3.4.2013

Öryggis- og varnarmál

Erindi í Rotary-klúbbi Reykjavíkur, 3. apríl 2013


 

Nokkrum sinnum á undanförnum áratugum hef ég rætt öryggis- og varnarmál hér í klúbbi okkar.

Á tíma kalda stríðsins voru línurnar skýrar. Ræður manna snerust um stöðuna milli austurs og vesturs. Um miðjan níunda áratuginn hafði magnast mikil spenna á Norður-Atlantshafi og engum duldist að af hálfu Atlantshafsbandalagsins, NATO, var lögð rík áhersla á varðstöðu á norðurslóðum. Keflavíkurstöðin gegndi mikilvægu hlutverki í framvörnum NATO gagnvart sókn Sovétmanna út á Norður-Atlantshaf í legi og á lofti. Bandaríkjamenn höfðu fullkomnasta tækjabúnað til eftirlits á Keflavíkurflugvelli.

Þegar Sovétríkin hrundu við upphaf tíunda áratugarins varð spennufall á Norður-Atlantshafi eins og annars staðar. Hernaðarlegur áhugi á svæðinu minnkaði og foringjar í herstjórnum NATO fluttu ræður um að innan bandalagsins mættu menn ekki gleyma fyrir hvað stafurinn N stæði í nafni þess, Norður-Atlantshafsbandalagsins.

Við blöstu ný viðhorf í landafræði og stjórnmálum, geopólitík,  sem höfðu áhrif á stöðu Íslands á alþjóðavettvangi. Því var fagnað að friðsamara hefði orðið í okkar heimshluta um leið og Íslendingar gerðust aðilar að víðtækara alþjóðasamstarfi en nokkru sinni fyrr með þátttöku í evrópska efnahagssamstarfinu og aðild að Schengen-samstarfinu.

Staðan í öryggismálum gjörbreyttist haustið 2001 eftir hryðjuverkaárásina á New York og Washington. Gæsla öryggis færðist nær hinum almenna borgara á Vesturlöndum en nokkru sinni á tíma kalda stríðsins. Ferðalög um flugvelli urðu erfiðari en áður og tekið var til við að skrá upplýsingar um einstaklinga í sameiginlega gagnagrunna. Leyniþjónustustarfsemi tók á sig nýja mynd.

Bandaríkjamenn réðust inn í Afganistan til að uppræta hryðjuverkamenn og fyrir réttum tíu árum var ráðist inn í Írak til að brjóta Saddam Hussein á bak aftur. Íslendingar hafa látið að sér kveða í Afganistan undir merkjum NATO. Friðargæsla hefur öðlast fastan sess í íslenska stjórnkerfinu.

Samhliða því sem stríðsrekstur magnaðist í Afganistan og Írak tók athygli að beinast að norðurslóðum. Hlýnun jarðar varð til þess að í Norður-Íshafi komu ný tækifæri til sögunnar. Talið er að þar megi finna mikið magn af olíu og gasi auk þess hafa siglingaleiðir í norðri dregið að sér athygli, annars vegar norðurleiðin við Rússland og hins vegar norð-vesturleiðin við Kanada.

Rússar ráða yfir öflugustu ísbrjótum í heimi og enginn siglir við strendur þeirra án leyfis, eftirlits og fylgdar þar sem hennar er talin þörf.  Siglingaleiðin milli Asíu og Evrópu styttist mjög sé norðurleiðin farin en ekki siglt um Súez-skurð eða suður fyrir Góðrarvonarhöfða.

Nýting auðlinda í Norður-Íshafi er enginn barnaleikur og umhverfisverndarsinnar leggjast hart gegn olíu- og gasvinnslu þar. Ákvarðanir skipafélaga munu ráða framvindu siglinga um Norður-Íshaf.

Kínverjar hafa vaxandi áhuga á norðurslóðum eins og koma ísbrjóts þeirra, Snædrekans, hingað á síðasta ári sýndi. Var Ísland eina landið utan Kína þar sem skipið hafði viðdvöl á ferð sinni. Héðan átti að sigla beint yfir pólinn til Kína, en ís leyfði það ekki. Kínverjar hafa áhuga á að sigla um Norður-Íshaf svo fjarri strönd Rússlands að ekki þurfi að sækja um leyfi til rússneskra yfirvalda.

