Dagbók: september 2007

Sunnudagur, 30. 09. 07. - 30.9.2007 20:49

Þótt Norðmenn hafi þá skipan, að ráðherrar sitji ekki á þingi, skil ég ekki, að framsóknarmenn ætli að gera þetta að baráttumáli, þegar þeir hefja stjórnarandstöðustörf á þingi eftir 12 ára stjórnarsetu.

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, ætlar jafnframt að bregða fæti fyrir breytingar á stjórnarráðinu.

Mér finnst ólíklegt, að baráttumál af þessum toga séu til þess fallin að auka fylgi Framsóknarflokksins.

Laugardagur, 29. 09. 07. - 29.9.2007 15:57

Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, var afdráttarlaus í afstöðu til Evrópumála í ræðu á fjölmennum fundi sjálfstæðismanna í Valhöll í morgun. Við myndun ríkisstjórnarinnar hefði verið um það samið, að Ísland færi ekki í Evrópusambandið og einhliða upptaka evru væri veikleikamerki - evra kæmi með öðrum orðum ekki til álita nema með aðild að ESB. Að tala niður krónuna væri engum til sóma.

Í stjórnarsáttmálanum segir: „Skýrsla Evrópunefndar verði grundvöllur nánari athugunar á því hvernig hagsmunum Íslendinga verði í framtíðinni best borgið gagnvart Evrópusambandinu. Komið verði á fót föstum samráðsvettvangi stjórnmálaflokka á Alþingi sem fylgist með þróun mála í Evrópu og leggi mat á breytingar út frá hagsmunum Íslendinga. Nefndin hafi samráð við innlenda sérfræðinga og hagsmunaaðila eftir þörfum.“

Í skýrslu Evrópunefndar eru tíunduð mörg úrræði Íslendinga til að efla samstarf sitt við ESB á grundvelli EES-samningsins og Schengen-samstarfsins. Ég er eindregið þeirrar skoðunar, að fara eigi þær leiðir í þessu skyni, sem nefndin tíundar, og það sé mun happadrýgra til að tryggja íslenska hagsmuni gagnvart ESB en óljóst, illa rökstutt og oft ábyrgðarlaust tal um upptöku evru.

Friðbjörn Orri Ketilsson segir á vefsíðu sinni:

„Gott er að vita til þess að á næstu dögum munu evrópusinnar, verkalýðsforkólfar og helstu vinstrimenn landsins gera allt vitlaust eftir að í ljós kom að launakostnaður er 30% hærri hérlendis en á evrusvæðinu. Er það nokkuð hærra en talað er um að matvælaverð, eldsneytisverð og annað sé hærra hér en á evrusvæðinu.“

Það er að mörgu að hyggja, þegar rætt er um Ísland og evrusvæðið. Hvers vegna skyldu vextir vera jafnglágir þar og raun ber vitni? Jú, vegna þess að atvinnuleysi er t.d. 25% hjá ungum Frökkum.

Föstudagur, 28. 09. 07. - 28.9.2007 20:27

Ríkisstjórnin er tekin til við að hittast að nýju að morgni föstudaga, eins og jafnan þegar þing kemur saman, en það verður á mánudag.

Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins kom saman í hádeginu.

Síðdegis var tekið sjónvarpsviðtal við mig um stjórn- og öryggismál Rússlands.

Greinilegt er, að lífsleiknikennari í Menntaskólanum í Kópavogi hefur bent nemendum sínum á að senda mér tölvuspurningar um refsingar og þyngd þeirra. Þetta sannar mér enn, hve nauðsynlegt er, að kenna nemendum, að dómarar ákveða þyngd refsinga en ekki dómsmálaráðherra. Alþingi ákveður refsirammann með lögum en dómarar, hve mikið af honum er nýtt hverju sinni.

Fimmtudagur, 27. 09. 07. - 27.9.2007 9:40

Hitti Knut Storberget, dómsmálaráðherra Noregs, á fundi í Ósló í morgun og ræddum við samstarf um kaup á nýjum björgunarþyrlum.

Ég sé á mbl.is, að birt er frétt frá NRK, þar sem haft er eftir mér, að Rússar hafi óskað eftir varnarsamstarfi við Ísland. Þessa skoðun fréttamannsins sagðist ég hins vegar ekki geta staðfest í samtali við hann. Á hinn bóginn vildi ég sem dómsmálaráðherra, að samstarf yrði við Rússa um öryggi skipa á siglingaleiðinni frá Barentshafi til N-Atlantshafs. Ég tel fréttamanninn hafa haft í huga ummæli rússenska sendiherrans í Reykjavík í sjónvarpi, þegar hann var spurður um Rússaflug, en Valur Ingimundarson vitnaði til þeirra í fyrirlestri í Tromsö. Ég sagðist ekki vita, hvað byggi að baki ummælunum, enda hefði sendiherrann sagt, að hann hefði beint erindi til utanríkisráðuneytisins.

Hélt frá Ósló kl. 14.45 að norskum tíma og lenti á Keflavíkurflugvelli klukkan 15.15.

Um kvöldið var sýnt viðtal við mig í leikhús/kvikmyndaþætti sjónvarpsins 07/08. þar sem ég ræddi um þýsku myndina Das Leben der anderen og Die Hard myndirnar.


