Dagbók: febrúar 2014

Föstudagur 28. 02. 14 - 28.2.2014 22:10

Hið undarlega gerðist í dag að allt í einu birtist spurning og svar á Evrópuvefnum sem hefur verið haldið úti af Háskóla Íslands. Vefsíðunni var lokað um síðustu áramót en í dag „laumaði“ einhver inn á vefinn svari við spurningu um varanlegar undanþágur við aðild að ESB og var vitnað í gamalt þingsvar Össurar Skarphéðinssonar, þáv. utanríkisráðherra, í svari Evrópuvefsins. Engin skýring hefur verið gefin á því að allt í einu var sett svar á vefinn við gamalli spurningu í dag, ekki hefur annað verið vitað en starfsmenn hafi horfið frá Evrópuvefnum um síðustu áraámót. Hver getur gefið skýringu á þessu? Var um áróðursbragð í þágu ESB-aðildar að ræða?

Á fasbókinni fékk ég spurningu frá Hafsteini B. Árnasyni:

„Liggur samt ekki best við því að taka sáttatillögu VG? Sjálfstæðisflokkurinn nær þá að bjarga andlitinu gagnvart ósáttum kjósendum í ljósi óheppilegra ummæla allra ráðherra Sjálfstæðisflokksins fyrir síðastliðnar kosningar.“

Ég svaraði á þennan hátt:

„Ég hef ávallt leitast við að beita mér fyrir sem víðtækastri sátt um afstöðuna til ESB þar sem ég hef komið að málum en jafnan mælt gegn aðild. Í Evrópunefndinni sem ég stýrði og lauk störfum í mars 2007 gerði ég samkomulag um bókun við VG. Ávallt ber að líta á efnislega hlið málsins og augljóst er að samhljómur er í afstöðu stjórnarflokkanna og VG þótt um stigsmun sé að ræða. Einar K. Guðfinnsson sat með mér í þeirri nefnd. Hann beitti sér í gær fyrir samkomulagi á alþingi sem kom ESB-málinu til nefndar.

Þess má geta að Katrín Jakobsdóttir, núv. formaður VG, sat í Evrópunefndinni með mér og einnig Ragnar Arnalds. Við stóðum sameiginlega að séráliti eftir að nefndin hafði náð einróma samkomulagi um meginniðurstöðuna.

Nú hefur fréttastofa ríkisútvarpsins staðið í rúma viku að samfelldum áróðri gegn forystumönnum Sjálfstæðisflokksins vegna ESB-málsins. Fréttamenn voru kampakátir yfir árangri sínum í kvöld þegar þeir lýstu tölum um ört minnkandi fylgi Sjálfstæðisflokksins sömu daga og áróðursherferðin stóð.

Hver er skýringin á því að Guðlaugur Þór Þórðarson er allt í einu kynntur til sögunnar sem varaformaður þingflokks sjálfstæðismanna og hann kemur í útvarp til að segja að hann hafi ekki vitað um afgreiðslu þingflokksins á tillögu utanríkisráðherra um afturköllun ESB-umsóknarinnar? Hefði breytt einhverju þótt Guðlaugur Þór hefði ekki verið í Singapúr við afgreiðslu þingflokksins?

Fimmtudagur 27. 02. 14 - 27.2.2014 19:00

Það var tímabært í öllu svikabrigslatalinu vegna ESB-málsins að Hanna Birna Kristjánsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og innanríkisráðherra, minnti á svik Samfylkingarinnar í ræðu á alþingi. Hún benti réttilega á að mestu svik í ESB-málinu væru hjá þeim sem lofuðu fyrir kosningar 2009 og við upphaf umsóknarferilsins að honum mundi ljúka 2010 eða 2011 og örugglega á árinu 2012. Þarna voru forkólfar Samfylkingarinnar í fremstu röð, þar á meðal Árni Páll Árnason, núverandi formaður Samfylkingarinnar.

Ástæðan fyrir stöðu ESB-málsins núna er að þessir menn sviku allir það sem þeir lofuðu þegar þeir lögðu af stað til Brussel. ESB-RÚV hefur ekki fjallað um þennan þátt málsins. Það er hins vegar gert í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Þar er meðal annars sagt frá kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins vegna umsóknarinnar þar sem vitnað er til þess að utanríkisráðuneytið meti að um 18 mánaða ferli verði að ræða, það er að því verði lokið á árinu 2011.

Hvers vegna í ósköpunum gengur enginn fjölmiðill eftir því á hverju utanríkisráðuneytið reisti þetta mat sitt? Í neðanmálsgrein í skýrslu hagfræðistofnunar kemur fram að miðað hafi verið við það sem gerðist þegar EFTA-ríki sömdu um aðild fyrir 20 árum. Vissi utanríkisráðuneytið ekki um breyttar aðferðir ESB við móttöku nýrra ríkja? Í stað þess að upplýsa mál eins og þetta rembist ESB-RÚV dag eftir dag við að sanna  svik á forystumenn Sjálfstæðisflokksins sem ekki hafa borið neina ábyrgð á stöðu ESB-málsins en leggja sig nú fram um að losa þjóðina úr ESB-viðjum fyrri ríkisstjórnar.

Einar K. Guðfinnsson, forseti alþingis, beitti sér í dag fyrir sáttum á þingi um afgreiðslu ESB-málsins. Þær höfðu ekki fyrr náðst en í ESB-RÚV var tekið til við að lýsa vantrausti á gildi sáttanna eins og menn hefðu misst glæpinn við Efstaleiti. Í fréttum ríkisútvarpsins af stöðu mála á alþingi er þess ekki getið að á þremur sólarhringum fluttu stjórnarandstöðuþingmenn tæpar 500 ræður um fundarstjórn forseta. Þetta er fréttnæmt nýmæli í störfum alþingis en hentar greinilega ekki þeim sem stjórna flutningi útvarpsfrétta.

Hér má lesa frásögn af ræðu Hönnu Birnu á alþingi í dag.

Miðvikudagur 26. 02. 14 - 26.2.2014 21:40

Í dag ræddi ég við Gunnar Haraldsson, forstöðumann Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, í þætti mínum á ÍNN. Við ræddum skýrslu stofnunarinnar um stöðu ESB-málsins og framtíðina innan ESB. Þessi skýrsla var lögð fram þriðjudaginn 18. febrúar. Þegar menn kynna sér hana eða horfa og hlusta á samtal okkar Gunnars sjá þeir fljótt að skýrslan gefur ekkert tilefni til þess uppnáms sem hefur orðið á stjórnmálavettvangi um hana. Deilurnar og hitinn í þeim vekja spurningu um hvort þetta sé eitt af þeim málum sem er of stórt viðfangsefni fyrir þá sem sitja á alþingi um þessar mundir.

Efni málsins er of stórt fyrir fréttastofu ríkisútvarpsins. Fréttir hennar beinast að rannsókn á yfirlýsingum frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu kosningar í stað þess að kafa ofan í gang ESB-viðræðnanna á grundvelli skýrslunnar. Þetta er einkennilegt en fellur að hagsmunum ESB-aðildarsinna en allt frá því ESB-umsóknin var samþykkt hafa leiðir fréttastofunnar og aðildarsinna legið saman.

Samstaða aðildarsinna utan og innan Sjálfstæðisflokksins skilaði ekki þeim árangri sem að var stefnt í kosningunum. Nú á að ná fram hefndum eftir kosningarnar með linnulausum árásum á Sjálfstæðisflokkinn og einkum formann hans.

