Dagbók: júní 2006
Fimmtudagur, 29. 06. 06.
Klukkan 11.30 efndi ég til blaðamannafundar í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og kynnti þar matsskýrslu tveggja sérfræðinga Evrópusambandsins um hryðjuverkavarnir á Íslandi, en þar kemur fram tillaga um, að innan embættis ríkislögreglustjóra verði stofnuð sérstök þjóðaröryggisdeild á grundvelli sérstakra laga og undir eftirliti dómara og alþingis.
Ég bendi áhugasömum lesendum síðu minnar að lesa fréttatilkynningu, sem ég lagði fram á fundinum og skýrsluna, sem er á vefsíðu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Ég hefði haldið, að Össur Skarphéðinsson myndi gefa sér tíma til að lesa þessi gögn, áður en hann ræddi þau á vefsíðu sinni en þar segir meðal annars:
„Ég stend svo agndofa gagnvart þeim parti fréttatilkynningarinnar, þar greint er frá tillögu um að stofna sérstaka þjóðaröryggisdeild við embætti ríkislögreglustjóra með 25-30 manna starfsliði! Var ekki verið að boða niðurskurð í ríkisfjármálum? Eru menn gengnir af göflunum? Var ekki verið að setja á stofn umdeilda greiningardeild, sem einmitt átti að vinna gegn hryðjuverkum og landráðum? Eitthvað kostar hún."
Hvar er tekið fram í fréttatilkynningunni, að 25 til 30 manns eigi að starfa við þessa deild? Ég sé það hvergi í henni og raunar er engin tala um starfsmannafjölda nefnd í matsskýrslunni. Dr. Niels Bracke, lögfræðingur á aðalskrifstofu ráðherraráðs Evrópusambandsins, nefndi hins vegar þessa tölu í samtali við fréttamenn, en hann er ekki að tala um nýja starfsmenn heldur þá, sem sinna þyrftu verkefnum á grundvelli nýrra laga, yrðu þau sett. Vafalaust kalla ný verkefni lögreglu á fjölgun starfsmanna og það er nýjung að heyra það frá stjórnarandstöðunni, að lögreglumenn séu orðnir nógu margir. Hvernig væri, að Össur bæri málið undi Jóhönnu Sigurðardóttur, flokkssystur sína? Hún hefur ekki verið þessarar skoðunar fram að þessu. Greiningardeild lögreglunnar kallar ekki á nýja starfsmenn heldur áherslubreytingar í störfum innan lögreglunnar. Össur veit mæta vel, að frumvarpinu með ákvæðum um greiningardeildina fylgdi kostnaðarmat og ég man ekki eftir því, að nokkur þingmaður kvartaði undan því, að útgjöld væru of mikil samkvæmt frumvarpinu - raunar snerta þau helst flutning verkefna til embætta sýslumanna utan höfuðborgarsvæðisins. Óvild Össurar í garð ríkislögreglustjóra og embættis hans er ekki ný af nálinni, en hún er Össuri ekki til neins sóma, ég hef aldrei heyrt nein haldbær rök fyrir henni.
Miðvikudagur, 28. 06. 06.
Evrópunefnd hélt ráðstefnu um EES-samninginn og framtíð hans í Súlnasal Hótel Sögu og setti ég hana kl. 08.45 en Össur Skarphéðinsson stjórnaði henni. Lauk ráðstefnunni, sem var vel sótt, með hádegisverði. Ræðumenn voru frá EFTA, Liechtenstein, Noregi og Sviss.
Klukkan 16.00 vorum við Össur í síðdegisútvarpi rásar 2 og ræddum um ráðstefnuna og stefnu Íslands í Evrópumálum.
Þriðjudagur, 27. 06. 06.
Traustvekjandi og ánægjulegt var að fylgjast með því, að vel hefði tekist að virkja öflugt lið á skjótan hátt til að bregðast við hættunni á Eskifirði vegna klór-eiturgufanna í sundlauginni, þegar flytja þurfti nálægt 30 manns undir læknishendur. Enn á ný sannaði samhæfingarmiðstöðin í Skógarhlíð gildi sitt á stundum sem þessari og er ómetanlegt, að þar skuli björgunarsveitir, lögregla, slökkvilið og landhelgisgæsla starfa saman undir einu þaki og á örskömmum tíma sé unnt að samhæfa krafta, þekkingu, þjálfun og tæki þessa öfluga liðs auk þess sem heilbrigðisstarfsmenn komu inn í miðstöðina og stofnanir þeirra um land allt en þó einkum fyrir austan brugðust rétt og vel við hættunni.
Var klukkan 15.30 í Þjóðmenningarhúsinu og tók þátt í athöfn vegna undirritunar á samningi lögregluskóla Íslands og Noregs við CEPOL, samstarfsvettvang evrópskra lögregluskóla, en aldrei fyrr hafa lögregluskólar utan Evrópusambandsins fengið aðild að þessu samstarfi.
Mánudagur, 26. 06. 06.
Ég ákvað í sveitinni í gær að taka mér sumarleyfi frá pistli um þessa helgi, enda hef ég verið að hugsa um annað en málefni líðandi stundar - meðal annars sökkt mér ofan í góða bók, sem ég nýti mér síðar í blaðagrein eða skrifa um í Þjóðmál.
Athygli mín var vakin á grein um taj tsjí og qi gong, sem birtist í The International Herald Tribune 6. júní í tilefni af nýlegum, árlegum, alþjóðadegi þessara kínversku æfinga, sem kalla stöðugt á æ fleiri iðkendur á Vesturlöndum. Í greininni er sagt, að í ár hafi mörg þúsund manns í 34 löndum tekið þátt í deginum, sem efnt var til í sjöunda sinn. Við í Aflinum - félagi qi gong iðkenda hér á landi höfum minnst þessa dags, þótt það hafi ekki verið gert í ár.
