Undir leiðsögn Kissingers
Þess var minnst 9. nóvember 2014 að 25 ár voru liðin frá hruni Berlínarmúrsins. Hann var sýnilegasta táknið um skiptingu Evrópu og heimsins alls milli austurs og vesturs, milli lýðræðisþjóða sem stóðu vörð um mannréttindi og frjálsræði í viðskiptum og einræðisríkja undir stjórn kommúnista. Bandaríkin voru forysturíki annars hópsins en Sovétríkin hins. Með hruni Sovétríkjanna dreymdi marga um að stjórnarhættir og gildi lýðræðisþjóðanna yrðu ráðandi í heiminum öllum.
Fram að hruni múrsins var rætt um tvípóla-kerfi á alþjóðavettvangi. Þótti það kalla óbærilega hættu yfir mannkyn að tvö kjarnorkuveldi stæðu grá fyrir járnum andspænis hvort gagnvart öðru. Engin framtíð fælist í lífi undir ógnarjafnvægi. Ronald Reagan Bandaríkjaforseti kynnti róttækustu tillöguna um að breyta þessu kerfi á fundinum með Mikhaíl Gorbatsjov í Höfða í október 1986.
Henry Kissinger lýsir því sem gerðist í Höfða á þennan hátt:
„Á leiðtogafundinum í Reykjavík árið 1986 nálgaðist Reagan stefnuna um gagnkvæma gjöreyðingu úr öfugri átt. Hann lagði til að öllum árásarvopnum í vopnabúrum beggja aðila yrði hent og að samningurinn um gagneldflaugakerfi hyrfi úr sögunni og þar með yrði heimilað að koma á fót eldflaugavörnum. Markmið hans var að ýta til hliðar kenningunni um gagnkvæma gjöreyðingu með því að banna árásarvopn en heimila varnarvopn sem girðingu, yrði samkomulagið brotið. Gorbatsjov sem trúði því – ranglega – að Bandaríkjamenn hefðu þegar hrundið eldflaugavarnaáætlun sinni í framkvæmd og sem vissi að Sovétmenn gætu ekki haldið í við þá vegna tæknilegs og efnahagslegs vanmáttar krafðist þess hins vegar að samningurinn um gagneldflaugakerfi héldi gildi sínu. Sovétmenn gáfust síðan í raun upp í kjarnorkuvopnakapphlaupinu þremur árum síðar og þar með lauk Kalda stríðinu.“
Þessa knöppu lýsingu Kissingers á lyktum Kalda stríðsins má lesa í glænýrri bók hans World Order. Eins og nafnið gefur til kynna fjallar hinn 91 árs gamli Henry Kissinger þar um heimsmyndina eða skipan heimsmála. Hann spannar alla mannkynssöguna og setur atburði líðandi stundar á ljóslifandi hátt í samhengi hennar.
Frásögnin skerpir mjög sýnina á stöðu heimsmála. Líta má á bókina sem tæki eða leiðarvísi til að átta sig á rótum margs þess sem nú veldur deilum og ágreiningi.
Kjarninn í boðskap Kissingers er að grunnurinn að heimsmyndinni eins og við þekkjum hana á líðandi stundu hafi verið lagður árið 1648 með friðarsamningi eftir 30 ára stríðið, trúarbragðastyrjöld í Evrópu eftir siðaskiptin. Talið er að fjórðungur íbúa Mið-Evrópu hafi fallið í stríðsátökunum eða vegna sjúkdóma og hungurs. Óumdeild leiðsögn páfa hvarf, ekkert ríki hafði yfirburðastöðu og allir áttu nóg með að bjarga eigin skinni.
Við þessar aðstæður var gerður friðarsamningur sem kenndur er við Vestfalíu í Þýskalandi, reistur á raunsæju mati en ekki siðferðilegum vangaveltum. Að baki friðnum var kerfi myndað af sjálfstæðum ríkjum sem lutu eigin stjórn og vilja án afskipta annarra auk þess sem séð var til þess að hæfilegt valdajafnvægi væri milli ríkja. Enginn boðaði sannleika eða hafði vald sem aðrir urðu að viðurkenna. Þess í stað var hvert ríki fullvalda á eigin landsvæði. Réttur hvers ríkis til að ákveða eigin stjórnarhætti og trú var óskoraður.
