvirðingar og aðra sem þetta hefur valdið leiðindum.

Í pistli hér á siðunni i byrjun vikunnar sagði ég meðal annars:

„Baugsmiðlarnir, einkum Fréttablaðið, hafa þjónað eigendum sínum og stjórnmálamönnum í náð þeirra betur en Murdoch-miðlarnir skjólstæðingum sínum.“

Á Fréttatímanum segja þeir að þessi orð geri mig uppvísan „að einstökum þekkingarskorti um bresk stjórnmál og blaðamarkað". Allir viti að Murdoch leggi blöðum sínum pólitískar línur. Þá hafi Murdoch gefið fyrirmæli um efni á forsíðum blaða sinna. Þá segir í Fréttatímanum: „Engin slík tengsl liggja fyrir milli eigenda 365 og fjölmiðla félagsins.“ Þetta fullyrðir enginn nema sá sem hefur verið innanbúðar á Fréttablaðinu og telur sig vita allt sem vita þarf. Fullyrðinguna er ástæða til að ræða við annað tækifæri. Höfundurinn í Fréttatímanum kýs hins vegar að horfa fram hjá þeim dæmum sem ég nefni í pistli mínum um þjónkun Fréttablaðsins við eigendur sína vegna sakamáls á hendur þeim. Hvergi hefði Murdoch-miðli liðist slík þjónusta við eiganda sinn eða þá stjórnmálamenn sem hefðu lagt honum lið í málavafstrinu. Um það snýst samanburður minn. Blaðamenn News of the World birtu stolin gögn til að selja blaðið. Í Fréttablaðinu birtust stolin gögn til að styrkja stöðu eigenda blaðsins vegna sakamáls á hendur þeim.

Fimmtudagur 21. 07. 11. - 21.7.2011

Evru-leiðtogarnir komust að niðurstöðu í dag um hvernig fleyta skuli Grikkjum áfram á skuldasúpu þeirra án þess að stoðum sé kippt undan evrunni. Þeir taka fram að staða Grikklands sé einstök og þess vegna sé unnt að krefjast þess þar að bankar leggi sitt af mörkum til að leysa skuldavandann. Þetta eigi ekki við um Írland og Portúgal, vextir á neyðarlánum þeirra eru hins vegar lækkaðir í 3,5% eins og á lánum Grikkja.

Þetta skref dugar ekki til að leysa evru-svæðið úr klemmunni. Áfram verður barist með smáskammtalækningum þar til komið verður á miðstýringu í fjármálum svæðisins eða skuldugu ríkjunum verður vísað á dyr.

Trond Giske, atvinnumálaráðherra Noregs, segir að vandinn á evru-svæðinu sé þess eðlis og verði svo langvinnur að öll áform um ESB-aðild Noregs eigi að leggja til hliðar en þar eru nokkrir friðlausir ESB-aðildarsinnar, meðal annars í sama flokki og Giske, Verkamannaflokknum, systurflokki Samfylkingarinnar.

Hið merkilega er að enginn málsmetandi forystumaður innan Samfylkingarinnar átti sig á skynsemi þess að skapa sér sérstöðu innan flokksins með því að lýsa stöðunni innan ESB af sama raunsæi og Trond Giske gerir. Það yrði örugglega metið þeim stjórnmálamanni til tekna í komandi formannsátökum innan ESB og styrkja stöðu hans gagnvart Össuri Skarphéðinssyni sem vinnur leynt og ljóst að því að ýta Jóhönnu til hliðar og gera sjálfan sig að augljósu formannsefni.

Miðvikudagur 19. 07. 11. - 20.7.2011

David Cameron, forsætisráðherra Breta, stóð sig með miklum ágætum í breska þinginu í morgun þegar hann flutti skýrslu um hleranamál News of the World og pólitísk ítök og áhrif Murdoch-veldisins í Bretlandi. Verkamannaflokkurinn sat í raun eftir með sárt enni enda eiga forystumenn hans í vök að verjast þegar bent er á hin nánu tengsl sem voru á milli þeirra og Murdochs í valdatíð þeirra.

Ed Miliband, leiðtogi Verkamannaflokksins, sló sér upp á því í síðustu viku að snúast af hörku gegn Murdoch-veldinu. Hann ríður hins vegar ekki feitu hrossi frá pólitískri viðureign sinni við Cameron um málið.

Í Fréttablaðinu er sagt frá því í dag að 37 umsækjendum um starf upplýsingafulltrúa í forsætisráðuneytinu hafi verið tilkynnt að hætt hefði verið við að ráða í starfið þrátt fyrir að ráðningarferli hafi verið lokið. Engin efnisleg skýring er gefin. Ákvörðunin er hins vegar í samræmi við þögnina sem Jóhanna Sigurðardóttir kýs að ríki um gegnsæja stjórnsýslu sína í anda skýrslu rannsóknarnefndar alþingis.  Fróðlegt verður að fylgjast með því hvaða spuni verður notaður til að tala Jóhönnu frá því að vilja ekki upplýsingafulltrúa þegar hraðar hallar undan færi hjá henni en nokkru sinni - meðal annars vegna skorts á upplýsingum til dæmis um það sem gerðist í samskiptum Jóhönnu við kínverska forsætisráðherrann.


