Dagbók: júní 1998
Þriðjudagur 30.6.1998
Við sátum allan daginn á ráðherrafundinum, þar rætt var um menningu og þróun, menningarlega fjölbreytni í hnattvæðingunni og menningu og viðskipti. Ætlunin er að halda viðræðum áfram á þessum forsendum og hefur Mexíkó boðað til fundar á næsta ári. Ljóst er, að ekki er síður mikilvægt að ræða menningarlega þætti í alþjóðlegu samhengi en aðra. Á ráðstefnunni um Norðurlöndin og kalda stríðið kom til dæmis glöggt fram, hvernig menn notuðu menningu og listir til að koma ár sinni fyrir borð. Þátttaka okkar Íslendinga í EXPO'98 og þjóðardagurinn hefði orðið svipur hjá sjón, ef við hefðum ekki fengið hina góðu listamenn til liðs við okkur. Í þessu felst ekki að stjórnmálamenn eigi að segja listamönnum fyrir verkum heldur hitt, að á alþjóðavettvangi eykur það veg og virðingu þjóða að sýna og sanna, að þær séu lista- og menningarþjóðir. Á þann hátt opnast margar dyr, sem eru lokaðar endranær. Ráðherrafundinum lauk með fjölmennum blaðamannafundi og daginn eftir var til dæmis nokkur löng frásögn í The New York Times, þar sem sagt var frá fundinum á þeim forsendum, að tiltækið mætti skilja sem andóf gegn bandarískum menningaráhrifum og ekki hefði verið boðið bandarískum fulltrúa á þeirri forsendu, að þar væri enginn menningarmálaráðherra, hins vegar hefði verið boðið fulltrúa frá Mexíkó, þar sem væri ekki heldur neinn menningarmálaráðherra. Á ráðherrfundinum var enginn með nein hnjóðsyrði í garð Bandaríkjanna, hins vegar er vafalaust unnt að túlka kröfur okkar margra um menningarlega fjölbreytni sem gagnrýni á hina miklu bandarísku menningarlegu áreitni. Við Íslendingar höfum glímt við það viðfangsefni í hálfa öld án þess að tapa okkar menningu, við þurfum ekki að sækja alþjóðlega sjálfsstyrkingarfundi í þeirri baráttu. Við sækjum slíka fundi til að minna á tilvist okkar, þess vegna þótti mér vænt um að vera í hópi hinna fáu ráðherra, sem boðið var til þátttöku í þessu óformlega samstarfi. Um kvöldið hófst listahátíð í Ottawa og var okkur boðið að vera við upphaf hennar, þar sem 9. sinfónía Beethovens var meðal annars flutt og voru listamennirnir með mér sannfærðir um, að við hefðum getað gert það betur hér á landi.
Mánudagur 29.6.1998
Þennan dag flugum við Rut ásamt Hjálmari H. Ragnarssyni, forseta Bandalags íslenskra listamanna, til Ottawa í Kanada til að taka þar þátt í óformlegum fundi menningarmálaráðherra frá 20 ríkjum, sem Sheila Copps, menningarmálaráðherra Kanada, blés til á UNESCO-ráðstefnunni um menningarmál í lok mars sl. Við flugum með Continental-flugfélaginu beint frá Lissabon til Newark fyrir sunnan New York. Tók flugið um sjö tíma, tímamunur var fimm tímar, þannig að við lentum um hádegisbil á amerískum tíma þar. Ætluðum við að taka flug til Ottawa um tveimur stundum síðar, en það var þá fellt niður og urðum við að taka annað flug síðar, sem varð bæði til þess, að farangur okkar týndist og við komum of seint til kvöldverðar í Ottawa. Allt bjargaðist þó að lokum og fengum við töskurnar um nóttina, en fátt finnst mér verra á ströngum ferðum eins og þessum en að týna farangrinum, þetta var þeim mun ergilegra vegna þess að í Newark gengum við hvað eftir annað eftir því, að örugglega yrði passað upp á töskurnar okkar, vorum við fullvissuð um að þeirra væri gætt sérstaklega vel, allt kom þó fyrir ekki.
Sunnudagur 28.6.1998
Síðdegis fórum við Rut með Sverri Hauki um sýningarsvæðið og skoðuðum það eins og hverjir aðrir ferðamenn. Litum við meðal annars inn í íslenska skálann og var þar mikið um að vera og margir stóðu við ísvegginn til að kæla sig í hitanum. Er óhætt að fullyrða, að þeir sem skipulögðu skálann hafi hitt í mark.
