27.2.2010

Laugardagur, 27. 02. 10.

Hér má sjá samtal mitt við Rögnu Árnadóttur, dómsmálaráðherra, á ÍNN 24. febrúar.

Í dag skrifaði ég pistil hér á síðuna og til birtingar á www.amx.is Í pistlinum rýni ég í það, sem Guðmundur Gunnarsson, forystumaður rafiðnaðarmanna, skrifaði á Eyjubloggið í dag, en hann er skelfingu lostinn vegna yfirvofandi þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave. Hann vill, að farið sé að óskum Breta og Hollendinga.

Ríkisstjórninni er mest í mun að komast hjá þjóðaratkvæðagreiðslunni. Fréttir kvöldsins bera jafnframt með sér, að breska ríkisstjórnin sé sömu skoðunar. Báðar eru þessar ríkisstjórnir á fallanda fæti, en hin hollenska er þegar fallin. Hin breska óttast, að nei Íslendinga verði til þess að afhjúpa fleiri gagnrýnisverðar aðgerðir hennar haustið 2008.

Henry (Hank) Poulson, fjármálaráðherra Bandaríkjanna haustið 2008, hefur nýlega sent frá sér bók um fjármálakrísuna þá. Hann gagnrýnir framgöngu Alistairs Darlings, fjármálaráðherra Bretlands, harðlega og telur, að hann eigi ríka sök á hruni Lehmans Brothers bankans. Framganga Darlings gagnvart Íslandi og íslenskum bönkum á sama tíma var einnig mjög gagrýniverð.