Kissinger segir að þeir sem sömdu um friðinn í Vestfalíu hafi ekki talið sig leggja grunn að kerfi sem gæti átt við um öll lönd heimsins. Þeir hafi til dæmis ekki gert neina tilraun til að láta það ná til Rússlands þar sem þróunin á þessum tíma hafi í raun verið í þveröfuga átt: einræðisvald keisararans jókst, krafan um einsleitni í anda rétttrúnaðar magnaðist og yfirráðastefna einkenndi öll samskipti við nágrannaríki.
Í stuttu máli og til einföldunar má segja að með áherslu sinni á mikilvægi friðarsamningsins í Vestfalíu skýri Kissinger eigin afstöðu, hann er maður raunsæis í stað hástemmds siðaboðskapar.
Í máli mínu hér verður leiðsögn Kissingers notuð til að skýra stöðu fjögurra alþjóðlegra viðfangsefna sem blasa við íslenskum stjórnvöldum. Þau snerta tengslin við Evrópusambandið, stöðuna gagnvart Kínverjum, Rússa og norðurslóðir og loks útþenslu íslams.
Evrópusambandið.
Innan Evrópusambandsins takast á gagnstæð sjónarmið. Samstarfið innan vébanda þess er tvíátta, markmiðið er að efla svæðisbundna samvinnu án þess að afmá þjóðríki. Jafnframt er þrengt að sjálfsákvörðunarrétti ríkja á mikilvægum sviðum.
Kissinger segir að ESB sé einskonar furðudýr. Sumir vilji ganga alla leið til sambandsíkis, aðrir vilji efla þjóðríkið. Undir þessum hatti krefjist síðan íbúar einstakra héraða aukinnar sjálfstjórnar: Skotar, Katalóníumenn, Bæjarar og Baskar.
Forystumenn Evrópuríkja sækja umboð sitt til kjósenda í löndum sínum og verða því að höfða til skoðana þeirra til að halda völdum. Um þessar mundir sveiflast almenningsálitið gegn embættismannaveldi ESB í Brussel. Þjóðum finnst þær hafa fórnað nógu í þágu evrunnar án þess að fá annað í staðinn en atvinnuleysi og efnahagslega stöðnun. Straumur ólöglegra innflytjenda vekur harðnandi kröfur um aukið landamæraeftirlit.
Íslendingar tengdust ESB á formlegan hátt með EES-samningnum um fjórfrelsið á sameiginlegum innri markaði fyrir 20 árum og árið 1999 var gengið frá samningi um aðild að Schengen-samstarfinu um vegabréfaleysi á landamærum en samstarf í lögreglu- og réttarfarsmálum. Árið 2009 sótti alþingi um aðild að stjórnmála- og myntsamstarfi Evrópusambandsins og var talið að til hennar kæmi innan 18 til 24 mánaða.
Meginvandinn fyrir íslensku viðræðunefndina vegna umsóknarinnar var að sýna ESB-mönnum að kröfur Íslendinga um sjálfstæði í sjávarútvegsmálum og ráð yfir 200 mílna lögsögu sinni samrýmdust sameiginlegri stefnu ESB í sjávarútvegsmálum.
Snemma árs 2011 lauk sameiginlegri úttekt viðræðunefndanna á sviði sjávarútvegs. Eftir það neituðu ESB-menn að skila úttektaráliti sínu nema Íslendingar kynntu þeim markmið sín í málaflokknum. Um þetta stóð þræta fram í janúar 2013 þegar Össur Skarphéðinsson, þáv. utanríkisráðherra, lagði til að viðræðunum yrði formlega frestað fram yfir þingkosningar í apríl 2013.
Kosningarnar leiddu til stjórnarskipta og flokkar andstæðir ESB-aðild mynduðu ríkisstjórn. Viðræðunefnd Íslands var afmunstruð síðsumars 2013, aðildarumsóknin hefur hins vegar ekki verið dregin til baka, ekki heldur eftir að ljóst varð um mitt sumar 2014 eftir kosningar til ESB-þingsins að sambandið yrði ekki stækkað fyrr en einhvern tíma eftir árið 2019.
Hið einkennilega og í raun óskiljanlega er að ekki er samstaða á alþingi um að afturkalla hina dauðu aðildarumsókn vegna ágreinings um þjóðaratkvæðagreiðslu. Krafan um slíka atkvæðagreiðslu nú er einkum frá þeim sem töldu hana fráleita sumarið 2009 þegar alþingi samþykkti aðildarumsóknina.
