27.4.2010

Evrópuvaktin hefst

Evrópuvaktin 27. apríl 2010 - leiðari


Í dag, þriðjudaginn 27. apríl, 2010, sér ný vefsíða, Evrópuvaktin, dagsins ljós.

Á Evrópuvaktinni verður lögð áhersla á málefni tengd Evrópusambandinu, þróun evrópskra stjórnmála og efnahagsmála auk umræðna hér á landi um þessi mál og tengsl Íslands og Evrópusambandsins. Þá verður fylgst með framvindu alþjóðlegra stjórnmála og efnahagsmála í þessu ljósi. Efni síðunnar byggist á fréttum, fréttaskýringum, pistlum og ritstjórnardálkum.

Umsjónarmenn efnis eru Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, og Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri. Rekstrarleg umsýsla er í höndum félagsins Evrópuvaktin. Til að standa straum af kostnaði við síðuna er leitað eftir styrkjum og auglýsingum.

Alþingi Íslendinga tók sögulega og örlagaríka ákvörðun 16. júlí, 2009, þegar samþykkt var að óska eftir aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Mikill ágreiningur var á þingi um málið og ríkisstjórn Íslands er klofin í afstöðu sinni til þess. Aðildarumsóknin byggist á einhliða kröfu Samfylkingarinnar. Án þess að fallast á hana, hefði Steingrímur J. Sigfússon ekki komist í ríkisstjórn. Samþykkt alþingis 16. júlí byggðist á pólitískri málamiðlun Samfylkingar og vinstri-grænna við myndun ríkisstjórnar en átti ekkert skylt við gæslu hagsmuna íslensku þjóðarinnar. Áhugi hennar á aðild að Evrópusambandinu hefur minnkað, eftir að umsókninni kom til sögunnar.

Fyrir okkur, sem að Evrópuvaktinni stöndum, vakir að sjá til þess, að Íslendingar fljóti ekki sofandi inn í Evrópusambandið. Við viljum miðla upplýsingum um þróun mála innan sambandsins. Á þann hátt öðlast menn ekki síður góðan skilning á eðli þess og starfsháttum en með fræðilegri umfjöllun.

Umsjónarmenn Evrópuvaktarinnar hafa ekki leynt andstöðu sinni við aðild Íslands að Evrópusambandinu. Í þeirri skoðun felst ekki andstaða við Evrópusambandið eða aðildarþjóðir þess, heldur byggist hún á varðstöðu um hagsmuni Íslands og Íslendinga. Afstaðan hefur mótast af áralangri þátttöku í umræðum um íslensk stjórnmál, Evrópu- og alþjóðamál, auk þess sem ég hef kynnst innviðum Evrópusambandsins og þátttöku Íslands í því sem alþingismaður og ráðherra.

Evrópuvaktin ávinnur sér ekki traust, nema vaktin sé staðin með því hugarfari að lýsa því á hlutlægan hátt í fréttum, sem gerist á stjórnmálalegum og efnahagslegum vettvangi Evrópumála í víðasta skilningi hvort heldur í íslensku eða alþjóðlegu samhengi. Þetta er markmið með þeim fréttum, sem hér birtast.

Skoðanir umsjónarmanna birtast í ritstjórnardálkum síðunnar, pistlum og fréttaskýringum. Ætlun okkar er að fá til liðs við Evrópuvaktina pistlahöfunda, innlenda og erlenda. Þá verður einnig hugað að því að safna á síðuna gagnagrunni um samskipti Íslands og Evrópusambandsins. Allar ábendingar frá lesendum um efni og efnistök eru vel þegnar, en á síðunni verður ekki unnt að gera athugasemdir við efni, sem þar birtist.