Þriðjudagur 19. 07. 11. - 19.7.2011

Rupert Murdoch var stundum utangátta á fundi með bresku þingnefndinni í dag og bar eðlilega með sér að vera orðinn 80 ára þótt hann sé ern. Hvorki hann né James, sonur hans, virtust hafa mikla hugmynd um hvað gerðist +a ritstjórnum fjölmiðla þeirra. Fyrir yfirheyrsluna var ég í hópi þeirra sem trúði því sem sagt hefur verið í áranna rás að Murdoch hefði fingurinn á púlsi fjölmiðla sinna. Hann lagði hins vegar áherslu á við þingmeenn að hann hefði 52 til 53 þúsund starfsmenn í þjónustu sinni á um 200 dagblöðum og hann vissi ekki hvað gerðist innan þeirra. Þó sagðist hann ávallt hringja í ritstjóra The Sunday Times síðdegis á laugardögum og hann hefði að jafnaði einnig rætt við ritstjóra News of the World fyrir útkomu blaðsins.

Mánudagur 18. 07. 11. - 18.7.2011


Í dag eru 50 ár frá því að Varðberg var stofnað og í tilefni af því ritaði ég grein í Morgunblaðið sem lesa má hér.

Þá skrifaði ég pistil hér á síðuna um Murdoch-fjölmiðlaveldið annars vegar og Baugsmiðlaveldið hins vegar. Þegar á reynir er vernd Baugsmiðlaveldisins meiri en Murdoch-veldisins. Baugsmiðlarnir, einkum Fréttablaðið, hafa þjónað eigendum sínum og stjórnmálamönnum í náð þeirra betur en Murdoch-miðlarnir skjólstæðingum sínum.

Í Bretlandi þorðu menn ekki að rísa gegn fjölmiðlaveldi Murdoch fyrr en dýrið var sært eins og einn álitsgjafi í Bandaríkjunum orðar það. Þá vilja margir komast út á völlinn til að skjóta það. Hér er enn skotið á þá sem vekja máls á eðli fjölmiðlastarfseminnar sem stunduð er og hefur verið í skjóli Baugs. Sárafáir þora í raun að horfast í augu við meinsemdina hvað þá heldur að taka á henni. Þess vegna hefur hún víða skotið sér niður.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, hljóp illilega á sig með árás á sauðfjárbændur vegna hækkunar á lambakjöti. RÚV reynir að leggja honum lið eins og jafnan er gert á þeim bæ þegar vegið er að bændum. Það er víst liður í samfylkingarbaráttunni fyrir aðild Íslands að ESB. Hvað skyldu Gylfi og félagar segja um hinar miklu hækkanir á matvælum innan ESB að undanförnu?

Sunnudagur 17. 07. 11. - 17.7.2011

Í dag var Skálholtshátíð þar sem Karl Sigurbjörnsson biskup predikaði yfir þéttsetinni kirkju. Það jók á hátíðina að hópur pílagríma sem gengið hafði á tveimur dögum frá Þingvöllum gekk berfættur síðasta spölinn inn kirkjugólfið.

Klukkan 17.00 flutti Skálholtskvartettinn verk eftir Haydn og Schubert og va honum fagnað sérstaklega þar sem þetta voru 15 ára afmælistónleikar kvartettsins. Ég hef ferðast með honum víða um lönd undanfarin ár eins og lýst hefur verið hér á síðunni.

Laugardagur 16. 07. 11. - 16.7.2011


Hér á síðunni hefur því verið haldið fram að álit meirihluta utanríkismálanefndar alþingis vegna umsóknar um ESB-aðild Íslands væri máttlaust. Nú hefur komið í ljós að svo lítið er að marka það að ekki er einu sinni farið eftir því af formanni nefndarinnar, Árna Þór Sigurðssyni, þingmanni vinstri grænna. Hann hefur neitað að kalla utanríkismálanefnd saman til að þingmenn séu upplýstir um ESB-ferlið og hvað sagt er af Íslands hálfu. Um þetta má fræðast hér.

Í kvöld er hin magnað kvikmynd Nixon sýnd í sjónvarpinu. Þar kynnast menn því hve hættulegt er fyrir stjórnmálamenn að stunda cover up það er að taka ekki mið af staðreyndum og miðla þeim heldur grípa til ósanninda til að fegra eigin hlut eða fela eitthvað sem er þeim óþægilegt. 

Rupert Murdoch glímir við slíkan vanda núna. Honum tekst ekki að bjarga fjölmiðlaveldi sínu nema með því að rata sannleiksveginn.

Allt bendir til þess að Össur Skarphéðinsson hallist að því að besta leið sín til að þoka Íslandi inn í ESB sé að segja ekki alla söguna. Tregðan til að leggja spilin á borð utanríkismálanefndarmanna er liður í þeirri málsmeðferð.


