Dagbók: apríl 2012

Mánudagur 30. 04. 12 - 30.4.2012 23:40

Í Rangárþingi eystra hafa gámar verið fjarlægðir og öskutunnur settar við hús í sveitarfélaginu. Þetta var gert að fyrirmynd frá Bláskógarbyggð. Ástæðan er meðal annars sögð sú að fólk hafi ekki flokkað sorp nægilega vel fyrir gámana. Gámafyrirtækinu hafi verið um megn að sinna þjónustunni. Áform eru um að gámar verði sendir út um sveitir vor og haust. Hvert eða hvenær þeir verða sendir er óljóst. Verða þeir á gömlu gámastæðunum eða sendir heim á lögbýli?

Ekki er komin nægileg reynsla á þessa tilhögun til að leggja mat á hana. Í fljótu bragði má ætla að hún ýti undir hirðuleysi, hvetji til þess að rusl sé brennt eða urðað í heimagerðum holum. Í nágrenni mínu fylltust gámar af alls kyns drasli sem menn leggja ef til vill ekki á sig að aka með tugi kílómetra til að setja í gámamiðstöðina  á Hvolsvelli. Er líklegra að menn raði rétt í gáma þar en þegar þeir stóðu nær íbúunum um sveitina? Er skynsamlegra að láta marga aka í eina miðstöð en senda einn bíl reglulega eftir gámum á nokkrar dreifðar stöðvar? Er akstur margra með rusl rétta svarið við hærra eldsneytisverði eða í baráttunni gegn mengun andrúmsloftsins?

Mia Stanley, fréttaritari Reuters, birtir frásögn um Ísland 30. apríl. Hún hitti Þóru Arnórsdóttur forsetaframbjóðanda sem sagði að landsdómsmálið gegn Geir H. Haarde hefði frekar opnað sár en leitt til sátta í þjóðfélaginu. Fólk segði Þóru að það þyldi ekki lengur að horfa á fréttir. „Ég tel að við komumst í gegnum þetta án þess að draga fram rýtingana,“ segir Þóra við Reuters. „Ég vona að ég geti beitt áhrifum forsetaembættisins til að loka þessum skotgröfum.“

Þá segist Mia Stanley hafa hitt Egil Helgason „one of Iceland's best-known television commentators“. Hann segir: „Bjuggu Íslendingar við „identity crisis“ [skerta sjálfsmynd]? Já. Þeir héldu að þeir væru fjármálasnillingar en það var allt blekking ... Nú snúa þeir sér aftur að bókum, tónlist og jú fiski.“

 

 

 

Sunnudagur 29. 04. 12 - 29.4.2012 22:00

Kvartett Kammersveitar Reykjavíkur flutti í dag tvo kvartetta á hádegistónleikum í Kaldalóni, sal í Hörpu, eftir Leif Þórarinsson og El Greco eftir Jón Leifs. Þetta eru aðrir hádegistónleikar kvartettsins með verki eftir Jón Leifs, hinir þriðju verða 3. júní. Kvartettinn vinnur nú að upptöku á þremur kvartettum Jóns Leifs og eru tónleikarnir liður í þeim undirbúningi. Þá er einnig gerð tilraun með hádegistónleika á sunnudegi, en þeir eru vinsælir víða um lönd.

Nýlega hafa birst niðurstöður víðtækrar rannsóknar á hollustu tedrykkju. Þær eru traustvekjandi fyrir okkur te-fólk. Stundum fyllist tedrykkju-maður tilfinningu minnihlutahóps; kaffið hefur algjöra yfirburði þegar litið er til neyslu og þess sem fram er borið á mannamótum. Hér hefur orðið mikil þróun í framboði á kaffi, ég veit ekki hvað allt þetta kaffi heitir og því síður þekki ég bragðið því að áratugir eru liðnir frá því að ég hætti að setja kaffi inn fyrir mínar varir.

Hjá Te og kaffi má kaupa alls kyns te-tegundir í lausu máli og í verslunum er mikið úrval af tei í pokum. Vandfundin eru kaffihús hér í Reykjavík þar sem menn leggja sig fram um að koma til móts við óskir te-drykkjumanna. Tepoki í kaffibolla með hálfvolgu vatni er í boði á stöðum þar sem unnt er að kaupa alls kyns tegundir af kaffi. Sé spurt um hvort unnt sé að fá vatnið í tekönnu og kannski setja pokann út í hana nýtur það sjaldan mikils skilnings. Vissulega eru til undantekningar. Í veitingahúsinu Lækjarbrekku fæ ég tekönnu og stóran tebolla en ekki til dæmis í Amokka, þar er að vísu te í lausu en veitingamaður áttar sig ekki á því hve miklu skiptir að bollinn sé stór þegar vatn sett á tesíuna.

Rannsóknirnar sem ég nefndi sýna að svart te er um 75% af því tei sem neytt er í heiminum. Koffínmagn í tei er mest í hinu svarta, um 40 milligrömm í bolla (í kaffibolla eru 50 til 100 milligrömm af koffíni).

Næringarfræðingurinn Rebecca Baer í New York segir að svörtu tei sé mest af theaflavin og thearubigins sem dragi úr kólestróli. Rannsóknir sýna að þeir sem rekka þrjá eða fleiri bolla af tei á dag minnki líkur á hjartaáfalli um 21%. Hver bolli virðist minnka líkurnar um 7%.

 

 

Laugardagur 28. 04. 12 - 28.4.2012 23:00

Stjórnarliðum er mikið í mun að halda í goðsögnina um 1.000 milljarða evru „snjóhengjuna“ sem hvíli yfir okkur Íslendingum. Vinstri grænum dugar hún til að viðhalda gjaldeyrishöftunum sem þeir misnota til að hafa puttana í innri málum fyrirtækja og sýna vald sitt. Samfylkingin lítur á „hengjuna“ sem tæki í baráttu sinni fyrir aðild að ESB, ekki verði unnt að losna við hana nema með evru og hún fáist ekki án aðildar að ESB.

Þess verður nú vart að ýmsir sem hafa barist fyrir ESB-aðild í þágu evrunnar hafa skipt um skoðun og leggja nú einhliða upptöku annars gjaldmiðils lið. Fyrir þá sem telja óhjákvæmilegt að skipta um mynt er evran óskynsamlegasti kosturinn. Mesta óvissan er í kringum hana af öllum kostunum. Hér skulu nefnd fjögur vafaatriði:

Í fyrsta lagi er ólíklegt að Íslendingar samþykki nokkru sinni að ganga í ESB. Í öðru lagi er óvíst hvað taki langan tíma að semja um ESB-aðild. Í þriðja lagi er óljóst hvað taki langan tíma, ef til aðildar kæmi, að fullnægja skilyrðum um upptöku evru. Í fjórða lagi er ógjörningur að segja um hver þessi skilyrði verða þegar fram líða stundir.

Auðveldara er að rökstyðja nauðsyn þess að hætta ESB-viðræðunum vilji menn nýja mynt en að halda þeim áfram til að nálgast það markmið. Hér á landi er nú Manuel Hinds, fyrrverandi fjármálaráðherra El Salvador, sem kynnir leiðir til að taka upp nýjan gjaldmiðil. Hann lætur hræðsluáróður um „snjóhengjuna“ sem vind um eyru þjóta. Hún sé frekar hugarburður en raunveruleiki.

Á meðan stjórnarflokkarnir eru fastir í fari eigin pólitíkur og hræðsluáróðurs dregst enn að tekist sé á við raunveruleg vandamál við stjórn peningamála.

Föstudagur 27. 04. 12 - 27.4.2012 22:41

Í dag var þáttur minn með Friðriki Sophussyni um landsdómsmálið á ÍNN settur inn á netið og það má sjá hann hér.

Hans Haraldsson segir á vefsíðu sinni í dag frá túlkun fréttastofu RÚV á tveimur skoðanakönnunum.

Annars vegar könnun Rúnars Vilhjálmssonar félagsfræðiprófessors þar sem tæp 19% svarenda gáfu ekki upp afstöðu en 54% sögðust andvíg aðild að ESB. Þetta hefði RÚV kynnt undir fyrirsögninni „54% andvíg ESB-aðild“.

