17.6.2006

Samhugur í stað sundrungar.

Þjóðhátíðarræða fyrir Fljótshlíðinga. Goðalandi, 17. júní 2006.Þegar ég ávarpaði ykkur á þessum degi í fyrra, kæru Fljótshlíðingar, fór ég tæpar tvær aldir aftur í tímann og minntist séra Tómasar Sæmundssonar á Breiðabólstað og ritstjóra Fjölnis. Hvatti ég til þess, að við myndum halda minningu hans á loft árið 2007, þegar 200 ár verða liðin frá fæðingu hans.

 

Ég veit, að síðan hefur verið hugað að því, hvernig þetta verði best gert.

 

Á næsta ári verður þess einnig minnst, að 200 ár verða liðin frá fæðingu Fjölnismannsins Jónasar Hallgrímssonar, listaskáldsins góða. Menningarfélagið Hraun í Öxnadal  hefur verið stofnað til minningar um Jónas. Að félaginu standa einstaklingar, félög og stofnanir og skipta hlut­hafar tugum. 

 

Menningarfélagið hefur keypt jörðina Hraun í Öxnadal og er nú unnið að því að koma þar á fót minningarstofu um skáldið og náttúrufræðinginn Jónas Hallgrímsson og fólkvangi.

 

Jónasar verður ekki minnst réttilega nema getið sé vináttu hans við séra Tómas og tengslanna við Fjölni. Tryggvi Gíslason, fyrrverandi skólameistari á Akureyri og forystumaður  Menningarfélagsins Hraun í Öxnadal, sagði á liðnum vetri í Lesbók Morgunblaðsins:

Tilgangurinn með útgáfu Fjölnis var því pólitískur í þeim skilningi að Fjölnismenn vildu hafa áhrif á samfélagið. Þeir horfðu til gullaldar Íslendinga, enda var trú margra á þessum tíma að þjóðveldisöld hefði verið blómatími íslenskrar menningar og hagsældar og þangað mætti sækja fyrirmyndir og hvatningu eftir mesta hörmungatíma Íslandssögunnar, 18. öldina. Ljóðið Ísland, sem birtist fremst í fyrsta árgangi Fjölnis, hefur verið talið eins konar stefnuskrá Fjölnismanna og með því kemur Jónas fyrst fram sem skáld. Kvæðið er rómantískt í þeim skilningi að litið er til fjarlægrar fortíðar en um leið er ljóðið hvatning til Íslendinga:

Það er so bágt að stand' í stað, og mönnunum munar

annaðhvurt apturábak ellegar nokkuð á leið.

Hvað er þá orðið okkart starf í sexhundruð sumur?

Höfum við gengið til góðs götuna frammettir veg?

 

Fjölnismenn mega því kallast stjórnmálamenn þess tíma og höfðu á stefnuskrá sinni að efla menntun, auka framfarir og velsæld og stuðla að sjálfstæði þjóðarinnar með því að endurreisa Alþingi á Þingvelli við Öxará.“

 

Þetta segir Tryggvi Gíslason og bætir við, Jónas Hallgrímsson megi því telja helsta stjórnmálamann síns tíma, enda hafi  vinur hans og félagi, séra Tómas Sæmundsson sagt, „að af öllum Íslendingum, sem hann þekkti, væri enginn jafn vel fallinn til, eins og Jónas, að vera forvörður Íslands í Höfn, fyrir sakir gáfna, lipurðar og manngildis.“

 

Síðustu 20 daga eða frá því að kosið var til sveitarstjórna 27. maí hefur margt verið að gerast á stjórnmálavettvangi. Alþingi var slitið 3. júní og hafði þá samþykkt næstum eitt hundrað ályktanir og lög á þremur dögum. Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, tilkynnti afsögn sína 5. júní. Þingflokkar stjórnarflokkanna komu saman 10. júní og samþykktu nýja ráðherra. Í fyrradag 15. júní varð Geir H. Haarde forsætisráðherra. Jafnframt hafa nýjar sveitarstjórnir hafið störf, með nýjum meirihluta eins og í Reykjavík eða endurnýjun meirihlutasamstarfs eins og hér í Rangárþingi eystra.

 

Þegar ég les þessa runu eins og hvert annað yfirlit með nöfnum og dagsetningum, mætti ætla, að hér hefði allt gerst sjálfkrafa og snurðulaust. Í raun gerðust þessir atburðir næsta friðsamlega miðað við hinar miklu breytingar, sem óhjákvæmilega verða í stjórnmálalífinu, þegar formaður annars stjórnarflokksins ákveður, svo að segja fyrirvaralaust, að láta af störfum og þegar þrír ráðherrar hætta í ríkisstjórn og þrír nýir koma í þeirra stað, þar af einn, sem ekki á sæti á alþingi.

