7.2.2014 23:55

Föstudagur 07. 02. 14

Þórður Þórarinsson stjórnmálafræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins og tekur til starfa 15. mars næstkomandi. Frá þessu var skýrt í dag, föstudaginn 7. febrúar, en þriðjudaginn 4. febrúar var greint frá afsögn Jónmundar Guðmarsson úr stöðu framkvæmdastjóra en hann ætlar að taka til við fjármálaráðgjöf.

Þórður hefur undanfarin níu ár verið framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins sem er samstarfsvettvangur Alþingis, Landsþings Grænlands og Lögþings Færeyja.  Þar áður starfaði hann fyrir upplýsingadeild Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar. Þórður er því þaulvanur samstarfi við stjórnmálamenn.

Sú reynsla er dýrmæt fyrir framkvæmdastjóra stjórnmálaflokks, mikilvægastur er þó hæfileikinn til að virkja sem flesta til að styðja flokkinn. Þar á Þórður einkum verk að vinna í Reykjavík þar sem fylgi Sjálfstæðisflokksins helst í sögulegu lágmarki og dregur fylgi hans niður á landsvísu. Það er sérstakt rannsóknar- og úrlausnarefni að ná nýjum tökum á málefnum Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og styrkja stöðu hans þar.

Óska ég Þórði góðs gengis. Hann kemur til starfa þegar aðeins rúmir tveir mánuðir eru til sveitarstjórnakosninga og verður því að láta hendur standa fram úr ermum.