Til marks um að baráttan gangi ekki eins og að var stefnt er vaxandi reiði og beinlínis dónaskapur stjórnarandstöðunnar í þingsalnum.

Samtal okkar Gunnars Haraldssonar má sjá næst á ÍNN klukkan 22.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

 

Þriðjudagur 25. 02. 14 - 25.2.2014 22:10

Hugmyndaflugið sem stjórnarandstaðan beitir til að koma í veg fyrir efnislegar umræður um ESB-málefnin á alþingi  er í ætt við annað sem frá flokkunum hefur komið þegar kemur að kjarna ESB-umræðunnar og leitað er svara við spurningunni um hvaða erindi Íslendingar eigi inn í sambandið. Þá er alltaf farið undan í flæmingi, sumir segjast alls ekki vilja inn í sambandið þótt þeir hafi sótt um aðild að því og aðrir segjast ekki fara inn nema á sérkjörum. Enginn segist vilja ganga í ESB á skilyrðum sambandsins sjálfs sem þó er eini kosturinn í  boði. Það er í raun engin furða að þeir sem standa þannig að svo stóru og mikilvægu máli vilji forðast að ræða það.

Fyrir liggur að engar fullyrðingar um tímasetningar að baki ákvörðuninni um umsókn árið 2009 hafa staðist. Allt sem Össur Skarphéðinsson og Árni Páll Árnason sögðu um þann mikilvæga þátt málsins hefur reynst ósannindi. Um það þarf ekki að deila. Skyldi fréttastofa ríkisútvarpsins beina athygli að þessum þætti málsins í umfjöllun sinni í fréttum eða Kastljósi? Nei, ekki er á það minnst einu orði heldur er hver þátturinn og fréttatíminn eftir annan lagður undir hártoganir á orðum Bjarna Benediktssonar til að ýta undir mótmæli meðal þeirra sem kusu Sjálfstæðisflokkinn í kosningunum 2013, aðra getur hann ekki hafa „svikið“. Meira að segja getur starfsmaður fréttastofunnar ekki haldið aftur af sér þegar hann bregður sér í gervi leiklistargagnýnanda í Djöflaeyjunni.

Í Kastljósi kvöldsins hélt Sigmar Guðmundsson áfram að tuða um svik Bjarna og fékk dyggan stuðning frá Össuri Skarphéðinssyni sem lét eins og skýrsla sem út kom í mars árið 2007 hefði legið að baki ESB-umsókninni sumarið 2009. Þetta er fráleit kenning og stenst ekki skoðun frekar en svo margt annað sem Össur segir þessa dagana. Hann siglir hins vegar lygnan sjó hjá ESB-RÚV eins og hann hefur gert síðan hann gerðist ESB-strandkapteininn vorið 2009.

Mánudagur 24. 02. 14 - 24.2.2014 21:10

Það var skrýtið að Helgi Seljan skyldi allt í einu blanda Vigdísi Hauksdóttur, þingmanni Framsóknarflokksins, og ummælum hennar um Möltu og stöðu þess ríkis innan ESB í samtal við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, í Kastljósi kvöldsins. Var það vegna þess að Helga mistókst með öllu ætlunarverk sitt að stimpla Bjarna sem svikara kosningaloforða? Ætlaði hann að koma Bjarna úr jafnvægi með þessum orðum? Það mistókst einnig.

Ég fjallaði um samtal þeirra Helga og Bjarna á Evrópuvaktinni eins og sjá má hér.

Bjarni fékk hins vegar tækifæri til að benda á hve fráleitt væri að láta eins og samningar ESB við Möltu væru eitthvað fordæmi fyrir Íslendinga. Bjarni nefndi hvernig að þessu var staðið gagnvart Maltverjum, ekki er þar nein varanleg undanþága.

Um er að ræða útgerð smábáta á 12 til 25 sjómílna belti við Möltu sem veiða 800 til 1.000 lestir af fiski samtals á ári. Bátum af þessari stærð er ekki siglt frá öðrum Miðjarðarhafslöndum til veiða við Möltu.

Svikabrigslin í garð Bjarna Benediktssonar eru með ólíkindum. Þau sýna aðeins hve ESB-málið ristir djúpt tilfinningalega hjá sumum.

Vek athygli á að í Viðtalinu í ríkissjónvarpinu í kvöld kl. 20.20 ræðir Bogi Ágústsson við dr. Richard North sem hér var gestur Evrópuvaktarinnar og fleiri í lok janúar.

 

Sunnudagur 23. 02. 14 - 23.2.2014 22:30

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands sendir frá sér skýrslu um ESB-viðræður íslenskra stjórnvalda og breytingar á ESB. Skýrslan staðfestir að viðræðurnar sigldu í strand snemma árs 2013 án þess að þær hefðu hafist um erfiðustu kaflana, landbúnað og sjávarútveg. Í skýrslunni kemur fram að undanþágur í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum eru taldar nær óhugsandi.

ESB-aðildarsinnar lýsa yfir að ekkert sé að marka þennan þátt skýrslunnar, víst sé unnt að semja um sérlausnir. Þeim tókst alls ekki að þoka málum til þeirrar áttar í stjórnartíð sinni.

Ríkisstjórnarflokkarnir leggja fram tillögu um að alþingi afturkalli ESB-umsóknina.

ESB-aðildarsinnar innan Sjálfstæðisflokksins saka formann flokksins um svik við sig. Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi flokksformaður, segir á Stöð 2 að brotið hafi verið loforð við sig. Loforð sem varð til þess að hann kaus flokk sinn í kosningunum 2013 og fékk aðra til þess – annars væri flokkurinn ekki hinn stærsti á alþingi.

ESB-aðildarsinnar reyna með öllum tiltækum ráðum að snúa umræðunum frá þeirri staðreynd að ESB-viðræðunum var siglt í strand á vakt Össurar Skarphéðinssonar í utanríkisráðuneytinu. Össur og hans menn gjörtöpuðu þingkosningunum. Að krefjast þess að sigurvegararnir fari að vilja hinna sigruðu er andlýðræðislegt.

Samþykkt landsfundar Sjálfstæðisflokksins er um að flokkurinn vilji hætta ESB-viðræðunum og ekki hefja þær að nýju nema það sé samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ber að skýra öll ummæli forystumanna flokksins í því ljósi. Sjálfstæðisflokkurinn telur auk þess að þjóðinni sé betur borgið utan ESB en innan. Það er því fráleitt að flokkurinn standi að tillögu um að halda viðræðunum áfram.


Laugardagur 22. 02. 14 - 22.2.2014 22:30

Einkennilegt er að hlusta á forráðamenn úr atvinnulífinu segja að óvissa um afnám fjármagnshafta aukist við að afturkalla ESB-aðildarumsóknina. Þegar ESB-leiðangur Samfylkingarinnar hófst snemma árs 2009 var látið eins og á skömmum tíma mætti losna við höftin, bara að sótt yrði um aðild að ESB. Fimm árum síðar erum við í sömu sporum og þó verri því að höftin hafa skekkt viðskiptalífið í stjórnartíð Samfylkingarinnar og VG. Á þeim tíma sem liðinn er við ESB-viðræður hefur ekkert markvert gerst á þessu sviði í samskiptum ESB og Íslands.

Samfylkingarmenn létu alltaf eins og óhjákvæmilegt væri að bíða eftir ESB en VG vildi halda í höftin til að geta hlutast til um rekstur fyrirtækja. Seðlabanki Íslands hélt að sér höndum. Ríkisstjórn sem hvorki ætlar að bíða eftir ESB né lætur stjórnast af óvild VG í garð heilbrigðs atvinnulífs er líklegri til afnema höftin en Jóhönnu-stjórnin. Forystumenn í atvinnulífinu mega ekki vega að eigin trúverðugleika með afdönkuðum ESB-yfirlýsingum.