Nú blandast engum hugur um að geopólitísk staða á norðurslóðum og Norður-Atlantshafi er allt önnur en hún var fyrir 20 árum. Ekki er lengur litið á svæðið sem útnára heldur spennandi vettvang vegna siglinga og auðlindanýtingar. Þetta hefur að sjálfsögðu áhrif á stöðu Íslands.

Innan Evrópusambandsins er áhugi á aðild Íslands reistur á rökum um að í henni felist nýtt tækifæri fyrir sambandið til íhlutunar og áhrifa á norðurslóðum.

Öll hernaðartækni, bæði beiting herafla og búnaður hans, hefur tekið stakkaskiptum á undanförnum árum. Herir standa ekki lengur andspænis hver öðrum, gráir fyrir járnum. Lögð er áhersla á fámennar, öflugar sveitir með yfirburði í hátæknibúnaði sem sendar eru á vettvang til skyndiaðgerða. Þá færist notkun fjarstýrða loftfara, dróna, í vöxt bæði til að afla upplýsinga og árása. Ný lögfræðileg og siðfræðileg álitaefni setja svip á umræður um beitingu þessara tækja.

Ótti við gjöreyðingarvopn, kjarnorkuvopn og efnavopn, í höndum einræðisstjórna eða hryðjuverkamanna setur svip á umræður um öryggismál. Nægir þar að nefna Norður-Kóreumenn og Írana til sögunnar en uppi eru kröfur um að gerðar séu forvarnar-árásir á þessi ríki til að svipta þau kjarnorkuvopnum. 

Loks er óhjákvæmilegt að hafa í huga þegar rætt er um öryggis- og varnarmál á líðandi stundu að fjarlægðir skipta ekki lengur máli. Fleira og fleira færist í netheima þar sem vegið er að öryggi einstaklinga, fyrirtækja og ríkja af sífellt meiri þunga. Þörf fyrir net- og tölvuvarnir vex jafnt og þétt.

Hér verður brugðið ljósi á stöðuna í öryggis- og varnarmálum. Í fyrsta lagi verður farið orðum um það sem ber hæst í öryggismálum norðurslóða. Í öðru lagi er stöðunni í íslenskum öryggismálum lýst. Í þriðja lagi verða nefnd nokkur almenn atriði sem hafa ber í huga við víðtækara mat á stöðunni.

I.

Lýsingin á öryggismálum á norðurslóðum hefst í Rússlandi.

Valdimir Pútín forseti hélt 27. febrúar 2013 ræðu á fundi með stjórnarnefnd rússneska varnarmálaráðuneytisins um nauðsyn þess að styrkja herafla Rússa.

Forsetinn sagði að markmið sitt væri að skapa nútímalegan, hreyfanlegan og vel búinn herafla sem beita mætti með hraði og nægum styrk við allar hugsanlegar aðstæður. Vegna geopólitískra breytinga yrði að grípa til skjótra og ígrundaðra aðgerða. Rússneski herinn yrði að hafa öðlast nýjan styrk og hæfni innan næstu 3 til 5 ára.

Hann benti á vaxandi óstöðugleika og átök í heiminum. Hernaðarátök væru í Mið-Austurlöndum og Asíu og hættan á „útflutningi“ á öfgum og upplausn héldi áfram að vaxa í nágrenni Rússlands. Þá sagði Pútín orðrétt:

„Á sama tíma blasa við þaulhugsaðar tilraunir til að grafa undan strategíska jafnvæginu eftir ýmsum leiðum og með ýmsum aðferðum. Bandaríkjamenn hafa í raun stigið annað skref við gerð hnattræns eldflaugavarnakerfis síns. Tilraunir eru gerðar til að kanna hljómgrunn undir kosti þess að þenja NATO lengra til austurs og það er einnig hætta á hervæðingu  norðurskautssvæðisins.“

Hér fer ekkert á milli mála og tónninn er ekki beinlínis vinsamlegur.  Rússlandsforseti nefnir til sögunnar „þaulhugsaðar tilraunir“ til að grafa undan jafnvægi og setur hervæðingu á norðurslóðum undir þann hatt. Hann flokkar þróunina þar með óvildarefnum Rússa eins og eldflaugavörnum og stækkun NATO.

