Ávarp vegna afhendingar skírteina í verkefninu: Útflutningsaukning og hagvöxtur.
Ávarp vegna afhendingar skírteina í verkefninu: Útflutningsaukning og hagvöxtur.
Hótel Saga 21. júní 1995
Góðir áheyrendur!
Við Íslendingar höfum löngum átt mikið undir útflutningi en aldrei þó eins og nú á tímum. Þegar lesin eru gögn um mótun utanríkisstefnunnar og störf utanríkisþjónustunnar á fyrstu árum lýðveldisins sést, að sóknin eftir mörkuðum var alltaf ofarlega á dagskrá. Dean Acheson utanríkisráðherra Bandaríkjanna, þegar Atlantshafsbandalagið var stofnað 1949, segir í æviminningum sínum, að hann hafi í viðræðum við Íslendinga í ráðherratíð sinni fengið að vita meira en nóg um gærur.
Aðstæður hafa breyst síðan þá. Nú eru það ekki stjórnmálamenn, sem ferðast á milli höfuðborga til að ryðja viðskiptahindrunum úr vegi með tvíhliða samningum. Á stjórnmálavettvangi hafa verið gerðir alþjóðasamningar um frjáls viðskipti. Frelsið er alltaf að aukast. Sífellt fleiri vörutegundir falla undir slíka samninga og komið hefur verið á fót stofnunum til að fylgjast með því, að við þá sé staðið.
Þessi þróun er ekki síst mikilvæg fyrir smáríki. Hún tryggir þeim jafna stöðu og stóru ríkjunum gagnvart slíkum eftirlitsstofnunum. Það gleymist oft, þegar rætt er um þátttöku okkar Íslendinga í samstarfi af þessu tagi, hve stóru ríkin, sem áður beittu hina smáu valdi, hafa tekið á sig mikilvægar skuldbindingar með slíkum samningum.
Nokkrar deilur hafa orðið um hlut okkar Íslendinga í alþjóðlegu viðskiptasamstarfi. Úrtölumennirnir eru sem betur fer á undanhaldi. Við höfum stigið mikilvæg skref í þessu efni á undanförnum árum, annars vegar með aðild að evrópska efnahagssvæðinu og hins vegar með þátttöku í Alþjóðaviðskiptastofnuninni, sem byggist á GATT-samkomulaginu.
Við núverandi aðstæður þarf ekki að efna til funda með utanríkisráðherra Bandaríkjanna um íslenskar gærur. Á hinn bóginn þarf að leggja mikla áherslu á að kenna Íslendingum að nýta sér þau tækifæri, sem viðskiptafrelsið býður. Aðeins með fræðslu og þjálfun tekst okkur að skapa forsendur fyrir árangri í útflutningi, markaðsöflun og sölu.
Með þessa staðreynd í huga er mér sérstök ánægja að ávarpa ykkur hér í dag, þegar fimmtu yfirferð verkefnisins: Útflutningsaukning og hagvöxtur er að ljúka. Heiti verkefnisins staðfestir réttmæti þeirrar skoðunar, að aðeins með útflutningi sé unnt að tryggja hagvöxt. Yfirlit yfir fyrirtækin, sem tekið hafa þátt í verkefninu síðan til þess var stofnað í fyrsta sinn 1989, sýnir, að fjölbreytni er mikil í því, sem menn vilja flytja út héðan.
Undirstaða útflutnings okkar er þó enn sem fyrr fiskur. Við Íslendingar hljótum að skilgreina okkur sem matvælaútflutningsþjóð. Tel ég mjög mikilvægt, að markvisst sé unnið að því innan rannsókna- og menntakerfisins að styrkja stöðu okkar að þessu leyti. Með auknu frelsi skapast fleiri tækifæri til útflutnings sjávarafurða en áður. Markaðurinn verður ekki nýttur til fulls, nema þekking, rannsóknir og öflug sölumennska haldist í hendur.
Í verkefninu Útflutningsaukning og hagvöxtur er knúið á um öguð vinnubrögð, sem draga úr áhættu og auka líkur á árangri. Öguð vinnubrögð byggjast á þekkingu. Reynslan sýnir, að verkefnið skilar fyrirtækjunum árangri. Hið sama á við um afkomu íslenska þjóðarbúsins í heild. Öguð vinnubrögð byggð á þekkingu er öruggasta leiðin til velfarnaðar.
Ég óska þeim til hamingju, sem nú eru að ljúka þessu verkefni og alls góðs. Hagnaður þeirra verður allri þjóðinni til hagsbóta. Ég árna Útflutningsráði, Íslandsbanka, Iðnlánasjóði og Stjórnunarfélagi Íslands einnig allra heilla, þakka þeim þetta merka framtak og hvet þá til að halda áfram á sömu braut í því skyni að sanna enn betur að í menntun og þekkingu felst góð fjárfesting.