Greininni lýkur á þessum orðum:
„Þetta er list, sem krefst ekki neinnar sérstakrar aðstöðu, sérhannaðra tækja eða dýrs búnaðar, og með reglulegum æfingum er unnt að öðlast glæsileika, fegurð og afl á einstakan hátt og án tillits til aldurs iðkenda. Ef til vill ætti að halda alþjóðlegan taj tsjí og qi gong dag í hverri viku."
Sunnudagur, 25. 06. 06.
Fór austur í Fljótshlíð á leiðinni þangað heyrði ég enn fjallað um bréf dómsmálaráðuneytisins, sem sent var að ósk ríkislögreglustjóra til Bandaríkjanna, í hádegisfréttum hljóðvarps ríkisins. Nú var málið borið undir Sigurð Líndal, prófessor emeritus, sem taldi einsýnt, að ég bæri ábyrgð á þessu ráðuneytisbréfi eins og öðrum og sagðist fréttamaðurinn hafa borið þetta atriði undir fleiri lögspekinga og væru þeir allir sama sinnis. Ég hélt, að það þætti ekki fréttnæmt eða sérstakt rannsóknarefni, að ráðherra bæri ábyrgð á bréfum úr ráðuneyti hans. Sigurður Líndal taldi uppsetningu bréfsins vera óheppilega, ef ég skildi hann rétt - í stað þess að hafa beiðni ríkislögreglustjóra í meginmáli ráðuneytisbréfsins hefði bréf hans átt að vera fylgiskjal með bréfi ráðuneytisins. Þetta er að sjálfsögðu matsatriði við opinbera skjalagerð. Sigurður taldi langsótt, að bréfið ylli vanhæfi mínu eða setts ríkissaksóknara í Baugsmálinu.
Þegar ég var í heyskap úti á túni við traktorinn hringdi fréttamaður hljóðvarpsins og vildi ræða við mig um bréfið, hann heyrði þó tæplega í mér fyrir vélarhávaða. Ég taldi ekkert óeðlilegt við þetta bréf. Síðan barst mér símtal og tölvubréf frá Fréttablaðinu um þetta sama mál og byggðust spurningarnar á ummælum Sigurðar Líndals. Ég sagði það vissulega verðugt íhugunarefni, hvort fella ætti efni tilmæla af þessu tagi inn í meginmál ráðuneytisbréfs eða senda tilmælin sem fylgiskjal með ráðuneytisbréfi. Hvor aðferðin væri heppilegri en hin væri matsatriði.
Laugardagur, 24. 06. 06.
Tók því rólega í veðurblíðunni og gaf mér tíma til að hvíla mig eftir atburði vikunnar. Um kvöldmatarleytið barst mér Morgunblaðið með miklu viðtali við Jón Gerald Sullenberger. Ég hafði varla lokið við að lesa það, þegar ég sá yfirlýsingu frá Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, forstjóra Baugs á Mbl.is, þar sem segir meðal annars:
„Björn Bjarnason boðaði á heimasíðu sinni 15. mars að þótt sýknað hefði verið í málinu gegn mér og öðrum, þá myndi það halda áfram. Vísaði hann til þess að þó að Júlíus Sesar hafi verið myrtur þá hafi Rómaveldi lifað. Baugsmálinu var framhaldið og tveimur dögum síðar ritar ráðuneyti Björns dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna bréf með beiðni um aðstoð þarlendrar lögreglu við yfirheyrslur tilgreindra einstaklinga í Flórída. Í bréfinu er mjög hallað réttu máli gagnvart mér og öðrum sakborningum í Baugsmálinu. Þarna hefur gremja Björns verið skynsemi hans sterkari og hann freistast til að hafa bein afskipti af málinu, sem hann þykist þó aldrei hafa gert. Styrmir beitir síðan Morgunblaðinu með eftirgreindum hætti til að reyna að bæta ímynd Jóns Geralds Sullenberger eftir útreiðina sem hann hefur fengið í dómssölum:......"
Samsæriskenningar verða ekki sannar, þótt þær séu endurteknar og settar í nýtt og nýtt samhengi.
Föstudagur, 23. 06. 06.
Klukkan 10. 40 kom Rita Kieber-Beck, utanríkisráðherra Liechtenstein og fylgdarlið, til fundar við mig í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og ræddum við störf Evrópunefndar og Schengensamstarfið, en Liechtenstein er að gerast aðili að því.
Klukkan 15.00 flutti ég hátíðarræðu í Háskólabíói við útskrift hjá endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands.
Á meðan ég var erlendis kom síðan eða færsla á hana 15. mars 2006 til umræðu í málflutningi vegna Baugsmálsins og var þess krafist, að settur ríkissaksóknari yrði lýstur vanhæfur vegna orða minna þar. Þá sé ég, að G. Pétur Matthíasson, fréttamaður sjónvarps, mun hafa sagt frá því á pressukvöldi blaðamannafélagsins, að hann hafi hætt að lesa vefsíðu mína, af því að hann treysti sér ekki til að fjalla um mál, sem tengdust mér, ef hann héldi að lesa hina ósanngjörnu gagnrýni mína í sinn garð.