Laugardagur 27.6.1998
Þetta var stóri dagur Íslands á EXPO'98, það er hinn svokallaði þjóðardagur, þegar einstökum ríkjum gefst færi á að kynna menningu sína á sýningunni og nýta til þess sviðin, sem þar eru dreifð um svæðið. Hin formlega athöfn hófst með því að þjóðsöngvar Íslands og Portúgals voru leiknir og fáni Íslands dregin að húni á sérstakri heiðursstöng við sýningarskála Portúgals. Lék Blásarakvintett Reykjavíkur einnig við þessa athöfn. Síðan fórum við inn í skála Portúgals, þar sem skipst var á ræðum og gjöfum og skálinn skoðaður. Þaðan fórum við með Portúgölunum í íslenska skálann og skoðuðum hann. Martinez vinur minn, sem ég gat um hér að ofan, fór með hópi félaga sinna úr Alþjóðaþingmannasambaninu í skálann og sendi mér síðan bréf þar sem segir meðal annars: But we certainly found a moment to see the Icelandic Pavilion which was pretty crowded and gave me an excellent impression. The film was a good one and the show - with the water on the floor reflecting what was going on the screen - was very appealing. And the people were as friendly as expected - I suppose that I shall come again to the Expo and I'll take further chances to refresh my hands and face with the ice along the walls of your exhibition... Congratulations! Þetta innskot finnst mér góður vitnisburður um skála okkar Íslendinga á þessari miklu sýningu. Eftir heimsóknina þangað var okkur boðið til hádegisverðar í portúgalska skálanum, hann er listaverk út af fyrir sig og gerður af arkitekt, sem aðhyllist naumhyggju og hefur hann ekki aðeins teiknað húsið sjálft heldur öll húsgögnin líka. Eftir sýninguna flytur forsætisráðuneyti Portúgals inn í húsið og verða þar skrifstofur þess og móttökustaður ríkisstjórnarinnar. Að loknum hádegisverðinum fór ég í skoðunarferð á sjávardýrasýninguna, sem er einstaklega vel úr garði gerð. Leiðir okkar Rutar skildu, því að hún fór og hitti félaga sína úr Kammersveit Reykjavíkur, sem var meðal þeirra hópa íslenskra listamanna, sem komu fram þetta sama kvöld. Fengu þau tækifæri til að æfa sig þetta síðdegi. Um klukkan 18.30 hófst síðan móttaka um borð í Hvítanesinu, saltfiskflutningaskipi SÍF, sem var komið sérstaklega til Lissabon þennan dag til að taka þátt í hátíðinni. Voru það stuðningsaðilar þátttöku okkar í EXPO úr atvinnulífinu, sem stóðu að þessari móttöku og síðan kvöldverði á nálægum veitingastað á sýningarsvæðinu á eftir. Voru fulltrúar þessara fyrirtækja komnir til Lissabon af þessu tilefni og einnig ræðismenn Íslands í Portúgal og á Spáni. Hafði Sverrir Haukur Gunnlaugsson sendiherra orð fyrir gestgjöfunum en hann hefur borið hitann og þungann af því að skipuleggja þátttöku okkar í sýningunni ásamt með Jóni Ásbergssyni, forstjóra Útflutningsráðs, og Ólafi Davíðssyni, ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu. Við Sverrir Haukur og starfsmenn menntamálaráðuneytisins, sem þarna voru þær Karitas H. Gunnarsdóttir og Laufey Guðjónsdóttir, sem sá um að allt gengi upp vegna listsýninganna um kvöldið, urðum að standa upp frá borðum til geta fylgst með framgöngu okkar fólks. Er skemmst frá því að segja, að allt gekk að óskum, þótt menn hefðu haft nauman tíma til að átta sig á öllum aðstæðum og þær væru ekki allar eins og best væri á kosið og listamennirnir hefðu orðið að leggja hart að sér vegna ferðalaga og gistiaðstöðu. Klukkan 23.00 höfðum við Rut boðið öllum listamönnunum, tæknimönnunum, starfsmönnum í íslenska skálanum og öllum, sem við náðum til og tengdust þjóðardeginum með einum eða öðrum hætti og voru þarna á staðnum, til veislu á veitingastað við þann stað á EXPO-svæðinum, þar sem best var að fylgjast með mikilli ljósa- og eld-miðnætursýningu. 