Dagbók: júní 2009

Þriðjudagur, 30. 06. 09. - 30.6.2009

 

 

Um klukkan 09. 00 var ekið af stað í tveimur bílum frá les Murs til Ermarsundsborgarinnar Dieppe . Hraðbraut er  rétt norður fyrir Orleans,  síðan RN-vegur til Chartres og Dreux, sem breytist í hraðbraut á leiðinni til Evreux, um Rouen og til Dieppe. Á strandgötunni í Dieppe var notaleg hafgola um  kl. 13.30 og hiti um 28 gráður. Við pöntuðum staðarréttinn, kræklinga og franskar, í hádegisverð.

Um tveimur tímum síðar ókum við að tónleikastaðnum í þorpinu Varengeville skammt fyrir sunnan Dieppe og þar fórum við í Le Bois de Moutiers í hús, sem reist var 1898 af Guillaume Mallet (1859-1945)  og teiknað af enska arkitektinum Edwin Luytens (1869 -1944), sem þá var 29 ára.  Húsið er í Arts and Crafts stíl og einstakt í Frakklandi, en William Morris (1838-1896)  er hugmyndafræðingur þessa stíls. Húsið hefur verið varðveitt utan og innan í upprunalegri mynd.  Umhverfis það er einstakur garður, skipulagður í enskum stíl.

1970 ákvað tengdadóttir húsbyggjandans,  Madame André Mallet, fædd Mary de Luze (1905 – 2004) að opna garðinn almenningi og gefa gestum færi á að kynnast fjölbreytni hans og fegurð gegn gjaldi.  Um timmtíu þúsund gestir heimsækja garðinn árlega en húsið sjálft er lokað almenningi. Dóttir hinnar framsýnu tengdadóttur hússins sýndi okkur innbú og herbergjaskipan og sagði það hvorki hafa getað varðveist í upprunalegri mynd né garðinn haldið einstakri fegurð sinni, ef móðir sín hefði ekki stigið það skref, fyrst allra í Frakklandi, að opna garðinn.

Húsið er bjart og glæsilegt en frá því sést yfir garðinn út á haf. Sal, bóksafni og dagstofu, á tveimur hæðum með stórum glugga í átt að hafi í vest-norður var breytt í tónleikasal og hann fylltur með lausum stólum fyrir um 200 gesti.

Lítil aðstaða var fyrir tónlistarfólkið til að búa sig undir konsertinn, eftir að þau höfðu æft sig um stund í salnum. Við fengum léttan kvöldverð á flötinni fyrir framan húsið.

Klukkan um 20.00 tók fólk að streyma að  og þegar tónleikarnir hófust klukkan 20.30 var salurinn þéttsetinn. Skálholtskvartettinn lék Rósamundu-kvartettinn eftir Schübert og þegar Bruno bættist í hópinn léku þau kvintett Schüberts og var vel fagnað af áheyrendum.

Að tónleikum loknum var lyft glasi á flötinni framan við húsið og síðan ókum við um 40 km í náttmyrkri norður til strandbæjarins Eu, en þar bjuggu tónlistarvinirnir, sem skipulögðu tónleikana. Var klukkan orðin 00.30, þegar við Rut gengum inn á hótel Maine, sem áður hafði verið Hotel de la Gare í Eu.

Mánudagur, 29. 06. 09. - 29.6.2009

 

 

Skálholtskvartettinn æfði í les Murs en Schröder-hjónin hafa breytt gamalli hlöðu í æfinga- og tónleikasal.

Ég sat við lestur í skugga trjánna í um 30 stiga hita. Lauk við bókina Íslenska efnahagsundrið eftir Jón F. Thoroddsen og skrifaði síðan um hana umsögn. Jón dregur ályktanir, án þess að hafa nokkuð fyrir sér. Í umsögninni krefst ég , að hann leiðrétti missögn um mig.  Án leiðréttingar og afsökunar, er næsta skref að leita til dómstóla.

Þá las ég bókina Nótt eftir friðar Nóbelsverðlaunahafann  Elie Wiesel, sem bjargaðist úr helbúðum nasista í Auswitz og Buchenwald í síðari heimsstyrjöldinni. Hef ég farið um báðar þessar útrýmingarbúðir. Þar má sjá umgjörð hinnar óskaplegu grimmdar, sem Wiesel lýsir. Stefán Einar Stefánsson þýðir bókina . Textinn er áhrifamikill í einfaldleika sínum. Athygli lesandans hverfur aldrei frá reynslu unglings af helförinni. Bókafélagðið Ugla gaf Nóttina út fyrr á þessu ári. Hún ætti að vera skylduefni allra ungmenna.

Sunnudagur, 28. 06. 09. - 28.6.2009

 

 

Haldið kyrru fyrir í les Murs og þess beðið, að félagar í Skálholtskvartettinum,  yrðu á staðnum, en Svava kom frá Kristiansand í Noregi þennan dag. Að þessu sinni bættist franskur sellóleikari, Bruno Cocset, í hópinn.

Föstudaginn, sem við vorum í Chartres, hafði rigningarveður gengið yfir les Murs og sagði Sigurður okkur, að hann hefði ekki áður séð jafnmikið vatnsfall á jafnskömmum tíma. Ég sagði, að varla hefði það verið meira en á Mallorka í fyrra, þegar götur fóru á flot á nokkrum mínútum. Sigurður sagði svo hafa verið.

Við urðum ekki var við neina úrkomu í Chartres, þótt þar hafi raunar verið spáð þrumuveðri, og nú er hitinn að nálgast 30 stig.

Kyrrð sveitarinnar er mikil í sólinni. Í lokuðum virkisgarði setursins með turnana sína fjóra birtist nútíminn í traktorum, bílum og sólstólum.  Hvinur járnbrautarlesta,  þegar þær þjóta fram hjá, rétt utan við austurhlið virkisveggjarins, raskar einng rónni en venst fljótt.

Í einu horni garðsins stendur dúfnahúsið, en þar höfðu bréfdúfur aðsetur á árum áður. Kannski truflaði kurrið í þeim ekki minna þá en lestirnar núna.. 

Fyrstu byggingar eru frá 1380. Afi frú Agnesar keypti les Murs á sínum tíma og hann flutti bókasafn sitt í eitt útihúsanna . Íbúðarhúsið, sem er mikið að vöxtum, er einnig hlaðið bókum. Dáist ég að fjölbreytileika safnsins.

Í svefnherbergi okkar má til dæmis finna nútíma bandarísk bókmenntaverk auk æviminninga af ýmsu tagi, meðal annars Sketches From a Life eftir George F. Kennan, sendiherra í bandaísku utanríkisþjónustu og höfund skeytisins fræga, sem kennt var við Mr. X, þegar það birtist í tímaritinu Foreign Affairs. Þar eru lögð drög að stefnu Bandaríkjastjórnar gegn Sovétríkjunum í kalda stríðinu. Þetta eru dagbókarbrot. mest um ferðalög. Af þeim má ráða, að Kennan hefði orðið liðtækur bloggari um heimsósómann.

Við Rut skruppum til nágrannabæjarins Issodoun. Um lok fyrri heimsstyrjaldarinnar var þar æfingavöllur fyrir bandaríska flugmenn og var 90 ára afmælis þeirrar samvinnu Bandaríkjamanna og Frakka minnst á dögunum.