Ólafur Teitur Guðnason segir frá því í Viðskiptablaðinu í dag, að hann hafi af þessu tilefni grandskoðað síðuna mína til að leita að því, sem særði G. Pétur og fann hann færslu 30. maí 1998 og aðra 7. júní 1998. Ólafur Teitur telur greinilega ástæðulaust fyrir G. Pétur að hætta að lesa síðuna mína af þessu tilefni. Gaman væri að Ólafur Teitur kannaði hve oft og af hvaða tilefni G. Pétur hefði fjallað um mig eða mál mér tengd síðan 1998. Hvað skyldi G. Pétur hafa sagt frá mörgum þingmálum mínum í vetur sem þingfréttaritari sjónvarps? Ég hef hreinlega ekki hugmynd um það og kippi mér ekki upp, hvort þau eru fleiri eða færri.
Fimmtudagur, 22. 06. 06.
Miðvikudagur, 21. 06. 06.
Þriðjudagur, 20. 06. 06.
Dómsmálaráðherrafundur Norðurlanda hófst klukkan 09.00 í Utstein klaustri, þar sem Haraldur háragri dvaldist forðum og Magnús lagabætir, áður en hann varð Noregskonungur 1263. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið sendi út fréttatilkynningu um fundinn.
Síðdegis var siglt inn Lysefjorden og síðan var kvöldverður í Utstein klaustri.
Mánudagur, 19. 06. 06.
Laugardagur, 17. 06. 06.
Fórum rúmlega 10.00 niður í alþingishús en þaðan var gengið fylktu liði um klukkan 10.30 út á Austurvöll en þar voru þjóðhátíðarhöld með hefðbundnu sniði.
Í stað þess að ganga til kirkju hröðuðum við okkur austur í Fljótshlíð en þar flutti ég ræðu á hátíð heimamanna í Goðalandi.
Handboltaliðið náði glæsilegum árangri gegn Svíum og tyggði sér þátttöku í HM.
Skýrt var frá því, að kærunefnd útboðsmála hefði komist að þeirri niðurstöðu, að Reykjavíkurborg undir stjórn R-listans hefði ekki staðið rétt að útboði um hugmyndasamkeppni vegna Vatnsmýrarinnar. Ég minni á það, sem ég hef skrifað um þetta mál hér á síðunni, en samkeppnin átti að vera skrautfjöður hjá Degi B. Eggertssyni fyrir kosningarnar. Nú kemur í hlut sjálfstæðismanna að leiðrétta mistökin. Raunar hef ég verið þeirrar skoðunar, að ótímabært sé á þessu stigi að fara í þessa samkeppni, fyrst þurfi að taka pólitískar ákvarðanir um framtíð flugvallarins.
Föstudagur, 16. 06. 06.
Ný ríkisstjórn kom saman til fyrsta fundar kl. 11.30.
Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins hittist klukkan 16.00 til að ræða stjórnmálaviðhorfið.
Fimmtudagur, 15. 06. 06.
Ríkisstjórnin kom saman klukkan 11.00 í ráðherrabústaðnum og var það síðasti fundur hennar undir forsæti Halldórs Ásgrímssonar.
Klukkan 12.00 hófst síðan ríkisráðsfundur á Bessastöðum og var þar leitað endurstaðfestingar á tillögum, sem forseti hafði samþykkt utan ríkisráðsins. Fundinum var slitið að því loknu.
Við svo búið var settur nýr ríkisráðsfundur og þar baðst Halldór lausnar sem forsætisráðherra og gerði tillögu um Geir H. Haarde í sinn stað, auk þess sem hann baðst lausnar fyrir þau Jón Kristjánsson félagsmálaráðherra og Sigríði Önnu Þórðardóttur umhverfisráðherra.
Gert var hlé á fundinum og snæddur hádegisverður. Eftir hann var fundi fram haldið og þá komu þau Jón Sigurðsson verðandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Jónína Bjartmarz verðandi umhverfisráðherra og Magnús Stefánsson verðandi félagsmálaráðherra á fundinn, en Halldór, Jón og Sigríður Anna hurfu af vettvangi. Geir H. Haarde gerði tillögu um skipan þeirra í ríkisstjórnina og skipan Valgerðar Sverrisdóttur sem utanríkisráðherra og rituðu þau undir drengskaparheit.
Klukkan var um 15. 30 þegar fundarhöldum og formlegheitum var lokið og loks var tekin mynd af nýrri ríkisstjórn á tröppum Bessastaða.
Í dag rita þeir Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, og Guðmundur Ólafsson, hagfræðingur, um Fréttablaðið, Jóhann Hauksson og bréf mitt í Blaðið. Ég dreg þá ályktun af grein Marðar, að hann hafi ekki kynnt sér málið, því að hann óskar eftir, að bréf mitt verði birt - en það hefur verið hér á síðunni frá 2. júní og er síður en svo nokkurt leyndarmál. Annars er Mörður almennt miður sín yfir þróun Fréttablaðsins. Guðmundur Ólafsson nálgast þetta mál þó á frumlegasta hátt til þessa, og rökstyður niðurstöðu sína með dómi, sem Hjördís Hákonardóttir, þáverandi héraðsdómari, felldi í máli Guðjóns Andréssonar gegn dómsmálaráðherranum Þorsteini Pálssyni, Guðjóni í vil. Vegna þessa dóms hafi ég ekki skipað Hjördísi hæstaréttardómara, við Þorsteinn hefðum einfaldlega ofsótt hana og við séum því einnig að ofsækja Jóhann Hauksson. Ég klóra mér aðeins undrandi í höfðinu, þegar ég les þetta. Hvað er eiginlega á seyði? Við hvaða kviku hef ég komið?
Ritaði grein í Morgunblaðið og svaraði Ragnari Aðalsteinssyni hrl.
Miðvikudagur, 14. 06. 06.
Evrópunefnd kom saman í hádeginu.
