Dagbók: febrúar 2010

Sunnudagur, 28. 02. 10. - 28.2.2010

Í nótt fékk ég góða frétt af hörmungasvæði í sms. Hún birtist á þennan veg á vefsíðu Landhelgisgæslu Íslands klukkan 02.10:

„28. febrúar 2010 kl. 02:10

Þær gleðifregnir voru að berast rétt í þessu að tveir íslenskir starfsmenn Landhelgisgæslunnar í Chile eru heilir á húfi og við góða heilsu.

Þeim tókst að komast í örstutt símasamband og láta vita af sér. Þeir eru nú staddir í Concepción og verður nú unnið að því að koma þeim heim til Íslands eins fljótt og verða má.

Jafnframt hafa borist óstaðfestar fregnir af því að varðskipið Þór hafi sýnt krafta sína og styrk og staðið af sér jarðskjálftann.

Þetta eru mikil gleðitíðindi og Landhelgisgæslan hlakkar til að veita þeim köppum hlýjar móttökur við heimkomuna.“

Laugardaginn 27. febrúar varð jarðskjálfti, 8,8 á Richter í Chile um 90 km frá ASMAR-skipasmíðastöðinni í Talcahuano, þar sem varðskipið Þór hefur verið í smíðum. Ég fór í stöðina fyrir tæpum tveimur árum, þegar lagður var kjölur að varðskipinu, sem hleypt var af stokkunum fyrir ári og gefið nafnið Þór.
 
Vegna þessara tengsla hafði ég meiri áhuga en ella á því, sem gerðist í þessum hrikalega skjálfta. Sjö menn voru þarna á vegum gæslunnar, fimm Danir og tveir Íslendingar. Allir eru heilir á húfi. Fréttir mínar herma, að kraftaverki sé líkast, að Þór sé á floti, þótt skipasmíðastöðin sé í rústum. Þór var í þurrkví, ef ég veit rétt.  Togari í smíðum fyrir Ísfélagið er á floti. Hafrannsóknaskip í stöðinni er líklega sokkið.

 

Laugardagur, 27. 02. 10. - 27.2.2010

Hér má sjá samtal mitt við Rögnu Árnadóttur, dómsmálaráðherra, á ÍNN 24. febrúar.

Í dag skrifaði ég pistil hér á síðuna og til birtingar á www.amx.is Í pistlinum rýni ég í það, sem Guðmundur Gunnarsson, forystumaður rafiðnaðarmanna, skrifaði á Eyjubloggið í dag, en hann er skelfingu lostinn vegna yfirvofandi þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave. Hann vill, að farið sé að óskum Breta og Hollendinga.

Ríkisstjórninni er mest í mun að komast hjá þjóðaratkvæðagreiðslunni. Fréttir kvöldsins bera jafnframt með sér, að breska ríkisstjórnin sé sömu skoðunar. Báðar eru þessar ríkisstjórnir á fallanda fæti, en hin hollenska er þegar fallin. Hin breska óttast, að nei Íslendinga verði til þess að afhjúpa fleiri gagnrýnisverðar aðgerðir hennar haustið 2008.

Henry (Hank) Poulson, fjármálaráðherra Bandaríkjanna haustið 2008, hefur nýlega sent frá sér bók um fjármálakrísuna þá. Hann gagnrýnir framgöngu Alistairs Darlings, fjármálaráðherra Bretlands, harðlega og telur, að hann eigi ríka sök á hruni Lehmans Brothers bankans. Framganga Darlings gagnvart Íslandi og íslenskum bönkum á sama tíma var einnig mjög gagrýniverð.

 

 

 

Föstudagur, 26. 02. 10. - 26.2.2010

Ríkisstjórnin treystir sér ekki enn til að horfast í augu við þá staðreynd, að gengið verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-lögin hinn 6. mars. Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússona láta enn eins og ná megi betri samningum næstu daga, þótt viðræðuslit hafi orðið í gær á fundi í London. Með þessu tali eru ráðherrarnir aðeins að slá ryki í augu almennings og kjósenda.

Hið versta, sem  nú gerðist í málinu, væri, að þjóðin samþykkti Icesave-lögin. Baráttan gegn þeim hefur þegar leitt í ljós, að unnt er að ná betri samningum en Svavar Gestsson gerði 5. júní 2009. Tækifærinu til að fylgja breytingu á þeim hroðalegu samningum eftir yrði kastað fyrir róða, ef Icesave-lögin yrðu samþykkt. Lögin verður að fella.

Í dag var aðeins farið að gæta sama hræðsluáróðursins og ríkisstjórnin flutti í fyrstu, þegar Ólafur Ragnar hafði neitað að undirrita Icesave-lögin. Hér yrði allt í lamasessi, ef ekki yrði gengið tafarlaust að Icesave-afarkostunum. Hvernig má það vera? Þegar liggur fyrir, að Bretar og Hollendingar vilja slá af kröfum sínum og lækka skuldabyrði þjóðarinnar. Með þjóðaratkvæðagreiðslu stefnir örugglega í meiri eftirgjöf Breta og Hollendinga, sem lækkar enn skuldir Íslendinga.

Moody's matsfyrirtækið er með illspár í garð Íslendinga, vegna þess að ekki hefur tekist að ljúka Icesave. Furðulegt er, ef þetta fyrirtæki, sem leggur meðal annars mat á skuldabyrði, telur Íslendingum til tjóns, að þeir leggi sig alla fram til að lækka erlendar skuldir sínar.

 

Fimmtudagur, 25. 02. 10. - 25.2.2010

Í dag skrifaði ég pistil hér á síðuna, þar sem ég tek saman efni úr frásögnum erlendra blaða um þá niðurstöðu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, að Ísland sé tækt til viðræðna um ESB-aðild.

Af þessum frásögnum ræð ég, að áhugi ESB á Íslandi sé vegna þess, að í Brussel líta menn á Ísland sem hlið að norðurskautinu. Þá er því einnig haldið skýrt fram, að Íslendingar verði að opna fiskimið sín, hafnir og eignarhald á sjávarútvegsfyrirtækjum. Sé ekki fallist á þessa meginþætti sjávarútvegsstefnu ESB, náist ekki sameiginleg niðurstaða.

Fróðlegt væri að vita, hvað ESB-aðildarsinnar séu fúsir til að verja mörg hundruð milljónum eða mörgum milljörðum króna til að afla svara, sem eru í raun augljós. Íslendingar breyta ekki sjávaraútvegsstefnu ESB með aðild sinni.  Að telja sér trú um annað er blekking. Að verja stórfé og óteljandi mannárum í þágu þessarar blekkingar er fráleitt.

Miðvikudagur, 24. 02. 10. - 24.2.2010

Í dag ræddi ég við Rögnu Árnadóttur, dómsmálaráðherra, í þætti mínum á ÍNN, sem frumsýndur verður klukkan 21.30 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti næsta sólarhring og aftur um næstu helgi. Ég spurði hana um, hvernig væri að vera ópólitískur ráðherra, um undirbúning vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar, Schengen, nýjar reglur um skipan dómara og fleira.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) gaf í dag grænt ljós fyrir viðræður við Ísland um aðild að ESB. Í tilkynningu um málið á vefsíðu framkvæmdastjórnarinnar segir:

The EU should start formal talks with Iceland on its application to join the bloc, says a commission report on the country's suitability for membership.

But the report also says the North Atlantic island nation of 320 000 will need to make ‘serious efforts' to bring its laws in line with EU legislation in areas including fishing, agriculture and financial services.

Eða:

ESB ætti að hefja formlegar viðræður við Íslands um umsókn þess um að ganga í blokkina, segir í skýrslu framkvæmdastjórnarinnar um hæfni landsins til aðildar.

En í skýrslunni segir einnig, að 320.000 manna eyþjóðin í Norður-Atlantshafi þurfi að gera „alvarlegt átak“ til breyta lögum sínum til samræmis við ESB-löggjöfina á ýmsum sviðum, þ. á. m. varðandi sjávarútveg, landbúnað og fjármálaþjónustu.