Hins vegar könnun MMR þar sem rúm 40% gáfu ekki upp afstöðu til tillagna stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Þar var fyrirsögn RÚV: „Meirihluti vill byggja á tillögum stjórnlagaráðs“. Hans segir að RÚV hafi ekki nefnt að aðeins tæp 60% svarenda hefðu tekið afstöðu. Þá segir Hans:

„Það er hægt að hafa ágætis skemmtun af því að ímynda sér einhvern allt annan veruleika þar sem „fréttastofa“ RÚV tekur hlutleysisskyldu sína alvarlega og gætir samræmis í kynningu á tölfræðilegum upplýsingum. Þá gæti maður séð fyrir sér fyrirsögn á borð við „Minnihluti vill byggja á tillögum stjórnlagaráðs“ eða fréttatexta á borð við „Um tveir þriðju þeirra sem afstöðu taka eru mótfallin því að Ísland gangi í Evrópusambandið...“

Þegar þessi skýring Hans Haraldssonar á fréttum RÚV er lesin verður manni hugsað til þess hvort ekki gildi neinar grunnreglur fyrir fréttamenn stofnunarinnar um hvernig eigi að segja fréttir af sambærilegum atvikum, hvort þar eigi skoðun fréttamanns, vaktstjóra eða fréttastjóra að ráða eða hlutlægt sjónarmið

Fimmtudagur 26. 04. 12 - 26.4.2012 22:40

Varðberg hélt fund í hádeginu í dag þar sem Guðmundur Kr. Tómasson í Seðlabanka Íslands og Haukur Oddsson hjá Borgun fluttu erindi um öryggi í rafrænum viðskiptum. Varðberg hefur beitt sér fyrir fundum um öryggi hins almenna borgara sannaðist rækilega á þessum fundi hve við eigum hvert og eitt mikið undir því að ekki hlaupi snurða á rafræn viðskipti og ekki sé unnt að brjótast inn á kort okkar eða reikninga. Frásögn af fundinum má lesa á Evrópuvaktinni.

Í kvöld var messa í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði þar sem fagnað var að til klaustursins hefur borist helgur dómur frá Róm, klæðisbútur með blóði Jóhannesar Páls II. páfa. Með honum má segja að páfinn sé kominn til landsins í annað sinn en hér var hann í opinberri heimsókn í júní 1989. Hinn 1. maí 2011 var Jóhannes Páll II. páfi tekinn í tölu blessaðra og nafni hans og bænum til hans tengjast kraftaverk.

Margt einkennilegt er sagt í tilefni af landsdóminum af þeim sem reyna að afflytja hann í því skyni að gera hlut Geirs H. Haarde verri en dómararnir gerðu. Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur gert þetta hvað eftir annað í fjölmiðlum með yfirlýsingum um að 2. liður ákærunnar hafi verið mikilvægasti liður hennar. Af því tilefni sagði Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í þingræðu miðvikudaginn 25. apríl:

„Að gefnu tilefni tel ég rétt vegna sögulegs samhengis að vekja hér athygli á því að ég get ekki séð að þær fullyrðingar sem komið hafa fram í fjölmiðlum um að 2. liður ákærunnar hafi verið alvarlegasti ákæruliðurinn eigi við rök að styðjast. Ég sat í þingmannanefndinni og kannast ekki við að svo hafi verið.

Þeir sem hafa áhuga á að fá nánari rökstuðning fyrir þessari afstöðu minni geta farið yfir þingræður þeirra þingmanna sem tjáðu sig um þetta mál á sínum tíma og jafnframt þá afstöðu þessara þingmanna sem hafa tjáð sig um þetta. Ég vakti athygli á þessu í minni ræðu, fjallaði sérstaklega um þennan ákærulið þar sem ég leyfði mér að fullyrða að honum hefði verið kastað inn í púkkið til að fylla upp í ákæruskjalið. Ég tel að allir þeir sem vilja sjá það sjái á niðurstöðu landsdómsins, því að Geir H. Haarde var ekki gerð sérstök refsing fyrir þennan ákærulið, sjái að þessi orð eiga ekki við rök að styðjast.“

Ragnheiður Ríkharðsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins sat einnig í þingmannanefndinni sem undirbjó ákæruna. Hún sagði á alþingi fimmtudaginn 26. apríl að í nefndinni hefði aldrei verið „rætt hvaða ákæruatriði væri veigameira en önnur, aldrei“.

Óvandaður málflutningur Eyglóar Harðardóttur er ekki bundinn við þetta eina mál en framkoma hennar í landsdómsmálinu sýnir að hún ræður ekki við heift sína og fer því út af spori sannleikans.

Miðvikudagur 25. 04. 12 - 25.4.2012 19:55

 

Í kvöld ræði ég við Friðrik Sophusson, fyrrverandi fjármálmálaráðherra, í þætti mínum á ÍNN um landsdóminn yfir Geir H. Haarde sem var sýknaður af efnisþáttum málsins en dæmdur fyrir að ekki skyldi bókað á ríkisstjórnarfundi að hann hefði vakið máls á vandræðum bankakerfisins. Þáttinn má sjá klukkan 20.00 og á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun.

Ég skora á menn að hlusta annars vegar á samtal okkar Friðriks sem reist er á margra ára starfsreynslu okkar sem ráðherra og hins vegar á útlistanir Guðmundar Hálfdanarsonar sagnfræðiprófessors sem Gunnar Gunnarsson ræddi við í Spegli RÚV klukkan 18.15 í dag.

Túlkun Guðmundar á landsdóminum og harðorð ummæli hans um stjórnsýsluna eiga ekki við nein málefnaleg rök að styðjast. Þegar dómurinn er lesin kemur í ljós að upplýsingar lágu fyrir um hættuna sem steðjuðu að bönkunum. Hins vegar má ráða af niðurstöðum dómara að ekki hefði verið á valdi íslenskra stjórnvalda að koma í veg fyrir hrun bankanna.

Það er skrýtið að Guðmundur skuli ekki krafinn skýringa á fullyrðingu sinni um að dómurinn sé „mjög mikill áfellisdómur“ yfir stjórnsýslunni. Þá er engin innistæða fyrir þeim orðum Guðmundar að í dóminum sannist eitthvað óeðlilegt varðandi pólitískt skipaða embættismenn. Skyldi Guðmundur ósammála því mati dómaranna að orð Davíðs Oddssonar 7. febrúar 2008 hafi falið í skýrustu viðvörun um að hætta steðjaði að bönkunum?

Til er að verða efniviður í sérstaka skýrslu um niðurstöðu rannsóknaraðila og dómara  vegna bankahrunsins annars vegar og útleggingar fræðimanna í Háskóla Íslands á þessum niðurstöðum og dómum hins vegar.

Í rökstuðningi meirihluta landsdóms fyrir sakfellingu Geirs vegna brota á 17. gr. stjórnarskrárinnar af „stórfelldu gáleysi“ kemur fram að ekki yrði „horft fram hjá því að ekki hefði komið til sakfellingar hefði ákærði [Geir] gætt að  því að taka þessi málefni upp [vandræði bankanna] innan ríkisstjórnarinnar…“ Af því sem áður segir í rökstuðningnum má ráða að dómarar hefðu talið nægja að í einni fundargerð ríkisstjórnar frá febrúar 2008 til október 2008 hefði staðið setning eins og þessi: Forsætisráðherra vakti máls á vanda bankakerfisins.

Línan milli sýknu og sakfellingar er ekki meiri í þessu máli. Það er því réttmætara að segja um málaferlin að hið þunga högg sem veita átti með þeim hafi geigað en að þau feli í sér mjög mikinn áfellisdóm yfir þingmönnunum sem ýttu ferlinu af stað með ákæru sinni.

 

Þriðjudagur 24. 04. 12 - 24.4.2012 22:20

Björn Valur Gíslason, þingflokksformaður VG, sat við sama gamla heygarðshornið í Kastljósi kvöldsins þegar hann ræddi við Ragnheiði Elínu Árnadóttur, þingflokksformann sjálfstæðismanna, um landsdómsmálið. Óvildin í garð Sjálfstæðisflokksins lekur af Birni Vali og allt sem hann segir er einnig reist á henni. Skyldi hann ekki efast um réttmæti þess að sitja fastur í þessum óhróðri þegar hann skoðar tölurnar um fylgishrun VG? Eða er forherðingin algjör?