Jón Bjarki Magnússon, blaðamaður á DV, sem hér hefur m. a. verið getið vegna ljóðalesturs á vegum samtakanna Attac og No Borders við Hegningarhúsið á Skólavörðustíg heldur áfram skrifum í DV til að halda lífi í „lekamáli“ blaðsins gegn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra. Nú hefur Jón Bjarki áhyggjur af rannsókn lögreglunnar af því að bróðir Hönnu Birnu og mágur eru yfirmenn hjá lögreglunni.  Talar Jón Bjarki um að það þurfi að „lægja öldur“ innan lögreglunnar vegna þessa og ber fyrir sig ónafngreinda lögreglumenn. Skyldi Jón Bjarki telja nauðsynlegt að búa lesendur undir niðurstöður rannsóknarinnar á þennan hátt?

Föstudagur 21. 02. 14 - 21.2.2014 23:30

Sögulegur dagur í stjórnmálum er að kvöldi kominn.

Í fyrsta lagi var sagt frá bréfi Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsmálaráðherra, til Más Guðmundssonar seðlabankastjóra sem dagsett var miðvikudaginn 19. febrúar um að auglýsa ætti embætti seðlabankastjóra eftir sex mánuði. Már tók tilkynningunni á þann veg að hann ætlaði að óbreyttu að sækja um embættið að nýju.

Fyrir sex árum ákvað ég með sex mánaða fyrirvara að auglýsa embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum og olli það miklu uppnámi hjá sitjandi lögreglustjóra sem taldi ákvörðunina beint gegn sér. Hið sama gerðist fyrir skömmu þegar Páli Magnússyni útvarpsstjóra var sagt að auglýsa ætti embætti hans. Páll sagði strax af sér. Már tekur tilkynningu um auglýsinguna á allt annan veg. Hann segist ekki á förum.

Í öðru lagi samþykktu stjórnarflokkarnir að leggja fram tillögu til þingsályktunar um að afturkalla ESB-aðildarumsóknina. Eftir þessu hef ég beðið frá því að ríkisstjórnin var mynduð ekki síður en ákvörðun varðandi breytingar á yfirstjórn seðlabankans.

Að hætta aðildarviðræðunum á formlegan hátt fellur að stefnu beggja stjórnarflokkanna. Ég botna satt að segja ekkert í minnihluta sjálfstæðismanna sem sætta sig alls ekki við ákvörðun meirihlutans í málinu og velja þá leið að vega sérstaklega að formanni flokksins eins og hann hafi gefið þeim eitthvert persónulegt loforð sem falli ekki að samþykkt landsfundar flokksins.

Bjarni Benediktsson skýrði afstöðu meirihluta sjálfstæðismanna vel í Spegli ríkisútvarpsins í kvöld og svaraði spurningum vel og málefnalega. Áreitnisleysi hans var í hróplegri andstöðu við hina málefnasnauðu gagnrýni sem hann og Sjálfstæðisflokkurinn sæta.

 

Fimmtudagur 20. 02. 14 - 20.2.2014 23:10

Starfsemi Miðaldastofu Háskóla Íslands er blómleg og í vetur gengst hún meðal annars fyrir fyrirlestraröð um klausturmenningu á Íslandi og Norðurlöndum á miðöldum. Í dag flutti Haki Antonsson sagnfræðingur og dósent í norrænum miðaldafræðum við University College London erindi um Benediktínamunkana í Þingeyraklaustri og fyrstu sagnaritarana. Haki fæst einkum við rannsóknir á sögu og bókmenntum Norðurlanda á tólftu og þrettándu öld.

Áhuginn á þessum fyrirlestrum er mikill. Má segja að færri komist í sætin í fyrirlestrasalnum en vilja. Þessi starfsemi fellur vel að stefnu ríkisstjórnarinnar sem lýst er á þennan veg í stefnuyfirlýsingu hennar:

„Íslensk þjóðmenning verður í hávegum höfð, að henni hlúð og hún efld. Áhersla verður lögð á málvernd, vernd sögulegra minja og skráningu Íslandssögunnar, auk rannsókna og fræðslu. Ríkisstjórnin mun vinna að því að auka virðingu fyrir merkri sögu landsins, menningu þess og tungumálinu, innanlands sem utan.“

Margrét Hallgrímsdóttir tók í byrjun árs leyfi í eitt ár frá embætti þjóðminjavarðar til að vinna í forsætisráðuneytinu að því að koma þar á fót skrifstofu menningararfs í samræmi við þetta ákvæði í stjórnarsáttmálanum.

Í dag fékk ég tækifæri til að kynnast æfingu Norðmanna, Finna og Svía á Keflavíkurflugvelli sem lýkur nú í vikulokin. Um 300 manns, 18 orrustuþotur, tvær þyrlur og eldsneytisvélar auk landfarartækja og skips í Helguvík sem flutti búnað, ökutæki og tvær finnskar NH90 þyrlur. Samhliða var um tvær aðgerðir að ræða: æfingu flugherja landanna þriggja og loftrýmisgæslu Norðmanna. Allt fór þetta fram eftir NATO stöðlum en lykillinn að því að æfingin gekk eins og í sögu var að allir störfuðu samkvæmt þessum stöðlum. Áhætta var tekin með því að velja þennan árstíma en veðrið var einstaklega gott allan tímann fyrir utan einn dag.

Fréttir bárust af truflun við norðanverðan Breiðafjörð vegna flugs orrustuþotna. Þær voru þar í 20.000 feta hæð!

Miðvikudagur 19. 02. 14 - 19.2.2014 22:55

Í Morgunblaðinu í dag birtist grein eftir Óla Björn Kárason um Má Guðmundsson seðlabankastjóra. Fimm ára skipunartími Más rennur út 20. ágúst 2014. Eigi að auglýsa stöðuna þarf að ákveða það núna með sex mánaða fyrirvara.  Óli Björn segir:

„Þegar sagan allt frá 2009 er höfð í huga er vandséð hvernig stjórnvöld komast hjá því að auglýsa stöðu seðlabankastjóra og stokka síðan upp spilin með nýjum lögum, þar sem m.a. er litið til sameiningar Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins.“

Áður en Óli Björn kemst að þessari niðurstöðu hefur hann rifjað upp ádeiluefni á Seðlabanka Íslands í stjórnartíð Más Guðmundssonar – sala eigna á vegum bankans hafi vakið „alvarlegar spurningar“, framkvæmd reglna um fjármagnshöftin hafi „falið í sér óþolandi mismunun“ og hávaxtastefna bankans hafi verið „harðlega gagnrýnd“, þá sé þáttur seðlabankans undir stjórn Más „sérstakur kafli“.

Þetta er hörð gagnrýni og heyrir sem betur fer til undantekninga að unnt sé að nefna dæmi sem þessi um starfsemi seðlabankans. Fyrir utan þetta hefur Már Guðmundsson sætt gagnrýni forsætisráðherra. Hið einkennilega er að hreyfi forsætisráðherra gagnrýnisorðum opinberlega um bankastjóra eða prófessora sætir hann ámæli eins og málfrelsi hans sé skert. Málum er auðvitað ekki þannig háttað.