Ég vek athygli á því, að hvergi er þarna minnst á samningaviðræður við Ísland heldur er talað um viðræður um umsókn Íslands og brýna nauðsyn þess, að gerðar séu breytingar á íslenskum lögum um sjávarútveg og landbúnað. Kemur þetta heim og saman við þá skoðun, að utanríkisráðuneyti Íslands fari með vísvitandi blekkingar, þegar gefið er til kynna, að efnislega sé unnt að semja um eitthvað við ESB. Málið snýst ekki um samninga heldur aðlögun íslenskrar löggjafar á öllum sviðum að ESB-löggjöfinni.

Enn hefur Clint Eastwood tekist að gera einstæða mynd, Invictus, sem sýnd er í Kringlubíói. Ég mæli eindregið með henni.

Þriðjudagur, 22. 02. 10. - 23.2.2010

Furðulegt var að heyra, hve Össur Skarphéðinsson kvað öðru vísi að orði á alþingi í dag um efni sendiskýrslunnar eftir Sam Watson, staðgengil sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, en hann gerði hinn 18. febrúar, þegar hún var birt. Þá barði Össur sér á brjóst og sagði, að hann hefði jafnvel gengið lengra en embættismenn utanríkisráðuneytisins í yfirlýsingum við Watson. Nú lætur Össur eins og gjalda eigi varhug við efni skýrslunnar, hún sé skráð af einum manni eftir minni.

Össur hefur að sjálfsögðu áttað sig á því, hve einkennilega var talað við bandaríska embættismanninn. Fljótfærnislegar yfirlýsingar Össurar við fyrstu spurningum við birtingu skýrslunnar stóðust ekki gagnrýni. Þá snýr Össur bara við blaðinu og ýtir undir tortryggni í garð Watsons. Hvorki er það stórmannlegt hjá ráðherranum né réttmætt, þegar hann hafði áður sagt, að embættismenn sínir hefðu síst gengið of langt.

Hvernig sem á þetta mál er litið, hvort heldur samtölin við Watson eða viðbrögð Össurar, er ekki unnt að komast að annarri niðurstöðu en þeirri, að ákaflega illa og klaufalega hafi verið og sé að málinu staðið af hálfu utanríkisráðuneytisins.

Steingrímur J. og Össur gera allt, sem þeir geta til að hindra að Icesave-þjóðaratkvæðagreiðslan fari fram. Þeir hafa hins vegar tapað valdi á málinu, eftir að þeir hófu samráðsferlið við stjórnarandstöðuna.

Mánudagur, 22. 02.10. - 22.2.2010

Steingrímur J. Sigfússon lýsti yfir því í þingræðu í dag, að hann teldi efnahags- og atvinnulífið á réttri leið, þar sem meira hefði selst af blómum í gær, á konudaginn, en sama dag árið 2009. Þessi frumlega greining fjármálaráðherra á stöðu þjóðarbúsins, byggist á samtali fréttamanns RÚV við einn blómasala í vesturbæ Reykjavíkur að kvöldi konudagsins.

Í Fréttablaðinu birtist í dag úttekt á vinstri-grænum, þar sem því er sagt er frá miklum og djúpstæðum átökum innan flokksins. Gagnrýni á Steingrím J. sé þung og vaxandi. Ræði hann mál við flokksmenn sína á sama hátt og hann talar í sífellu í fjölmiðlum, segir eitt í dag og annað á morgun, þarf engan að undra, að efasemdir um forystuhæfileika hans skjóti rótum innan flokks hans.

Blómatal Steingríms J. á þingi í dag sýnir algjört skilningsleysi á alvarlegri stöðu atvinnuveganna. Í dag ræddi ég við byggingaverktaka utan Reykjavíkur, sem sagðist nú með fimm menn í vinnu en þeir hefðu verið 20 fyrir ári. Ólíklegt er, að hinir atvinnulausu hafi keypt mikið af blómum í gær.

Verktakinn átti ekki nægilega sterk orð til að lýsa andúð sinni á skattastefnu Steingríms J. Óskiljanlegt væri, að fjármálaráðherra teldi sig geta aukið tekjur ríkissjóðs með því að hækka skatta á fólki og fyrirtækjum með tómar buddur. 

 

 

Sunnudagur, 21. 02. 10. - 21.2.2010

Í dag skrifaði ég pistil hér á síðuna í tilefni af 15 ára afmæli hennar. Samtals eru 15 ár liðin síðan ég hóf að skrifa reglulega á eigin síðu í netheimum. Þá var ekki talað um blogg, en nú væri þetta kölluð bloggsíða. Þær eru ekki margar í heiminum, sem eiga svo langa samfellda sögu.

Bretar og Hollendingar eru að kveikja villuljós í Icesave-málinu í von um, að ríkisstjórnin aflýsi þjóðaratkvæðagreiðslunni. Stjórnvöld landanna telja örugglega, að ríkisstjórn Íslands hafi það vald á þingmeirihluta sínum, að hún geti komið í veg fyrir atkvæðagreiðsluna, enda hljóti hún að sjá eigin sæng uppreidda, verði lögum hennar hafnað.

Dapurlegt er að hlusta á Steingrím J. Sigfússon grípa nú til þess hálmstrás í órökstuddum málflutningi sínum, að einhverju skipti fyrir okkur Íslendinga, að stjórn Hollands hafi sagt af sér eða kosningar séu yfirvofandi þar eða í Bretlandi. Nú reynir hann að nota þetta til hræðsluáróðurs. Í byrjun janúar, átti allt tafarlaust að verða á hverfanda hveli, úr því að Ólafur Ragnar hafnaði lögunum.

Vandinn í Icesave-málinu er sá, að ríkisstjórnin hefur samið tvisvar við Breta og Hollendinga, án þess að hafa vald á málinu heima fyrir. Ráðherrar og embættismenn hafa látið erlenda viðsemjendur sína halda, að málstaður ríkisstjórnarinnar haldi. Þeir hafa reynst ósannindamenn. Eina leiðin til að staðfesta það á afdráttarlausan hátt er að efna til þjóðaratkvæðagreiðslunnar, fella lögin og taka forystu í málinu endanlega úr höndum Steingríms J. og Jóhönnu. Þau njóta hvorki trausts hér á landi né viðsemjenda Íslands lengur.

 

Laugardagur, 20. 02. 10. - 20.2.2010

Litlu munaði  í spennandi keppni Menntaskólans við Hamrahlíð og Verslunarskóla Íslands í Gettu betur í sjónvarpinu í kvöld, aðeins 3 stigum, sem tryggðu  VÍ sigur. Þegar ég horfi á þetta góða sjónvarpsefni, minntist ég þess frá menntamálaráðherratíð minni, þegar framhaldsskólanemar óttuðust, ekki að ástæðulausu, að sjónvarpið ætlaði að hætta að sýna þennan þátt.  Mér var óskiljanlegt, hvað vakti fyrir stjórnendum sjónvarpsins. Þátturinn hélt áfram og nýtur alltaf endurnýjaðra vinsælda.

Eins og mér var þetta óskiljanlegt á sínum tíma skil ég ekki, að menntamálaráðuneytið skuli nú ákveða að taka upp hverfis-framhaldsskóla að nýju, þótt ekki sé nema að hluta. Er dapurlegt að fylgjast með því, hve meðalmennskan er að nýju farin að setja mikinn svip á skipulagsramma grunnskóla og framhaldsskóla.

Á sínum tíma ákvað ég, að birtar skyldu upplýsingar um frammistöðu nemenda í einstökum grunnskólum á samræmdum prófum, svo að foreldrar fengju upplýsingar um stöðu þeirra á þann kvarða. Nú er þetta úr sögunni og einnig samræmd próf sem inntökuskilyrði í framhaldsskóla. Þetta er spor aftur á bak.  Rökin fyrir því eru ekki sterk og snúa frekar að hag grunnskólakennara en nemenda skólanna.

Ég er enn sömu skoðunar og áður, að hlutverk skóla sé að gera nemendum ljóst, að árangur næst ekki án erfiðis, og erfiði skilar árangri, sem er metinn að verðleikum.

