Dagbókin

Fimmtudagur 23. 03. 17

Jón Þórisson, blaðamaður á Morgunblaðinu, gefur til kynna í grein í blaðinu í morgun að almannatenglar hafi afvegaleitt fjölmiðlamenn í aðdraganda sölu á hlutabréfunum í Arion banka sem kynnt var sunnudaginn 19. mars. Það hafi verið látið í veðri vaka að „sala til íslenskra lífeyrissjóða væri á lokametrunum. Búið væri að semja um helstu þætti, svo sem að miðað yrði við 80 aura á hverja krónu eigin fjár”.

Morgunblaðið hafi á hinn bóginn flutt aðrar fréttir: „Æ ofan í æ höfðu verið gerðar atlögur að því að draga lífeyrissjóði að samningaborðinu við takmarkaðan áhuga þeirra. Eins og Morgunblaðið hefur skýrt frá strönduðu þessar þreifingar jafnan.“

Veltir Jón fyrir sér hvort eigendur Kaupþings hafi „ákveðið að hrinda í framkvæmd atburðarás sem fallin sé til að auka líkur á og hraða því að bankinn seljist”. Í lok greinarinnar segir

„Eftir stendur spurningin, hvers vegna tóku fjölmiðlar þátt í að afflytja fréttir af sölu bankans til lífeyrissjóða á undanförnum mánuðum og vikum, þegar örfá símtöl hefðu getað leitt í ljós að fyrir þeim var ekki fótur?“

Telja má á hendi annarrar handar íslenska blaðamenn sem hafa burði til að segja viðskiptafréttir á þann veg að aðrir skilji. Þekking á því sviði er til dæmis engin innan ríkisútvarpsins þar sem aldrei eru fluttar viðskiptafréttir en stundum raktir einhverjir þræðir, einkum ýti þeir undir tortryggni í garð fé- og kaupsýslumanna. Jarðvegur fyrir slíkar fréttir er meiri og betri en nokkru sinni eftir hrun.

Þekkingarskortur á viðskiptaheiminum leiðir til þess að almannatenglar hafa meiri áhrif á fjölmiðlamenn en væri ef þeir hefðu sjálfstæða burði til að leggja mat á rás atburða eða lesa reikninga og skýrslur endurskoðenda.

Illa ígrundaðar frásagnir eða hreinar getsakir magnast í meðförum þingmanna sem vilja ganga í augun á fjölmiðlamönnunum með því að endurtaka hæpnar fullyrðingar í ræðustól alþingis. Þetta er vítahringur sem kallar á gagnrýni á þá sem reyna að rjúfa hann.

Regluverk íslenska fjármálakerfisins hefur verið endurnýjað með það fyrir augum að tryggja árangur af virku eftirliti. Nýlegir samningar eru í gildi um meðferð á eignarhlut í bönkum, til dæmis Arion banka. Að láta eins og þeir svindli á þjóðinni eða taki stöðu gegn þjóðarbúinu sem nýta sér reglurnar eða ákvæði samninga er til marks um afvegaleiðingu. 

Senda grein

 

Miðvikudagur 22. 03. 17

Í dag ræddi ég við Ásdísi Kristjánsdóttur, forstöðumann efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, í þætti mínum á ÍNN. Við förum yfir stöðu þjóðarbúsins sem er sterkari núna en nokkru sinni fyrr. Þá ræðum við stöðuna eftir afnám haftanna og verkefni líðandi stundar en Ásdís var skipuð í nefnd við afnám haftanna sem á að ræða peningastefnuna. 

Við ræðum stóru myndina en ekki tortryggnina sem brýst fram núna þegar eigendur Kaupþings nýta sér gildandi leikreglur til að hagnast sem mest um leið og þeir fjárfesta í Arion banka. Það ríkir andi sem endurspeglar ótta um að einhverjir séu að plata okkur. 

Fyrir nokkrum vikum ræddi ég á ÍNN við Svein Einarsson leikstjóra um nýtt bindi af leiklistarsögu hans. Þar sagði hann (sjá hér) að áhugi á leikritun og leikhúsi væri meiri hér en annars staðar. 

