11.12.2015

Misheppnuð aðildarumsókn að ESB í tilvistarkreppu

Morgunblaðið 11. desember 2015Þegar litið er yfir sögu íslenskra utanríkismála á fyrsta áratug 21. aldar má staldra við þrjá stóratburði: brottför varnarliðsins, misheppnaða tilraun til að komast í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna og vanhugsaða aðildarumsókn að Evrópusambandinu. 


Á næsta ári verða 10 ár liðin frá brottför varnarliðsins. Breytingarnar síðan sýna að viðvörunarorð um að enn væri þörf á reglulegri loftrýmisgæslu flugvéla frá landinu áttu við rök að styðjast. Tilraunin vegna öryggisráðsins kennir stjórnvöldum nauðsyn þess að sníða sér stakk eftir vexti. ESB-aðildarbröltið er víti til að varast. 

Aðildarumsóknin var misheppnuð vegna ranghugmynda á æðstu stöðum um eðli hennar. Umsóknarsmiðir töldu sér trú um að EFTA-aðildin myndi setja ósk Íslendinga í sömu ESB-skúffu og umsóknir EFTA-ríkjanna í upphafi tíunda áratugarins. Þessi misskilningur utanríkisráðherra og embættismanna hans olli til dæmis ágreiningi um hvort aðlögunar væri krafist eða ekki. Þá var látið eins og um aðild yrði kosið innan 18 mánaða frá framlagningu umsóknar. Loks var alið á þeirri blekkingu að viðurkennd yrði sérstaða 200 sjómílna lögsögu Íslands, hún félli ekki undir sjávarútvegsstefnu ESB.

Meginforsendur ESB-umsóknarinnar reyndust einfaldlega rangar. Enginn sækir um aðild að ESB til að tína rúsínur úr bollunni. Menn verða að kyngja henni allri. Komi til þess að þjóðin samþykki nýja umsókn, verður staðið allt öðru vísi að málum. Vegna þessa eins er ástæðulaust að eyða tíma og kröftum í að velta fyrir sér hvort jafnilla hafi verið staðið að því að afturkalla umsóknina og senda hana til Brussel. Umsóknargögnin frá árinu 2009 eru í raun sjálfdauð og fráleitt að reyna að blása lífi í þau. 

Vandi ESB

Í Brussel glíma menn við alvarlegri vanda en þann sem snýr að Íslandi þótt afturköllun umsóknar Íslands hafi greinilega farið fyrir brjóstið á ráðamönnum þar. Þeir láta eins og þeir viti ekkert um efni málsins. Þetta er síður en svo í fyrsta sinn sem ESB-embættismenn sýna þóttafulla framkomu vegna óþægilegra atvika. Þannig koma þeir fram gagnvart Dönum núna og láta auk þess eins og and-ESB Þjóðfylkingin í Frakklandi sé ekki stærsti flokkur landsins.

Fimmtudaginn 3. desember gengu Danir til þjóðaratkvæðagreiðslu vegna nokkurra fyrirvara á aðild Danmerkur að ESB. Nei-hliðin sigraði með 53,1% atkvæða að baki sér. Nei-hliðin vann kosningabaráttuna gegn vilja gamalgrónu dönsku stórflokkanna, Venstre (mið-hægri) og Jafnaðarmannaflokksins. Danski þjóðarflokkurinn vann þriðja stóra kosningasigur sinn í röð í atkvæðagreiðslunni.

Á vegum danska blaðsins Berlingske Tidende var laugardaginn 5. desember gerð Gallup-könnun. Hún leiddi í ljós þrjár meginástæður kjósenda til að segja nei. Þær voru: hafnað var meira framsali fullveldis; hafnað var umsvifameira ESB og lýst vantrausti á embættismannakerfi ESB, einkum framkvæmdastjórn ESB.

Þrátt fyrir ítrekaða andstöðu þjóða við framsal fullveldis eru það jafnan fyrstu viðbrögð ESB-elítunnar að auka þurfi miðstýringu innan ESB. Elítan sjálf þurfi meiri völd til að ná tökum á aðsteðjandi vanda. Almenningur vill hins vegar ekki afsala sér meira fullveldi til ESB. Kenningin um að framsal fullveldis styrki fullveldið af því að það sé í höndum fleiri en einnar þjóðar hefur einfaldlega gengið sér til húðar.

