20.6.2002

Orkustefna Reykjavíkurborgar



Orkustefna
Reykjavíkurborgar,
borgarstjórnarfundur,
20. júní, 2002.




Reykjavíkurborg er stórveldi í orkumálum á íslenskan mælikvarða með
eignaraðild sinni að Landsvirkjun og Orkuveitu Reykjavíkur. Það er því verðugt viðfangsefni að marka sérstaka orkustefnu á vegum borgarinnar. Raunar er brýn nauðsyn á því, að það verði gert með hliðsjón af þeim breytingum, sem eru boðaðar á þessu sviði í frumvarpi til nýrra raforkulaga.

Í tillögu þeirri, sem hér liggur fyrir, felst viðleitni til að taka á þessu mikla verkefni. Tillagan og greinargerðin, sem henni fylgir, ber þess hins vegar glögg merki, að meirihluti borgarstjórnar hefur ekki burði til að móta skýra stefnu í orkumálum Reykjavíkur. Einmitt þess vegna hefur of lengi verið látið reka á reiðanum varðandi hina almennu stefnumótun í orkumálum borgarinnar. Málefni Orkuveitu Reykjavíkur hafa þróast á hættulegan hátt vegna skorts á skýrri stefnumörkun frá meirihluta borgarstjórnar. Innviðir fyrirtækisins hafa verið að veikjast.

Kom berlega í ljós á síðasta kjörtímabili borgarstjórnar, hve varasamt er að stjórna fyrirtæki eins og orkuveitunni, án þess að því séu sett skýr markmið og nákvæmlega sé unnt að fylgjast með því, hvernig þessum markmiðum skuli náð. Þetta skapar meðal annars hættu á því, að ekki sé nægilega vel haldið á stjórn fjármála. Er skemmst að minnast þess, að á síðustu átta árum hafa skuldir orkuveitunnar aukist úr 125 milljónum króna í rúma 22 milljarði króna og þó hafa ekki meira en tæpir 9 milljarðir af þessum fjármunum runnið til orkuframkvæmda. Sérfræðingar Viðskiptablaðsins um fjármál fyrirtækja hafa sagt, að flutningur á fjármunum úr orkuveitunni í borgarsjóð beri sömu merki og þegar eigandi einkafyrirtækis tekur fé úr því í aðdraganda þess, að það skuli selt.

Tillagan, sem hér er flutt, felur í sér viðurkenningu meirihluta borgarstjórnar á því, að gagnrýni á stefnuleysi orkuveitunnar og óljós markmið í rekstri hennar eigi við rök á styðjast. Sést það best, þegar lesinn er fimmti sérgreindi verkefnaliðurinn samkvæmt tillögunni, þar sem segir: að meta skuli stöðu og hlutverk orkuveitunnar í nýsköpun og þróun á sviðum sem tengjast starfsemi, eignum og grunngerð fyrirtækisins og hvernig slíkum verkefnum verði best fyrir komið í framtíðinni.

Í nýlegum sérlögum um Orkuveitu Reykjavíkur segir, að tilgangur fyrirtækisins sé vinnsla og framleiðsla raforku, varma og vatns, dreifing og sala afurða fyrirtækisins ásamt hverri þeirri starfsemi annarri sem nýtt getur rannsóknir, þekkingu eða búnað fyrirtækisins, sem og iðnþróun og nýsköpun af hverju tagi, ásamt annarri viðskipta- og fjármálastarfsemi samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni.

Er ljóst, að höfundur þeirrar tillögunnar, sem hér liggur fyrir, telur að skoða þurfi forsendur þessa lagaákvæðis, einkum varðandi nýsköpun og þróun. Staðfestir þetta, að með tillögunni sé viðurkennt, að nauðsynlegt sé að sporna gegn óheillaþróun í rekstri fyrirtækisins undanfarin ár. Til dæmis hefur komið fram, að ákvörðun um þátttöku orkuveitunnar í ræktun risarækju hafi verið tekin án vitneskju stjórnar hennar. Segir þó í lögum um orkuveituna, eins og áður kom fram, að ákvörðun stjórnar þurfi hverju sinni um þátttöku í verkefnum af þessum toga. Sé ekki farið að skýrum lagaákvæðum eins og þessum við stjórn fyrirtækisins má draga í efa, að stefna mótuð af borgarstjórn verði í heiðri höfð. Mestu skiptir að sjálfsögðu, að skynsemi og forsjálni ráði ferðinni við stjórn þessa fyrirtækis og virðing fyrir lögum þess og meðferð á fjármunum og eignum.

Af hálfu Sjálfstæðisflokksins hefur verið lögð rík áhersla á að staðið sé að rekstri Orkuveitu Reykjavíkur af meiri ábyrgð. Verði tillaga þessi til að stuðla að því stefnir hún til réttrar áttar. Hitt er ljóst, að hún er þó lítið annað en orðin tóm, ef ekki verður breyting á vinnubrögðum og afstöðu þeirra, sem meirihluti borgarstjórnar treystir til að leiða starfsemi orkuveitunnar í stjórn hennar.