Nú hefur ferlið sem hófst undir áramót 2008 þegar alþingi ákvað að koma á rannsóknarnefnd vegna hrunsins runnið sitt skeið. Vandræðin við þennan þátt uppgjörsins á hruninu hófust síðsumars 2010 þegar nefnd Atla Gíslasonar, þáverandi þingmanns VG, skilaði niðurstöðu sinni og lagði til að fjórir ráðherrar yrðu ákærðir og kallaðir fyrir landsdóm. Við það varð upplausn í þinginu. Nú segja þeir sem hefðu getað komið í veg fyrir þá hneisu að ákæra Geir H. Haarde einan sjá eftir að hafa ekki beitt sér á annan veg í þingsalnum 28. september 2010.

Magnús Thoroddsen, fyrrverandi hæstaréttardómari, sagði við RÚV í kvöld að óhugsandi væri að pólitík hefði ráðið afstöðu manna í landsdómi, hann hefði aldrei kynnst slíku í héraðsdómi eða hæstarétti. Magnús hefur hins vegar aldrei setið í landsdómi en þar er meirihlutinn, átta af 15 dómurum,  kosinn flokkspólitískri kosningu á alþingi auk þess sem ákæran er reist á pólitískri ákvörðun alþingis – að umgjörðin og aðdragandinn setji pólitískan svip á störf  dómsins er hafið yfir vafa. Hvað pólitíkin ræður miklu um niðurstöðuna skal ekki um dæmt hér. Hún svífur að minnsta kosti óhjákvæmilega yfir vötnunum.

 

 

 

Mánudagur 23. 04. 12 - 23.4.2012 21:30

Það var engu líkara en sjónvarpsmennirnir Þorbjörn Þórðarson Stöð 2 og Sigmar Guðmundsson Kastljósi vissu ekki af því að landsdómur sýknaði Geir H. Haarde af öllum efnislegum ákærum vegna bankahrunsins í dag þegar þeir ræddu við hann í kvöld. Þeir spurðu eins og óljóst væri um ábyrgð hans þótt fyrir lægju 415 blaðsíður um sýknu hans nema vegna þess að hann boðaði ekki ríkisstjórnina til fundar um mikilvæg stjórnarmálefni. Í því efni fór hann að venju sem hér hefur ríkt síðan 1920.

Sigmar Guðmundsson var öllu æstari en Þorbjörn og meira í mun að snúa málinu á verri veg fyrir Geir sérstaklega þegar hann spurði hvað eftir hvernig Geir dytti í hug að krefjast afsagnar Steingríms J. Sigfússonar og Atla Gíslasonar úr því að hann hefði ekki sjálfur sagt af sér vegna bankahrunsins! Hlutur Geirs vegna þess hafði einmitt verið til meðferðar og ákæran leiddi til sýknu, hann reyndist ekki sekur. Geir brást raunar þannig við bankahruninu að til fyrirmyndar þykir í mörgum löndum þar sem skuldakreppa og bankavandi sliga þjóðirnar.

Geir sýndi Þorbirni og Sigmari ótrúlegt langlundargeð með því að sitja undir spurningum þeirra og stundum varla fá tækifæri til að svara þeim. Erfitt er að átta sig á því hvað svona fréttamennska á að þýða, að látið sé eins og engu skipti að dómur sé fallin og viðmælandinn hafi verið sýknaður.

Ég skrifaði pistil um málið hér á síðuna í dag. Þar undra ég mig á því að Geir hafi verið sakfelldur fyrir að kalla ekki saman ríkisstjórnarfund en samt sýknaður af öllum efnisþáttum málsins. Í því sambandi snýst boðun ríkisstjórnarfundar aðeins um aukaatriði.

 

Sunnudagur 22. 04. 12 - 22.4.2012 21:05

Mótettukórinn, hljómsveit og einsöngvarar fluttu messu og sálumessu eftir Mozart undir stjórn Harðar Áskelssonar í Hallgrímskirkju í dag við mikinn og verðskuldaðan fögnuð áheyrenda sem fylltu hina stóru kirkju. Uppselt var á tvenna tónleika sem sannar enn og aftur áhuga Íslendinga á góðri klassískri tónlist. Í upphafi voru gestir ávarpaðir á íslensku og ensku sem minnti á hve Hallgrímskirkja hefur mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn.

Við höfum hreinsað í götunni hér í kringum okkar og holtinu fyrir ofan. Á morgungöngu í dag hitti ég dugnaðarkonur með svarta poka sem tóku þátt í hreinsunarátakinu. Þeim virtist ekki ljóst að þær gátu hringt í Reykjavíkurborg og óskað eftir að pokarnir yrðu sóttir.

Við vorum sammála um að Háskólinn í Reykjavík sem fékk lóð í Vatnsmýrinni  á viðkvæmum stað milli Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar ætti að sjá sóma sinn í því að hreinsa plast og pappír rótum Öskjuhlíðarinnar. Reykingamenn gætu til dæmis dundað sér við það í stað þess að norpa í skjóli trjáa. Takið eftir hve tómir sígarettupakka auka víða á sóðaskapinn.

Ég hef aldrei skilið að ekki séu rusladallar utan dyra við Perluna. Finnst mönnum nær að fólk kasti frá sér drasli á stéttina, bílastæðin eða grasflötina. Göngubraut er beint frá Litluhlíð upp að Perlu. Það er ótrúlegt að ekki skuli gengið frá henni á mannsæmandi hátt og búið þannig um hnúta að fólk þurfi ekki að vaða aurinn í rigningu. Þúsundir ferðamanna ganga upp þennan hálfgerða stíg.

Loks skora ég á stjórnendur Hlíðaskóla og Menntaskólans við Hamrahlíð að fara að fordæmi Hagaskóla og fela nemendum að hreinsa í kringum skólana, það hefur bæði fræðslu- og uppeldisgildi.

 

Laugardagur 21. 04. 12 - 21.4.2012 13:40

Nú er unnt að sjá samtal mitt  við Elínu Hirst á ÍNN einnig á netinu með því að fara inn hér.

Ég hef ekki séð myndina JFK eftir Oliver Stone fyrr en í kvöld í HD rás danska sjónvarpsins. Merkileg mynd sem ýtir undir þá skoðun að morðið á Kennedy fyrir tæpum 50 árum hafi ekki enn verið upplýst. Leikin heimildarmynd í fyrsta flokki.

Föstudagur 20. 04. 12 - 20.4.2012 23:50

Sýning Íslensku óperunnar á La Bohème eftir Puccini er glæsileg í orðsins fyllstu merkingu. Tekist hefur á frábæran hátt að virkja sal Eldborgar sem umgjörð og listamennirnir stóðu sig með mikilli prýði í kvöld.

Fréttatíminn tók á sig aðra mynd í dag enda hafa orðið eigendaskipti að hluta með brotthvarfi Jóns Kaldals úr ritstjórastóli. Á forsíðu er birtur inngangur að stjórnmálaskýringu eftir Sigríði Dögg Auðunsdóttur sem var á sínum tíma handlangari Baugsmanna á Fréttblaðinu. Meginkenning Sigríðar Daggar er að Jóhanna Sigurðardóttir eigi högg að sækja sem formaður Samfylkingarinnar af því að hún hafi látið svo mikið eftir Steingrími J. Sigfússyni, hann standi hins vegar traustum fótum í eigin flokki. Engir heimildarmenn þessara kenninga eru nefndir til sögunnar.

Það er rétt hjá Sigríði Dögg að Jóhanna stendur höllum fæti en Steingrímur J. gerir það líka enda hefur hann svikið öll kosningaloforð sín og leggur nú fram arfavitlaust frumvarp um stjórn fiskveiða sem átti að verða einhvers konar meistarastykki hans við þjóðarsátt.

Andstæðingar Jóhönnu innan Samfylkingarinnar verða að finna einhverja aðra skýringu á falli hennar en þjónkun við Steingrím J. þegar þeir beita blaðamanni til að vega að formanninum. Enn vitlausari er þó kenning Sigríðar Daggar um að við Styrmir Gunnarsson séum helstu andstæðingar Bjarna Benediktssonar innan Sjálfstæðisflokksins. Að hún skuli halda því fram sýnir að hún hefur ekki minnstu hugmynd um hvað er að gerast innan Sjálfstæðisflokksins enda færir hún engin rök fyrir þessari einfeldningslegu fullyrðingu sinni.

 

Fimmtudagur 19. 04. 12 - 19.4.2012 19:00

Gleðilegt sumar!