Miðvikudagur, 26. 09. 07. - 26.9.2007 20:43

Tromsö-ráðstefnunni Emerging from the Frost lauk í dag klukkan 14.00 með erindi yfirmanns norska hersins, Sverre Disesen, en hann mun eftir nokkrar vikur leggja fram tillögu sína að varnarstefnu Noregs næstu fimm ár.

Ég ætla að melta með mér allan þann fróðleik, sem fluttur var á ráðstefnunni, áður en ég legg út af honum hér á síðunni. Á hinn bóginn get ég slegið því föstu, að fyrir þá, sem komu langt að til að hlusta á það, sem fyrirlesarar höfðu að segja, held ég, að ráðstefnan hafi opnað augu þeirra á þeirri gjörbreytingu, sem er í vændum á sviði  auðlindanýtingar, siglinga og öryggismála  á Norðurslóðum.

Okkur Íslendingum var gert hátt undir höfði á ráðstefnunni með þrjá fyrirlesara, þar sem okkur gafst færi á að lýsa stöðu okkar við hinnar nýju aðstæður.

Minnti þessi ráðstefna mig á svipaða fundi, sem ég sat á áttunda áratugnum, þegar Norðmenn og Íslendingar tóku höndum saman um að kynna öðrum þjóðum breytingar á Norðurslóðum vegna útþenslustefnu sovéska flotans og flughersins. Aðstæður eru aðrar núna og breytingarnar af öðrum toga og stafa ekki af keppni milli austurs og vesturs.

Klukkan 16.00 flaug ég frá Tromsö til Ósló.

Þriðjudagur, 25. 09. 07. - 25.9.2007 21:42

Sat allan daginn ráðstefnu í Tromsö um breytingar, öryggismál og auðlindanýtingu á norðurslóðum og flutti þar erindi.

Mánudagur, 24. 09. 07. - 24.9.2007 21:00

Flaug frá Prag klukkan 13.45, var lentur í Ósló 15.30 og tók vél til Tromsö kl. 16.35 og var kominn inn á hótel um 18.15. Ráðstefnan undir heitinu Emerging from the Frost hefst á morgun. Einhvern veginn hefur komist á kreik, að til hennar hafi verið boðað vegna svonefnds Rússaflugs. Þetta er mikill misskilningur. Á hinn bóginn verður vafalaust minnst á þetta flug á ráðstefnunni.

Ég las þessa frásögn af sjónvarpsviðtali við Steingrím Hermannsson á vefsíðu samráðherra míns Össurar Skarphéðinssonar:

„Það var hins vegar Íraksstríðið, sem gerði útslagið og veitti (Framsóknar)flokknum náðarhöggið – að sögn gamla foringjans. Hann kvað það út úr öllu korti við sögu og hugsjónir flokksins „að styðja árásarstríð.“

Hvað hefði flokkurinn átt að gera – spurði Eva María.

Hann hefði átt að slíta ríkisstjórninni, og knýja fram kosningar, svaraði gamli foringinn að bragði, og bætti því við – sem allir sáu á þeim tíma – að Framsókn hefði haft mjög sterka stöðu ef það hefði gerst.“

Hvað er hér á seyði? Íraksstríðið hófst í aðdraganda þingkosninga og þingstörfum var áð ljúka í sama mund og það hófst. Össur hefði átt að sjá, að Steingrímur hefur einfaldlega gleymt öllum dagsetningum í tengslum við upphaf stríðsins og stjórnmálin hér. Í kosningabaráttunni vorið 2003 lá alls ekki fyrir, að sjálfstæðismenn og framsóknarmenn myndu starfa saman að kosningum loknum.

Ummæli Steingríms eiga ekki við nein rök að styðjast - nema hann hafi ætlað að segja, að framsóknarmenn hefðu ekki átt að mynda stjórn með sjálfstæðismönnum eftir kosningarnar 2003. Það er greinlega ekki alltaf auðvelt að vera vitur eftir á.

Sunnudagur, 23. 09. 07. - 23.9.2007 15:42

Lokadagur minn hér í Listasetri Ingibjargar og Þóris er yndislegur haustdagur, kyrr, hlýr og sólríkur. Við Rut gengum niður í litla þorpið undir Stjörnusteinskastalanum. Trén eru að skrýðast haustlitunum og spegluðust tignarlega í rólegri ánni, sem líður eftir dalnum.

Á morgun held ég sem leið liggur til Óslóar og þaðan beint áfram til Tromsö, þar sem ég sit ráðstefnu um öryggismál og auðlindanýtingu á norðurslóðum og flyt erindi á þriðjudag.

Laugardagur, 22. 09. 07. - 22.9.2007 16:41

Frídaginn notaði ég til að fara með Rut til Konopiste-kastala, sem er í um 20 mínútna akstursfjarlægð frá dvalarstað hennar í Listasetri aðalræðismannshjónanna Ingibjargar og Þóris hér í Tékklandi.

Kastalinn er mikill og fagur. Innan dyra er margt sögulegra minja einkum um síðasta eiganda og íbúa kastalans Ferdínand erkihertoga, sem féll ásamt Sófíu, konu sinni, fyrir launmorðingjahendi 28. júní 1914 í Sarajevó - og er upphaf fyrri heimsstyrjaldarinnar rakið til þess ódæðis. Börn þeirra hjóna bjuggu í kastalanum til 1921, þegar þau voru rekin þaðan og tékknesk stjórnvöld tóku hann í sína vörslu.

Í haustblíðunni var margt manna að skoða kastalann og rósagarðinn við hann, en þar má sjá 200 rósategundir.