Framsetning forsetans gefur til kynna að hann telji nauðsynlegt að efla hernaðarmátt Rússa vegna ögrunar í norðri frá NATO eða aðildarríkjum þess.

Spurningunni um hervæðingu á norðurskautinu svara menn almennt á þann veg að ástæðulaust sé að hafa áhyggjur af henni, það vaki ekki fyrir neinu ríkjanna sem þar eigi beinna hagsmuna að gæta að magna þar spennu með hervæðingu.

Þetta er hið staðlaða, opinbera svar. Við nánari skoðun kemur hins vegar í ljós að ekki er allt sem sýnist. Allar þjóðirnar fimm sem eiga land að Norður-Íshafi, Bandaríkjamenn, Kanadamenn, Grænlendingar/Danir, Norðmenn og Rússar hafa gert ráðstafanir sem miða að auknum hernaðarlegum viðbúnaði á norðurslóðum.

Um miðjan desember 2012 kynntu til dæmis ríkisstjórnir Bandaríkjanna og Kanada sameiginlegt framtak sem þær kalla þriggja herstjórna samstarfsramma vegna norðurslóða. Þar er um að ræða samvinnu milli Norðurherstjórnar Bandaríkjanna, sameinaðrar herstjórnar Kanada og NORAD, það er herstjórnarinnar sem ber ábyrgð á loftvörnum Norður-Ameríku.

Í yfirlýsingu vegna samstarfsins er tekið fram að norðurskautið sé ekki átakasvæði og verkefni herafla Kanada og Bandaríkjanna verði einkum í þágu annarra ríkisstofnana. Markmiðið sé að stuðla að auknu almennu öryggi þótt einnig verði haft auga með hernaðarlegri þróun. Lögð skuli áhersla á sameiginlegar æfingar, rannsóknir og þróun, vísindi og tækni, fjarskipti og nýtingu þeirra við stjórn aðgerða.

Kanadamenn verða leiðandi aðili þessa samstarfs. Ríkisstjórn Kanada hefur lagt mikla áherslu á norðurslóðamál í öllu tilliti en ekki síst í því skyni að tryggja fullveldi og öryggi undir kanadískri stjórn. Kanadísk stjórnvöld fagna sérstaklega aðgangi að upplýsingum úr eftirlitskerfi Bandaríkjamanna sem reist er á gervihnöttum og öðrum hátæknibúnaði. Kanadamenn kunna því illa að ókunn, erlend skip sigli án minnstu viðvörunar inn í kanadískar heimskautahafnir.

Þetta hernaðarlega samstarf Kanadamanna og Bandaríkjamanna markar nokkur þáttaskil því að sögulega hafa þjóðirnar tekist á um yfirráðin í norðri. Eftir að hafa keypt Alaska af Rússum 1867 velti William Henry Seward, utanríkisráðherra í ríkisstjórnum Abrahams Lincolns og Andrews Johnsons, fyrir sér að Bandaríkjastjórn keypti Ísland og Grænland af Dönum til að skáka Kanadamönnum. Kaupin á Alaska þóttu hins vegar svo fáránleg að utanríkisráðherrann komst ekki upp með fleiri slík tiltæki.

Herstjórnasamvinnan nú kann að brjóta ísinn milli stjórnvalda ríkja Norður-Ameríku á fleiri sviðum sem snerta norðurslóðir. Þau deila meðal annars um réttarstöðu skipa á Norðvestur-siglingaleiðinni. Kanadamenn telja leiðina innan lögsögu sinnar en Bandaríkjamenn segja að um alþjóðlega siglingaleið sé að ræða. Þessar lagaþrætur taka á sig ýmsar myndir og hafa tafið eðlilega þróun siglinga á þessum slóðum. Þræturnar eiga þátt í að öldungadeild Bandaríkjaþings hefur ekki enn samþykkt aðild að hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna þrátt fyrir tillögur utanríkisráðherra landsins í þá veru.