Föstudagur 15. 07. 11. - 15.7.2011

Í dag ræddi Fréttablaðið við Gest Jónsson, hrl. og lögfræðing Jóns Ásgeirs, sem sagðist hafa samið stefnu fyrir hönd umbjóðanda síns gegn mér fyrir meiðyrði í bókinni Rosabaugur yfir Íslandi. Hún yrði birt mér í haust enda væri réttarhlé að hefjast. Í tilefni fréttarinnar sendi Ingi Freyr Vilhjálmsson, blaðamaður á DV, mér tölvubréf og bað um álit mitt á orðum Gests. Ég svaraði með þessu bréfi:


„þið vitið meira um meiðyrðamál á DV en ég og hef ég litlu við þekkingu ykkar að bæta á því sviði. Þegar mér var bent á þau pennaglöp mín að nota orðið „fjárdráttur“ í staðinn fyrir „meiriháttar bókhaldsbrot“ sem er refsivert á sama hátt og fjárdráttur leiðrétti ég það samstundis með opinberri yfirlýsingu og afsökun. Í annarri prentun bókar minnar hefur þetta einnig verið leiðrétt. Ég get í raun ekki sagt meira um þetta mál. Mér er ekki ljóst hvaða fleiri ummæli munu sæta stefnu af hálfu Jóns Ásgeirs. Menn taka á slíkum málum eins og þau eru fyrir þau lögð og snúast til varnar. Baugsmenn vildu á sínum tíma að ég yrði strikaður út af alþingi nú vilja þeir strika yfir þessa bók mína. Hún selst hins vegar vel og hef ég fengið fyrirspurnir um hvort ég kunni að skrifa hana fyrir erlendan markað til að menn utan Íslands geti áttað sig á viðskiptaháttum Baugsmanna, málaferlunum og stjórnmálabaráttunni sem kemur við sögu í bókinni. Ég hef ekki tekið ákvörðun um það efni en vissulega yrði meiðyrðamál af hálfu Jóns Ásgeirs efni í viðauka við bókina.“

Ingi Freyr birti þetta svar mitt á dv.is en sleppti þó fyrstu setningunni þar sem ég vísaði til þekkingar DV-manna á meiðyrðamálum enda sagðist hann ekki hafa spurt mig um það efni. Mér skildist þó á honum að undarlegt væri að stefna manni sem hefði leiðrétt það sem annar maður teldi sér til ávirðingar og beðið viðkomandi afsökunar. Líklega er það þess vegna sem Gestur Jónsson segir í Fréttablaðinu að þeir hafi ýmislegt fleira í pokahorninu gegn mér og þess vegna muni þeir sækja mig til saka.

Fimmtudagur 14. 07. 11. - 14.7.2011

Í hádeginu flutti ég erindi og svaraði fyrirspurnum í Rótary-klúbbi Hafnarfjarðar um Rosabaug yfir Íslandi.

Ég benti meðal annars á að væri mál af sama tagi og Baugsmálið til meðferðar hjá sérstökum saksóknara þætti mér ekki líklegt að maður í þeirri stöðu sem Jón Gerald Sullenberger hafði í Baugsmálinu yrði ákærður þar sem í lögum um sérstakan saksóknara væru ákvæði um réttarstöðu uppljóstrara. Þessi ákvæði eru nýmæli í íslenskum sakamálalögum en ákvæði í svipaða veru hafa hins vegar verið í samkeppnislögum.

Þegar til þess er litið hve mikið var gert úr því í Baugsmálinu að í aðdraganda kæru Jóns Geralds á hendur Baugsmönnum hefðu þjóðkunnir menn rætt saman um val á lögfræðingi fyrir hann vaknar spurning hvort við núverandi aðstæður yrði hneykslast jafn mikið og grimmilega yfir því að stuðlað yrði að uppljóstrun þess sem menn teldu ólögmætt athæfi fésýslumanna.

Miðvikudagur 13. 07. 11. - 13.7.2011

Þegar ég ók austan úr Fljótshlíð upp úr hádeginu mætti ég fjölmörgum bifreiðum frá björgunarsveitum sem fluttu leitarmenn að Fimmvörðuhálsi vegna neyðarkalls frá belgískum karli sem hafði slasast og var einn á ferð. Hann fannst sem betur undir kvöld, heill á húfi. Hinir öflugu bílar voru táknrænir fyrir þær öflugu sveitir sem að baki þeim standa.

Í kvöld ræddi ég bók mína Rosabaug yfir Íslandi á fundi hjá Heimdalli. Einn fundarmanna spurði hvort Jón Ásgeir Jóhannesson hefði stefnt mér fyrir meiðyrði þar sem ég notaði fyrir mistök orðið „fjárdrátt“ yfir brot hans í stað þess að segja „meiriháttar bókhaldsbrot". Ég sagðist ekki hafa fengið neina stefnu. Fundarmaður hafði eftir Jóni Ásgeiri að hann hefði þegar stefnt mér fyrir nokkrum vikum.

Það er fróðlegt að fara á fundi eins og þennan og ræða bókina við fólk sem hefur lesið hana eða lesið um hana og heyra við hvað það staldrar.