150 til 200 manns komu til þessarar veislu, sælir og glaðir eftir góðan og árangursríkan dag. Hinni glæsilegu miðnætursýningu verður ekki lýst með orðum, svo að ég sleppi því. Var klukkan rúmlega 2 eftir miðnætti, þegar við Rut og Sverrir Haukur yfirgáfum staðinn og þá gesti, sem enn voru þar í góðu yfirlæti. Í Morgunblaðinu birtist hinn 1. júlí viðtal við mig um þjóðardaginn undir fyrirsögninni: Ógleymanlegur dagur. Læt ég hana fljóta hér með: ÉG ER sannfærður um að enginn sem tók þátt í þessari dagskrá mun nokkru sinni gleyma því. Þetta var einn af þessum ógleymanlegu dögum, sem menn kannski upplifa einu sinni á ævinni. Allt heppnaðist svo vel, skipulagningin, móttakan og heimsóknin í íslenska skálann, sem hafði sterk áhrif á þá portúgölsku gesti sem voru með okkur. Það voru allir mjög hrifnir af andanum sem ríkti þar og því sem er til sýnis, sagði Björn Bjarnason menntamálaráðherra í samtali við Morgunblaðið á heimssýningunni í Portúgal, en þar var haldinn íslenskur dagur um helgina. Ég fékk síðan tækifæri til að hitta alla þá aðila sem standa að því að borga kostnaðinn við skálann ásamt með ríkisvaldinu. Hvítanes kom hingað og mér þótti það ákaflega góð hugmynd að fara þar um borð og minnast þannig saltfisksölunnar til Portúgals með öllum þessum kaupendum að íslenskum saltfiski hér. Eins var gaman að hitta okkar ræðismenn. Í einu orði sagt fannst mér mjög vel að öllu þessu staðið, sagði Björn. Í góðri samvinnu við listamenn Menntamálaráðherra sagði sýninguna hafa haft mjög langan aðdraganda og það hefði verið mjög ánægjulegt að sjá hvernig tekist hefði til við framkvæmdir og skipulagningu: Við höfum staðið í undirbúningi í menntamálaráðuneytinu með góðri samvinnu við listamennina með það fyrir augum, að nýta þær aðstæður sem heimssýningin hefur upp á að bjóða út í æsar. Því höfum við komið hingað með sjö hópa sem spanna mjög breitt svið. Ég sá ekki betur en það hafi gengið mjög vel eftir og ég tók eftir því, þegar við fórum á milli staðanna, að áhorfendur og áheyrendur kunnu mjög vel að meta þetta. Það var alls staðar troðfullt og mikil hrifning og mikil stemmning. Þetta gekk eins vel og best verður á kosið og heppnaðist allt ákaflega vel. Það eru fáar þjóðir sem hafa boðið upp á svona viðamikla og breiða dagskrá. Við höfðum nútímalega músík, þjóðdansa og nútíma ballett, kvartett, kvintett, alvörugefin verk eins og Ormstungu og verk sem slógu á léttari strengi. Þessi breidd gerði prógrammið ennþá skemmtilegra, sagði hann. Tókst betur til en við þorðum að vona Björn sagði að undirtektir Portúgala hefðu verið mjög góðar og þeir mætu það mikils hvernig Íslendingar hefðu nálgast þetta viðfangsefni: Það var líka skemmtilegt að skoða sjávardýrasýninguna sem þeir eru hvað stoltastir af og sjá þar 60 fugla frá Íslandi, bæði lunda og langvíur frá Vestmannaeyjum, sem keppa þarna við mörgæsir frá Chile um athygli gesta. Það má því segja að við munum eiga hér varanlega fulltrúa á þessu sýningarsvæði. Ég er mjög ánægður með þetta framlag Íslendinga, tel það hafa tekist mjög vel og jafnvel betur en við þorðum að vona. Þetta mikla átak við undirbúning og skipulagningu hefur skilað árangri, sagði menntamálaráðherra að lokum.