 

Við allar breytingar í forystusveit stjórnmálanna losna kraftar úr læðingi og farsæld þeirra, sem sitja við stjórnvölinn, felst í því, hvort þeim tekst að virkja þessa krafta til sameiginlegs átaks eða hvort þeir sundra og splundra. Friðurinn er síður en svo sjálfgefinn.

 

Þegar Íslendingar stofnuðu lýðveldi árið 1944, báru stjórnmálaflokkarnir ekki gæfu til að eiga fulltrúa í ríkisstjórn vegna ágreinings forystumanna flokkanna. Þá sat í landinu svonefnd utanþingsstjórn, það er ríkisstjórn, sem Sveinn Björnsson, þáverandi ríkisstjóri, skipaði, eftir að stjórnmálaforingjunum hafði mistekist að koma sér saman um ríkisstjórn. Í ríkisstjórninni sátu embættismenn og menn úr viðskiptalífinu, sem ríkisstjóri valdi.

 

Utanþingsstjórnin kom til sögunnar við mjög óvenjulegar aðstæður. Síðari heimsstyrjöldin geisaði, Bretar og Bandaríkjamenn hersátu landið. Þegar Þjóðverjar hernámu Danmörku vorið 1940 rofnuðu öll stjórnarfarsleg tengsl Íslendinga við konunginn í Kaupmannahöfn og alþingi tók konungsvaldið í eigin hendur og kaus Svein Björnsson ríkisstjóra, en hann hafði verið sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn. Á fundi sínum á Þingvöllum 17. júní 1944 kaus alþingi Svein Björnsson síðan fyrsta forseta lýðveldisins.

 

Ástæðan fyrir utanþingsstjórninni var einkum ágreiningur milli Hermanns Jónassonar, formanns Framsóknarflokksins, og Ólafs Thors, formanns Sjálfstæðisflokksins, ágreiningur, sem kenndur var við eiðrof og laut að deilum flokkanna um kjördæmaskipanina. Óvildin milli Ólafs og Hermanns var svo mikil, að hvorugur þeirra tók þátt í ríkisstjórn Stefáns Jóhanns Stefánssonar 1947 til 1949, og hvorugur gat unnt hinum að vera forsætisráðherra í samstjórn flokkanna 1950 til 1953, þótt báðir væru þar ráðherrar. Hermann hvarf úr ríkisstjórn árið 1953, þegar Ólafur Thors varð forsætisráðherra.

 

Önnur ástæða fyrir því, að utanþingsstjórn sat á þessum sögulegu tímamótum, var sú, að enginn stjórnmálaflokkur gat unnt hinum að sitja í ríkisstjórn, þegar þjóðin hlaut sjálfstæði að nýju, eftir að hafa lotið erlendum konungi síðan árið 1262. Stjórnmálamennirnir töldu ástæðulaust að taka þá áhættu, að einhver stjórnmálaflokkanna gæti eignað sér með setu í ríkisstjórn að hafa stofnað lýðveldið.

 

Þegar við lítum til baka með vitneskju okkar um, hve vel Íslendingum hefur vegnað sem sjálfstæðri þjóð í 62 ár, kemur á óvart, að bæði Sveinn Björnsson ríkisstjóri og Björn Þórðarson, forsætisráðherra í utanþingsstjórninni, vildu við myndun hennar fara sér hægar við að stofna lýðveldið en þeir, sem réðu ferðinni á stjórnmálavettvangi.

 

Í ágúst 1942, þegar stjórnmálamenn höfðu lagt á ráðin um að draga ekki að lýsa yfir algjöru sjálfstæði frá Dönum og stofna lýðveldi, sendu sextíu þjóðkunnir Íslendingar, svokallaðir lögskilnaðarmenn, frá sér ávarp, þar sem skorað var á alþingi  að fresta stofnun lýðveldis, þar til heimsstyrjöldinni lyki og Danmörk yrði frjáls. Björn Þórðarson var í hópi þessara sextíu manna en síðan kom það í hlut hans sem forsætisráðherra að framfylgja vilja meirihluta alþingis og flytja hátíðarávarp á Þingvöllum við stofnun lýðveldisins, þótt heimsstríðið væri ekki enn til lykta leitt.

 

 

 

 

Stjórnmálamenn og alþingi höfðu þannig ótvíræða forystu um að lýðveldi var stofnað á Íslandi 17. júní 1944 en segja má, að framkvæmdin hafi verið í höndum annarra og þá þeirra, sem vildu jafnvel fara sér hægar en stjórnmálamennirnir.

