27.2.2010

Kvalir Guðmundar Gunnarssonar vegna Icesave.

 

Ekki þarf að hafa mörg orð um, að Samfylkingin er mynduð af söfnuði fólks úr ólíkum áttum. Margir innan hennar hafa barist undir merkjum fleiri en eins stjórnmálaflokks, áður en þeir völdu sér samastað í Samfylkingunni. Einn þeirra er Guðmundur Gunnarsson, forystumaður rafiðnaðarmanna. Hann þoldi ekki vistina í Sjálfstæðisflokknum. Hann taldi flokkinn ekki nægilega mikið við alþýðuskap og þar væri flokksagi of mikill.

Guðmundur er í hópi Eyjubloggara. Hann styður Icesave-samningana af hollustu við ríkisstjórnina, með þau rök á vörunum, að best sé að borga uppsett verð Breta og Hollendinga.

Í Eyjubloggi sínu 27. febrúar segir Guðmundur:

„Eins og staðan er nú þá blasir þjóðaratkvæðagreiðslan við. Ég er fylgjandi því að mál sem hafa afgerandi áhrif á íslenskt samfélag eigi að bera undir þjóðina. En það þarf að vera ljóst um hvað sé verið að kjósa. Nú liggur fyrir tilboð sem gerir þau lög sem greiða á atkvæði um marklaus.“

Séu lögin marklaus, ætti ríkisstjórnin að flytja tillögu á alþingi um að afnema þau. Séu lögin marklaus, er það ekki vegna frumkvæðis ríkisstjórnarinnar, heldur stjórnarandstöðunnar, sem krafðist þess, að ríkisstjórnin breytti um stefnu í Icesave-málinu. Ólafi Ragnari átti ekki annarra kosta völ en hafna Icesave-lögum Steingríms J., þegar 60 þúsund manns höfðu krafist þess af honum með undirskrift sinni.

Guðmundur Gunnarsson heldur áfram:

„Það eina sem fæst út úr þjóðaratkvæðagreiðslunni er staðfesting á að landið er stjórnlaust. Vitanlega gerðu Bretar og Hollendingar kröfu um að stjórnarandstaðan kæmi að nýjum Icesave- samning, vegna þess að þó svo ríkisstjórnin hefði afgerandi meirihluta, en hluti þess meirihluta kaus að starfa með stjórnarandstöðunni og á því stærsta þátt í hvernig komið er.“

Þessi orð Guðmundar verða ekki skilin á annan veg en þann, að hann telji landið stjórnlaust. Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar eigi aðeins eftir að staðfesta það. Líklegt er, að þessi skoðun innan Samfylkingarinnar ýti á þá kröfu flokksmanna næstu sólarhringa, að ríkisstjórnin leggi fyrir alþingi að afnema desember-lögin um Icesave. Á þann hátt komist hún hjá því að verða niðurlægð í þjóðaratkvæðagreiðslu. Af tvennu illu í stöðunni sé best fyrir ríkisstjórnina að grípa sjálf til þess, sem þjóðin vill, að afnema lögin.

Guðmundur færir ekki rök fyrir því, að stjórnarandstöðuflokkarnir séu gerendur í Icesave-málinu vegna kröfu frá Bretum og Hollendingum. Hann hrapar þar að rangri niðurstöðu. Jóhanna og Steingrímur J. vildu ólm draga stjórnarandstöðuflokkana inn í málið neitun Ólafs Ragnars. Þau hafa ekki haft neina burði til að takast ein og óstudd við Icesave-málið á heimavelli síðan 5. janúar 2010. Bretar og Hollendingar átta sig hins vegar á því, að ríkisstjórnin er ekki undirskriftar sinnar virði, og þess vegna töldu þeir tilgangslaust að ræða áfram einungis við fulltrúa hennar.

Enn segir Guðmundur Gunnarsson:

„En með því að samþykkja þetta fyrirkomulag var verið að gefa stjórnarandstöðunni úrslitavald, ríkisstjórnin sett til hliðar. En stjórnarandstaðan hefur sýnt sig í að hafa ekki siðferðislegt þrek til þess að höndla þetta vald. Það er verið að brjóta gegn fullveldisrétti þjóðarinnar um að hún velji sjálf hverjir fara með stjórn á málum hennar.“

Þessi klausa Guðmundar er illskiljanleg. Ríkisstjórnin fagnaði aðkomu  stjórnarandstöðunnar að Icesave-borðinu, af því að hún gat ekki meir. Setti hún sig sjálf til hliðar? Stjórnarandstöðunni var í lófa lagið að halda sér til hlés og láta ríkisstjórnina sitja eina uppi með þann Icesave-draug, sem hún hafði sjálf magnað.