Ferdínand erkihertogi var mikill áhugamaður um vopn og veiðar og ber innbú kastalans þess glögg merki. Þar er eitt mesta vopnasafn heims og veggina prýða horn og hausar til marks um, hve erkihertoginn var fengsæll. Leiðsögumaður sagði hann hafa drepið 300.000 dýr og sagan hermir, að með félaga sínum hafi hann fellt á sjötta þúsund dýr á tveimur sólarhringum. Erkihertoginn leit á veiðar sem viðleitni til að tryggja hæfilegt jafnvægi í náttúrunni.

Enn ræða menn að sjálfsögðu fíkniefnafundinn á Fáskrúðsfirði. Er skrýtilegt að sjá gildi hans dregið í efa, af því að fíkniefni muni áfram koma til landsins. Sumir sem þannig tala vilja líklega lögleiða neyslu fíkniefna. Aðrir nálgast viðfangsefnið frá þeim sjónarhóli, að fundurinn þýði síður en svo endalok læknisfræðilegrar fíknefnameðferðar. Röksemdafærsla af þessu tagi er í ætt við þau sjónarmið, að ekki eigi að gera ráðstafanir gegn hryðjuverkum, af því að alltaf verði til hryðjuverkamenn - eins og sá, sem myrti erkihertogahjónin í Sarajevo 28. júní 1914. 

Föstudagur, 21. 09. 07. - 21.9.2007 22:39

Ókum í dag með aðalræðismannshjónunum í Tékklandi Þóri Gunnarssyni og Ingibjörgu Jóhannsdóttur til bæjarins Cesky Krumlov, skammt frá landamærum Tékklands og Austurríkis. Bærinn er á heimsminjaskrá UNESCO og er skemmtilegt að hafa fengið tækifæri til að skoða hann og kastlann, sem gnæfir yfir honum.

Ég fékk fyrirspurnir frá blaðamönnum í dag um hvaða ráðstafanir ég teldi nauðsynlegar til að varna því, að fíkniefni bærust til landsins á svipaðan hátt og upplýst var um í gær á Fáskrúðsfirði. Tæknilega og skipulagslega er unnt að gera ýmsar rástafanir og sjálfsagt að huga að þeim.

Spurningar blaðamannanna snúast um viðbrögð í og umhverfis landið, sem vissulega eru mikilvæg. Eigi góður árangur að nást skiptir þó mestu að greina áhættu rétt og síðan grípa til aðgerða með sérgreint markmið í huga.  Þetta var haft að leiðarljósi við þá aðgerð lögreglu, sem nú er í sviðsljósinu.

Árangurinn á Fáskrúðsfirði byggist á miklli og góðri vinnu fjölda fólks á Íslandi og í öðrum löndum og þátttöku margra stofnana innan lands og utan. Haldlagning og handtökur eru toppurinn á ísjakanum.

 

Fimmtudagur, 20. 09. 07. - 20.9.2007 16:55

Þess verður minnst sem merks atburðar í sögu lögreglu og landhelgisgæslu, sem gerðist í dag, þegar samvinna þessara aðila leiddi til þess, að komið var upp um stórfellt smygl á fíkniefnum til landsins með skútu, sem kom til hafnar í Fáskrúðsfirði. Færi ég öllum heima og erlendis, sem að þessu máli hafa komið af hálfu yfirvalda, þakkir og heillaóskir.

Árangurinn byggist á ákverkni, trausti og trúnaði milli þeirra, sem hafa unnið að því að upplýsa málið og einnig á þeim breytingum, sem orðið hafa á skipan lögreglumála og landhelgisgæslu, auk viðtæks alþjóðlegs samstarfs.

Í dag hittum við Þórir Gunnarsson, aðalræðismaður, Jiri Pospisil, dómsmálaráðherra og formann lagaráðs Tékklands. Ræddum við skipan dómsmála, menntun lögfræðinga, breytingar á Evrópusambandinu og innleiðingu Schengen-samstarfsins í Tékklandi á um klukkutíma fundi okkar í dómsmálaráðuneytinu.

Miðvikudagur, 19. 09. 07. - 19.9.2007 17:02

Síðdegis fórum við Þórir Gunnarsson, aðalræðismaður Íslands, í tékkneska innanríkisráðuneytið hér í Prag og hittum Ivan Langer, ráðherra lögreglumála og landamæravörslu, og ræddum við hann um Schengen-málefni og önnur sameiginleg viðfangsefni. Í lok október hefur Langer boðað til fundar í Prag með ráðherrum nýju aðildarríkja Schengen til að staðfesta fyrsta áfanga fullrar aðildar þeirra að hinni sameiginlegu landamæravörslu.

Fyrir fáeinum árum var ráðherrann í 10 daga leyfi á Íslandi með eiginkonu sinni og átti þaðan góðar minningar, meðal annars frá því að hafa orðið að yfirgefa jeppa, þegar hann fór ekki á vaði yfir á. Gengu þau hjónin síðan í þrjár klukkustundir í nágrenni Öskju, þar til landvörður kom til móts við þau og bjargaði þeim til byggða.

Þriðjudagur, 18. 09. 07. - 18.9.2007 20:43

Fór klukkan 08.30 á fund í sendiráði Sviss í Brussel og hitti dómsmálaráðherra Sviss og aðstoðar-dómsmálaráðherra Noregs á fundi um Schengen-málefni.

Klukkan 10.00 hófst Schengen-ráðherrafundur og lauk honum klukkan 15.00 með hádegisverði.

