Guðjón Magnússon - minning.
Fréttin um að Guðjón Magnússon hefði orðið bráðkvaddur á heimli þeirra Sigrúnar í Kaupmannahöfn, kom sem reiðarslag yfir okkur Rut. Við vissum, hve kær hann var sameiginlegum barnabörnum okkar, Sigríði Sól, dóttur okkar, og Heiðari Má syni þeirra hjóna. Hann lét sér annt um börnin og þau höfðu ánægju af því að njóta samvista við afa sinn. Glaðværð, hlý nálægð og einlægur vilji til að leggja gott til allra mála lýsa tilfinningum á kveðjustundu.
Við Guðjón kynntumst í menntaskóla enda samstúdentar ásamt Sigrúnu, en brátt eru 50 ár liðin frá því að þau bundust tryggðarböndum, þá á skólaárum. Þótt við færum ólíkar námsbrautir í háskóla, lágu leiðir okkar saman í störfum á vettvangi stúdentaráðs. Þar eins og endranær lét Guðjón að sér kveða á þann veg, að eftir var tekið. Hann hafði einlægan áhuga á að láta gott af sér leiða eins og birtist síðar í störfum hans á vettvangi Rauða krossins.
Verulegur hluti starfsævi Guðjóns var á erlendum vettvangi. Þótti mikill fengur í framlagi hans undir merkjum Rauða krossins, Norræna heilbrigðisháskólans í Gautaborg og síðast sem framkvæmdastjóri Evrópudeildar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) í Kaupmannahöfn.
Fyrir nokkrum misserum hvarf Guðjón frá daglegum starfsskyldum hjá WHO til að njóta meiri tíma með Sigrúnu og fjölskyldu sinni. Hann settist þó ekki í helgan stein heldur varð árið 2007 prófessor við Háskólann í Reykjavík og tók að sér ráðgjafastörf fyrir heilbrigðisráðuneytið, auk þess að verða oft kallaður til fyrirlestra á alþjóðavettvangi.
Eftir að Guðjón hætti hjá WHO, velti ég fyrir mér að láta fljótlega af embætti. Guðjón sagði, að ég ætti ekki að hika við að taka ákvörðun í þá veru. Ómetanlegt væri að fá tækifæri til að sinna áhugamálum sínum, án þess að axla samhliða ábyrgð á rekstri og mannauði. Hann fagnaði að hafa fengið tækifæri til að starfa sem prófessor við Háskólann í Reykjavík og miðla þannig af reynslu sinni og þekkingu.
Guðjón naut frelsis efri áranna í alltof skamman tíma. Hann er kvaddur með miklum söknuði. Skarð hans hjá þeim, sem stóðu honum næst, verður ekki fyllt. Við Rut færum Sigrúnu, sonum þeirra og ástvinum öllum innilegar samúðarkveðjur.
Blessuð sé minning Guðjóns Magnússonar.