Öll rök hníga til þess að alþingi kalli umsóknina til baka og sæki um að nýju á raunhæfum forsendum skapist um það meirihluti á þingi og meðal þjóðarinnar sem sé spurð í upphafi hvort hún vilji ganga í Evrópusambandið eða ekki.
Staðan gagnvart Kínverjum
Fjöðurin í hatti Kissingers er lykilhlutverkið sem hann gegndi í forsetatíð Richards Nixons, fyrir rúmum 40 árum, við að koma á stjórnmálasambandi milli Bandaríkjanna og Rauða-Kína eins og kommúnistaríkið Kína var gjarnan kallað á þeim tíma.
Kissinger lýsir stjórnarháttum í Kína og viðhorfum Kínverja til umheimsins. Þeir litu á sig sem miðju alheimsins og töldu keisara sinn ofurmannlegan. Hann var í raun svo upphafinn að aðrir úr mannheimi áttu lítið eða ekkert erindi við hann.
Hin síðari ár hafa kínversk stjórnvöld lagað sig að Vestfalíu-alþjóðakerfinu um samskipti ríkja á jafnréttisgrundvelli. Kína á aðild að alþjóðastofnunum og stjórnarherrarnir í Peking gera samninga við aðra eins og Íslendingar hafa kynnst, meðal annars með tvíhliða viðskiptasamningi, hinum fyrsta sem gerður var milli Kína og Evrópuríkis.
Kínverjar hafa hins vegar ekki gleymt því segir Kissinger að þeir voru neyddir til að laga sig að alþjóðlegu kerfi sem varð til og mótaðist á meðan þeir lifðu í eigin einangrun. Kerfi sem stangast algjörlega á við sögulega mynd þeirra af sjálfum sér.
Þessi afstaða eða krafa um sérstöðu birtist meðal annars í yfirlýsingum háttsettra Kínverja um þróun mála á norðurslóðum og vaxandi mikilvægi þeirra. Fræg eru orð sem Yin Zhuo, flotaforingi í Kína, lét falla í mars 2010 þegar hann sagði:
„Norður-Íshaf er eign allra þjóða heims og engin þjóð hefur þar fullveldi […] Kínverjar verða að tryggja að þeir verði ómissandi aðilar að norðurslóðarannsóknum þar sem við erum fimmtungur mannkyns.“
Orðin sýna að í ljósi fjölmennis kínversku þjóðarinnar telur flotaforinginn að hún geti krafist um 20% hlutdeildar í Norður-Íshafi. Slík krafa á enga stoð í alþjóðalögum enda eru 1000 mílur frá heimskautsbaug að nyrsta odda Kína.
Áhuginn á að ná fótfestu í norðri er hins vegar mikill í Peking. Í ljósi hans ber til dæmis að meta brölt Huangs Nubos, kínverska auðmannsins, sem vildi kaupa 300 ferkílómetra lands Grímsstaða á Fjöllum. Þegar íslensk lög stóðu gegn kaupáformum hans reyndi hann leiguleiðina með því að vefja sveitarstjórnum á norðausturlandi um fingur sér.
Samskipti Huangs við sveitarfélögin má kenna við það sem kallað er social engineering á ensku, það er tilraun til samfélagslegra áhrifa í annarlegum tilgangi. Huang og menn hans hafa kannað hve langt má komast innan íslenska stjórnkerfisins fyrir tilstilli sveitarfélaga eftir að ríkisvaldið hafnaði þeim. Reynsluna má síðan nota í öðrum tilvikum síðar.
Fréttir herma að hlutafélagið GáF sem sveitarfélögin stofnuðu til að þjóna Huang Nubo glími nú við 10 milljóna króna skuld. Innan sveitarfélaganna er deilt um hvort hlutverk þeirra sé að kaupa land til að leigja öðrum. Hinu samfélagslega tilraunastarfi í þágu kínverska auðmannsins er ekki að fullu lokið.
Sjálfur hefur Huang Nubo hins vegar snúið sér til Noregs þar sem hann fékk í maí 2014 loforð fyrir 100 hektara landi í Lyngen skammt frá Tromsö. Hann hefur þó ekki enn gengið formlega frá kaupunum og fyrir skömmu bárust óljósar fréttir um að kínversk skattayfirvöld hefðu tekið fyrirtæki hans til rannsóknar.
Hvarvetna á Vesturlöndum segja sérfróðir menn að Huang Nubo tengist kínverskum stjórnvöldum. Enginn gangi fram á þann veg sem hann hefur gert án heimildar kínverskra ráðamanna enda hafi Huang starfað að áróðri fyrir stjórnina og flokkinn.