Klukkan 18.45 flaug ég frá Brussel til Prag og lenti þar 20.15 og tók Þórir Gunnarsson, aðalræðismaður Íslands, á móti mér en við munum hitta tékkneska ráðherra næstu daga. 

Mánudagur, 17. 09. 07. - 17.9.2007 16:29

Fór á fund klukkan 09.00 í morgun hér í Brussel um þróun dóms- og lögreglumála í ljósi umræðna um nýjan stofnsamning Evrópusambandsins og þá breytingu, að svokölluð þriðja stoð verður lögð niður og flest málefni undir henni flutt undir fyrstu stoð sambandsins, það er undir meirihlutaákvarðanir. Þetta er flókið og vandasamt ferli, niðurstaðan er óljós á þessari stundu og þess vegna ekki unnt að segja, hvaða áhrif hún kann að hafa á samstarf við Schengen-ríki utan ESB, það er Ísland, Noreg og Sviss.

Markmiðið er, að á leiðtogafundi ESB hinn 18. október nk. verði tekin ákvörðun um hinn nýja stofnsamning. Mikil vinna hlýtur því að fara fram um þessar mundir á bakvið tjöldin til að samræma sjónarmið landanna 27. Líklegt er, að mál verði leyst á þann veg, að ríki geti verið á misjöfnum hraða innan ESB, það er ákveðið sjálf án yfirþjóðlegs valds, hvaða skuldbindingar þau taki á sig á sviði dóms- og lögreglumála.

Var ég á fundum um þessi mál fram til klukkan 17.00.

Það er mikið bil á milli þess, hvernig menn ræða ESB-málefni hér á þessum vettvangi, og boðskaparins, sem Andrés Pétursson, formaður Evrópusamtakanna, er að flytja í Morgunblaðinu í dag, þegar hann lætur eins og undanþága Dana vegna sumarhúsa á Jótlandi geti orðið fyrirmynd að undanþágu fyrir Íslendinga vegna yfirráða yfir fiskimiðunum við Ísland, ef landið færi í ESB. Í besta falli byggist þessi málflutningur Andrésar á vanþekkingu nema hann vilji vísvitandi halda fram blekkingum til að fegra ESB-aðild Íslands í augum einhverra. Erfitt er að átta sig á því, hvers vegna talsmenn ESB-aðildar á Íslandi telji sig þurfa að haga málflutningi sínum á þennan veg.

Vilji menn efla samstarfið við ESB er nærtækast að sinna því á öflugri hátt en nú er gert á grundvelli EES- og Schengen-samninganna. Þeir veita okkur öll þau tækifæri, sem við þurfum, til að njóta okkar vel á þessum vettvangi. Virknin er aðeins undir okkur sjálfum komin.

Sunnudagur, 16. 09. 07. - 16.9.2007 16:52

Fór klukkan 07.45 af stað með Icelandair til Kaupmannahafnar og þaðan klukkan 15.10 með SAS til Brussel, þar sem lent var um 16.40.

Hér er sumarveður, bjart og logn.

Á morgun og þriðjudag verða fundir um Schengen-málefni. Ég ætla að kynna mér umræður um þróun lögreglu- og refsimála í ljósi breytinga á Evrópusambandinu með nýjum stofnsamningi þess. Að morgni þriðjudags, fyrir Schengen-ráðherrafundinn, munum við hittast dómsmálaráðherrar Íslands, Noregs og Sviss og bera saman bækur okkar, meðal annars um Prüm-samninginn.

Laugardagur, 15. 09. 07. - 15.9.2007 22:09

Fór klukkan 09.15 fljúgandi til Egilsstaða. Við komuna þangað fór ég í ökuferð með Einari K. Guðfinnssyni, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, til Reyðarfjarðar, þar sem við skoðuðum hið mikla álver ALCOA frá veginum og  ókum í gegnum göngin til Fáskrúðsfjarðar.

Við vorum komnir á Seyðisfjörð rétt fyrir klukkan 13.00 og sátum þar fyrir svörum á fjölmennu SUS-þingi með þeim Geir H. Haarde forsætisráðherra og Guðlaugi Þór Þórðarsyni, heilbrigðis- og tryggingaráðherra.

Ég var spurður um málefni lögreglu, landhelgisgæslu og varnarmál auk þess sem töluvert var rætt um aðgerðir lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í miðborginni og taldi ég óhjákvæmilegt, að hún léti að sér kveða af fullum þunga í því skyni að uppræta það ástand, sem skapast hefði með miðborgarómenningunni um nætur. Einnig var spurt um aðskilnað ríkis og kirkju og sagði ég hann kominn á í raun, því að afskipti ríkisvaldsins af málefnum kirkjunnar væru ekki nein lengur.

Að loknum fyrirspurnatíma og kaffidrykkju héldum við Einar K. að nýju yfir Fjarðarheiði og nú var þar snjófjúk. Við fórum að Eiðum og yfir í Fellabæ, áður en við flugum af stað frá Egilsstöðum klukkan 17.55.

