1.7.2005

Rafrænt Lögbirtingablað

Opnað á Hvolsvelli, 1. júlí, 2005.

,

Í dag eru merk tímamót í sögu Lögbirtingablaðsins, þegar stigið er skref frá prentaðri útgáfu þess til rafrænnar. Með þessari breytingu er verið að svara kalli tímans en prentað hefur blaðið verið gefið  út síðan í ársbyrjun 1908.

 

Í Lögbirtingablaðinu skal birta dómsmálaauglýsingar, svo sem stefnur til dóms, úrskurði um töku búa til opinberra skipta og áskoranir um kröfulýsingar, auglýsingar um skiptafundi og skiptalok þrotabúa, nauðungarsölur, þar á meðal á fasteignum búa sem eru til opinberra skipta, auglýsingar um vogrek, óskilafé og fundið fé, auglýsingar um kaupmála hjóna, lögræðissviptingu og brottfall hennar, lögboðnar auglýsingar um félög og firmu, sérleyfi er stjórnvöld veita, opinber verðlagsákvæði og annað það er stjórnvöldum þykir rétt að birta almenningi.

Þessu hlutverki hefur Lögbirtingablaðið gegnt frá því að fyrsta tölublað þess var prentað í Gutenberg fyrir tæpum hundrað árum. Á þeim tíma rak ríkið prentsmiðjuna en blaðið fylgdi henni, eftir að hún var seld einkaaðilum og hafa starfsmenn hennar reynst Lögbirtingablaðinu traustur bakhjarl allt til þessa dags. Í áranna rás hefur blaðsíðufjöldinn vaxið jafnt og þétt og hefur síðustu árin verið meira 1200 bls. á ári í brotinu Folio.

Vil ég við þetta tækifæri þakka starfsmönnum Gutenbergs samfylgdina við Lögbirtingablaðið í öll þessi ár. Það er með söknuði, sem hin miklu og nánu tengsl við prentsmiðjuna rofna, en þótt Lögbirtingablaðið sé gamaldags eins og Gutenberg vill vera, hefur verið ákveðið að taka nýja tækni í þjónustu þess og hefja rafræna útgáfu á blaðinu.

Aðdragandi þessara breytinga er nokkuð langur, því að hinn 22. september 2000 skipaði Sólveig Pétursdóttir, þáverandi dóms- og kirkjumálaráðherra nefnd undir formennsku Benedikts Bogasonar héraðsdómara til að gera tillögur um framtíðarskipulag á birtingu laga og stjórnvaldsfyrirmæla. Skyldi nefndin meðal annars endurskoða gildandi lög með tilliti rafrænnar birtingar samhliða eða í stað hefðbundinnar birtingar.

Fyrsta skrefið til rafrænnar útgáfu Lögbirtingablaðsins var stigið í ársbyrjun 2002, þegar unnt varð að nálgast efni þess á netinu samhliða hinni prentuðu útgáfu. Nú eru á vef Lögbirtingablaðsins öll tölublöð þess frá 1. janúar 2001.

Reynslan af þessari netútgáfu varð góð og leiddi hún til þess, að flutt var frumvarp á alþingi, um að hætt yrði að prenta Lögbirtingablaðið og var það samþykkt með lögum 165/2002 en þar segir:

Heimilt er að gefa Lögbirtingablað út og dreifa því á rafrænan hátt, þar á meðal á netinu. Verði útgáfa Lögbirtingablaðs eingöngu rafræn skulu þeir sem þess óska áfram geta keypt Lögbirtingablað í prentuðu formi í áskrift eða fengið einstök tölublöð send gegn greiðslu kostnaðar af prentun þeirra og sendingu. Dómsmálaráðherra mælir í reglugerð nánar fyrir um rafræna útgáfu Lögbirtingablaðs, þar á meðal um persónuvernd og gagnaöryggi.

Á grundvelli þessarar heimildar var stofnað til þess að smíða vefkerfi  utan um rafræna útgáfu Lögbirtingablaðsins. Eftir útboð var skrifað undir verksamning við Hugvit hf. um þetta verk hinn 17. febrúar 2004. Ráðgjöf og verkefnisstjórn var í höndum VKS hf.