Laugardagur, 27. 06. 09. - 27.6.2009

 

Í morgunverðinum á hótelinu þekktum við andlit margra gesta, því að daginn áður sáum við þá ganga löturhægt um völdundarhúsið í dómkirkjunni. Konu í hópi gestanna sá ég  bæði fyrir og eftir hádegi í völundarhúsinu og hafði hún greinilega forystu fyrir hópi Þjóðverja og leiðbeindi byrjendum um, hvernig þeir skyldu ganga til hinnar nýju Jerúsalem á dómkirkjugólfinu í Chartres.

Ókum frá Chartres til les Murs, sveitaseturs Jaaps Schröders. fiðluleikara, og Agnesar, konu hans. Þau eru bæði á níræðisaldri en hafa um árabil sótt Ísland heim, þar sem Jaap hefur lagt sumartónleikunum í Skálholti lið. Af því starfi spratt Skálholtskvartettinn með þátttöku Rutar, Svövu Bernharðsdóttur, víóluleikara, og Sigurðar Halldórssonar, sellóleikara. Kvartettinn hefur gert viðreist og í fyrra var ég með þeim á Mallorka, eins og lýst er hér á síðunum.

Sveitasetur Schröder-hjónanna er milli bæjarins Vierzon og borgarinnar Bourges í Berry-héraði í Cher-sýslu eða departement. Um þessar mundir er þess minnst, að 20 ár eru liðin, frá því að hraðbraut var lögð milli Parísar og Bourges. Síðan segjast íbúar Bourges komast akandi til höfuðborgarinnar á tæpum tveimur tímum, en hámarkshraði er 130 km á frönskum hraðbrautum. Vegalengd og hámarkshraði segja á hinn bóginn ekki allt um, hve fljótt er farið milli staða, því að oft verða langar tafir, þegar myndast tappar á brautunum eða bouchon eins og Frakkar segja. Greitt er vegagjald á öllum helstu hraðbrautum Frakklands og kostar 17.80  að aka rúma 200 km á milli Víerzon og Parísar.

Í áranna rás hef ég ekið mikið um Frakkland og þar með kynnst framförum í vegakerfinu, sem hafa verið miklar. Nú er unnt að aka um landið þvert og endilangt á hraðbrautum eða RN-brautum, sem er stig á milli hraðbrauta og tvíbreiðra vega í sveitum. Snyrtimennska utan og innan borga, í sveitaþorpum og við þjóðvegi er góð og meiri en á árum áður.

Við akstur inn í suma bæi eru skilti, sem segja bæinn blómabæ með tveimur stjörnum eða fleiri.  Gildir hið sama um stjörnur blómabæja og stjörnur hótela. Þeim fjölgar með auknum gæðum.  Undir þessum merkjum og með samstarfsverkefnum ríkis, héraða og sveitarfélaga hafa Frakkar lyft Grettistaki í umhverfisbótum á undanförnum árum, sé gestsaugað látið dæma um árangurinn.

Föstudagur, 26. 06. 09. - 26.6.2009

Dómkirkjan í Chartres er einstök - byggingin sjálf og gluggarnir eiga ekki sinn líka.

Áður en ég heimsótti borgina að þessu sinni las ég bókina Universe of Stone eftir Philip Ball. Kirkjan endurspeglar viðleitni fyrir 800 árum til að móta guðsríki á jörðu. Hún er skref í þróun manna til að skýra sjálfir og móta umgörð um eigin heim með virðingu fyrir Maríu guðsmóður og syni hennar, en kirkjan er helguð Maríu.

Föstudaga frá apríl til október eru kirkjustólar fjarlægðir af völdundarhúsi í hluta kirkjuskipsins. Allan daginn gengur fólk berfætt á köldum marmara um völdundarhúsið, lífsleiðina. Gangan hefur greinilega mikil áhrif á marga. Í lok hennar skipar fólk sér í hring í kjarna völdunarhússins og tekur höndum saman í bæn.   

Fimmtudagur, 25, 06. 09. - 25.6.2009

Flugum kl. 07.40 til Parísar og ókum þaðan til Chartres.

Miðvikudagur, 24. 06. 09. - 24.6.2009

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segir á dv.is í dag, að Íslendingar hefðu ekki getað gætt lagalegs réttar síns á evrópska efnahagssvæðinu vegna Icesave, þar sem það hefði skapað réttaróvissu á svæðinu og þar með skapað Evrópusambandinu mikil vandræði. Þessi yfirlýsing staðfestir þá skoðun, að krafa Ingibjargar Sólrúnar sem utanríkisráðherra um pólitíska lausn á Icesave-deilunni byggðist á tilliti til Evrópusambandsins. Þar með var kastað á glæ sterkasta vopni Íslendinga í viðræðum við Hollendinga og Breta,  það er hótun um að leita til dómstóla til að fá skorið úr gildi regluverks Evrópusambandsins. Niðurstaða nauðungarsamningsins ber þess merki, að íslenska sendinefndin undir formennsku Svavars Gestssonar taldi sig í raun ekki hafa neina samningsstöðu, hún væri að bjarga Íslandi frá einangrun.

Ég ritaði grein um fyrirhugaða ályktun alþingis um ESB-tengsl í Morgunblaðið í dag. Það lofar ekki góðu um vinnubrögð í utanríkismálanefnd þingsins, ef formaður nefndarinnar, Árni Þór Sigurðsson, vinstri-grænn, telur sig hafa umboð til að lýsa yfir, eins og hann gerði í dag, að tillögur stjórnar og stjórnarandstöðu verði sameinaðar í nefndinni. Hvar er gagnsæið í þessu máli? Hvar er skírskotun til kjósenda? Á sama leyndin að ráða ferðinni í þessu máli og einkennt hefur vinnubrögð stjórnarflokkanna í Icesave-málinu? Það leynimakk hefur ekki skilað góðum árangri.

Icesave-samningurinn er röskstuddur á þann veg, að hann auðveldi aðild að Evrópusambandinu. Aðild er rökstudd með því, að hún geri kleift að taka upp evru. Með Icesave-skuldbindingunum er borin von, að Íslendingar standist Maastricht-skilyrðin, án þess geta þeir ekki tekið upp evru. ESB-fjölmiðlarnir ræða þennan „vinkil“ málsins að sjálfsögðu ekki.

Þegar augljóst er, að aðild að ESB krefst stöðvunar á hvalveiðum, segja aðildarsinnar, að það megi ræða málið. Þegar ESB-RÚV kallar sérfræðing á vettvang til að sannfæra hlustendur um, að aðild lækki verðlag, segir sérfræðingurinn, að það sé ekki víst en hins vegar megi vænta þess, að verðlag hækki minna eftir aðild en ella væri! Þetta er kennt við „faglega úttekt“ á kostum og göllum ESB-aðildar og túlkað á þann veg, að verðlag lækki við aðild. Hvernig væri að ESB-RÚV reiknaði út beinan kostnað við aðild að ESB og tæki Icesave-skuldbindingarnar með í reikninginn?

Þriðjudagur, 23. 06. 09. - 23.6.2009

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, hefur greinilega ekki mikla trú á málstað Íslands í ICESAVE-málinu. Hann talar þannig í Kastljósi kvöldsins, að ekki sé skynsamlegt að láta reyna á málið fyrir dómstólum, því að Bretar og Hollendingar myndu þá halda fram hinum ýtrustu kröfum. Þar að auki vilji nágrannaþjóðir ekki, að við stöndum í slíkum málarekstri.