Föstudagur, 14. 09. 07. - 14.9.2007 22:55

Forvitnilegt er að lesa lýsingar á því, að ekki fari vel á með þeim Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, og Nicolas Sarkozy, forseta Frakklands. Þau hittust á fundi sl. mánudag fyrir norðan Berlín og í tilefni af því bárust fréttir um þetta. Rifjað er upp, að Sarkozy braut blað í sumar með því að sækja fund fjármálaráðherra ESB-ríkjanna til að tala máli Frakklands og minnkandi áhrifa seðlabanka Evrópu. Þýski fjármálaráðherrann tók orðum Frakklandsforseta þunglega, sem svaraði: „Svona tala menn ekki til forseta.“Væntu Frakkar þess, að Merkel kallaði fjármálaráðherrann á teppið. Þjóðverjar segja hins vegar, að ekki sé rætt um það utan veggja fundarsalarins, sem gerist á lokuðum trúnaðarfundum. Að sögn unir Sarkozy þessum málalyktum illa. Í blaðinu Rheinische Post er haft eftir Sarkozy, að samband Frakka og Þjóðverja sé „innantómt“.

Frakkar fá um 80% raforku sinnar frá kjarnorkuverum og vilja auka slíka orkuframleiðslu frekar en draga úr henni. Sarkozy hefur hvatt þýsku ríkisstjórnina til að falla frá áformum um að loka kjarnorkuverum. Merkel tekur þessum hvatningarorðum þunglega, því að samstarfsflokkur hennar, sósíal-demókratar, leggjast gegn kjarnorkuverum.

Náið samstarf Frakka og Þjóðverja hefur verið öflugasti öxullinn innan Evrópusambandsins. Sé hann að veikjast meðal annars vegna ágreinings um vald seðlabanka Evrópu, sem heldur utan um evruna, getur margt fleira raknað upp í Evrópusamstarfinu.

Fimmtudagur, 13. 09. 07. - 13.9.2007 23:04

Var í hádeginu gestur Heiðursmanna SÁÁ að Vogi. Kynntist starfsemi Vogs, hlýddi á erindi Þórarins Tyrfingssonar um þróun fíknefnaneyslu, flutti ræðu og svaraði fyrirspurnum.

Þakkaði ég SÁÁ sérstaklega fyrir samkomulagið við lögregluna á höfuborgarsvæðinu, sem tryggir lögreglunni aðgang að Vogi með skjólstæðinga sína. Er þetta fyrsti samningur af þessu tagi og ætti að mínu mati að verða leiðarljós fyrir hið opinbera heilbrigðiskerfi, þar sem það gerist því miður, að lögregla kemur að lokuðum dyrum, þegar um menn er að ræða, sem dómarar hafa ekki talið sakhæfa vegna sjúkdóms.

Af umræðum mætti stundum draga þá álytkun, að önnur lögmál gildi um heilbrigðisþjónustu fyrir þá, sem lenda undir manna höndum, en hina, sem ganga frjálsir. Þetta er mikill misskilningur. Hið opinbera heilbrigðiskerfi þjónar öllum og ekki er rekið neitt sérstakt heilbrigðiskerfi á vegum fangelsisyfirvalda.

Miðvikudagur, 12. 09. 07. - 12.9.2007 21:58

Var klukkan 16.00 í Fossvogskirkjugarði, þar sem afhjúpaður var minnisvarði um herflugmenn, sem dvöldust hér á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar og þá, sem fórnuðu lífi sínu með þátttöku í stríðinu. Arngrímur Jóhannsson flugstjóri og Flugmálafélag Íslands beittu sér fyrir því, að minnisvarðinn var reistur og að hertoginn af Kent kom hingað til lands til að afhjúpa hann og flytja ávarp við athöfnina í kirkjugarðinum. Hertoginn sagði mér, að hann hefði sérstakan áhuga á örlögum flugmanna í stríðinu og Íslandi, því að faðir sinn hefði farist árið 1942 í flugslysi í Skotlandi, en hann var sagður á leið til Íslands til að hitta yfirmenn bandaríska heraflans hér.

Afskipta Baugsveldisins af útgáfu- og fjölmiðlamálum verður minnst sem skrautlegs tímabils mikilla fjárfórna í fjölmiðlasögunni.

Í nýjasta hefti Þjóðmála, sem er að koma á markað, rekur Guðbjörg H. Kolbeins, fjölmiðlafræðingur, ótrúlega viðskiptasögu Dagsbrúnar, fjölmiðlafyrirtækis Baugs. Yfirlýst markmið félagsins var að tvöfalda umsvif sín á 12-18 mánaða fresti, en Dagsbrún var skipt upp í einingar eftir tæplega 7 milljarða tap árið 2006.

Næstum daglega berist fréttir um ráðstöfun á fjölskyldusilfri Dagsbrúnar undir forystu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, stjórnarformanns, svo að ekki sé minnst á uppsagnir og tilfærslur á húsbændum og hjúum fjölmiðlakónganna.

Þegar þessari furðusögu er lokið og hún hefur verið skráð að fullu, skilja menn kannski betur en ella, hvers vegna talin hefur verið argasta móðgun í samtímanum að nota orðið Baugsmiðlar.

Þriðjudagur, 11. 09. 07. - 11.9.2007 21:53

Valgerður Sverrisdóttir, fyrrverandi ráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, sagði í sjónvarpsviðtali á Stöð 2, að Sjálfstæðisflokkurinn væri að mála sig út í horn með því að ljá ekki máls á því að taka upp evru eða vilja ganga í ESB. Hvað segir hún þá um eigin flokk eða flokksformann, Guðna Ágústsson? Guðni hefur sagt, að ESB-tal forráðamanna Framsóknarflokksins hafi næstum gengið að flokknum dauðum. Sjálfstæðisflokkurinn lifir hins vegar góðu lífi - en Valgerður vill hann feigan og er þess vegna að etja honum á ESB-foraðið.