Í hernaðarlegum samanburði eru Danir og Norðmenn peð gagnvart Bandaríkjunum og Rússum. Norrænu nágrannaþjóðirnar sitja hins vegar ekki auðum höndum.

Danir hafa komið á fót nýrri norðurslóða herstjórn, þeir hafa ákveðið að ráða yfir herflota sem geti látið að sér kveða í Norður-Íshafi og hafa gert ráðstafanir til að efla varnir Grænlands með orrustuþotum í Thule-herstöðinni sem Bandaríkjamenn reka enn vegna loftvarna Norður-Ameríku.

Umræður um hvað gerist ef þúsundir kínverskra farandverkamanna streyma til Grænlands snúast meðal annars um öryggismál. Danska ríkisstjórnin verður að vega og meta hvaða áhrif svo róttæk breyting á Grænlandi hefði. Þá vakna spurningar eins og þessi: Kann koma farandverkamannanna að vekja kröfur af hálfu kínverskra stjórnvalda um að þau hafi hönd í bagga við gæslu öryggis þeirra?

Anne-Grete Strøm-Erichsen, varnarmálaráðherra Noregs, sagði hinn 7. febrúar 2013 í ræðu í Þrándheimi að ríkisstjórn Noregs hefði markað þá stefnu að strategískir hagsmunir Norðmanna yrðu mestir á norðlægum slóðum þegar fram liðu stundir og þeir yrðu að huga að gæslu þeirra, ekki síst með því að efla herflugflota sinn.

Ráðherrann áréttaði þá skoðun að þróunin á norðurslóðum væri ekki „í átt til kapphlaups og átaka“, leysa ætti ágreining á grundvelli hafréttarsáttmálans. Aukin umsvif á Norður-Íshafi snertu Noreg sem heimskautaríki sem yrði að gæta eigin hagsmuna á svæðinu og þar skiptu hervarnir sköpum. Norðmenn yrðu að afla sér nákvæmra upplýsinga um framvindu mála og það gerðu þeir best með að efla flugher sinn.

Norðmenn hafa gert samning um að kaupa að minnsta kosti 48 F-35 orrustuþotur af Lockheed Martin í Bandaríkjunum sem komi í stað F-16 þotnanna sem þjónað hafa norska flughernum í 40 ár og verða teknar úr notkun árið 2020. Hér er um 40 milljarða norskra króna fjárfestingu að ræða, svo að lægsta opinbera tala sé nefnd.

Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru. Hafa ber í huga þegar rýnt er í opinberan texta um hernaðarleg áform að jafnan er sagt minna en meira. Enginn vill sýna öll spilin á hendinni eða ýta undir ótta og öryggisleysi með stórkallalegum yfirlýsingum. Verkin tala hins vegar og hvarvetna hafa strandríki Norður-Íshafs ákveðið að styrkja stöðu sína með því að skipa eigin herafla á annan hátt en áður.

Þjóðirnar fimm sem hér hafa verið nefndar til sögunnar hittast á sameiginlegum vettvangi, í Norðurskautsráðinu, þar sem Finnar, Íslendingar og Svíar eiga einnig sæti.  Rotary-félagi okkar, Magnús Jóhannesson, tekur við daglegri stjórn í skrifstofu ráðsins í maí.  Ráðið hefur ekki fjallað um hernaðarleg málefni. Þróunin leiðir hins vegar til þess að nú er gjarnan talað um Norðurskautsráðið sem vettvang til að skapa traust milli ríkja í öryggismálum.

Carl Bildt, utanríkisráðherra Svía, var hér á landi á dögunum og sagði Morgunblaðinu  hinn 20. mars 2013 að hann væri ekki hræddur um að hernaðarátök yrðu um siglingaleiðir og auðlindir á norðurslóðum. Hann benti á að í Norðurskautsráðinu væri unnið að því að koma á fót „diplómatísku skipulagi“ eins og hann orðaði það til að „leysa deilur á friðsamlegan hátt“ og hann væri bjartsýnn.

