Dagbók: janúar 2013

Fimmtudagur 31. 01. 13 - 31.1.2013 21:30

Undanfarin ár hefur reynt á almannavarnakerfið vegna náttúruhamfara.  Óveður í haust og í vetur eru nýjustu dæmin um hvernig kerfið er virkjað til að tryggja öryggi almennings. Þetta mikilvæga öryggiskerfi alls almennings er í sífelldri þróun og mótun. Samhæfingar- og stjórnstöð almannavarna í Skógarhlíð er virkjuð þegar nauðsyn krefst að mati þeirra sem koma að stjórn leitar og björgunar eða viðbragða við hættuástandi. Í hádeginu í dag flutti Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, erindi á vegum Varðbergs í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins um almannavarnir í nútíð, nýjar áskoranir og öryggi almennings.

 Margt hefur breyst í áherslum á sviði almannavarna síðan þeim var fyrst komið á fót hér á landi fyrir um það bil hálfri öld. Víðir gerði grein fyrir þróuninni og breyttum áherslum. Þá lýsti hann einnig á áhrifaríkan hátt með dæmum af afleiðingum nýlegs jarðskjálfta í Christchurch á Nýja-Sjálandi hve nútímamaðurinn í háþróuðu tæknisamfélagi á mikið undir því að raforkuver nýtist á hættustundu. Án rafmagns verðum við fljótt sambandslaus og hefur það sannast hvað eftir annað hér á þessum vetri þegar óveður hafa eyðilagt raflínur.

 Í almannavarnalögum frá 2008 er gert ráð fyrir að dregin sé saman reynsla af atvikum sem kalla á almannavarnaviðbrögð. Því miður hefur ekki gefist tóm til að sinna slíkri skýrslugerð sem er þó mikilvægur liður í öllu þróunarstarfi á þessu mikilvæga sviði. Eftir snjóflóðin miklu um miðjan tíunda áratuginn drógu menn þann lærdóm að nauðsynlegt væri að verja milljörðum króna til snjóflóðavarna og hefur það verið gert á myndarlegan hátt og stóraukið öryggi þeirra sem búa á snjóflóðasvæðum. Sambærilegra aðgerða kann að vera þörf á fleiri sviðum.

 

Miðvikudagur 30. 01. 13 - 30.1.2013

Í dag ræddi ég við Sindra Sigurgeirsson, formannsframbjóðanda í Bændasamtökum Íslands, í þætti mínum á ÍNN. Þátturinn er næst á dagskrá kl. 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun. Bændasamtökin hafa staðið einstaklega vel að verki við athuganir á ESB-málinu og kynningu á málstað bænda undir forystu Haraldar Benediktssonar, fráfarandi formanns samtakanna, Sindri ætlar að halda áfram á sömu braut en telur ESB-umsóknarferlinu í raun lokið og hann fái tóm sem formaður til að beina athygli samtakanna að öðru.

Eins og eðlilegt beinist umræða um niðurstöðu EFTA-dómstólsins hér á landi að samhengi hans við innlend stjórnmál. Þegar málið er brotið til mergjar blasir við ótrúleg undirgefni íslenskra ráðamanna sem óhjákvæmilegt er að ræða til hlítar, ekki til að leita að sökudólgum, þess þarf ekki, heldur til að þessi sérstæði og ömurlegi þáttur í sögu íslenskra utanríkismála sé skráður. Hann verður bautasteinn um hagsmunagæslu „fyrstu tæru vinstri stjórnarinnar“ og þaulsetu hennar þrátt fyrir að hafa hvað eftir orðið að lúta í lægra haldi í Icesave-málinu bæði innan lands og utan.

Aðrir líta á málið frá öðrum sjónarhóli eins og til dæmis efnahagsritstjóri norska blaðsins Aftenposten sem setur málið í ESB-ljós og kemst að þeirri niðurstöðu að þjóðir sem sitja undir þungri skattbyrði og með ofurskuldir ríkja sinna vegna björgunaraðgerða í þágu banka og lánardrottna þeirra muni horfa öfundaraugum til okkar Íslendinga. Greinin í Aftenposten birtist á íslensku á Evrópuvaktinni og má lesa hana hér.

Þriðjudagur 29. 01. 13 - 29.1.2013 22:00

Smári Sigurðsson, fv. yfirmaður alþjóðadeildar ríkislögreglustjóra, skrifar grein í Fréttablaðið í dag og tekur upp hanskann fyrir Kristínu Völundardóttur, forstjóra útlendingastofnunar, vegna gagnrýni sem hún hefur sætt fyrir ummæli um hælisleitendur. Smári segir:

„Ég hygg að ef þeir sem hæst láta [vegna ummæla Kristínar] hefðu fyrir því að kynna sér málið betur mætti finna ótrúlega mörg dæmi þess að einstaklingar leita hælis á fölskum forsendum. Ég veit reyndar um allmörg dæmi og er sannfærður um að ef starfsmenn lögreglu sem starfa að þessum málaflokki væru spurðir gætu þeir nefnt fjölmörg dæmi þess að hælisleitendur segja ekki satt og rétt frá um aðstæður sínar.“

Smári hefur mikla reynslu af þeim málaflokki sem hér um ræðir. Ég er sammála honum um að ekki er allt sem sýnist þegar um þessi mál er rætt og full ástæða til að  mótmæla mörgu sem komið hefur fram í gagnrýni á Kristínu og orð hennar.

Smári segir einnig réttilega:

„Ísland er aðili að svokölluðum Dyflinnarsamningi sem gerður var til að koma í veg fyrir að flóttamenn sem fengið hafa synjun í einu aðildarlandi geti farið í næsta land og byrjað þar ferlið að nýju. Varla hafa stjórnvöld í þeim löndum sem aðild eiga að Dublinarsamningnum ákveðið að gera með sér samning nema að til þess lægju rök þ.e. að svo mikið var orðið um "asylum shopping" að ekki varð við unað.“

Rökin fyrir reglunum um hælisleitendur sem eru kenndar við Dublin eru skýr. Grein sinni lýkur Smári á þessum orðum:

„Að lokum verð ég að segja að mér er það umhugsunarefni að núverandi innanríkisráðherra skuli bregðast svo harkalega við ummælum undirmanns, sérstaklega í ljósi þess að hann var áður formaður BSRB og þar áður fréttamaður sjónvarps. Ætli hann hafi á þeim tíma verið sömu skoðunar varðandi frelsi fólks til að láta í ljósi skoðanir sínar?“

Þetta er rökrétt spurning sem ráðherrann hlýtur að svara. Hugmyndir hans um rétt til skoðanafrelsis birtast í yfirlýsingum um andstöðu við forvirkar rannsóknarheimildir af tilliti til skoðanafrelsis hugmyndafræðilegra baráttuhópa eins og hann orðar það. Hann vill hins vegar setja reglur um hvað fólk má skoða þegar kemur að klámi.

 

Mánudagur 28. 01. 13 - 28.1.2013 21:50

Það var ekki hátt risið á Steingrími J. Sigfússyni, formanni VG, þegar hann ræddi niðurstöðu EFTA-dómstólsins í dag. Íslendingar unnu málið en Steingrímur J. talaði alltaf um hvað menn hefðu sagt ef málið hefði tapast. Er greinilegt að honum hefði þótt það þægilegri staða fyrir sig. Þetta þarf í sjálfu sér ekki að koma á óvart hjá manni sem talaði um „glæsilega niðurstöðu“ þegar Svavar Gestsson var að ganga frá fyrsta Icesave-samningnum af þremur sem gerðir voru á ábyrgð Steingríms J. Þeir voru allir felldir, þar af tveir í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef Svavars-samningurinn hefði náð fram að ganga sumarið 2009 næmu vaxtagreiðslur íslenska ríkisins nú vegna hans 153 milljörðum króna.