Gettu betur hefur ekki aðeins gildi sem gott sjónvarpsefni heldur einnig til að styrkja og efla skólametnað. Hið sama gerist, ef unnt er að bera árangur skóla saman á samræmdan hátt. Vandinn er, að skólastjórnendur og kennarar eru ófúsir til þátttöku í slíkri keppni,

 

Föstudagur, 19. 02. 10. - 19.2.2010

Í gær sagði ég hér á síðunni frá efni sendiskýrslu eftir Sam Watson, forstöðumann bandaríska sendiráðsins, um samtöl hans við íslenska embættismenn og breska sendiherrann í Reykjavík um Icesave-málið. 

Steingrímur J. Sigfússon, sem hefur haft forystu í Icesave-málinu af hálfu ríkisstjórnarinnar, sagðist ekki hafa vitað um þessa fundi íslensku stjórnarerindrekanna.

Össur Skarphéðinsson sagðist hins vegar fagna því, hve starfsmenn hans hefðu verið orðhvatir, enda hefði hann sjálfur verið mjög æstur vegna málsins á þessum tíma, viku eftir neitun Ólafs Ragnars. Ekki hefði verið ámælsivert af sendiherra að segja forseta Íslands óútreiknanlegan.

Allt endurspeglar þetta upplausn í stjórnarráðinu vegna málsins, enda er allt loft  úr ríkisstjórninni í því. Ráðherrarnir hafa flúið frá stefnu, sem þeir töldu eina bjargráð þjóðarinnar fyrir áramót. Í staðinn segja þeir, að eitthvað nýtt muni gerast á morgun eða hinn!

Jóhanna lét í það skína í gær, að þjóðaratkvæðagreiðslunni yrði frestað vegna tafa við útgáfu á skýrslu rannsóknarnefndir alþingis. Í dag sagðist hún ekki vita, hvenær skýrslan birtist en degi atkvæðagreiðslunnar yrði ekki breytt.

Svo virðist sem viðræðunefndin, sem var í London og ræddi við forystumenn stjórnmálaflokkana í morgun, hafi komið Jóhönnu niður á jörðina og sannfært hana um, að óráðlegt væri að hringla með þjóðaratkvæðagreiðsludaginn.

 

 

Fimmtudagur, 18. 02. 10. - 18.2.2010 21:52

 

Enn birtist ný hlið á málflutningi íslenskra stjórnvalda í Icesave-málinu í dag, þegar sendiskýrsla forstöðumanns bandaríska sendiráðsins, um trúnaðarsamtöl hans við embættismenn íslensku utanríkisþjónustunnar frá 12. og 13. janúar var birt á vefsíðunni Wikileaks. Hér fyrir neðan endursegi ég efni þessarar skýrslu, eins og hún birtist á vefsíðunni.

Einar Gunnarsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, sagði Ísland verða gjaldþrota árið 2011, ef Icesave-málið drægist á langinn.

Þá hljóta ummæli Hjálmars W. Hannessonar, sendiherra Íslands í Washington, um Ólaf Ragnar Grímsson að vekja undrun, ekki vegna þess að þau séu ósönn, heldur að sendiherra skuli ræða um hann á þennan veg við erlendan stjórnarerindreka.

Á sama tíma og ráðherrar í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafa borið sig mannalega í Icesave-málinu, ber framganga íslensku embættismannanna þess merki, að örvænting hafi ríkt innan stjórnarráðsins. Að embættismenn tali á þennan veg án samþykkis utanríkisráðherra er óhugsandi. Hlýtur utanríkismálanefnd alþingis að krefjast þess, að fyrir hana verði lagðar frásagnir íslensku embættismannanna um viðræður þeirra við Sam Watson.

Hina síðustu daga hafa ráðherrar verið á harðahlaupum undan eigin ákvörðunum í Icesave-málinu. Þeir hafa jafnframt hamast við að segja sig frá ábyrgð, þegar kemur að málefnum banka og endurreisn fyrirtækja í höndum manna, sem geta ekki greitt tug eða hundruð milljarða skuldir. Þá hafa ráðherrar ekkert viljað segja um efni funda með erlendum viðmælendum sínum. Sendiskýrslan til Washington gefur hugmynd um, hve lágt risið er á íslenskum stjórnarerindrekum í samskiptum þeirra við sendimenn annarra ríkja. Ríkisstjórnin og þá sérstaklega utanríkisráðherra getur ekki hlaupist undan ábyrgð vegna þess.

Með því að slá á krækjuna Lesa meira hér fyrir neðan má nálgast endursögn mína á sendiskýrslunni til Washington.

 

 

 

 

 

Lesa meira

Miðvikudagur, 17. 02. 10. - 17.2.2010

Viðskiptaþing var haldið í dag. Í tilefni því gaf Viðskiptaráð út stefnuskjal sitt: Er framtíð fyrir íslenskt atvinnulíf?. Þar er sagt frá nýlegri viðhorfskönnun og niðurstöðunni meðal annars lýst á þennan hátt:

„Afstaða viðskiptalífsins undanfarin ár til aðildar að Evrópusambandinu hefur verið mjög reikul. Af niðurstöðum fyrrgreindrar könnunar má hins vegar greina tortryggni gagnvart aðild að sambandinu. Alls telja um 60% forsvarsmanna fyrirtækja að íslensku viðskiptalífi sé betur borgið utan Evrópusambandsins. Tæplega 30% telja hagsmunum viðskiptalífs betur borgið innan ESB en ríflega 10% gera ekki upp á milli.“

Síðustu misseri hafa ESB-aðildarsinnar hér á landi helst hampað aðild vegna ágætis evrunnar. Frá því að hún kom til sögunnar fyrir 10 árum, hefur vandi hennar þó aldrei verið meiri en nú. Stjórnvöld evru-landa og evru-seðlabankinn í Frankfurt verða að taka á hinum stóra sínum til að sanna fyrir íbúum á evru-svæðinu, að þeim sé, þrátt fyrir allt, áfram fyrir bestu að búa við evruna.

Carl Bildt, utanríkisráðherra Svía, segir frá því á vefsíðu sinni í gær, að hann hafi í miklum önnum fengið Össur Skarphéðinsson í heimsókn ofan frá Íslandi. Þeir hafi talað saman í klukkustund. Össur hafi enn óskað eftir stuðningi vegna ESB-aðildar.

Carl Bildt segir:

„Och vi hoppas att det skall vara möjligt för kommissionen i Bryssel att redan nästa vecka presentera sin bedömning av Islands möjligheter att bli medlem – och att man också skall rekommendera att Unionen inleder konkreta medlemskapsförhandlingar med Island.

Kring hur vi gemensamt skall kunna hjälpa till att föra denna process framåt resonerade vi en del under dagen.

Och alldeles självklart talade vi också om Islands besvärliga ekonomiska situation efter bankkrascherna. Men konstaterade att det finns en del ljuspunkter i situationen just nu.

Össur vet att han alltid är välkommen tillbaka.“

Í fréttatilkynningu íslenska utanríkisráðuneytisins um fund Össurar með Bildt segir:

„Ráðherra fór ítarlega yfir stöðuna í Icesave málinu og gerði grein fyrir nýrri nálgun í viðræðum Íslands við Breta og Hollendinga. Ræddi hann ennfremur efnahagsáætlun Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.“ 

Hverjir ætli séu „ljuspunktar“ þeirra Össurar og Bildts? Að ríkisstjórn Íslands hafi étið ofan í sig eigin Icesave-stefnu - sem hún hefur látið lögfesta tvisvar?

Þriðjudagur, 16. 02. 10. - 16.2.2010

Flugum frá Róm klukkan rúmlega 11.00 með EasyJet til London. Brtottför tafðist, þar sem tveir farþeganna sáust ekki um borð, þótt farangur þeirra hefði verið skráður á flugið og varð að fjarlægja hann.

Það rigndi í Róm í 8 stiga hitta. Enn meira rigndi í 6 stiga hita á Gatwick-flugvelli við London, þegar við lentum um 12.30 á staðartíma. Tókum langferðabíl til Heathrow (ferðin tók um klukkustund). Þaðan hélt Icelandair-vélin klukkan 21.00 og lenti á Keflavíkurflugvelli um miðnætti.

