20 ár frá falli Berlínarmúrsins.
Hádegisfundur SVS og Varðbergs, Norræna húsinu 9. nóvember 2009.
Hvarvetna er þess nú minnst, að 20 ár eru liðin, frá því að þær sprungur urðu í stjórn- og valdakerfi kommúnista í Austur-Evrópu, að það splundraðist að lokum. Enginn einn atburður lýsir þessum ótrúlegu þáttaskilum í sögunni betur en hrun Berlínarmúrsins 9. nóvember 1989.
Stjórnum Samtaka um vestræna samvinnu og alþjóðamál og Varðbergs þykir verðugt að boða til þessa fundar hér í dag til að minnast þessa sögulega atburðar og er mikill fengur að því, að Ágúst Þór Árnason varð við tilmælum félaganna um að flytja erindi í tilefni dagsins, en hann var í Berlín á þessum tíma.
Múrinn var reistur aðfaranótt 13. ágúst 1961, eftir að Nikita Krútsjoff , leiðtogi sovéskra kommúnista, og Walter Ulbricht, leiðtogi austur-þýskra kommúnista, urðu sammála um, að óhjákvæmilegt væri að grípa til róttækra aðgerða í því skyni að stöðva fjöldaflótta fólks frá Austur-Þýskalandi. Kölluðu kommúnistar mannvirkið „hinn andfasíska varnarmúr“. Nafngiftin átti að draga athygli frá hræðslunni við, að Austur-Þýskalandi blæddi hreinlega út, en tvær og hálf milljón manna hafði flúið landið, þegar hér var komið.
Samkvæmt sovéskum skjölum, sem opnuð voru á þessu ári, 2009, var það Krútsjoff, sem gaf Ulbricht fyrirmæli um að loka landamærunum. Gerðist þetta í löngu og æsingamiklu símtali 1. ágúst 1961. Krútsjoff leit á Berlín og Austur-Þýskaland sem sýningarglugga sósíalismans og skurðpunkt í kalda stríðinu. Hann þoldi ekki niðurlæginguna, sem birtist í stöðugum fréttum af straumi fólks til vesturs.
Á Vesturlöndum töluðu menn um „smánarmúrinn“ og mótmæltu því harðlega, að þessi fleygur væri rekin í þýsku þjóðina. Hér á Íslandi stóðu Samtök um vestræna samvinnu undir forystu Péturs Benediktssonar, fyrsta formanns síns, fyrir mótmælafundi í Tjarnarbíói 2. nóvember 1961 og lýstu tveir Þjóðverjar, sem flúið höfðu frá Austur-Þýskalandi, reynslu sinni . Lét Pétur reisa múrvegg þakinn gaddavír utan við fundarstaðinn.
Morgunblaðið birti 3. nóvember 1961 mynd á múrnum fyrir framan Tjarnarbíó en daginn eftir er ítarlega sagt frá fundinum í Tímanum. Þar segir:
„Pétur Benediktsson setti fundinn og stjórnaði honum. Hann sagði, að þetta væri ekki fyrsti fundurinn, sem hér væri haldinn gegn austrænni kúgun. Oft hefði verið þörf, en nú væri nauðsyn. „Við lásum það einu sinni í biblíu fögunum okkar, að við hlið Paradísar stæði engill með logandi sverð, sem varnaði mönnum inngöngu í Paradís, en hins höfum við ekki heyrt getið fyrr en nú að fólki væri settur stóllinn fyrir dyrnar með að komast þaðan út með því að girða fyrir hliðið með gaddavír og múrverki. ““
Orð Péturs minna á, að á þessum árum var keppni milli austurs og vesturs á fleiri sviðum en hinu hernaðarlega, því að Krútsjoff var sannfærður um, að kommúnismanum tækist að grafa kapítalismann, það er sigra sem þjóðfélagskerfi.
Við vitum nú, hvernig þeirri keppni lyktaði, og á síðasta fundi hér í félögunum í lok ágúst, var einmitt kynnt íslensk þýðing á bók um kommúnismans, Svartbók kommúnismans, sem á erindi til allra áhugamanna um þjóðfélags- og alþjóðamál.
Á tímum kalda stríðsins sat ég oft ráðstefnur með helstu sérfræðingum Vesturlanda í málefnum Sovétríkjanna og Austur-Evrópu. Ég fullyrði, að allt fram að hruni múrsins, hafði enginn þessara sérfræðinga gengið fram fyrir skjöldu og sagt, að Austur- og Vestur-Þýskaland mundu sameinast á friðsamlegan hátt. Þvert á móti var því oft haldið fram, að svo kynni að fara, að Austur-Þjóðverjum tækist, þrátt fyrir allt, að ná forskoti á landa sína í vestri.
Nú sjá allir, hve mikil firra slíkir spádómar voru. Í dag er því fagnað víða u m lönd, að einræði laut með friði í lægra haldi fyrir lýðræði.
Góðir fundarmenn!
Ágúst Þór Árnason nefnir fyrirlestur sinn hér í dag: Múrbrot horfinnar hugmyndafræði – 20 ár frá falli Berlínarmúrsins.
Ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri en ítreka þakkir mínar til Ágústs Þórs fyrir að verða við ósk um að ræða hér við okkur í dag. Bið ég Stefán Einar Stefánsson, formann Varðbergs, að taka að sér stjórn fundarins, um leið og ég segi hann settan.