Dagbókin

Mánudagur 27. 02. 17

Stundum minna fréttir á gömul viðfangsefni á vettvangi stjórnmálanna. Í dag má lesa um skýrslu frá Ríkisendurskoðun um kostnað og skilvirkni kennaramenntunar. Þar segir meðal annars:

„Frá árinu 2009, þegar kennaranám var lengt úr þremur árum í fimm, hefur mikil fækkun verið á skráðum nemendum við kennaradeildir skólanna. Nú er svo komið að háskólarnir ná ekki að brautskrá nægilega marga kennara til að viðhalda eðlilegri nýliðun í stéttinni. Kennaradeildir Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri eru einnig hvattar til leita leiða til að laða nýnema í kennaranám og til þess að auka skilvirkni í kennaranámi.“

Á sínum tíma sætti ég gagnrýni fyrir að beita mér ekki hratt og af nægilegri festu sem menntamálaráðherra fyrir því að lengja kennaranám í fimm ár og setja þá menntun sem skilyrði fyrir kennsluréttindum. Efasemdir mínar áttu meðal annars rætur í því sem birtist í ofangreindum orðum.

Hafi tilgangurinn með að lengja námið verið að bæta stöðu kennara til að krefjast hærri launa og festa þá þannig við kennslu virðist það ekki hafa heppnast sem skyldi. Í skýrslunni segir einnig:

„Talið er að um 60% menntaðra leikskólakennara og um helmingur menntaðra grunnskólakennara séu við kennslustörf í leik- og grunnskólum landsins. Það bendir til að kennaraskortur verði ekki eingöngu leystur með fjölgun kennaranema heldur sé einnig mikilvægt að laða menntaða kennara til starfa og hvetja þá til að halda áfram störfum innan stéttarinnar.“

Fréttir berast að því að nemendur Listaháskóla Íslands (LHÍ) uni því illa hve húsnæði skólans er illa farið. Magnús Guðmundsson skrifar forystugrein um málið í Fréttablaðið í dag og segir meðal annars:

„Ábyrgðin er auðvitað alltaf stjórnvalda og viðkomandi mennta- og menningarmálaráðherra hverju sinni. En ráðherrar hafa komið og farið á þeim árum sem þetta húsnæði hefur ekki verið í lagi þannig að auðvitað bera skólastjórnendur líka sína ábyrgð.“

Þegar LHÍ var stofnaður var gert sérstakt samkomulag milli ríkisins og félagsins að baki skólans um húsnæðismál hans, tel ég víst að það sé enn í gildi. Leit að hentugum framtíðarstað hófst og settu menn ýmis skilyrði fyrir staðnum, frægast var líklega að hann stæði ekki of langt frá kaffihúsum. Fyrir hrun var staður fyrir skólann ákveðinn við sjálfan Laugaveginn og fyrstu skref stigin vegna framkvæmda. 

Allt frumkvæði í þessu máli er hjá skólanum sjálfum að breyta því alfarið í vandamál ráðherra er flótti frá viðfangsefninu.

Senda grein

 

Sunnudagur 26. 02. 17

Í dag sótti ég tvenna afmælistónleika í Norðurljósasal Hörpu.

Píanóleikarinn Richard Simm efndi til einleikstónleika í tilefni af 70 ára afmæli sínu frá kl. 14.00 til 16.00. Þetta var glæsileg afmælishátíð. Í kynningu á afmælisbarninu sagði meðal annars í dagskrá tónleikanna:

„Richard hefur haldið tónleika í Wigmore Hall og Purcell Room í London, auk þess að hafa komið fram á fjölda tónleika í Þýzkalandi, í Bandaríkjunum og á Íslandi, þar sem einleik hans hefur verið lýst sem einu af þeim best geymdu leyndarmálum landsins.“

Richard Simm hefur verið búsettur hér síðan 1989. Í samtali við Morgunblaðið í tilefni af tónleikunum núna sagði hann:

„Í tilefni sjötugsafmælis míns langaði mig að halda einleikstónleika og leika nokkur uppáhaldsverka minna. Sum þeirra hef ég leikið næstum alla ævi meðan einstaka verk er ég nýbyrjaður að fást við. Þetta eru allt mjög skemmtileg tónverk og saman mynda þau fjölbreytta efnisskrá. Ég hlakka til að spila í Norðurljósum, enda er hljómburðurinn í öllum sölum Hörpu afskaplega góður.“

Richard Simm var mjög vel fagnað í lok tónleika sinna. Hann sannaði að þeim sem eru 70 ára vex ekki í augum að vinna stórvirki.