Að ráðherrann svari fyrir gagnrýni eða láti í ljós aðra skoðun en seðlabankastjóri er ekki ámælisvert. Hitt er einkennilegra að fréttastofa ríkisútvarpsins skuli bera það undir Gylfa Zoëga sem á sæti í peningastefnunefnd seðlabankans hvort fjölga eigi seðlabankastjórum. Gylfi sér sína sæng uppreidda verði það gert, nefndin hans yrði lögð niður, auðvitað vill hann óbreytt ástand.

 

 

Þriðjudagur 18. 02. 14 - 18.2.2014 21:30

Í dag var efnt til fundar í Norræna húsinu sem markar nokkur tímamót í varnarsamstarfi Norðurlandanna. Þar töluðu Arto Räty, ráðuneytisstjóri finnska varnarmálaráðuneytisins, Veronika Wand-Danielsson, sendiherra Svíþjóðar hjá NATO, Morten-Haga Lunde, hershöfðingi, yfirmaður stjórnstöðvar norska heraflans, og Robert G. Bell, varnarmálaráðgjafi sendiherra Bandaríkjanna hjá NATO.

Ræðumennirnir komu hingað til lands vegna æfinga flugherja Norðmanna, Finna og Svía á Keflavíkurflugvelli þar sem eru nú tæplega 20 orrustuþotur, eldneytisflugvélar og tvær finnskar þyrlur. Í fyrsta sinn gefst flugherjum Norðurlanda tækifæri til að æfa saman frá sama flugvelli og eftir handbók og reglum NATO.

Í raun var ótrúlegt fyrir okkur sem munum umræður frá kalda stríðsárum og sátum fundi og ráðstefnur með opinberum fulltrúum Finna og Svía að hlusta á ræðurnar í dag, einkum sænska sendiherrans um samstarfið við NATO, mikilvægi þess fyrir Svía og áhuga á að á leiðtogafundi NATO í Wales í september nk. yrði mælt fyrir um nánara samstarf við ríki utan NATO.

Bell er í hópi hæst settu bandarísku embættismanna sem talað hafa á opinberum fundi hér á landi síðan varnarliðið fór. Þegar hann var spurður um það efni sagðist hann hafa starfað í Hvíta húsinu árið 1999 hjá Bill Clinton og þá hefðu þeir viljað hafa orrustuþoturnar áfram hér á landi. Fór ekki á milli mála hvernig átti að skilja þau orð en hann minnti á að varnarsamningurinn væri í gildi og hann tryggði öryggi Íslands.

Mánudagur 17. 02. 14 - 17.2.2014 22:10

Áður en lagt var af stað í viðræður um fríverslun milli Bandaríkjanna og Evrópusambandsins vildi franski menningarmálaráðherrann tryggja að þar yrði ekki rætt um frjálst flæði bandarískra kvikmynda eða sjónvarpsefnis. Nú birtast fréttir um að sjónvarpsstjórar þriggja franskra einkarekinna stöðva: TF1, Canal+ og M6 hafi óskað eftir fundi með menningarmálaráðherranum til að ræða aðgerðir gegn Google, Apple og Netflix svo að þessi bandarísku alþjóðafyrirtæki „hleypi ekki upp“ franska markaðnum.

Með fréttinni um þetta á alþjóðlegum vefsíðum birtist mynd úr sjónvarpsþættinum Spilaborginni eða House of Cards en fyrsti þátturinn í nýrri röð hófst í ríkissjónvarpinu í kvöld. Hann er framleiddur af Netflix og hefur slegið í gegn um heim allan.

Spurning er hvort Frakkar vilja banna þætti frá Netflix alls staðar innan Evrópusambandsins.

Sunnudagur 16. 02. 14 - 16.2.2014 20:17

Þáttur minn á ÍNN miðvikudaginn 12. febrúar þar sem ég ræddi við Björn Bjarka Þorsteinsson, formann byggðaráðs Borgarbyggðar, er kominn á netið og má sjá hann hér.

Lára Magnúsardóttir, sagnfræðingur og forstöðumaður rannsóknasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra, var í þætti með þeim Ævari Kjartanssyni og Ágúst Þór Árnasyni á rás 1 í morgun og ræddu þau þróun lýðræðis. Undir lokin var drepið á almennar umræður og störf fjölmiðlamanna en Lára starfaði meðal annars á sínum tíma sem frétta- og dagskrárgerðarmaður á ríkisútvarpinu.

Hún sagði að fréttamenn ættu ekki að láta það nægja að spyrja fyrst þennan og síðan hinn og láta hlustendum eftir að setja samtölin í samhengi heldur væri það hlutverk fréttamanna að gera það, upplýsa hlustandann á þann veg. Viðbrögð Ævars Kjartanssonar voru þau að gera lítið úr öllum öðrum fjölmiðlum en ríkisútvarpinu, þeir væru „bara grín“ en á ríkisútvarpinu skorti menn fé til að gera það sem Lára vildi að gert yrði. Hún samsinnti því ekki heldur taldi, svo að ég umorði, að það kostaði ekkert meira að gera svona hluti vel en illa. Hér væri frekar um að ræða skilningsleysi en peningaleysi.

Þá tók hún dæmi um andvaraleysi gagnvart vitleysu sem yfir fólk flæddi úr fjölmiðlum án þess að á því væri tekið og vitnaði til orða sem Mikael Torfason, ritstjóri Fréttablaðsins, hefði látið falla þegar hann kynnti nýjan sjónvarpsþátt sem hann stýrði. Þar hefði komið fram að þessi áhrifamikli fjölmiðlamaður hafi ekki vitað hvað fælist í orðinu „lýðveldi“. Hann hefði skýrt það á alrangan hátt og annað hefði verið eftir því. Við þessu sagði Ævar Kjartansson bara: „No comment.“ Hér má hlusta á viðtalið við Láru Magnúsardóttur.

Eftir viðtalið hef ég velt fyrir mér hvernig menn geta tekið að sér ritstjórn blaðs eða stjórn sjónvarpsþáttar um stjórnmál án þess að þekkja merkingu orðsins „lýðveldi“.

ps. Jón Bjarki Magnússon las ljóð á fundi Attac og No Borders  en flutti ekki ræðu eins og sagt var hér í gær. Þá segir Jón Bjarki að þeir félagar séu ekki viðkvæmir fyrir því sem segir um þá á Google þótt ég sé annarrar skoðunar.

Laugardagur 15. 02. 14 - 15.2.2014 23:40

Ókum suður til Reykjavíkur frá Þingeyrum í dag. Veður var gott og færð prýðileg.

Eins og lesendum síðu minnar er kunnugt sæti ég kröfu og hótunum frá Reyni Traustasyni, ritstjóra DV, og lögmanni hans vegna orða sem ég lét falla um blaðamann á DV og samtökin No Borders hér á síðunni vegna „lekamálsins“. Nú hafa tveir blaðamenn DV Jón Bjarki Magnússon og Jóhann Páll Jóhannsson unnið verðlaun Blaðamannafélags Íslands fyrir rannsóknarblaðamennsku ársins 2013. Viðurkenninguna fá þeir fyrir skrif sín um hælisleitendur.

Ég sagði; „Einn af forystumönnum No Borders er blaðamaður á DV og hefur þar aðstöðu til að halda lífi í starfsemi samtakanna með baráttu undir merkjum þeirra.“ Reynir sagði vegna þessara orða minna: „Þarna er á ferðinni gróf ásökun á hendur DV um að blaðamenn starfi ekki af heilindum og hafi þar með gildi góðrar blaðamennsku að leiðarljósi.“

Vegna verðlaunaveitingarinnar til Jóns Bjarka og Jóhanns Páls hóf ég rannsóknarblaðamennsku og spurði Google um þá. Hann svaraði til dæmis að Jón Bjarki hefði flutt ræðu á menningarnótt 19. ágúst 2011 fyrir framan Hegningarhúsið við Skólavörðustíg á fundi sem samtökun Attac og No Borders boðuðu um efnið: Önnur veröld er möguleg – Enginn er ólöglegur.