Óli Björn Kárason vekur máls á því á vefsíðu sinni í dag, að í Bretlandi sé allt á öðrum endanum vegna þess að Murdoch-miðlar hafa brotist inn í síma og stolið upplýsingum. Fréttablaðið birti í september 2005 tölvubréf sem að sögn Sigurjóns Más Egilssonar, fréttaritstjóra blaðsins, var stolið frá Jónínu Benediktsdóttur og birti blaðið bréfin til að rétta hlut eigenda sinna með það fyrir augum að sanna að þeir sættu pólitískum ofsóknum og stjórnmálamenn hefðu sigað lögreglunni á þá.

Varð allt vitlaust hér á landi af hneykslun yfir innbrotinu í tölvu Jónínu? Nei, síður en svo. Menn létu sér nægja að hneykslast á efni stolnu bréfanna. Datt einhverjum í hug að eigendur Fréttablaðsins myndu hætta útgáfu vegna birtingar á stolnum einkabréfum? Nei. Þeir sem hefðu krafist þess, hefðu einfaldlega verið úthrópaðir sem óvinir ritfrelsis. Hefði ég sagt eitt orð um málið, hefði það verið notað í réttarsalnum til að eyðileggja málstað ákæruvaldsins.Þriðjudagur 12. 07. 11. - 12.7.2011

Forystumenn allra flokka á breska þinginu hafa nú tekið höndum saman gegn fjölmiðlakónginum Rupert Murdoch eftir að upplýst hefur verið um gagnrýnisverð vinnubrögð á blöðum Murdochs. Murdoch-miðlarnir eru allir undir smásjánni og því er jafnvel spáð að Murdoch ákveði að selja blöð sín í Bretlandi til að losna undan þeim mikla þrýstingi sem er á hann þar.

Að leiðtogar allra bresku stjórnmálaflokkanna sameinist á þann veg sem nú hefur gerst er mjög sjaldgæft og fjölmiðlamenn segja að það gerist ekki nema þegar mikil vá steðjar að þjóðinni, eins og á stríðstímum. Augljóst er að í skjóli Murdochs, vináttu hans við stjórnmálaleiðtoganna í áranna rás og miskunnarlausri meðferð á þeim sem ekki njóta náðar, hafa ritstjórar og blaðamenn talið sig geta farið sínu fram á þann veg sem þeim sjálfum sýndist við öflun frétta.

Eins menn sjá í bók minni Rosabaugi yfir Íslandi  þar sem ítarlega er sagt frá Baugsmiðlunum og hvernig þeim var beitt í þágu eigenda sinna einkenndust skrifin oft af dæmalausu yfirlæti og óvild í garð þeirra sem blaðamenn töldu andvíga eigendum miðlanna. Hér á landi tókst hins vegar ekki að mynda samstöðu á stjórnmálavettvangi til að setja hæfilegar skorður við eignarhaldi á fjölmiðlum. Þvert á móti lauk tilraun þáverandi ríkisstjórnar til þess á árinu 2004 á þann veg að hinir umsvifamiklu fésýslumenn töldu sig hafa fengið meira svigrúm frekan en minna.

Samþjöppun á íslenskum fjölmiðlamarkaði er enn meiri en góðu hófi gegnir. Nýlega færði 365, kjarni Baugsmiðlanna gömlu, sig meira að segja upp á skaftið með því að eignast stóran hlut í tímaritaútgáfufyrirtækinu Birtíngi. Í umsögnum um bók mína hefur birst viðleitni til að verja óbreytta stöðu á íslenskum fjölmiðlamarkaði og enn þann dag í dag er fundið að því að ég noti orðið Baugsmiðlar.

Eftir bankahrunið og vegna þess sem gerðist í aðdraganda þess hafa verið háar kröfur um að stjórnmálamenn og fjármálamenn geri hreint fyrir sínum dyrum. Með nokkrum ólíkindum er að hins sama sé ekki krafist af fjölmiðlamönnum. Margt af því sem sumir þeirra tóku sér fyrir hendur verður aldrei unnt að rúma innan ramma hefðbundinnar blaðamennsku.

Mánudagur 11. 07. 11. - 11.7.2011

Jóhanna Sigurðardóttir hitti Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, á fundi í Berlín í dag. Í frétt ruv.is um fundinn segir:

„Eitt helsta markmiða fundarins var að kynna samningsmarkmið Íslendinga í aðildarviðræðum við Evrópusambandið.“
Samkvæmt þessu er Angela Merkel betur að sér um stöðu íslenskra stjórnvalda gagnvart ESB en Íslendingar. Ríkisstjórnin hefur ekki kynnt nein samningsmarkmið opinberlega. Hvaða markmið kynnti Jóhanna?

Stefán Haukur Jóhannesson, formaður íslensku viðræðunefndarinnar, hefur sagt að samningsmarkmið verði mótuð eftir hendinni af nefnd sinni. Í þeim orðum felst að nefndin ætli að gæta þess að ekki slitni upp úr viðræðunum heldur takist sameiginlega að setja orð á blað sem síðan verði borin undir Íslendinga í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er eina markmið íslensku nefndarinnar og vissulega má kalla það samningsmarkmið. Var það þetta markmið sem Jóhanna kynnti fyrir Merkel?