Hitt afmælið sen var haldið hátíðlegt Norðurljósasal Hörpu í dag var 60 ára afmæli Kammermúsikklúbsisins. Í tilefni af afmælinu efndi Kammermúsikklúbburinn til tvennra tónleika þar sem víóluleikarinn Ásdís Valdimarsdóttir og þýski Auryn-kvartettinn fluttu alla strengjakvintetta Mozarts. Þetta eru sex verk og voru þrjú þeirra flutt í dag við mikla hrifningu áheyrenda.

Sofnendur Kammermúsíkklúbbsins voru Haukur Gröndal, Ingólfur Ásmundsson, Magnús Magnússon, Ragnar Jónsson og Guðmundur W. Vilhjálmsson, auk tónlistarmannanna Árna Kristjánssonar og Björns Ólafssonar sem jafnframt voru tónlistarráðunautar. Guðmundur W. Vilhjálmsson hefur verið í forystusveit klúbbsins til þessa dags og var hann hylltur með lófataki á tónleikunum í dag.

Frá upphafi Kammermúsíkklúbburinn hefur unnið markvisst að kynningu strengjakvartetta merkustu tónskálda sögunnar. Þetta var gert á glæsilegan hátt að tvennum tónleikum í dag og í gær með flutningi á verkum Mozarts.

Seint verður metið til fulls hvert er gildi Kammermúsikklúbsins fyrir íslenskt menningar- og tónlistarlíf. Aðstandendur hans geta litið með stolti yfir 60 ára sögu hans.

Fyrir okkur sem sóttum þessa tónleika í Norðurljósum í dag var gott að hafa hlotið þjálfun við að sitja lengi á tónleikum með því að horfa á Wagner-óperur.

 

Senda grein

 

Laugardagur 25. 02. 17

Ofsagt er að það sé eitthvert sérstakt baráttumál Sjálfstæðismanna að áfengi sé selt í matvöruverslunum. Þessu er greinilega stundum kastað fram til að sverta Sjálfstæðismenn og flokk þeirra. Allir sem fylgjast með þjóðmálum vita að meirihluti fólks lætur sér fátt um þetta mál finnast eða er andvígur breytingum í þessa veru, sér enga nauðsyn á þeim. Einmitt þess vegna er einnig auðvelt að gera alþingi og störf þess tortryggileg í hvert sinn sem frumvarp um breytta söluhætti áfengis kemur á dagskrá 

Þetta gerist einmitt nú og í dag, laugardag 25. febrúar, birtist viðtal við Helga Vilhjálmsson, Helga í Góu, um hjartans mál hans, að lífeyrissjóðir fjárfesti í húsnæði sem hentar öldruðum. Í viðtalinu stendur:

„Við ellilífeyrisþegar eigum eitt sterkt vopn, þótt við notuðum það ekki í síðustu kosningum. Þetta vopn er kosningarétturinn. Við getum merkt við þann sem ætlar að gera eitthvað,“ segir Helgi. Hann gagnrýnir ákafa ungra Sjálfstæðismanna að koma áfengi í matvöruverslanir á meðan þeir séu ekki ákafir í að gömlu fólki líði vel í ellinni.“

Helgi hefur helgað sig þessu baráttumáli sínu árum saman án þess að hafa árangur sem erfiði. Hann er því í svipuðum sporum og þeir sem lengst hafa barist fyrir að áfengi verði selt utan vínbúða ríkisins.

Áfengisfrumvarpið verður að viðmiði sama hvaða mál menn ræða og Helgi í Góu hnýtir unga Sjálfstæðismenn eina við það þótt þingmenn úr Viðreisn, Pírötum og Bjartri framtíð séu meðal flutningsmanna. Enn má spyrja: Hvers vegna eru aðeins Sjálfstæðismenn nefndir til sögunnar? Af því að aðrir eru ekki marktækir?

Þessi fjöldi flutningsmanna á þingi sýnir að hér er ekki um flokksmál að ræða enda greiða þingmenn atkvæði um það án tillits til flokksbanda. Miklu nær er að þetta mál marki skil milli kynslóða. Með því að nota það sem tæki tryggja ungir þingmenn að fjölmiðlamenn og aðrir taka eftir þeim á þingi og hefji rökræður við þá. Þær verða hins vegar stundum skrýtnar því að hluti af málinu er að blásið er á rökstudd varnaðarorð eða niðurstöður vísindarannsókna, þarna er eitthvað á ferðinni sem er hafið yfir allt slíkt tal.