Íslandsdeild Attac var stofnuð 30. maí 2009. Hún er hluti alþjóðlegar hreyfingar fyrir lýðræðislegu eftirliti með fjármálamörkuðunum og stofnunum þeirra, segir á vefsíðu samtakanna. No Borders berst hins vegar í þágu hælisleitenda. Fyrir hvor samtökin skyldi Jón Bjarki hafa talað? Skyldi Reynir Traustason geta svarað því?

Hinn 2. maí 2013 birtist frétt á mbl.is  þar sem sagt var að Jóhann Páll hefði búið til ýmsar síður á Facebook til að koma höggi á Sjálfstæðisflokkinn. Þegar ég las fréttina minntist ég þess að hafa orðið fyrir áreiti af því tagi sem þar er lýst. Jóhann Páll harðneitaði þessum ásökunum. Tald hann vegið „gróflega“ að „starfsheiðri“ sínum. Jóhann Páll sagði:

„Ég fyrirlít Sjálfstæðisflokkinn en ég hef samt snefil af sómakennd og ég myndi ekki grípa til hvaða skítabragða sem er.“

Jóhann Páll sendi síðar mbl.is eftirfarandi athugasemd:

 „Ég hljóp á mig þegar ég sagðist fyrirlíta Sjálfstæðisflokkinn og má til með að biðjast afsökunar á þeim ummælum. Ég fyrirlít ekki flokkinn og hvað þá alla sem starfa innan hans þótt ég sé ósammála ýmsu af því sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir.“

Jón Bjarki og Jóhann Páll hafa nú hlotið verðlaun Blaðamannafélags Íslands fyrir rannsóknarblaðamennsku. Þeir taka því almennt ekki vel þegar Google er spurður um þá.  Google er öruggari heimildarmaður en Reynir Traustason.

 

 

 

Föstudagur 14. 02. 14 - 14.2.2014 23:55

Ók norður að Þingeyrum í A-Húnavatnssýslu í björtu og fögru veðri. Um kvöldið voru fjöll og ísilögð vötn böðuð tunglsljósi.

Einkennilegt er að sjá vinstrisinnaða álitsgjafa lýsa áhyggjum af breytingum á lögum um Seðlabanka Íslands í því skyni að fá nýja yfirstjórn hans. Fordæmið sem Jóhanna og Steingrímur J. gáfu í því efni verður aldrei toppað. Varla hefur núverandi stjórn erlendan mann í felum til að taka við af Má Guðmundssyni?

Steingrímur J. þakkar sér að hafa fundið Norðmanninn í seðlabankastjórastólinn með aðstoð Kristinar Halvorsen, þáv. fjármálaráðherra Noregs, sem kom hingað til lands senmma árs 2009 og fagnaði 10 ára afmæli systurflokksins, VG. Þá var látið eins og VG og SV í Noregi ættu alla framtíðina fyrir sér. Annað hefur komið á daginn. Það á einnig við um systurflokkinn í Danmörku, SF, hann er sem flakandi sár eftir að hafa átt aðild að ríkisstjórn í nokkra mánuði.

Í dag rann út fresturinn sem lögfræðingur Reynis Traustasonar gaf mér. Nú er að bíða næstu skrefa.

Fimmtudagur 13. 02. 14 - 13.2.2014 21:50

Í dag sótti ég málstofu í Háskóla Íslands á vegum Miðaldastofu þar sem Jesse Byock, prófessor frá UCLA, flutti erindi um hinar víðtæku fornleifarannsóknir sem hann hefur stjórnað að Hrísbrú í Mosfellsdal en þeir teygja sig nú niður að fornu skipalægi í Leirvogi og að samfélagi víkinga hér á landi og stöðu Íslands í heildarmynd víkingatímans um og eftir landnám. Þetta eru spennandi rannsóknir sem hafa staðið í mörg ár og þar er ekki síður stuðst við ritaðar heimildir en það sem jörðin geymir. Stofan í Árnagarði var þéttsetin og er það enn til marks um mikinn áhuga á miðaldafræðum og rannsóknum.

Lögfræðingur Reynis Traustasonar sendi mér kröfubréf í dag þar sem ég er sakaður um að hafa brotið235. gr. alm. hgl. Ég hafi með öðrum orðum haft í frammi aðdróttun „virðingu“  DV „til hnekkis“. Lesendur blaðsins vita að til þess þarf einbeittan brotavilja og er hann ekki fyrir hendi hjá mér. Er leitt til þess að vita ef saklaus skrif mín hafa dregið úr trúverðugleika DV að mati Reynis Traustasonar sem má ekki vamm sitt vita eins og alþjóð þekkir.

Ég dró aðeins ályktun af skrifum blaðsins og samhljómi þeirra við málstað og málflutning samtakanna No Borders enda flutti blaðið hvað eftir annað fréttir um mótmælafund á vegum No Borders og nokkurra annarra samtaka við innanríkisráðuneytið sem haldinn var í hádegi miðvikudags 12. febrúar. Að sögn ríkisútvarpsins sóttu um 30 manns fundinn. Þeir eru því ekki margir sem standa að No Borders þrátt fyrir mikla kynningu á fundinum í DV.

Lögfræðingurinn veitti mér frest til að bregðast við bréfinu. Þar sem hann er svo skammur að ég fæ ekki ábyrgðarbréfið sjálft í hendur áður en hann líður er mér gert ómögulegt að svara innan frestsins og beiðni minni um að framlengja hann hefur verið hafnað

Miðvikudagur 12. 02. 14 - 12.2.2014 22:02

Í dag ræddi ég við Björn Bjarka Þorsteinsson, formann byggðaráðs Borgarbyggðar, í þætti mínum á ÍNN. Við ræddum um málefni sveitarfélagsins og menntastofnana innan marka þess. Þátturinn er næst á dagskrá klukkan 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun.

Í dag efndu nokkur samtök til mótmæla gegn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra við ráðuneyti hennar. Á ruv.is sagði að þarna hefðu verið 30 manns. Mesta kynningin á mótmælunum var á dv.is og dró ég þá ályktun að þar héldi á málum einn af forystumönnum samtakanna No Borders eins og ég sagði hér í gær. Ég fékk strax í gærkvöldi tölvubréf um að þessu yrði illa tekið á DV og reyndist sú spá rétt.

Reynir Traustason ritstjóri sendi mér tölvubréf snemma í morgun og sagði:

„Sæll Björn. 

Vegna yfirlýsinga þinna um að blaðamaður DV sé forsvarsmaður í No Borders-samtökunum fer ég fram á að þú upplýsir við hvern þú átt. Eftirfarandi er skrifað á heimasíðu þína: Einn af forystumönnum No Borders er blaðamaður á DV og hefur þar aðstöðu til að halda lífi í starfsemi samtakanna með baráttu undir merkjum þeirra.“

Þarna er á ferðinni gróf ásökun á hendur DV um að blaðamenn starfi ekki af heilindum og hafi þar með gildi góðrar blaðamennsku að leiðarljósi.

