18.4.2008

Tími breytinga hjá lögreglu.

Ávarp við slit Lögregluskóla ríkisins, Bústaðakirkju, 18. apríl, 2008.

Nýju lögreglumannsefni, ég óska ykkur innilega til hamingju.

Við fögnum ykkur í dag sem fullgildum liðsmönnum lögreglunnar. Þess er beðið með nokkurri eftirvæntingu, að þið komið til starfa. Rúmt eitt ár er liðið síðan Lögregluskóli ríkisins brautskráði síðast nemendur. Sjást þess að sjálfsögðu merki í fjölda menntaðra lögreglumanna, sem nú eru við störf.

Þess er vænst, að á árinu brautskráist 78 lögreglunemar úr Lögregluskóla ríkisins eða sem svarar til 10% af öllu lögregluliði landsins. Það munar um minna.

Traust almennings í garð lögreglunnar byggist á heildarmyndinni, sem við þjóðinni blasir. Þetta traust er óvenjumikið um þessar mundir. Þið gangið því til liðs við mikils metinn hóp karla og kvenna, sem leggur ómetanlegt starf af mörkum til að tryggja öryggi samborgara sinna.

Virðing fyrir störfum lögreglunnar sprettur ekki af sjálfu sér, heldur á rætur að rekja til þess, að lögreglumenn vinna störf sín af alúð og árvekni.

Lögreglunni hafa verið sett skýr markmið með almennri löggæsluáætlun til ársins 2011. Í áætluninni er ekki aðeins tekið á verkefnum lögreglu út á við heldur einnig litið til innra starfs hennar og starfsumhverfis lögreglumanna. Miklu skiptir að tryggja góðan starfsanda meðal lögreglumanna, treysta öryggi þeirra við hættumikil störf og sjá til þess, að fyrir hendi séu hæfileg stuðningsúrræði til að stuðla að sem bestri líðan, þrátt fyrir glímu við erfið verkefni.

Innan lögreglunnar bíða ykkar spennandi tímar og verkefni. Ég minni á að hinn 1. janúar 2007 tók skipulag lögreglunnar stakkaskiptum.

Sérstakri nefnd undir formennsku Þórunnar J. Hafstein, skrifstofustjóra í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, var falið að meta, hvernig staðið var að þessum breytingum. Nefndin hefur nú skilað mér áfangaskýrslu og lagði ég hana fram í ríkisstjórn í morgun. Meginniðurstaða nefndarinnar er, að með góðum undirbúningi, nýjum reglugerðum og skipuritum hafi breytingin gengið vel og ekki valdið röskun á löggæslu. Það eitt teljist góður árangur.

Í áfangaskýrslunni er brugðið mælistiku á útgjöld og kostnað. Útgjöld ríkissjóðs til löggæslu hafa aukist jafnt og þétt hin síðari ár. Séu útgjöld metin eftir umdæmum, kemur í ljós, að þau eru lægst á íbúa í umdæmi lögreglustjórans á Akureyri en hæst hjá embættinu á Suðurnesjum.

Við slíka útreikninga er margs að gæta eins og mun vafalaust koma í ljós í umræðum um skýrsluna. Ég tel hins vegar, að gögnin í skýrslunni eigi að nota sem grunn að gerð reiknilíkans um löggæslukostnað, svo að tryggt sé gegnsæi og stuðlað að víðtækri sátt um fjárveitingar, til að tryggja viðunandi þjónustu lögreglu jafnt í þéttbýli sem dreifbýli.

Ábendingar úttektarnefndarinnar eru allar þess eðlis, að ástæða er að taka þær til alvarlegrar umræðu. Vikið er að nauðsyn þess að endurskoða lögreglulögin og inntak lögreglustarfsins, stækka lögregluumdæmi enn frekar og skipa ekki aðeins lögfræðinga sem lögreglustjóra.

Ég hef fullan hug á að fylgja þessum hugmyndum eftir með umræðum og síðan aðgerðum. Skora ég á ykkur nýja lögreglumenn og þá, sem eldri eru og búa yfir mikilli reynslu, að segja álit sitt á tillögum í skýrslunni.