Sá við heimkomu, að Jóhanna Sigurðardóttir fagnaði því, að framkvæmdastjórn ESB ætlaði að senda þau boð til leiðtogaráðs sambandsins, að hefja mætti aðlögunarviðræður við Ísland, þegar ráðherrarnir vildu.

Miðað við stöðuna innan Evrópusambandsins, þar sem allt er nú á hverfanda hveli vegna fjárhagsvanda einstakra evru-ríkja með Grikkland í broddi fylkingar, er ólíklegt, að leiðtogarnir verði mjög með hugann við Ísland eða stækkun ESB á næsta fundi sínum.

Yfirlýsing Jóhönnu byggist ekki á raunsæju mati á stöðu mála innan ESB. Rangt stöðumat hennar í þessu efni kemur ekki á óvart. Samfylkingin stjórnast af hreinni ESB-óskhyggju. Raunveruleiki innan ESB eða í íslenskum stjórnmálum er hafður að engu, þegar að þessu óskamáli Jóhönnu og félaga kemur.

Mánudagur, 15. 02. 10. - 15.2.2010

Hér er komin tenging á síðasta þátt minn á ÍNN, þegar ég ræddi við Ragnheiði Elínu Árnadóttur, þingmann Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.

Hlýnað hefur í Róm, en þó ekki nóg til þess, að fólk leggi frá sér vetrarúlpurnar. Enginn þarf þó að ganga með regnhlíf í dag.

Við tókum leigubíl að katakombum við Via Appia. Þær voru lokaðar, sem við komum að fyrst og gengum við þá að katakombum, sem kenndar eru við heilagan Sebastiaono. Hann var rómverskur riddari, sem snerist til kristinnar trúar og dó píslarvættisdauða.

Minna en öld er liðin frá því að fornleifafræðingar fundu fyrstu neðanjarðargrafirnar eða katakomburnar í Róm. Þessar borgir hinna dauðu (necropolis) voru utan borgarmúranna. Árið 257 bannaði Valerianus keisari kristnum mönnum í Róm að stunda trúarsiði sína, einnig í borgum hinna dauðu. Þeir gátu því ekki lengur hist við Vatíkangröf Péturs eða á Via Ostiana við gröf Páls. Eftir það tóku menn að heiðra postulana með leynd í katakombunum, sem síðar voru kenndar við heilagan Sebastiano, en enginn leit á sem kristinn legstað á þeim tíma. Er jafnvel talið, að líkamsleifar postulanna hafi verið faldar á þessum stað fram á fjórðu öld, þegar Konstantínus keisari snerist til kristni og kirkjur risu. Til marks um þetta benda sérfræðingar á, að á þessum stað hefur fundist fjöldi steinflísa með nöfnum postulanna. Flísarnar eru staðreynd en ekkert hefur fundist, sem staðfestir kenninguna, um að líkamsleifar postulanna hafi verið þarna.

Í um tveggja kílómetra fjarlægð frá kirkju heilags Sebastianos í áttina að borgarmúrunum er kirkja kennd við Quo vadis. Á þessum stað á sá atburður að hafa gerst, þegar Pétur postuli ætlaði að yfirgefa Róm og flýja ofsóknir Nerós keisara en hitti mann á göngu til borgarinnar, sem honum þótti líkjast Kristi, og spyr hann: Domine, quo vadis? Herra, hvert er ferð þinni heitið? Kristur á að hafa svarað: Ég er á leið til Rómar til að verða krossfestur öðru sinni. Pétur skammaðist sín fyrir eigin hræðslu, sneri aftur til Rómar, þar sem hann var tekinn og krossfestur.

Quo vadis-kirkjan er lítil, en fremst í henni er lítill steinn og við hann var blómvöndur, þegar við litum inn í kirkjuna. Sagt er, að fótspor Krists sé greypt í steininn. Sýnilegur vottur þess, að Pétur postuli hafi hitt hann.

Við lukum heimsóknum okkar í kirkjur Rómar að þessu sinni í Quo vadis-kirkjunni.

Vonandi gefst enn tækifæri til að sækja borgina eilífu heim. Sagt er, að sannir Rómverjar kæri sig kollótta yfir borginni sinni og því, sem þar er gert. Þeir viti, sem er, að hún lifi af öll mannanna verk og ekkert fái henni eytt.

 

Sunnudagur, 14. 02. 10. - 14.2.2010 15:41

 

Þurrt og bjart veður í Róm og heldur hlýrra en síðustu daga.

Ég fór fyrir hádegi í Maríukirkjuna í Trastevere, Santa Maria in Trastevere. Í ferðamannabókum segir, að hún sé líklega fyrsta kirkjan í Róm, sem hafi verið helguð heilagri Maríu guðsmóður. Núverandi gerð hennar má rekja til 13. aldar.

Að lokinni heimsókn í kirkjuna gekk ég upp nokkuð bratta hæð að minnismerki um Garibaldi, herforingjann fræga, sem andaðist 1895, eftir að hafa barist fyrir sameiningu og frelsi Ítalíu. Frá styttunni blasir gamla Róm við austan við Tiber-fljót.

Á torgi fyrir framan styttuna var margt manna og mikið fjör, fjölskyldur með börn í grímubúningum.

Á leið niður af hæðinni skoðaði ég minnismerki um þá, sem börðust með Garibaldi í Róm. Þangað kom glaður hópur brúðkaupsgesta og lét taka af sér mynd með brúðinni og brúðgumanum.

Skammt frá minnismerkinu er Péturskirkjan í Montorio, San Pietro in Montorio, í garði hennar, sem er hluti af spænska sendiráðinu, (á sínum tíma reisti spænska konungsfjölskyldan klaustur á þessum stað), stendur Tempietto eftir Bramante, hringlaga minnismerki, reist 1499 til 1502  nákvæmlega á þeim stað, þar sem sagt er, að Pétur postuli hafi dáið píslarvættisdauða. Nokkrir kílómetrar eru frá þessum stað til Vatíkansins og Péturskirkjunnar, sem reist er á gröf postulans. Þykir þessi minnisvarði um dauða Péturs einstaklega fallegur vitnisburður um hábyggingarlist endurreisnartímans.

Síðdegis fórum við í aðra Maríukirkju, Santa Maria Maggiore, (maggiore: mikill). Kirkjunni er skipaður sess með hinum stórkirkjunum, sem við Rut höfum skoðað að þessu sinni: Péturskirkjunni, Pálskirkjunni utan múra og Jóhannesarkirkjunni í Laterano. Samkvæmt lögum frá 1929 njóta þessar fjórar kirkjur úrlendisréttar eða réttarstöðu sem hluti Vatíkansins. Þær eru allar með heilagar dyr, sem opnaðar eru samkvæmt sömu formlegu reglum.

Lesa meira

Laugardagur, 13. 02. 10. - 13.2.2010

 

Sólfagur, svalur dagur í Róm.

Við héldum snemma í Péturskirkjuna og þurftum þess vegna ekki að bíða lengi vegna öryggisleitar, áður en gengið er inn í hana. Hér ætla ég ekki að segja sögu þessarar fögru byggingar, sem á rætur sínar aftur til tíma Konstantínusar keisara eins Pálskirkjan utan múra, það er til fjórðu aldar. Ég hef áður sagt frá Péurskirkjunni hér á síðunni og ferð minni í grafhýsin undir henni, en þar eru líkasmleifar Péturs postula. Vonandi tekst að sannreyna þær eins og líkamsleifar Páls postula undir altari Pálskirkjunnar utan múra.

Frá Péturskirkjunni héldum við, sem leið lá með tveimur strætisvögnum að kirkju San Giovanni in Laterano, Heilagur Jóhannes í Laterano. Hún er talin móðir og fyrst allra kirkna í Róm og veröldinni allri. Því er hún dómkirkja Rómar og páfans, sem er jafnframt Rómarbiskup. Páfar bjuggu í Laterano fram til ársins 1305, þegar þeir fluttu í 72 ár til Avignon í Frakklandi. Þegar páfi sneri aftur til Rómar árið 1377, settist hann að í Vatíkaninu.

