26.6.1998 0:00

Föstudagur 26.6.1998

Klukkan 9 var ég mættur með Sverri Hauki Gunnlaugssyni, sendiherra Íslands í Portúgal, með aðsetur í París, á fund José Mariano Gago, vísinda- og tæknimálaráðherra Portúgals, og ræddi við hann þá tillögu Portúgala að koma á laggirnar sjávarútvegs- eða haffræðistofnun Evrópu í Portúgal. Klukkan 11 fórum við síðan í Norður-suður miðstöð Evrópuráðsins, sem hefur skrifstofur sínar í Lissabon. Þessi miðstöð á að efla tengsl og skilning milli Evrópuríkja og þróunarríkja, Íslendingar eiga ekki aðild að henni, málið hefur þó oftar en einu sinni verið rætt hér á landi. Var tilgangur heimsóknarinnar meðal annars að búa í haginn fyrir ákvörðun um það efni. Hitt var þó ánægjulegra, að þarna hittum við Rut góða kunningja frá þeim tíma, þegar ég tók þátt í störfum þings Evrópuráðsins, því að stjórnarformaður Norður-suður miðstöðvarinnar er Miguel Angel Martinez, þingmaður sósíalista frá Spáni, sem var forseti Evrópuráðsþingsins í minni tíð þar og kom hann hingað með konu sinni Carmen í opinbera heimsókn undir minni forsjá sumarið 1994. Eiga þau hjón góðar minningar héðan og segjast nota hvert tækifæri til að dásama landið, er ekki ónýtt að eiga slíka málsvara, því að Martinez er óþreytandi í alþjóðlegum störfum sínum og hlýtur að hafa komið til allra heimshorna, hann er nú forseti Alþjóðaþingmannasambandsins, þar sem Geir Haarde var meðal varaforseta, þar til hann varð fjármálaráðherra. Fór hann lofsamlegum orðum um Geir og allt samstarf sitt við Íslendinga. Um kvöldið sátum við Rut hátíðarmálsverð SÍF, þar sem var stjórn samtakanna og fulltrúar helstu viðskiptavina þeirra í Portugál. Flutti ég þar stutt þakkarávarp.