29.9.2007 15:57

Laugardagur, 29. 09. 07.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, var afdráttarlaus í afstöðu til Evrópumála í ræðu á fjölmennum fundi sjálfstæðismanna í Valhöll í morgun. Við myndun ríkisstjórnarinnar hefði verið um það samið, að Ísland færi ekki í Evrópusambandið og einhliða upptaka evru væri veikleikamerki - evra kæmi með öðrum orðum ekki til álita nema með aðild að ESB. Að tala niður krónuna væri engum til sóma.

Í stjórnarsáttmálanum segir: „Skýrsla Evrópunefndar verði grundvöllur nánari athugunar á því hvernig hagsmunum Íslendinga verði í framtíðinni best borgið gagnvart Evrópusambandinu. Komið verði á fót föstum samráðsvettvangi stjórnmálaflokka á Alþingi sem fylgist með þróun mála í Evrópu og leggi mat á breytingar út frá hagsmunum Íslendinga. Nefndin hafi samráð við innlenda sérfræðinga og hagsmunaaðila eftir þörfum.“

Í skýrslu Evrópunefndar eru tíunduð mörg úrræði Íslendinga til að efla samstarf sitt við ESB á grundvelli EES-samningsins og Schengen-samstarfsins. Ég er eindregið þeirrar skoðunar, að fara eigi þær leiðir í þessu skyni, sem nefndin tíundar, og það sé mun happadrýgra til að tryggja íslenska hagsmuni gagnvart ESB en óljóst, illa rökstutt og oft ábyrgðarlaust tal um upptöku evru.

Friðbjörn Orri Ketilsson segir á vefsíðu sinni:

„Gott er að vita til þess að á næstu dögum munu evrópusinnar, verkalýðsforkólfar og helstu vinstrimenn landsins gera allt vitlaust eftir að í ljós kom að launakostnaður er 30% hærri hérlendis en á evrusvæðinu. Er það nokkuð hærra en talað er um að matvælaverð, eldsneytisverð og annað sé hærra hér en á evrusvæðinu.“

Það er að mörgu að hyggja, þegar rætt er um Ísland og evrusvæðið. Hvers vegna skyldu vextir vera jafnglágir þar og raun ber vitni? Jú, vegna þess að atvinnuleysi er t.d. 25% hjá ungum Frökkum.