Sögu Jóhannesarkirkjunnar Laterano má rekja aftur til daga Konstantínusar keisara eins og Péturskirkjuna og Pálskirkjuna utan múra. Keisarinn lét páfa eftir land á þessum stað og eign Laterano-fjölskyldunnar. Upprunalega kirkjan hefur ekki varðveist, hún mátti þola vandalisma í orðsin fyllstu merkingu, þegar Vandalar réðust á Róm, þá varð hún fyrir skaða í jarðskjálfta árið 896 og á 13. öld varð hún tvisvar eldi að bráð.

Á leið til kirkjunnar ókum við framhjá Colosseum. Mikill mannfjöldi var þar að skoða þetta stórkostlega mannvirki og síðan Forum Romanum, sem liggur að Kapítólhæð. Við höfðum bæði skoðað þetta einstaka svæði áður og ég lýst ferð minni um það hér á síðunni.

Síðdegis gengum við að Spænsku tröppunum, vinsælum ferðamannastað, sem dregur nafn sitt af spænska sendiráðinu í nágrenni við tröppurnar. Þar var múgur og margmenni. Eftir að rigningu og snjókomu síðustu daga slotaði er borgarlífið orðið fjörugra. Víða mátti sjá börn í grímubúningum vegna karnivalsins fyrir upphaf föstunnar. Á Piazza Navone, stórtorgi í hjarta bæjarins, skammt frá Pantheon, voru leikarar og trúðar að sýna listir sínar.

Okkur hefur ekki gefist neitt tækifæri fyrr en í kvöld að sjá næturlíf í Trastevere. Hér er mikið af litlum veitingastöðum við þröngar, steinlagðar götur. Þeir voru allir þéttsetnir og mikið af fólki á götunum. Hópur Carabinieri-lögreglumanna var við öllu búinn. Torgið við brúna virðist vera einskonar „hallærisplan“ ungra Rómverja. Næturhávaði frá skemmtanalífinu á torginu eða í hverfinu nær ekki í okkar litlu götu. Í henni stendur hins vegar hræ af brenndum bíl, sem kannski er fórnarlamd einhverra Vandala nútímans.

Föstudagur 12. 02. 10. - 12.2.2010 18:08

 

 

Mikið rignir snemma morguns, síðan snjóar í Róm. Varð jörð hvít, þegar stórar blautar snjóflyksur féllu til jarðar.

Við fórum út rúmlega 11.00. Þá hafði stytt upp. Við tókum strætisvagn í breiðgötu, skammt frá okkur,  næst Tiber-fljóti. Ferðinni var heitið í Heilaga Pálskirkju, utan múra, eða San Paolo Fuori le Mura. Hún er í suðurhluta borgarinnar fyrir austan fljótið, utan margra ferðamannakorta. Þegar vagninn hafið farið yfir fljótið frá Trastevere og kom að eina pýramídanum í Róm, vissum við, að við værum á réttri leið. Við héldum kirkjuna vera skammt frá pýramídanum. Við spurðumst til vegar og var okkur þá sagt, að kirkjan væri í 2 km fjarlægð. Best væri fyrir okkur að halda áfram með vagni með sama númeri og við höfðum áður tekið. Tókum við því ráði og sáum ekki eftir því, enda hefði verið óskemmtilegt að arka þessa leið í bleytunni.

Árið 67 eða þar um bil, undir lok stjórnartíðar Nerós, keisara, var Páll postuli hálshöggvinn utan borgarmúra Rómar. Kristnir bræður hans lögðu líkamsleifar postulans til hvílu í 3 km fjarlægð í borg hinna dauðu (necropolis) við Via Ostiense. Þeir reistu þar lítinn minnisvarða, sem síðan varð að bænastað og basiliku. Þegar ofsóknum á hendur kristnum mönnum var hætt í Róm árið 313, hafði um þriðjungur íbúa borgarinnar tekið kristni eða hallast að kristnum sið. Um svipað leyti var basilikan reist utan múra til minningar um Pál postula. Gröfum fjölgaði einnig á staðnum, því að kristnir menn kusu að láta jarðsetja sig nálægt postulanum.

Hin fornfræga, glæsta kirkja helguð postulanum hefur um aldir dregið að sér pílagríma. Hún varð eldi að bráð árið 1823. Endurgerð kirkjunnar tók mið af upphaflegu byggingunni og unnt var að nota sama byggingarefni að nokkru leyti.

Árið 2006 var staðfest með fornleifarannsóknum, að líkamsleifar Páls postula eru nákvæmlega á þeim stað, þar sem Konstantín keisari lét reisa altari á fjórðu öld. Það var ekki fyrr en eftir 2006, að kirkjan komst í núverandi horf. Vegna fornleifarannsóknanna var háaltarið lokað. Nú má sjá þar niður í gröf Páls og við altarið eru einnig til sýnis hlekkir, sem hann bar, áður en hann var drepinn. Hátíðarárið 2000 vígði Jóhannes Páll páfi II nýjar heilagar dyr kirkjunnar.

Fyrir daga Péturskirkjunnar var Pálskirkjan utan múra hin stærsta í Róm.

Ferð okkar heim frá kirkjunni gekk ekki eins vel og til hennar. Strætisvagnar geta verið stopulir í Róm, það reyndum við bæði í gær, þegar við gáfumst upp að bíða vagns á tónleikastaðinn við Piazza Bologna og tókum leigubíl, og í dag, þar sem við áttum ekki annars kost en að bíða, þar sem við stóðum. Annað er ekki betra: engar leiðbeiningar eru í vögnunum um, hvar þeir stöðva eða hvernig tengingum við aðra vagna er háttað. Rómverjar virðast telja nóg að reka strætisvagnana fyrir staðkunnuga. Endastöð eins vagns, sem við sáum, er Piazza Thorvaldsen, svo að Rómverjar halda nafni Bertels Thorvaldsens enn á lofti.

Lesa meira

Fimmtudagur 11. 02. 10. - 11.2.2010 18:02

 

Veðrið er þurrt og bjart í Róm en frekar kalt. Á leið okkar að hinum fræga Trevi-gosbrunni litum við inn í þrjár kirkjur.

Hin fyrsta var Santa Barbara dei Librari, vígð 1306. Þessi litla, fallega kirkja er innbyggð í enda á litlu torgi, Largo dei Librari, áður Piazzetta dei Librari, en árið 1601 var kirkjan helguð gildi bóksala, sem stofnað var árið áður. Á síðustu öld var kirkjan notuð sem vörugeymsla um nokkurn tíma en endurreist og endurvígð á níunda áratugnum. Sagan segir, að faðir dýrlíngsins Barböru hafi höggvið af henni höfuðið vegna kristinnar trúar hennar. Strax eftir óhæfuverkið varð elding föðurnum að bana. Heilög Barbara er verndardýrlingur stórskotaliðsmanna, sprengjueyðingarmanna, námumanna, brunavarða og almennt allra, sem stofna lífi sínu í hættu. Með því er skírskotað til dauða föður hennar.

Enn á litum við inn í Pantheon, best varðveittu bygginguna frá tíma hinnar fornu Rómar. Pantheon var hof allra guða. Tilvist sína enn þann dag í dag á þetta einstæða mannvirki því að þakka, að hafa verið breytt í kirkju á sjöundu öld og þar með friðað. Marcus Agrippa (tengdasonur Ágústusar keisara) lét reisa hof á þessum stað 27 f. kr., sú bygging brann. Hadrianus, keisara, endurreisti hofið árið 125 e. kr. Af lítillæti leyfði Hardrianus nafni Agrippa að standa áfram þvert yfir anddyrinu, sem haldið er uppi af 16 rauðleitum granítsúlum. Bronslitaðir bitar prýddu anddyrið, þar til Barberini páfinn Urban VIII. lét fjarlægja þá, til að Bernini gæti nýtt bitana til að gera tjaldið yfir háaltarinu í Péturskirkjunni. Þetta verk páfa kallaði fram orðtakið: „Quod non fecerunt barbari, fecerunt Barberini“ – Það, sem barbararnir gerðu ekki, gerði Barberini. 

Gestir í Pantheon falla í stafi yfir hvelfingu hússins, sem er 43 m að þvermáli og jafnhá. Þvermál hennar er meira en hvelfingar Péturskirkjunnar. Hún er einstakt byggingarsögulegt afrek. Efsti hluti hvelfingarinnar er opinn og i rigingu er miðsvæði hússins lokað, svo að gestir renni ekki á blautum marmaranum.