Hér má lesa pistil sem ég tók saman vegna niðurstöðu EFTA-dómstólsins.

Kristján Þór Júlíusson vann góðan sigur í prófkjöri sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi, Valgerður Gunnarsdóttir, skólameistari að Laugum, hlaut annað sætið. Þetta var glæsilegur árangur hjá þeim báðum. Ég óska Valgerði sérstaklega til hamingju með þennan góða árangur í fyrsta sinn sem hún gefur kost á sér í prófkjöri.

Steingrímur J. er þingmaður VG í Norðausturkjördæmi. Forval var á þar á dögunum um 770 voru á kjörskrá, 261 kaus, innan við 40%, og hlaut Steingrímur J. tæp 200 atkvæða. Hann fagnaði sigri eins og um mikið afrek hefði verið að ræða.

Á kjörskrá hjá sjálfstæðismönnum í Norðausturkjördæmi var 4401 við lok kjörfundar 26. janúar. Alls greiddu 2714 atkvæði, kjörsókn var því 61,7 %. Auð og ógild voru 78 atkvæði. Í 1. sæti var Kristján Þór Júlíusson með 2223 atkvæði. í  2. sæti  (í 1.–2. sæti) var Valgerður Gunnarsdóttir með 1291 atkvæði. og í 3. sæti  (í 1.–3. sæti) var Ásta Kristín Sigurjónsdóttir með 1158 atkvæði.   

Þessar tölur segja meira en mörg orð um hve lítilfjörlegur flokkur Steingríms J. er í kjördæmi hans, aðeins tæplega 10% af þeim sem kusu í prófkjöri sjálfstæðismanna tók þátt forvali hjá VG. Það þarf ekki góðan dóm fyrir Ísland í Icesave-málinu til að risið lækki á Steingrími J. Nú ráðast Jóhanna og Steingrímur J, ekki á Sjálfstæðisflokkinn heldur segja að allir eigi að fagna „en ekki leita að sökudólgum“. Þau stjórnuðu landsdómsaðförinni að Geir H. Haarde. 

 

Sunnudagur 27. 01. 13 - 27.1.2013 22:41

Það voru þrumur og eldingar í Fljótshlíðinni í dag, líklega til marks um kraftinn í prófkjöri sjálfstæðismanna og niðurstöðu þess þar sem tvær kjarnakonur lentu í efstu sætunum. Suðurkjördæmi er sterkt vígi sjálfstæðismanna og verður áfram.

Skyndilestur á áliti meirihluta stjórnarskrár- og eftirlitsnefndar alþingis á stjórnskipunarlagafrumvarpinu sem kynnt var í dag leiðir í ljós að málið er enn hálfkarað. Á mörgum stöðum er tekið fram að nefndin eigi enn eftir að athuga hitt og þetta auk þess sem skautað er yfir mikilvæga kafla með vísan til þess að Feneyjanefndin eigi eftir að segja álit sitt á þeim.

Þetta er í raun í fyrsta sinn sem meirihluti nefndarinnar segir eitthvað um efni frumvarpsins en útlistanir hans felast í að meta annars vegar tillögur stjórnlagaráðsins og hins vegar það sem sérfræðinganefndin hafði fram að færa, það er nefnd lögfræðinga sem falið var að fara yfir tillögur stjórnlagaráðsins þá er einnig tekið mið af áliti einstakra þingnefnda. Athygli vekur að meirihlutinn hallast að því er virðist meira að upprunalegum tillögum stjórnlagaráðs en breytingartillögum hinna löglærðu sérfræðinga.

Allt bendir til að frumvarpið hafi versnað í meðförum nefndarinnar og var það þó óbrúklegt áður en hún tók það til afgreiðslu.

Laugardagur 26. 01. 13 - 26.1.2013 22:41

Hér virðast menn stundum halda að það sé sér-íslenskt að huga að verndun tungunnar og huga til dæmis að mannanöfnum af tillitsemi við íslenskt mál og meginreglur þess. Svo er alls ekki eins og sjá má hér fyrir neðan. Framburður og áherslur við flutning íslenskra texta í söngvakeppni sjónvarpsins sýna að ástæða er fyrir þá sem að þeim hlutum koma að huga að verndun íslensks framburðar og meginreglna hans.

Franska ríkisstjórnin hefur bannað að enska Twitter-orðið hashtag sé notað í opinberum skjölum. Er þetta í samræmi ákvörðun Académie française um að nota skuli franska orðið mot-dièse þegar táknið '#' birtist á prenti. Kennurum hefur verið sagt að nota þetta franska orð og ábendingum hefur verið beint til fjölmiðla um að þeir hætti að nota enska orðið.

Þessi fyrirmæli vegna hashtag eru liður í baráttu franskra yfirvalda gegn ensku. Nýlega birti franska menningarmálaráðuneytið langan lista með enskum orðum sem ráðuneytið sagði að hefðu smeygt sér inn í mál Frakka og þessum orðum yrði að útrýma.

Orðin eru meðal annars: email, blog, supermodel, take-away, chewing gum, parking, weekend og low-cost airline. Listinn frá frönsku ráðuneytinu er 65 blaðsíðna langur og þar eru meðal annars einnig: shadow-boxing, detachable motor caravan, multifunctional industrial building, serial analysis of gene expression  og  suppression subtractive hybridisation.

Af þessum orðum og setningarhlutum má ráða að í frönsku gæti enn meiri ensku-áhrifa en í íslensku. Frakkar vilja útrýma orðunum en Danir gleypa ensk orð og beita dönskum tökum eins og orðið intervjuere ber með sér svo að dæmi sé tekið.

Í skýrslu frönsku akademíunnar segir að enskumælandi menn tali um svonefndan enskumælandi heim en ekkert sambærilegt sé til á frönsku.

„Þótt um 200 milljónir frönskumælandi menn séu á jarðarkringlunni er hugmyndin um hinn frönskumælandi heim að verða útelt. Frakkar láta undir höfuð leggjast að halda eigin tungumáli á loft og það virðist vera afar lítill áhugi á því,“ segir skýrslu Académie française.

 

Föstudagur 25. 01. 13 - 25.1.2013 21:40

Í dag skrifaði ég pistil og benti á umræðurnar sem urðu eftir að hæstiréttur felldi dóm í meiðayrðamáli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar þar sem ummæli sem ég hafði ómerkt voru dæmd ómerk en ég sýknaður af kröfum um miskabætur. Einkennilegustu viðbrögðin við dómi hæstaréttar voru hjá fréttaritara Bloombergs á Íslandi sem tók að ræða um uppstoppaðan fálka á þann veg að því má velta fyrir sér hvort menn sem fara í meiðyrðamál vegna ritvillu hefðu ekki talið vegið að æru sinni vegna fálkans.  

Eftir að ég skrifaði pistilinn og setti hann á síðuna sá ég að á Smugunni vefsíðu VG töldu menn einnig ástæðu til að ræða uppstoppaða fálkann enda er áhuginn á aðalatriðum innan VG um þessar mundir til að dreifa athygli frá fylgistapinu.  

Á Smugunni er látið að því liggja að ég íhugi meiðyrðamál vegna fálkans, það er hreinn uppspuni. Í lögfræði má hins vegar skýra kenningar með skrýtnum dæmum sem oft eru furðulegri í raunveruleikanum en hugarheimi kenningasmiðanna. Uppstoppaði fálkinn og áhugi fréttaritara Bloombergs á því hvort ég hefði brotið lög af því að hann stóð að baki mér á ljósmynd er dæmi um eitthvað sem engum hefði dottið í hug að óreyndu.