Þessi saga öll hefur spillt fyrir kínverskum stjórnvöldum bæði hér á landi og í Noregi. Tortryggni hefur verið sáð.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, lætur hana þó ekki fipa sig og segir gjarnan í ræðum á alþjóðavettvangi frá nánu sambandi sínu við ráðamenn Kína og að Íslendingar hafi sérstöku hlutverki að gegna við að leiða öll stærstu ríki heims saman til friðsamlegrar samvinnu á norðurslóðum.
Rússar og norðurslóðir
Í bók sinni fjallar Henry Kissinger ekkert um norðurslóðir, framvindu mála þar eða gildi þeirra fyrir skipan heimsmála. Um samskipti Rússa og Bandaríkjamanna segir hann að þeir hafi ekki gert upp við sig hvort þeir eigi að starfa saman eða beita sér hvor gegn öðrum „þótt atburðirnir í Úkraínu kunni að eyða þessari óvissu og afstaðan taki á sig svipmót kalda stríðsins,“ segir hann á einum stað.
Almennt ræðir Kissinger lítið um Rússa í samtímanum þótt hann lýsi stöðu þeirra og áhrifum á keisara- og Sovéttímanum. Hann dregur ekki í efa að þeir virði skipan mála eins og hún var mótuð í Vestfalíu árið 1648 þótt þeir hafi haft mikla sérstöðu þá og allar götur síðan. Í þessu felst sú trú að þeir virði landamæri nágrannaríkja.
Undanfarna mánuði hefur óttinn við að Vladimír Pútín Rússlandsforseti hafi landamæri að engu vaxið og vissulega hefur hann sýnt yfirgang gagnvart Úkraínumönnum með því til dæmis að innlima Krímskaga í Rússland í mars 2014. Landamæri Úkraínu voru hins vegar lýst friðhelg árið 1994 þegar öll kjarnorkuvopn voru hreinsuð á brott úr landinu.
Vegna ofbeldis Rússa hefur NATO aukið hernaðarlegan viðbúnað í nágrenni landamæra Rússlands án þess að koma þar á fót varanlegum herstöðvum. Sami háttur er hafður þar og gagnvart Íslandi að senda reglulega flugsveitir til eftirlits í nágrenni Rússlands. Fréttir berast um að rússneski flugherinn hafi fært sig upp á skaftið á Eystrasaltssvæðinu og hið sama má segja um flotann.
Föstudaginn 17. október 2014 staðfestu sænsk yfirvöld að þau leituðu að ókunnum kafbáti í skerjagarðinum utan við Stokkhólm. Grunur er um að hann sé rússneskur. Tilgangurinn með að senda hann á vettvang kann að vera social engineering, það er að reyna á innviði Svíþjóðar pólitískt og hernaðarlega.
Föstudaginn 24. október 2014 var leitinni að kafbátnum hætt í sænska skerjagarðinum með yfirlýsingu um að ókunnugt neðansjávarfar hefði verið þar á sveimi en væri horfið. Í Moskvu gerði talsmaður rússneska varnarmálaráðuneytisins grín á Svíum. Kafbátaleitin hefði verið „ástæðulaus“ og „hlægilegur sorgarleikur“ sem hefði aukið spennu á svæðinu. Nú reyndu Svíar allt sem þeir gætu til að gera sem minnst úr þessari hneisuför.
Það er yfirlýst stefna Pútíns að styrkja hernaðarlega stöðu Rússa í heimskautahéruðum þeirra og á Norður-Íshafi. Ný herstjórn hefur verið mynduð, nýir kjarnorkukafbátar koma til sögunnar, gamlar flotahafnir og flugvellir frá Sovéttímanum eru teknir í notkun.
Margt minnir þetta á þróunina í kalda stríðinu þótt að baki hervæðingu Kremlverja búi ekki heimsvaldastefna eins og þegar Moskva var miðstöð þeirra sem stjórnuðu útþenslustefnu kommúnista sem hafði meginreglurnar frá Vestfalíu að engu.
Íslensk stjórnvöld verða að taka mið af þessari þróun við mótun þjóðaröryggisstefnu Íslands, meginstoðir hennar eru sem fyrr aðildin að NATO og varnarsamningurinn við Bandaríkin.
Útþensla íslam
Vilji menn kynnast því í samtímanunum hvernig grafið er undan sjálfstæði og yfirráðarétti ríkja ber að líta til atburðanna í Mið-Austurlöndum þar sem barist er undir merkjum íslam og átökin eru hörðust milli tveggja trúarfylkinga, súnníta og sjíta.