Hið einkennilega við ESB-umræðurnar er, að talsmenn ESB-aðildar verða alltaf háværastir rétt eftir kosningar og eftir að ríkisstjórn hefur mótað stefnu sína, án þess að ESB-aðild sé á dagskrá hennar. Eftir því sem líður á kjörtímabilið sljákkar í þeim og fyrir kjósendur er ekki lögð skýr stefna í kosningum um, að sótt skuli um aðild að ESB heldur að nauðsynlegt sé að ræða málið eða huga að samningsmarkmiðum Íslands.

Skyldi Framsóknarflokkurinn ætla að fylgja þeirri stefnu í stjórnarandstöðu, að Ísland skuli í ESB og taka upp evru? Eða er Framsóknarflokkurinn klofinn ofan í rót vegna Evrópumálanna?

Mánudagur, 10. 09. 07. - 10.9.2007 21:07

Það var rigning og rok á leiðinni suður frá Þingeyrum.

Þeir ræddu við mig á Bylgjunni, Reykjavík síðdegis, um hryðjuverkamennina, sem náðust í Danmörku og Þýskalandi og gildi leyniþjónustu í þeirri baráttu. Hvort hún væri starfandi hér? Nei, því að greiningardeild lögreglunnar er ekki leyniþjónusta. Sagði furðulegt að heyra gagnrýnt, að greiningardeildin fengi aðgang að gagnagrunnum lögreglunnar, sem hafa verið lögfestir og lúta eftirliti Persónuverndar. Fagnaði miðborgaraðgerðum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu með þátttöku sérsveitarinnar. Lögreglan léti ekki sinn hlut eftir liggja, henni bæri einnig að fylgjast með starfi veitingastaða og þeir færu að reglum, þá yrðu borgaryfirvöld að láta að sér kveða á sínu sviði, félagsmálayfirvöld og skipulagsyfirvöld. Taldi aðstæður ekki hér hinar sömu og í Danmörku og Þýskalandi, þegar litið væri til landamæravörslu og þjóðfélagsstrauma, hér væru minni líkur en þar, að menn snerust til slíks trúarhita, að þeir hæfu undirbúning hryðjuverka gegn samborgurum sínum. Hitt væri víst, að hryðjuverkamenn litu til allra landa. Eftir að þeir óku á flugstöðina í Glasgow bárust fréttir um, að þeir áttu að nota ferðalag til Íslands sem fjarvistarsönnun.

 

Sunnudagur, 09. 09. 07. - 9.9.2007 18:50

Ók snemma morguns með Ingimundi Sigfússyni og Valgerði Valsdóttur, konu hans, norður að Þingeyrum, þar sem haldið var hátíðlegt 130 ára vígsluafmæli hinnar fögru kirkju á staðnum. Við hátíðarguðþjónustu þjónaði sr. Sveinbjörn R. Einarsson fyrir altari en herra Jón A. Baldvinsson, vígslubiskup á Hólum, prédikaði.

Eftir kirkjukaffi í Klausturstofu, nýju safnaðarheimili kirkjunnar, voru tónleikar í kirkjunni með verkum eftir Jón Hlöðver Áskelsson. Hymnodia, kammerkór Akureyrarkirkju, söng undir stjórn Eyþórs Inga Jónssonar. Hörður Áskelsson lék á orgel og Hrafnkell Orri Egilsson á selló. Þá var sýnt myndverkið Súlur eftir Heimi Frey Hlöðversson.

Dagskráin var til heiðurs Arngrími Brandssyni, sem var ábóti Þingeyraklausturs, fyrsta nafngreinda organsmiðs landsins og ritara sögu Guðmundar biskups góða.

Fjölmenni var í messunni og á tónleikunum. Veður var kyrrt og fagurt.

Föstudagur, 07. 09. 07. - 7.9.2007 21:03

Ríkisstjórn kom saman í Þingvallabænum klukkan 15.00 og hefur ekki verið haldinn ríkisstjórnarfundur þar áður, svo að ég muni.

Á fundinum kynnti ég tillögu um leigu á Super Puma þyrlu, sem ber einkennisstafina LN-OBX og hér var á síðasta vetri, í stað TF Sif. Var tillagan samþykkt. Fyrir liggur athugun, sem sýnir, að ekki er unnt að tryggja, að ávallt sé fyrir hendi ein þyrla til björgunarstarfa, nema landhelgisgæslan hafi fjórar þyrlur til ráðstöfunar.

Rússneski sendiherrann segir, að Íslendingar þurfi bara að venja sig við ferðir rússneskra sprengiflugvéla við landið, eftir það verði ekki kvartað vegna þeirra. Hreinskilni sendiherrans er virðingarverð. Hvað skyldu Rússar ætla að venja mörg ríki á ferðir sprengjuvéla án tilkynningar inn á flugstjórnarsvæði þeirra? Hvers vegna þarf að venja fjarlægar þjóðir við þessar ferðir?

 

 

Fimmtudagur, 06. 09. 07. - 6.9.2007 8:13

Átta rússneskar sprengjuflugvélar flugu í dag frá Múrmansk-svæðinu út á Norður-Atlantshaf og var fylgt eftir af norskum og breskum orrustuþotum. Talsmenn Norðmanna og Breta gera lítið með ferðir vélanna, enda sé ekkert við því að segja, að Rússar æfi sig á alþjóðasvæði. Ráðuneytisstjóri íslenska utanríkisráðuneytisins ætlar hins vegar að kalla rússneska sendiherranna á sinn fund. Hér verður sagt frá frásögnum BBC og mbl.is af þessu máli.