Skal þá vikið að öðrum efnisþáttum tillögunnar. Þeir lúta að nokkru að sjálfsögðum hlutum eins og því að kanna, hvernig unnt er að nýta orku á starfssvæði Orkuveitu Reykjavíkur með vistvænum hætti og meta ný orkuvinnslusvæði. Þarf í sjálfu sér ekki að fela sérstökum starfshópi að sinna þessu verkefni, því að það er á verksviði stjórnar orkuveitunnar. Spurning vaknar hins vegar um það, þegar þessir þættir í ályktuninni eru lesnir, hvort í tillögunni felist einnig að þessu leyti gagnrýni á þá, sem leitt hafa orkuveituna undanfarin ár og unnið að stefnumörkun fyrir hana. Þeim sé með öðrum orðum ekki aðeins vantreyst vegna ákvarðana um þátttöku í einstökum nýsköpunar- og þróunarverkefnum heldur einnig vegna þess að þeir hafi ekki með nægilega markvissum hætti unnið að því að tryggja framtíðarhagsmuni fyrirtækisins á helsta atahfnasviði þess.

Þá á það að verða hlutverk hins sérstaka starfshóps, verði tillagan samþykkt, að meta áhrif breytts rekstrarumhverfis í raforkumálum á starfsemi orkuveitunnar og meta stöðu Reykjavíkurborgar innan Landsvirkjunar og móta framtíðarsýn varðandi eignarhlut borgarinnar í Landsvirkjun.

Athyglisvert er, sem fram kemur í greinargerð með tillögunni, að hinn 6. september 1999, fyrir tæpum þremur árum, óskaði borgarstjóri eftir viðræðum við aðra eignaraðila Landsvirkjunar um framtíð fyrirtækisins og áform ríkisins í málefnum þess. Viðræðunefnd vegna málsins var skipuð fyrir tveimur árum en engar viðræður hafa farið fram. Æskilegt væri, að upplýsa hér við umræðurnar, hverjir eiga sæti í þessari viðræðunefnd og hvers vegna hún hefur ekki komið saman til fundar. Er það vegna þess, að staða Reykjavíkurborgar innan Landsvirkjunar hefur ekki verið metin eða ákveðin af borgarstjórn? Eða er ástæðan sú, að ekki hefur verið mótuð framtíðarsýn varðandi eignarhlut borgarinnar í Landsvirkjun? Ef þetta er ekki ástæðan fyrir því, að ósk borgarstjóra hefur ekki náð fram að ganga, hlýtur sú spurning að vakna, hvernig unnt sé að vinna að frekari stefnumörkum af hálfu Reykjavíkurborgar, á meðan mál hafa ekki skýrst í viðræðum eignaraðila Landsvirkjunar. Einhver stefna lá væntanlega að baki ósk borgarstjóra 6. september 1999? Hefur sú stefna gengið sér til húðar?

Meginstefna Reykjavíkurborgar í orkumálum hlýtur að felast í því, á meðan hún á 45% í Landsvirkjun, að tryggja sem best hagsmuni eigenda Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur. Á meðan þessi skipan ríkir, þarf Reykjavíkurborg að huga að hagsmunum beggja þessara öflugu fyrirtækja. Ekki er unnt að líta fram hjá þeirri staðreynd. Við þessa hagsmunagæslu ber að greina sem skýrast á milli athafnasviða þessara fyrirtækja, svo að sem minnstir hagsmunaárekstrar verði. Í tillögunni er því miður ekki að finna neina stefnumörkun flutningsmanna í þessu mikilvæga efni, en til að starf hins sérstaka starfshóps verði markvisst væri æskilegt, að vilji meirihluta borgarstjórnar um þetta efni væri ljós. Spyrja má, hvort það sé vilji flutningsmanna, að leita eftir víðtækri samstöðu um þennan þátt innan borgarstjórnar.

Landsvirkjun mun samkvæmt væntanlegum raforkulögum greinast í tvær meginstoðir, þ.e. framleiðslusvið og flutningssvið. Framleiðslusvið mun halda núverandi samningum við stóriðju og vinna að nýjum samningum Landsvirkjunar við stóriðjufyrirtæki. Hagsmunir Reykjavíkurborgar sem eiganda hljóta að felast í því, að orkuveitunni og Landsvirkjun verði ekki att saman í keppni um að ná stóriðjusamningum, fyrir utan að það yrði varla talið þjóðhagslega hagkvæmt.

Ákveði Reykjavíkurborg að hverfa úr Landsvirkjun og hefja samkeppni við hana í framleiðslu og sölu á raforku, er til þess að líta, að sérfræðingar telja, að varmaorkuver geti almennt ekki keppt við vatnsorkuver um orkusölu til stóriðju, því að rekstrarkostnaður þeirra sé hærri og endingin styttri, sem leiði til meiri afskriftakröfu. Langtímasamningar henti þess vegna vatnsorkuveri mun betur en varmaorkuveri. Af þessum ástæðum sé hagkvæmast fyrir eigendur jarðvarma að virkja hann samtímis til rafmagnsframleiðslu og heitavatnsöflunar. Þar með ráði heitavatnsöflunin ferðinni. Slíkt samræmist betur vistvænum kröfum um sjálfbæra nýtingu auðlindanna.