Svar þitt mun ráða frekari framvindu þessa máls.“

Ég svaraði:

„Sæll Reynir,

viðbrögðin koma mér ekki á óvart þar sem menn vilja starfa nafnlaust innan samtakanna. Ég tel ekki um neina ásökun að ræða, þetta eru samtök sem berjast fyrir opnum tjöldum eins og fram kemur á dv.is þar sem boðaður er fundur í nafni þeirra og vísað á vefsíðu. Bréf þitt staðfestir aðeins hve málið er viðkvæmt fyrir DV. Ef enginn á blaðinu vill kannast við að starfa innan No Borders nær það ekki lengra. Ég vék hvergi að heilindum eða góðri blaðamennsku heldur að starfsemi No Borders og dró þá ályktun að forystumaður í samtökunum segði frá starfsemi þeirra á DV, sé málstað samtakanna haldið fram í blaðinu án þess að blaðamaður sé í forystu var ályktun mín um það efni röng. Miðað við þær fréttir sem DV hefur birt finnst mér langsótt að saka mig um "grófa ásökun" með því að draga af þeim ályktun. Viltu takmarka skoðana- og málfrelsi mitt? Vinsamlega fullvissaðu mig um að engin tengsl séu á milli No Borders og DV. Svar þitt mun ráða frekari skrifum mínum um málið.“

Lesa meira

Þriðjudagur 11. 02. 14 - 11.2.2014 22:10

Ragnar Stefánsson jarðskjálftafræðingur sendi frá sér bók undir lok síðasta árs, endurminningar og lýsingar á stjórnmálastarfi sínu og skoðunum. Frá því að Ragnar kom frá námi í Svíþjóð 1966 þar sem hann heillaðist af baráttuhópum gegn Víetnamstríðinu hefur hann samhliða starfi sínu sem jarðskjálftafræðingur helgað sig því sem hann kallar grasrótarstarf. Undir orðið „grasrótarstarf“ í sögu Ragnars fellur allt frá því að starfa í Fylkingunni með kenningar Trotskís um hið eilífa byltingarstarf að leiðarljósi til þess að starfa í samtökunum Landsbyggðin lifir. Ragnar barðist meðal annars fyrir friði með því efna til aðgerða sem kölluðu á viðbrögð lögreglunnar hann var dæmdur fyrir aðild að tilraun til að kveikja í bandarískum herbragga í Hvalfirði.

Nú starfar enginn lengur undir merkjum Trotskís. Þeir sem telja sig starfa í grasrótinni velja sér annan vettvang og má þar til dæmis nefna samtökin No Borders. Á vefsíðu þessara samtaka hér á landi segir að hugsjón þeirra sé „að afnema landamæri og landamæraeftirlit“ sem þau „álíta í eðli sínu ofbeldisfull fyrirbæri sem stuðla að mannréttindabrotum, arðráni og stríðsrekstri alls staðar í heiminum“.

Félagar í No Borders vinna þó einkum að málefnum flóttamanna og óskráðra farandverkamanna, enda eru þeir þá „augljósustu og varnarlausustu fórnarlömb landamæraeftirlits“. Allar aðferðir eru nothæfar í starfi No Bordes ef „þær eyðileggja ekki fyrir málstaðnum“, No Borders er oft í samstarfi við aðra hópa, svo sem anarkista eða hústökufólk. Þeir sem þarna eru kallaðir „óskráðir farandverkamenn“ eru almennt nefndir „ólöglegir innflytjendur“ sem velja oft þann kost að gerast hælisleitendur.

Þegar litið er á baráttuaðferðir félaga í No Borders berjast þeir ekki síður gegn yfirvöldunum en landamærum. Þeir standa núna í fremstu röð í baráttunni gegn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra um þessar mundir. Hið sérkennilega við „lekamálið“ svonefnda er að tekist hefur að beina athygli frá „fórnarlambi landamæraeftirlitsins“ að innanríkisráðuneytinu og ráðherra þess. Tilgangurinn er grafa undan trúverðugleika þeirra sem lögum samkvæmt ber að fjalla um þá sem sækja hér um hæli en í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur fjölgaði þeim mikið. Einn af forystumönnum No Borders er blaðamaður á DV og hefur þar aðstöðu til að halda lífi í starfsemi samtakanna með baráttu undir merkjum þeirra.

Mánudagur 10. 02. 14 - 10.2.2014 19:40

Erlendur fræðimaður sem vinnur að rannsóknum á málefnum norðurslóða sendi mér bréf og bar undir mig hvort unnt væri að treysta grein á vefsíðunnu Worldwatch Institute Europe um það sem væri að gerast í íslenskum stjórnmálum. Ég renndi yfir greinina en hana má lesa hér og ráðlagði bréfritara að láta hjá líða að vitna í greinina ef hann vildi gæta virðingar sinnar.


Nú veit ég að sjálfsögðu ekki hvað hinn ágæti erlendi fræðimaður gerir. Ég kynnti mér á netinu hver er höfundur þessarar greinar og má lesa það hér. 

Miðað við fyrirspurnina sem ég fékk er full ástæða fyrir talsmann ríkisstjórnarinnar eða viðkomandi ráðuneyta að koma á framfæri hinu rétta um málin sem þarna eru til umræðu. Það er  ekkert við því að segja að ritað sé um íslensk málefni frá eigin brjósti og það sem skrifað er sé birt á vefsíðum sem almennt vilja láta taka sig alvarlega.

Íslenska ríkið hefur hins vegar á launum fjölda manns sem eiga að huga að orðspori lands og þjóðar á alþjóðavettvangi. Einhver úr þeim hópi ætti að taka sér fyrir hendur að koma á framfæri leiðréttingu við ábyrgðarmann vefsíðu Worldwatch Institute Europe. Hefði hinn virti fræðimaður sem hafði samband við mig gengið í vatnið sæti hann uppi með marklitla ritsmíð og sárt enni vegna lélegrar heimildarvinnu.

Í bréfinu sem ég fékk tók bréfritari fram að hann hefði ávallt varann á þegar hann sæi greinar á vefsíðum sem tengdust umhverfisverndarsinnum. Hann hefði oftar en einu sinni rekið sig á að best væri að leita af sér allan grun um spuna eða áróður áður en til slíkra greina væri vitnað. Að stofnunum eins og Worldwatch Institute Europe sé ekki kappsmál að fá ekki óorð á sig vegna haldlítilla greina er einkennilegt.

Sunnudagur 09. 02. 14 - 9.2.2014 23:10

Blaðinu Reykjavík vikublaði er dreift endurgjaldslaust í hús í höfuðborginn. Blaðinu er haldið úti af Ámunda Ámundasyni fyrir fé frá auglýsendum, Ingimar Karl Helgason er ritstjóri og Atli Þór Fanndal er rannsóknarblaðamaður.

Síðastliðið sumar voru sagðar fréttir af því að með haustinu liti rafrænt blað, Skástrik, dagsins ljós. Hvatamenn þess væru Atli Þór Fanndal og Aðalsteinn Kjartansson sem báðir hefðu verið blaðamenn á DV. Þeir ættu 30% hlut hvor í útgáfufélagi blaðsins og deildi Atli Þór hlut sínum með unnustu sinni, Ingibjörgu Ósk Ólafsdóttur. Lilja Skaftadóttir í eigendahópi DV og áður Smugunnar ætti 30% og hlutur útgáfufélagsins væri 10%.

Sé farið inn á netið sést að Skástrik birtist síðast skömmu eftir að Jón Gnarr sagðist ekki ætla að bjóða sig fram að nýju.