Víðar en í Danmörku hafa menn fengið nóg af ESB. Nýr forsætisráðherra Póllands,Beata Szydlo, tilkynnti strax eftir að hún tók við embætti fyrir skömmu að fáni ESB yrði fjarlægður úr salnum þar sem hún hittir fjölmiðlamenn vikulega. Þar yrði pólski fáninn einn í bakgrunni enda ræddu menn málefni Póllands á fundunum. Orð pólska ráðherrans eru í anda gagnrýni sem Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, hefur lengi haft um ESB og drottnunargirni í Brussel. 

Ándúð á Brussel- og Berlínarvaldinu fékk byr í seglin eftir að ESB-menn og þýskir stjórnmálamenn kröfðust þess að farand- og flóttafólki yrði dreift á ESB-ríki. Í austurhluta Evrópu er litið á þetta sem freklega fullveldis-aðför. Við hlið Pólverja og Ungverja mynda Tékkar og Slóvakar svonefndan Visegrad-hóp innan ESB. Nú 11 árum eftir aðild þjóðanna að ESB er þeim nóg boðið vegna fyrirmæla um að þær skuli taka við ákveðnum fjölda fólks ella sæta refsingu.


Frakkar kjósa Þjóðfylkinguna

Kosið var til héraðsstjórna í Frakklandi sunnudaginn 6. desember. Þjóðfylkingin sigraði í kosningunum og hlaut alls 27,83% atkvæða, Lýðveldissinnar (mið-hægri) skipa annað sæti með 27,33% en sósíalistar, franski stjórnarflokkurinn, fékk 23,26% atkvæða. Önnur umferð kosninganna verður sunnudaginn 13. desember. 

Lýsingar andstæðinga Þjóðfylkingarinnar á flokknum og eðli hans eru ófagrar. Í leiðara mið-vinstrablaðsins Le Monde var Þjóðfylkingunni lýst sem „réactionnaire et xénophobe“, afturhaldssömum flokki útlendingahatara sem knúinn væri til dáða af hugmyndafræði sem stangaðist á við gildi franska lýðveldisins, flokki sem boðaði stefnu sem væri eins „démagogiques que dangereuses“ – jafnmikið lýðskrum og hún væri hættuleg.

Andstæðingar Þjóðfylkingarinnar lýsa sjálfum sér gjarnan sem varðmönnum franska lýðveldisins hvort sem þeir eru hægra eða vinstra megin við hina pólitísku miðju. Í anda þeirrar varðstöðu munu þeir safna liði í seinni umferð kosninganna í Frakklandi til að útiloka Þjóðfylkinguna frá að hljóta meirihluta í einhverri héraðsstjórnanna.

Eftir kosningarnar í Frakklandi sagði breskur álitsgjafi að sigur Þjóðfylkingarinnar sýndi að efasemdir um ágæti ESB nytu meiri stuðnings í Frakklandi en Bretlandi. UKIP, breski and-ESB-flokkurinn, hefði aldrei fengið jafnmikið fylgi og franska Þjóðfylkingin.

Rauði þráðurinn í stefnu Þjóðfylkingarinnar er að tengsl séu á milli gífurlegs fjölda innflytjenda, skorts á aðlögun og íslamskrar öfgahyggju. Að kenna þessa stefnu við öfgar innan ESB stenst varla lengur. Hún á vaxandi hljómgrunn innan allra flokka. Fyrrverandi jaðarflokkar njóta sífellt meiri viðurkenningar eins og best sést á Norðurlöndunum: Framfaraflokkurinn í ríkisstjórn Noregs, Finnaflokkurinn í ríkisstjórn Finnlands og forseti danska þjóðþingsins úr Danska þjóðarflokknum,

Tilvistarvandi ESB verður skýrari en áður eftir sigur Þjóðfylkingarinnar í Frakklandi. Marine Le Pen krefst þjóðaratkvæðagreiðslu í Frakklandi um úrsögn Frakka úr sambandinu takist ekki að auka sjálfsákvörðunarrétt þeirra. Hún lítur til Davids Camerons, forsætisráðherra Breta, sem fyrirmyndar í þessu efni.