17.1.2013

Minningarorð – Stefán P. Eggertsson


Stefán Pétur Eggertsson var einstakur samstarfsmaður. Þetta reyndi ég á mörgum sviðum við úrlausn flókinna og viðkvæmra verkefna sem komu til úrlausnar í tíð minni sem menntamálaráðherra annars vegar og dóms- og kirkjumálaráðherra hins vegar.

Hann kom að því að leggja grunn að Listaháskóla Íslands. Það var síður en svo augljóst að tækist að stofna einkarekinn listaháskóla hér á landi eftir að hver tilraunin eftir aðra til að sameina ríkisrekna skóla einstakra listgreina og færa þá á háskólasig hafði runnið út í sandinn. Tilraunin um Listaháskóla Íslands heppnaðist og þar átti Stefán Pétur stóran hlut að máli við allan undirbúning og síðan sem fyrsti stjórnarformaður skólans.

Í marga áratugi var barist fyrir tónlistarhúsi á Íslandi. Eftir að ákveðið var á síðari hluta tíunda áratugarins að ríkisvaldið hefði frumkvæði að samstarfi um að leiða málið til lykta varð að finna farsæla leið til þess. Stefán Pétur gegndi þar lykilhlutverki sem samstarfsaðili af hálfu Samtaka um tónlistarhús. Samkomulag tókst milli ríkis og Reykjavíkurborgar um leið til að reisa húsið. Á öllu undirbúningsferlinu lagði Stefán Pétur mikið til stefnumörkunar og eftir að ákvörðun var tekin stóð hann að framkvæmd hennar án þess að missa nokkru sinni sjónar af þeirri meginkröfu að hljómburður hússins yrði á heimsmælikvarða.

Þriðja stórverkefnið sem skal nefnt þegar Stefán Pétur er kvaddur um aldur fram er endurreisn fangelsa og áform um að reisa fangelsi á höfuðborgarsvæðinu. Þar hefur hann unnið mikið starf við gerð tillagna sem því miður hefur tekið of langan tíma að hrinda í framkvæmd eða þær hafa aldrei komist á framkvæmdastig. Ástæðan er ekki sú að illa eða seint hafi verið staðið að undirbúningi heldur hin að um hreinar ríkisframkvæmdir er að ræða en ekki samvinnu við einkaaðila á grundvelli útboðs ríkisins.

Við undirbúning og framkvæmd mannvirkjagerðar af þessu tagi þarf að takast á við mörg álitaefni og sé ekki rétt og í sátt staðið að lausn þeirra getur hvert einstakt leitt til ágreinings sem stöðvar framvindu verkefnisins. Fyrir utan afburðarþekkingu á aðferðum við úrlausn stórverkefna hafði Stefán Pétur einstakan hæfileika til að laða menn til samstarfs hvar sem hann lét að sér kveða. Hann tókst ekki á við verkefni til að trana sjálfum sér fram heldur til að ljúka þeim á farsælan hátt sem honum tókst.

Til marks um traustið sem Stefán Pétur ávann sér við skipulag og verkefnastjórn er að þeir sem unnu með honum að undirbúningi og framkvæmdum kvöddu hann ekki þegar því stigi var lokið heldur kusu hann til trúnaðarstarfa til að leiða starfið á nýjum vettvangi eins í Listaháskóla Íslands og Hörpu.

Á kveðjustundu vil ég votta Stefáni Pétri Eggertssyni virðingu og þakklæti. Hann hefur af hógværð og framsýni lagt mikið af mörkum í þágu góðra málefna. Hann var einstakur samstarfsmaður.

Ég votta Kristínu og fjölskyldu þeirra Stefáns Péturs innilega samúð.

Blessuð sé minning Stefáns Péturs Eggertssonar.