Á vefsíðunni amx.is birtist í dag frétt um, að fyrr í þessum mánuði hefði ESB-dómstóllinn í Lúxemborg dæmt bresku ríkisstjórninni í óhag, vegna þess að hún frysti fjármagn „andlegs sendiherra“ Bin Ladens í Evrópu með vísan til bresku hryðjuverkalaganna og hryðjuverkalista Sameinuðu þjóðanna. Líklegt er, að hvergi hefði nokkur ríkisstjórn eða fulltrúi hennar talið skynsamlegt af hinum „andlega sendiherra“ hryðjuverkamannsins að stofna til málaferla gegn bresku ríkisstjórninni. Hann gerði það samt og vann málið.

Einkennilegust er röksemdin, að hvergi finnist dómstóll í heiminum, sem geti dæmt í ICESAVE-málinu. Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttardómari, minnti á það í Morgunblaðinu gær, að varnarþing íslenska ríkisins sé í Reykjavík.

Í alþjóðadeilu er sérkennilegt, að opinberir málsvarar smáþjóðar leggist gegn því, að stórveldi séu kölluð fyrir dómstól til að standa fyrir máli sínu, þegar smáþjóðin telur brotið á rétti sínum. Orð viðskiptaráðherra í Kastljósinu benda því miður til þess, að hann telji sjálfsagt og eðlilegt að láta ekki reyna á réttinn gagnvart stórveldinu, af því að aðrar þjóðir eru sama sinnis og það, svo að ekki sé minnst á Brussel-vald Evrópusambandsins, sem hannaði hinar ófullburða reglur utan um bankafrelsið.

Mánudagur, 22. 06. 09. - 22.6.2009

Í BBC World var sagt frá fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins, sem hófst á Madeira í dag. Þar var vikið að hvalveiðum Japana og Íslendinga á gagnrýnin hátt. Fréttinni lauk á þeim orðum, að andstæðingar hvalveiða teldu umsókn Íslendinga um aðild að Evrópusambandinu bestu leiðina til að stöðva hvalveiðar hér á landi. Fyrr í dag hafði umhverfisráðherra Portúgals látið eins og færi saman að vera í ESB og veiða hval. Fréttin um þetta sannaði aðeins, að ráðherrann hefur ekki mikla þekkingu á þessum málum eða á afstöðu Evrópusambandsþingsins til þeirra.

Í Fréttablaðinu segir, að rætt sé um að loka Þjóðmenningarhúsinu í sparnaðarskyni og nota lokun þess til að huga að framtíðarnýtingu. Hannes Hafstein lét reisa húsið á fyrstu heimastjórnarárunum til að sýna, að þjóðin væri nokkurs megnug. Sé svo komið, að ekki er unnt að halda húsinu opnu og sýningunni á handritunum þar, er orðið þröngt í búi.

Vissulega er táknrænt, að þeir, sem ætla að verja tugum milljóna til að ræða um aðild að Evrópusambandinu á komandi misserum, sjái þá leið besta til sparnaðar að loka glæsilegum minnisvarða um bjartsýni og kraft heimastjórnarinnar. Að vísu kæmi það blessunarlega í veg fyrir, að húsið yrði notað til viðræðna um mesta afsal íslensks stjórnsýsluvalds í hendur annarra, frá því að heimastjórnin kom til sögunnar árið 1904.

 

Sunnudagur, 21. 06. 09. - 21.6.2009

Grænlendingar fengu stjórn eigin mála í sínar hendur í dag. BBC World sýndi athöfninni í Nuuk verðskuldaða athygli og lét þess getið, að miklar auðlindir kynnu að leynast undir ísnum við Grænlandsstrendur.

Ég skrifaði pistil hér á síðuna í dag og lýsti áhyggjum vegna þess hve illa þau Jóhanna og Steingrímur J. halda á stjórn þjóðmála. Stuðningsmenn þeirra kalla á meiri upplýsingar. Í ákallinu felst, að þeir finna fyrir því, hve fjarar undan stjórninni.

Málsvarar atvinnurekenda og launþega sitja langa fundi með stjórnarherrunum, án þess að segja frá því um hvað er rætt. Þeir skulda umbjóðendum sínum ekki síður upplýsingar en stjórnarherrarnir sínum.

 

Laugardagur, 20. 06. 09. - 20.6.2009

Spenna magnast enn í viðræðum aðila vinnumarkaðarins sín á milli og við stjórnvöld. Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir málið á örlagastigi, því að atvinnurekendur verði að segja upp samningum frá 1. júlí náist ekki viðunandi niðurstaða.

Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, er ötull bloggari og segir á síðu sinni 20. júní:

„Styrking krónunnar og gengisstöðugleiki á að vera grundvallaratriði í þeim aðgerðum framundan. EES- samningurinn er lamaður á sviði fjármagnsflutninga með skelfilegum áhrifum á hagkerfið á Íslandi, það verður að leysa. Minnsta áhættan og mesti ávinningurinn er að láta reyna á samninga við ESB og Seðlabanka Evrópu. Þetta hefur komið fram hjá aðilum vinnumarkaðsins og þar hefur komið fram eindreginn vilji til aðildar að heildarsamningum, sem er mikilvægt framlag í komandi samningum við ESB.“

Erfitt er að skilja þessi orð Guðmundar, sem er ákafur stuðningsmaður aðildar Íslands að Evrópusambandinu, á annan veg en þann, að við lausn kjaramála eigi að hafa ESB-aðild að leiðarljósi, enda vilji allir, sem standa að samningsgerðinni, það er ríkisstjórn, verkalýðshreyfing og atvinnurekendur Ísland í ESB.

Alþýðusamband Íslands gekk í Evrópusambandið fyrir nokkrum árum, ríkisstjórnin vill aðildarviðræður. Þótt Þór Sigfússon, formaður Samtaka atvinnulífsins (SA), og Vihjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri samtakanna, vilji Ísland í Evrópusambandið, er aðild ekki stefnumál SA. Kannski verður það kynnt næstu daga, að gangi Ísland í Evrópusambandið leysist allar kjaradeilur? Það yrði svo sem í samræmi við annað blekkingartal í tengslum við hagsmuni Íslands og aðild að Evrópusambandinu.

Föstudagur, 19. 06. 09. - 20.6.2009

Ástandið í Íran er á þann veg, að þar getur allt gerst. Klerkaveldið hefur ákveðið að herða tökin í því skyni að halda aftur af þeim, sem látið hafa í ljós óánægju með úrslit forsetakosninganna, í stað þess að koma til móts við óskir um endurtalningu atkvæða. Ekki var við öðru að búast. Séu kosningaúrslitin fölsuð, er það með samþykki klerkanna, sem eiga síðasta orðið innan valdakerfisins.

BBC ræddi í dag við yfirmann heimavarna á Hawaii, sem sagði varnarlið eyjanna búið undir eldflaugaárás frá Norður-Kóreu.

Þótt Barack Obama, Bandaríkjaforseti, vilji nálgast önnur ríki á annan veg en George W. Bush, forveri hans, sem kenndi Íran og N-Kóreu við hið illa í heiminum, geta atvik og atburðir knúið Obama til að harkalegra viðbragða.

Tillaga er í fulltrúadeild Bandaríkjaþings um að fest verði í lög, að Bandaríkin haldi úti herafla í Evrópu. Viðhorfið er annað nú en þegar bandaríska varnarmálaráðuneytið undir stjórn Donalds Rumfelds mat stöðuna þannig, að óhætt væri að draga saman seglin í Evrópu og þar með kalla varnarliðið héðan frá Íslandi.

Leiðtogar Evópusambandsins samþykktu í dag breytingar eða skýringar á Lissabon-sáttmálanum til að auðvelda Írum að samþykkja hann í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem ráðgerð er í október. Reglan er sú, að felli þjóð eitthvað í atkvæðagreiðslu, sem snertir öll ESB-ríkin, er knúið á um, að hún greiði atkvæði aftur, þar til hún segir já.