Ef marka má leiðarann í Fréttablaðinu í dag hefur litla bréfið, sem ég sendi Þorsteini Pálssyni, ritstjóra blaðsins, 2. júní valdið miklu uppnámi á ritstjórn blaðsins. Jón Kaldal, höfundur leiðarans, en hann ber fyrirsögnina: Björn Bjarnason og Fréttablaðið kallar mig „holdgerving“ þeirra manna, sem „hafa haft horn í síðu blaðsins allt frá því það var stofnað fyrir ríflega fimm árum.“ Hvorki meira né minna og Jón líkir mér við „hrekkjusvín“, en í Íslenskri orðabók er orðinu lýst á þennan veg: (yfirleitt barnamál) síhrekkjandi krakki (sjaldnar fullorðinn).
Jón Kaldal segir í upphafi leiðarans:
„Einhver fjarstæðukenndasta kenning sem lengi hefur skotið upp kollinum er sú hugmynd að Björn Bjarnason dómsmálaráðherra hafi áhrif á hvernig málum er háttað á ritstjórn Fréttablaðsins. Það er fullkomin della, eins og öllum má vera ljóst, nema ef til vill þeim sem hefur kalið hjarta við of miklar bollaleggingar um bláa hönd.“
Hallgrímur Helgason, höfundur bláu handarinnar, fær þarna óblíða kveðju.
Jón Kaldal tekur fram, að blaðamönnum Fréttablaðsins hafi tekist „bærilega að hefja sig yfir þessi ónot dómsmálaráðherra“ þeir hafi freistað þess eins og unnt sé að hafa samskipti við mig á „sömu forsendum og samskipti við aðra ráðamenn landsins, þrátt fyrir að sá samstarfsvilji hafi ekki alltaf verið gagnkvæmur.“ Hér hefði Jón mátt vera skýrmæltari. Samskipti mín við blaðamenn Fréttablaðsins eru á þann veg, að ég leitast við að svara þeim spurningum, sem þeir senda mér í tölvupósti, þar sem blaðið fylgir þeirri reglu að gefa viðmælendum sínum ekki færi á því að lesa yfir, sem eftir þeim er haft.
Undir lok leiðarans segir Jón Kaldal:
„Rétt er að benda á að eina heimildin fyrir því að skoðanir dómsmálaráðherra hafi haft áhrif á tilfærslu Jóhanns (Haukssonar innan ritstjórnar Fréttablaðsins innsk. mitt) er hann sjálfur. Í því samhengi er hitt miklu mikilvægara að ef blaðamönnum Fréttablaðsins dytti í hug eina sekúndu að skoðanir Björns Bjarnasonar hefðu nokkuð með mannahald blaðsins að gera, er hægt að fullyrða að allsherjar uppreisn yrði gerð á ritstjórninni. - Það hefur ekki gerst og segir meira en mörg orð.“
Þessi orð Jóns Kaldals sýna, að bréf mitt hefði frekar átt að styrkja stöðu Jóhanns Haukssonar innan ritstjórnar Fréttablasðins en veikja! Það dugði honum hins vegar ekki, þegar hann stóð frammi fyrir skipulagsbreytingum.
Þriðjudagur, 13. 06. 06.
Gleðidagur fyrir Reykvíkinga, þegar nýr meirihluti tekur við völdum í borgarstjórn og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson verður borgarstjóri og Hanna Birna Kristjánsdóttir forseti borgarstjórnar.
Þegar skoðað er, hvernig verkum er skipt milli sjálfstæðismanna og framsóknarmannsins í borgarstjórn, sést, að allt talið undanfarna daga um óeðlileg mikil völd og áhrif framsóknarmannsins hefur einfaldlega verið spuni úr andstæðingum sjálfstæðismanna, sem fjölmiðlamenn hafa endurtekið. Hallgrímur Thorsteinsson á NFS má eiga það, að hann var farinn að átta sig á spunanum og varaði við því, að taka hann trúanlegan - skiptin yrðu líklega 30/70 sjálfstæðismönnum í vil. Líklega er það nálægt sanni, séu áhrif sjálfstæðismanna ekki meiri en 70%.
Sumarhefti Þjóðmála undir ritstjórn Jakobs F. Ásgeirssonar kom út í dag og setja greinar um varnarmálin og hrakspárnar um útrásina strekan svip á tímaritið að þessu sinni. Þjóðmál eru lifandi og skemmtilegur umræðuvettvangur. Hvet ég lesendur síðu minnar til að kynna sér tímaritið, en á netinu er unnt að gerast áskrifandi á www.andriki.is
Mánudagur 12. 06. 06.
Dag hvern eru rituð hundruð þúsunda bréfa til ritstjóra blaða um heim allan, þar sem lesendur lýsa skoðunum sínum á því, sem birtist í blaði ritstjórans og koma athugasemdum sínum á framfæri.
Á dögunum ritaði ég Þorsteini Pálssyni, ritstjóra Fréttablaðsins, bréf vegna þess, sem í blaði hans birtist og sendi auk þess afrit til Jóhanns Haukssonar, blaðamanns, en í bréfinu gerði ég rökstudda athugasemd við skrif hans.
Þetta litla bréf mitt hefur orðið Jóhanni Haukssyni tilefni til að láta í veðri vaka, að sér hafi vegna þess verið hrókerað innan ritstjórnar Fréttablaðsins, en hrókeringin leiddi síðan til þess, að Jóhann hætti þar störfum. Þorsteinn Pálsson segir (http://mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1207031) þessi ummæli Jóhanns um áhrif bréfs míns ekki eiga við nein rök að styðjast.