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins 27. febrúar er gangi Icesave-málsins eftir samþykkt alþingis 30. desember 2009 lýst á þennan veg:

„Fjórir stjórnarþingmenn, sem samþykktu lögin um ríkisábyrgð nauðugir, skoruðu á forsetann úr ræðustól Alþingis að staðfesta þau ekki. Sama gerðu sextíu þúsund Íslendingar til viðbótar. Forsetinn, sem nýkominn var illa laskaður úr ókræsilegum félagsskap, hafði enga stöðu. Hann varð að synja lögunum staðfestingar. Og nú var fokið í flest skjól ríkisstjórnarinnar. En þá kom stjórnarandstaðan til skjalanna. Og Steingrímur fann nýja von. Ekki er hægt að áfellast stjórnarandstöðuna. Hún vildi sýna ábyrgðarkennd á alvarlegum tímum, í stað þess að slá pólitískar keilur gagnvart ríkisstjórn í þröngri stöðu.“

Guðmundur hefur ekki þrek til að viðurkenna, að stjórnarandstaðan rétti ríkisstjórninni hjálparhönd í Icsave-vanda hennar. Hann kýs að láta Breta og Hollendinga ráða för ríkisstjórnarinnar til stjórnarandstöðunnar.

Ástæða er til að spyrja Guðmund í tilefni orða hans um fullveldisréttinn: Hver er að brjóta á fullveldisrétti þjóðarinnar? Ríkisstjórnin með því að leita ásjár hjá stjórnarandstöðunni? Stjórnarandstaðan með því að stuðla að því að létta skuldabagga af þjóðinni? Skuldabagga, sem henni ber engar skyldur til að axla.

Guðmundur Gunnarsson gefur ekkert fyrir rök sérfræðinga hér á landi og erlendis, sem segja Íslendinga ekki bera neinar lagaskyldur til að axla Icesave-baggana. Guðmundur segir í lok pistils síns:

„Ótvírætt er að lög um innstæðutryggingar mæla fyrir um lágmarkstryggingu á innstæðum í íslenskum bönkum. Önnur íslensk lög ákveða að meginmál EES-samningsins hafi lagagildi hér á landi. Allt er þetta til þess að tryggja að sömu lög gildi í öllum EES-löndunum. Íslendingar undirgengust þetta grundvallaratriði með EES-samningnum. Þess vegna eiga allir innstæðueigendur í íslenskum banka rétt til lágmarkstryggingar óháð þjóðerni eða starfsstöð bankans. Þetta er kjarninn í Icesave-deilunni.“

Dapurlegt er að sjá, að baráttumaður fyrir hag íslenskra rafiðnaðarmanna og áhrifamaður á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar og innan Samfylkingarinnar skuli taka á þennan hátt undir sjónarmið Breta og Hollendinga í Icesave-málinu.

Lögfræðilegur kjarni Icesave-deilunnar er, að við hrun fjármálakerfis gilda ekki þær reglur, sem Guðmundur segir, að gildi. Bresk og hollensk stjórnvöld hafa aldrei treyst sér til að hóta íslensku ríkisstjórninni málssókn. Hvers vegna ekki? Þeir vita, að lögin standa ekki til þess, sem Guðmundur Gunnarsson segir.

Hinn pólitíski kjarni Icesave-deilunnar er, að íslensk stjórnvöld hafa, þrátt fyrir að þeim sé það ekki skylt, heitið því að tryggja endurgreiðslu á lágmarkstryggingargjaldi samkvæmt EES-reglum, það er rúmlega 20 þúsund evrum á mann. Standa vonir til, að eignir Landsbanka Íslands í Bretlandi dugi að verulegu leyti til að standa undir þessu.

Hinn óleysti kjarni Icesave-deilunnar snýst um, að stjórnarandstaðan á Íslandi vill ekki greiða Bretum og Hollendingum hundruð milljarða í vexti auk þess að standa undir endurgreiðslu lágmarkstryggingagjaldsins. Fyrir þrýsting stjórnarandstöðunnar hefur nú þegar tekist að lækka vaxtagreiðslurnar um tæpa 100 milljarða, eina Kárahnjúkavirkjun. Betur má ef duga skal.

Samfylkingin vildi samþykkja Icesave-afarkostina óséða 5. júní 2009. Hún hefur síðan viljað samþykkja allt, sem hún telur að gleðji Breta og Hollendinga.

Ráðherrar Samfylkingarinnar hafa enga stöðu til að gæta hagsmuna Íslands í þessu máli. Þeir eru rúnir trausti heima fyrir og erlendis. Vinstri-grænir standa að því leyti betur að vígi, að þingflokkur þeirra er klofinn í málinu. Þar geta menn því vísað til þess, að þeir hafi leitast við að gæta þjóðarhags.

Guðmundur Gunnarsson hefur farið mikinn undanfarna mánuði til stuðnings aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB). Guðmundur er eindreginn aðildarsinni. Hann gerir sér grein fyrir því, sem fram kemur í öllum frásögnum erlendis síðustu daga, eftir að framkvæmdastjórn ESB gaf grænt ljós á viðræður við Ísland, að Bretar og Hollendingar segja líklega nei við þessum viðræðum, verði Icesave-deilan ekki leyst að þeirra skapi.

Kvalir Samfylkingarfólks í Icesave-málinu kristallast í ótta þess við, að ESB-draumurinn breytist í martröð. Eigi menn kost á því að forðast martraðir, gera þeir allt til að losna undan þeim. Samfylkingarfólkinu er sama, þótt það kosti íslensku þjóðina í þessu tilviki nokkur hundruð milljarða.