Það ætti að vera sérstakt stjórnmálafræðilegt rannsóknarefni að greina umræðurnar um lokun vínbúða ríkisins. Greiningin mundi örugglega gefa aðra mynd af málinu en þá einföldun sem oftast er kynnt í umræðum.

 

Senda grein

 

Föstudagur 24. 02. 17

Á sínum tíma þótti ekki endilega eðlilegt að sjónvarpað yrði beint frá öllum fundum alþingis. Var meiri áhugi á því meðal þingmanna að tryggja að hlusta mætti á þá beint í útvarpi. Kannað var hvað það kostaði og óx mönnum kostnaðurinn í augum.

Nú er sérstök alþingisrás í sjónvarpi og á tölvum má hvenær sem er hlusta eða horfa á ræður auk þess sem texti þeirra er aðgengilegur á netinu innan skamms tíma frá því að þær eru fluttar.

Virðing alþingis hefur ekki aukist við þessa auknu miðlun og ætla má að sóknin eftir að fá orðið í „frjálsum tíma“ þingmanna sem ber fyrirsagnir eins og Störf þingsins eða Fundarstjórn forseta stafi að verulegu leyti af áhuga og þörf þingmanna fyrir að birtast í beinni útsendingu í sjónvarpi. Þeir hafa að minnsta kosti ekki alltaf mikið til lands- eða þjóðmála að leggja, miklu frekar er um innbyrðis karp að ræða eins og á dögunum þegar fjöldi þingmanna tók til máls til þess eins að kvarta undan því að aðrir þingmenn hefðu ekki talað í umræðu daginn áður!

Margt bendir til þess að beinu útsendingarnar úr sjónvarpssal hafi ekki aðeins áhrif á hve margir vilja komast að í „frjálsu tímunum“ heldur einnig á hvernig menn haga máli sínu, meira að segja á forsetastóli alþingis.

Fimmtudaginn 23. febrúar tóku tveir þingmenn til máls undir liðnum Fundarstjórn forseta og báðu um að umræðum um næsta þingmál yrði hagað þannig að tekið yrði mið af fundartíma velferðarnefndar þingsins. Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, sat á forsetastóli. Um viðbrögð hans stendur þetta í þingtíðindum á vefsíðu alþingis:

„Til skýringar, svo alþjóð skilji, hafa þingmenn rætt undir liðnum um fundarstjórn forseta málefnalega gagnrýni á að það sé fundur í nefnd og slíkt og þar af leiðandi skuli ekki halda þingfund.“

Hafi þingsköpum verið breytt á þann veg að þingforseti eða þingmenn tali til alþjóðar er um nýmæli að ræða. Hafi þeim ekki verið breytt gerist forseti þingsins þarna sekur um brot á þingskapalögum með því að beina orðum sínum til alþjóðar.

 

 

Senda grein

 

Fimmtudagur 23. 02. 17

Í gær ræddi ég á ÍNN við Bryndísi Hagan Torfadóttur sem starfað hefur fyrir SAS frá 1. apríl 1970 og þekkir því vel þróun flugmála af eigin raun. Hér má sjá viðtalið.

Breytingarnar í flugumsvifum hér á landi eru svo miklar að í raun er ógjörningur að átta sig á þeim öllum. Árið 2016 fóru 6.821.358 farþegar um Keflavíkurflugvöll sem er 40,4% aukning frá árinu 2015. Í ár spáir Ísavía að farþegarnir verði 8,75 milljónir.

Eðlilegt er að þessi stórauknu umsvif samhliða sprengingu í komu ferðamanna til landsins valdi uppnámi og menn viti ekki til fullnustu hvernig við eigi að bregðast. Minnst er vitneskjan um það líklega innan stjórnkerfisins. Hún er mest hjá þeim sem við greinina starfa. Þeir þurfa að taka sig saman og leggja fram skynsamlega stefnu á borð við það sem gerðist snemma á níunda áratugnum þegar útgerðamenn, undir forystu Kristjáns Ragnarssonar, unnu að því að knýja fram kvótakerfið við fiskveiðar.