Á dv.is gripu menn til þess eina ráðs sem var rétt hjá fjölmiðlamanni sem vill skýra mál, það er að leita sér upplýsinga um fálkann. Hvers vegna skyldi fréttaritari Bloombergs ekki hafa gert það? Hann kaus þess í stað að skjóta fyrst. Er það eftir reglum Bloombergs?

Fimmtudagur 24. 01. 13 - 24.1.2013

Í dag féll dómur í hæstarétti í máli sem ég áfrýjaði vegna þess að Jón Finnbjörnsson dæmdi mig í héraði til að greiða Jóni Ásgeiri Jóhannessyni í Baugi 200 þúsund krónur í miskabætur fyrir „ólögmæta meingerð gegn æru“  hans og 200 þúsund krónur í birtingarkostnað auk hálfrar milljónar í málsvarnarlaun vegna ritvillu í bók minni Rosabaugur yfir Íslandi. Hæstiréttur segir (þrír dómarar Viðar Már Matthíasson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson):

„[V]erður að líta til þess að áfrýjandi [Björn Bjarnason] varð við kröfu um að leiðrétta hin röngu ummæli og biðja stefnda [Jóns Ásgeirs Jóhannessonar] opinberlega afsökunar á þeim bæði í dagblaði og á vefsíðu sinni. Verða ekki gerðar athugasemdir við síðarnefndu leiðréttingarnar. Verður að telja að hin ómerktu ummæli hafi upphaflega verið sett fram vegna mistaka áfrýjanda. Verður ekki talið að hin ómerktu ummæli, að teknu tilliti til leiðréttingar og opinberrar afsökunarbeiðni áfrýjanda og stöðu stefnda og þátttöku hans í opinberri umræðu um málefnið, hafi slík áhrif á persónu og æru stefnda að fullnægt sé skilyrðum b. liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 til að dæma honum miskabætur úr hendi áfrýjanda. Verður áfrýjandi því sýknaður af þeirri kröfu stefnda. Með tilliti til leiðréttingar ummælanna verður heldur ekki fallist á að beita eigi heimild 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga og dæma stefnda bætur fyrir kostnað við birtingu forsendna og niðurstöðu dóms í málinu.

Að teknu tilliti til krafna málsaðila í héraði og fyrir Hæstarétti og niðurstöðu máls þessa og með vísan til 3. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, verður hvorum málsaðila gert að bera sinn kostnað af málinu á báðum dómstigum.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um ómerkingu ummæla.

Áfrýjandi, Björn Bjarnason, skal að öðru leyti sýkn af kröfum stefnda, Jóns Ásgeirs Jóhannessonar.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.“

Enginn ágreiningur var af minni hálfu um ómerkingu ummælanna enda hafði ég leiðrétt þau og beðist opinberlega afsökunar. Ég segi enn hið sama og áður að hefði héraðsdómurinn staðið óhaggaður og mér verið gert skylt að greiða miskabætur og annan kostnað vegna ritvillu hefði verið farið inn á nýjar brautir við takmörkun á tjáningarfrelsinu.

Lögmaður minn var Jón Magnússon hrl. en Gestur Jónsson hrl. rak mál Jóns Ásgeirs.

 

Miðvikudagur 23. 01. 13 - 23.1.2013 23:00

Á vefsíðu sveitarstjórnar Rangárþings eystra birtist þessi texti í gær, þriðjudaginn 22. janúar:

„Borun holunnar [í leit eftir heitu vatni] lauk föstudaginn 18. janúar 2013. Þá var dýpi hennar 250 metrar. Jarðlagaskipti eru í um 190 metrum. Ofan við þau eru tiltölulega ungar gosmyndanir en fyrir neðan afgamall berggrunnur. Holan var hitamæld mánudagsmorguninn 21. janúar. Þá kom í ljós að holan fór á stigul neðan við 190 metra eins og við var búist. Hitastigullinn reynist vera um 105°C/km. Ofan við 190 metra er 13-14°C heitt vatnskerfi ríkjandi.

Holan var einnig dæluprófuð með stangir niður á 100 metra dýpi. Upp úr henni komu um 55 l/sek af um 14°C heitu vatni. Niðurdráttur var sáralítill svo holan getur afkastað mun meira magni með niðurdrætti.

Nú verður farið í að vinna úr þeim gögnum sem safna var við borunina.“

Leikmaður skilur þennan texta á þann hátt að þarna hafi fundist heitt vatn og vísbendingar séu um meira sé borað dýpra. Mér er sagt að 13-14°C heita vatnið í þessu magni dugi til að mynda hitaveitu með varmadælu.

Fljótshlíðin hefur verið talin kalt svæði og þegar ég spurðist fyrir um áhuga á borunum fyrir nokkrum árum var svarið að þær myndu ekki skila árangri. Við lögðum hins vegar ekki árar í bát. Sjálfstæðismenn í sveitarstjórnin lögðu fram tillögu um að hugað yrði að leit að heitu vatni. Tillagan var samþykkt og Ísólfur Gylfi Pálmason sveitarstjóri beitti sér fyrir framkvæmd hennar.

Það verður spennandi að sjá hvað sveitarstjórnin ákveður þegar þessi niðurstaða liggur fyrir. Borað var í landi sveitarfélagsins við félagsheimilið Goðaland.

 

Þriðjudagur 22. 01. 13 - 22.1.2013 22:41

Í dag var samtalsþáttur minn við Sighvat Björgvinsson, fyrrverandi ráðherra og formann Alþýðuflokksins, um stjórnarskrármálið á ÍNN settur inn á netið og má nálgast hann hér. Við Sighvatur ræðum þann þátt stjórnarskrártillagnanna sem snerta forseta, ríkisstjórn og alþingi. Þeir sem skoða þáttinn sjá að margs er að gæta og ekki augljóst að hið nýja stjórnkerfi skili því sem að er stefnt.

Stjórnarskrármálið er strandað. Fallist Feneyjanefnd Evrópuráðsins á tillögurnar eins og þær hafa verið kynntar eða mæli með samþykkt þeirra sýnir það ekki annað en nefndin er marklaus.  Flóknara er það ekki.

Umboðsmaður alþingis kynnti í dag álit á stjórnarskrárfrumvarpinu í stjórnarskrár- og eftirlitsnefnd alþingis. Af fréttum má ráða að hann telji frumvarpið mjög gallað. Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður alþingis, sat í rannsóknarnefnd alþingis sem skilaði hinni löngu skýrslu um hrunið og afleiðingar þess.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og ýmsir stjórnlagaráðsliðar hafa gefið í skyn að hið nýja frumvarp að stjórnskipunarlögum sé í einhverjum tengslum við niðurstöðu rannsóknarnefndar alþingi. Frásagnir af framgöngu Tryggva Gunnarssonar í dag benda ekki til þess að hann hafi hampað afurð stjórnlagaráðs sem afsprengi starfs rannsóknarnefndarinnar.

Ég mun halda áfram að fá viðmælendur til mín á ÍNN til að ræða stjórnarskrárfrumvarpið. Alls ætla ég að vera með fjóra aukaþætti um málið á stöðinni.

Undanfarið hafa ýmsir farið hamförum á opinberum vettvangi vegna þess sem Kristín Völundardóttir, forstjóri útlendingastofnunar, sagði um hluta þeirra sem hér hafa leitað hælis. Þess verður hins vegar ekki vart að almenn hneykslunaralda fari um samfélagið þótt Árni Páll Árnason, formannsframbjóðandi í Samfylkingunni, segi andstæðinga ESB-aðildar heimskingja í Kastljósi. Hvað veldur? Er öllum sama um orð Árna Páls?

