16.4.2012 23:12

Mánudagur 16. 04. 12

Með því að hörfa sífellt í það skjól að þjóðin muni að lokum segja síðasta orðið um einhvern samning sem einhvern tíma verði gerður við Evrópusambandið sýna ráðherrar ríkisstjórnarinnar af sér mesta ráðaleysi frá því að þeir sátu uppi með Icesave-samning sem þjóðin hafnaði. Þeir segja aldrei hverju þeir vilja ná fram gagnvart Evrópusambandinu heldur eigi að kanna kosti og galla aðildar á grundvelli einhvers sem enginn veit hvað er af Íslands hálfu. Formaður viðræðunefndar Íslands segir það sitt hlutverk að móta samningsmarkmiðið. Hann muni að vísu kynna það fyrir ríkisstjórn og utanríkismálanefnd verði látin vita af því hvert það verður.

Alvarlegasta hlið nýjasta klúðurs ríkisstjórnarinnar í Icesave-málinu er framganga utanríkisáðherra gagnvart ríkisstjórninni og utanríkismálanefnd. Hvorugur aðili fékk að vita neitt um málið fyrr en kvöldið áður en skila átti svari til EFTA-dómstólsins, svarið hafði verið samið þegar sagt var frá því opinberlega að þess hefði verið óskað um tveimur vikum fyrr. Þessi málsmeðferð gefur vísbendingu um hvernig staðið verður að málum þegar embættismenn hætta að opna og loka samningsköflum sem i raun þarf ekki að ræða af því að efni þeirra liggur fyrir í EES-samstarfinu.

Undanfarnir dagar hafa einnig leitt í ljós að ráðherrar VG kunna að reka upp öskur yfir einhverju sem kemur frá Brussel en þau þarf ekki að virða frekar en öskur pappírstígrisdýra. Eftir að ráðherrarnir hafa dregið í land til að halda í stólana grípa þeir til þess ráðs að kenna loforðasvik sín við pólitíska víðsýni. Kannanir sýna að kjósendur eru ekki á sama máli. VG er að breytast í kulnaða stjörnu á hinu pólitíska himinhvolfi og fulltrúar flokksins á þingi verða eins og verur frá öðrum hnetti – að minnsta kosti ekki frá hinum sama og fyrir kosningar 2009 þar sem andstaða við ESB ríkti.