Sunnudagur 10. 07. 11 - 10.7.2011

Myndirnar af Rupert Murdoch og nánustu samstarfsmönnum hans á SKY-sjónvarpsstöðinni, sem undir eignarhaldi Murdochs, þar sem þeir komust ekki út úr heimili Murdochs í London í dag vegna ágangs fjölmiðlamanna, urðu að snúa aftur og velja bakdyr til að komast út að borða kvöldverð voru áminning um að fjölmiðlakóngurinn er í þröngri stöðu almennt vegna hneykslins á News of the World sem kom út í síðasta sinn í dag eftir samfellda útgáfu í 168 ár. Blaðið var stökkpallur Murdochs inn í breska fjölmiðlaheiminn fyrir 42 árum og síðan einn af hornsteinum fjölmiðlaveldis hans sem teygir sig um heim allan.

Löngum hefur vakið undrun mína hve forsætisráðherrar í Bretlandi leggja mikla áherslu á að hafa fyrrverandi ritstjóra á götublöðum sem upplýsingafulltrúa sína. Það er áminning um hve stjórnmálamönnum í Bretlandi er brýnt að eiga beinan aðgang að fjölmiðlum, ekki endilega til að tryggja stuðning þeirra heldur minnka líkur á árásum og uppljóstrunum um mál sem hneykslar almenning. Hneykslið tengt Murdoch að þessu sinni snýst einmitt um þær ólöglegu leiðir sem starfsmenn hans hafa farið til að afla upplýsinga um fólk í fréttunum, það er með því að brjótast inn í síma þeirra.

Þegar forystumenn innan Murdoch-veldisins eru dregnir fyrir lögreglu og dómara vegna vinnubragða sinna er líklegt að skuggi falli á fleiri en þá.

The Daily Telegraph birti dag eftir dag fréttir af því fyrir nokkrum misserum hvernig breskir þingmenn misnotuðu aðstöðu sína til að fá starfs- og húsnæðiskostnað greiddan af þinginu. Varð þetta til að minnka álit almennings á þingmönnum. Nú segja menn að blaðamenn fái á baukinn vegna fréttanna af ritstjórn mest selda blaðs Murdochs.

ráttur

Laugardagur 09. 07. 11. - 9.7.2011

Heyskapur er kominn á fullan skrið í blíðviðrinu í Fljótshlíðinni.  Fjöldi ferðamanna er á svæðinu þótt ekki séu þeir eins margir og á útihátíðinni á Gaddastaðaflöt við Hellu.

Ég skrifaði í dag leiðara á Evrópuvaktina um áhuga forystumanna í Þýskalandi á að auka miðstýringu innan ESB til að sigrast á evru-kreppunni. Mér finnst ólíklegt að viðræður Jóhönnu Sigurðadóttur og Angelu Merkel í Berlín á mánudag nái upp í þessar hugmyndir um breytingu á ESB úr ríkjasambandi í sambandsríki.

Þegar samfylkingarfólk og aðrir ESB-aðildarsinnar hér á landi ræða um ESB forðast þeir að minnast á evru-vandann eða önnur vandræði innan sambandsins. Þeir tala enn eins og þar sé allt í himnalagi, málið snúist bara um að bera saman íslensk lög og ESB-lagabálkinn og leysa úr tæknilegum vanda. Merkel verður áreiðanlega undrandi þegar Jóhanna tekur til við að ræða ESB-málefni á þessum forsendum en ekki stöðuna innan þess á líðandi stundu og hvert stefni í framtíðinni.

Föstudagur 08. 07. 11. - 8.7.2011

Líklega þarf það ekki að koma á óvart að Evrópuvefur sem haldið er úti af Háskóla Íslands á kostnað alþingis sé hlutdrægur í anda þess sem elítan í Evrópu telur nauðsynlegt til að efla Evrópusambandið.

Páll Vilhjálmsson bendir á það á vefsíðunni sinni í dag að á Evrópuvefnum segi um breytingar á valdahlutföllum innan ESB við gildistöku atkvæðareglna Lissabon-sáttmálans árið  2014:

„Af þessu má sjá að breytingar á hlutföllum milli smáríkja og stærri ríkja með Lissabon-samningnum eru óverulegar.“

Hið rétta er eins og Páll segir er að frá og með árinu 2014 mun Lissabon-sáttmálinn breyta verulega valdahlutföllum í Evrópusambandinu með því að atkvæðavægi aðildarþjóða í leiðtogaráðinu fer framvegis eftir íbúafjölda.

Svo dæmi sé tekið er Þýskaland nú með rúm 8 prósent atkvæðavægi en verður með 16 prósent. Malta er í dag með 0,9 prósent en vægi Möltu fellur tífalt árið 2014 og verður 0,08 prósent.