BBC lýsir ferðum átta rússneskra Tupolev Tu-95 Bear-sprengjuvéla í dag. Flugu þær tvær saman, það er í fjórum hópum.

Tvær norskar F-16 orrustuþotur flugu af stað rétt eftir klukkan 06.00 að rússnesku vélunum frá Bodö, þegar þær voru á alþjóðlegri flugleið úr Barentshafi út á Atlantshaf. Norsku vélarnar fylgdu Rússunum að loftvarnasvæði Breta, sem sendu fjórar F3 Tornado-orrustuþotur í tveimur hópum frá Leeming-flugherstöðinni í Norður-Yorkshire til móts við Rússana. Boeing E-3D (þ.e. AWACS) ratsjárvél fylgdi bresku þotunum og einnig VC-10 eldsneytisflugvél. Ratsjárstöð breska flughersins í Boulmer í Northumberland fylgdist með rússnesku vélunum.

Haft er eftir talsmanna breska varnarmálaráðuneytisins, að ekkert sé við það að athuga, að Rússar fljúgi langdrægum sprengivélum sínum á þessum slóðum. Allar þjóðir hafi rétt á að viðhalda eða efla og æfa varnarviðbúnað sinn. Markmiðið með þessu sé mál rússneskra stjórnvalda.

Tvær norskar F-16 orrustuþotur fóru á loft um klukkan 12.00 og fylgdust með rússnesku vélunum norður fyrir Knöskanes, eftir að þær höfðu snúið við norður af Bretlandseyjum og héldu að nýju til stöðva í Rússlandi. John Inge Öglænd, yfirlautinant, talsmaður norska hersins, sagði BBC, að Norðmenn fylgdust af áhuga með auknum umsvifum Rússa á Norðurslóðum. Ferðir rússnesku vélanna vektu ekki ugg í Noregi. „Viðbúnaður okkar er nægur,“ sagði hann, þegar spurt var, hvort Norðmenn hefðu hert öryggisráðstafanir á svæðinu.

Lesa meira

Miðvikudagur, 05. 09. 07. - 5.9.2007 20:20

Qigong hópurinn hittist til fyrstu æfingar vetrarins í morgun og leiddi Gunnar Eyjólfsson tímann af sama krafti og áður.

Fyrr á þessu ári var gefin út bókin Qigong Fever eftir David Palmer, fræðileg úttekt á stöðu qigong síðan 1949, þegar kommúnistat höfðu lagt undir sig Kína og fram á þennan dag. Þar kemur skýrt fram, að qigong er beinlínis hafnað af þeim, sem stunda Falungong, enda um tvo algjörlega óskylda hluti að ræða. Í bókinni er brugðið upp allt annars konar mynd af þjóðfélagsþróun í Kína en lesa má í bókum stjórnmál eða efnahagsmál.

Þingvallanefnd kom saman til fundar í hádeginu og ræddi mörg mál.

 

Þriðjudagur, 04. 09. 07. - 4.9.2007 21:05

Nú hefur verið skýrt frá því, að liðsmenn úr sérsveit lögreglunnar verði næstu mánuði við eftirlitsstörf að næturlagi í miðborg Reykjavíkur með lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Þar með hafa ríkislögreglustjóri og lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu ákveðið að beita auknu afli til að stemma stigu við næturómenningu í miðborginni.

Aðrir ættu að feta í fótspor þeirra og gera ráðstafanir, hver á sínu sviði. Dr. Hildigunnur Ólafsdóttir afbrotafræðingur skrifar grein í Morgunblaðið í dag og segir frá niðurstöðum rannsóknar sinnar á þeim ófögnuði, sem fylgir næturskemmtunum á veitingastöðum, sem opnir eru fram undir morgun. Í lok greinar sinnar nefnir hún það, sem hún telur helst til ráða til að stemma stigu við ómenningunni:

„Sjálfsstjórn gesta, vel þjálfað starfsfólk, heppileg húsakynni, gott andrúmsloft og virkt eftirlit með veitingastöðum eru atriði sem hægt er að hafa áhrif á með margs konar forvarnaaðgerðum.“

Borgaryfirvöld og veitingamenn verða að sýna í verki, að gripið verði til þeirra forvarnaraðgerða, sem dr. Hildigunnur lýsir í grein sinni. Eftirlit með veitingastöðum og útgáfa á rekstrarleyfi til þeirra er frá 1. júlí sl. í höndum lögreglu og hefur hún þegar stöðvað nektarsýningar á tveimur stöðum, sem ekki fóru að reglum.

Álitsgjafar, sem gára yfirborðið, og Samfylkingarfólk, sem segist geta leyst næturvanda miðborgarinnar eftir eina næturvakt með lögreglunni, hrópa hæst á aukna hörku af hálfu lögreglunnar.

Ég tel sjálfsagt að látið sé reyna á aukið afl lögreglunnar í miðborg Reykjavíkur. Ég hef lagt mig fram um að haga skipulagi lögreglu þannig, að í senn sé fyrir hendi greining á ástandi og afl til að takast á við það. Fráleitt er að taka ekki mark á greiningu eins og þeirri, sem dr. Hildigunnur Ólafsdóttir lýsir. Sé farið eftir henni, skiptir það mestu, sem gerist inni á veitingastöðunum og við dyr þeirra. Þar bera veitingamenn ábyrgð og geta ekki skorast undan henni.