Loks skoðuðum við hina miklu barokkkirkju Sant‘Ignazio, sem reist var 1627 til 1685 til heiðurs leiðtoga Jesúíta, St. Ignatius Loyola. Í þessari kirkju flutti Pólýfónkórinn og hljómsveit undir stjórn Ingólfs Guðbrandssonar H-moll messu Bachs sumarið 1985. Komust færri að en vildu í þetta mikla og glæsilega guðshús. Rut á góðar minningar frá tónleikunum, þar sem hún var konsertmeistari.

Lesa meira

Miðvikudagur, 10. 02. 10. - 10.2.2010

 

 

 

Það rigndi minna í dag í Róm en í gær og ekkert undir kvöld. Við fórum í góða gönguferð yfir Ponte Sisto og að Pantheon með viðkomu á Piazza Navone og Piazza Campo di Fiori, þar sem daglega er blóma-, ávaxta og matvörumarkaður.

Kvartettinn æfði síðdegis í Palazzo della Cancelleria, sem er fyrsta stóra höll endurreisnartímans í Róm, reist 1483 til 1511. Eins og nafnið „cancelleria“ gefur til kynna, var höllin reist fyrir kanselí, stjórnarskrifstofur, páfa, þegar stjórnardeildir páfastóll voru á þessum stað í hjarta Rómar.

Tónleikarnir voru í Aula Magna, það er mikla salnum, í kanselíhöllinni. Salurinn ber nafn með rentu, lofthæð er um 20 metrar og hann er skreyttur listaverkum eins og aðrir salir hallarinnar. Í einum hluta hennar er sýning til heiðurs Leonardo da Vinci og þeim tækjum, sem meistarinn hannaði og smíðaði.

Þegar við komum til kanselíhallarinnar um klukkan 20.00 voru þar fjölmennir hópar Ítala í skoðunarferðum undir leiðsögn. Aula Magna var þéttsetin, þegar tónleikarnir hófust rúmlega 21.00. Félagið Progretto Lettonia, http://www.progrettolettonia.it/, skipulagði tónleikana, en það starfar undir verndarvæng páfastóls.

Kvartettinn lék tvö verk: Wolfgang Amadeus Mozart: Kvartett í D-moll. K421 og Ludwig van Beethoven: Kvartett í C-moll op. 18 nr. 4.

Góður rómur var gerður að flutningi kvartettsins og hann lék Sofðu unga ástin mín sem aukalag.

Enn var þurrt úti, þegar tónleikunum lauk um 22.30 en kalt í lofti, líklega um eða undir frostmarki.

Þegar við gengum um Piazza Campo di Fiori á heimleiðinni undir miðnætti var mikið mannlíf þar enn, því að veitingastaðir umhverfis torgið voru þétt settnir og margir sátu í tjöldum utan dyra með gastæki sér til hita. Þau eru mörg þannig úr garði gerð, að eldsúla spýtist upp úr stauti. Súlurnar líkjast flöktandi kyndlum og setja sterkan svip á næturlífið á torginu.

Þriðjudagur, 09. 02. 10. - 9.2.2010

 

 

Flugum klukkan 07.00 til London Gatwick með Iceland Express. Ferðin gekk eins og í sögu. Klukkan 12.25 flugum við síðan með EasyJet til Rómar, allt stóð þar einnig eins og stafur á bók. Lentum í Róm um klukkan 15.00 að íslenskum tíma, 16.00 að tíma heimamanna.

Rut er að spila með kvartett Kammersveitar Reykjavíkur í Róm. Una Sveinbjarnardóttir, leikur á fyrstu fiðlu, Guðrún Huld Harðardóttir, á víólu, en þær stöllur tóku við forystu í kammersveitinni af Rut um áramótin. Sigurgeir Agnarsson leikur á selló í kvartettinum.

Ákveðið var, að tengiliður kvartettsins í Róm, Sebastiano Brusco, myndi hitta okkur á Termini, aðalbrautarstöðinni inni í Róm. Við útganginn úr flugstöðvarbyggingunni niður að járnbrautarlest hittum við mann, sem seldi okkur far í „minibus“ á 10 evrur, einni evru minna en kostaði að taka lestina. Tókum við boði hans. Ferðin inn í borgina gekk vel. Veðrið hefði hins vegar mátt vera betra, það hellirigndi.

Eftir nokkra bið í kulda á brautarstöðinni, hittum við Sebastiano. Þau þrjú fóru með honum en við Rut tókum leigubíl. Bílstjórinn sagði kosta 28 evrur að aka okkur að íbúð, sem við höfðum leigt skammt frá Piazza Campo de Fiori, það er Blómatorginu.

Bílstjórinn þekkti ekki götuna og neitaði svo að aka inn í hana að lokum, það væri bannað vegna þess, hve hún væri þröng.  Reyndist það rangt hjá honum. Með því að taka þennan leigubíl, sönnuðum við réttmæti viðvarana í ferðamannabæklingum um Róm um að skipta ekki við aðra bílstjóra en aka skráðum leigubílum. Við vorum þó í góðri trú, þar sem bíllinn stóð fremstur í röð bíla með taxa-merki á þakinu við aðalbrautarstöðina. Þarna var líklega okrað á okkur af reynslulausum bílstjóra.

Við gengum, stuttan, síðasta spölinn og hringdum í fulltrúa leigusalans. Hann kom á staðinn eftir drykklanga stund, sem leið lengur en ella vegna rigningar og kulda.

Fulltrúinn sagði sínar farir ekki sléttar. Íbúðin væri ónothæf vegna bilunar. Hann yrði að fara með okkur í aðra íbúð. Reyndi hann að hringja í leigubíl, en þá má ekki stöðva á götum úti í Róm, heldur verður annað hvort að hringja eða að fara að leigubílastaur. Honum tókst ekki að ná í neinn bíl og gengum við því yfir Tíberfljót á Ponte Sisto og inn í Trastevere-hverfið, þar sem við fengum þægilega íbúð við kyrrláta litla götu. Þetta var aðeins 300 m ganga.

Trastevere þýðir „handan við fljótið Tevere“, það er hverfið handan við fljótið Tíber. Íbúar hér telja sig hina sönnu Rómverja. Vatíkanið stendur skammt fyrir norðan Trastevere, á sömu hlið við fljótið.

Mánudagur, 08. 02. 10. - 8.2.2010

Hér má sjá þátt minn á ÍNN, þegar ég ræddi við Lárus L. Blöndal, hæstaréttarlögmann, um Icesave og greinar hans og Stefáns Más Stefánssonar, lagaprófessors, um lögfræðilega hlið málsins. Þeir hafa fært rök fyrir því, að ekki hvíli nein lagaskylda á okkur Íslendingum gagnvart innistæðueigendum í Bretlandi og Hollandi. Stjórnvöld þar hafa ekki heldur hótað íslenska ríkinu málssókn vegna Icesave.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins úr Suðurkjördæmi, verður gestur minn á ÍNN nk. miðvikudag klukkan 21.30. Viðræður okkar snúast um atvinnumál, enda er vegið að atvinnugreinum í Suðurkjördæmi með stefnu ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J.

Sunnudagur, 07. 02. 10. - 7.2.2010

Viktor Janúkóvits verður næsti forseti Úkraínu eftir að hafa sigrað Júlíu Tímósjenkó, núverandi forsætisráðherra, í kosningum í dag. Janúkóvits sækir styrk sinn til austurhluta Úkraínu, þar sem sagt er, að menn séu hallir undir Rússa. Dr. Tatjana Parkhalina frá Rússlandi, sem var hér í síðasta mánuði, sagði, að ekki bæri að draga þá ályktun af sigri Janúkovits, að Úkraína yrði undir hælnum á Kremlverjum. Ólígarkarnir, sem stæðu að baki Janúkovits teldu sig betur setta í góðu sambandi við Vesturlönd en undir Rússum. Spáði hún því, að Janúkóvits mundi vilja nálgast Evrópusambandið og jafnvel NATO.