Hallgrímur Helgason rithöfundur sá ástæðu til að skrifa 12. júní leikþátt í Fréttablaðið af þessu sama tilefni og lét eins og við Þorsteinn hefðum rætt saman í síma, sem er hugarburður höfundarins. Um hlut Hallgríms segir í yfirlýsingu Þorsteins Pálssonar: „Vegna greinar Hallgríms Helgasonar rithöfundar í Fréttablaðinu í gær (svo!) um þetta mál get ég upplýst að fréttaritstjóri Fréttablaðsins greindi honum frá staðreyndum þessa máls áður en greinin fór í birtingu. Hallgrímur Helgason rithöfundur ver svo heiður sinn sjálfur.“
Allir fjölmiðlar hafa verið með fréttir um málið.
Þetta er einkennilegur fréttaspuni um atvik, sem alltaf eru að gerast á öllum ritstjórnum, að mönnum er falið að sinna nýjum verkefnum. Þeir ráða því síðan auðvitað sjálfir, hvort þeir taka að sér þessi verkefni eða kjósa að róa á önnur mið. Að ég hafi mælst til breytinga á ritstjórn Fréttablaðsins er í einu orði sagt fráleitt. Ég vil hins vegar eiga sama rétt og aðrir til að skrifa ritstjóra blaðsins bréf, ef mér þykir tilefni til þess. Ég hefði kannski losað okkur undan þessum fréttaspuna, ef ég hefði hvorki sent Jóhanni afrit af bréfinu né birt það hér á síðunni.
Sunnudagur, 11. 06. 06.
Var klukkan 10.00 við Fossvogskapellu, þar sem látinna sjómanna var minnst við öldurnar, sem geyma nöfn rúmlega 300 sjómanna, sem farist hafa á hafi úti síðan á fjórða áratugnum. Séra Hjálmar Jónsson dómkirkjuprestur flutti bæn og ritningarorð, Ásgeir H. Steingrímsson trompettleikari lék og starfsmenn landhelgisgæslunnar stóðu heiðursvörð.
Klukkan 11.00 var ég við sjómannamessu í Dómkirkjunni, þar sem séra Hjálmar þjónaði fyrir altari en herra Karl Sigurbjörnsson biskup prédikaði.
Eftir hádegi fórum við í Krók í Garðabæ, lítinn bárujárnsklæddan burstabæ, sem var endurbyggður úr torfbæ árið 1923, þar var búið til ársins 1985, þegar Þorbjörg Stefanía Guðjónsdóttir, sem þar bjó lést, en hún og maður hennar Vilmundur Gíslason höfðu búið í Króki síðan 1934. Afkomendur Þorbjargar og Vilmundar í Króki gáfu Garðabæ bæinn ásamt útihúsum og innbúi árið 1998 með því skilyrði að bærinn yrði endurbyggður og nú er hann opinn fjórða sumarið síðdegis á sunnudögum og er vel þess virði að gera sér ferð í Krók og skoða það, sem þar er að sjá.
Við litum einnig inn í hið fallega náttúrugripasafn í Kópavogi og fyrir utan að skoða safnið var ánægjulegt að sjá þar leirstyttur Guðmundar frá Miðdal af fuglum og dýrum af norðurslóðum.
Laugardagur, 10. 06. 06.
Föstudagur, 09. 06. 06.
Var klukkan 14.00 í flugskýli Landhelgisgæslu Íslands (LHG) á Reykjavíkurflugvelli og ritaði undir samning við norska fyrirtækið AirLift um leigu á SuperPuma þyrlu frá og með 1. október nk. í að minnsta kosti eitt ár.
Með þessum samningi er stigið fyrsta skrefið í átt að því að stórefla þyrlubjörgunarsveit LHG. Innan skamms verður gengið frá samningi um Dauphin þyrlu frá og með 1. október, þannig að gæslan ráði yfir fjórum þyrlum, þegar varnarliðsþyrlurnar hverfa, tveimur SuperPuma og tveimur Dauphin. Markmiðið er hins vegar að gæslan ráði yfir þremur þyrlum, sem eru sambærilegar við SuperPuma þyrluna auk þess sem ég tel skynsamlegt, að þyrlurnar verði fjórar og hin fjórða verði á borð við Dauphin. Tillögu um hina varanlegu lausn hef ég í hyggju að leggja fram nú í júní.
Landhelgisgæslan er að ganga í endurnýjun lífdaga með nýjum lögum, nýjum höfuðstöðvum við Skógarhlíð, nýju varðskipi, nýrri flugvél og nýjum þyrlum. Þá hefur LHG tekið að sér rekstur Vaktstöðvar siglinga, sem einnig er í Skógarhlíð. Flugdeild LHG hefur verið endurskipulögð og er Geirþrúður Alfreðsdóttir, flugmaður, nýr flugrekstrarstjóri.
Ég heyrði í fréttum í kvöld, að rannsóknarnefnd sjóslysa teldi, að virkja hefði átt samhæfingarmiðstöðina í Skógarhlíð við slysið á Viðeyjarsundi í fyrra. Nú hefur verið búið svo um hnúta með flutningi LHG og öllu skipulagi í Skógarhlíð, að samhæfingarmiðstöðin er virkjuð, hvort heldur slys verða á sjó eða landi og fulltrúar allra viðbragðs- og björgunaraðila eiga þar snurðulaus samskipti.
Tugir frumvarpa frá ríkisstjórninni urðu að lögum síðustu daga þingsins. Hið einkennilega er, að minna er rætt um þau öll og áhrif þeirra en tvö frumvörp, sem ekki urðu að lögum, það er um nýsköpunarmál og ríkisútvarpið. Það var ekki viljaleysi hjá stjórnarliðum, sem leiddi til þess, að þessi tvö frumvörp voru ekki lögfest. Stjórnarandstaðan mátti ekki heyra á það minnst, samþykkti að öll önnur mál næðu fram, svo framarlega sem þessi tvö biðu. Síðan talar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, hneyksluð um óvissu í málum ríkisútvarpsins!