Vel hefur tekist að endurnýja útisvæði og potta Laugardalslaugarinnar sem opnuð var að nýju í morgun eftir að hafa verið lokað í aðeins þrjá daga vegna framkvæmdanna. Fyrirfram höfðu líklega fáir sundgestir búist við því að ekki þyrfti að loka lauginni í lengri tíma en þennan í tengslum við svo viðamiklar framkvæmdir sem hófust nokkrum vikum fyrir áramót. Nokkra daga hefur ekki verið innheimtur aðgangseyrir af gestum vegna takmarkaðrar þjónustu á laugarsvæðinu. Ávallt hefur þó verið unnt að synda í lauginni. Við sem sækjum hana áður en dagvinnutími hefst höfum ekki orðið að þola sama hávaða og hinir sem hafa stundað sund eftir að drunur höggbora eða annarra vinnutækja rufu kyrrðina.

Dagana þrjá sem Laugardalslaugin var lokuð fór ég í Sundhöllina og hitti gamla sundfélaga þar. Í Sundhöllinni er prýðilegur nuddpottur og aðstaðan til að þurrka sig utan dyra er frábær, Laugardalslaugin býður ekkert sambærilegt. Á hinn bóginn kann ég mun betur við að synda utan dyra en inni og 50 metra laug gefur meira en 25 metra. Þá er ekki unnt annað en dást að klefum Guðjóns Samúelssonar í Sundhöllinni.

Ari Trausti Guðmundsson gaf kost á sér til embættis forseta Íslands í dag. Sigurður Sigurðarson lýsir honum sem verðugum fulltrúa þjóðarinnar á Bessastöðum og segir á bloggi sínu: „Þó svo að hann [Ari Trausti] sé gamall kommi veit ég að margir sjálfstæðismenn geta hugsað sér að styðja hann í komandi forsetakosningum. Dæmi eru um að undarlegustu vinstri menn hafi bara reynst ágætir forsetar.“ Það skyldi þó aldrei verða gamall marxisti-lenínisti sem drægi fylgi sjálfstæðismanna frá Ólafi Ragnari?

Miðvikudagur 18. 04. 12 - 18.4.2012 22:20

Í dag ræddi ég við Elínu Hirst sjónvarpskonu í þætti mínum á ÍNN. Ég spurði hana um vangaveltur hennar um forsetaframboð og við ræddum störf hennar á líðandi stundu sem lúta að mannúðarmálum.

Ákvörðun yfirstjórnar RÚV um að reka Elínu fyrirvaralaust úr starfi þegar hún var að búa sig undir útsendingu er eitt af dæmum samtímasögunnar um dæmalausan hroka yfirstjórnar RÚV.

Nú hefur Ástþór Magnússon forsetaframbjóðandi ákveðið að láta reyna á stjórnsýslukæruferli vegna framgöngu stjórnenda RÚV. Í lok mars sendi Ástþór fyrirspurn til fjölmiðlanefndar sem starfar undir handarjaðri menntamálaráðuneytisins um nokkur atriði sem snerta meðal annars óhlutdrægni formanns stjórnar RÚV, Bjargar Evu Erlendsdóttur, og umræðustjóra RÚV, Egils Helgasonar. Nefndin hefur ekki svarað Ástþóri og hefur hann því kvartað til umboðsmanns alþingis og óskað eftir að umboðsmaður svari hvort hlutverk fjölmiðlanefndar sé ekki að gæta þess að fjölmiðlar veiti óhlutdrægar upplýsingar.

Hvað sem mönnum finnst um tilefni Ástþórs ber opinberum aðilum að svara erindum hans með rökstuðningi. Þær fréttir berast úr höfuðstöðvum RÚV í Efstaleiti að þar telji menn sig ekki falla undir lögsögu umboðsmanns alþingis. Það sé í raun ekki unnt að ná í skottið á þeim eins og öðrum opinberum stofnunum eftir að RÚV fékk ohf. fyrir aftan nafn sitt. Ef fjölmiðlanefnd svarar ekki erindum sem snerta RÚV og umboðsmaður alþingis telur sig skorta umboð til afskipta af stjórnarháttum RÚV er greinilega alvarlegur galli á lögunum um RÚV.

Sú skoðun stjórnenda RÚV að þeir þurfi ekki að lúta agavaldi æðra stjórnvalds kann að skýra hvers vegna derringurinn er svona mikill í viðbrögðunum þegar að stjórnarháttum innan RÚV er fundið.

Þriðjudagur 17. 04. 12 - 17.4.2012 22:25

Í fréttum frá alþingi er sagt frá ræðu Árna Páls Árnasonar, fyrrverandi efnahagsmálaráðherra, og Jón Bjarnason, fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefðu lýst andstöðu við þingsályktunartillögu  ríkisstjórnarinnar um breytingar á stjórnarráði Íslands. Mér finnst ekki seinna vænna en einhverjir stjórnarliðar snúist gegn þessari vitleysu Jóhönnu Sigurðardóttur. Eyðileggingarstarf hennar innan stjórnarráðsins er með ólíkindum. Að henni skuli hafa tekist að eyðileggja dóms- og kirkjumálaráðuneytið er til marks um ótrúlegt virðingarleysi við sögu og hefðir stjórnarráðsins.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður framsóknarmanna, vakti máls á því í þingumræðum í dag að sameining ráðuneyta félli að kröfu Evrópusambandsins, væri hluti af aðlögunarferlinu. Steingrímur J. Sigfússon brást við af hefðbundnum ofsa og á mbl.is  er haft eftir honum:

 „Varðandi breytingar innan stjórnarráðsins á Íslandi og Evrópusambandið þá kemur það því máli bara ekki nokkurn skapaðan hlut við og ég hef aldrei nokkurn tímann heyrt á það minnst að þeir skiptu sér af því. Enda kæmi það þeim ekkert við hvort sem er. Við erum að endurskipuleggja okkar stjórnarráð og móta framtíðaráherslur um skipan þess og það er alfarið okkar mál. Það getur enginn sýnt fram á að það komi neinum öðrum við né að það hafi verið svoleiðis. Ég þekki ekki til þess. Enda myndi það engu máli skipta, ekki neinu. Við gerum það sem við viljum í þessum efnum, við ráðum því sjálf. Að sjálfsögðu. Hvers konar kjaftæði er þetta? Þetta er svo barnaleg þvæla þegar menn eru komnir út í svona rugl.“

Álfheiður Ingadóttir, sem stýrði þingfundinum á Alþingi, sá sig knúna að lokinni ræðu Steingríms að biðja hann að gæta orða sinna: „Forseti vill biðja menn að gæta hófs í orðum sínum hér í ræðustól alþingis.“

Þráðurinn styttist stöðugt í Steingrími J. Sigfússyni. Upphlaup af þessu tagi til að þagga niður í þingmönnum setja æ meiri svip á ræður hans. Á dögunum sagði hann formanni Framsóknarflokksins að þegja þegar hann spurði um ferðir Steingríms J. til Brussel.

Leynimakkið vegna aðlögunarinnar að ESB er líftaug ríkisstjórnarinnar. Komi sannleikurinn í ljós springur stjórnin. Þegar litið er á breytingu á stjórnarráðinu er eitt víst: Jóhanna hefði aldrei ráðist í hana ef ESB hefði lagst gegn henni.

 

 

Mánudagur 16. 04. 12 - 16.4.2012 23:12

Með því að hörfa sífellt í það skjól að þjóðin muni að lokum segja síðasta orðið um einhvern samning sem einhvern tíma verði gerður við Evrópusambandið sýna ráðherrar ríkisstjórnarinnar af sér mesta ráðaleysi frá því að þeir sátu uppi með Icesave-samning sem þjóðin hafnaði. Þeir segja aldrei hverju þeir vilja ná fram gagnvart Evrópusambandinu heldur eigi að kanna kosti og galla aðildar á grundvelli einhvers sem enginn veit hvað er af Íslands hálfu. Formaður viðræðunefndar Íslands segir það sitt hlutverk að móta samningsmarkmiðið. Hann muni að vísu kynna það fyrir ríkisstjórn og utanríkismálanefnd verði látin vita af því hvert það verður.

Alvarlegasta hlið nýjasta klúðurs ríkisstjórnarinnar í Icesave-málinu er framganga utanríkisáðherra gagnvart ríkisstjórninni og utanríkismálanefnd. Hvorugur aðili fékk að vita neitt um málið fyrr en kvöldið áður en skila átti svari til EFTA-dómstólsins, svarið hafði verið samið þegar sagt var frá því opinberlega að þess hefði verið óskað um tveimur vikum fyrr. Þessi málsmeðferð gefur vísbendingu um hvernig staðið verður að málum þegar embættismenn hætta að opna og loka samningsköflum sem i raun þarf ekki að ræða af því að efni þeirra liggur fyrir í EES-samstarfinu.

