Svæðisútvarp Suðurlands
Svæðisútvarp RÚV
á Suðurlandi
1. júlí 1999
Þess verður minnst með verðugum hætti á næsta ári, að þá verða 70 ár liðin frá því að Ríkisútvarpið tók til starfa. Aldrei fyrr hefur það þó gerst í sögu þessarar merku stofnunar, að hún hafi gert samning við einkaaðila um samstarf með þeim hætti, sem nú er að hefjast, þegar Útvarp Suðurlands hefur svæðisbundnar útsendingar á dagskrá sem unnin er fyrir Ríkisútvarpið.
Hér eru því að verða þáttaskil í starfsemi Ríkisútvarpsins, sem að mínu mati voru fyrir löngu tímabær. Helsta hlutverk Ríkisútvarpsins er að sjá hlustendum fyrir góðri dagskrá, hvort sem hún er svæðisbundin eða nær til landsins. Sjálfsagt er að rækja þetta hlutverk í samvinnu við einkafyrirtæki sé þess kostur.
Samstarfið um Svæðisútvarp Suðurlands á ekki aðeins að tryggja hlustendum þess gott efni heldur skulu tæknileg gæði útsendinga frá Útvarpi Suðurlands miðast við staðla Ríkisútvarpsins hverju sinni.
Ríkisútvörp hvarvetna í Evrópu standa nú á tímamótum vegna vaxandi samkeppni frá einkafyrirtækjum. Eigendur þeirra gera kröfu um að standa jafnfætis þeim, sem starfa á vegum ríkisins. Víða um lönd eru menn að endurskilgreina stöðu og hlutverk ríkisfjölmiðla. Auk þess eru mótaðar nýjar reglur um innra starf þeirra og skipulag.
Hér á landi einkennast umræður um Ríkisútvarpið þó nokkuð af ótta um að breytingar á innra fyrirkomulagi þess og rekstrarformi verði til að þjónusta við hlustendur minnki og dagskráin versni.
Hæpið er, að við Íslendingar höfum búið þannig skipulagslega um hnúta í Ríkisútvarpinu, að ýmislegt megi þar ekki betur fara. Raunar bendir margt til þess, að óbreytt skipulag stofnunarinnar sé henni hættulegra en nokkur aðlögun að kröfum einkarekstrar.
Samningurinn um Svæðisútvarp Suðurlands er gerður í tilraunaskyni. Orðalag hans einkennist af mikilli varkárni og unnt er að slíta honum með skömmum fyrirvara. Mikið er í húfi fyrir báða aðila, að tilraunin heppnist.
Hitt er þó mikilvægast, að þjónusta við hlustendur sé viðunandi. Þeir fái efni, sem þeim líkar. Með Svæðisútvarpi Suðurlands er komið til móts við ítrekaðar óskir Sunnlendinga. Megi þeir lengi njóta ávaxtanna af þessari nýjung í tæplegra 70 ára sögu Ríkisútvarpsins. Megi hið nýja svæðisútvarp verða brautryðjandi við endurnýjun á starfsháttum Ríkisútvarpsins í samræmi við nýjar kröfur.