 

Þessi atburðarás er sjaldan reifuð, þegar rakin er stofnun lýðveldisins. Á hinn bóginn er jafnan lögð áhersla á hina miklu samstöðu þjóðarinnar og eindreginn vilja hennar til slíta sambandið við Dani, sem birtist í nær 100% stuðningi í þjóðaratkvæðagreiðslu.

 

Ég kýs að rifja þetta upp til að minna á, að jafnan býr saga að baki hverri niðurstöðu á vettvangi stjórnmálanna. Saga, sem sýnir, að í lýðræðisríki verður engri niðurstöðu náð, nema menn og flokkar manna séu reiðbúnir að vinna saman og mynda þann meirihluta, sem þarf, til að koma málum í höfn, þegar atkvæði ráða.

 

Við Íslendingar höfum vissulega dýrkeypta reynslu af neikvæðum áhrifum ágreinings og deilna. Þrætur við yfirvöldin voru beinlínis lífshættuleg á þeim tíma, þegar þjóðin laut einveldi erlends konungs. Á 19. öld breyttust þjóðfélagsstraumar vegna stjórnarskrár Bandaríkjanna og umbóta í evrópskum stjórnmálum og hinir nýju straumar voru virkjaðir til sigurs í sjálfstæðisbaráttunni af Fjölnismönnum og síðan Jóni Sigurðssyni.

 

Ýmsir töldu einsýnt, að við gætum ekki fótað okkur sem sjálfstæð þjóð vegna fámennis og fjarlægðar. Við hefðum aldrei burði til að takast á við viðfangsefni sjálfstæðra ríkja af því afli, sem þyrfti, til að njóta sín í samfélagi ríkjanna.

 

Hrakspár af þessu tagi heyrast ekki lengur, enda mundi enginn leggja trúnað á þær eftir 62 ára reynslu af sjálfstæði Íslands. Ótrúlega mikill árangur hefur náðst á öllum sviðum. Nú segja hinir svartsýnu þvert á móti, að vegna velgengni okkar og ríkidæmis höfum við reist okkur hurðarás um öxl. 

 

Jafnt á góðum tímum sem slæmum er margt að varast, en mestu skiptir, að ekki sé látið hugfallast vegna þess, sem aldrei verður – það hefur aldrei neinn grætt neitt á því að mála skrattann á vegginn, furðumargir gera það þó samt.

 

Við Íslendingar höfum rækilega verið minntir á það nýlega, að einn er sá þáttur meðal innviða sjálfstæðs ríkis, sem við höfum gjarnan viljað leiða hjá okkur að ræða. Það eru nauðsynlegar ráðstafanir af okkar sjálfra hálfu til að tryggja öryggi þjóðarinnar og varnir landsins.

 

Eftir 55 ára góða reynslu af varnarsamstarfi við Bandaríkin er þeim kafla þess, sem tók mið af stöðu öryggismála á tímum kalda stríðsins nú að ljúka – en kalda stríðinu lauk fyrir 15 árum eins og kunnugt er. Á þessum 15 árum hefur vissulega ýmislegt verið gert í öryggismálum þjóðarinnar til að búa í haginn fyrir óhjákvæmilegar breytingar. Hitt er þó ljóst, að við fyllum ekki sjálfir skarð varnarliðsins. Þótt landhelgisgæsla og lögregla verði efld, kemur sá liðsafli aldrei í stað varnarliðsins.

 

Samhliða því sem áfram er unnið að eflingu öryggisgæslu á okkar eigin vegum, ber að halda áfram varnarsamstarfi við Bandaríkin á grundvelli samningsins frá 1951 og knýja á um, að staðið verði að framkvæmd hans í samræmi við íslenska öryggishagsmuni á hverjum tíma. Evrópusambandið eða Evrópuríki, þótt velviljuð séu, geta aldrei fyllt skarð Bandaríkjamanna við gæslu friðar og öryggis á Norður-Atlantshafi.

 

Góðir áheyrendur!

 

Við eigum að spyrja eins og Jónas Hallgrímsson í fyrsta hefti Fjölnis og velta fyrir okkur, hvað hafi orðið starf íslensku þjóðarinnar í rúm 60 lýðveldissumur og hvort við höfum gengið til góðs götuna frameftir veg.

 

Í mínum huga eru svörin skýr og einföld: Við höfum náð meiri og betri árangri en nokkurn óraði á Þingvöllum fyrir 62 árum – ganga okkar hefur því verið til góðs.

 

Og enn á ný og það skulu verða mín lokaorð: Á síðustu 20 dögum hefur enn sannast á stjórnmálavettvangi, að skilin milli samstöðu og sundrungar eru oft örmjó, en því aðeins næst árangur, að menn vilji vinna saman. Galdurinn er að laða sem flesta til þátttöku og samstarfs, þá vegnar okkur best.

 

Gleðilega þjóðhátíð!