Róbert Guðfinnsson, útgerðarmaður, hótelrekandi og athafnamaður á Siglufirði, hefur miðlað af útgerðarreynslu sinni við kynningu á æskilegri framtíðarþróun ferðamála. Hljóta sjónarmið hans hljómgrunn, eða er hann á undan samtíð sinni?

Pia Kjærsgaard, forseti danska þingsins og fyrrverandi leiðtogi Danska þjóðarflokksins (DF), er sjötug í dag. Hún stofnaði flokkinn árið 1995 en hafði áður verið í Framfaraflokki Mogens Glistrups. Árið 1999 sagði Poul Nyrup Rasmussen, forsætisráðherra Dana, að Kjærsgaard og flokkur hennar yrði aldrei stueren. Orðið er notað um hunda sem haldið utan við stássstofuna eða jafnvel heimilið. Raunin hefur orðið önnur.

Kjærsgaard og flokkur hennar hafa aldrei átt ráðherra en haft líf margra ríkisstjórna í hendi sér enda hefur hún notið meiri vinsælda danskra kjósenda en flestir samtímamenn hennar í dönskum stjórnmálum. Það er talið til marks um virðinguna sem hún nýtur að enginn gerir athugasemd við að hún býður til afmælisveislu í Kristjánsborgarhöllinni þar sem þingið er.

Poul Nyrup Rasmussen lét skammaryrðið falla vegna stefnu Piu Kjærsgaard í útlendingamálum en einmitt hún hefur verið lykillinn að sterkri stöðu DF í dönskum stjórnmálum. Vilja nú margir innan og utan Danmerkur þá Lilju kveðið hafa. Hún er sögð hrein og bein, hörð af sér í samningum en orð hennar standi eins og stafur á bók. Sem þingforseti leggi hún áherslu á að þingmenn séu trúverðugir í augum almennings og þingmenn sýni hver öðrum virðingu.

 

 

Senda grein

 

Miðvikudagur 22. 02. 17

Í dag ræddi ég við Bryndísi Hagan Torfadóttur, framkvæmdastjóra fyrir SAS á Íslandi, í þætti mínum á ÍNN. Frumsýning kl. 20.00 í kvöld.

Hér var á dögunum minnst á niðurlægjandi skrif Smára McCarthys, þingmanns Pírata úr suðurkjödæmi, um alþingi. Eitt af því sem hann kvartaði undan var að hann gæti ekki sem þingmaður séð til þess að fé fengist til að gera við þakið á Garðyrkjuskólanum í Hveragerði. Eftir að birtur var kafli  úr skrifum mínum á Eyjunni upplýsti Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður VG úr suðurkjördæmi, þar að í fjárlagavinnu fyrir árið 2017 hefðu þingmenn Suðurkjördæmis raðað niður nokkrum brýnum úrlausnarefnum og beðið þrjá þingmenn í fjárlaganefnd að vinna þeim brautargengi, þar með framlagi til Garðyrkjuskólans og hefðu 70 milljón krónur fengist til brýnustu viðgerða á skólanum.

Segir svo í nefndaráliti 1. minnihluta fjárlaganefndar frá því í desember: „ Í fjórða lagi eru 70 millj. kr. til viðhalds og endurbóta á því húsnæði Landbúnaðarháskólans sem er á Reykjum í Ölfusi. Nefndin væntir þess að í kjölfar endurbótanna verði húsnæðið afhent Ríkiseignum sem innheimti leigu á móti reglulegu viðhaldi með sama hætti og almennt á við um annað húsnæði í eigu ríkisins."

Smári McCarthy er eins og áður sagði þingmaður suðurkjördæmis, megi marka orð Ara Trausta kom hann sem slíkur að því að raða „nokkrum brýnum úrlausnarefnum“ við gerð fjárlaga 2017, þar með viðgerð á Garðyrkjuskólanum sem varð að lögum. Skrif Smára til að rakka niður alþingi verða enn óskiljanlegri þegar þetta er upplýst. Veit hann ekkert hvað gerist á alþingi?