Kremlverjar óttast lýðræðisþróun í Úkraínu, vegna þess að þeir vilja ekki, að hið sama gerist í landi þeirra og ógni valdi þeirra og aðstöðu. Forvitnilegt verður að fylgjast með því, hvernig Janúkóvits heldur á málum heima fyrir. Hann hótar að reka Tímósjenkó. Geri hann það og taki sér meira vald í hendur en stjórnarskrá heimilar, myndi það vekja traust Kremlverja en grafa undan trausti á Vesturlöndum.

Laugardagur 06. 02. 10 - 6.2.2010

Uppgjörið milli og innan ríkisstjórnarflokkanna vegna Icesave hefur orðið háværara með hverjum degi vikunnar. Á þriðjudagskvöldið afneitaði Jóhanna einkavini Steingríms J. og samningamanni Íslands, Svavari Gestssyni. Á miðvikudag ávítaði Steingrímur J. Jóhönnu fyrir mannorðsveiðar. Í dag ritar Kristrún Heimisdóttir, aðstoðarmaður Ingibjargar Sólrúnar í utanríkisráðuneytinu, síðan grein í Fréttablaðið, þar sem hún ræðst á samningatæknina undir forystu Jóhönnu, Steingríms J. og Össurar. Kristrún minnir réttilega á með grein sinni, að utanríkisráðherra er að sjálfsögðu ekki stikkfrí í þessu milliríkjamáli, þótt Össur vilji ekki ræða annað í tengslum við það en hvort nokkur truflun sé á ESB-aðlögunarferlinu  vegna Icesave.

Þetta hefur verið erfið vika fyrir ríkisstjórnina. Upplausn er innan hennar vegna vaxandi vantrúar flokksmanna á Jóhönnu annars vegar og Steingrími J. hins vegar. Vinstri-grænar kjósa að þegja í sínum hópi um Icesave, segi þeir eitthvað, geta þeir ekki annað en gagnrýnt Steingrím J. og Svavar. Sneypuför Jóhönnu til Brussel, þar sem hún lét undir höfuð leggjast að kynna málstað Íslands fyrir evrópskum blaðamönnum, ætti að sýna öllum svart á hvítu, að Samfylkingunni er ekki unnt að treysta til að halda á málstað Íslands gagnvart Evrópusambandinu.

Í ljós er að koma, að ríkisstjórnir annars staðar á Norðurlöndum telja sig standa í ístaðið fyrir ríkisstjórn Íslands, þegar þær skirrast við að ganga formlega frá lánveitingum til Íslands og opna á afgreiðslu íslenskra mála hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þær hafa skilið boðskap íslenskra ráðherra á þann veg, að með töfum á afgreiðslu lánanna sé unnt að hræða Íslendinga til að sætta sig við Icesave-afarkostina.

Við þessar ömurlegu aðstæður við stjórn landsins hafa meira en 100.000 manns hugað að öðru og séð kvikmyndina Avatar og bættist ég í þann hóp í dag mér til ánægju og undrunar yfir hinni ótrúlegu tækni, sem beitt er við gerð myndarinnar.

 

Föstudagur, 05. 02. 10. - 5.2.2010

Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Arion-banka, var ekki sannfærandi í Kastljósi kvöldsins, þegar hann leitaðist við að rökstyðja, að best væri, að sömu menn og stofnað hafa til tugmilljarða skulda við bankann, sem óvist er, að fáist nokkru sinni greiddar, haldi áfram að reka og eiga stærstu fyrirtæki landsins. Að menn sitji undir grun vegna viðskipta eða fréttir séu um ótrúlega meðferð þeirra á rosalegum fjárhæðum, breyti engu um það.

Af yfirlýsingum bankastjórans má ætla, að hann og bankinn hafi látið undan þrýstingi fráfarandi eigenda Haga, þegar ákvörðun var tekin um framtíð fyrirtækisins. Bankinn hafi ekki haft þrek til að standa gegn þessum þrýstingi. 

Steingrímur J. hefur barið sér á brjóst, frá því að bankarnir hrundu, og skellt skuldinni á þá stjórnmálamenn, sem að hans mati létu líðast, að þeir, sem fyrir hrunið settu mestan svip á viðskiptalífið, gátu notið sín. Nú þegar Steingrímur J. hefur undirtökin gagnvart bönkum, virðist höfuðmarkmið bankanna að sjá til þess, að sömu gömlu, stóru viðskiptavinirnir og settu þá á hausinn, fái forskot til að geta haldið áfram.

Markaðshlutdeild Haga nálgast 60%. Fyrirtækið hefur flutt megn tekna sinna til fjárfestinga erlendis. Hagar minna í raun á gömlu selstöðukaupmennina. Nú vill bankastjóri Arion selja okkur, að best sé að halda sömu skipan áfram.

 

Fimmtudagur, 04. 02. 10. - 4.2.2010

Í dag skrifaði ég pistil hér á síðuna, sem ég kalla Egill, Víkverji, sérstaki saksóknarinn og Joly. Morgunblaðið birti í Staksteinum í dag ígildi afsökunar á fullyrðingum í Víkverja blaðsins 30. janúar, sem ég ræddi hér í dagbókinni 31. janúar. Egill Helgason ræddi sama mál á bloggsíðu sinni í dag. Honum ferst það ekki vel úr hendi, eins og ég lýsi í pistli mínum.

Jóhanna Sigurðadóttir var í Brussel í dag og fór með veggjum inn á fund Barroso, forseta framkvæmdastjórnar ESB, og út af honum. Venja er, að forsætisráðherrar umsóknarríkja efni til blaðamannafunda í fjölmiðlasal ESB og lýsi stefnu stjórnar sinnar og væntingum vegna ESB-aðildar. Jóhanna gerði þetta ekki og vakti framkoma hennar neikvæða undrun. Kannski hefur hún þó sent þau réttu boð, að forsætisráðherra Íslands getur ekki talað opinberlega í Brussel um ESB-aðild í nafni ríkisstjórnar sinnar. Ríkisstjórnin er þverklofin í málinu. Því síður getur Jóhanna talað í nafni þjóðarinnar, hvort sem er um Icesave eða ESB-aðild. Aumlegri getur staða forsætisráðherra eins lands ekki verið í Brussel. Engum heima fyrir kemur á óvart, að Jóhanna vilji ferðast með leynd á þessar slóðir. Um Evrópu-höfuðborgina laumast hins vegar ekki aðrir gestir ESB en einræðisherrar eða þeir, sem óttast að vera sakaðir um afbrot.

Engin reisn var yfir ferð Jóhönnu. Hún notaði hins vegar sömu ESB-frasa og Össur Skarphéðinsson um, að allt léki í lyndi og hún væri ótrúlega ánægð með fund sinn með Barroso. Hinir innantómu ESB-frasar Jóhönnu og Össurar verða ekki til að styrkja stöðu Íslands gagnvart ESB í aðlögunarferlinu. Þeim er ætlað eins og málflutningi Steingríms J. um Icesave að vera ljúfir tónar í eyrum viðmælendanna. Bæði Jóhönnu og Steingrími J. virðist fyrirmunað að standa í ístaðið, þegar þau setjast til viðræðna með erlendum ráðamönnum.

Spyrja má, hvort málum sé í raun svo komið, að Samfylkingin sætti sig við þennan oddvita sinn og þjóðarinnar. Að hún telji sig tefla fram þeim, sem best geti gætt hagsmuna þjóðarinnar.

Meðal vinstri-grænna er óánægjan með Steingrím J. á því stigi, að flokksmenn eru hættir að geta talað saman um mál eins og Icesave. Það sannaðist með þögninni um málið í ályktun flokksráðsfundarins á Akureyri. Yfirgangur Steingríms J. vegna Icesave-samninga félaga Svavars er svo mikill, að flokksbræðrur vinstri-grænna í Noregi þorðu ekki að hreyfa sig í þágu Íslendinga, fyrr en þeir höfðu hitt andstæðinga Steingríms J. meðal vinstri-grænna á fundi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn í síðustu viku.