Atli Þór Fanndal hefur þó ekki lagt árar bát. Hann réttir nú fyrrverandi samstarfsmönnum á DV hjálparhönd og skipar sér í röð þeirra sem ganga hart fram í „lekamálinu“ svonefnda. Í nýjasta tölublaði Reykjavíkur vikublaðs fer hann fjörutíu ár aftur í tímann til Watergate-málsins í Washington til að rannsaka eðli „lekamálsins“ – sýnir það best í hvaða ógöngur þeir eru komnir sem reyna allt sem þeir geta til að halda lífi í umræðum um málið sem snýst um brottvísun á ólöglegum innflytjanda.

Atli Þór starfaði á sínum tíma með ungum jafnaðarmönnum og lét verulega að sér kveða á þeim vettvangi. Þeir Ingimar Karl Helgason og Atli Þór sameina krafta VG og Samfylkingar í Reykjavík vikublaði. Þeir hafa báðir reynt fyrir sér í rafrænni blaðamennsku án þess að ná þeim árangri sem að var stefnt. Ingimar Karl var á Smugunni sem lagði upp laupana og Atli Þór á Skástriki sem einnig er hætt að birtast – í báðum tilvikum lagði Lilja Skaftadóttir fram fé eins og hún hefur einnig gert til að halda úti DV,

Laugardagur 08. 02. 14 - 8.2.2014 19:00

Á ruv.is má lesa í dag:

„Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra skartaði regnbogatrefli, tákni samkynhneigðra, á setningarhátíð Vetrarólympíuleikana í Sotsí.

Trefillinn er gjöf frá Samtökunum ´78 og Hinsegin dögum í Reykjavík sem fulltrúar þeirra afhentu menntamálaráðherra á þriðjudag með þeim óskum að hann myndi halda réttindum hinsegin fólks á lofti í Sotsí enda væri staða samkynhneigðra í Rússlandi afar veik. Illugi sagði fulltrúunum að hann væri fyrst og fremst að fara til Rússlands af því hann hefði þegið boð á Ólympíuleika og hann vissi ekki hvort hann myndi hitta rússneska ráðamenn.

Illugi setti mynd af sér með regnbogatrefilinn á setningarathöfninni á Facobook-síðu sína í dag. Fulltrúar Samtakanna ´78 og Hinsegin daga báðu hann að taka með regnbogatrefil og fleira til að færa forseta Íslands á leikunum og sagðist menntamálaráðherra myndu verða við því.“

Hér hefur verið bent á að mannréttindaþátturinn í tengslum við ferðir stjórnmálamanna til Sotsjí snúist meira um heimamarkað en að hafa áhrif á gestgjafa leikanna. Þetta er eðlilegt. Erlendis eru ekki nein atkvæði. Þessi frétt er í þeim anda.

Illugi hlýtur að hafa afhent Ólafi Ragnari regnbogatrefilinn.  Einhvers staðar birtist að vísu mynd frá Sotsjí af Ólafi Ragnari með regnboga-fingravettlinga.

Séu þetta djörfustu mótmælaaðgerðirnar í Sotsjí getur Vladimir Pútín og 100.000 manna öryggisliðið andað léttar.

 

Föstudagur 07. 02. 14 - 7.2.2014 23:55

Þórður Þórarinsson stjórnmálafræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins og tekur til starfa 15. mars næstkomandi. Frá þessu var skýrt í dag, föstudaginn 7. febrúar, en þriðjudaginn 4. febrúar var greint frá afsögn Jónmundar Guðmarsson úr stöðu framkvæmdastjóra en hann ætlar að taka til við fjármálaráðgjöf.

Þórður hefur undanfarin níu ár verið framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins sem er samstarfsvettvangur Alþingis, Landsþings Grænlands og Lögþings Færeyja.  Þar áður starfaði hann fyrir upplýsingadeild Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar. Þórður er því þaulvanur samstarfi við stjórnmálamenn.

Sú reynsla er dýrmæt fyrir framkvæmdastjóra stjórnmálaflokks, mikilvægastur er þó hæfileikinn til að virkja sem flesta til að styðja flokkinn. Þar á Þórður einkum verk að vinna í Reykjavík þar sem fylgi Sjálfstæðisflokksins helst í sögulegu lágmarki og dregur fylgi hans niður á landsvísu. Það er sérstakt rannsóknar- og úrlausnarefni að ná nýjum tökum á málefnum Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og styrkja stöðu hans þar.

Óska ég Þórði góðs gengis. Hann kemur til starfa þegar aðeins rúmir tveir mánuðir eru til sveitarstjórnakosninga og verður því að láta hendur standa fram úr ermum.

 

Fimmtudagur 06. 01. 14 - 6.2.2014 21:15

Í gærkvöldi sýndi ríkissjónvarpið þátt frá BBC um aðdraganda vetrarólympíuleikanna í Sotsjí og hvernig leikarnir tengjast persónudýrkun á Vladimír Pútín Rússlandsforseta. Í BBC í dag birtist meðal annars viðtal við Lilju Shevtsovu við Carnegie miðstöðina í Moskvu. Hún sagði:

„Rússnesku Olympíuleikarnir eru nú þegar hneyksli. Þeir eru tákn spillingar, slóðaskapar, óraunsæis, öfgafulls hégómleika og mikilmennskubrjálæðis. Þeir eru sóun á fé í landi sem getur ekki búið venjulegu fólki viðunandi lífskjör. Þeir minna mig á Mússólíni og Ceausescu. Þeir reistu einnig glæsimannvirki sem eru nú minnisvarðar um fáránleika.“

Það er sérkennilegt ef látið er eins og þátttaka annarra en íþróttamanna í þessu ógeðfellda sjónarspili sé ekki liður í að ýta undir hinn öfgafulla hégómleika Pútíns og mikilmennskubrjálæðið.

Enn minnast menn þess með óbragð í munni hvernig Ceausescu, einræðisherra í Rúmeníu, tókst að smeygja sér inn á æðstu staði í vestrænum ríkjum, meðal annars á Bessastaði, af því að hann lét eins og hann væri annars konar (og betri!) kommúnisti og einræðisherra en þeir sem sátu í Kreml.

Eftir að Ceausescu-hjónin voru skotin í beinni útsendingu um jólin kom í ljós hve svívirðilega þau höfðu níðst á þjóð sinni. Höllin risastóra sem þau reistu sér til dýrðar stendur enn í Búkarest sem tákn um tryllingslega sjálfsdýrkun þeirra.

Miðvikudagur 05. 02. 14 - 5.2.2014 22:30

Á sínum tíma sótti ég Ólympíuleika í Atlanta og Sydney og sagði frá ferðunum þangað hér á síðunni. Ferðirnar eru ógleymanlegar en þær höfðu ekki pólitískan tilgang. Enginn efast um pólitískt eðli ferða þjóðhöfðingja og stjórnmálamanna á vetrarleikana í Sotsjí í Rússlandi sem settir verða föstudaginn 7. febrúar.

Í Rússlandi er litið á komu fyrirmenna sem virðingarvott við Vladimír Pútín forseta. Hann hefur lagt sig fram um að tengja leikana nafni sínu og hagar sér eins og yfirstjórnandi þeirra.

Lýðræðislegir stjórnmálamenn halda til Sotsjí og láta eins og för þeirra til Rússlands nýtist til að þoka stjórnmálum eða stjórnarháttum í Rússlandi til betri vegar. Það er ímyndun. Ræður um þetta eru ekki til annars en heimabrúks.