Björn Leví Gunnarsson sat fyrir Pírata í fjárlaganefnd í desember 2016. Lét hann undir höfuð leggjast að upplýsa þing- og flokksbróður sinn um örlög þessa sérstaka áhugamáls hans? Því verður varla trúað eftir að lesin er skammarræðan sem Björn Leví flutti yfir Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra þriðjudaginn 21. febrúar fyrir að hafa ekki sem fjármálaráðherra lagt skýrslu aflandsmál fyrir alþingi fyrir þingkosningar. Þar sagði Björn Leví meðal annars: „Þingmenn verða að krefjast agaðri vinnubragða Alþingis vegna og þjóðarinnar vegna.“

Krafan um öguð vinnubrögð á kannski ekki Björn Leví sjálfan. Í umræðum um aflandsskýrsluna barði Steingrímur J. Sigfússon fast í bjöllunni og hrópaði til Björns Levís: „mætti ég biðja hv. málshefjanda [Björn Leví] að … hætta að gjamma svona fram í alltaf“.

Ekki tók betra við þegar Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Pírati, tók til máls um aflandsskýrsluna. Dylgjur og uppspuni einkenndi hennar mál.

 

 

 

 

Senda grein

 

Þriðjudagur 21. 02. 17

Á Facebook ræðir hópur sem kallar sig Fjölmiðlanörda ýmis mál sem snerta alla þætti fjölmiðlunar eins og nafnið gefur til kynna. Fjalar Sigurðsson hefur ritstjóravald á síðunni og birti þar í gær þessa klausu:

„Umræða um erfiða umræðu í fjölmiðlum um forræðis- og umgengnismál er eiginlega dæmd til að fara út af sporinu. Ég tók þá ákvörðun að eyða út færslu sem hingað rataði um slíkt mál. Leyfi mér í máli af þessu tagi að vera ögn kaþólskari en venjulega. Þó ekki meira en páfinn. Það skal tekið fram að innleggið var svo sem ekki óeðlileg umfjöllun um afstöðu fjölmiðils í viðkvæmu viðtali - en umræðan í kjölfarið fór strax í verulega aðrar áttir.“

Hér vísar Fjalar vafalaust til „fréttar“ sem lesa mátti á visir.is, síðu 365 fjölmiðlafyrirtækisins, en hún hafði áður birst á Stöð 2 þar sem Ólafur William Hand, fjölmiðlafulltrúi Eimskips, rekur raunir sínar í forræðismáli og hallmælti gildandi lögum og framkvæmd þeirra hjá sýslumanni. Sambærileg frásögn birtist nýlega á vefsíðunni Nútíminn en eftir birtinguna birti ritstjórn hans yfirlýsingu þar sem sagði meðal annars:

„Nútíminn harmar að hafa birt fréttina án þess að kynna sér allar hliðar málsins og biður alla hlutaðeigandi afsökunar. Samkvæmt samkomulagi staðfestu af sýslumanni hefur faðirinn notið ríkrar umgengni. Engin gögn sýna fram á umgengnistálmanir.

Af gefnu tilefni er umgengni barnsins við föður sinn nú til meðferðar hjá þar til bærum yfirvöldum og eftir því sem Nútíminn kemst næst bendir ekkert til annars en að meðferð yfirvalda byggist skýrlega á forsendum barnsins. Gögn sýna að sem lið í meðferð yfirvalda hitti Ólafur á barn sitt í síðustu viku.“

Fátt er viðkvæmara en deilur af þessu tagi. Þær snúast um djúpar tilfinningar. Ákvörðun Fjalars Sigurðssonar sem birt er hér að ofan sýnir hve erfitt er að halda utan um umræður um slík mál á fjölmiðlavettvangi.

Þetta ættu þeir sem starfa við að miðla efni til fjölmiðla og svara gagnrýni vegna þess sem þar birtist best að vita. Sé vegið að opinberum sýslunarmönnum á að sjálfsögðu að gefa þeim færi á að skýra mál sitt svo að ekki sé talað um gagnaðila í forræðisdeilu. Þetta á að gera í einni og sömu frétt og gagnrýnin er birt. Annað er í raun til marks um óvönduð eða vísvitandi hlutdræg vinnubrögð.

Senda grein

 

Mánudagur 20. 02. 17

Jónas Haraldsson lögfræðingur ritar grein í Morgunblaðið í dag, 20. febrúar, vegna fjölmiðlaumræðu um hættur af froskköfun í gjánni Silfru í þjóðgarðinum á Þingvöllum. Vinsældir Silfru réðust af myndbandi sem fór á flug í netheimum, þar var undraheimurinn í köldu, tæru vatninu sýndur. Nú er köfun þarna stór, arðbær þáttur í ferðaþjónustu.