Írski forsætisráðherrann krafðist þess, að útlistunin í þágu Íra yrði sett sem viðauki við stofnsáttmála sambandsins og verða þjóðþing ríkjanna því enn að samþykkja stofnsáttmálaákvæði vegna Lissabon-sáttmálans. Stefnt er að því, að þessi nýju ákvæði verði hluti af þeim breytingum, sem samþykkja þarf til að Króatía komist í ESB. Óljóst er, hvenær það verður vegna landamæradeilu milli Króata og Slóvena.

 

Fimmtudagur, 18. 06. 09 - 18.6.2009

Morgunblaðið birti litla eindálka frétt 17. júní þess efnis, að aðstoðarfjármálaráðherra Rússa hefði hinn 16. júní sagt, að Íslendingar þyrftu ekki  lán frá Rússum í ár en kannski yrði það veitt árið 2010. Við bankahrunið lék allt á reiðiskjálfi langt út fyrir landsteinana, þegar Davíð Oddsson skýrði frá því snemma morguns, að rússneski sendiherrann hefði tilkynnt sér enn fyrr um morguninn, að Rússar ætluðu að veita Íslendingum nokkurra milljarða evru lán til að treysta gjaldeyrisstöðu þjóðarinnar.

Nú er þetta lán sem sagt orðið að engu í ár. Stórfréttin á forsíðu er orðin að eindálki inni í blaði og látið eins og það skipti í raun litlu sem engu, að Rússar ætli ekki að lána okkur neitt.  Ég var í hópi þeirra, sem kippti mér ekki mikið upp við tilkynningu Rússa en sagði, að hana yrði auðvitað að skoða í geopólitísku ljósi.

Spurning er, hve margt af því, sem menn hafa talið stórféttir undandarna mánuði, endar sem eindálkur inni í blaði, þegar öll kurl koma til grafar. Auðvitað væri til dæmis æskilegt, að ICESAVE-málið fengi einhvern slíkan enda. Því miður virðist hins vegar þannig um hnúta búið af íslensku samninganefndinni, að okkur séu allar bjargir bannaðar samkvæmt því skjali, sem kynnt hefur verið, auk þess sem Jóhanna Sigurðardóttir segir, að annað hvort öxlum við þessar skuldbindingar eða einangrumst í alþjóðasamfélaginu.

Ber að skilja einangrunarhótun forsætisráðherra svo, að hér sé um að ræða peningana eða lífið. Ótrúlegt er, að íslensku þjóðinni sé stillt þannig upp við vegg af nágrannaþjóðum vegna uppgjörs á reikningum í bankakerfi, sem hrundi innan ramma sameiginlegs regluverks þjóðanna, EES-regluverksins.

Sami forsætisráðherra, sem lýsir hótunum Hollendinga og Breta á þennan hátt, telur það svo þjóðinni helst til bjargar að ganga til enn nánara samstarfs við þessar þjóðir innan vébanda Evrópusambandsins.

 

Miðvikudagur, 17. 06. 09. - 17.6.2009

 

Óskar Magnússon, útgefandi Morgunblaðsins og formaður sóknarnefndar Breiðabólstaðs, flutti ræðu við þjóðhátíðarhöld Fljótshlíðinga í Goðalandi. Hann varaði við aðild að Evrópusambandinu og taldi með öllu óviðunandi að kaupa hana því verði, sem felst í ICESAVE-samningnum.

Einkennilegt er að geta ekki flutt þjóðhátíðarfréttir í hljóðvarpi ríkisins, án þess að hafa þann formála, að engu sé líkara en fólk hafi ákveðið að gleyma vanda þjóðarbúsins, þegar það gerði sér glaðan dag.  Hefur farið fram hjá fréttastofunni, að Íslendingar hafa gengið til starfa og leiks undanfarna mánuði?

Jóhanna Sigurðadóttir, forsætisráðherra, ræddi um nauðsyn nýrrar sjálfstæðisbaráttu í ræðu sinni við styttu Jóns Sigurðssonar á Austurvelli.  Í ræðu, sem ég flutti í Háskóla Íslands 17. október 2008 taldi ég nýja sjálfstæðisbaráttu nauðsynlega. Okkur Jóhönnu greinir hins vegar á um markmiðið: Jóhanna vill ganga í Evrópusambandið og láta af ráðum yfir auðlindum sjávar og leggja niður íslenskan landbúnað. Ég er ósammála þessu markmiði og einnig þeirri niðurstöðu Jóhönnu og samráðherra hennar, að eðlilegt sé að ganga undir ICESAVE-skuldbindingarnar til að komast í Evrópusambandið.

 

Þriðjudagur, 16. 06. 09. - 16.6.2009

Ársæll Valfells skrifar um ICESAVE-samninginn á Forbes.com eins og sjá má hér

Ársæll hvetur alþingismenn til að hafna samningnum og færir fyrir því skýr rök. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra heldur hins vegar áfram að biðla til Sjálfstæðisflokksins um stuðning við þetta mál ríkisstjórnar hennar. Er ár og dagur síðan forsætisráðherra hefur talað á þann veg um lykilmál ríkisstjórnar sinnar, að það fái ekki brautargengi án stuðnings stjórnarandstöðu.

Furðulegt er, að stjórnmálafréttamenn virðast bara telja sjálfsagt og eðlilegt, að ríkisstjórnin geti ekki tryggt stuðning sinna eigin þingflokka við málið.

Eitt er að semja um lausn máls en annað gera samning á þann veg, að öll áhætta og skuldbindingar lendi á öðrum aðilanum, í þessu tilviki Íslendingum. Ákafi forsætisráðherra við að koma Íslandi í Evrópusambandið (ESB) einkennir að sjálfsögðu efni ICESAVE-samningsins, hann hefur að geyma aðgangseyri Íslendinga að ESB. Hafi ESB-þráin ekki verið jafnrík og raun er hjá ríkisstjórninni, hefði vafalaust mátt ná annarri og hagstæðari lausn fyrir okkur Íslendinga á ICESAVE-málinu.

Á sínum tíma vakti athygli og umtal, að þáverandi forseti alþingis, Halldór Blöndal, mundi ekki nafn núverandi forseta þingsins, Ástu Ragnheiðar, þegar hann þurfti að beina orðum til hennar af forsetastóli. Halldór hélt fast á stjórn þingfunda en aldrei með þeim gaura- og yfirgangi, sem einkenndi Ástu Ragnheiði í dag, þegar hún hrakti Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Framsóknarflokksins, úr ræðustól með ofsahöggum á forsetabjölluna.

Mánudagur, 15. 06. 09. - 15.6.2009

Í raun er furðulegt að fylgjast með því, hve utanríkisráðherra og forsætisráðherra ganga langt í opinberum yfirlýsingum og samtölum við ráðamenn annarra ríkja um aðildarviðræður við Evrópusambandið, á meðan málið er enn á núverandi stigi á alþingi.

Þau Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon, svo að ekki sé minnst á Ögmund Jónasson, hafa árum saman sagt framkvæmdavaldið troða alþingi um tær. Nú láta þau eins og afstaða þingsins til aðildarviðræðna við Evrópusambandið skipti í raun engu, tilmæli um viðræðurnar verði send fyrir lok júlí, hvað sem tautar og raular. Efnt er til fagnaðarfundar um ESB-aðildarviðræður með forsætisráðherrum Norðurlanda á Egilsstöðum.