 

Mánudagur 21. 01. 13 - 21.1.2013 20:55

Af Kastljós-samtali Helga Seljan við frambjóðendur í formannskjöri Samfylkingarinnar, Árna Pál Árnason og og Guðbjart Hannesson, má ráða að eina málið sem þeir vilja ræða er ESB-málið sem Össur Skarphéðinsson telur hins vegar skynsamlegt að gera ekki að „bitbeini“ fyrir kosningar.  Um leið og þeir segjast skilja og styðja ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að stöðva viðræðurnar segja þeir, og þó einkum Árni Páll, að eina bjargráð þjóðarinnar sé að fara í ESB hann trúi því ekki að fólk sé svo „skyni skroppið“ að það átti sig ekki á því. Helgi Seljan sá þarna ástæðu til að mótmæla fyrir hönd meirihluta þjóðarinnar sem vill ekki inn í ESB.

Blekkingariðjan vegna ESB nær nýjum hæðum með tali formannsframbjóðenda Samfylkingarinnar. Áður en Írar tóku við formennsku í ráðherraráði ESB var látið eins og allt væri á fullri ferð í samskiptum ESB og Íslands. Jólaboðskapur formanns viðræðunefndarinnar var þess efnis að áfram yrði markvisst unnið að niðurstöðu í viðræðunum strax eftir hátíðarnar. Andstætt þeim heitstrengingum var lagt blátt bann við að ræða um alvörumál við ESB.

Formannsframbjóðendur Samfylkingarinnar þrá ekkert meira en að ræða við ESB, þeir segjast meira að segja vilja fórna ráðherrastólum eftir kosningar vegna ESB, samt segjast þeir styðja ákvörðun um að gera málið ekki að „bitbeini“ fyrir kosningar.

Hér er fiskur undir steini – líklega makríll og sú staðreynd að Írar fara með formennsku innan ESB og krefjast uppgjafar Íslendinga í makrílmálinu. Ríkisstjórnin treystir sér ekki til hennar fyrir kosningar og nýr þáttur í ESB-blekkingarleiknum er settur á svið.

Ríkisstjórn sem leggur kapp á deilur um sjálfa stjórnarskrána nokkrum vikum fyrir kosningar og sér ekkert athugavert við að hún sé bitbein fram á síðasta dag en setur ESB-málið í pólitískt skjól er ekki sjálfri sér samkvæm.

 

 

Sunnudagur 20. 01. 13 - 20.1.2013 21:40

Jóhann Hauksson, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, sá sem fékk starf sitt án auglýsingar og mun hrökklast úr stjórnarráðinu með Jóhönnu Sigurðardóttur heldur áfram að ráðast á nafngreinda sjálfstæðismenn með rangfærslum.

Jóhann varð sér til skammar á dögunum þegar hann fjallaði um fjárdrátt Páls Heimissonar, fyrrverandi starfsmanns þingflokks hægrimanna í Norðurlandaráði. Nú tekur Jóhann sér fyrir hendur að telja mönnum trú um að skoðanir mínar á aðild Finna að ESB fyrir 20 árum þegar þeir fengu frelsi til eigin ákvarðana í utanríkismálum við hrun Sovétríkjanna nýtist honum og ESB-sinnum til að skýra afstöðu mína gegn aðild Íslands að ESB.

Jóhann tileinkaði sér þennan stíl þegar hann starfaði á vegum Baugsfeðga og þeir kostuðu hann meðal annars með leynd til halda úti útvarpsþáttum.  Að maður sem sinnir fjölmiðlun á þennan hátt skuli ráðinn upplýsingafulltrúi ríkisstjórnar er líklega einsdæmi.

Telji ESB-aðildarsinnar að málflutningur Jóhanns sé málstað þeirra til styrktar er fokið í öll skjól hjá þeim. Hann er að vísu í samræmi við blekkingariðjuna sem stunduð hefur verið frá fyrsta umsóknardegi 16. júlí 2009 og í aðdraganda hans þegar aðildarsinnar sögðu að viðræðuferlinu yrði örugglega lokið innan 18 mánaða.

Hér má lesa grein mína sem vakti reiði upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar og hér má lesa viðbrögð upplýsingafulltrúans.

Laugardagur 19. 01. 13 - 19.1.2013 22:41

Við fengum góðan gest í Fljótshlíðina í dag. Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður og nú frambjóðandi í prófkjöri sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi, leit inn hjá okkur ásamt nokkrum nágrönnum okkar. Var fróðlegt að heyra sjónarmið hennar og áherslur.

Ég hélt að ÍNN-þáttur minn með Sighvati Björgvinssyni, fyrrverandi ráðherra og þingmanni Alþýðuflokksins, um stjórnarskrármálið yrði sýndur sl. sunnudag. Það gerðist ekki en þátturinn verður sýndur á morgun, sunnudag 20. janúar kl. 17.00. Þetta er þáttur fyrir alla sem hafa áhuga á stjórnarskrármálinu.

Þetta er fyrsti þátturinn af fjórum sem ég geri sérstaklega um stjórnarskrármálið tíl sýninga á ÍNN. Hinir verða sýndir á sunnudögum kl. 17.00 í febrúar og mars.

Föstudagur 18. 01. 13 - 18.1.2013 22:41

Nú er samtal okkar Davíðs Oddssonar á ÍNN komið á netið eins og sjá má hér.

Í gær var sagt hér á síðunni frá ummælum Kristínar Völundardóttur, forstjóra útlendingastofnunar, um stöðuna varðandi hælisleitendur. Fjöldi þeirra er í raun óviðráðanlegur fyrir starfsmenn stofnunarinnar og sumir nýta sér þá staðreynd til að dveljast hér á kostnað skattgreiðenda.

Á ruv.is segir í dag: „Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra segir engin rök færð fyrir þessari fullyrðingu [Kristínar] heldur séu þetta óviðeigandi vangaveltur. Hann eigi þó eftir að óska eftir nánari útskýringum.“ Þetta er dæmigerð afstaða ráðherra sem treystir sér ekki til að standa að baki embættismanni vegna flokkspólitísks þrýstings. Ögmundur fellir fyrst gildisdóm en segir í næstu setningu að hann þekki ekki nóg til málsins.

Meginrök Kristínar voru að langur afgreiðslutími mála skapaði nýjar aðstæður sem þeir nýttu sér sem gætu. Hún benti á að þessi vandi væri ekki bundinn við Ísland.

Þeir einir finna að þessum ummælum sem vilja forðast að ræða vandamálið sjálft. Hér eru pólitísk öfl, meðal annars að baki Ögmundi Jónassyni, sem vilja fjölga hælisleitendum í landinu og breyta lögum og afgreiðsluháttum mála þeim í vil. Þessi pólitíska afstaða hefur ýtt undir fjölgun hælisleitenda hér. Þá kann þeim einnig að hafa fjölgað vegna þess að slakað hefur verið á reglum í Danmörku.

Þetta er pólitískt viðfangsefni sem óhjákvæmilegt er að skýra og ræða.

Fimmtudagur 17. 01. 13 - 17.1.2013 21:40


Óhjákvæmilegt er að stefnan í útlendingamálum verði til umræðu fyrir kosningar. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur gefið yfirlýsingar um komu ólöglegra innflytjenda til landsins, hælisleitenda, sem ekki verða túlkaðar á annan veg en þann að hann vilji veita þeim sem mest svigrúm. Áhrifin eru skýr: 115 umsóknir hælisleitenda höfðu borist útlendingastofnun í lok árs 2012. Árið 2011 voru þær 76 og 2010, 51 segir á ruv.is.

Fjölgun hælisleitenda hefur leitt til meira annríkis á útlendingastofnun sem starfar við þröngan kost. Árið 2011 var fjöldi dvalardaga 13.565. Í lok síðasta árs voru þeir 28.799. Kostnaður við málaflokkinn fór úr 108 milljónum í 220 milljónir. Kristín Völundardóttir, forstjóri útlendingastofnunar, segist nú búast við öðru metári og telur að þessari aukningu ljúki ekki fyrr en farið verði að sinna þessum málaflokki af myndaskap og að málsmeðferð verði flýtt. 