Undanfarnir dagar hafa einnig leitt í ljós að ráðherrar VG kunna að reka upp öskur yfir einhverju sem kemur frá Brussel en þau þarf ekki að virða frekar en öskur pappírstígrisdýra. Eftir að ráðherrarnir hafa dregið í land til að halda í stólana grípa þeir til þess ráðs að kenna loforðasvik sín við pólitíska víðsýni. Kannanir sýna að kjósendur eru ekki á sama máli. VG er að breytast í kulnaða stjörnu á hinu pólitíska himinhvolfi og fulltrúar flokksins á þingi verða eins og verur frá öðrum hnetti – að minnsta kosti ekki frá hinum sama og fyrir kosningar 2009 þar sem andstaða við ESB ríkti.

 

 

 

Sunnudagur 15. 04. 12 - 15.4.2012 22:41

Í kvöld var sýndur þáttur um Sigfús Halldórsson í sjónvarpinu sem Andrés Indriðason tók saman úr gömlum þáttum. Þátturinn minnti á hve mikilvægt er að sjónvarpið sé spegill samtíðarinnar í menningu. Fróðlegt væri að sjá tölfræði frá RÚV sem sýndi hlutfall slíks efnis í dagskrá samtímans miðað við það sem áður var. Hér skal ekki fullyrt neitt um hvað slík tölfræði sýndi en tilfinningin segir að erfitt verði þegar fram líða stundir að draga upp jafn heildstæða mynd úr gömlu efni af einhverjum listamanni sem gengur meðal okkar núna og þarna var gert af Sigfúsi.

Ég fer varlega í fullyrðingar til að kalla ekki yfir mig reiðilestur úr Efstaleiti. Bergþór Ólason birti 11. apríl í Morgunblaðinu niðurstöðu í skoðanakönnun á sínum vegum. Bergþór sagði.

„ Á dögunum keypti ég því spurningu í spurningavagn MMR. Var þar spurt „Hversu eðlilegt eða óeðlilegt finnst þér að stjórnendur umræðuþátta hjá Ríkisútvarpinu stýri umræðum um pólitísk málefni, sem þeir hafa sjálfir áður tjáð sig um opinberlega á öðrum vettvangi?“ Niðurstöðurnar urðu afar afgerandi. Spurðir voru 855 einstaklingar og 82,2% tóku afstöðu. 34% sögðust telja þetta háttalag mjög óeðlilegt og 32,1% sögðust telja það frekar óeðlilegt. Á hinn bóginn sögðust 7,7% telja það mjög eðililegt en 7,4% frekar eðlilegt. 18,8% tóku svarmöguleikann „bæði og“.

Þessar niðurstöður eru mjög afgerandi. Yfirgnæfandi meirihluti, eða samtals rúm 66%, telur óeðlilegt, eða mjög óeðlilegt, að stjórnendur umræðuþátta RÚV stýri umræðum um pólitísk málefni, sem þeir hafa sjálfir tjáð sig opinberlega um annars staðar. Þetta hlýtur að auka enn alvarleika þeirrar spurningar hversu lengi núverandi yfirstjórn RÚV hyggst láta þetta viðgangast.“

Páll Magnússon útvarpsstjóri bregst við á gamalkunnan hátt þegar Morgunblaðið spyr hann álits á niðurstöðum könnunar MMR, það er með útúrsnúningi og hroka. Páll segir spurninguna reista á rangri forsendu, hún geti ekki átt við neinn starfsmann RÚV. Augljóst er að málið snýst fyrst og síðast um Egil Helgason. Hér á þessari síðu hafa birst fjölmörg dæmi um hlutdrægni hans.

Þá leggur Páll lykkju á leið sína og ræðst á alþingi en tveir þingmenn leyfðu sér að hafa annan skilning á niðurstöðu könnunar MMR en útvarpsstjóri. Segir Páll af því tilefni:  „Aldrei hefur álit fólks á alþingi og alþingismönnum risið lægra heldur en í dag.“ Þingmönnum sæmi ekki að gagnrýna  RÚV sem njóti yfirburðartrausts á meðal landsmanna.

Í dag birti ég pistil á Evrópuvaktinni og svaraði rógi Björns Vals Gíslasyni, þigflokksformanni VG, um sjálfstæðismenn vegna Icesave.

Laugardagur 14. 04. 12 - 14.4.2012 20:53

Klukkan 15.00 var ég í Seltjarnarneskirkju þegar listahátíð hennar var sett undir fyrirsögninni: Biblían og menningin „Vér viljum gera manninn í vorri mynd…“  Við setningu hátíðarinnar var opnuð sýning á 12 nýjum vatnslitamyndum eftir Karólínu Lárusdóttur út af Nýja testamentinu en Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur fjallaði um myndlist Karólínu.

Frá setningu listahátíðarinnar í Seltjarnarneskirkju fór ég niður að Reykjavíkurhöfn og í sal Íslenskrar grafíkur í Hafnarhúsinu þar sem er sýning á verkum Pjeturs Stefánssonar og Þórs Sigmundssonar. Var forvitnilegt að skoða hana og ræða við listamennina.

Ég talaði á fjölmennum fundi sjálfstæðismanna í Kópavogi í morgun. Einn fundarmanna vildi líkja saman húsleit hjá Baugi 28. ágúst og hjá Samherja á dögunum af því að ég sagðist telja tengsl á milli húsleitar hjá Samherja og framlagningar frumvarpsins um breytingar á fiskveiðstjórnarlögunum, hvort svipuð sjónarmið hefðu ekki ráðið hjá mér 2002 þegar leitað var hjá Baugi – ég sagðist ekki hafa verið dómsmálaráðherra og benti spyrjanda á að lesa Rosabaug yfir Íslandi. Annar stóð upp og sagði að félagi sinn hefði verið boðinn í glæsilegan morgunverð að Lágmúla 1 í prófkjörsbaráttunni haustið 2006, hann undraðist kræsingarnar, þá hafði honum verið bent á að koma í hádegisverðinn hann væri sko ekkert slor. Þetta var aðdragandi að spurningu um hvort mér þætti Sjálfstæðisflokkurinn hafa gert nægilega hreint fyrir sínum dyrum eftir hrun. Ég taldi svo ekki vera. Fram hefði komið að frambjóðandi hefði varið 25 til 30 m. kr.  að fella mig í prófkjöri. Það mundi enginn standa að prófkjörsbaráttu á sama veg núna. Flokkurinn hefði ekki gert þetta upp á viðundandi hátt, hann yrði að gera það fyrir næstu kosningar, annars nyti hann ekki trausts. Þarna var mál mitt rofið með lófataki.

Ég sagði stjórnlagadeiluna, fiskveiðilagadeiluna, deiluna um rammaáætlun og um aðild að ESB allt heimatilbúin vandamál ríkisstjórnarinnar. Hún hefði haft dagskrárvaldið og því væru þessi mál til umræðu, ný stjórn án þessara flokka mundi einfaldlega leggja þessi mál til hliðar og þar með yrðu þau úr sögunni sem vandræðamál á þingi.

 Sjá framhald með því að slá á Lesa meira hér fyrir neðan.


Lesa meira

Föstudagur 13. 04. 12 - 13.4.2012 22:41

Óli Kristján Ármannsson skrifar leiðara í Fréttblaðið í dag um deilurnar sem hafa sprottið vegna afskipta ESB af Icesave-málinu fyrir EFTA-dómstólnum. Óli Kristján var einn ákafasti talsmaður Icesave-stefnu ríkisstjórnarinnar á sínum tíma og spáði öllu illu ef hún næði ekki fram að ganga. Nú tekur Óli Kristján málstað framkvæmdastjórnar ESB og segir „kynlegt að þeir sem hæst töluðu um sterka lagalega stöðu landsins og börðust fyrir dómstólaleið með Icesave-deiluna bregðist nú ókvæða við þegar ESB, sem sannarlega hefur hagsmuna að gæta í málinu, lætur það sig varða með beinum hætti.“

Þessi fullyrðing er ekki alls kostar rétt. Þeir sem hafa kveðið fastast til orða vegna ákvörðunar framkvæmdastjórnar ESB eru VG-ráðherrarnir Ögmundur Jónasson og Steingrímur J. Sigfússon sem báðir studdu Icesave III eins og Óli Kristján og Fréttablaðið. Ráðherrarnir hafa báðir harðlega gagnrýnt ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar og sagt hana spilla fyrir aðildarviðræðunum. Varla kallar Óli Kristján ráðherrana fulltrúa „óttasleginna hagsmunahópa“ sem vilja bregða fæti fyrir ESB-viðræðurnar?