Föstudagur 26.6.1998
Klukkan 9 var ég mættur með Sverri Hauki Gunnlaugssyni, sendiherra Íslands í Portúgal, með aðsetur í París, á fund José Mariano Gago, vísinda- og tæknimálaráðherra Portúgals, og ræddi við hann þá tillögu Portúgala að koma á laggirnar sjávarútvegs- eða haffræðistofnun Evrópu í Portúgal. Klukkan 11 fórum við síðan í Norður-suður miðstöð Evrópuráðsins, sem hefur skrifstofur sínar í Lissabon. Þessi miðstöð á að efla tengsl og skilning milli Evrópuríkja og þróunarríkja, Íslendingar eiga ekki aðild að henni, málið hefur þó oftar en einu sinni verið rætt hér á landi. Var tilgangur heimsóknarinnar meðal annars að búa í haginn fyrir ákvörðun um það efni. Hitt var þó ánægjulegra, að þarna hittum við Rut góða kunningja frá þeim tíma, þegar ég tók þátt í störfum þings Evrópuráðsins, því að stjórnarformaður Norður-suður miðstöðvarinnar er Miguel Angel Martinez, þingmaður sósíalista frá Spáni, sem var forseti Evrópuráðsþingsins í minni tíð þar og kom hann hingað með konu sinni Carmen í opinbera heimsókn undir minni forsjá sumarið 1994. Eiga þau hjón góðar minningar héðan og segjast nota hvert tækifæri til að dásama landið, er ekki ónýtt að eiga slíka málsvara, því að Martinez er óþreytandi í alþjóðlegum störfum sínum og hlýtur að hafa komið til allra heimshorna, hann er nú forseti Alþjóðaþingmannasambandsins, þar sem Geir Haarde var meðal varaforseta, þar til hann varð fjármálaráðherra. Fór hann lofsamlegum orðum um Geir og allt samstarf sitt við Íslendinga. Um kvöldið sátum við Rut hátíðarmálsverð SÍF, þar sem var stjórn samtakanna og fulltrúar helstu viðskiptavina þeirra í Portugál. Flutti ég þar stutt þakkarávarp.
Fimmtudagur 25.6.1998
Klukkan 7.50 um morguninn fórum við Rut til London og þaðan til Lissabon til EXPÓ'98 eða heimssýningarinnar, sem þar er haldin um þessar mundir. Vorum við komin inn á hótel okkar þar skömmu fyrir kvöldmat.
Miðvikudagur 24.6.1998
Síðdegis kom það í minn hlut að stjórna fyrstu hringborðsumræðunum á ráðstefnunni um Norðurlöndin og kalda stríðið, sem haldin var á Grand hóteli að frumkvæði dr. Vals Ingimundarsonar. Þótti mér spennandi að fá tækifæri til að leiða þar saman helstu fræðmenn á þessu sviði og leitast við að skerpa annars vegar ágreining þeirra á milli og draga hins vegar fram um hvað þeir væru sammála. Vali og félögum hans tókst að ná saman öflugum og áhrifamiklum hópi fræðimanna og þátttakenda í fræðilegum umræðum á tímum kalda stríðsins til að ræða málin. Verður spennandi að lesa bókina, sem geymir erindin á ráðstefnunni, þótt vel hafi verið sagt frá mörgu í fjölmiðlum, eru þeir ekki besta heimildin um fundi af þessu tagi. Eftir umræðurnar buðum við Rut hinum erlendu gestum heim til okkar í móttöku en í hópi þeirra voru margir kunningjar mínir frá þeim árum, þegar ég sótti ráðstefnur um öryggismál og leitaðist við að skýra stöðu Íslands á tímum kalda stríðsins.
Þriðjudagur 23.6.1998
Mikið hefur á daga mína drifið undanfarnar tvær vikur síðan ég skrifaði minn síðasta pistil inn á þessa síðu og ætla ég að stikla á stóru í dagbókinni. Klukkan 14.00 efndi ég til blaðamannafundar með Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fráfarandi formanni í nefnd á vegum menntamálaráðuneytisins um símenntun. Álit nefndarinnar er fyrsta heildaryfirlitið yfir stöðu þessa mikilvæga málaflokks hér á landi. Er það vel unnið og fróðlegt með góðum tillögum, sem unnið verður að undir forystu menntamálaráðuneytisins. Klukkan 17.00 efndum við Rut til móttöku í Listasafni Einars Jónssonar í tilefni af 75 ára afmæli þess og endurbótum á safnhúsinu, sem unnið hefur verið að undanfarna mánuði. Er Safnhúsið einstakt í sinni röð og kallar byggingin sjálf á arkitekta frá útlöndum til að kynnast húsi frá upphafi aldarinnar í þessum einstaka stíl. Listaverkin eru að sjálfsögðu einnig einstök, eru þau óendanlegt athugunarefni, vék ég meðal annars að því í , sem ég flutti af þessu tilefni.