Það er nýmæli að rætt sé um Norðurskautsráðið á þennan hátt og áhugi á hernaðarlegum málum á vettvangi ráðsins verður til að breyta gildi þess og pólitísku hlutverki. Allt annars konar hagsmunagæsla af hálfu ríkja kemur til sögunnar  í umræðum um öryggi þeirra en þegar litið er til loftslagsbreytinga, auðlindanýtingar og siglinga.

Besta leiðin til að auka gagnsæi og traust undir merkjum Norðurskautsráðsins er að efla samvinnu um borgaraleg öryggismál. Skref í þá átt var stigið með samningi ráðsins um leit og björgun árið 2011. Síðan hefur verið efnt til leitar- og björgunaræfinga þar sem meðal annars herskip koma við sögu í borgaralegu hlutverki við hlið íslenskra sveita eins og við Austur-Grænland í september 2012.

 

Á árinu 2012 boðuðu Kanadamenn til fyrsta fundar yfirmanna herafla norðurskautsríkja  í Goose Bay í Kanada. Snerust umræðurnar um nauðsyn samvinnu við leit og björgun og stoðhlutverk herja í því samhengi.

II.

Skal þá litið nánar á stefnu íslenskra stjórnvalda.

Árið 2009 kom út svonefnd áhættumatsskýrsla fyrir Ísland. Hún gefur ágæta mynd af stöðunni þá. Yrði skýrslan endurskoðuð mundi tekið meira mið af framvindunni sem hér hefur verið lýst. Skýrsluhöfundar reyndust of varkárir í mati á hernaðarlegu þróuninni.

Norskir greinendur efast til dæmis ekki um að Rússar séu að stórefla herafla sinn á norðurslóðum. Umræður um norðurslóðastefnu hér á landi taka of lítið mið af öryggis- og varnarmálum.  Raunar setur málaflokkurinn lítinn svip á almennar stjórnmálaumræður eftir að bandaríska varnarliðið hvarf héðan í lok september 2006.  Fram til þess tíma var reglulega deilt um dvöl varnarliðsins og aðildina að NATO. Stjórnmála- og fjölmiðlamenn urðu að vera með á nótunum. Öldin er önnur núna. Fræðileg þekking er þó fyrir hendi í landinu og áhugi á norðurskautsmálum töluverður á vettvangi háskólanna.

Á sínum tíma voru íslensk stjórnvöld sökuð um að leggja of mikla áherslu á að Bandaríkjamenn héldu hér úti orrustuþotum. Létu sumir eins og slík tæki ættu ekkert erindi í okkar heimshluta.  

Risavaxin fjárfesting Norðmanna í nýjum orrustuþotum bendir ekki til að sú skoðun hafi verið eða sé illa ígrunduð að loftvarnir séu enn nauðsynlegar á Norður-Atlantshafi, þar á meðal frá Íslandi. Danir búa sig undir endurnýjun á orrustuþotum sínum meðal annars til að styrkja sig í sessi á Grænlandi.

Nú liggur fyrir skjalfest í gögnum sem Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra hefur birt að það var Rumsfeld sjálfur sem barðist mest fyrir brottflutningi bandaríska liðsins frá Keflavíkurflugvelli. Hann taldi dvöl orrustuþotna hér til marks um sóun á opinberum fjármunum, þá ætti frekar að nota við stríðsrekstur í Írak og Afganistan. Forsetinn og utanríkisráðuneytið í Washington  féllust að lokum á kröfur varnarmálaráðherrans og Keflavíkurstöðinni var lokað.

Í því fólst mikil skammsýni að kalla allt bandarískt lið frá Íslandi. Hvort sem okkur líkar betur eða verr vex geopólitískt vægi Íslands jafnt og þétt vegna breytinga á norðurslóðum. Fyrir óvopnaða smáþjóð er ekkert keppikefli að hernaðarlegir hagsmunir stórvelda dragi að henni athygli. Undan athyglinni verður þó ekki vikist með því að stinga höfðinu í sandinn. Stjórnvöld verða að fylgja trúverðugri öryggisstefnu sem nýtur virðingar annarra þjóða.