Kristín sagði í samtali við fréttastofu ríkisútvarpsins að hin langa bið hælisleitenda eftir afgreiðslu á málum þeirra yki aðdráttarafl Íslands fyrir fólk sem hefði áhuga á að kynnast öðrum löndum á kostnað skattgreiðenda þessara landa, þeir stæðu undir húsnæði og fæði fólksins á meðan embættismenn könnuðu réttmæti óska aðkomumanna um hæli.

Kristín segir vísbendingar um að fólk komi hingað og stundi það sem kallist asylum shopping eða ferðamenn í hælisleit. Hún segist ekki geta sagt til um hversu stór hópur þetta sé. Stofnunin sé undirmönnuð og því ekki mikið svigrúm til að stunda fræðimennsku og rannsóknir.

Þetta er pólitískt mál sem ber að ræða í komandi kosningabaráttu. Viðhorf Ögmundar Jónassonar til málefna innflytjenda og hælisleitenda er pólitískt.  Það á að ræða á pólitískum forsendum og leggja undir dóm þjóðarinnar.


Miðvikudagur 16. 01. 13 - 16.1.2013 21:40

Í dag ræddi ég við Davíð Oddsson, ritstjóra Morgunblaðsins, í þætti mínum á ÍNN. Við töluðum saman í rúmar 50 mínútur en þættinum sem hófst klukkan 20.00 lauk ekki fyrr en 21.10 svo mikið var af auglýsingum. Þátturinn er sýndur að nýju klukkan 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun þegar hann fer í loftið í síðasta sinn í þessari lotu. Ég mun setja krækju á hann við þessa síðu þegar hann kemur á vefsíðu ÍNN, hún heitir inntv.is og þar má sjá ýmsa gamla þætti sem birst hafa á stöðinni.

Davíð er skeleggur í málflutningi sínum að vanda. Þátturinn er þrískiptur. Í fyrsta hluta ræðum við kjara- og efnahagsmál, í öðrum hluta ESB-mál og í lokahlutanum ræðum við stjórnarskrármálið . Í lokin spyr ég Davíð hvernig hann meti hina pólitísku stöðu í ljósi komandi kosninga.

Sjón er sögu ríkari. Ég ætla ekki að lýsa því hér sem kemur fram í þættinum.

Á eyjan.is er sagt frá þeim hluta samtals okkar Davíðs sem sneri að stjórnarskrármálinu eins og lesa má hér.

Þriðjudagur 15. 01. 13 - 15.1.2013 22:45

Tónleikarnir Ungir einleikarar í Eldborg í kvöld þar sem fjórir ungir einleikarar komu fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Bernharð Wilkinsonar sýndu enn hve blómlegt og gott tónlistarlífið er og hve góðir nemendur koma úr tónlistarskólunum.

Jóhanna Sigurðardóttir getur ekki unnt Steingrími J. Sigfússyni þess að hafa knúið fram hlé á ESB-viðræðunum það sé verk Jóns Bjarnasonar, ríkisstjórnin tók að sögn Jóhönnu ákvörðunina 14. janúar til að koma í veg fyrir að Jón splundraði stjórnarsamstarfinu. Sjá hér.

Litla samfylkingin, Björt framtíð (BF), er ekki ánægð með ákvörðun Jóhönnu. Guðmundur Steingrímsson, formaður BF, segir á Smugunni, vefmálgagni VG, í dag að Jóhanna hafi „sem betur fer“ aðeins gripið til „sýndarleiks“ það hafi aldrei staðið til að opna neina nýja kafla fyrir kosningar svo þetta sé ekki „formlegt hlé“ segir Guðmundur og einnig:  

,,Það gagnast engum að leysa upp samninganefndina og glutra niður samböndum. Ég iða í skinninu að taka alvöru umræðu um afhverju  við erum að sækja um aðild að ESB, þetta er mikilvægasta mál þjóðarinnar, að koma okkur úr efnahagslegu öngþveiti og bæta lífskjör.“

Alþingi sótti um aðild að ESB 9. júlí 2009 og þá sat Guðmundur Steingrímsson þar og lagði málinu lið. Í janúar 2013 iðar hann í skinninu „að taka alvöru umræðu“ um hvers vegna sótt séu um aðild. Hvað hefur þingmaðurinn gert í málinu síðan 2009? Hefur hann aldrei rætt það af alvöru? Hvers vegna ekki?

Mánudagur 14. 01. 13 - 14.1.2013 20:55

Í hádeginu hlustaði ég á Nils Karlson frá Svíþjóð flytja fyrirlestur um nýja sænska módelið, sjá upplýsingar um hann hér. Svíar gengu í gegnum dýrkeypta reynslu á fyrstu árum tíunda áratugarins þegar vextir fóru í 500% og aðrar öfgar í efnahagsmálum þeirra voru í samræmi við það. Með því að snúa baki við íhlutunarstefnu jafnaðarmanna, draga úr ríkisrekstri, lækka skatta og vinna að einkavæðingu tókst þeim að ná sér á strik aftur.

Hér á landi hafa ESB-aðildarsinnar haldið því fram að ákvörðun Svía um aðild að ESB hafi skipt sköpum fyrir þá á leiðinni úr efnahagsvandanum. Karlson minnist ekki einu orði á ESB-aðildina í fyrirlestri sínum og svaraði fyrirspurn um efnið á þann veg að hann hefði verið með eina glæru þar sem minnst hefði verið á ESB en ákveðið að sleppa henni af því að hún skipti ekki máli. Hann sagði að Svíar þökkuðu nú sínu sæla fyrir að hafa hafnað evrunni á sínum tíma.

Jón Baldvin Hannibalsson kynnti sig sem fyrirverandi formann Alþýðuflokksins og spurði hvort allt hið ágæta sem Karlson hefði lýst væri ekki einfaldlega sænskum jafnaðarmönnum að þakka og Stefán Ólafsson prófessor tók í sama streng. Karlson hélt nú ekki, stefnan hefði verið mótuð í mikilli andstöðu við jafnaðarmenn. Þeir hefðu svarað stefnu borgaraflokkanna með því að móta „þriðju leiðina“ svonefndu en hún hefði ekki skilað neinu og enginn talaði um hana lengur.

Hafi jafnaðarmenn og ESB-aðildarsinnar ekki róið á fengsæl mið til stuðnings skoðunum sínum hjá Nils Karlson urðu þeir ekki síður fyrir vonbrigðum vegna undanhalds ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur í ESB-málum.

„Nú ráða Vinstri græn för í utanríkismálum þjóðarinnar! Þessi niðurstaða um að hægja á aðildarviðræðunum er algjörlega óásættanleg fyrir Samfylkinguna. […] Aðild að Evrópusambandinu er eitt að helstu stefnumálum Samfylkingunnar. Hvernig í ósköpunum eiga frambjóðendur flokksins að svara fyrir þetta mál – þetta klúður – í kosningabaráttunni. Kallast þetta ekki að fara inn í kosningabaráttuna með buxurnar á hælunum?“

Segir Baldur Þórhallsson, prófessor og varaþingmaður Samfylkingarinnar, á fésbókarsíðu sinni. Hann boðaði vorið 2009 að þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB-aðild Íslands færi fram á árinu 2010.

Rætt var við Árna Pál Árnason, formannsframbjóðanda Samfylkingarinnar, í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni. Hann lauk samtalinu á þessari setningu: „Lífskjörum [hefur verið] rænt af fólki með skipulegum hætti.“ Þannig lýsti hann stjónarfari Jóhönnu og Steingríms J.

