18.7.2011

Varðberg í 50 ár

Hinn 18. júlí 1961 stofnaði fjölmennur hópur ungra manna úr þremur stjórnmálaflokkum samtökin Varðberg, félag ungra áhugamanna um vestræna samvinnu. Í frásögn Morgunblaðsins af stofnfundinum segir að hinn „fjölmenni og öflugi fundur“ sýni „einhug hins unga fólks í að berjast fyrir lýðræðishugsjónum vestrænna menningarþjóða“. Þá sagði í frétt blaðsins að á fundinum hafi sameinast menn, sem annars væru í ólíkum stjórnmálaflokkum, til baráttu gegn þeim öfgastefnum og flokkum sem nú væru við lýði hér á landi.

Morgunblaðið sagði að nafn félagsins Varðberg bæri vott þeim einbeitta ásetningi félagsmanna að standa vörð um lýðræðislega stjórnarhætti í samstarfi við þær menningarþjóðir sem okkur væru skyldastar. Aðalmarkmið félagsins væru: að efla skilning meðal ungs fólks á Íslandi á gildi lýðræðislegra stjórnarhátta, að skapa skilning á mikilvægi samstarfs lýðræðisþjóðanna til verndar friðinum, að vinna gegn öfgastefnum og öfgaöflum og mennta og þjálfa unga áhugamenn í stjórnmálastarfsemi með því að afla glöggra upplýsinga um samstarf og um markmið og starf Atlantshafsbandalagsins svo og að aðstoða í þessum efnum samtök og stjórnmálafélög ungs fólks sem starfa á grundvelli lýðræðisreglna.

Guðmundur H. Garðarsson viðskiptafræðingur hafði haft forgöngu um stofnun Varðbergs og varð hann fyrsti formaður félagsins sem nú hefur starfað í 50 ár og lagt mikið af mörkum til að styrkja stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna og þátttöku þjóðarinnar í samstarfi undir merkjum Atlantshafsbandalagsins (NATO) og í varnarsamstarfi við Bandaríkin.

Aðstæður voru allt aðrar á íslenskum stjórnmálavettvangi árið 1961 en nú. Þá töldu ungir menn í Alþýðuflokki, Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki ástæðu til að árétta samstöðu sína gegn Alþýðubandalaginu og öðrum sem börðust fyrir úrsögn Íslands úr NATO og slitum varnarsamstarfsins við Bandaríkin með því að stofna Varðberg í framhaldi af því að Samtök um vestræna samvinnu höfðu verið stofnuð þremur árum áður með sambærilegt markmið.

Í desember á síðasta ári, 2010, var ákveðið að sameina þessi tvö félög undir nafninu: Varðberg, samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál. Þótt stjórnmálabaráttan á heimavelli sé á annan veg en fyrir 50 árum og staða öryggismála í okkar heimshluta hafi tekið á sig gjörbreytta og betri mynd með hruni Sovétríkjanna fyrir 20 árum er enn þörf fyrir umræður á innlendum vettvangi um stöðu Íslands á alþjóðavettvangi með öryggishagsmuni lands og þjóðar að leiðarljósi.

Atlantshafsbandalagið hélt hér úti upplýsingaskrifstofu í tæpa hálfa öld þar til henni var lokað á síðasta ári. Samtök um vestræna samvinnu og Varðberg nutu góðs af samstarfi við þá sem störfuðu á skrifstofunni.

Með þessum orðum vil ég minna á mikilvægt starf Varðbergs í áranna rás og fagna því að markmið félagsins um að standa vörð gegn framgangi öfgastefna hefur skilað glæsilegum árangri. Jafnframt vil ég þakka Guðmundi H. Garðarssyni og öllum öðrum sem hafa lagt ómetanlegan skerf af mörkum í þágu hinnar sígildu stefnu sem mótuð var í upphafi og ráðið hefur störfum félagsins í hálfa öld.