Á dögunum var frumsýnt leikrit um söngkonuna vinsælu, Ellý Vilhjálmsson, sem hefur hlotið svo góðar viðtökur að sýningin hlýtur að draga að sér þúsundir áhorfenda. Stefán Eiríksson, fyrrv. lögreglustjóri en núv. borgarritari, sagði meðal annars á Facebook:

„Stórkostleg sýning þar sem allt gekk fullkomlega upp. Einstakri sögu gerð frábær skil, svo áhrifamikið að reglubundið grét fólk í salnum, ég þar á meðal.“

Um svipað leyti og leikritið Ellý var frumsýnt var leikritið Endastöð – upphaf eftir leikarana Rúnar Guðbrandsson og Árna Pétur Guðjónsson frumsýnt í Tjarnarbíói. Silja Björk Huldudóttir skrifar um leikritið í Morgunblaðið í dag, 22. mars, og segir meðal annars:

„Í ljósi þess hve áhrifaríkar, vel leiknar og sjónrænt spennandi sýningar Lab Loka hafa iðulega verið var það með allnokkurri eftirvæntingu sem rýnir lagði leið sína í Tjarnarbíó sl. fimmtudag á svonefnt stefnumót við leikhópinn í tilefni af 25 ára starfsafmæli Lab Loka. [...]

Fyrr í sýningunni höfðu félagarnir, í hljóðupptöku, rifjað upp þegar þeir á táningsaldri snemma á áttunda áratug síðustu aldar sáu Í húsi föður míns hjá Odin-leikhúsinu í Danmörku og ræddu í framhaldinu vináttu sína og samstarf sem á tímum var markað óhóflegri drykkju. Í sama kafla lýstu þeir aðdáun sinni á því sjónarmiði að áhorfendur mættu eiga sig. Sú afstaða sveif óneitanlega yfir vötnum í Tjarnarbíói sl. fimmtudag, enda virtist gjörningurinn fyrst og síðast ætlaður til heilunar og úrvinnslu fyrir þátttakendur á sviðinu.“

Senda grein

 

Þriðjudagur 21. 03. 17

 

„Á stofnfundi Frjálsrar fjölmiðlunar og aðdraganda hans skráðu um 800 manns sig sem stofnfélaga og fyrir um 10,5 milljón króna framlagi á þessu ári til styrktar frjálsri og óháðri fjölmiðlun,“ sagði á vefsíðu Fréttatímans fimmtudaginn 16. mars og var með „stofnfundinum“ vísað til samkomu sem átti að halda í Háskólabíói laugardaginn 12. mars. Engin mynd er birt af samkomunni heldur af hljómsveit á palli. „Þetta er framar vonum enda eru aðeins fáeinar vikur síðan við kynntum þetta verkefni,“ ssgði Gunnar Smári Egilsson, útgefandi Fréttatímans.

Fyrirfram var dagskráin í bíóinu kynnt á þennan hátt:

„Við stofnun Frjálsrar fjölmiðlunar verður efnt til fagnaðar þar sem fjölmargir listamenn halda uppi stemningu.

Meðal þeirra sem fram koma eru:

Baggalútur

Gunnar Þórðar og Magga Stína

Hundrað kvenna kór undir stjórn Möggu Pálma

Ellen Kristjánsdóttir

Tripolia

Gísli Pálmi

Arnljótur Sigurðsson úr Ojba Rasta

Þorsteinn Einarsson úr Hjálmum

Einar Már Guðmundsson og Linda Vilhjálmsdóttir

Ragnheiður Gröndal

Egill Ólafsson

Svavar Knútur og Pétur Ben

Eyþór Gunnarsson

Guðmundur Pétursson

Andri Ólafsson

og Einar Scheving

 

Húsið opnar klukkan 15:00 og verður boðið upp á léttar veitingar í anddyrinu.

Tónleikarnir hefjast klukkan 16:00.“

 

Í sjónvarpsfréttum frá samkomunni var aðeins sýnt úr anddyri Háskólabíós þar sem fáeinir einstaklingar sneru baki í myndatökumanninn og Gunnar Smári sat einn við skrifborð við inngöngudyr í bíóið.  

 Á næstu vikum ætlar stjórn og fulltrúaráð Frjálsrar fjölmiðlunar móta starfsemina frekar og efla umræðu um mikilvægi frjálsrar fjölmiðlunar í samfélaginu.

