3.1.2001

Karlakór Reykjavíkur 75 áraKarlakór Reykjavíkur,
75 ára,
3. janúar, 2001.Ég óska Karlakór Reykjavíkur til hamingju með afmælið og ykkur, góðir áheyrendur, farsældar á nýrri öld.

Er ánægjulegt að hefja nýtt ár með því að koma hér saman í dag til að fagna 75 ára afmæli kórsins í þessum glæsilegu húsakynnum hans.

Við vorum minnt á það hvað eftir annað á síðasta ári, menningarárinu 2000, hve mikla og góða innlenda tónlist við eigum og hve margir koma að því að flytja okkur hana í öllum myndum.

Þegar litið er yfir þróun íslensks menningarlífs á 20. öldinni, vekur ekki síst athygli, hve virðulegan sess tónlistin skipar og hve margir hafa látið að sér kveða undir merkjum drottningar listanna. Það var þó ekki fyrr en í sama mund og Karlakór Reykjavíkur var stofnaður, sem tónlistarlíf þjóðarinnar tók nýja og háleita stefnu.

Árið 1926 er ekki aðeins merkilegt í tónlistarsögunni vegna upphafs Karlakórs Reykjavíkur heldur gerðist það sumarið þetta sama ár, að 40 hljóðfæraleikarar úr Fílharmóníuhljómsveit Hamborgar komu hingað til lands fyrir tilstuðlan og undir stjórn Jóns Leifs. Efndi hljómsveitin til tónleika í Iðnó, Dómkirkjunni og Hafnarfjarðarkirkju.

Undir meistaralegum tónum hinna þýsku gesta varð Árna Thorsteinssyni tónskáldi hugsað fram á ókomna tíma og lét sig dreyma um framtíð íslenskrar tónlistar, sagðist hann vona, að sá litli áhugi, sem væri vaknaður á hljómlistasviðinu yrði ekki kyrktur fyrir eftirtölur og nísku sumra óviturra manna, sem enn litu á hljómlistina sem einberan hégóma og vitleysu. Enn rækist hann svo að segja daglega á menn, sem hugsuðu þannig.

Nú er öldin önnur og áhugi á tónlist er meiri en öðrum listgreinum ef marka má fjölda tónleika, gestanna sem sækja þá og flytjendanna. Raunar er erfitt að leggja tölfræðilegt mat á hina miklu grósku í tónlistarlífinu en Tónlistarráð Íslands hefur þó ráðist í að gera það og birti nýlega niðurstöður athugana sinna vegna ársins 1999. Þar er margt forvitnilegt eins og til dæmis, að alls hafi tónleikar verið 1541 í landinu það ár, og þá hafi verið 220 kórar eða sönghópar í landinu öllu og þar af 116 á höfuðborgarsvæðinu.

Má fullyrða, að fyrir 75 árum hefði Árni Thorsteinsson aldrei látið sér svo háar tölur til hugar koma, ef draumar hans myndu rætast.

Við upphaf nýrrar aldar er framtíð íslenskrar tónlistar björt. Við eigum góða listamenn í öllum greinum og ekki síst á sviði sönglistarinnar, en þar skiptir öflugt kórastarf mjög miklu.

Um leið og tónlistin hefur fest sig í sessi er vaxandi skilningur á nauðsyn þess að búa henni góða umgjörð. Hefur það einnig tekist á marga lund eins og víða má sjá.

Til marks um það vil ég nefna á þessari stundu, að í fjáraukalögum fyrir árið 2000, sem samþykkt voru fyrir fáeinum vikum, staðfesti alþingi þá tillögu ríkisstjórnarinnar, að veita 20 milljónum króna til tónlistarhússins Ýmis í eigu Karlakórs Reykjavíkur, þess glæsilega húss, þar sem við erum nú. Kom það í hlut menntamálaráðuneytisins að inna þessa greiðslu af hendi hinn 22. desember síðastliðinn. Bið ég kórinn vel að njóta með óskum um að starf hans blómstri áfram enn um langan aldur og Ýmir nýtist sem flestum til að flytja tónlist og njóta hennar.