Staðreynd er að ekkert gengur ESB-viðræðunum í haginn um þessar mundir. Að halda þeim áfram nú eins og ekkert hafi í skorist spillir líklega mest fyrir viðræðunum í huga Íslendinga. Þráhyggja Jóhönnu Sigurðardóttir eyðileggur að lokum málstað ESB-aðildarsinna eins og hún hefur eyðilagt málstað þeirra sem vilja breyta stjórnarskránni. Hún verður einnig til þess að ríkisstjórnin nær ekki fram neinni markverðri breytingu á lögunum um stjórn fiskveiða.

Ég skrifaði í dag um niðurstöðu skoðanakönnunar Fréttablaðsins um fylgi forsetaframbjóðenda á Evrópuvaktina eins og lesa má hér. Forvitnilegt verður að sjá hvað Ólafur Ragnar gerir til að ná fyrra forskoti. Fleira getur auðveldlega snúist í höndunum á honum en ákvörðun hans um að bjóða sig enn einu sinni fram í forsetaembættið.  Hann hefur ekki efni á því að honum bregðist bogalistin.

Fréttatíminn kemur endrum og eins fyrir sjónar mínar. Ég sakna einskis þótt honum sé ekki troðið inn um bréfalúguna. Tilgangur útgáfunnar virðist ekki annar en hala inn auglýsingatekjur og birta dálítið efni til uppfyllingar. Efnistök og umbrot bæta engu við íslenska fjölmiðlaflóru.

 

 

Fimmtudagur 12. 04. 12 - 12.4.2012 22:25

Utanríkismálanefnd alþingis sat á fjögurra tíma fundi í kvöld og ræddi til hvaða ráða skyldi gripið af Íslands hálfu vegna þess að framkvæmdastjórn ESB ætlar að gerast aðili að Icesave-málinu gegn Íslandi fyrir EFTA-dómstólnum og slást þannig í lið með Eftirlitsstofnun EFTA (ESA). Þegar þetta er ritað hefur ekkert verið sagt opinberlega frá því hvað gerðist á fundinum en RÚV gefur til kynna að stjórnarsinnar hafi deilt á fundinum.

Vissulega er mikilvægt að unnt sé að halda fundi í utanríkismálanefnd á þann veg að trúnaður ríki milli manna um það sem þar gerist. Þessi trúnaður nær þó ekki til þess að menn lýsi þeirri skoðun sem þeir hafa sjálfir kynnt á fundinum. Vegna fréttanna af meðalgöngusök ESB í Icesave-málinu hafa Össur Skarphéðinsson og Árni Þór Sigurðsson brotið trúnaðarreglurnar með því að vitna til þess sem hinn breski lögmaður sem ver málstað Íslands í EFTA-dómstólnum sagði á fundi með utanríkismálanefnd.

Þessar frásagnir forráðamanna ríkisstjórnarinnar í utanríkismálum hljóta að leiða til þess að aðrir sem hafa setið fundi utanríkismálanefndar um Icesave-málið og málaferlin geti skýrt frá því sem þeir hafa orðið áskynja í nefndinni.

ESA hafði samráð við framkvæmdastjórn ESB áður en ákveðið var að fara með Icesave-málið fyrir EFTA-dómstólinn. Peter Stano, talsmaður stækkunarstjóra ESB, sagði í samtali við Stöð 2 í kvöld að framkvæmdastjórnin vildi verja „þörfina á skýrleika varðandi skyldur Íslands á sviði fjármálaþjónustu, auk skýrleika og samkvæmni í lögum ESB og EES og lagalegar skyldur EFTA-ríkja og ESB-ríkja“. Slíkur skýrleiki væri mikilvægur til að viðhalda trausti á ESB-reglum um innistæðutryggingar, innri markaðinn og loks á fjármálastöðugleika í Evrópu. Það væri mikilvægt að hafa í huga að þetta mál fyrir EFTA-dómstólnum tengdist á engan hátt umsókn Íslands að ESB.

Miðvikudagur 11. 04. 12 - 11.4.2012 23:20

Óperan Manon eftir Jules Massenet var sýnd öðru sinni í Kringlubíói í kvöld, frumsýning hér var beint úr Metrópólitan-óperunni í New York laugardaginn 7. apríl Anna Netrebko syngur hlutverk Manon meistaralega. Sýningin var glæsileg, ég hreifst þó ekki af tónlistinni.

Í kynningu frá Metrópólitan á næstu verkefnum sagði frá því að í vor væri væntanleg mynd um gerð Niflungahrings Wagners en óperurnar fjórar hafa allar verið sýndar á þessu leikári og í fyrra en verða fluttar í heild á einni viku undir lok þessa mánaðar og í maí. Í tilefni af því hefur verið gerð sérstök kvikmynd um uppsetninguna.

Af kynningunni mátti ráða að meðal þessa fyrsta sem kæmi fram um sögu uppsetningarinnar væri héðan frá Íslandi en Robert Lepage sem hannaði sýninguna og réð stjórnaði henni lagði leið sína til Íslands þegar hann mótaði hugmynd sína um sviðsmyndina en 45 tonna „vélmenni“ er uppistaða hennar og óttuðust flytjendur í fyrstu að eiga öryggi sitt undir því komið.

Lepage hefur sagt um Niflungahringinn að hann sé ekki aðeins saga eða röð af óperum heldur sé hann „kosmos“ það er eigin alheimur. Lepage kom hingað til að kynnast kröftunum sem móta þennan heim ef marka má það sem sýnt var af kvikmyndinni um gerð hans á Hringnum.

Þriðjudagur 10. 04. 12 - 10.4.2012 22:00

Þórunn Elísabet Bogadóttir skrifar leiðara Fréttablaðsins í morgun í þeim tilgangi að búa í haginn fyrir unga forsetaframbjóðendur með því að segja að þeir fái ekki eftirlaun fyrr en þeir hafi aldur til þess en ekki þegar þeir láta af forsetaembætti.

Þá segir hún í leiðaranum að engu skipti hvaða skoðun forseti hafi á Evrópusambandsaðild.  Alþingi hafi samþykkt þingsályktunartillögu um málið fyrir tæpum þremur árum. Í henni segi: „að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning." Enginn flokkur vilji keyra málið í gegn án þjóðaratkvæðagreiðslu þótt sumir þeirra vilji reyndar kjósa enn fyrr. Forsetinn þurfi því engu hlutverki að gegna þegar aðildarsamningur er kominn á borðið.

Er þetta rétt? Þjóðaratkvæðagreiðslan er ráðgefandi, þrátt fyrir hana getur meirihluti alþingis samþykkt aðild að ESB. Þá þarf alþingi einnig að breyta stjórnarskránni við að unnt sé ganga í ESB. Lög sem snerta aðildina taka ekki gildi nema forseti riti undir þau. Hafi alþingi ráðgefandi skoðanakönnun að engu kann forseti að knýja fram bindandi atkvæðagreiðslu með því að neita að undirrita lög tengd ESB-aðild.

Í leiðaranum segir Þórunn Elísabet:

„Ástæða þess að framboð Þóru Arnórsdóttur hefur öðrum framboðum fremur hlotið athygli síðustu daga er ekki einhvers konar samtrygging fjölmiðlamanna eins og reynt hefur verið að halda fram, heldur sú staðreynd að hún og hennar fólk kann greinilega að gera fréttnæma hluti. […] Framboð Þóru var það eina sem var með stöðuga upplýsingagjöf yfir páskahátíðina, þegar fátt annað fréttnæmt átti sér stað. Þetta var sniðugt kosningabragð.“

Það er alltaf einkennilegur hljómur í því þegar fjölmiðlamenn þurfa að afsaka að þeir flytji fréttir eða sverja af sér samtryggingu. Hvaða fjölmiðlar eru þetta sem kalla á þessa afsökun fyrir hönd Þóru Arnórsdóttur í leiðara Fréttablaðsins? Hvernig er unnt að leika kosningabragð þegar tæpir þrír mánuðir eru til kosninga – var þetta ekki aðeins áróðursbragð í von um að fæla aðra frá framboði?

Ég skrifaði pistil hér á síðuna í dag um fábreyttar fjölmiðlafréttar af ESB-viðræðunum.