Fábrotnar fréttir Fréttatímans og annarra miðla eftir þennan viðburð í fjölmiðlasögunni vekja fleiri spurningar en svör. Fréttatíminn kemur að líkindum að nýju út í þessari viku. Æskilegt væri að þar birtust fleiri myndir og meiri upplýsingar um þessa nýju fjöldahreyfingu að baki blaðinu og frjálsri fjölmiðlun.

Senda grein

 

Mánudaginn 20. 03. 17

Meginfréttin í dag er að Kaupþing seldi að kvöldi sunnudags 19. mars tæplega 30% hlut í Arion banka á 48,8 milljarða króna. Kaupendur eru fjárfestingarsjóðirnir Attestor Capital með 9,99% hlut, Taconic Capital Advisors UK með 9,99% hlut, félag tengt bandaríska fjárfestingarsjóðnum Och-Ziff Capital Management Group með 6,6% hlut og bandaríski fjárfestingarbankinn Goldman Sachs með 2,6% hlut. Að sjóðunum standa lífeyrissjóðir, háskólasjóðir og einkafjárfestar.Eftir kaupin á Kaupþing 57,9% í Arion banka, ríkissjóður 13%, og nýju fjárfestarnir samtals 29,2%. Fjárfestarnir hafa einnig kauprétt að 21,9% hlut til viðbótar.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir réttilega að kaupin séu „styrkleikamerki“ fyrir íslenskt fjármálakerfi. Aðeins tók eina viku frá því að tilkynnt var um afnám haftanna þar til þessi viðskipti eru tilkynnt. Á níu vikum frá því að ríkisstjórnin var mynduð hafa verið stigin stærri skref við að umbreyta íslensku efnahags- og fjármálakerfi en undanfarin átta ár þegar Samfylkingin, vinstri-grænir (VG) og Framsóknarflokkurinn sátu við stjórnvölinn.

Staða Samfylkingarinnar er þannig núna að enginn sér í raun ástæðu að leita álits talsmanna hennar vegna ofangreindra viðskipta. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrv. forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, hefur allt á hornum sér vegna kaupendanna. Þeir nýta sér reglur sem mótaðar voru í stjórnartíð Framsóknarmanna og lúta eftirliti lögum samkvæmt. Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, amast hins vegar við því að erlendu kaupendurnir nýti sér gildandi reglur og kaupi 9,9% til að sæta ekki eftirliti sem nær til þeirra sem eiga 10% og meira.

Sérkennilegt er að forystumenn í stjórnmálum ali á tortryggni í garð fyrirtækja á þann veg sem Sigmundur Davíð og Katrín gera þegar fyrirtækin fara einfaldlega að íslenskum lögum og sæta lögbundnu innlendu eftirliti. Viðbrögðin skýra ef til vill hvers vegna höftin voru ekki afnumin fyrr. Samfylkingin beið eftir ESB-aðild. VG vildi geta hlutast til um viðskipti sem nú eru frjáls. Framsóknarmenn töldu sig ekki geta treyst neinum, það reyndu örugglega allir að plata þá.

Katrín hefur einnig lagt áherslu á nauðsyn þess að vita hverjir séu raunverulegir kaupendur þessa 29,2% hlutar í Arion-banka. Merkilegt er að eftirmaður Steingríms J. Sigfússonar á formannsstóli VG skuli viðra þessa kröfu í ljósi leyndarhyggjunnar sem einkenndi allar ákvarðanir Steingríms J. sem fjármálaráðherra um einkavæðingu bankanna á árinu 2009. 

Senda grein

 

Sunnudagur 19. 03. 17

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sagði í samtali við The Daily Telegraph fimmtudaginn 16. mars að Skotar gætu ekki sótt um aðild að EFTA nema þeir ákveði fyrst að slíta tengslin við Englendinga – aðeins sjálfstæðar þjóðir geti sótt um aðild að EFTA.

Tilefni þessara orða ráðherrans er að Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands, nefndi aðild að EFTA og síðan EES sem kost fyrir Skota ef þeir fengju ekki aðild að ESB sem sjálfstæð þjóð. Ummæli Guðlaugs Þórs eru notuð af andstæðingum Sturgeon og sjálfstæðisstefnu hennar. Þannig segir Jon Rogers í breska blaðinu Express að Íslendingar hafi slegist hóp sívaxandi hóps Evrópuþjóða sem taki hugmynd Sturgeon um tengsl við ESB kuldalega.