Í dag ritaði ég pistil á vefsíðu mína um tvær nýjar bækur Hrunið eftir Guðna Th. Jóhannesson og Ný framtíðarsýn eftir Þorkel Sigurlaugsson.

 

Sunnudagur 14. 06. 09. - 14.6.2009

Forsætisráðherrar Norðurlanda sitja í dag fund á Egilsstöðum. Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir, fréttamaður RÚV, spurði sænska forsætisráðherrann, hvort það væri gott fyrir Ísland, að Svíar yrðu í forsæti innan Evrópusambandsins (ESB) frá og með 1. júlí til ársloka. Vísaði Jóhanna Vigdís þar til áforma um aðildarviðræður Íslendinga við ESB.

Ástæða er til að velta fyrir sér, hvernig forsætisráðherra Svía hefði borið sig að við að svara spurningu Jóhönnu Vigdísar neitandi. Auðvitað gerði hann það ekki, en þó óbeint, þegar hann tók að ræða um „stækkunarþreytu“ innan ESB og var þannig nær Alexander Stubb, utanríkisráðherra Finna, í mati sínu en Carl Bildt, utanríkisráðherra Svía.

Stubb hafði um það mörg orð hér á dögunum, að aðildarferli að ESB væri enginn dans á rósum.

Hvernig sem á málið er litið, er skynsamlegt að ræða það á öðrum nótum en tilfinningalegum um það, hvort einhverjir séu góðir eða vondir í garð Íslendinga.

Fréttir sjónvarps ríkisins snerust einnig um það í kvöld, hvort Bretar væru vondir eða góðir vegna ICESAVE - niðurstaða fréttastofunnar var, að málið væri geymt en ekki gleymt meðal fótgangandi í London. 

 

Laugardagur, 13. 06. 09. - 13.6.2009

Ríkisstjórnin kom saman til aukafundar í morgun til að ræða ríkisfjármál, en áform hennar voru, að kynnt skyldi fyrir lok þessarar viku, hvernig brúa ætti rúmlega 20 milljarða nýjan fjárlagahalla þessa árs. Þá hafði einnig verið boðað, að fjárlög til ársins 2012 yrðu kynnt eftir nokkra daga. Eftir hádegi hittu ráðherrar samráðsaðila utan þings. Að loknum þessum fundum sagði forsætisráðherra, að ekkert yrði kynnt um ríkisfjármál, fyrr en undir lok næstu viku.

Menn þurfa ekki að vera vel að sér um vinnubrögð ríkisstjórna til að átta sig á því, að vandræði Jóhönnu Sigurðardóttur við að standa við eigin tímamörk stafa af því, að ríkisstjórnin er ráðalaus. Hún hefur ekki burði til að veita þá forystu, sem er nauðsynleg.

Á meðan ríkisstjórnin treystir sér ekki til að taka á málum, eykst vandi þjóðarinnar. Í maí sagði peningastefnunefnd, að ríkisstjórn yrði að ná tökum á ríkisfjármálum til að stýrivextir lækkuðu. Samráð eða viðleitni til að dreifa ábyrgð á herðar annarra losar ríkisstjórnina undan þeirri skyldu hennar að taka á fjármálum ríkisins.

Föstudagur, 12. 06. 09. - 12.6.2009

Í framhaldi af því, sem ég skrifaði hér í gær, las ég þennan texta á mbl.is í dag:

„Jóhanna Sigurðardóttir  forsætisráðherra var spurð eftir  ríkisstjórnarfund í morgun hvort stjórnin myndi ekki springa ef Alþingi neitaði að samþykkja ríkisábyrgðir vegna Icesave - samningsins. Hún svaraði því til að ef  samningurinn verði felldur sé komin upp alveg ný staða sem þurfi að taka á.  Hún segist þó ekki trúa því að svo fari. Það verði að skoða málið í ljósi forsögunnar. Hún hafi ekki trú á því að Sjálfstæðismenn standi að því að greiða atkvæði gegn þessum samningi.

Icesave- samkomulagið verður væntanlega lagt fyrir Alþingi í lok næstu viku. Ágreiningur er um málið í þingflokki VG en fjármálaráðherra segir ekki hægt að tala um efnislegan ágreining fyrr en menn hafi kynnt sér öll gögn málsins.  Hann segist treysta því að það hafi áhrif á viðhorfið til samningsins þegar öll gögn verði lögð fyrir þingið  og segist jafnframt bjartsýnn á að þá sjái menn að þetta sé góð niðurstaða miðað við aðstæður. Þá geti menn líka gefið sér tíma til að hugleiða hvaða afleiðingar það hafi ef þetta verði ekki samþykkt.“

 

Eðlilegt er að skilja orð Jóhönnu þannig, að hún vænti þess, að Sjálfstæðisflokkurinn framlengi líf ríkisstjórnarinnar með því að samþykkja ICESAVE-samninginn. Bjartsýnin lengi lifi!

Fyrir liggur, að formaður þingflokks vinstri-grænna og heilbrigðisráðherra eru á móti ICESAVE. Fjármálaráðherra lætur hins vegar að því liggja, að þau eigi eftir að móta sér aðra skoðun „þegar öll gögn verði lögð fyrir“ alþingi. Hefur hann leynt samflokksmenn sína, þingflokksformann og heilbrigðisráðherra einhverju?

Augljóst er, að ICESAVE-samningurinn er aðgangseyrir að Evrópusambandinu. Samfylkingin mun herma upp á vinstri-græna, að ríkisstjórnin sé mynduð um aðildarviðræður að ESB og þess vegna verði þingmenn vinstri-grænna að styðja ICESAVE. Ætli Steingrímur J. eigi eftir að fara yfir þetta með Ögmundi?

Fimmtudagur, 11. 06. 09. - 11.6.2009

Ég heyrði ekki betur en fréttastofa hljóðvarps ríkisins hefði í hádeginu leitað til stjórnmálafræðings vegna ástandsins í Kópavogi, þar sem sótt er að Gunnari I. Birgissyni og Sjálfstæðisflokknum. Ástæðulaust er að gera lítið úr því stjórnmálaástandi, sem þar hefur skapast.

Hafi fréttastofan kallað á stjórnmálafræðing sér til hjálpar vegna ástandsins í ríkisstjórninni í ICESAVE-málinu, hefur það farið fram hjá mér. Þar er upplýst, að formaður þingflokks vinstri-grænna sé á móti og einnig Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, auk einhverra fleiri í hópi þingmanna vinstri-grænna. Að þingflokksformaður og ráðherra séu andvígir máli, sem hlýtur að varða líf ríkisstjórnar, ætti á alla kvarða að gefa tilefni fyrir fréttastofuna að kalla á stjórnmálafræðing sér til hjálpar. Kannski er það þó óþarfi, af því að Sjálfstæðisflokkurinn á ekki í hlut.

Jóhanna Sigurðardóttir kallaði á hjálp frá Sjálfstæðisflokknum í ICESAVE-málinu á þingi í dag. Neyðarkallið náði þó ekki stjórnmálafræðingi inn í fréttatíma ríkisins.

Jón Kaldal, einráður ritstjóri Fréttablaðsins, eftir að Þorsteinn Pálsson hvarf úr ritstjórastóli í vikubyrjun, sagði í leiðara í gær, að afstaða Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, skipti meira máli í ICESAVE en Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra.  Betra væri, að Steingrímur J. skipti um skoðun til fylgis við ICESAVE-samninginn en Bjarni væri á móti honum, þótt hann hefði mælt með því, að leitað yrði samninga fyrr í vetur.