Ég segi í upphafi þessarar færslu að þessi afstaða af hálfu HÍ þurfi ekki að koma á óvart með vísan til elítu-sjónarmiða í ESB-ríkjum en þeim er til dæmis lýst hér.

Fimmtudagur 07. 07. 11. - 7.7.2011

Morgunblaðið hefur í tæpa viku leitað eftir svörum frá forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur um hvers vegna hún hafi neitað að ljá máls á því að forsætisráðherra Kína kæmi hingað til lands 14. júlí með 100 manna viðskiptafylgdarliði. Í dag gengur Hannar B. Arnarsson, aðstoðarmaður forsætisráðherra, fram fyrir skjöldu og segir Morgunblaðið fara með rangt mál. Jóhanna hafi samþykkt fund með kínverska ráðherranum hinn 14. júlí, en svo hafi ferðaáætlun hans breyst og nú sé unnið að því að finna nýja dagsetningu. Hann segir að ráðuneyti og kínverska sendiráðið hafi oft bent Morgunblaðinu á hið rétta í málinu.

Enn einu sinni lendir Jóhanna Sigurðardóttir í vandræðum vegna þess að henni er fyrirmunað að eiga eðlileg samskipti við þá sem beina til hennar spurningum. Nýlega veitti ríkisendurskoðun Jóhönnu ákúrur fyrir hvernig hún stóð að því að svara fyrirspurn á alþingi. Við ráðningu Más Guðmundssonar í stöðu seðlabankastjóra var þannig staðið að ákvörðun launakjara hans að gagnrýni sætti. Þá fór Jóhanna undan í flæmingi og reyndi að telja mönnum trú um að þau Már hefðu ekki rætt starfskjör hans þegar gengið var frá ráðningu hans.

Eitt er að Jóhanna og aðstoðarmaður hennar haldi illa á málum sem snerta ráðherrann og embættisfærslu hans annað að þingflokkur Samfylkingarinnar skuli líða ráðherranum að grafa undan trúverðugleika flokksins með þessari framkomu. Hið einkennilega er að því verr sem Jóhanna stendur sig þeim minni líkur eru á að þingflokkur Samfylkingarinnar hrófli við henni. Sífellt fleiri þingmenn Samfylkingarinnar óttast að ná ekki endurkjöri á þing verði gengið til kosninga. Jóhanna hótar þeim að rjúfa þing leyfi þeir sér að hrófla við henni.

Hernaðarlist Jóhönnu og Hrannars er nú sögð sú að hafa alla gagnrýni að engu og svara fjölmiðlum sem gagnrýna Jóhönnu fullum hálsi og saka blaðamenn þeirra um ósannindi. Hvorugt þeirra hafi í sjálfu sér nokkru að tapa þótt fylgi Samfylkingarinnar minnki, Jóhanna muni hvort sem er ekki bjóða sig fram að nýju. Minnkandi fylgi Samfylkingar minnki einnig líkur á því að þingmenn Samfylkingar ýti Jóhönnu til hliðar vegna ótta þeirra við kosningar.

Miðvikudagur 06. 07. 11. - 6.7.2011

Mikið uppnám er í Bretlandi vegna uppljóstrana um að blaðamenn News of the World víðlesnasta götublaðs landsins hafi hlerað síma til að afla sér frétta. Þeir hafi fengið einkaspæjara og tölvuþrjóta í lið með sér við þessa skammarlegu fréttaöflun auk þess sem þeir hafi keypt upplýsingar af rannsóknarlögreglumönnum sem unnu við sakamál í sviðsljósinu á hverjum tíma. David Cameron forsætisráðherra ætlar að stofna til opinberrar rannsóknar á málinu. Hann er hvattur til að fela öðrum en lögreglunni að stjórna rannsókninni því að hún sé ekki óhlutdræg.

Þetta er í raun ótrúlegt mál og ber breskri götublaðamennsku ekki gott vitni. News of the World er í eigu fjölmiðlakóngsins Ruperts Murdochs. Hann á fleiri fjölmiðla í Bretlandi til dæmis Sky News og The Times. Í umræðum um þetta hneyksli tala menn um the Murdoch press í Bretlandi. Hvort starfsmenn Murdoch-miðlanna líta á það sem móðgun að vinnustaðir þeirra skuli kenndir við eigandann þekki ég ekki. Hitt veit ég að hér líta margir á það sem móðgun ef þeir eru sagðir vinna á Baugsmiðlunum. Forvitnilegt væri að einhver tæki sér fyrir hendur að greina hvers vegna það fer svona illa í marga að fjölmiðlarnir sem Baugur átti séu kenndir við eiganda sinn.

Murdoch press segja menn til að minna á hið mikla fjölmiðlaveldi Murdochs. Á sínum tíma var talað um Springer Press í Þýskalandi og var þar meðal vísað til Die Welt og Bild í eigu Axels Springers. Þá eru fjölmiðlar kenndir við Schibsted-gruppen í Noregi og Bonnier Press er í Svíþjóð.  Þannig má lengi telja því að víða eru fjölmiðlar kenndir við eigendur sína enda eru þeir einnig oft andlit þeirra út á við eins og Murdoch eða Sulzberger-fjölskyldan fyrir The New York Times og Katherine heitin Graham fyrir The Washington Post. 