Rogers segir að Guðlaugur Þór hafi sagt að það mundi „flækja málið“ fyrir Skota ef þeir reyndu að sækja um aðild að EFTA of snemma, til dæmis á tímanum sem liði á milli þess að niðurstaða í þjóðaratkvæðagreiðslu lægi fyrir um slit Sameinaða konungdæmisins en áður en til slitanna kæmi í raun. Þá hafi utanríkisráðherra sagt: „Framtíðarstefna Skotlands er málefni sem rætt er í Westminster [breska þinginu] og Edinborg og ég kýs að ræða ekki eitthvað sem kann að gerast.“

Þá segir blaðamaðurinn:

„Afstaða Íslands er enn eitt höggið fyrir Sturgeon sem virðist æ einangraðri með áform sín um að færa Skotland úr sambandinu [við Englendinga] og tengja það við stærra evrópskt samfélag.“

Ruth Davidson er leiðtogi skoskra íhaldsmanna og einn vinsælasti stjórnmálamaður Bretlands um þessar mundir að morgni sunnudags 19. mars var hún í Sky-sjónvarpsstöðinni í þætti Sophy Ridge. Þar vísaði Davidson til ummæla Guðlaugs Þórs og sagði þau sýna að stefna Sturgeon hjáleið inn í ESB væri ófær eins og annað sem fyrsti ráðherra Skotlands boðaði í sjálfstæðismálinu. Sturgeon væri nær að einbeita sér að því að bæta hag Skota í stað þess að villja eyðileggja Sameinaða konungdæmið. SS-Ridge4

 

 

Senda grein

 

Laugardagur 18. 03. 17

Reykjavíkurborg stendur svo illa fjárhagslega undir stjórn Dags B. Eggertssonar og félaga að hún er komin í húsnæðisbrask við sjálfa sig til að ná í húsaleigubætur eldri borgara. Frá þessu er sagt á þennan hátt í DV 17. mars í grein eftir Björn Þorfinnsson.

Í greininni kemur fram að Félagsbústaðir hf., sem eru í 100% eigu Reykjavíkurborgar, hafi keypt þjónustuíbúðirnar í Seljahlíð í Breiðholti af borginni. Fyrsta verkið var að segja upp leigusamningum hinna öldruðu íbúa frá og með 1.apríl. Þegar árs uppsagnafrestur er liðinn þá býðst íbúunum að skrifa undir nýja leigusamninga þar sem húsaleigan hækkar um 80-125%. Í kynningu fyrirtækisins var hækkunin sett í þann búning að íbúar gætu sótt um húsaleigubætur. Íbúar í Seljahlíð eru afar ósáttir við þessar breytingar og í samtali við DV bendir Ingibjörg S. Finnbogadóttir, sem situr í húsráði, að íbúðirnar uppfylli ekki skilyrði í lögum um húsaleigubætur þar sem að í þeim er engin séreldunaraðstaða. Að hennar sögn eru hækkanirnar til skammar.

Nokkrar umræður hafa orðið um þessar ráðagerðir á Facebook og segir Jóhanna Kristjónsdóttir, rithöfundur og blaðamaður, meðal annars:

„Hjúkrunar- og þjónustuheimilið að Seljahlíð hefur eignast nýjan eiganda- að nafninu til. Samtímis var tækifærið notað til að hækka leiguna á eldri borgarana, sömuleiðis á mat og kaffibollann. Mikið er ég hneyksluð. Samfylkingin hefur sannarlega brugðist illilega.“

Vegna þessarar færslu Jóhönnu segir Ragnheiður Skúladóttir:

„Borgin er að klóra í bakkan. Borgarstjórn veit að hún fellur í næstu kosningum og þar með er þeim sama þó þeir eyðileggi eitt og annað því þeir eru bara að undirbúa stjórnarandstöðu. Þetta er til háborinnar skammar og ég vona í fyrsta skipti á ævinni að Samfylkingin líði undir lok og verði jarðsett í kyrrþey ásamt afleggjurum Besta flokksins sáluga. Brandarinn er löngu hættur að vera fyndinn. Það sannast nú að fáir stjórnmálamenn eru að vinna fyrir fólkið í landinu. Eigin hagsmunir ráða för í einu og öllu. Ömurlegt að horfa upp á þetta.“

Þetta minnir mig enn á spurninguna sem nauðsynlegt er að velta fyrir sér vegna næstu borgarstjórnarkosninga: Ætlar Samfylkingin að bjóða fram í Reykjavík? Eða annars staðar á höfuðborgarsvæðinu? Hún var þurrkuð út í fjölmennustu kjördæmum landsins í þingkosningunum 29. október 2016.