Í skýrslu um utanríkismál sem Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra lagði fram á alþingi 12. febrúar 2013 sjást merki um að framkvæmd stefnunnar í öryggis- og varnarmálum tekur ekki alfarið mið af því sem segir í áhættumatsskýrslunni frá 2009 um minnkandi áherslu á hernaðarlega þætti.

Í utanríkismálaskýrslunni segir þvert á móti að varnarsamstarfið við Bandaríkin hafi styrkst á árinu 2012 á grundvelli varnarsamningsins frá árinu 1951 auk sameiginlegrar samstarfsyfirlýsingar frá árinu 2006 við brottför varnarliðsins.  Reglulegum samráðsfundum um varnar- og öryggismál hafi fjölgað og nýjar línur hafi verið lagðar í samstarfinu sem taki nú ekki einungis til hernaðarlegra ógna, heldur einnig nýrra áhættuþátta sem tengist meðal annars hryðjuverkaógn og ógn í netheimum, auk þróunar öryggismála á norðurslóðum og viðbrögðum gegn slysum og umhverfisvá en þar eigi Íslendingar og Bandaríkjamenn ríkra sameiginlegra hagsmuna að gæta.

Þá er í skýrslunni getið um varnaræfingar undir handleiðslu Bandaríkjamanna eins og það er orðað og ætlunin sé að í september 2013 taki Íslendingar í fyrsta sinn þátt í árlegri fjarskiptaæfingu Evrópuherstjórnar Bandaríkjanna með hátt á fimmta tug ríkja. Verði sérstök útstöð opnuð á Keflavíkurflugvelli vegna æfingarinnar og henni beint að nágrenni Íslands og norðurslóðum. Þá sé í athugun að þróa nánar samstarf við Bandaríkjamenn á sviði leitar og björgunar.

Í skýrslu utanríkisráðherra er ekki aðeins lýst auknu varnarsamstarfi við Bandaríkjamenn. Þar er einnig áréttað að norrænt samstarf í öryggis- og varnarmálum hafi aukist hröðum skrefum á undanliðnum árum. Ríkisstjórnir Norðurlanda hafi árið 2011 samþykkt yfirlýsingu um samstöðu til að mæta óförum og áföllum, bæði af náttúru og af manna völdum og á sviði utanríkis- og öryggismála.  

Utanríkisráðherra vísar til tillögu í skýrslu frá 2009 sem kennd er við Thorvald Stoltenberg, fyrrverandi ráðherra í Noregi, um aukið samstarf Norðurlandanna í öryggismálum vegna breytinga á norðurslóðum. Þar er meðal annars lagt til að Svíar og Finnar, þjóðir utan NATO, taki þátt í loftrýmiseftirliti frá Íslandi. Er ráðgert að orrustuvélar frá þessum tveimur þjóðum komi að eftirlitinu héðan vorið 2014 undir forystu Noregs.

Endanleg ákvörðun um þátttöku Svía og Finna er í höndum þjóðþinga þessara landa en samþykki á vettvangi NATO var einnig nauðsynlegt og fékkst það 19. desember 2012.

Til að milda aðild sænskra og finnskra orrustuvéla að verkefni undir handarjaðri NATO er á opinberum vettvangi lögð áhersla á að vélarnar fari til Íslands til að styrkja norrænt samstarf. Þá leggi NATO ekki skyldur á herðar Svíum og Finnum sem snúi að loftrýmisgæslu. Fari óþekkt loftfar inn í loftrými Íslands á meðan Svíar og Finnar eru hér í vélum sínum verði þeir ekki sendir til að sjá hvaðan loftfarið kemur. Hvað sem þessu líður markar þátttaka Svía og Finna í hernaðarlegum aðgerðum hér á landi undir hatti NATO söguleg tímamót.

Það er skynsamlegt markmið að auka hernaðarlega viðveru nágranna- og bandalagsþjóða hér á landi en jafnframt leggja áherslu á hinn borgaralega þátt öryggismálanna með alþjóðlegri leitar- og björgunarmiðstöð á Keflavíkurflugvelli. Aðstaða þar og í Helguvík er kjörin til afnota fyrir fjölþjóðlega sveit sem yrði til taks á Norður-Atlantshafi.