Jón Kaldal gerir engan mun á þeirri afstöðu, að leitað skuli samkomulags, og hinu, að samkomulagið sé ekki nógu gott. ICESAVE-samningur Svavars Gestssonar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar er einfaldlega ekki nógu góður, enda sýnast talsmenn hans einkum styðjast við þann hræðsluáróður, að án samningsins einangrist Ísland og verði að engu, ef marka má svæsnustu svartsýnismennina.

ICESAVE-samningurinn er einskonar björgunarkútur á leið Íslands inn í Evrópusambandið. Ég ítreka fyrri orð mín: Æstustu ESB-aðildarinnar þola verst tvennt: 1. að rætt sé um einhliða gjaldmiðilsskipti á Íslandi; 2. að sýnt sé fram á, að án lausnar á ICESAVE á kostnað íslensku þjóðarinnar, sé vonlaust fyrir Össur Skarphéðinsson að færa aðild Íslands að ESB í tal við aðra en Maltverja.

 

Miðvikudagur, 10. 06. 09. - 10.6.2009 23:02

Eva Joly, nýkjörin á ESB-þingið og sérlegur ráðgjafi sérstaks saksóknara vegna bankahrunsins, vill, að Valtýr Sigurðsson, ríkissaksóknari, verður settur af og ráðnir verði þrír saksóknarar til að starfa sjálfstætt undir forræði hins sérstaka saksóknara.

Ragna Árnadóttir, dóms- og kirkjumálaráðherra, hefur þegar sett Björn L. Bergsson, hrl., ríkissaksóknara í málum, sem varða bankahrunið. Ragna sagðist taka ábendingar um að efla ætti embætti sérstaks saksóknara enn frekar alvarlegra, en til þess þarf mikla aukafjárveitingu.

Sérkennilegt er, að heyra Evu Joly segja í öðru orðinu, að hér á landi sé verið að rannsaka eitthvert mesta fjársvikamál sögunnar eða að minnsta kosti í Evrópu, og gefa í skyn í hinu, að hinn sérstaki saksóknair, Ólafur Þór Hauksson, hafi ekki þá reynslu til að takast á við málið sem skyldi. Spyrja má: Býr nokkur lögfræðingur yfir nægilegri reynslu til þess? Eru ekki allir lögfræðingar í raun á byrjunarreit gagnvart viðfangsefni af þessu tagi?

Með því að stofna með lögum sérstakt saksóknaraembætti og veita því meiri heimildir en almennt gilda um saksóknara ákvað alþingi, að þessi mál skyldu tekin sérstökum tökum. Enn var sérstaðan áréttuð með því að fá Evu Joly sem ráðgjafa. Nú gefur hún ráð í Kastljósi og gefur jafnframt til kynna, að hún hætti ráðgjöfinni, verði ekki að þessum tillögum sínum farið.

Lesa meira

Þriðjudagur, 09. 06. 09. - 9.6.2009 20:40

 

Að þessu sinni ræði ég nokkra punkta úr fréttum dagsins.

Ég les á ruv.is:

„Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir að forsendur séu nú fyrir frystingu eigna þeirra auðmanna sem hafa stöðu grunaðra í sakamálum þeim sem sérstakur saksóknari hefur til rannsóknar. Gott hefði þó verið ef rannsókn mála hefði gengið hraðar fyrir sig.

„Það er alltaf vont að svona dragist, það geta tapast gögn og farið forgörðum hlutir sem er mikilvægt að ná til snemma,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon. „Nú er allstór hópur manna kominn með stöðu grunaðra sem aftur opnar réttarheimildir til þess að kyrrsetja eignir ef ástæða er til slíks.““

Á haustþingi 2008 tafðist afgreiðsla frumvarps míns um sérstakan saksóknara, vegna þess að Samfylkingin tengdi það frumvarpi um sérstaka rannsóknarnefnd á vegum alþingis og vinstri-grænir undir forystu Steingríms J. drógu lappirnar  varðandi rannsóknarnefndina.

Mér finnst þess vegna grátbroslegt, að lesa haft eftir Steingrími J. að „alltaf“ sé „vont að svona dragist“ – þessi nýja skoðun hans er svo sem í samræmi við u-beygjurnar, sem hann hefur tekið í afstöðunni til ESB-aðildar og ICESAVE. Hinu verður fróðlegt að fylgjast með, hvernig Steingrímur J. ætlar að bera sig að við að kyrrsetja eignir auðmanna. Hann skyldi þó ekki vera að gefa réttarkerfinu fyrirmæli? Hvaðan hefur hann umboð til þess?

Í dag var sagt frá því, að lögreglan hefði í samvinnu við Europol og tollgæsluna komið upp um fíkniefnasmyglhring og handtekið nokkra menn. Mér segir svo hugur, að staða lögreglunnar til að glíma við þetta mál væri betri nú, ef samþykkt hefði verið frumvarp til breytinga á almennum hegningarlögum, sem ég lagði fyrst fram á þinginu 2007/08 og snýr meðal annars að því, að menn grunaðir um fíkniefnasmygl verði að sanna fyrir lögreglunni, hvernig þeir hafi aflað fjár til eignamyndunar.

Atli Gíslason, þingmaður vinstri-grænna, kom í veg fyrir afgreiðslu þessa frumvarps vorið 2008 með breytingartillögu um alls óskylt mál, það er um vændi.  Á síðasta þingi reyndist ekki áhugi hjá nýjum meirihluta allsherjarnefndar að afgreiða þetta mikilvæga mál.

Lesa meira

Mánudagur, 08. 06. 09. - 8.6.2009

Miðvikudaginn 3. júní sagði Steingrímur J. Sigfússon alþingi, að ekkert sérstakt væri að gerast í viðræðum við Breta um ICESAVE, Bretar væru of tregir til viðræðna. Fimmtudaginn 4. júní var ICESAVE-málið kynnt þingmönnum sem umsamið! Hvað gerðist? Hvers vegna spyr enginn fjölmiðill Steingrím J. um þetta? Sagði hann vísvitandi ósatt eða vissi hann ekki betur?

Mánudaginn 8. júní flytur Steingrímur J. alþingi munnlega skýrslu um niðurstöðu ICESAVE-málsins. Í frétt á mbl.is segir í frétt frá þinginu:

„Fram kom hjá Steingrími fyrr í umræðunni, að 11. október hefðu háttsettir íslenskir og hollenskir embættismenn skrifað undir minnisblað um samkomulag vegna Icesave-reikninganna um að íslensk stjórnvöld bæti hollenskum Icesave-reikningseigendum 20.887 evrur. Samkvæmt því samþykktu hollensk stjórnvöld að lána Íslendingum lán fyrir þessari fjárhæð til 10 ára, afborgunarlaust fyrstu þrjú árin, með 6,7% vöxtum.“

Ekkert er nýtt í þessum orðum Steingríms J. Hér er um sameiginlegt minnisblað að ræða en ekki samkomulag, enda sömdu Hollendingar um annað en þarna segir. Viku áður en Steingrímur J. varð ráðherra taldi hann þáverandi ríkisstjórn eiga að efna til kosninga til að komast hjá ósköpum vegna ICESAVE. Nú hefur Steingrímur J. verið fjármálaráðherra í 4 mánuði og ekki breytt neinu í ICESAVE-málinu, þótt hann láti eins og það hafi verið sín heitasta ósk að gera það.