Þriðjudagur 04. 02. 14 - 4.2.2014 22:24

Viðtal mitt á ÍNN við Margréti Friðriksdóttur, skólameistara og frambjóðanda í fyrsta sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna í Kópavogi, er nú komið á netið eins og sjá má hér. Sjálfstæðismenn í Kópavogi ganga til prófskjörsins laugardaginn 8. febrúar. Fréttir úr Kópavogi benda til að harka hafi hlaupið í leikinn einkum hefur framganga Braga Michaelssonar, formanns kjörstjórnar, vakið athygli og í sjálfu sér er ekki undarlegt að sumum frambjóðendum hafi brugðið vegna ummæla sem hann lét falla um þá.

Í Kópavogi er tekist á um fyrsta sætið hjá sjálfstæðismönnum – kjósendur hafa lýðræðislegt val. Hið sama verður ekki sagt um flokksvalið sem fram fer hjá Samfylkingunni í Reykjavík í lok vikunnar. Þar er Dagur B. Eggertsson í framboði í fyrsta sæti án sérstaks andstæðings og hið sama má segja um Björk Vilhelmsdóttur borgarfulltrúa sem gefur kost á sér í 2. sæti.

Þegar staðið er að prófkjöri án þess að aðrir en þeir sem fyrir sitja fái keppni um embætti bendir það annaðhvort til þess að viðkomandi séu óumdeildir í eigin röðum eða beitt hafi verið þrýstingi í bakvið tjöldin til að tryggja þeim frið á toppnum.  Hvorki Dagur B. né Björk eru óumdeild innan Samfylkingarinnar, það er því baktjaldamakk sem ræður að enginn býður sig fram gegn þeim.

 

Mánudagur 03. 02. 14 - 3.2.2014 22:40

 

Í dag, sama dag og dr. Svanur Kristjánsson prófessor segir á Eyjunni að hann vilji sæma Brynjar Níelsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, fálkaorðunni fyrir að lýsa áhrifaleysi sínu sem alþingismanns vegna EES-samningsins tilkynnir norska utanríkisráðuneytið að það hafi stofnað samstarfsnefnd með aðilum vinnumarkaðarins og samstarfsskrifstofu landshluta til að tryggja tímabæra viðvörun vegna ESB/EES-mála sem kunna að snerta norska hagsmuni. Markmiðið er að þeir sem málið snertir geti komið sem allra fyrst að ákvarðanaferlinu á vettvangi ESB.

Í Noregi hefur Vidar Helgesen, ráðherra EES-mála, hvatt til þess að Norðmenn auki varðstöðuna um eigin hagsmuni innan EES-samstarfsins. Hann talar um „pro-aktiva“ opna Evrópustefnu ríkisstjórnarinnar. Hér hefur undanfarin fimm ár verið fylgt gagnstæðri stefnu þar sem stjórnvöld hafa látið allt frumkvæði í hendur ESB. Ríkisstjórn Íslands fékk tillögur um „pro-aktiva“ stefnu í mars 2007 en þeim var því miður aldrei hrundið í framkvæmd.

Ákvörðun norsku ríkisstjórnarinnar staðfestir enn það sem öllum hefur verið ljóst sem leggja sig fram um að kynna sér EES-samstarfið: EFTA-ríkin í EES eru ekki áhrifalaus um efni laga og reglna. Þau verða að sýna árvekni og beita sér á réttum tíma. Ríkisstjórn Íslands hefur því miður aldrei hrundið í framkvæmd markvissri stefnu um þetta og eftir bankaáfallið hefur hlutur íslenskra ráðuneyta við hagsmunagæslu í Brussel minnkað samhliða því sem utanríkisráðuneytið einbeitti sér að ESB-aðildarviðræðunum.

 

 


Sunnudagur  02. 02. 14 - 2.2.2014 18:10

Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins er sagt frá því að í allri Evrópu sé tölvu- og netnotkun mest á Íslandi: 95% íbúa landsins teljast til reglulegra netnotenda, en meðaltalið í löndum Evrópusambandsins er 72% segir í nýrri skýrslu Hagstofu Íslands um netnotkun. Í blaðinu segir einnig að árið 1995 hafi um 5.000 Íslendingar haft aðgang að netinu og þá hafi aðeins 3.000 þeirra verið virkir. Fram kemur að um þetta leyti hafi stöku greinar birst „um þessa nýju tilveru“ í dagblöðum og tímaritum.

Blaðamaður Morgunblaðsins hefði í þessu sambandi getað vitnað í grein í Morgunblaðinu frá 12. maí 1995 þar sem Guðrún Helgadóttir, rithöfundar og alþingismaður, harmar að ég hafi kynnt til sögunnar netfang mitt bjorn@centrum.is og boðið fólki að hafa við mig milliliðalaus samskipti með aðstoð tölvu og mótalds. Grein Guðrúnar er klassískt dæmi um ótta við tækniframfarir. Greinina má nálgast hér: http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=127391&pageId=1829640&lang=is&q=Gu%F0r%FAn%20Helgad%F3ttir

Svar mitt við grein Guðrúnar er unnt að nálgast hér á vefsíðu minni. Vefsíðan er einmitt 19 ára um þessar mundir. Geti ekki einhver bent á annað leyfi ég mér að fullyrða að síðan www.bjorn.is sé eina vefsíðan hér á landi og þótt víðar sé leitað sem haldið hefur verið úti samfellt allar götur frá þessum fyrstu dögum upplýsingatækninnar. Síðan bjorn.is er til dæmis þremur árum eldri en mbl.is mest sótta síða landsins sem kom ekki til sögunnar fyrr en um þetta leyti árið 1998.

Vefsíðan www.bjorn.is var valin besti einstaklingsvefurinn 29. október 2003 af íslensku vefakademíunni á grundvelli 10.000 tilnefninga. Á síðunni  er að finna greinar og ræður auk pistla. Póstlisti með mörg hundruð nöfnum hefur orðið til í kringum síðuna. Umsjón með síðunni var í höndum Miðheima og síðan Íslensku vefstofunnar, en í nóvember 2002 hóf ég samstarf við Hugsmiðjuna þar sem síðan er enn hýst og nota ég kerfið Eplica. 

 


 

Laugardagur 01. 02. 14 - 1.2.2014 21:20

Í dag eru 10 ár frá því að 100 ára afmælis Stjórnarráðs Íslands var minnst. Þá var haldinn sögulegur ríkisráðsfundur sem má lesa um hér. 

Þessi fundur dró dilk á eftir sér, sjá hér.   

Í bók minni Rosabaugi yfir Íslandi er farið nánar í saumana á þessum atburðum. Þeir höfðu áhrif á andstöðu Ólafs Ragnars Grímssonar við fjölmiðlalögin, fyrstu lögin sem hann synjaði fimm mánuðum síðar.

Hinn 1. febrúar 2009, myndaði Jóhanna Sigurðardóttir minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri-grænna. Má lesa um það hér

Jóhanna og ríkisstjórn hennar unnu mikið tjón á stjórnarráðinu með breytingum á stjórnarráðslögunum og stækkun ráðuneytanna.

Skrif DV um Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra bera glögg merki um pólitískar ofsóknir. Þau minna á hvernig  blaðið hundelti Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra fram að kosningunum í apríl 2013. Hann er formaður Sjálfstæðisflokksins en Hanna Birna varaformaður. Markmið skrifanna er að sverta forystumenn Sjálfstæðisflokksins. DV tókst ekki að knésetja Bjarna. Nú á að leika Hönnu Birnu eins grátt og kostur er. Það fjarar undan tilefni ásakana DV í garð innanríkisráðherra, óhróðurinn öðlast hins vegar eigið líf. Síðan kasta athugasemdasnillingar DV sprekum á eldinn til viðhalda honum.