Sunnudagur 13. 01. 13. - 13.1.2013 22:41

Ekki kemur á óvart að margir hafi reiðst í Bretlandi og annars staðar við að horfa á síðasta þáttinn í þriðju röð Downton Abbey sem lýkur með því að Matthew Crawley ferst í bílslysi. Þátturinn var sýndur hér í kvöld en um jólin í Bretlandi og endirinn hefur spurst út og kemur því ekki eins á óvart hér og hann gerði þegar hann var frumsýndur.

The Daily Telegraph birti langt viðtal við Dan Stevens þar sem hann skýrði þá ákvörðun sína að biðja um að verða skrifaður út úr þáttaröðinni. Hann vildi ekki festast í ímyndinni sem Matthew heldur fá tækifæri til að hasla sér völl í nýju hlutverki. Hann leikur nú á Broadway í New York.

Í skrifaði ég pistil hér á síðuna um ESB-umræðurnar í Bretlandi og bar það samana við umræðurnar hér á landi.

Laugardagur 12. 01. 13. - 12.1.2013 22:05

Þegar við ókum að borholunni við Goðaland þar sem upp streymdi rúmlega 13° heitt vatn í vikunni var allt rólegt og ekkert vatn streymdi úr holunni. Okkur var sagt að vatnið rynni nú niður í gljúpt bergið. Síðar í dag fréttum við að vatn streymdi að nýju úr holunni og mætti álykta að sprungur í bjarginu hefðu fyllst.

Þjóðvegurinn hefur verið rofinn skammt frá innkeyrslunni að Goðalandi og lagt rör út í Kvoslækjarána frá borholunni. Þetta er gert til að ekki myndist tjörn sem loki leiðinni að félagsheimili Fljótshlíðinga.

Það verður spennandi að fylgjast með framvindu leitarinnar að heitu vatni í Fljótshlíðinni sem hefur verið talin kalt svæði til þessa.

Í ljós kemur að fjölmiðlamenn sem krefja aðra sagna búa yfir upplýsingum sem lýsa eðli Baugsmiðlanna og framgöngu eiganda þeirra sem leggur sig fram um að þagga niður í öllum sem hann telur ögra sér, meira að segja prentvillupúkanum. Sjá þetta nýja dæmi um þöggunaráráttu fjölmiðlakóngsins.

Föstudagur 11. 01. 13. - 11.1.2013 22:50

Í dag var gamall og góður vinur minn, Sverrir Þórðarson, blaðamaður á Morgunblaðinu jarðsunginn af séra Hjálmari Jónssyni í Dómkirkjunni. Sverri kynntist ég fyrst á sjötta áratugnum þegar ég tók að venja komur mínar á blaðið og hóf síðan störf þar sem sendill á kvöldvöktum með skóla. Hann sýndi mér alla tíð mikla vinsemd en við unnum saman á blaðinu í marga áratugi auk þess sem ég hitti hann oft á förnum vegi eftir að hann hætti þar fyrir aldurs sakir árið 1992.

Eftir að ég hóf þingmennsku ræddum við oft saman á Austurvelli þegar hann var þar á göngu frá heimili sínu við Suðurgötu. Þá áttum við skemmtilegar stundir saman hjá Guðlaugi Jónssyni (Gulla) í hárgreiðslustofunni Nikk við Kirkjutorg þar til húsnæði þessarar elstu rakarastofu borgarinnar var selt árið 2006. Var oft glatt á hjalla þegar við hittumst þar. Sverrir var einn viðskiptavina Gulla sem fylgdu honum á Seljaveginn og fengu að koma til hans þar til Gulli andaðist í september árið 2009. Blessuð sé minning hans.

Ég kveð Sverri með söknuði og þakklæti. Blessuð sé minning hans.

Fimmtudagur 10. 01. 13 - 10.1.2013 23:40

Sótti stjórnarfund í Snorrastofu í Reykholti í dag. Færðin var eins og á sumardegi en aðeins slydda fyrst á leiðinni til baka. Allan ársins hring koma ferðamenn í Reykholt og nú hefur sýningin um Snorra og sagnaarfinn verið færð í nýjan og glæsilegan búning sem kallar á fleiri gesti en áður.

Starfsemin á vegum Snorrastofu er fjölbreytt og tækifærin í Reykholti fjölmörg og spennandi. Reynslan af starfsemi þar og í Gunnarsstofnun að Skriðuklaustri er mikilvægt framlag til þess að skilgreindir verði þjóðmenningarstaðir sem hlúð sé að á sérstakan hátt enda fullnægi starfsemi þar ákveðnum lögbundnum skilyrðum.

Í kvöld var forsýning á myndinni Ryð og bein við upphaf franskra kvikmyndadaga. Sérstæð og brotakennd en myndar þó eina heild. Salur 1 í Háskólabíói var troðfullur og var setið í tröppum. Undarlegt að myndin Amour skyldi ekki sýnd – hún var tilnefnd til Óskarsverðlauna í dag. Þeim sem settu kvikmyndadagana með ræðum kom ekki saman um hvort hún hefði verið tilnefnd til fjögurra eða fimm verðlauna. Tilnefningarnar eru fimm.

Sumir fjölmiðlar segja að Amour sé austurrísk mynd af því að Michael Haneke leikstjóri er austurrískur. Frakkar líta á hana sem franska. Þjóðverjar komu að því að fjármagna myndina.

áttur

Miðvikudagur 09. 01. 13 - 9.1.2013 20:45

Í dag tók ég 50 mínútna viðtal við Sighvat Björgvinsson, fyrrverandi ráðherra og alþingismann Alþýðuflokksins, á ÍNN um ákvæði í tillögum stjórnlagaráðs sem nú eru til umræðu á alþingi og snúast um valdsvið forseta Íslands og störf ríkisstjórnarinnar. Viðtalið á að sýna klukkan 17.00 sunnudaginn 13. janúar og er hið fyrsta af fjórum löngum viðtölum sem ég ætla að taka um stjórnarskrármálið og sýnd verða í janúar, febrúar og mars ef allt gengur eins og að er stefnt.

Ég vænti þess að viðtölin verði einnig sett á netið og ég geti kynnt þau hér eftir að þau hafa verið sýnd.

Við Sighvatur förum í gegnum texta í tillögunum. Ég er sannfærður um að það komi mörgum á óvart að fylgjast með því sem kemur í ljós þegar rýnt er í textann og leitast við að skýra hann.

Sighvatur nálgast viðfangsefnið með hliðsjón af reynslu sinni sem þingmaður og ráðherra. Hann verður ekki sakaður um að skipa sér í pólitíska fylkingu gegn Samfylkingunni en þingmenn hennar knýja mest á um afgreiðslu stjórnlagatillagnanna.

Þriðjudagur 08. 01. 13 - 8.1.2013 18:50

Fréttir hafa verið sagðar af tilraunaborun eftir heitu vatni við Goðaland í Fljótshlíð. Á vefsíðu Rangárþings eystra segir í dag:

„7. janúar voru boraðir 18 metrar frá 102 niður í 120 metra dýpi. Í 118 metrum opnaðist mjög öflug æð sem borstjóri mat að væri 80-100 l/sek. Vatnið er 13,3°C heitt. Eftir að borstrengurinn hafði verið tekinn upp þá virðist sem sjálfrennsli úr holunni sé a.m.k. 25-30 l/sek. Þetta mikla vatnsmagn verður þess valdandi að breyta verður um boraðferð. Hætt verður að bora með lofti og sett verður undir hjólakróna og borað með vatni það sem eftir er. Þetta mikla vatnsmagn kemur á óvart.