Við sjáum afrakstur þessa samninsgs nú hér í dag og vil ég þakka öllum, sem hafa komið að verkinu, sem var viðamkið og krafðist mikillar nákvæmni. Það hefði aldrei verið unnið á farsælan hátt nema með virkri þátttöku starfsmanna Lögbirtingablaðsins og hafa þeir lagt mikið af mörkum til þess auk starfsmanna dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.

Með þessum hamskiptum á Lögbirtingablaðinu munu öll samskipti þess við viðskiptavini gjörbreytast. Auglýsendur skrá til dæmis efni sitt í gegnum vefviðmót á sambærilegan hátt  og gert er í bankaviðskiptum á netinu. Þegar auglýsing hefur verið skráð í kerfið eru greiðsluupplýsingar sendar í tekjubókhaldskerfi ríkisins, sem sendir greiðsluseðil til Reiknistofnunar bankanna. Við greiðslu er auglýsingin tekin til vinnslu og birtingar hjá Lögbirtingablaðinu.

Upplýsingar frá stórum auglýsendum flæða greiðlega milli upplýsingakerfa. Má til dæmis nefna að um leið og stofnað er nýtt hlutafélag hjá hlutafélagaskrá ríkisskattstjóra sendir upplýsingakerfi skattsins tilkynningu um skráningu félagsins til Lögbirtingablaðsins til birtingar og greiðsla er samtímis framkvæmd rafrænt.

Eins og fram kemur í lögunum um rafrænt Lögbirtingablað skulu þeir sem þess óska áfram geta keypt blaðið í prentuðu formi í áskrift eða fengið einstök tölublöð send gegn greiðslu kostnaðar af prentun þeirra og sendingu.

Á þessari stundu er ekki vitað, hve margir munu nýta sér þessa undanþágu frá hinni rafrænu dreifingarþjónustu. Um áramót er stefnt að því að taka upp áskriftargjald að rafrænu útgáfunni, en gjaldið verður ákveðið í lögum um aukatekjur ríkissjóðs.

Í gær ritaði ég undir reglugerð um útgáfu Lögbirtingablaðs og gjaldskrá fyrir auglýsingar í blaðinu, en auglýsingagjaldið lækkar almennt og í sumum tilvikum verulega.

Eins og segir í heimildarlögunum um hina rafrænu útgáfu Lögbirtingablaðsins ber dómsmálaráðherra að huga að persónuvernd og gagnaöryggi við þessa breytingu á útgáfuháttum blaðsins.  Í reglugerðinni segir, að heimilt sé að takmarka aðgang að leit í auglýsingum í blaðinu, ef það er nauðsynlegt vegna sjónarmiða um persónuvernd.

Í Lögbirtingablaðinu birtast upplýsingar, sem varða einkahagi fjölda fólks. Tilgangurinn með hinni rafrænu útgáfu er að koma til móts við nýja tíma og laga útgáfuhætti að nýjum kröfum en ekki sá að ganga nær friðhelgi einkalífs en opinberir hagsmunir krefjast hverju sinni.

Ef marka má nýja neyslukönnun Hagstofu Íslands, sem sýnir, að 88% Íslendinga nota tölvu og um 86% nota netið næstum daglega, er ljóst, að miðlun efnis um vef er árangursrík og hagkvæm leið til þess að ná til meginþorra landsmanna. Við erum að stíga skref í þá átt með hinu rafræna Lögbirtingablaði.

Góðir áheyrendur!

Ég ítreka þakkir mínar til allra, sem hafa komið að því að búa Lögbirtingablaðið til rafrænnar útgáfu. Ég veit, að þeim er mjög annt um, að afrakstur verks þeirra nýtist öllum viðskiptavinum blaðsins sem best.

Ég þakka sýslumanninum á Hvolsvelli fyrir að gefa okkur tækifæri til að hefja hina nýju útgáfu hér í húsakynnum hans. Hún minnir okkur á, að netið gerir fjarlægðir að engu og þess vegna getur ritstjórn Lögbirtingablaðs og Stjórnartíðinda setið hvar sem er á landinu. Þegar fram líðan stundir kann að koma að því, að Lögbirtingablaðið færist ekki aðeins frá Gutenberg heldur einnig á brott úr Reykjavík.