Jónas segir: „Hafa málin þá þróast þannig, að upphaflega forsendan fyrir leyfi til djúpköfunar er ekki lengur fyrir hendi nema að litlu leyti og hefur Silfra, sem nær alla leið niður að Þingvallavatni, nú breyst í stærstu útisundlaug sem finnst hér á Íslandi. Maður spyr sig: Hvað með hávaða- og sjónmengun eða sérstaklega vatnsmengunina, sem hlýtur að stafa af þessum 45 þúsund manns eða fleiri sem fara þarna í gjána á ári?“

Jónas segir einnig: „Á Þingvöllum á ekki að leyfa yfirhöfuð neina atvinnustarfsemi með tilheyrandi athafnarými, átroðningi og umhverfisspjöllum, eins og með Silfru. Breytir engu þótt erlendir ferðamenn hafi af því ánægju og ferðaþjónustan græði vel á atvinnustarfseminni. Menn verða að fara að átta sig á þeirri staðreynd, að Þingvellir eru ekki skemmtigarður heldur þjóðgarður og flestum Íslendingum helgur staður, þótt sumir vilji gera út á staðinn.“

Þessu er ég sammála. Á sínum tíma voru Þingvallanefndarmenn á báðum áttum um hvort almennt ætti að leyfa takmarkaða köfun í Silfru og rætt var um á hvers ábyrgð hún ætti að vera. Nú er þetta komið úr öllum böndum. Í þessum orðum felst ekki gagnrýni á þá sem standa að þessari þjónustu heldur virðing fyrir því hvernig á að haga starfsemi á Þingvöllum. 

Jónas Haraldsson segir: „Ýmsir möguleikar væru þá þarna fyrir ferðaiðnaðinn til að fénýta sér þjóðgarðinn á Þingvöllum með því að búa til ný viðskiptatækifæri og söluvænar ferðir á þennan stað. Hefðu vafalaust margir ferðamenn áhuga á að fá að geysast um á fjórhjólum eftir göngustígunum, á snjósleðum á veturna, æfa fjallaklifur í Almannagjá eða svifdrekaflug og hvað annað í þjóðgarðinum, sem gæti glatt ferðamanninn og gert för hans eftirminnilegri og skapað ferðaiðnaðinum tekjur.“

Nú er um hálf öld frá því að ákveðið var að banna bílaumferð um Almannagjá. Nokkrum leiðsögumönnum þótti það aðför að ferðaþjónustunni. Sama þætti vafalaust einhverjum tæki Þingvallanefnd ákvörðun um að takmarka aðgang að Silfru. Lög heimila nefndinni slíka ákvörðun.

 

Senda grein

 

Sunnudagur 19. 02. 17

Þór Saari sat á þingi með Birgittu Jónsdóttur og Margréti Tryggvadóttur og stóð varla upp í þingsalnum án þess að hallmæla alþingi og starfsháttum þar. Síðar skrifaði hann marklitla bók um reynslu sína. Var þetta í raun allt mesta sorgarsaga.

Nú hefur annar samflokksmaður Birgittu Jónsdóttur, Smári McCarthy, sem kjörinn var á þing fyrir Pírata 29. október 2016, tekið til við að hallmæla nýjum vinnustað sínum, alþingi, á svipaðan hátt og Þór Saari gerði. Smári sagði meðal annars í grein í blaðinu Suðra fimmtudaginn 16. febrúar að á þeim vikum sem hann hefði á þingi hefði hann lært:

„Alþingi er svo til getulaust. [...] Ég lenti í því á dögunum að þurfa að greiða atkvæði um mál sem ég hafði heyrt um en ekki náð að lesa, og var það ekki fyrr en eftir atkvæðagreiðsluna sem ég fékk að vita að stóra atriðið sem stóð útaf í því hafði ekki verið lagfært. [...]