Jarðvarmi er ekki endurnýjanlegur í sama mæli og vatnsorka, og
rafmagnsframleiðsla með jarðvarma getur aðeins keppt við vatnsorku, ef hún er „aukaafurð" við heitavatnsöflun. Þess vegna er talið hagkvæmast að takmarka stærð virkjana við vatnsþörf hitaveitunnar, en „gjörnýta" orkuna með því að framleiða raforku með háhitanum og nota afgangsorkuna til húsaupphitunar.

Eðlilegt er að mat á þáttum sem þessum sé lagt til grundvallar við mótun orkustefnu Reykjavíkur. Slíkt mat hlýtur einnig að ráða miklu um framtíðarvirkjanir Orkuveitu Reykjavíkur og samkeppnisstöðu hennar gagnvart Landsvirkjun. Spurningar eins og þessar vakna: Á að móta Orkuveitu Reykjavíkur þá stefnu í varmaorkuversmálum að takmarka virkjunarhraða við þarfir hitaveitu, en bæta orkunýtni og arðsemi með raforkuframleiðslu úr sömu holum? Hefur mat af þessu tagi farið fram vegna hugmynda um nýtt orkuver á Hellisheiði?

Hvað sem líður eignarhaldi Reykjavíkurborgar á Landsvirkjun og stefnu, sem tekur mið af því, mun Orkuveita Reykjavíkur á næstu árum lenda í samkeppni um viðskiptavini, a.m.k. á sviði raforku, ef svo fer fram sem
horfir. Hitaveita Suðurnesja er til dæmis augljós keppinautur. Við sjálfstæðismenn höfum einmitt varað við því, að haldið sé áfram glannalegri meðferð fjármuna Orkuveitu Reykjavíkur í ljósi væntanlegrar samkeppni. Einmitt á þeim forsendum höfum við til dæmis gagnrýnt að ráðist sé í þriggja til fjögurra milljarða króna framkvæmdir vegna skrifstofuhúsnæðis fyrir orkuveituna.

Orkuveita Reykjavíkur var á síðasta ári rekin með rúmlega 500 milljón króna tapi en á sama tíma skilaði Hitaveita Suðurnesja um 600 milljón króna arði. Hitaveita Suðurnesja er hlutafélag lögum samkvæmt, en eins og kunnugt er olli óeining innan R-listans því, að Orkuveita Reykjavíkur er sameignarfyrirtæki og það eitt veikir stöðu orkuveitunnar í væntanlegri samkeppni hennar við Hitaveitu Suðurnesja. Er ástæða til að leita eftir svari við því hér við þessa umræðu, hvort sjónarmið hafi breyst um þetta efni innan meirihluta borgarstjórnar og von sé til þess, að þar sjái menn að sér í þessu efni.

Við blasir, að nýtt lagaumhverfi mun ekki aðeins krefjast breytinga og uppstokkunar á Landsvirkjun í fleiri en eitt fyrirtæki. Orkuveita Reykjavíkur mun einnig standa frammi fyrir kröfu um að skilið verði milli samkeppnisgreina og einokunargreina. Eðlilegt er að spyrja, hvort það verði
hlutverk hins sérstaka starfshóps, sem hér á að skipa, að greina eignir og rekstur Orkuveitu Reykjavíkur upp í þætti, sem hver hafi sjálfstæða stjórn? Hefur meirihlutinn velt því fyrir sér, að stofnað verði móðurfélag um þann fjölbreytta rekstur, sem nú fellur undir Orkuveitu Reykjavíkur?


Forseti!

Tillaga sú, sem hér liggur fyrir um orkumál, beinir athygli að því, hve illa hefur verið staðið að því að marka Reykjavíkurborg skýra stefnu í orkumálum undanfarin ár. Hún minnir á það, að skortur á skýrri stefnu og lausatök við stjórn Orkuveitu Reykjavíkur hafa veikt fyrirtækið andspænis væntanlegaum keppinautum sínum.

Í stað þess að leggja fram skýra stefnu um markmið sín í orkumálum stígur R-listinn það skref við upphaf nýs kjörtímabils að setja málið í enn eina nefndina. Tillagan hefur ekki einu sinni að geyma erindisbréf fyrir nefndina.

Sjálfstæðisflokkurinn telur löngu tímabært að mörkuð sé orkustefna fyrir Reykjavíkurborg. Eðlilegt er hins vegar, að meirihlutinn beri ábyrgð á samþykkt þessarar tillögu eins og hún er orðuð. Við sjálfstæðismenn viljum ekki binda okkur með þeim takmarkaða og óljósa hætti, sem felst í tillögunni, við bráðnauðsynlega stefnumörkun á þessu sviði og sitjum því hjá við afgreiðslu tillögunnar.