Þess ber að geta að þetta er rannsóknarhola þar sem verið er að kanna hitaástand svæðisins í næsta nágrenni. Hitt er svo annað mál að þetta mikla vatnsmagn má nota til upphitunar með varmadælu og því gæti verið hægt að nota holuna í þeim tilgangi.“

Þetta er spennandi fyrir okkur í Fljótshlíðinni en svæðið hefur verið talið kalt og fyrst þegar ég tók að spyrjast fyrir um heitt vatn á þessum slóðum var mér sagt að ekki þýddi að hugsa um það. Þetta hefur reynst rangt og nú er spurning hvað vatnið reynist heitt að lokum.

Goðaland er félagsheimili í miðju hlíðarinnar og er borað í landi sveitarfélagsins en þarna var grunnskóli sem hefur verið lokað enda er grunnskóli sveitarfélagsins rekinn á Hvolsvelli. Í gamla skólahúsinu er nú gistiheimili. Fyrir utan sveitabýli í nágrenni Goðalands er þar nálægð frístundabyggð auk þess sem að Hellishólum hefur myndarlega verið staðið að því að byggja upp og þróa ferðaþjónustu meðal annars með stórum golfvelli.

 

Mánudagur 07. 01. 13. - 7.1.2013 15:00

Fyrsti þátttur minn á ÍNN á þessu ári er kominn á netið, viðtal við Bjarna Harðarson, bóksala á Selfossi, sem sjá má hér. Bjarni lýsir hinni dæmalausu stöðu meðal vinstri-grænna þar sem flokkseigendur leyfa Steingrími J. að fórna flokknum fyrir ráðherravöldin. Hvernig ætlar flokkurinn að boða aðra stefnu fyrir kosningar en ESB-aðildarstefnuna?

Nú hefur Steingrímur J. mótað sömu stefnu í olíuleitarmálum og ESB-málum. Hann er i flokki sem er á móti ólíuvinnslu en stendur að því að veita leyfi til olíuleitar af því að borað verði síðar. Ætlar hann að vera á móti borun?

Sunnudagur 06. 01. 13. - 6.1.2013 23:10

Enn hefur sannast að Samfylkingunni er í nöp við kristna trú og einnig þjóðkirkjuna. Skýrasta dæmið um óvildina kemur fram í ákvörðun meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur um að úthýsa öllu sem snertir ræktun kristilegrar arfleifðar úr grunnskólum borgarinnar. Þá hafa þingmenn Samfylkingarinnar snúist gegn biskupi Íslands fyrir að ætla að beita sér fyrir fjársöfnun vegna tækjakaupa í þágu Landspítalans.

Meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur lét undan þrýstingi frá Vantrú og öðrum slíkum hópum þegar hann tók hinar umdeildu ákvörðun sína.

Á þeim tíma lét flokksforysta Samfylkingarinnar sér það vel lynda að þessi aðför yrði gerð að kristni í skólum Reykjavíkur. Þegar þingmenn flokksins ráðast á biskupinn snúast nokkrir kunnir samfylkingarmenn kirkjunni til varnar. Þeir vita sem er að þessi árás á biskup er flokknum ekki til framdráttar.

Þótt sjálfsagt og eðlilegt sé að taka upp hanskann fyrir biskup þegar á hann er ráðist af tilefni sem þessu er hitt þó enn mikilvægara að standa vörð um hinn kristna arf og að honum sé ekki úthýst innan skólakerfisins. Man nokkur eftir að forystumenn Samfylkingarinnar hafi gengið fram fyrir skjöldu þeim málstað til varnar?

Laugardagur 05. 01. 13. - 5.1.2013 22:55

Fréttstofa ríkisútvarpsins leitar áfram eftir upplýsingum um hvað gerðist á ríkisráðfundinum 31. desember 2012 þegar Ólafur Ragnar lagði fram bókun um stjórnarskrármálið sem hann skýrði síðan frá í nýársávarpi sínu. Í dag leitaði fréttastofan álits Jóhönnu Sigurðardóttur sem taldi lögbrot að segja frá því sem fram færi í ríkisráðinu af því að fundargerðir þess væru trúnaðarmál. Í gær sagði Steingrímur J. Sigfússon að menn mættu segja frá því sem þeir hefðu sjálfir sagt í ríkisráðinu. Afstöðu Jóhönnu má túlka á þann hátt að hún hafi ekki sagt neitt á fundinum annað en að lesa textann sem fyrir hana var lagður og bókaður í fundargerðina.

Á ruv.is segir í dag:

„Hrannar B. Arnarsson, aðstoðarmaður forsætisráðherra, sagði í dag að forsætisráðherra ætlaði ekki að tjá sig um mál sem rædd væru á ríkisráðsfundi. Í upplýsingalögum stæði að almenningur hefði ekki aðgang að fundargerðum ríkisráðs. Samkvæmt því teldi forsætisráðherra að henni væri ekki heimilt, lögum samkvæmt, að tjá sig um málefni sem rædd væru á ríkisráðsfundi. Aðspurður hvort að samkvæmt því mætti túlka þá skoðun sem svo að forseti hefði þá brotið lög með því að tjá sig um málefni ríkisráðsfundar sagði Hrannar að það væri ekki í sínum verkahring að túlka orð forseta Íslands. Ekki fékkst viðtal við fulltrúa forsætisráðuneytis um málið.“

Jóhanna og Ólafur Ragnar deildu fyrir nokkru um siðareglur sem Ólafur Ragnar neitaði að setja um forsetaembættið að kröfu Jóhönnu. Þá gengu bréf á milli þeirra sem Ólafur Ragnar taldi óæskileg, þau ættu að ræða mál sem þessi á fundum. Hrannar B.  blandaði sér í þá deilu og nú er hann aftur kominn á stjá sem einskonar siðameistari gagnvart forsetaembættinu. Hið sérkennilega við fréttina á ruv.is er að þar virðast menn ekki líta á Hrannar B. sem fulltrúa forsætisráðuneytisins. Hver skyldi það vera – Jóhann Hauksson? Vildi hann ekki tjá sig?

Sé komið við auma blettinn á Steingrími J. æpir Björn Valur Gíslason, þingmaður VG,. Hann kallar Ólaf Ragnar „forsetabjána“ á vefsíðu sinni í dag. Skyldi hin siðsama Jóhanna setja ofan í við þingmanninn – hefur hún ekki sett siðareglur um alþingi og alþingismenn?

Föstudagur 04. 01. 13. - 4.1.2013 18:55

Þeir sem lesið hafa fundargerðir ríkisráðs eins og ég gerði á sínum tíma þegar ég skrifaði lögfræðilega ritgerð um starfsstjórnir sjá  að í tíð Sveins Björnssonar sem forseta voru fundir ráðsins tíðari en núna og þá kom einnig til umræðna á fundum ráðsins og forseti áminnti ráðherra og setti þeim kosti vegna stjórnarmyndunar.

Ég undrast alltaf þegar menn treysta sér til þess að fara í fréttatíma eða fréttaskýringartíma ríkisútvarpsins og fullyrða eitthvað án þess að leita af sér allan grun. Í ríkisútvarpinu var þessu slegið föstu í fréttatíma í dag eins og lesa má á ruv.is:

„Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, tók upp mál að eigin frumkvæði á ríkisráðsfundi. Hann lagði fram bókun um stjórnarskrármálið, mál sem verið er að fjalla um á Alþingi. Slík umfjöllun er einsdæmi.

Í kjölfar bókunarinnar á gamlársdag, kom til orðaskipta á ríkisráðsfundi. Engar heimildir eru um að áður hafi komið til orðaskipta á ríkisráðsfundi.“

Forseti Íslands hefur áður lagt fram bókun á ríkisráðsfundi svo að fullyrðing um að slíkt hafi aldrei gerst er ekki rétt. Heimildir eru fyrir hendi um að orðaskipti hafi farið fram milli forseta og ráðherra á ríkisráðsfundi meira að segja í tíð þeirrar ríkisstjórnar.