Íslendingar eru þátttakendur í varnarmálasamstarfi að því marki sem þeir geta. Nýr tækjakostur landhelgisgæslunnar, varðskipið Þór og eftirlitsflugvélin Sif, valda þar þáttaskilum. Hvorki skipið né flugvélin taka hins vegar þátt í hernaðarlegum aðgerðum. Aðstaðan á Íslandi skiptir að sjálfsögðu miklu og starfsemi sem rekin er af íslenskum yfirvöldum eins og vaktstöð siglinga og ratsjárstofnun.

Landhelgisgæslan og embætti ríkislögreglustjóra fara með það sem íslensk stjórnvöld kalla „varnartengd verkefni“ í orðaleik til að þurfa ekki að tala um hermál. Eftir brottför varnarliðsins var komið á fót varnarmálastofnun á vegum utanríkisráðuneytisins til að annast þessi verkefni. Hún var hins vegar lögð niður í lok árs 2010 en forræði varnarmála og „varnartengdra verkefna“ er hins vegar áfram hjá utanríkisráðuneytinu þótt það beri enga ábyrgð á daglegri stjórn landhelgisgæslu eða lögreglu. Þetta er stjórnsýslulegur bastarður sem brýnt er að uppræta enda er fráleitt að flækjur af þessu tagi þvælist fyrir stjórnvöldum á sviði öryggismála.

Þegar litið er til borgaralegs öryggis og gæslu þess ber að geta aðildarinnar að Schengen-samstarfinu sem skiptir sköpum fyrir samvinnu við lögreglulið í Evrópu og tryggir aðild að Europol, Evrópulögreglunni. Vegna skipulagðrar glæpastarfsemi sem nær til allrar Evrópu eru verkefni Europol að aukast og nýlega tók þar til starfa sérstök deild til að berjast gegn glæpum í netheimum. Samstarf er einnig náið við lögregluyfirvöld í Bandaríkjunum meðal annars um netöryggi.

 Gæsla öryggis í netheimum setur æ meiri svip á umræður um nýjar hættur. Frásagnir af vaxandi spennu undanfarna sólarhringa milli Norður- og Suður-Kóreu snúast meðal annars um netárásir á stofnanir og fyrirtæki í S-Kóeru. Fréttir bárust nýlega af árásum frá Kína á netkerfi í Bandaríkjunum.  Dagblaðið The New York Times varð til dæmis fyrir harkalegum netárásum eftir að þar birtust fréttir um spillingu á æðstu stöðum í Kína. Þá hefur verið skýrt frá ítrekuðum tilraunum til innbrota í opinber bandarísk tölvukerfi.  Bandaríska alríkislögreglan átti þátt í aðgerðum hér á landi sumarið 2011 þegar ótti vaknaði um hugsanlega netárás á Ísland.

Innbrot í stýrikerfi geta valdið miklu almennu tjóni takist til dæmis að eyðileggja raforkukerfi, breyta viðbrögðum tölvustýrðra farartækja eða vígvéla. Vafalaust eru gerðar fjölmargar tilraunir til að brjótast inn í slík stýrikerfi hitt er opinbert að á hverjum degi eru gerðar milljónir tilrauna til að hafa fé af fólki í netheimum á ólögmætan hátt.

Við þessari hættu þarf bæði á snúast á hernaðarlegu og borgaralegu sviði. Fjarlægðin skapar okkur Íslendingum enga sérstöðu í netheimum. Óhjákvæmilegt er að stjórnvöld haldi uppi öflugum net- og tölvuvörnum ein og í samvinnu við aðra. Póst- og fjarskiptastofnun ber ábyrgð á netvörnum hér á landi.

 III

 

Er þá komið að lokakafla máls míns. Skulu nefnd til sögunnar sex almenn málefni sem ástæða er til að hafa í huga sem ramma um það sem hér hefur verið sérstaklega rætt.