Í Kastljósi kvöldsins sagðist hann hafa kynnst einhverjum gögnum, sem hefðu valdið sinnaskiptum hjá honum vegna ICESAVE. Steingrímur J. skuldar okkur svör um mörg álitaefni vegna orða hans og afstöðu til ICESAVE - hann getur varla kennt fyrrverandi ríkisstjórn um hans eigin orð og athafnir?

Ég skrifaði pistil um ICESAVE og vandræði Gordons Browns í dag.

 

Sunnudagur, 07. 06. 09. - 7.6.2009

Þegar þetta er skrifað virðist Euoropean Pepole's Party (EPP), það er flokkur þeirra, sem skipa sér hægra megin við miðju stjórnmálanna, vera sigurvegari kosninganna til Evrópusambandsþingsins. Jafnaðarmenn tapa fylgi og víða illa, m. a. í Frakklandi, Þýskalandi, Bretlandi og á Spáni, svo að fjölmennustu þjóðarinnar. Í Póllandi vann EPP góðan sigur og verða Pólverjar stærsti þjóðarhópurinn innan EPP.

Flokkar hægra megin við EPP, Græningjar og einnig þeir, sem eru lengst til vinstri, styrkja stöðu sína.

Kosningaþátttaka var aðeins 43%, hin lægsta í sögu ESB-þingkosninga síðan 1979.  Sérfræðingur í Brussel taldi, að þeir hefðu almennt bætt stöðu sína á ESB-þinginu, sem væru hlynntir Lissabonsáttmálanum og meiri samruna, hvað sem skiptingu í flokka liði.

Sigur Íhaldsflokksins í Bretlandi og vaxandi líkur á því, að Gordon Brown hrökklist frá völdum, veldur áhyggjum hjá þeim, sem vilja Lissabonsáttmálann, því að David Cameron, formaður Íhaldsflokksins, og William Hague, utanríkisráðherraefni Íhaldsflokksins, vilja leggja Lissabonsáttmálann fyrir bresku þjóðina til atkvæðagreiðslu. Sáttmálasinnar í öllum ESB-löndum vona, að Verkamannaflokkurinn, sem aldrei hefur farið jafnilla í kosningum, lafi áfram við völd í Bretlandi, hvort sem Brown leiðir hann eða ekki, svo að ekki verði þingkosningar þar fyrir lok október, en þann tíma hafa Írar til að greiða að nýju þjóðaratkvæði um sáttmálann. Talið er að efnahagshrunið hafi aukið fylgi þeirra á Írlandi, sem styðja Lissabonsáttmálann.

Laugardagur, 06. 06. 09. - 6.6.2009

Klukkan 08.00 sótti ég messu í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði og ræddi síðan við pólskan blaðamann, sem þar var og vildi hitta mig að ábendingu nunnanna. Viðtal mitt við hann og bandaríska Harvardprófessorinn Richard Rosecranse í gær sýna mér, að viðhorfið til Íslands er allt annað nú en á síðasta hausti, þegar fréttirnar af hruninu voru sem hæstar. 

Ákvörðunin um að ríkið eignaðist bankana og framkvæmd hennar þykir forvitnileg en ekki ámælisverð. Paul Krugman, nóbelsverðlaunahafi í hagfræði 2008, var í Hardtalk á BBC í vikunni og sagði, að Bandaríkjastjórn hefði frekar átt að eignast bandaríska banka en leggja þeim til stórfé og skilja eftir í höndum eigenda sinna.

Augljóst er, að ESB-aðildarsinnum á Íslandi er verst við tvennt: 1. að rætt sé um gjaldmiðilsskipti án ESB-aðildar; 2. að bent sé á, að ESB-valdið í Brussel lagðist á sveif með Bretum og Hollendingum til að knýja fram pólitíska lausn á ICESAVE-deilunni í stað þess að láta óhlutdræga dómara fjalla um málið.

Í báðum tilvikum láta aðildarsinnar hjá líða að leita lausna með sérhagsmuni Íslands í huga á grundvelli EES-réttar. Þeir kjósa frekar að beygja sig undir boð og bönn frá Brussel. Málsvarar þessarar stefnu eru hinir sömu og vilja opið umboð til aðildarviðræðna við ESB - nú að fyrirmynd frá Möltu.

 

 

Föstudagur, 05. 06. 09. - 5.6.2009

Aflinn, félag qi gong iðkenda, efndi til aðalfundar í dag  klukkan 17.00 í Kaffi Flóra í grasagarðinum í Laugardal. Félögum fjölgar ár frá ári og áhugi félagsmanna á því að kynna fleirum æfingarnar.

Í dag var skýrt frá því, að samningar væru að takast í ICESAVE-deilunni. Í tilefni af því ritaði ég pistil um málið á vefsíðuna www.efrettir.is og vakti athygli á tvöfeldni Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, í málinu. Hún er undraverð, þegar litið er til þess, sem hann segir nú, og sagði rúmri viku, áður en hann varð ráðherra við stjórnarskiptin 1. febrúar sl.

Mörður Árnason, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, sagði í dag á vefsíðu sinni í tilefni af fréttum um ICESAVE:

„Löngu var ljóst að við áttum engan annan kost en að semja um þessar skuldir. Hinn kosturinn var að segja sig úr lögum við umheiminn og útiloka samfélagið um leið frá erlendu lánsfé, hefðbundnum viðskiptum og almennum áhrifum í áratugi. Sennilega hefði EES-aðild okkar meðal annars verið í hættu – og það er kannski sú fjöður sem er orðin að fimm hænum í þeirri frábæru kenningu að hér sé ríkisstjórnin að greiða einhverskonar aðgöngu-„gjald“ inn í ESB. Sem er að öðru leyti einhver hin lágkúrulegasta  í langri og leiðinlegri sögu landráðabrigsla í íslenskri pólitík.“

Þetta er forvitnilegur samsetningur hjá Merði til stuðnings þeirri afstöðu, sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir tók sem utanríkisráðherra, að ICESAVE deilan væri pólitísk en ekki lögfræðileg, það bæri að semja í stað þess að beita lögfræðilegum rökum gegn Evrópusambandinu, Bretum og Hollendingum. Lögfræðilegu rökin voru stórhættuleg fyrir Evrópusambandið og sneru beint að veiku regluverki þess um bankastarfsemi yfir landamæri. Hér er því ekki aðeins um það að ræða að búa í haginn fyrir ESB-aðild heldur einnig er komið til móts við kröfur ESB-lögfræðinganna um að ekki sé látið reyna á regluverkið sjálft. Samkvæmt orðum Marðar hefðu öll okkar tengsl við Evrópusambandið verið í hættu, ef pólitíska leiðin til samninga hefði ekki verið valin.

Fimmtudagur, 04. 06. 09. - 4.6.2009

Flugferðin frá London með Icelandair gekk vel og það tók ótrúlega skamman tíma að afgreiða farangur til okkur farþeganna í Leifsstöð.

Ég sá engin merki um Evrópusambandsþingkosningarnar í London, fyrir utan að leikskóli Rutar, dótturdóttur minnar, var kjörstaður og fylgdi hún okkur því út á flugvöll í bílnum með móður sinni.

Í kvöld berast síðan fréttir af því, að James Purnell, enn einn ráðherra í ríkisstjórn Gordons Browns, hafi ritað Brown afsagnarbréf. Adam Boulton, stjórnmálaskýrandi Sky News, sagði að þetta væri „knock out“ fyrir Brown, Verkamannaflokkurinn væri í upplausn og næði sér ekki á strik undir forystu Browns. Úr Downing stræti sendir Brown hins vegar yfirlýsingu um, að hann muni endurskipuleggja ríkisstjórn sína og berjast áfram í þágu þjóðarinnar.