Hið sérkennilega væl hérna vegna þess að talað er um Baugsmiðla er aðeins til marks tilraunir til draga athygli að hreinum aukaatriðum í umræðum um þjóðfélagsmál. Í raun snúast þær alltof mikið um þau atriði af því að menn annað hvort forðast kjarna málsins eða skortir hæfni til að átta sig á honum.

Þriðjudagur 05. 07. 11. - 5.7.2011

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, hefur óskað eftir fundi í utanríkismálanefnd alþingis vegna ummæla Össurar Skarphéðinssonar um að hann vilji engar sérundanþágur fyrir Íslendinga í sjávarútvegsmálum við aðild að ESB.

Þess er að vænta að fundurinn verði haldinn sem fyrst. Óhjákvæmilegt er að þingmenn vinni að því að upplýsa þjóðina um hver séu samningsmarkmið ríkisstjórnarinnar nú þegar hinar „eiginlegu samningaviðræður“ við ESB eru hafnar.  Í raun er með ólíkindum hve þingmenn hafa gefið viðræðunefnd Íslands við ESB lausan tauminn í þessum viðræðum.

Ástæða þessara losaralegu vinnubragða er einföld: stjórnarflokkarnir koma sér ekki saman um neina stefnu vegna innbyrðis ágreinings. Þeir hafa ekki áhuga á því í sjálfu sér að auglýsa þennan ágreining sinn og þess vegna eru þjóðarhagsmunir settir á grátt svæði gagnvart ESB.

Það er með ólíkindum að stjórnarandstöðunni hafi ekki tekist að nýta sér þessa stöðu á þann veg að knýja fram afstöðu ríkisstjórnarinnar, kynna þjóðinni hin raunverulegu samningsmarkmið. Eitt er að vera þeirrar skoðunar að það sé best að semja til að þjóðin geti tekið afstöðu til þessa máls annað vera svo aumur við gæslu þjóðarhagsmuna að knýja ekki fram hjá ríkisstjórninni um hvað hún er tilbúin að semja.

Árni Þór Sigurðsson, vinstri-grænn formaður utanríkismálanefndar, hlýtur að kalla nefndina saman til fundar í því skyni að skýra samningsmarkmiðin á þann veg að þjóðin skilji þau. Fundur nefndarinnar um þetta mál ætti að vera opinn til að allir gætu fylgst með því hver er hin raunverulega stefna stjórnarflokkanna og hvort stjórnarandstaðan hefur nægilega burði til að knýja fram svör um samningsmarkmiðin.

Mánudagur 04. 07. 11. - 4.7.2011

Eins og sagt var frá í gær sagði Össur Skarphéðinsson við sjónvarpsstöðina Euronews 27. júní í Brussel að Íslendingar vildu ekki "sérstaka undanþágu" (special exception) frá sjávarútvegsstefnu ESB. Yfirlýsingin vakti undrun ef marka má Morgunblaðið í morgun. Jón Bjarnason, samráðherra Össurar og sá sem ber ábyrgð á sjávarútvegsmálum í ríkisstjórninni, velti fyrir sér hvort rétt væri eftir Össuri haft. Jón virtist álíta að hugsanlega hefði einhver staðgengill Össurar talað við sjónvarpsmanninn.

Mbl.is ræddi við Össur um málið. Hann sagði yfirlýsingu sína ekki fréttnæma. Hann hefði aldrei viljað undanþágu fyrir íslenskan sjávarútveg heldur sérlausnir. Hver er munur á undanþágu og sérlausn? Undanþágan er varanleg en sérlausnin tímabundin. Hvernig getur Össur staðið á því að þessi ummæli sín séu í samræmi við álit meirihluta utanríkismálanefndar alþingis sem hann segir að sé sitt alfa og omega í samskiptum við ESB?

Össur hefur hlaupið á sig með yfirlýstri eftirgjöf í sjávarútvegsmálum gagnvart ESB og ekki bætir úr skák ef hann segir að hann hafi gert það oft áður og þess vegna séu mistök sín ekki fréttnæm.

Fréttastofa RÚV notaði alla síðustu viku til að flytja Íslendingum rósrauðar fréttir af ágæti ESB og gagnsemi þess fyrir Íslendinga að gerast ESB-aðilar. Fréttastofan RÚV hefur hins vegar ekki sagt eitt orð um þá staðreynd að utanríkisráðherra Íslands vill fela ESB yfirstjórn 200 mílna efnahagslögsögu Íslands.


Sunnudagur 03. 07. 11. - 3.7.2011

Nú er samtalsþáttur minn með Einari Má Guðmundssyni á ÍNN kominn á netið og má sjá hann hér.

Í dag skrifaði ég pistil hér á síðuna í tilefni af frétt um að Össur Skarphéðinsson teldi Íslendinga ekki þurfa neina sérlausn í sjávarútvegsmálum gagnvart ESB kæmi til aðildar. Með þeim orðum lýsir hann yfir rétti ESB til fara með stjórn innan 200 mílna lögsögunnar  við Ísland. Hér má lesa pistilinn.

