2.9.2009

Sigurður K. Oddsson – minning.

 

Með Sigurði K. Oddssyni er genginn góður vinur og samstarfsfélagi. Hans er sárt saknað af þeim, sem kynnust einstökum mannkostum hans, vandvirkni, samviskusemi og prúðmannlegri framgöngu í hvívetna. Síst væntum við þess, samstarfsmenn hans á vettvangi Þingvallanefndar undanfarin 15 ár, að við mundum kveðja hann, áður en hann léti af störfum fyrir aldurs sakir. Við höfðum í huga að hittast við starfslok Sigurðar um næstu áramót  og rifja upp störf og góð kynni undir merkjum Þingvalla. Enginn má sköpum renna og nú minnumst liðinna ára með sorg í hjarta við dánarbeð Sigurðar.

Á næsta ári verða 80 ár liðin frá því að Þingvellir voru með lögum friðlýstir sem helgistaður íslensku þjóðarinnar.  Síðar var Þingvallapresti falin þjóðgarðsvarsla en Þingvallanefnd, kjörin af Alþingi, hafði sérstakan framkvæmdastjóra. Með ráðningu Sigurðar K. Oddssonar í starf þjóðgarðsvarðar árið 1995 urðu þáttaskil, þegar stjórnsýslu þjóðgarðsins var breytt. Erum við, sem komum að því verki, sannfærðir um, að þáttur Sigurðar í því að hrinda breytingunni í framkvæmd og fylgja henni eftir hefur enn aukið veg Þingvalla.

Af mörgu er að taka, stóru og smáu, þegar litið er yfir farinn veg í tíð Sigurðar sem þjóðgarðsvarðar og brugðið ljósi á breytingar til batnaðar innan þjóðgarðsins á Þingvöllum. Án smekkvísi, fyrirhyggju og alúðar Sigurðar hefði margt getað farið á annan veg í verklegum framkvæmdum. Hann vissi, að hvert verk í þjóðgarðinum var undir smásjá gesta hans og færi eitthvað úrskeiðis hefðu fjölmiðlar augljósan áhuga á að fjalla um það í umvöndunartóni.  Með þetta í huga og allt, sem gert hefur verið til að vernda náttúruna og bæta aðstöðu gesta og gangandi á Þingvöllum síðustu ár, er augljóst, að á vegum Sigurðar og samstarfsfólks hans hefur verið staðið svo vel að verki, að aðfinnslur eru fáar og þá helst vegna hluta, sem auðvelt hefur verið að kippa í liðinn. Nú síðast stjórnaði Sigurður frágangi á rústum og lóð Valhallar eftir brunann 10. júlí. Hvort sem þar rís mannvirki að nýju eða ekki, er víst, að búið hefur verið um brunasárið á vandaðan hátt og til frambúðar, ef svo ber undir.

Á ári hverju koma álíka margir gestir í þjóðgarðinn og í landinu búa. Sigurður hratt í framkvæmd ákvörðun um að reisa fræðslumiðstöð á Hakinu efst við Almannagjá og stórbæta með henni alla aðstöðu fyrir ferðamenn. Hann beitti sér einnig mjög fyrir því að auðvelda fötluðum aðgengi að þjóðgarðinum og veiði í landi hans við Þingvallavatn. Miklu skiptir, að þannig hefur verið staðið að móttöku hundruð þúsunda gesta  ár hvert í þjóðgarðinn, að ekki er níðst á viðkvæmri náttúru hans eða Þingvallavatni. Kynntumst við því á fundum okkar, hve Sigurður var mikill og einlægur náttúruunnandi og lét sig gróður og vatnalíf miklu varða.

Þingvellir hefðu aldrei komist á heimsminjaskrá UNESCO árið 2004, ef úttektarmenn við skráninguna hefðu ekki sannfærst um ágæti þeirra, sem fóru með daglega vörslu staðarins undir stjórn Sigurðar. Skráningin gat af sér alþjóðlegt samstarf og tengsl, þar sem Sigurður ávann sér fljótt virðingu og nú er svo komið, að rætt er um Þingvelli sem flaggskip bæði við skráningu víkingamenningar og fornra þingstaða sem heimsminja.

Sigurður kom vel undirbúinn á hvern fund Þingvallanefndar og lagði mál fyrir af sömu nákvæmni og einkenndi undirbúning allra framkvæmda af hans hálfu. Með aðstoð hans, hógværð, kímni og málafylgju tókst okkur að leysa öll viðfangsefni í sátt og samlyndi auk þess að móta þjóðgarðinum framtíðarstefnu til ársins 2024. Minnumst við margra góðra, sameiginlegra stunda, þar sem við hefðum farið mikils á mis, ef Sigurður hefði ekki verið í hópnum og lagt gott eitt til allra mála.

Á kveðjustundu færum við Sigurði K. Oddssyni þakkir fyrir ómetanlegt starf hans í þágu Þingvalla. Við færum Herdísi, börnum þeirra hjóna og ástvinum öllum innilegar samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Sigurðar K. Oddssonar.

Björn Bjarnason,

Guðni Ágústsson,

Össur Skarphéðinsson.