Þegar Steingrímur J. Sigfússon, þáv. fjármálaráðherra, lagði til við Ólaf Ragnar 31. desember 2009 að hann ritaði undir lög um Icesave-samningana tók Ólafur Ragnar sér frest, sem er einsdæmi, og hafnaði síðan nokkrum dögum síðar að skrifa undir lögin. Um þetta urðu orðaskipti á fundinum og eftir hann sagðist Steingrímur J. sjá eftir að hafa ekki krafist þess strax á honum að Ólafur Ragnar tæki afstöðu til tillögu sinnar um að rita undir lögin.

Þá taldi Steingrímur J. ekki eftir sér að segja frá atviki á ríkisráðsfundi. Nú segir hann við ríkisútvarpið að hann megi ekki segja neitt um það sem gerðist á fundinum 31. desember 2012.

Að forseti neiti að rita undir lög á ríkisráðsfundi er merkilegra í sögulegu tilliti en að forseti leggi fram bókun í ríkisráðinu.  Að neita að neita að rita undir lög er miklu afdrifaríkari aðgerð ag hálfu forseta en að leggja fram bókun í ríkisráði.

Hvers vegna skyldi fréttamaður ríkisútvarpsins sem ræddi við Steingrím J. um atvik í ríkisráði ekki hafa spurt hann um fundinn 31. desember 2009?

Fimmtudagur 03. 01. 13. - 3.1.2013 21:40

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður velferðarnefndar alþingis, sýndi einstakt dómgreindarleysi með því að ráðast á biskupinn yfir Íslandi frú Agnesi M. Sigurðardóttur fyrir að boða í nýárspredikun sinni að þjóðkirkjan ætlaði að leggja Landspítalanum lið við að safna fé til tækjakaupa. Sjá hér.

Sigríður Ingibjörg jós úr skálum reiði og hneykslunar yfir hlustendur hádegisfrétta ríkisútvarpsins í dag. Spurning vaknar hvernig nokkrum datt í hug að leita til hennar til að fá þessa frétt. Fékk fréttastofan ábendingu um að reiði væri innan Samfylkingarinnar vegna predikunar biskups? Er málum í raun þannig háttað að þingmönnum Samfylkingarinnar þótti að sér vegið með predikun biskups?

Viðbrögð Sigríðar Ingibjargar benda til þess. Innan VG er einnig reiði vegna framgöngu biskups ef marka má sérkennilega færslu Björns Vals Gíslasonar, formanns fjárlaganefndar alþingis, á vefsíðu hans.

Viðbrögðin benda til að þingmenn Samfylkingar og VG muni gera það sem í þeirra valdi er til að hindra að þjóðkirkjan geti staðið að fjársöfnuninni fyrir Landspítalann á þann veg sem biskup boðaði. Með því næði óvild þessara flokka í garð kirkjunnar nýjum hæðum.

Afstaða Sigríðar Ingibjargar er í ætt við stuðning borgarfulltrúa Samfylkingarinnar við það sem gert hefur verið í Reykjavík undir forystu Jóns Gnarrs og Dags B. Eggertssonar, varaformanns Samfylkingarinnar, til að úthýsa kristni og fræðslu um hana úr skólum Reykjavíkur.

Miðvikudagur 02. 01. 13. - 2.1.2013 19:20

Fréttastofa ríkisútvarpsins kynnti niðurstöðu í nýjum þjóðarpúlsi Gallups um fylgi stjórnmálaflokkanna síðdegis miðvikudaginn 2. janúar. Könnunin sýnir að vinstri-grænir (VG) hafa ekki verið minni í 10 ár, fylgi flokksins er 9,1% og þingmenn yrðu sex en hann fékk 14 þingmenn kjörna í apríl 2009. Þrír þessara þingmanna hafa sagt skilið við flokkinn á kjörtímabilinu og einn sagt af sér. Ég gaf skýringu á þessu fylgishruni á Evrópuvaktinni  í dag eins og hér má sjá.

Í kvöld birtist á ÍNN viðtal mitt við Bjarna Harðarson, bóksala á Selfossi, sem starfaði sem upplýsingafulltrúi Jóns Bjarnasonar í ráðherratíð hans en sagði skilið við vinstri-græna um mitt ár 2012. Þar reyndi ég að leita skýringa á óheillaþróuninni innan VG og kom ekki að tómum kofanum. Samtalið má sjá klukkan 20.00 og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Könnunin sýnir að Björt framtíð (BF), flokkur Guðmundar Steingrímssonar, fengi níu þingmenn í krafti 12,3% ef gengið yrði til kosninga nú. Samfylkingin myndi tapa sjö þingmönnum  og fengi þrettán með 19,1% fylgi. Samtals tapa stjórnarflokkarnir, VG og Samfylking, fimmtán þingmönnum.

Sjálfstæðisflokkurinn fengi 36,3% og 26 þingmenn ef kosið yrði í dag og bætti við sig tíu þingmönnum. Framsóknarflokkurinn fengi 13,1% og níu þingmenn sama fjölda og í kosningunum fyrir fjórum árum.

Stjórnarflokkarnir hafa tapað fylgi síðustu vikur ársins, stjórnarandstaðan stóð í stað en BF vex fiskur um hrygg. Fylgið fer frá stjórnarflokkunum inn á grátt svæði BF. Spurningin er hve lengi þeir dveljast þar.

Þriðjudagur 01. 01. 13. - 1.1.2013 23:10

Gleðilegt ár!

Greinilegt er að stjórnlagaráðsliðum er misboðið vegna nýársávarps Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, þar sem hann gagnrýndi tillögur þeirra. Einkenni á málsvörn Þorvalds Gylfasonar og Illuga Jökulssonar er að þeir fjalla meira um umgjörðina en efnið, að ferlið og aðild þeirra og annarra að því hafi leitt til niðurstöðu sem óréttmætt sé að gagnrýna.

Eitt helsta einkenni á málsvörn stjórnlagaráðsliða almennt er að þeir hefja ekki rökstuðning fyrir tillögum sínum heldur gorta sig af þeim. „Ég held sérstaklega að hann [grundvöllurinn frá stjórnlagaráði] sé miklu betri en sú stjórnarskrá sem við búum nú við – líka stjórnskipunarkaflinn, sem er sannarlega ekkert hættulegur...“ Ólafur Ragnar færði einmitt rök fyrir göllunum í stjórnskipunarkaflanum og sagði hann „tilraun um stjórnkerfi sem ætti sér engan líka á Vesturlöndum“.

Þorvaldur Gylfason segir á dv.is:

„Fráleitur þykir mér málatilbúnaður forseta Íslands – að stíga nú fram eftir dúk og disk og reyna að búa til nýjan ágreining um efnisatriði í stjórnarskrárfrumvarpinu, sem nú bíður afgreiðslu Alþingis í samræmi við þjóðarviljann eins og hann birtist í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október sl. Málflutningur forsetans vitnar ekki um ríkan skilning á eða virðingu fyrir leikreglum lýðræðisins. Vilji þings og þjóðar liggur fyrir.“

Forseti Íslands og allir aðrir hafa rétt til að gera athugasemdir við tillögur stjórnlagaráðs á hvaða stigi málsins sem það er. Það er út í bláinn að halda því fram að ferlið við gerð tillagnanna sé þess eðlis að vegna þess séu þær hafnar yfir gagnrýni eða tíminn til að gagnrýna þær sé liðinn.

Málið er enn til meðferðar á alþingi og þar eiga menn síðasta orðið um efni þess. Þingmenn hljóta að velta sérstaklega stjórnskipunarkaflanum og taka þar mið af orðum forseta Íslands eins og annarra. Einokunarárátta stjórnlagaráðsliða og sjálfshól er broslegt en ræður engum úrslitum um lyktir stjórnarskrármálsins.