Á Evrópuvaktinni birtist í dag frétt um að hinn 3. júlí hafa þjóðir ESB neytt alls þess fisks sem er veiðanlegur í lögsögu ESB. Fiskneysla þeirra í tæpt hálft ár byggist á innfluttum fiski eða fiski sem veiddur er á úthafinu eða í  lögsögu annarra ríkja. ESB-þjóðirnar hafa eyðilagt fiskimið sín með ofveiði. Hvaða erindi eiga Íslendingar í þennan félagsskap? Er ekki betra að ráða sjálfur yfir auðlind sinni í sjónum, nýta hana á skynsamlegan hátt undir stjórn eigin vísindamanna, samkvæmt ákvörðunum eigin stjórnvalda en flytja þessa ráðgjöf og pólitísku ákvarðanir í hendur þeirra sem hafa eyðilagt fiskimiðin við strendur ESB-ríkjanna? Er ekki meiri arðsemi í því fólgin að Íslendingar nýti fiskstofna við Ísland og selji afurðirnar til hæstbjóðenda en gerast styrkþegi samkvæmt misheppnaðri sjávarútvegsstefnu ESB?

Laugardagur 02. 07. 11. - 2.7.2011

Okkur sem höfum setið á þingi með Jóhönnu Sigurðardóttur og gegnt ráðherraembætti á meðan hún var í stjórnarandstöðu kemur á óvart hve illa hún bregst við spurningum þingmanna eða öðrum tilmælum. Þetta er þó í samræmi við þá skapgerð hennar að hafa allt alltaf á hornum sér, hvort sem hún situr í stjórn eða stjórnarandstöðu.

Í dag er upplýst í Morgunblaðinu að Jóhanna hafi ekki fundið tíma til að hitta forsætisráðherra Kína hér á landi á þeim tíma sem hentaði ferðaáætlun ráðherrans. Ekki hefur verið skýrt frá því hvaða mikilvæga erindi Jóhanna er að sinna á þessum tíma. Líklega hefur hún bara stokkið upp á nef sér þegar hún frétti um ósk Kínverjanna og ákveðið að hundsa hana.

Í leiðara Fréttablaðsins í dag skrifar Ólafur Þ. Stephensen ritstjóri um viðbrögð Jóhönnu við spurningum þingmanna og segir:

„Núverandi forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, þekkir fyrirspyrjandahlutverkið vel. Þegar hún var í stjórnarandstöðu lagði hún einu sinni fram 107 fyrirspurnir á 17 mánuðum, frá október 2003 fram til febrúar 2005. Þá var reiknað út að þetta væru hátt í fjórar fyrirspurnir á hverri viku sem þingið sat og að færu sex vinnustundir að meðaltali í að svara hverri þyrfti stjórnarráðið að hafa tvo deildarsérfræðinga í því verki einu að undirbúa svör til Jóhönnu. Nú hefur Ríkisendurskoðun slegið á fingur forsætisráðherra fyrir slæleg vinnubrögð við að svara fyrirspurn frá stjórnarandstöðuþingmanni.“

Þessi orð ritstjórans á Fréttablaðinu sem að jafnaði styður Jóhönnu og ríkisstjórn hennar sýnir að á ritstjórn blaðsins hallast menn á sveif með þeim þingmönnum Samfylkingarinnar sem telja tíma Jóhönnu liðinn. Fréttablaðið fetar þar með í fótspor vefsíðunnar Eyjunnar sem styður Samfylkinguna en ekki Jóhönnu.

 

Föstudagur 01. 07. 11. - 1.7.2011

Nýlega lauk árlegum fundi heimsminjanefndar UNESCO í París. Hér má sjá nöfn og myndir frá þeim stöðum sem hlutu skráningu á heimsminjalistann að þessu sinni. Um þessar mundir eru fimm ár liðin frá því að Þingvellir hlutu skráningu á listann. Hér má lesa um þann atburð.

Klukkan 12.00 flutti Claudio Bisogniero, varaframkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO), erindi um verkefni og áskoranir bandalagsins á 21. öldinni í Öskju, húsi Háskóla Íslands. Fundurinn var vel sóttur. Fyrir utan stóðu nokkrir hernaðarandstæðingar og köstuðu skóm í myndir af Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóra NATO. Aumkunarverð uppákoma sem átti að vera fyndin að mati Stefáns Pálssonar, formanns Samtaka hernaðarandstæðinga.

Ég sá ekki Stefán í fundarsalnum en þar kvöddu tveir skoðanabræður hans sér hljóðs og lét annar þeirra frekar ófriðlega. Hvorugur setti Bisogniero eða aðra fundarmenn út af laginu og Bogi Ágústsson stýrði fundinum á þann veg að hann var friðsamlegur, málefnalegur og fróðlegur.


Á fundinum flytur Claudio Bisogniero, varaframkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO), erindi um stöðu og störf NATO.