8.7.2011

Föstudagur 08. 07. 11.

Líklega þarf það ekki að koma á óvart að Evrópuvefur sem haldið er úti af Háskóla Íslands á kostnað alþingis sé hlutdrægur í anda þess sem elítan í Evrópu telur nauðsynlegt til að efla Evrópusambandið.

Páll Vilhjálmsson bendir á það á vefsíðunni sinni í dag að á Evrópuvefnum segi um breytingar á valdahlutföllum innan ESB við gildistöku atkvæðareglna Lissabon-sáttmálans árið  2014:

„Af þessu má sjá að breytingar á hlutföllum milli smáríkja og stærri ríkja með Lissabon-samningnum eru óverulegar.“

Hið rétta er eins og Páll segir er að frá og með árinu 2014 mun Lissabon-sáttmálinn breyta verulega valdahlutföllum í Evrópusambandinu með því að atkvæðavægi aðildarþjóða í leiðtogaráðinu fer framvegis eftir íbúafjölda.

Svo dæmi sé tekið er Þýskaland nú með rúm 8 prósent atkvæðavægi en verður með 16 prósent. Malta er í dag með 0,9 prósent en vægi Möltu fellur tífalt árið 2014 og verður 0,08 prósent.

Ég segi í upphafi þessarar færslu að þessi afstaða af hálfu HÍ þurfi ekki að koma á óvart með vísan til elítu-sjónarmiða í ESB-ríkjum en þeim er til dæmis lýst hér.