Laugardagur 20.6.1998
Við drifum okkur á allra síðustu sýningu á Listaverkinu, sýningu Þjóðleikhússins, sem verið hefur í Loftkastalanum undanfarið. Var þetta skemmtilegt og vel leikið verk.
Miðvikudagur 17.6.1998
Samkvæmt fyrirmælum frá þeim, sem stóðu að þjóðhátíðarhaldi í Reykjavík bar okkur, sem gengum frá Alþingishúsi út að styttu Jóns Sigurðssonar, að vera komin í þinghúsið klukkan 10.15. Er þetta nokkur hópur og fer alltaf stækkandi, því að æ fleiri sendimenn erlendra ríkja koma hingað til lands til að fagna þjóðhátíðardeginum. Efna þeir gjarnan til kynningar á eigin landi í tengslum við komu sína. Þannig efndi sendiherra Ísraels til tónleika og móttöku á Grand hótel 15. júní og Eyþór Arnalds ræðismaður Botswana skipulagi menningarmóttöku í Iðnó fyrir sendiherra Botswana 16. júní. Að loknum hefðbundnum ræðuhöldum á Austurvelli var gengið til Dómkirkju. Klukkan 12.00 var síðan hátíðleg athöfn í Alþingishúsinu, þar sem skýrt var frá störfum Lýðveldissjóðs og fagnað með þeim, sem hann heiðraði sérstaklega. Klukkan 13.30 fórum við síðan í Laugardalshöllina á Háskólahátíð. Rúmlega 600 voru að útskrifast og var Sigríður Sól dóttir okkar í þeim hópi en hún lauk BS-prófi úr viðskiptadeild, fékk hún verðlaun frá Samtökum verslunarinnar og Félagi íslenskra stórkaupmanna fyrir prófritgerð sína, sem fjallar um verslun í á farþegasvæðum í flugstöðvum, er borið saman hvernig staðið er að málum í Kaupmannahöfn annars vegar og á Keflavíkurflugvelli hins vegar.
Sunnudagur 14.6.1998
Við Rut fórum með Bjarna Benedikt syni okkar til Skóga undir Eyjafjöllum en þar hófst klukkan 13.45 vígsla safnakirkju. Herra Karl Sigurbjörnsson biskup vígði þessa fallegu kirkju, sem hefur verið reist undir forsjá Þórðar Tómassonar, safnvarðar, hins einstaka frumkvöðuls við varðveislu minja á Suðurlandi. Er Byggðasafnið í Skógum hið myndarlegasta í landinu og ber allt svipmót Þórðar. Eftir hina hátíðlegu vígslu var kaffisamsæti með þátttöku tæplega 400 manns og mörgum ræðum. Um klukkan 18 lauk því og fórum við þá í Skógaskóla, þar sem ég ritaði undir samning ásamt formönnum hérðasnefnda Rangæinga og Vestur-Skaftfellinga um að þær stæðu framvegis að baki Framhaldsskólans í Skógum og rækju hann sem einkaskóla með samningi um fjármögnun við menntamálaráðuneytið. Með þessu tel ég að skapaðar séu forsendur fyrir því að þróa skólann með nýjum hætti en fjöldi þeirra, sem stunda hefðbundið framhaldsskólanám í Skógum, hefur minnkað svo mikið, að við blasti að óbreyttu að leggja það skólahald niður. Nú hafa heimamenn með Sverri Magnússon skólameistara í fararbroddi tekið skólann í sínar hendur. Þegar tekið er mið af því, hve glæsilega þeir hafa staðið að því að byggja upp Byggðasafnið í Skógum efast ég ekki um, að þeir munu af myndarskap skipuleggja skólastarf á þann veg í Skógum, að þangað sæki nemendur til metnaðarfulls náms á stuttum starfsbrautum, ef ekki er unnt að halda úti hefðbundnu bóknámi. Á síðasta vetri var gerð tilraun með nám í hestamennsku í Skógum og gekk það vel. Vorum við í góðu yfirlæti í Skógum fram yfir kvöldmat og fengum að gæða okkar á hinu vinsæla hlaðborði í Eddu-hótelinu.
Föstudagur 12.6.1998
Um kvöldið fórum við Rut í Hveragerðiskirkju og hlýddum á upphafstónleika á tónlustarhátíðinni Bjartar sumarnætur, sem fer fram nú um helgina. Ættu fleiri að taka sér Hvergerðinga til fyrirmyndar í þessu efni.