Fimmtudagur, 08. 06. 06.
Klukkan 18.00 var kveðjuhóf fyrir fráfarandi borgarstjórn í Höfða, en við erum sex, sem hverfum nú úr borgarstjórninni: Alfreð Þorsteinsson, Anna Kristinsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir auk mín.
Í dag kvað Hæstiréttur upp dóm vegna kæru Ragnars Aðalsteinssonar hrl. fyrir hönd Jóns Ólafssonar, sem kenndur er við Skífuna, vegna rannsóknar efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra í skattamáli Jóns. Ragnar krafðist þess að rannsóknin yrði felld niður meðal annars, af því að ríkislögreglustjóri væri vanhæfur, þar sem ég hefði veist að Jóni í borgarstjórn 18. desember 2003 og hér á vefsíðu minni og tengdust þær ávirðingar málinu.
Er þetta í annað sinn, sem borið er undir hæstarétt, hvort unnt sé að halda áfram sakamáli vegna ummæla minna. Í báðum tilvikum hefur rétturinn komist að þeirri niðurstöðu, að ég hafi frelsi til að tala og skrifa á þann veg, sem ég hef gert, án þess að spilla fyrir framgangi réttvísinnar. Ég er dáilítið undrandi á því, að Ragnar Aðalsteinsson hrl. skuli vilja þrengja málfrelsi stjórnmálamanna á þann veg, sem fram kemur í kæru hans. Ragnar hefur gengið fram fyrir skjöldu sem málsvari mannréttinda og fátt er mikilvægara í frjálsu þjóðfélagi en rétturinn til að tjá sig opinberlega án tillits til stéttar og stöðu.
Hér kemur sá kafli úr dómi hæstaréttar, sem um þetta snýst:
Lesa meira
Miðvikudagur, 07. 06. 06.
Sat kvöldverð í boði Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra í Perlunni fyrir starfsbræður hans frá Eystrasaltsríkjunum. Halldór flutti ræðu og mæltist vel. Göran Persson, forsætisráðherra Svía, þakkaði fyrir hönd gesta og fyrri hluti ræðu hans var einlægt lof um Halldór í tilefni þess, að hann væri að hætta sem forsætisráðherra. Við mitt borð höfðu erlendir gestir á orði, að slíkt hrós byggðist aðeins á góðum og löngum kynnum.
Ég sé, að www.andriki.is tekur upp hanska minn gagnvart Fréttablaðinu vegna ómaklegra skrifa Jóhanns Haukssonar, þingfréttaritara blaðsins, um föður minn og vegna heilaspuna Jóhanns í tilefni af brotthvarfi Davíðs Oddssonar úr stjórmálum, en ég vakti máls á þessum spuna hér á síðunni í gær.
Stjórnmálaskrif af þessu tagi eru marklaus og er einkennilegt, að þau tíðkist í blaði, sem er borið inn á heimili fólks, án þess að nokkur æski þess að fá blaðið. Ég er viss um, að um það verður spurt fyrr en síðar, hvað vörn fólk hefur gegn því, að fá blöð með áreiti af þessu eða öðru tagi séu borin inn á heimili þess að því forspurðu. Unnt er að setja merki í símaskrá til að sporna gegn ónæði í síma. Hverng er unnt að verjast því, að blöðum sé stungið inn um lúguna í óþökk heimilismanna?
Lesa meiraÞriðjudagur, 06. 06. 06.
Síðasti borgarstjórnarfundur fráfarandi borgarstjórnar var í dag. Þar sá Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri til að þusa hvað eftir annað um þau ummæli Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, að sjálfsagt væri að varðveita fundarherbergi þeirra Ronalds Reagans og Mikhaíls Gorbatsjovs í Höfða í upprunalegri mynd og því með málverki af föður mínum, sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lét fjarlægja úr fundarherberginu árið 1994, skömmu eftir að hún varð borgarstjóri. Steinunn Valdís hélt einnig áfram andmælum sínum við þá tillögu Kjartans Magnússonar, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, að reist verði stytta af borgarskáldinu Tómasi Guðmundssyni - en Steinunn Valdís er andvíg styttunni, vegna þess að ekki séu nógu margar styttur af konum í borginni. Hvers vegna skyldi R-listinn ekki hafa bætt úr því á 12 árum?
Ég flutti stutta ræðu í lok fundarins og þakkaði samstarf innan borgarstjórnar. Lét þess getið, að vegna breytinga á högum mínum myndu hefði ég ekki getað setið í nefndum og ráði eins og ég hefði viljað en leitast við að sækja fundi borgarstjórnar. Mér þættu umræður þar ólíkar því, sem gerðist á alþingi, vegna þess hve þær væru oft persónulegar. Fyrir utan að starfa í þágu borgarbúa að málefnum þeirra hefði ég haft þau pólitísku markmið með þátttöku í borgarstjórn að brjóta R-listann á bak aftur, hann hefði splundrast í frumeindir, og að koma sjálfstæðismönnum í meirihluta, það hefði einnig tekist.