Í fyrsta lagi er það alþjóðlega fjármálakreppan. Enginn veit enn hvernig henni lýkur eða hvaða áhrif hún hefur á valdahlutföll í heiminum.

Í öðru lagi ber að nefna áhuga Bandaríkjamanna á að tryggja áhrif sín í Asíu og á Kyrrahafssvæðinu. Í Evrópu óttast margir að hægt og sígandi fjari undan hinu nána sambandi við Bandaríkin sem er grundvöllur Atlantshafsbandalagsins.

Í þriðja lagi  ríkir mikil óvissa í arabalöndunum við Miðjarðarhaf og í Mið-Austurlöndum.

Í fjórða lagi verður gjörbylting í orkumálum með vinnslu á olíu og gasi úr olíu- og leirsteini í Norður-Ameríku.  Bandaríkjamenn munu skipa sér við hlið Sádi-Araba þegar fram líða stundir sem olíu- og gasþjóð eða fara fram úr þeim.

Í fimmta lagi verður mikil breyting á NATO á næsta ári þegar allur herafli á vegum bandalagsins hverfur frá Afganistan.

Í sjötta lagi eru útgjöld til hermála um þessar mundir hin mestu sem þau hafa verið frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar. Kínverjar auka útgjöld sín um 11,2% í ár en talið er að Rússar muni árið 2015 verja 50% meira til hermála en nú. Þá færa Indverjar, Brasilíumenn og Suður-Afríkumenn sig einnig hernaðarlega upp á skaftið.

Við Íslendingar erum og verðum í sömu stöðu og áður. Við ráðum ekki ferðinni en stjórnvöldum ber að taka ákvarðanir í samræmi við skynsamlegt mat á hagsmunum okkar og þróun mála í okkar heimshluta.

Þegar ég segi „okkar heimshluta“ höfum við ákveðna landfræðilega og stjórnmálalega mynd í huga. Þessi mynd hefur breyst. Þar skipta nýjar siglingaleiðir um Norður-Íshaf mestu. Þær draga að nýja nágranna.

Íslandssagan kennir okkur að sókn meginlandsvelda út á Norður-Atlantshaf ræður mestu um stöðu okkar í samfélagi þjóðanna og getur skapað hættu hér landi.

Í nýjasta hefti tímaritsins Þjóðmála rita tveir fyrrverandi sendiherrar, Einar Benediktsson og Eiður Guðnason, grein sem þeir nefna: Hinn þögli her Kína. Þar segja þeir:

„Hvað varða þessi mál Íslendinga? Við ættum allra þjóða best að skilja að Kínverjar telja sig hafa hagsmuna að gæta á Norðurskautinu. Skyldi stefna í að þúsundir eða tugþúsundir þeirra komi til námavinnslu hjá næsta nágranna okkar, Grænlandi? Verður þá ekki þörf á öflugri hagsmunagæslu? Hvar væri Kínverjum betra að vera í friði og afskiptaleysi með stóra bækistöð en á Norðaustur-Íslandi? Er nokkur svo skyni skroppinn að geta ekki gert sér í hugarlund að kínverskir verktakar myndu leika sé að því að reisa hér mikla aðstöðu og flugvöll á Grímsstöðum, hraðbraut til Finnafjarðar og höfn þar, eins og sveitarstjórnin hefur þegar hannað? Það mundi ekki taka þá langan tíma.“

Ég hef annars vegar bent á að ríki á norðurslóðum skipa herafla sínum á nýjan hátt og hins vegar leggja þau öll áherslu á að þau vilji friðsamlegt samstarf í krafti borgaralegs öryggiskerfis. Ástæða er til að velta fyrir sér hvort Norður-Íshafsríkin fimm séu að safna liði til að búa sig undir sókn Kínverja inn á íshafið.

Kína, fjarlægt, risavaxið meginlandsveldi lætur að sér kveða á Norður-Atlantshafi. Hér eins og á Kyrrahafi getur aðeins eitt ríki skapað mótvægi við Kína, Bandaríkin. Náin tvíhliða samskipti við þau verða áfram besta öryggistrygging Íslendinga.