31.1.2013 21:30

Fimmtudagur 31. 01. 13

Undanfarin ár hefur reynt á almannavarnakerfið vegna náttúruhamfara.  Óveður í haust og í vetur eru nýjustu dæmin um hvernig kerfið er virkjað til að tryggja öryggi almennings. Þetta mikilvæga öryggiskerfi alls almennings er í sífelldri þróun og mótun. Samhæfingar- og stjórnstöð almannavarna í Skógarhlíð er virkjuð þegar nauðsyn krefst að mati þeirra sem koma að stjórn leitar og björgunar eða viðbragða við hættuástandi. Í hádeginu í dag flutti Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, erindi á vegum Varðbergs í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins um almannavarnir í nútíð, nýjar áskoranir og öryggi almennings.

 Margt hefur breyst í áherslum á sviði almannavarna síðan þeim var fyrst komið á fót hér á landi fyrir um það bil hálfri öld. Víðir gerði grein fyrir þróuninni og breyttum áherslum. Þá lýsti hann einnig á áhrifaríkan hátt með dæmum af afleiðingum nýlegs jarðskjálfta í Christchurch á Nýja-Sjálandi hve nútímamaðurinn í háþróuðu tæknisamfélagi á mikið undir því að raforkuver nýtist á hættustundu. Án rafmagns verðum við fljótt sambandslaus og hefur það sannast hvað eftir annað hér á þessum vetri þegar óveður hafa eyðilagt raflínur.

 Í almannavarnalögum frá 2008 er gert ráð fyrir að dregin sé saman reynsla af atvikum sem kalla á almannavarnaviðbrögð. Því miður hefur ekki gefist tóm til að sinna slíkri skýrslugerð sem er þó mikilvægur liður í öllu þróunarstarfi á þessu mikilvæga sviði. Eftir snjóflóðin miklu um miðjan tíunda áratuginn drógu menn þann lærdóm að nauðsynlegt væri að verja milljörðum króna til snjóflóðavarna og hefur það verið gert á myndarlegan hátt og stóraukið öryggi þeirra sem búa á snjóflóðasvæðum. Sambærilegra aðgerða kann að vera þörf á fleiri sviðum.