9.7.1995

Sagan um Biblíuna á íslensku er jarteiknasaga.

Ávarp í Dómkirkjunni í tilefni af 180 ára afmæli Hins íslenska Biblíufélags.
9. júlí 1995

Sagan um Biblíuna á íslensku er jarteiknasaga.

Mér var ljúft að verða við ósk um að minnast 180 ára afmælis Hins íslenska Biblíufélags hér í Dómkirkjunni í dag. Félagið á að mínum dómi rætur í helgisögu, annað orð lýsir að minnsta kosti ekki betur sögu Biblíunnar á íslensku og útbreiðslu hennar. Við vitum ekki heldur, hvort íslenskan hefði haldið velli sem tungumál, ef við hefðum ekki eignast Biblíuna á móðurmáli okkar. Helgisagan er því einnig saga íslenskrar menningar.

Biblían var þýdd með leynd á biskupssetrinu í Skálholti fyrir rúmum 450 árum. Til þess að vinna það stórvirki við erfiðar aðstæður þurfti köllun frá Guði. Hið sama á við um útbreiðslu Biblíunnar hér á landi í upphafi síðustu aldar. Megi guðleg forsjón veita okkur styrk til að standa vörð um menningu okkar við síbreytilegar aðstæður.

Hins íslenska Biblíufélags verður ekki minnst án þess að nefna skoska skósmíðalærlinginn Ebenezer Henderson til sögunnar. Fyrir rúmum 180 árum fékk hann köllun um að koma hingað til lands. Til þess má rekja upphaf Biblíufélagsins. "Engill sendur frá himni!" nefndi séra Jónas Gíslason vígslubiskup erindi um Henderson, sem hann flutti fyrir fimm árum á Hólahátíð. Auk þess sem Henderson gaf Biblíur, sem breska biblíufélagið hafði látið prenta á íslensku kom hann hingað til að vekja áhuga Íslendinga á því að stofna eigið biblíufélag.

Í rúma öld var félagið aðeins fyrir presta, en það var einmitt á prestastefnu hinn 10. júlí 1815, sem Henderson gerði grein fyrir starfi biblíufélaga og skýrði frá fjárstyrk breska biblíufélagsins. Var síðan einróma samþykkt að stofna íslenskt biblíufélag. Er það elsta starfandi félag í landinu. Ebenezer Henderson sá handleiðslu Guðs í stofnun biblíufélagsins og taldi, að það mundi vaxa og dafna "varið himneskri umönnun og vökvað himneskri dögg", eins og hann orðaði það.

Skömmu eftir að Nýja testamentið hafði verið þýtt á íslensku orti Bjarni Jónsson í Aldasöng:


Kirkjur og heilög hús
hver vildi byggja fús,
gljáði á gullið hreina,
grafnar bríkur og steina
klerkar á saltara sungu,
sveinar og börnin ungu.

Heimsóknir í gamlar og sögufrægar kirkjur Evrópu eða kirkjuleg söfn minna á, hve skrautið, litirnir, gullið og glæsileikinn, var mikill þáttur í hugmynd manna um himnaríki. Helgisögur um slíka dýrgripi eru margar. Mér er til dæmis minnisstæð heimsókn til Jasna Gora í Póllandi fyrir tveimur misserum, þar sem tugir ef ekki hundruð þúsunda pílagríma voru komnir til að sjá mynd af heilagri Guðsmóður, hina Svörtu Madonnu, drottningu Póllands og verndara. Helgisagan segir, að myndin af Guðsmóður með barnið sé máluð á eldhúsborð Lúkasar guðspjallamanns. Dýrindis klæði með gulli og gimsteinum hafa verið ofin til að setja á þessa mynd.
Við Íslendingar getum ekki sett okkur í spor þeirra, sem fyrr á öldum komu inn í hin miklu guðshús og fylltust undrun og lotningu, þegar þeir sáu steinda glugga eða töflur í öllum regnbogans litum.

Þótt Bjarni Jónsson yrki, um að gljáð hafi á gullið hreina, leyfðu aðstæður hér aldrei, að menn nytu dýrðar Drottins eða vottuðu henni virðingu sína með sama hætti og þeir, sem reistu stórkirkjur erlendis og skreyttu þær með dýrgripum.