Mánudagur 09. 04. 12 - 9.4.2012 22:10

Ósennilegt er að stuðningsmönnum Þóru Arnórsdóttur takist að fæla fleiri „alvöru“ frambjóðendur frá því að bjóða sig fram gegn Ólafi Ragnari Grímssyni. Frásagnir af því hve snarlega tókst að safna meðmælendum til stuðnings Þóru er liður í þeirri viðleitni. Þá er furðulegt að sjá sjálfstæðismanninn Friðjón R. Friðjónsson umturnast í reiðikasti í garð þeirra sem hann telur andstæða Þóru. Með ofsafengnum upphrópunum á að þagga niður í þeim sem hafa efasemdir um framboðið vegna skoðana frambjóðandans eða stjórnmálaafskipta. Ekkert af þessu er til marks um hinn yfirvegaða vilja til að sætta ólík sjónarmið sem ber að einkenna embættisfærslu forseta Íslands.

Samfylkingarvefsíðan Eyjan er komin í loftið að nýju með framboði Þóru. Aðstandendur síðunnar telja að framboðið hafi verið tilkynnt með „snilldarlegri“ tímasetningu. Þeim finnst miður að birta efni andstætt Þóru en láta sig hafa það. 

Sunnudagur 08. 04. 12 - 8.4.2012

Gleðilega páska!

Það var gott framtak hjá sjónvarpinu að sýna myndirnar 79 af stöðinni  og Mamma Gógó nú um páskana. Um 50 ár eru á milli þess sem myndirnar eru gerðar.  Tækninni hefur fleygt fram en gildið felst í leikstjórn og leik. Hvorugt bregst.  Þá eykst sögulegt og listrænt gildi við að unnt er að tengja myndirnar  með hinum frábæru leikurum Kristbjörgu Kjeld og Gunnari Eyjólfssyni. Friðriki Þór fellir myndirnar saman á einstakan hátt.

Klukkan 13.00 fórum við í messu í Krosskirkju í Landeyjum þar sem séra Önundur Björnsson predikaði. Þarna er staðarlegt, skammt frá ströndinni.  Kirkjan var byggð árið 1850. Altaristaflan er að minnsta kosti frá 1650.  Kirkjan er með elstu timburkirkjum landsins og einnig altaristaflan, sagan segir að hún sé til marks um þakklæti þeirra sem björguðust í Vestmannaeyjum þegar Tyrkir fóru þar um rænandi og ruplandi 1627.

Laugardagur 07. 04. 12 - 7.4.2012 19:10

Gegnsæi er lykilorð þeirra sem segjast berjast gegn spillingu. Helsta aðferð þeirra sem vilja ekki gegnsæi er að beina spjótum að þeim sem leggja spilin á borðið. Evrópuvaktin hefur fylgt kröfu alþingis um uppgjör vegna styrks frá þinginu út í ystu æsar. Þetta hefur kallað á undarleg viðbrögð, ekki síst á Smugunni, vefmálgagni VG, og DV, að baki þessum miðlum er sami fjárhagslegi bakhjarl Lilja Skaftadóttir, listaverkasali í Frakklandi.

Vefmiðillinn Eyjan sem haldið er úti af Birni Inga Hrafnssyni hefur lagt Smugunni og DV lið í viðleitninni til að gera lítið úr gildi þess og jafnvel hæðast að því að Evrópuvaktin hefur gert nákvæma grein fyrir ráðstöfun styrkfjárins frá alþingi.

Athygli vekur að þessir miðlar ganga ekki á eftir upplýsingum um hvernig Já, Ísland sem fékk 13.5 m.kr. styrk og Heimssýn sem fékk 9 m. kr. styrk frá alþingi hafa varið þeim fjármunum. Hvað veldur? Halda miðlarnir að sparðatíningur þeirra vegna Evrópuvaktarinnar auki líkur á að hinir stóru styrkþegar sýni sömu nákvæmni og Evrópuvaktin?

Það er til lítils að krefjast þess í öðru orðinu að menn sýni nákvæmni í útlistun sinni á því hvernig farið er með fé sem veitt er af hinu opinbera og veitast síðan að þeim sem gæta þessarar nákvæmni. Hræsni er orð sem tekur til þessa háttalags.

Föstudagur 06. 04. 12 - 6.4.2012 18:30

Samtal mitt við dr. Pétur Pétursson guðfræðiprófessor á ÍNN er komið á netið eins og sjá má hér.

Við Pétur ræðum um páskana og sérstaklega upprisuna. Við minnumst þess að frá fyrsta degi mannvistar á Íslandi hefur kristni komið við sögu eins og minjar um keltneska einsetumenn sýna. Í skjaldarmerkinu eru landvættir, tákn guðspjallamannanna fjögurra og krossinn í fánanum er einnig trúarlegt tákn og minnir á krossfestinguna og gildi hennar fyrir kristna menn.

Helgi föstudagsins langa er mikil. Í kirkjum landsins koma menn saman til að hlusta á Passíusálma Hallgríms Péturssonar, hinn einstaka menningararf innblásinn af trú. Könnun í Danmörku sýnir að þar telja menn föstudaginn langa helgasta daginn.

Það er dæmigert fyrir neikvæða athyglisþörf félaga í Vantrú að þeir skuli auglýsa bingó á Austurvelli föstudaginn langa. Hvenær ætli þeir krefjist breytinga á skjaldarmerkinu og fánanum?


Fimmtudagur 05. 04. 12 - 5.4.2012 15:30

Á þeim tæpu tveimur árum sem liðin eru frá því að Evrópuvaktin fór í loftið hefur enginn fjölmiðill birt meira efni á íslensku um ESB og málefni tengd aðildarumsókn Íslands. Á vefsíðunni er haldið utan um höfuðþætti viðræðnanna auk þess sem fjallað er um þær í stóru samhengi með vísan til þróunar innan Evrópusambandsins og á norðurslóðum. Að kenna síðuna við hefðbundna bloggsíðu þar sem menn mata aðra á eigin visku án þess að geta heimilda eða jafnvel virða staðreyndir er fráleitt. Evrópuvaktin sver sig í ætt við fréttasíður á alþjóðavettvangi sem flytja fréttir tengdar sérstökum málaflokki.

Evrópuvaktin fullnægir öllum skilyrðum sem sett eru af alþingi þegar teknar eru ákvarðanir um styrkveitingu vegna umræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Alþingi hefur sjálft ákveðið reglur um þessa styrki, nefnd á vegum þess úthlutar þeim, embættismenn og ríkisendurskoðun fylgjast með framkvæmdinni.

Evrópuvaktin hlaut 4,5 m.kr. styrk árið 2011 til verkefna sem lýst var í umsókn. Evrópuvaktin mun sækja um að nýju í ár samkvæmt auglýsingu alþingis.

Í þann mund sem alþingi birti auglýsingu sína að þessu sinni hófu ESB-aðildarsinnar að gagnrýna styrk alþingis 2011 til Evrópuvaktarinnar og hvernig honum hefur verið ráðstafað. Alþingi hefur ekki gert athugasemd við þá ráðstöfun enda er hún í samræmi við umsóknina á sínum tíma.

Málflutningur ESB-aðildarsinna í þessu efni er í samræmi við ótta þeirra við að ræða efni aðildarumsóknarinnar, þróun aðildarviðræðnanna, stöðu aðildarmálsins nú og ástandið innan Evrópusambandsins. Það verður forvitnilegt að sjá hvort sparðatíningur ESB-aðildarsinna vegna ráðstöfunar á styrkfé til Evrópuvaktarinnar árið 2011 verði til þess að úthlutunarnefnd alþingis heykist á því að veita öflugasta miðli á fréttum um ESB styrk árið 2012.

Miðvikudagur 04. 04. 12 - 4.4.2012 21:30

Í dag ræddi ég við dr. Pétur Pétursson guðfræðiprófessor á ÍNN í tilefni af páskunum og fjölluðum við einkum um upprisuna. Þáttinn má sjá klukkan 22.00, 24.00 og síðan á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun.

