26.6.2006 21:04

Mánudagur, 26. 06. 06.

Ég ákvað í sveitinni í gær að taka mér sumarleyfi frá pistli um þessa helgi, enda hef ég verið að hugsa um annað en málefni líðandi stundar - meðal annars sökkt mér ofan í góða bók, sem ég nýti mér síðar í blaðagrein eða skrifa um í Þjóðmál.

Athygli mín var vakin á grein um taj tsjí og qi gong, sem birtist í The International Herald Tribune 6. júní í tilefni af nýlegum, árlegum, alþjóðadegi þessara kínversku æfinga, sem kalla  stöðugt á æ fleiri iðkendur á Vesturlöndum. Í greininni er sagt, að í ár hafi mörg þúsund manns í 34 löndum tekið þátt í deginum, sem efnt var til í sjöunda sinn. Við í Aflinum - félagi qi gong iðkenda hér á landi höfum minnst þessa dags, þótt það hafi ekki verið gert í ár.

Greininni lýkur á þessum orðum:

„Þetta er list, sem krefst ekki neinnar sérstakrar aðstöðu, sérhannaðra tækja eða dýrs búnaðar, og með reglulegum æfingum er unnt að öðlast glæsileika, fegurð og afl á einstakan hátt og án tillits til aldurs iðkenda. Ef til vill ætti að halda alþjóðlegan taj tsjí og qi gong dag í hverri viku."