Mánudagur, 03. 09. 07. - 3.9.2007 20:42

Kölnar-dómkirkja er ógleymanleg öllum, sem hafa heimsótt hana. Hún var sett á heimsminjaskrá UNESCO árið 1996. Nýlega var hún valin vinsælasti ferðamannastaður í Þýskalandi. Gestum í dómkirkjuna fækkar ekki við, að fyrir nokkrum dögum fékk hún nýjan 20 metra háan steindan glugga með nútímalegu listaverki eftir Gerhard Richter, einn fremsta núlifandi listamann Þýskalands. Glugginn eyðilagðist í síðari heimsstyrjöldinni og þótti því mörgum löngu tímabært, að úr skaðanum yrði bætt. Engum dettur í hug að hrófla við dómkirkjunni á heimsminjaskránni vegna þessa nýja listaverks. Á hinn bóginn lá fyrir nokkrum árum við, að skráningu kirkjunnar meðal heimsminja yrði stefnt í voða með tveimur háhýsum, sem áttu að rísa handan Rínar. Talið var, að þau myndu spilla sýn til hins mikla kirkjuturns og þar með draga úr verðleikum kirkjunnar. Fallið var frá því að reisa turnana, eftir að þessi gagnrýni heyrðist frá sérfræðingum UNESCO.

Jón Sveinsson, Nonni, er grafinn í kirkjugarði í Köln. Nú í haust verður þess minnst, að 150 ár eru liðin frá fæðingu hans. Af því tilefni verður efnt til hátíðarhalda í Köln.

Árið 2001 ritaði ég formála að franskri útgáfu á bókinni Nonni Aventures d'un jeune islandais racontées par lui-meme. Fyrir nokkrum mánuðum fékk ég tölvubréf frá þýskri konu, búsettri í Köln, sem hafði rekist á þessa bók og hrifist af henni. Þar kynntist ég því enn einu sinni af eigin raun, hve sterkt Nonni höfðar til fólks. Max Adenauer, sonur Konrads kanslara, var á sínum tíma borgarstjóri í Köln auk þess að vera ræðismaður Íslands og formaður Íslendingafélagsins. Allt vegna kynna sinna af Nonna.

Sunnudagur, 02. 09. 07. - 2.9.2007 19:13

Berlingske Tidende sagði frá því á dögunum, að engin áform væru í Danmörku um að setja Fröken klukku á eftirlaun, þótt færri hringdu í hana en áður og reksturinn stæði ekki undir sér. Í Noregi hefði þessari símaþjónustu verið hætt og hið sama væri á döfinni í Bandaríkjunum. Teledanmark getur ekki upplýst, hve margir hringja í Förken kukku á sólarhing, en á hápuntki hennar hefðu hringingarnar numið um 20.000 á sólarhring - þá var númerið 0055 en er nú 70 10 11 55. Hér er Fröken klukku að finna í síma 155.

Nokkrar umræður hafa orðið um þá setningu í dagbókarfærslu minni gær, sem snýst um öryggishlið vildarfarþega á Keflavíkurflugvelli. Yfirvöld flugvallarins taka ákvörðun um þetta hlið og flugfélögin borga, en á ferð minni um flugstöðina var mér sagt, að hliðið væri þarflaust, þar sem vildarfarþegar væru almennt á seinni skipunum í öryggisleit og þess vegna ekki í mannþröng þar. Sumt af því, sem sagt er núna um hliðið, bendir til, að litið sé á það sem stöðutákn fyrir flugstöðina.

Nánar um framkvæmd á EES-kröfum um öryggisleit á farþegum frá Bandaríkjunum: Nú gildir sama regla um þá, sem eru í tranist á vellinum og verða að sæta leitinni, og farþega til Íslands, sem þurfa ekki að sæta leitinni samkvæmt EES-kröfum, en verða að fara í gegnum öryggisleitarhliðin vegna skipulags í flugstöðinni.

Laugardagur, 01. 09. 07. - 1.9.2007 15:28

Eins og ég sagði frá sl. miðvikudag og kemur fram í þessari frásögn á vefsíðu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins fór ég í heimsókn til embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum sl. miðvikudag.

Þá ræddum við meðal annars kröfur Evópusambandsins og eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) á grundvelli EES-samningsins um, að farþegar sæti öryggisleit við komuna frá Bandaríkjunum. Óánægju gætir hjá farþegum á leið til Íslands yfir því að þurfa að fara í gegnum slíka leit. Hún byggist ekki á ESB/EES kröfum heldur skipulagi í flugstöðinni og munu stjórnendur hennar vera að velta fyrir sér leiðum til úrbóta.

Tilraunin með sérstakt öryggishlið fyrir farþega á Saga-class mun hafa leitt í ljós, að það sé ónauðsynlegt.

Dagur B. Eggertsson og Oddný Sturludóttir, borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, telja sig vita, hvernig lögreglan eigi að leysa miðborgarvandann eftir að hafa verið á einni næturvakt á gatnamótum Ingólfsstrætis og Bankastrætis. Sýndarmennska í stjórnmálum tekur á sig ýmsar myndir og kýs ég frekar að vera talinn ósýnilegur en stunda blekkingarleik, þegar öryggi borgaranna á í hlut.