Hér áttu menn hins vegar kost á að kynnast því, að kenningin væri fögur að vanda. Lestrarkunnátta var almennari en víða meðal hinna fjölmennari þjóða. Við íslenskar aðstæður gegndi bókmenningin meira hlutverki en húsagerðarlist og glæsilegur umbúnaður. Þegar Henderson færði Íslendingum Biblíuna, fylltust þeir þakklæti og hrifningu eins og gestir í stóru kirkjunum á meginlandinu. Henderson lýsir því, þegar hann gaf tveimur snauðustu bændum fremst í Eyjarfirði hvorum eintak af Nýja testamentinu. Hann segir:

"Annar þeirra.... þakkaði mjer margsinnis með tárin í augunum og reið heim yfir sig glaður yfir gjöf þeirri, er honum hafði áskotnast. - Hinn var ungur maður... og höfðu foreldrar hans, snauð og aldurhnigin, sent hann... Hann rjeð sjer varla fyrir fögnuði, þegar hann tók við Testamentinu. Með því að margt fólk hafði safnast saman úti fyrir dyrunum á tjaldi mínu, bað ég hann að lesa þriðja kapítulann í Jóhannesar-guðspjalli. Jafnskjótt og hann hóf lesturinn, settust allir niður eða krupu þar á grasinu og hlýddu á með hinni mestu andakt... mátti sjá tár renna niður kinnarnar á þeim og virtust allir mjög snortnir...

Einkum virtist húsmóðirin snortin... eftir að aðrir voru farnir, dvaldi hún um hríð ásamt gamalli konu og hvað eftir annað þökkuðu þær guði, að hann hefði sent þeim orð sitt, hreint og ómengað. Mjer er ómögulegt að lýsa því, hve hjartanlega þetta atvik gladdi mig. Jeg gleymdi allri þreytu ferðalagsins yfir fjöllin og sannast að segja mundi jeg ferðast tvöfalt lengri leið, til þess að fá að launum annað slíkt kvöld. Jeg þakka guði fyrir að hafa talið mig verðan þess, að inna af hendi þessa þjónustugerð, að flytja hans heilaga orð til þess fólks, er hann hafði búið undir að veita því viðtöku."

Þetta er hjartnæm lýsing. Upp úr því þakklæti, sem þarna er lýst, er Hið íslenska Biblíufélag sprottið. Hin helga bók átti á þessum tíma líklega greiðari leið að þakklátum huga íslenskra lesenda en nú á dögum, þegar menn líta á það sem sjálfsagðan hlut að geta ávallt haft hana við höndina. Þegar ég las þessa lýsingu Hendersons rifjaði ég upp, hvað segir í þriðja kafla Jóhannesar-guðspjalls. Þar eru meðal annars þessi fögru orð, sem eru í raun meira virði en öll mannanna verk til dýrðar drottni: Því að svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver, sem á hann trúir, glatist ekki, heldur hafi eilíft líf. Því að ekki sendi Guð soninn í heiminn, til þess að hann skyldi dæma heiminn, heldur til þess að heimurinn skyldi frelsast fyrir hann.

Nú er okkur mörgum líklega undrunarefni, góðir kirkjugestir, hve tilölulega skammt er liðið síðan texti hinnar helgu bókar varð íslenskum almenningi handgenginn. Þótt Biblían hafi verið þýdd á íslensku fyrir rúmum 450 árum, eru ekki meira en 180 ár síðan henni var almennt komið á framfæri og eftir fáein ár minnumst við þess, að 1000 ár eru liðin frá því að kristni var lögtekin á Alþingi.

Þökk sé Hinu íslenska Biblíufélagi og öllum öðrum, sem hafa lagt á það gjörva hönd að útbreiða Biblíuna hér á landi. Þökk sé Hinu íslenska Biblíufélagi einnig fyrir að hafa stuðlað að daglegum lestri Biblíunnar með árlegri útgáfu á ritlingnum Biblíulestrar, þar sem bent er á ritningarorð til lestrar og íhugunar á hverjum degi ársins. Er ég hópi þeirra, sem hafa fylgt þeirri leiðsögn.

Í ágúst næstkomandi verður þess minnst, að 100 ár eru liðin frá fæðingu Ólafs Ólafssonar kristniboða, sem beitti sér fyrir því að opna Hið íslenska Biblíufélag fleirum en prestum og blása nýju lífi í félagið fyrir hálfri öld. Er fagnaðarefni, að Ólafs skuli minnst með því að stuðla að útbreiðslu Biblíunnar í Kína. Með því að kynna fagnaðarboðskap hinnar helgu bókar vinnum við best að því að gera heiminn að betri bústað fyrir okkur öll.

Ég lýk máli mínu með því að láta í ljós þá ósk, að áformin um að öll Biblían verði til í nýrri íslenskri þýðingu á 1000 ára afmæli kristni á Íslandi rætist. Í senn er það menningarlegt stórvirki og til marks um að núlifandi kynslóð Íslendinga vill að helgisagan um Biblíuna á Íslandi haldi áfram.