Aðförin að umferðaröryggi í borginni, húsnæðislausu fólki og eldri borgurum bendir ekki til þess að ætlunin sé að leita eftir umboði kjósenda að nýju.

Senda grein

 

Föstudagur 17. 03. 17

Hafi einhver fundið frétt um það í Fréttablaðinu að það sé eitt eftir í höndum fjölskyldu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar af fjölmiðlaveldinu 365 mundi ég þiggja ábendingu um hvar fréttina sé að finna. Þögnin um þetta í blaðinu væri enn einn vitnisburðurinn um að það er gefið út til að þóknast lund Jóns Ásgeirs.

Þeir keppast um að hafa verið þaulsetnustu dálkahöfundar blaðsins Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur og Þorvaldur Gylfason prófessor. Guðmundur Andri lætur sig hafa að dálki hans sé ýtt til hliðar vilji Jón Ásgeir koma eigin grein í rými hans.

Mánudaginn 13. mars veittist Guðmundur Andri að Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra í dálki sínum og taldi hana ekki nógu mikinn umhverfissinna. Ráðherrann svaraði rithöfundinum í skeleggri grein fimmtudaginn 16. mars og sagði í upphafi hennar:

„Drjúgur hluti þess pappírs sem íbúar Reykjavíkur flokka í sérstakar bláar tunnur eru fríblöð á borð við Fréttablaðið og Fréttatímann og auglýsingabæklingar sem þessum blöðum fylgja. Ég þarf ekki að flokka þessi blöð frá öðru heimilissorpi. Og hvers vegna ekki?

Í stað þess að láta flytja til landsins pappír sem unninn var með mikilli fyrirhöfn, aka honum í prentsmiðju, aka prentuðu blaðinu til blaðbera sem ber það heim til mín, flokka blaðið frá öðru sorpi, vera með sérstaka aðstöðu fyrir blaðið innan dyra og sérstaka bláa tunnu undir það utan dyra sem sérstakur 10 tonna sorptrukkur tæmir og ekur til pressunar og böggunar í þungan gám sem settur er um borð í svartolíubrennandi flutningaskip sem flytur það aftur yfir hafið til orkufrekrar endurvinnslu þá les ég þessi blöð bara á netinu.

Þessa afstöðu mína kallar Guðmundur Andri Thorsson „strútskýringu“ og „afneitun“ í grein í Fréttablaðinu síðastliðinn mánudag. Mig sjálfa segir hann vera „einn eindregnasta strút landsins“. Fólk eins og mig telur hann „þrugla“ og vera fullt af „sjálfbirgingshætti“ og með „sérviskulegar skoðanir“ auk þess að ljá „fávísinni rödd“ og ýta undir „vanþekkingu“ með „útúrsnúningum, vífilengjum og afneitunum“.“

Við vaxandi kröfur um flokkun á sorpi verður meira íþyngjandi en áður að troðið sé inn um bréfalúgur fólks dagblöðum sem það vill í raun ekki. Gunnar Smári Egilsson sem seldi Jóni Ásgeiri Fréttablaðið á laun fyrir 15 árum vinnur nú að fjársöfnun fyrir Fréttatímann sinn og hefur birt nöfn á fólki sem hann kallar „samvisku“ fyrirtækis síns. Skyldi þetta fólk ætla að leiðbeina Gunnari Smára í fjármálum?  Eða í umhverfismálum?

Senda grein

 

Fimmtudagur 16. 03. 17

Í gær ræddi ég við Ólaf Guðmundsson, sérfræðing í öryggismálum umferðarinnar, í þætti mínum á ÍNN. Við ræddum saman með vísan til mynda sem Ólafur hafði sent mér. Satt að segja kom margt í máli Ólafs mér á óvart. Heilbrigð skynsemi virðist ekki alltaf höfð að leiðarljósi þegar hugað er að umferðarmannvirkjum, öryggi vegfarenda mætti að minnsta kosti auka víða án þess að það kosti stórfé. Þá er engin furða þótt erlendir vegfarendur fari út í vegkantinn á ólíklegustu stöðum, engin óslitin hvít lína sýnir þeim að bannað sé að fara út í kantinn. Sjón er sögu ríkari, þáttinn má sjá hér.