Fimmtudagur 11.6.1998
Klukkan 9 ávarpaði ég alþjóðlegt þing um æskulýðsrannsóknir, sem haldið var undir merkjum norræna rannsakenda á þessu sviði, sem hafa með sér félagsskapinn NYRIS.
Miðvikudagur 10.6.1998
Síðdegis fór ég í Trönusund 10 í Hafnarfirði, þar sem er billiard- og snókerstofa. Þar sýndu þeir Kristján Helgason, Evrópumeistari áhugamanna, og Jóhannes B. Jóhannesson, nýbakaður Íslandsmeistari, mér listir sínar og síðan efndi ég til móttöku fyrir þá og forráðamenn Billiard- og snókersambandsins einkum til heiðurs Kristjáni, hinum nýbakaða Evrópumeistara. Er jafnan ánægjulegt fyrir íþróttamálaráðherra að fá tækifæri til að heiðra þá, sem standa sig vel fyrir hönd Íslands á alþjóðavettvangi.
Þriðjudagur 9.6.1998
Þingvallanefnd kom saman síðdegis á Þingvöllum. Kynntum við okkur aðstæður vegna bílastæða og aðkomuleiða í tilefni af hátíðahöldum á Þingvöllum árið 2000. Þá hefir verið sagt frá því í fréttum, að við ræddum einnig málefni hótel Valhallar. Heilbrigðis- og brunamálayfirvöld höfðu gert athugasemdir við ýmislegt í hótelinu og tók Þingvallanefnd afstöðu með þessum eftirlitsstofnunum og vill nefndin ekki, að hótelið hafi starfsleyfi nema kröfur þeirra séu uppfylltar. Sérstaklega krefst nefndin þess, að komið verði í veg fyrir mengun Öxarár. Er raunar óskiljanlegt, að beita þurfi hótelhaldara á Þingvöllum hörðu til að fá þá til að útiloka mengun árinnar og vatnsins.
Mánudagur 8.6.1998
Fyrir hádegi var fundur menningarmálaráðherra Norðurlandanna og eftir hádegi var fundur menntamálaráðherra Norðurlandanna í skrifstofum ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn. Flaug heim frá Kaupmannahöfn um kvöldið.
Sunnudagur 7.6.1998
Fór til Kaupmannahafnar síðdegis.
Föstudagur 5.6.1998
Klukkan 20 fórum við á tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands sem Yan Pascal Tortelier stjórnaði.
Fimmtudagur 4.6.1998
Klukkan 9.30 ávarpaði ég ráðstefnu um skólaþróun og listir. Klukkan 16.00 var móttaka í Háuhlíð 9 á vegum húsmæðrakennaraskorar Kennaraháskóla Íslands vegna útkomu sögu hússtjórnarkennslu á Íslandi eftir Önnu Ólafsdóttur Björnsson. Klukkan 17. 00 afhenti ég skírteini til þeirra, sem tóku að þessu sinni þátt í verkefninu útflutningsaukning og hagvöxtur á vegum Útflutningsráðs. Gat ég skotist á þessa staði milli atkvæðagreiðslna á Alþingi. Klukkan 20.00 var afmælissýning Íslenska dansflokksins í Borgarleikhúsinu. Þar urðu menn greinilega varir við 5,3 jarðskjálftann um klukkan 21.30 og féll hann vel inn í dansverkið Stool-game eftir hinn fræga Tékka Jirí Kylián, sem var viðstaddur og fagnaði skjálftanum sérstaklega sem hluta af verkinu.
Miðvikudagur 3.6.1998
Við Rut efndum til síðdegisboðs í Ráðherrabústaðnum til að minnast 25 ára afmælis Íslenska dansflokksins, sem hafði fengið þrjá frægustu danshöfunda Evrópu til landsins í tilefni afmælisins og sýndi verk þeirra daginn eftir.
Þriðjudagur 2.6.1998
Sat á þinginu allan daginn og fram á kvöld og komst því ekki á tónleika Galinu Gorchakovu, sem margir töldu hápunkt hinnar glæsilegu og vel heppnuðu Listahátíðar í Reykjavík 1998.
Mánudagur 1.6.1998
Klukkan 18.00 fór ég í Kristskirkju og hlustað á Voces Thules flytja þriðja þátt Þorlákstíða. Var sérkennileg reynsla að kynnast þessum forna kristna menningararfi okkar Íslendinga á nýjan leik og á Voces Thules mikið lof skilið fyrir framtakið.