2.6.2009

Þriðjudagur, 02. 06. 09.

Í dag notaði ég blíðviðrið í London til að kynna mér suðurbakka Thames við Festival Hall, að Old Vic og Waterloo-brautarstöðinni.

Amx.is sagði frá því dag, að Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, hefði hafið bónorðsferð vegna ESB-aðildarviðræðna á Möltu og hefði aðalblaðið á eyjunni, Malta Independent, fagnað Össuri sérstaklega auk þess sem Möltustjórn hefði heitið honum stuðningi.

Á ruv.is  las ég svo síðdegis:

„Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, vissi ekki að Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra væri á Möltu að ræða við ráðamenn um stuðning þarlendra stjórnvalda við hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Hann vill ekki svara því hvort ekki hefði verið eðlilegt að ráðherrann hefði gert þinginu og nefndinni grein fyrir því að hann ætlaði að ræða þessi mál við maltverska ráðamenn. Utanríkisráðherra verði að svara því sjálfur. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að þingið hefði átt að fjalla um málið áður en ráðherrann lagði land undir fót og fór til Möltu. Össur hefur meðal annars rætt við ráðamenn á Möltu um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu.“

Athygli vekur, að Árni Þór treystir sér ekki til að taka upp hanskann fyrir nefnd sína. Hann sættir sig við, að fram hjá henni sé gengið, enda hefur Össur ekki farið til Möltu án vitundar Steingríms J., formanns vinstri-grænna og leiðtoga Árna Þórs, sem hefur sagt aðildarviðræður málamiðlun í þágu stjórnarsamstarfsins.  Með þessu hafna stjórnarflokkarnir í reynd tillögu stjórnarandstöðunnar um vandaða ESB-málsmeðferð og er greinilegt, að yfirlýsingar Árna Þórs um mikla vinnu utanríkismálanefndar eru marklausar. Össur hefur tilburði Árna Þórs einfaldlega að engu í krafti málamiðlunar Jóhönnu og Steingríms J.