Neikvæð afstaða til nýrra hugmynda skilar engum árangri. Ótti við breytingar er örugg leið til að koma í veg fyrir, að eitthvað nýtt gerist. Nýskipan lögreglumála hefði aldrei komið til sögunnar án hvatningar frá lögreglumönnum og þakka ég formanni og stjórn Landssambands lögreglumanna gott samstarf. Ég vænti áfram góðrar samvinnu við nýja forystu landssambandsins um frekari umbætur í þágu löggæslunnar.

Í lok ágúst 2007 skipaði ég nefnd undir formennsku Ólafs K. Ólafssonar, sýslumanns Snæfellinga, til að gera tillögur um uppbyggingu alhliða löggæslu- og öryggismálaskóla. Skyldi nefndin einnig huga að þeim kosti, að starfsemi skólans færi fram í Keflavíkurstöðinni enda væri þar húsnæði og nauðsynlegur aðbúnaður.

Í nefndinni hafa setið fulltrúar lögreglumanna, fangavarða, starfsmanna landhelgisgæslu og tollvarða auk forstöðumanns starfsgreinaskóla á flugvallarsvæðinu við Keflavík. Endurspeglar val nefndarmanna það svið, sem skólanum var ætlað að spanna. Nú er ljóst, að ekki er áhugi hjá tollstjórninni að standa að þessum skóla.

Ég hef óskað eftir því við formann nefndarinnar, að hún haldi áfram störfum og einbeiti sér að námi starfsmanna í stofnunum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Staðarvalið verður áfram til umræðu en stjórnendur lögregluskólans telja hann best settan hér í Reykjavík.

Samstarf mitt við skólastjóra og aðra starfsmenn lögregluskólans hefur verið með ágætum og vil ég þakka hina metnaðarfullu langtímaáætlun um skólann, sem hefur verið birt með samþykki ráðuneytisins. Þá hefur einnig verið ánægjulegt að fylgjast með því, hve skipulega skólinn hefur tengst samstarfi evrópskra lögregluskóla.

Ég sæki ekki síður en þið ágætu nemendur góð ráð til þeirra, sem skólanum stjórna. Skiptir miklu, að skólinn sé í lifandi tengslum við allt lögreglustarf í landinu.

 

Góðir áheyrendur!

Ég býð hina nýju lögreglumenn velkomna til starfa með því að minna á, að þeir eru ekki að koma inn í staðnað umhverfi heldur á starfsvettvang, þar sem miklar breytingar eru á döfinni – ekki breytinganna vegna heldur í því skyni að gera góða hluti betur.

Breytingarnar snerta ekki aðeins ytra starfsumhverfi heldur inntak lögreglustarfsins sjálfs.

Af almennum umræðum er auðvelt að draga þá ályktun, að fælingarmáttur lögreglu sé best tryggður með lögreglumönnum, sem sitji við símann á lögreglustöð nótt sem nýtan dag. Raunar skipti mestu, að þeir sitji þar á nóttunni, því að þá séu ræningjar helst á ferð. Án þess að gera lítið úr þessari staðalmynd, tel ég hana hluta af liðinni tíð.

Undanfarið hefur verið lögð áhersla á að nútímavæða fjarskiptabúnað lögreglu samhliða endurnýjun á farartækjum. Afl og hreyfanleiki hvers einstaks lögreglumanns hefur stóraukist.  

Skjót og rétt viðbrögð við afbrotum, handtaka, ákæra og fangelsun í krafti dóms skapar fælingarmáttinn. Verulegur árangur hefur náðst í þessum efnum og fréttum af óhæfuverkum síbrotamanna hefur fækkað. Við blasa fullsetin fangelsi og lengri biðlistar þar.

Löggæslan er á réttri braut. Krafta sérhvers lögreglumanns ber að nýta til virkrar þátttöku við að gæta laga og réttar. Hver einstakur lögreglumaður hefur mikilvægu hlutverki að gegna. Honum ber að auðvelda störfin með góðum búnaði, öflugri greiningu og áhættumati. Öryggi lögreglumanna verður best tryggt með vitneskju um hættuna, sem að þeim kann að steðja, og réttum viðbrögðum við henni.

Ég ítreka heillaóskir mínar til ykkar, sem nú brautskráist. Öll gleðjumst við yfir því, að ykkur er tekið opnum örmum til starfa um land allt.

Ég bið ykkur blessunar í mikilvægum störfum – til hamingju með daginn.