Ellefta kirkjulistahátíðin.
Hallgrímskirkju, 11. ágúst, 2007.
Kirkjulistahátíð hefst nú í ellefta sinn hér í Hallgrímskirkju. Metnaðurinn er mikill eins og jafnan áður og ber að þakka öllum, sem lagt hafa mikið af mörkum til að gera hátíðina jafn veglega og dagskrá hennar ber með sér.
Hvergi er eins vel við hæfi að efna til listahátíðar í nafni kirkjunnar og einmitt í Hallgrímskirkju, kirkjunni, sem kennd er við séra Hallgrím Pétursson til minningar um prestinn og skáldið, sem sameinaði trú og list á svo kyngimagnaðan og eftirminnilegan hátt, að tvær kirkjur á Íslandi eru nefndar eftir honum.
Þess var minnst á dögunum, að fimmtíu ár voru liðin frá vígslu Hallgrímskirkju í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Vígslan var stórviðburður á sínum tíma, enda höfðu menn í áratugi unnið að því að tryggja reisn staðarins.
Munnmæli herma, að séra Hallgrímur hafi að jafnaði ort Passíusálmana undir beru lofti, annað hvort á gangi fram og aftur um melana fyrir ofan Saurbæ eða hjá steini þar fyrir innan túnið, sem nú er kallaður Hallgrímssteinn.
Sigurður Nordal hefur réttilega sagt, að seint verði fullmetið, hvers virði það sé fyrir menntun íslensku þjóðarinnar, að Passíusálmarnir og Vídalínspostilla, guðsorðabækurnar tvær, sem um aldir og almennt voru hafðar um hönd, skuli um leið vera frábærar bókmenntir. Ömurlegt væri til þess að hugsa, ef Íslendingar hefðu fram á 19. öld búið við verri kost í þessu efni.
Einkunnarorð elleftu kirkjulistahátíðar „Ég vil lofsyngja Drottni“ eru úr annarri Mósebók og lýsa söng og þakkargjörð Móse og Ísraelsmanna, eftir að Drottinn hafði opnað þeim leið yfir Rauða haf og leyst þá úr ánauðinni í Egyptalandi. Í ritningargreininni segir einnig:
Drottinn er styrkur minn og lofsöngur,
og hann varð mitt hjálpræði.
Hann er minn Guð, og ég vil vegsama hann,
Guð föður míns, og ég vil tigna hann.
Texti lofsöngsins sýnir, að list í nafni trúar hefur um aldir verið hluti af tilbeiðslu og lotningu. Textinn lifir og er lífræn næring og hann hvetur til eigin sköpunar eins og skáldskapur séra Hallgríms.
Kirkjulist hefur jafnframt verið líkt við gróðurreit trúarinnar. Til að trúin dafni og blómstri þarfnist hún næringar, sem mótast af menningu hverrar þjóðar.
Tvö meistaraverk til dýrðar drottni móta umgjörð kirkjulistahátíðar að þessu sinni: H-moll messan eftir Johan Sebastian Bach, sem við heyrum í dag. Og óratorían Ísrael í Egyptalandi eftir Georg Friedrich Händel, sem verður frumflutt á Íslandi við lok hátíðarinnar.
Ég ítreka þakkir til allra, sem að þessari góðu hátíð koma. Megi hún styrkja trú og efla menningu okkar.
Ellefta kirkjulistahátíðin er hafin. Gleðilega hátíð!