Fáir fatta að Alþingi ræður afar litlu. [...] Almenna reglan undanfarna áratugi hefur verið að taka öll völd af Alþingi, um leið og þau uppgötvast. Fyrir vikið er t.d. gagnslaust, eftir gildistöku nýrra laga um opinber fjármál, að tala við þingmenn um nauðsyn þess að fá nokkrar milljónir til að gera við götin í þakinu hjá Garðyrkjuskólanum. Fjárlaganefnd ræður ekki nákvæmum úthlutunum lengur, bara stórum sjóðum fyrir málefni. Ráðherrarnir ráða hvernig peningum er ráðstafað innan málaflokks.“

Þessi grein segir minna um alþingi og starfshætti þar en ranghugmyndir Smára um eðli þingstarfa þótt hann hafi boðið sig fram til þeirra. Sé litið til nágrannaþinga er áhrifamáttur alþingismanna síst minni en starfssystkina þar. Þingmenn „lenda ekki í“ að greiða atkvæði um mál sem þeir hafa ekki kynnt sér, geri þeir það hafa þeir einfaldlega ekki gefið sér tíma til vinna vinnuna sína.

Erfitt er að átta sig á hve langt þarf að leita til að dugað hefði að ræða við þingmenn um að fá nokkrar milljónir úr ríkissjóði, væntanlega strax ef marka má orð hans, til að gera við þakskemmdir á Garðyrkjuskólanum í Hveragerði, kjördæmi Smára. Hann hefur þarna hins vegar eignast baráttumál við afgreiðslu fjáraukalaga eða fjárlaga fyrir árið 2018.

 

Senda grein

 

Laugardagur 18. 02. 17

Miðvikudaginn 15. febrúar ræddi ég við Gísla Ferdinandsson skósmið í þætti mínum á ÍNN. Gísli verður 90 ára í október og ber aldur sinn einstaklega vel. Hann rakti fyrir mér veikindasögu sína frá því að hann datt í hálku við Laugardalslaugina í janúar 2006. Sjálfur kallar hann þetta kraftaverkasögu – en sjón er sögu ríkari.

Í hádeginu fimmtudaginn 16. febrúar ávarpaði ég fund heiðursmanna SÁÁ í húsi samtakanna, Von, við Efstaleiti. Fundarsalinn þekki ég vel því að í 10 ár hef ég komið þangað þrisvar í viku yfir vetrarmánuðina um klukkan 08.00 að morgni til að stunda qi gong, kínversku líkamorkuæfingarnar. Ræddi ég þær og hugleiðslu á fundinum og svaraði síðan fyrirspurnum um það sem fundarmenn vildu heyra.

Var ég meðal annars spurður um forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu og frumvarpið um afnám á ríkiseinokun á smásölu áfengis. Um það mál sagði ég að það stæði ekki framförum í samfélaginu fyrir þrifum að áfengi væri selt í sérstökum verslunum ríkisins, tillaga ym breytingar á því væri hins vegar vís leið fyrir þingmenn til að komast í fjölmiðla.

Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ, flutti ávarp á fundinum og kynnti meðal annars framkvæmdir við byggingu nýs hús yfir eftirmeðferðarmiðstöð SÁÁ í Vík á Kjalarnesi. Ætlunin er að starfsemi þar hefjist í haust. Er þetta mesta einstaka fjárfestingin í heilbrigðiskerfinu um þessar mundir. SÁÁ fagnar 40 ára afmæli 1. október 2017. Stór liður í þeirri hátið er að þetta mikla, nýja hús verður tekið í notkun.

Ýmsir kippa sér upp við að ætlunin sé að nýta fáein sjúkrarúm í tengslum við Klínikina í Ármúla og láta eins og þar sé um að ræða hættulegt stílbrot á ríkiseinokun á sjúkrahúsrekstri. Í uppnáminu vegna þessa er litið framhjá sjúkrahúsrekstri SÁÁ að Vogi og eftirmeðferðinni sem hefur verið í Vík og Staðarfelli í Dölum.

Frá og með næsta hausti verður öll eftirmeðferð í Vík. Framkvæmdir þar kosta alls um 1.200 milljónir króna. Sjúkrareksturinn SÁÁ var rekinn með 265 milljón króna halla árið 2016. Það er vegna þess að ríkið kaupir 1.530 innlagnir á Vog en þær voru alls 2.200. SÁÁ verður að brúa bilið með fjáröflun. Í Vík verða pláss fyrir 60 sjúklinga á hverjum tíma.

Í von við Efstaleiti er göngudeild og skrifstofur SÁÁ. Frá árinu 1996 hefur SÁÁ látið um þrjú þúsund milljónir, á verðlagi þessa árs, renna í sjúkrareksturnn sjálfan. Bilið hefur verið brúað með álfasölu, félagsgjöldum og öðrum fjáröflunarverkefnum á vegum samtakanna.

 

 

 


Senda grein

 

Dagbókin