Verði kosningar í Bretlandi í haust, sigrar Íhaldsflokkurinn. Hann hefur lofað þjóðaratkvæðagreiðslu um Lissabon-sáttmálann, án samþykktar hans verður ESB ekki stækkað.

Við heimkomuna berast enn fréttir af vonbrigðum vegna lítillar stýrivaxtalækkunar peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands. Einkennilegt er, að ekki skuli rækilega minnt á ábendingar nefndarinnar við ákvörðun hennar í síðasta mánuði um forsendur lækkunar að þessu sinni, en þær beindust að ríkisstjórn og ákvörðunum hennar. Staðreynd er, að ríkisstjórnin hefur ekkert gert, svo segist Steingrímur J. vonsvikinn yfir því, að vextir skuli ekki lækka meira! Hann ætli að láta til skarar skríða í næstu viku!

Eftir að hafa lesið stjórnmálafréttir bresku blaðanna undanfarna daga og hvernig þau lýsa því, sem er að gerast á hinum pólitíska vettvangi, minna íslensku fjölmiðlarnir helst á skólablöð í yfirborðslegum frásögnum sínum af þróun stjórnmála og efnahagsmála, fyrir utan ESB-fjölmiðlaþrána hér, sem gengur þvert á tóninn í bresku blöðunum.

Þess er minnst í dag, að 20 ár eru liðin frá blóðbaðinu á Torgi hins himneska friðar, þegar kínversk stjórnvöld beittu hervaldi gegn námsmönnum, sem komu þar saman í nafni lýðræðis. Enn þann dag í dag er ekki vitað, hve margir féllu í átökunum, talið er, að þeir hafi verið allt að 3000.

Miðvikudagur 03. 06. 09. - 3.6.2009

Arnljótur Arnarson bloggar 3. júní:

„Björn Bjarnason skrifar á heimasíðu sína:

 ”Dalai Lama kemur til Íslands í dag og ég les í vefmiðlum, að hvorki Jóhanna Sigurðardóttir né aðrir ráðherrar ætli að hitta hann. Hvað veldur? Ótti við kínverska sendiráðið? “

Björn Bjarnason Falun Gong, hvað!!!!!  voru þið davíð hræddir við kínverjana.

Get svo alveg verið sammála um að ráðamenn hefðu átt að taka vel á móti honum og ræða við hann.  Ég get líka skilið stjórnvöld að sumu leiti í þrengingum okkar.

Það er alveg ótrúlegt hvað stjórnmálamenn geta verið ósamkvæmir sjálfum sér. “

Ég veit ekki hvaðan Arnljótur hefur, að ég hafi hræðst Kínverja vegna falun gong vorið 2002. Hér er um hreina ímyndun Arnljóts að ræða, því að ég gagnrýndi íslensk stjórnvöld á þeim tíma hér á síðu minni, þótt falun gong eigi enga samúð mína vegna hinnar einkennilegu hugmyndafræði, sem þar býr að baki. Gagnrýni Arnljóts missir marks.

Hitabylgjunni er lokið í London. Í dag skoðaði ég British Museum. Ég mæli með þjónustu London Walks en henni má kynnast á netinu.

Þriðjudagur, 02. 06. 09. - 2.6.2009

Í dag notaði ég blíðviðrið í London til að kynna mér suðurbakka Thames við Festival Hall, að Old Vic og Waterloo-brautarstöðinni.

Amx.is sagði frá því dag, að Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, hefði hafið bónorðsferð vegna ESB-aðildarviðræðna á Möltu og hefði aðalblaðið á eyjunni, Malta Independent, fagnað Össuri sérstaklega auk þess sem Möltustjórn hefði heitið honum stuðningi.

Á ruv.is  las ég svo síðdegis:

„Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, vissi ekki að Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra væri á Möltu að ræða við ráðamenn um stuðning þarlendra stjórnvalda við hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Hann vill ekki svara því hvort ekki hefði verið eðlilegt að ráðherrann hefði gert þinginu og nefndinni grein fyrir því að hann ætlaði að ræða þessi mál við maltverska ráðamenn. Utanríkisráðherra verði að svara því sjálfur. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að þingið hefði átt að fjalla um málið áður en ráðherrann lagði land undir fót og fór til Möltu. Össur hefur meðal annars rætt við ráðamenn á Möltu um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu.“

Athygli vekur, að Árni Þór treystir sér ekki til að taka upp hanskann fyrir nefnd sína. Hann sættir sig við, að fram hjá henni sé gengið, enda hefur Össur ekki farið til Möltu án vitundar Steingríms J., formanns vinstri-grænna og leiðtoga Árna Þórs, sem hefur sagt aðildarviðræður málamiðlun í þágu stjórnarsamstarfsins.  Með þessu hafna stjórnarflokkarnir í reynd tillögu stjórnarandstöðunnar um vandaða ESB-málsmeðferð og er greinilegt, að yfirlýsingar Árna Þórs um mikla vinnu utanríkismálanefndar eru marklausar. Össur hefur tilburði Árna Þórs einfaldlega að engu í krafti málamiðlunar Jóhönnu og Steingríms J.

Mánudagur, 01. 06. 09. - 1.6.2009

Í dag fór ég í fræðslugöngu um það, sem leiðsögumaðurinn kallaði „Legal London“ eða London lögfræðinnar, og lá leiðin um Grey's Inn og Lincoln's Inn og lauk í Royal Court of Justice.

Áður en ég brá mér í fróðleiksferðina, skrifaði ég pistil hér á síðuna um vanda Gordons Browns og Verkamannaflokksins og nýlegar skýrslur á vegum menntamálaráðuneytisins um háskóla, vísindi og tækni. Með vísan til þeirra upplýsinga, sem ég birti á síðunni úr skýrslunum sendi glöggur lesandi síðu minnar mér þessa ábendingu: 

„Jafnaðarleg fjölgun háskólanema um 8 % á ári á tímabilinu 2001-2009 er geysimikil.  Raunkostnaður á nemanda hefur hins vegar minnkað úr 2,6 Mkr/n í 2,2 Mkr/n.  Þetta jafngildir bættri fjármagnsnýtni um 15 %.  Ef fækka á skólum, þarf að sýna fram á áframhaldandi bætta nýtni.  Hvatinn til hagræðingar minnkar við fækkun.“ 

Þessi ábending fellur að skoðun minni um, að brýnna sé að huga að gæðum menntunar og hagnýtingu hennar með því að breyta rannsóknum í verðmæti, en að leggja áherslu á að fækka háskólum. Þá er víst, að Háskóli Íslands kemst aldrei í hóp 100 bestu háskóla heims sem ríkisháskóli.

Ég sé, að forsetahjónin hafa kosið að vera á Kýpur á smáþjóðaleikum í stað þess að hitta Dalai Lama í eina skiptið, sem hann kemur til Íslands. Smáþjóðaleikarnir eru á tveggja ára fresti og í tíð minni sem menntamálaráðherra kom aldrei til álita, að forseti Íslands heiðraði leikana með návist sinni.

Enginn hefði túlkað það sem áhugaleysi á smáþjóðaleikunum, hefðu forsetahjónin ákveðið að vera á Íslandi og hitta Dalai Lama.

Vegna frásagnar minnar í gær af reiði kínverska sendiherrans er rétt að geta þess, að 2004 fór ég til Kína, þegar Þingvellir voru settir á heimsminjaskrá UNESCO og var síðan gestur kínversku ríkisstjórnarinnar, sem tók höfðinglega á móti mér og fylgdarliði mínu.