Ég hef fylgst með fréttum af Framsóknarflokknum í framhjáhlaupi og heyrði, að Finnur Ingólfsson væri orðinn afhuga þátttöku í stjórnmálum að nýju. Í Spegli RÚV voru tveir blaðamenn kallaðir til skrafs og ráðagerða um Framsóknarflokkinn og var Jóhann Hauksson, pólitískur blaðamaður Fréttablaðsins, annar þeirra. Hann hóf mál sitt á því að bera saman afsögn Halldórs Ásgrímssonar og Davíðs Oddssonar, lýsti skipulegri framgöngu Davíðs, fundi í Valhöll, þar sem allir hefðu verið á einu máli nema einn. Ég velti fyrir mér eitt augnablik, hver það hefði verið, af því að ég mundi ekki eftir neinum. Þá hélt Jóhann áfram og sagði mig hafa gengið fyrstan út af fundinum og taldi það til marks um andstöðu mína. Ég hef áður undrast fréttaskýringar og ályktanir Jóhanns Haukssonar - ályktun hans í Speglinum er aðeins unnt að kenna við heilaspuna. Ef sú staðreynd, að ég gangi fyrstur af fundi er að mati Jóhanns Haukssonar til marks um andstöðu við það, sem á fundinum gerist, lýsir það ótrúlegu metnaðarleysi í blaðamennsku.
Mánudagur, 05. 06. 06.
Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, efndi til blaðamannafundar í Þingvallabænum kl. 21.00 í kvöld og tilkynnti, að hann mundi leggja til á miðstjórnarfundi flokks síns síðar í vikunni, að flokksþingi yrði flýtt í haust og hann mundi þar láta af formennsku auk þess mundi hann hverfa úr stól forsætisráðherra samkvæmt nánara samkomulagi við Geir H. Haarde, sem yrði forsætisráðherra. Framsóknarmenn vildu, að ríkisstjórnin starfaði út kjörtímabilið undir nýjum forsætisráðherra.
Atburðarásin, sem Halldór kynnti, er á annan veg en lýst hefur verið, meðal annars í Morgunblaðinu, eins og sjá má í pistli, sem ég ritaði í dag. Þar var talið, að á miðstjórnarfundinum í vikunni yrði Finnur Ingólfsson valinn formaður Framsóknarflokksins og Siv Friðleifsdóttir varaformaður. Engir sérstakir heimildarmenn voru fyrir þessum fréttum en þær kölluðu fram mótmæli innan Framsóknarflokksins og hvatningu um, að ný forysta flokksins yrði valin á flokksþingi. Halldór Ásgrímsson hefur nú tekið undir þau sjónarmið og jafnframt tekið skjótt af skarið í því skyni að binda enda á frekari óróa innan flokks síns.
Ég fylgdist með NFS til að fá fréttir af blaðamannfundi Halldórs og voru þær fluttar beint en án myndar. Á meðan ég beið fréttarinnar rakst ég á endursýndan þátt, þar sem þau Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður vinstri/grænna, Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar og Ólafur Teitur Guðnason, blaðamaður, ræddu úrslit sveitarstjómarkosninganna. Ólafur Teitur hrakti með skýrum rökum þá kenningu, sem ekki síst setti svip á túlkun NFS, að kosningaúrslitin væru vinstri sveifla - það stæðist einfaldlega ekki, úr því að Sjálfstæðisflokkurinn hefði aukið fylgi sitt. Þá væri ljóst, að fyrir Samfylkinguna væri þetta versta niðurstaða hennar í Reykjavík.
Sunnudagur, 04. 06. 06.
Naut þess að vera úti við allan daginn sinna þeim störfum, sem þarf að vinna á þessum árstíma í sveitinni.
Össur hefur loks sagt álit sitt á úrslitum sveitarstjórnarkosninganna á vefsíðu sinni og honum þykir miður, hve hlutur Samfylkingarinnar er rýr. Stangast álit hans á við mat Ágústs Ólafs Ágústssonar, varaformanns Samfylkingarinnar, sem skrifaði um það, að Samfylkingin hefði víða náð góðum árangri í kosningunum. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, skellir skuldinni á innviði flokksins og stjórn þeirra, sem hefur frá áramótum verið í höndum Skúla Helgasonar og á sínum tíma fagnaði formaðurinn komu hans sérstaklega og taldi til marks um upphaf nýrri og betri tíma.
Laugardagur, 03. 06. 06.
Alþingi var slitið um klukkan 16.30 í dag og í Morgunblaðinu segir, að 89 mál hafi verið afgreidd síðasta sólarhring þingstarfanna. Öll þau mál, sem ég taldi brýnt, að næðu fram að ganga og ég flutti, urðu að lögum - þar nefni ég nýskipan lögreglumála, lög um landhelgisgæsluna og lög sem heimila SÍBS og DAS að greiða happdrættisvinninga sína í peningum. Happdrættin hafa um langt árabil óskað eftir heimild af þessu tagi en það hefur vafist fyrir mönnum, hvernig ætti að standa að heinni. Á þessu fannst farsæl lausn í frumvarpinu, sem ég flutti og alþingi samþykkti samhljóða.
Auk þessara laga nefni ég lög um vegabréf og lög um að flytja þjóðskrána frá Hagstofu Íslands til dómsmálaráðuneytisins en þetta tvennt er nátengt, því að Þjóðskrá verður lögbundinn útgefandi veganbréfanna.
Ragna Árnadóttir og samstarfsfólk hennar á lagasviði ráðuneytisins hefur staðið sig vel í samskiptum við allsherjarnefnd alþingis, sem starfar undir öruggri formennsku Bjarna Benediktssonar - en eins og áður tókst honum að ná samstöðu innan nefndarinnar um meginþorra mála á vettvangi hennar - og þau voru ekki fá.