Ágreining fylkinganna má rekja til dauða Múhameðs spámanns árið 632 þegar hópur öldunga ákvað að tengdafaðir hans, Abu Bakr, skyldi verða arftaki spámannsins sem kalífi, það er sá sem best gæti stuðlað að jafnvægi og friði innan samfélags múslíma.
Minnihluti meðal trúbræðranna taldi að ekki hefði átt að greiða atkvæði um þetta því að þar með skákaði mannlegur vilji forsjóninni. Nánasta skyldmenni spámannsins, Ali, frændi hans, væri réttborinn til forystu.
Abu Bakr er leiðtogi súnníta. Þeir telja að enginn geti sem spámaður fetað í fótspor Múhameðs, samband hans við guðdóminn hafi verið einstakt. Skylda kalífans sé hins vegar að varðveita arfleifð spámannsins.
Ali er leiðtogi sjíta. Þeir telja að enginn öðlist réttan skilning á uppljómun Múhameðs nema hann njóti leiðsagnar þeirra sem reki andlegan styrk og ættir beint til Múhameðs og Alis, „gæslumanna“ leyndardóma trúarinnar.
Átök þessara fylkinga múslíma teygja sig til Evrópu og alla leið til Íslands.
Laugardaginn 11. október 2014 bárust fréttir um að súnnítar í hryðjuverkasamtökunum Islamic State (IS) – Íslamska ríkið – sem hafa lagt undir sig stóra hluta Sýrlands og Íraks hefðu opnað áróðurssíðu á netinu með íslensku léni .is
Í fyrstu taldi ISNIC sem fer með eftirlit með íslenskum lénum sig ekkert geta gert. Advania sem hýsti síðuna lokaði á hana 11. október en hún var opnuð aftur í hýsingu annars staðar.
Dómsmálaráðuneytið tók málið strax til skoðunar og í kvöldfréttum ríkisútvarpsins sunnudaginn 12. október var haft eftir Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætis- og dómsmálaráðherra:
„Það er auðvitað ótækt að þetta fyrirbæri skuli nota íslenskt lén og ákaflega óskemmtilegt að þeir skuli kalla sig IS og nota einkennisstafi Íslands á þennan hátt.“ Málið hefði „ekkert með tjáningarfrelsi að gera heldur glæpsamlegt og mannfjandsamlegt athæfi.“ Á slíkt yrði að vera hægt að loka.
Það voru mistök að ekki skyldi samstundis gripið til ráðstafana til að afmá þennan óvinafagnað af íslensku yfirráðasvæði. ISNIC áttaði sig loks á að félaginu bæri að ábyrgjast að notkun léns væri í samræmi við íslensk lög og lokaði á islamistana klukkan 18:40 sunnudaginn 12. október.
Skráning íslömsku áróðurssíðunnar á íslenskt lén er til marks um tvennt:
Annars vegar er gerð atlaga að íslensku yfirráðasvæði í netheimum. Aðeins íslensk stjórnvöld bera ábyrgð á að verja þetta íslenska svæði. Hafi þau ekki burði til þess ber það vott um alvarlega brotalöm.
Hins vegar er Ísland ekki úr alfaraleið þegar hryðjuverkamenn leggja á ráðin um hvar þeir skuli koma ár sinni fyrir borð. Koma um milljón ferðamanna á ári með flugvélum til landsins kallar ekki síður á árvekni en varðstaða í netheimum.
Lokaorð
Ég hef rakið fjögur mál og skoðaði þau með Henry Kissinger sem leiðsögumann. Niðurstaðan er skýr:
Í fyrsta lagi: Á herðum íslenskra stjórnvalda hvílir ótvíræð skylda til að standa vörð um rétt ríkja sem til varð með friðnum í Vestfalíu árið 1648.
Í öðru lagi: Stjórnvöld standa frammi fyrir margbreytilegum og flóknum alþjóðlegum viðfangsefnum sem krefjast ígrundaðra og raunsærra ákvarðana.
Í þriðja og síðasta lagi: Stjórnvöldum ber að stuðla að samstöðu þjóðarinnar um nauðsynlegar aðgerðir til að tryggja stöðu hennar á alþjóðavettvangi. Það verður best gert með því að draga skýrar línur og styðja hvert skref sem stigið er einföldum og málefnalegum rökum.
)