Birting á tölum um hvernig Evrópuvaktin hefur nýtt 4,5 m. kr. styrkinn frá alþingi hefur vakið nokkrar umræður og að lokum hefur athyglin beinst að því að ég kom heim frá Frankfurt eftir fjögurra vikna ferðalag með yfirvigt sem þurfti að greiða 30.000 kr. fyrir að flytja til landsins. Ég undraðist hve mikið kostaði að flytja aukakílóin sem höfðu bæst í töskurnar á ferðalaginu en þó varð ég enn meira undrandi þegar ég sá bloggara og málgagn VG Smuguna taka til við að þrasa um að styrkurinn hefði runnið til greiðslu á þessum kostnaði eins og öðrum vegna ferðarinnar frá 11. október til 11. nóvember. Heildarkostnaðurinn var um 900 þúsund krónur eða um 30.000 kr. á dag með ferðum og húsnæði. Sé það talið ofrausn á ferð þar sem rætt var við milli 40 og 50 manns skora ég á gagnrýnendur að benda á ódýrari leið til þess.

Það er í raun með ólíkindum hve ESB-aðildarsinnar hafa varið miklum tíma og kröftum í viðleitni sinni til að gera 4,5 m. kr. styrkveitingu alþingis til Evrópuvaktarinnar tortryggilega og loks til að einskorða þrasið við 30.000 kr. greiðslu vegna yfirvigtar. Þegar minnst er á milljarða kostnað við aðildarumsóknina sjálfa lætur þetta sama fólk hins vegar eins og ekkert sé sjálfsagðara en að leggja þær byrðar á skattgreiðendur þótt meirihluti þeirra sé andvígur aðildarbröltinu.

Lesendur Evrópuvaktarinnar vita að þar er annars vegar lögð áhersla á að miðla fréttum af því sem gerist á vettvangi ESB og hins vegar á að mótmæla aðildarstefnu ríkisstjórnarinnar. Hefur verulega áunnist í því efni og þess vegna liggur vefsíðan undir þessum árásum ESB-aðildarsinna fyrir að hafa fengið styrk frá alþingi og nýtt hann. Einkennilegt er að ráðist sé á þennan hátt á þann, sem fær styrk samkvæmt umsókn sem metin er hæf, og fullnægir síðan öllum kröfum styrkveitanda.  Hver er tilgangurinn? Svarið er einfalt: að hræða styrkveitanda frá því að veita Evrópuvaktinni styrk að nýju. Um það snýst málið, ekki síst af hálfu þeirra sem vita að þeir yrðu aldrei gjaldgengir gagnvart úthlutunarnefndinni.

 

Þriðjudagur 03. 04. 12 - 3.4.2012 22:10

Það er með ólíkindum að fylgjast með skrifum Teits Atlasonar, bloggara DV, um Evrópuvaktina og styrk alþingis til síðunnar. Eftir að hann hafði fimbulfambað um málið í nokkrum pistlum tók Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG, undir með honum og gaf til kynna að Evrópuvaktin hefði ekki staðið alþingi reikningsskil gerða sinna.

Þungamiðja þessara furðuskrifa snýst um að ég hafi ekki hitt neina viðmælendur á ferð minni til Brussel, Berlínar og Frankfurt þar sem ég hafi aðeins nafngreint einn þeirra, Hans Olaf Henkel, en Teitur hefur tekið sér fyrir hendur að útmála hann í skrifum sínum. Teitur birtir pistil á dv.is í dag þar sem hann lætur enn eins og óvíst sé að ég hafi hitt um 40 einstaklinga og greint alþingi frá nöfnum þeirra. Alþingi hafði þó sent honum í gær lista með nöfnum þessa fólks. Teitur er kannski tekinn til við að rannsaka hvort ég hafi hitt fólkið?

Samhliða því sem Teitur spinnur þennan þráð um að ég hafi ekki talað við neinn hefur hann og síðan Álfheiður látið að því liggja að ég hafi varið stórfé til dvalar minnar  í Belgíu og Þýskalandi 11. október til 11. nóvember. Vegna þessara skrifa hefur alþingi sent Teiti og Álfheiði reikningsskil Evrópuvaktarinnar til fróðleiks og við höfum einnig birt þau á Evrópuvaktinni eins og sjá má hér. Þar kemur í ljós að Evrópuvaktin greiddi 911.416 kr. vegna mánaðardvalar minnar erlendis. Er óravegur milli þeirrar tölu og spunatalna Teits.

Þess má geta að Teitur hefur ekki látið við það sitja fara með fleipur um viðmælendur mína og semja eigin reikninga fyrir Evrópuvaktina.  Hann hefur einnig talið sé fært að kenna mér blaðamennsku og hvernig eigi að skrifa greinar þegar heimildarmenn vilja ekki að nafns þeirra sé getið eða rætt er við þá með því fororði að það sé ekki gert. Virðing fyrir heimildarmönnum og vernd þeirra er eitt grundvallaratriða í blaðamennsku.

Mánudagur 02. 04. 12 - 2.4.2012 22:41

Í dag birtist skoðanakönnum sem segir að Sjálfstæðisflokkurinn með 38% fylgi og Framsóknaflokkurinn með 13% fylgi fengju samtals 51% atkvæða ef kosið yrði núna, stjórnarflokkarnir fengju aðeins 28%, Samfylking 17% og VG 11%. Í janúar 2009 þegar ríkisstjórn Geirs H. Haarde stóð verst fékk hún 26%.

Stjórnarsamstarfið er í molum og hefur ekki styrkst eftir að stjórnarflokkarnir gerðu leynisamninginn við Hreyfinguna. Samningurinn varð til þess að stjórnaskrármálið breyttist endanlega í hringavitleysu milli alþingis og stjórnlagaráðs. Hún hefur ekki orðið til þess að auka fylgi ríkisstjórnarinnar.

Hér hefur því verið haldið fram frá því að Jóhanna Sigurðardóttir varð forsætisráðherra að hún mundi sitja þar til henni yrði bolað út úr embætti af þingflokki Samfylkingarinnar. Hann ber höfuðábyrgð á núverandi stöðu. Þar á bæ hefur enginn haft þrek til að snúast gegn Jóhönnu. Þingmenn Samfylkingarinnar eru meiri skræfur en Jón Bjarnason, fyrrverandi ráðherra. Hann hikar ekki við að segja Jóhönnu upphaf og endi alls ills í stjórnarsamstarfinu. Jón skortir þó kjark til að breyta þessum orðum í atkvæði gegn Jóhönnu í þingsalnum.

Sunnudagur 08. 04. 12 - 1.4.2012 23:40

Gleðilega páska!

Það var gott framtak hjá sjónvarpinu að sýna myndirnar 79 af stöðinni  og Mamma Gógó nú um páskana. Um 50 ár eru á milli þess sem myndirnar eru gerðar.  Tækninni hefur fleygt fram en gildið felst í leikstjórn og leik. Hvorugt bregst.  Þá eykst sögulegt og listrænt gildi við að unnt er að tengja myndirnar  með hinum frábæru leikurum Kristbjörgu Kjeld og Gunnari Eyjólfssyni. Friðriki Þór fellir myndirnar saman á einstakan hátt.

Klukkan 13.00 fórum við í messu í Krosskirkju í Landeyjum þar sem séra Önundur Björnsson predikaði. Þarna er staðarlegt, skammt frá ströndinni.  Kirkjan var byggð árið 1850. Altaristaflan er að minnsta kosti frá 1650.  Kirkjan er með elstu timburkirkjum landsins og einnig altaristaflan, sagan segir að henni hafi verið bjargað í land frá Vestmannaeyjum þegar Tyrkir fóru þar um rænandi og ruplandi 1627.

Sunnudagur 01. 04. 12 - 1.4.2012 21:00

Kvartett Kammersveitar Reykjavíkur efndi til tónleika í hádeginu í dag í Kaldalóni í Hörpu og flutti kvartetta eftir Svein Lúðvík Björnsson ...og í augum blik minninga og eftir Jón Leifs Vita et mors Líf og dauði.

Ég hef ekki áður hlýtt á tónleika í Kaldalóni, kunni ég vel við salinn, þótt hann sé dimmur og mikill munur á honum og birtunni yfir höfninni í hádegiskyrrðinni. Klukkan 12.00 sigldi Týr inn um hafnarkjaftinn, málaður í litum ESB með gylltar stjörnur til marks um að hann hefði sinnt fiskveiðieftirliti á vegum Evrópusambandsins.

Seinni hluti ESB-umfjöllunar Landans var ekki síður stílbrot á góðum þætti en hinn fyrri. Það kemur mér enn á óvart að ráðist hafi verið í þetta verkefni. Gísli Einarsson, ritstjóri Landans, hefur fullvissað okkur áhorfendur um að ESB hafi ekki kostað innslagið.