Lögum samkvæmt ber að efna til svonefndra eldhúsdagsumræðna, sem er sjónvarpað og útvarpað, áður en þingi er slitið á vorin. Þessar umræður voru síðdegis í dag og er ég ekki frá því, að meira hafi verið sagt frá þeim í fréttum en þegar til þeirra er efnt að kvöldlagi. Kannski er þetta upphaf að nýjum sið.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, talaði svo lofsamlega um EES-samninginn, að ætla mátti, að hún hefði stutt aðild Íslands að honum, raunar hefur hún látið opinberlega eins og svo hafi verið. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra minnti á, að Ingibjörg Sólrún hefði ekki stutt samninginn á sínum tíma. Það er álíka mikil blekking eins og að láta sem svo, að það sé engum öðrum en Jóni Baldvin Hannibalssyni og jafnaðarmönnum að þakka, að Ísland sé í EES. Án einarðrar afstöðu Davíðs Oddssonar forsætisráðherra og okkar sjálfstæðismanna hefði samningurinn aldrei verið samþykktur á alþingi. Ég hef sagt það áður og endurtek það enn, að við náðum samningnum í gegnum alþingi, þrátt fyrir Jón Baldvin og uppákomur vegna yfirlýsinga hans.
Fórum austur í Fljótshlíð og ég notaði þurrkinn og kvöldkyrrðina til að slá fyrsta slátt í kringum bæinn á þessu sumri.
Föstudagur, 02. 06. 06.
Hið fyrsta sem ég gerði í morgun var að senda þetta tölvubréf til Þorsteins Pálssonar, ritstjóra Fréttablaðsins, með afriti til Jóhanns Haukssonar, blaðamanns við blaðið:
„Í Fréttablaðinu í dag ræðst Jóhann Hauksson þingfréttaritari blaðsins á ómaklegan hátt að föður mínum vegna símahlerana á árunum 1949 til 1968 um hann segir í blaðinu, að hann hafi ráðið „mestu um slíkar hleranir á sínum tíma“. Fyrir liggur sagnfræðileg rannsókn, sem sýnir, að í öllum tilvikum, sem hér er um að ræða tók sakadómari ákvarðanir um hleranir eftir að hafa fengið um það tilmæli frá dómsmálaráðuneyti en framkvæmd hlerana var í höndum lögreglu. Orð blaðamannsins standast ekki frekar en unnt er að halda því fram almennt, að þeir, sem leggi mál fyrir dómara, taki ákvörðun um niðurstöðu hans, hún ræðst af mati dómarans á því, sem fyrir hann er lagt.
Hitt er síðan einkennilegt að snúa því upp í afskipti ráðherra að nauðynlegt sé við rannsókn mála að fá skjöl frá þremur ráðuneytum forsætisráðuneyti, utanríkisráðuneyti og dóms- og kirkjumálaráðuneyti. Ef skoðun blaðamannsins á afskiptum mínum af afhendingu þessara skjala byggist á því, að ég muni standa í vegi fyrir slíkri afhendingu, er um rakalausan misskilning að ræða. Ég er eindreginn talsmaður þess að öll gögn varðandi kalda stríðið verði lögð á borðið í samræmi við það, sem segir í þingsályktunartillögu forsætisráðherra.
Ég get ekki annað en harmað þá meðferð sem þetta mál fær á síðum Fréttablaðsins, hún sýnir, að enn eru hér menn, sem geta ekki rætt þessi mál, án þess að reyna að koma höggi á einstaklinga, jafnvel þótt látnir séu.“
Ég fékk ekkert svar við þessu bréfi, hvorki frá ritstjóranum né blaðamanninum.
Tugir mála voru afgreidd og gerð að lögum á alþingi í dag, þar á meðal frumvarpið um nýskipan lögreglumála, sem unnið hefur verið að síðan haustið 2003. Var víðtæk samstaða um frumvarpið við lokaafgreiðslu þess og allur annar tónn í þingmönnum stjórnarandstöðunnar. eftir að þeir kynntu sér efni þess, en þegar það sá dagsins ljós.
Fimmtudagur, 01. 06. 06.
Þess er minnst núna, að 30 ár eru liðin frá því að ritað var undir samning Íslendinga og Breta um lyktir síðasta þorskastríðsins - en í samningnum fólst viðurkenning á yfirráðum okkar yfir 200 mílunum. Ég var ekki í Ósló, þar sem ritað var undir samninginn, en ég fylgdist náið með framvindu þorskastríðsins sem embættismaður í forsætisráðuneytinu auk þess sem ég sat fundi landhelgisnefndar og ritaði þar fundargerðir.
Ég heyrði í fréttum NFS að Bretar hefðu slitið stjórnmálasambandi við Íslendinga í síðasta þorskastríðinu - þessu var hins vegar öfugt farið, íslensk stjórnvöld slitu stjórnmálasambandinu við Breta og vinur minn Kenneth East sendiherra varð að hverfa af landi brott en kom síðan aftur og var hér sendiherra til ársins 1980, þegar hann hætti fyrir aldurs sakir. Hann er enn á lífi og hefur til skamms tíma komið hingað reglulega - eitt sinn tók ég viðtal við hann fyrir sjónvarpið með skömmum fyrirvara, en þá var ég menntamálaráðherra.
Landsstjórn Framsóknarflokksins kom saman til fundar í dag og ræddi úrslit sveitarstjórnarkosninganna í ljósi flokkshagsmuna og var ákveðið að kalla miðstjórn saman til fundar 9. júní. Framsóknarmenn vilja greina úrslitin og ræða viðbrögð við þeim.
Enn er sama þögnin innan Samfylkingarinnar um niðurstöður kosninganna, þaðan berast ekki neinar fréttir af fundum um úrslitin. Steinunn Valdís Óskarsdóttir, fráfarandi borgarstjóri, sagði að vísu í gær í sjónvarpsviðtali, að hún hefði náð betri árangri en Dagur B.