Fjölmiðlafárið vegna Geert Wilders og öfgaflokks hans fyrir hollensku þingkosningarnar sem fram fóru í gær minnti á hvernig skrifað var um Pírata fyrir þingkosningarnar hér 29. október 2016. Fjölmiðlamenn töldu sér trú um að Píratar yrðu stærsti flokkur landsins að kosningum loknum af því að kannanir hefðu sýnt það – líklega yrði rödd lýðskrumara öflugust á alþingi að kosningum loknum.

Kosningarnar hér fóru ekki á þann veg, Píratar urðu í þriðja sæti en Wilders lenti í öðru sæti. Flokkur hans bætti við sig þingmönnum eins og Píratar bættu við sig þingmönnum. Enginn vill hins vegar starfa með Wilders og félögum á þingi Hollands frekar en enginn vill starfa með Birgittu og félögum á alþingi.

Í öllum löndum Evrópu eru flokkar á borð við flokk Wilders og Pírata. Þótt höfuðáherslumál þessara flokka séu ólík er ýmislegt líkt með þeim, einkum óvild í garð ráðandi afla og áróðurinn um að þjóðum vegni betur sé þeim ýtt til hliðar. Andófið gegn ráðandi öflum tengir þessa flokka við UKIP í Bretlandi og Donald Trump í Bandaríkjunum. 

Þegar til þess er litið hverjir fara verst út úr þessum umbrotum er nærtækast að líta til Samfylkingarinnar hér á landi og í Hollandi galt systurflokkur hennar, Verkamannaflokkurinn, PvdA, afhroð þingmönnum hans fækkaði úr 38 í 9. Í Hollandi bættu vinstri grænir við sig mestu fylgi, þingmönnum þeirra fjölgaði úr 4 í 14.

Mark Rutte úr VVD, mið-hægriflokknum sem kennir sig við frelsi og lýðræði, verður áfram forsætisráðherra takist honum að berja saman margflokka stjórn. Hann færði sig nær afstöðu Wilders gegn múslimum á lokadögum kosningabaráttunnar þegar Erdogan, Tyrklandsforseti sem berst fyrir íslamvæðingu Tyrklands, lamdi á honum og Hollendingum.

Senda grein

 

Miðvikudagur 15. 03. 17

Tilkynnt var í dag að Jón Kalman Stefánsson rithöfundur væri á langa listanum yfir þá sem tilnefndir hefðu verið til alþjóðlegu Man Booker verðlaunanna 2017.

Black Moses by Alain Mabanckou, translated by Helen Stevenson (Serpents Tail)

Compass by Mathias Enard, translated by Charlotte Mandell (Fitzcarraldo)

Bricks and Mortar by Clemens Meyer, tanslated by Katy Derbyshire (Fitzcarraldo)

The Traitor's Niche by Ismail Kadare, translated by John Hodgson (Harvill Secker)

War and Turpentine by Stefan Hertmans, translated by David McKay (Harvill Secker)

Fever Dream by Samanta Schweblin, translated by Megan McDowell (One World)

The Unseen by Roy Jacobsen, translated by Don Bartlett and Don Shaw (MacLehose)

Fish Have No Feet by Jon Kalman Stefansson, translated by Philip Roughton (MacLehose)

Swallowing Mercury by Wioletta Greg, translated by Eliza Marciniak (Portobello)

A Horse Walks into a Bar by David Grossman, translated by Jessica Cohen

Judas by Amos Oz, translated by Nicholas de Lange. (Chatto and Windus)

The Explosion Chronicles by Yan Lianke, translated by Carlos Rojas (Chatto and Windus)

Mirror, Shoulder, Signal by Dorthe Nors, translated by Misha Hoekstra. (Pushkin)

Eileen Battersby bókmenntablaðamaður The Irish Times segir af þessu tilefni á vefsíðu blaðsins í dag:

„MacLehose Press, a pioneering champion of literature in translation, is also [eins og á bókinni Unseen eftir Norðmanninn Roy Jacobsen] the publisher of Icelandic master Jon Kalman Stefanssson's Fish Have No Feet (translated by Philip Roughton). It is also a family epic [...]. In it Ari, a writer and publisher who has been living in Denmark, returns home when his father is dying, and begins to recall his youth. [...] It should reach the shortlist.“

Þessi bókmenntaverðlaun eru mikil viðurkenning,  þau og raunar tilnefningin opna höfundum leið til vinsælda og vegsauka. Verðlaunin eru 50.000 pund (6,7 m. ísl. kr.) og skiptast þau til helminga milli höfundar og þýðanda þegar um árlegu verðlaunin The Man Booker International Prize for Fiction er að ræða. Þeir sem komast á stutta listann fá hver um sig 2.000 pund sem skiptast til helminga milli höfundar og þýðanda.

The Man Booker Prize voru fyrst veitt árið 1969.

Eins og kemur fram hér að ofan telur blaðamaður The Irish Times einsýnt að Jón Kalman komist á stutta listann.  

 

Senda grein

 

Þriðjudagur 14. 03. 17

Veruleg þáttaskil urðu á tveimur sviðum samfélagsins í dag.

1) Tilkynnt var að fjölskylda Jóns Ásgeirs Jóhannessonar hefði selt Fjarskiptum sem eiga og reka Vodafone allt fjarskipta- og fjölmiðlaveldi sitt utan Fréttablaðsins sem Jón Ásgeir eignaðist með leynd fyrir 15 árum og lagði grunninn að skrautlegum fjölmiðlarekstri hans sem að öðrum þræði miðaði að því að standa vörð um Jón Ásgeir og hagsmuni hans. Þegar tók að halla undan fjölmiðlastarfseminni ætlaði Jón Ásgeir að bæta hag sinn og stöðu með því að snúa sér að fjarskiptarekstri. Hann skilaði ekki þeim árangri sem að var stefnt.

Að nýr og öflugur aðili komi inn á frétta- og fjölmiðlamarkaðinn verður vonandi til að styrkja hann og bæta. Rétt er að minnast þess að erlendis þrífast þeir fjölmiðlar best sem tileinka sér róttækari afstöðu til stuðnings borgaralegum sjónarmiðum og meira aðahald gagnvart opinberum aðilum en hér þekkist. Fréttastofa ríkisútvarpsins hefur til dæmis sérstöðu meðal allra fréttastofa í heimi að því leyti að þar ríkir bann við flutningi viðskiptafrétta. Áhugi hennar á atvinnustarfsemi miðast nær eingöngu við opinberan rekstur og varðstöðu um hann.

2) Ragnar Þór Ingólfsson vann í dag stórsigur í formannskjöri í stærsta verkalýðsfélagi landsins, Verslunarmannafélagi Reykjavíkur (VR). Hann sigraði Ólafíu B. Rafnsdóttur, sitjandi formann, og fékk 62.98% greiddra atkvæða. Ólafía fékk 37,02%. Atkvæði greiddu 5.706. Á kjörskrá voru alls 33.383. Kosningaþátttaka var því 17,09%.

Lítil þátttaka í kosningunum ber vott um að hvorki Ragnar Þór né Ólafía hafi höfðað sterkt til almennra félagsmanna í VR. Niðurstaðan er á hinn bóginn afdráttarlaust og umboð sitt segist Ragnar Þór ætla að nota til að berjast gegn stefnu sem Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, og félagar hafa mótað á vettvangi alþýðusambandsins. Ragnar Þór segir þá til dæmis hafa verið „arfaslaka“ í baráttunni gegn verðtryggingunni auk þess sem hann er andvígur SALEK-samkomulaginu sem reist er á norræna kjarasamningamódelinu. „Úrslitin eru kýrskýr. Ég fer ekki að vinna að norrænu samningamódeli þegar ég er kosinn til að gera það ekki,“ segir Ragnar Þór við mbl.is í dag.

Fylgisleysi Ólafíu ber með sér að henni hefur mistekist að ávinna sér traust félagsmanna VR með því að vera höll undir forystu alþýðusambandsins og taka til máls í þágu hennar þegar þess var óskað. Þá sannar fall Ólafíu einnig að aðild að Samfylkingunni eða virk þátttaka í starfi hennar tryggir engum fararheill í kosningum.

 

Senda grein

 

Dagbókin