Miðvikudagur, 03. 02. 10. - 3.2.2010

Á forsíðu DV er í dag birt mynd af mér með nokkrum öðrum. Ég hélt, að þessi miðill undir stjórn þeirra Hreins Loftssonar og Reynis Traustasonar væri hættur að hafa mig að skotspæni. Mér skilst, að nafn mitt og mynd þjóni þeim tilgangi hjá þeim félögum að sverta mannorð Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins. Dögum saman hefur þessi Hreinsmiðill gert atlögu að Bjarna. Samkvæmt fréttum er talið, að þessi herferð blaðsins byggist á gögnum, sem 17 ára piltur náði út tölvum, án þess að hafa til þess heimild. Hann er sagður hafa farið á milli fjölmiðla og boðið þeim gögnin gegn greiðslu.

Í hádeginu sótti ég fjölmennan fund í Háskólanum í Reykjavík, þar sem Nanna Briem, geðlæknir, ræddi um siðblindu. Vilji menn kynna sér sögu siðblinds manns, ættu þeir að lesa bókina Stalín ungi eftir Simon Sebag Montefiore í þýðingu Elínar Guðmundsdóttur, sem Skrudda gaf út nú fyrir jólin. Þegar ég hlustaði á erindi Nönnu, rann upp fyrir mér, að Stalín uppfyllti öll skilyrði til að kallast siðblindur eða síkkópat.

Aðför DV að einstaklingum undir ritstjórn Reynis Traustasonar má kenna við siðleysi en ekki siðblindu. Að þannig sé staðið að blaðamennsku í fjölmiðli í eigu hæstaréttarlögmanns styrkir ekki málstað blaðsins.

Í Fréttablaðinu í dag er Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands, spurð um skrifin í DV . Í Fréttablaðinu segir:

„Það er náttúrlega ljóst að það er ólöglegt að versla með þýfi en fái fjölmiðill í hendur upplýsingar sem gætu verið illa fengnar eða brotið á einkarétti fólks, þá hlýtur að vera horft til þess hvort almannahagsmunir réttlæti birtingu.“

Þá segir Þóra Kristín flesta fjölmiðla hafa það fyrir vinnureglu að kaupa ekki upplýsingar en siðareglur BÍ taki ekki til þessa atriðis. „Mér er ekki kunnugt um hvernig því er farið í vinnureglum DV,“ segir formaðurinn.“

Af þessum orðum verður ráðið, að Þóra Kristín telur unnt að réttlæta birtingu DV  á stolnum skjölum gegn gjaldi. Hún telur þetta geta verið siðlegt, þar sem ekki sé tekið á málinu í siðareglum blaðamannafélagsins.

Bjarni Benediktsson sat fyrir svörum hjá Helga Seljan í Kastljósi og ræddu þeir mest þátt Bjarna í því máli, sem DV hefur haldið vakandi undanfarið. Bjarni gerði skilmerkilega grein fyrir sínum hlut. Að í honum felist saknæmt athæfi er af og frá. Lokapunktur Helga var að gera tortryggilegt, að hefði bankakerfið ekki hrunið, kynni Bjarni að hafa hagnast á því að hafa sem stjórnarformaður í BNT veitt Glitni tryggingu fyrir láni vegna endurfjármögnunar á eignarhluta í Glitni-banka. Við hrun Glitnis töpuðu allir hluthafar eign sinni í bankanum.

 

 

Þriðjudagur, 02. 02. 10. - 2.2.2010

Ég hafði ekki grandskoðað Morgunblaðið í dag, þegar ég las þetta í dálknum Orðið á götunni á eyjan.is:

„Hvorki Víkverji Morgunblaðsins né ritstjórar blaðsins, Davíð Oddsson og Haraldur Johannessen, hafa orðið við kröfu Björns Bjarnasonar, fyrrverandi dómsmálaráðherra, um að hann verði beðinn afsökunar á því sem hann kallar rangfærslur í blaðinu um þátt sinn í rannsókn á bankahruninu.“

Þarna er vísað til þess, sem fram kom hér í dagbókinni sunnudaginn 31. janúar. Ég á ekki von á því, að Víkverji skipi sér sess við hlið þeirra Jóns F. Thoroddsens og Egils Helgasonar við þessa ósannindasmíði. Hann hefur enn tækifæri til að draga ósannar ávirðingar sínar til baka. Ég þakka þeim á Eyjunni fyrir að halda málinu vakandi.

Í Spegli RÚV var rætt um Silju Báru Ómarsdóttur, stjórnmálafræðing, um þá tillögu á alþingi, að sérstök rannsókn færi fram á ákvörðun ríkisstjórnar fyrri hluta árs 2003 um að Ísland skipaði sér í sveit þeirra ríkja, sem tóku afstöðu gegn Saddam Hussein við innrásina í Írak. Silja Bára taldi slíkar rannsóknir af hinu góða. Hún var þó þeirrar skoðunar, að líklega kæmi ekki mikið fram í Íraksrannsókn hér. Ákvörðun hefði verið í höndum tveggja manna og kannski tekin í símtali.

Í viðtalinu við Silju Báru var undarlegt, að viðmælandi hennar skyldi ekki spyrja hana, hvort ekki væri brýnast nú að efna til rannsóknar á gerð Icesave-samninganna. Fyrir liggur, að tveir menn, Svavar Gestsson og Indriði H. Þorláksson, töldu sig hafa fundið lausn á deilunni og þeir þyrftu ekki aðstoð annarra. Þá hefur Steingrímur J. hvað eftir annað sagt, að í Icesave-málinu séu leynileg gögn, sem ráði miklu um hina hörmulegu niðurstöðu.

Án þess að gert sé lítið úr Íraksmálinu eða stríðinu þar, má óhikað fullyrða, að Icesave-málið og samningarnir um það skipti Íslendinga beint meiru. Það sé mikilvægara fyrir okkur að kafað sé til botns í því máli og það tafarlaust, en taka upp rannsóknarstarf vegna stjórnmálaatburða skömmu fyrir þingkosningar 2003.

Steingrímur J.  hefur ekki hlaupist frá Icesave-samningunum, sem gerðir voru undir forystu Svavars Gestssonar, sem hann handvaldi til að semja og ná „glæsilegri niðurstöðu“.

Nú hefur Jóhanna Sigurðardóttir afneitað Svavari Gestssyni í samtali við sjónvarpið, þótt hún saki Steingrím J. ekki um mistök við að velja Svavar. Er ekki nauðsynlegt, að rannsóknarnefnd á vegum alþingis kanni, hvernig staðið var að ákvörðun um Svavar? Vinstri grænir ættu að minnsta kosti að vilja upplýst, hvort Steingrímur J. tók einn ákvörðun um Svavar eða hvort Jóhanna kom þar að málum.

 

Mánudagur, 01. 02. 10. - 1.2.2010

Merkilegt er að lesa um það á forsíðu Morgunblaðsins í dag, að norrænir stjórnmálamenn lengst til vinstri, hiki við að berjast fyrir málstað Íslands í þjóðþingum sínum, af því að þeir óttast, að það skaði stöðu vinstri-grænna í ríkisstjórn Jóhönnu. Með öðrum orðum samrýmist það ekki stefnu ríkisstjórnar Íslands að berjast fyrir því, að annars staðar á Norðurlöndum falli ríkisstjórnir frá þeirri fráleitu afstöðu að neita að gefa Alþjóðagjaldeyrissjóðnum grænt ljós, nema Íslendingar samþykki Icesave-afarkostina.

Á sömu forsíðu er þess getið, að Steingrímur J. sé á fundi með norrænum sósíalistum í Kaupmannahöfn. Hann hafi meðal annars hitt Kristínu Halvorsen, núverandi menntamálaráðherra Noregs, en hún sagði sem fjármálaráðherra, að Íslendingar yrðu gjalda þess, að hafa kosið yfir sig frjálshyggjumenn. Þá endurómaði hún ósk Steingríms J. um að skella Icesave-skuldinni á aðra en þá, sem sömdu um Icesave-afarkostina. Hvað skyldi Halvorsen segja eftir þennan fund sinn með Steingrími J.?

Afstaða ríkisstjórna Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar í Icesave-málinu er ekki stórmannleg. Pólverjar og Færeyingar létu Breta og Hollendinga ekki stjórna lánveitingum sínum til Íslendinga.