Dagbók: júní 2013

Sunnudagur 30. 06. 13 - 30.6.2013 21:00

Í dag birti Evrópuvaktin lauslega þýðingu á ályktun þings Evrópuráðsins um að gera verði skil á milli pólitískrar ábyrgðar og refsiábyrgðar stjórnmálamanna. Í ályktuninni sem má lesa hér er hörð gagnrýni á framgöngu meirihluta alþingis þegar hann ákvað að stefna Geir H. Haarde fyrir landsdóm.

Skömm þeirra sem stóðu að ákærunni að Geir H. Haarde er nú komin á spjöld mannréttindasögu Evrópuráðsins. Málið er blettur fyrir íslenskt stjórnmálalíf og er í raun ótrúlegt að meirihluti þingmanna skuli hafa gengið erinda Steingríms J. Sigfússonar, formanns VG, í þessu máli. Hann sagðist hafa greitt atkvæði með ákærunni „með sorg í hjarta“ en lét Þuríði Backman, flokkssystur sína og samþingmann fá NA-kjördæmi, verða sér enn frekar til skammar á Evrópuráðsþinginu í Strassborg með séráliti við álitið að baki tillögunni sem þingið samþykkti föstudaginn 28. júní.

Sagt var frá málinu í sjónvarpsfréttum ríkisins í kvöld. Hið furðulega við þann fréttaflutning var að birtar voru myndir frá Brussel af byggingum Evrópusambandsins undir textunum. Varla er fréttastofan svo illa að sér að hún geri ekki mun á Evrópusambandinu og Evrópuráðinu? ESB er með höfuðstöðvar í Brussel, Belgíu. Evrópuráðið hefur aðsetur í Strassborg í Frakklandi.

Ekki tók síðan betra við í fréttatímanum þegar birt var viðtal við Martin Schulz, forseta ESB- þingsins, og ummæli hans um lýðræðisríki þýdd á þann veg að hann talaði um „lýðveldi“. Lýðræðisríki geta vissulega verið lýðveldi en þau geta einnig verið konungdæmi, lýðveldi á íslensku er notað um stjórnkerfi þar sem þjóðhöfðinginn er forseti. Frakkar tala til dæmis um fimmta lýðveldið sem Charles de Gaulle stofnaði árið 1958.

Laugardagur 29. 06. 13 - 29.6.2013 22:55


Einkennilegt hve lengi er unnt að deila um sömu málin og halda að umræðurnar leiði eitthvað nýtt í ljós. Ég ætla að nefna fimm sem deilt var um þegar ég var menntamálaráðherra fyrir rúmum áratug.

1.      Námsframvinda ráðí ákvörðunum um námslán, 75% reglan er ekki ósanngjörn. Hún stóð ekki í vegi fyrir því að menn gátu lokið námi á sínum tíma. Vandinn er hvernig á að innleiða hana að nýju.


2.      Þriggja ára kennaranám. Það lá ljóst fyrir og er staðfest nú að aðsókn í kennaranám mundi minnka með því að lengja það í fimm ár. Þegar fækkun nemenda í kennaranámi vekur áhyggjur er bitið í skjaldarrendur og sagt að námið verði ekki stytt.


3.      Listamannalaun verða ekki afnumin og fráleitt að láta eins og það sé í spilunum þótt menn deili um framkvæmdina. Úthlutunakerfið er ekki nægilega gegnsætt og hefur leitt til klíkustarfsemi innan listgreina.


4.      Stytting framhaldsskólanáms í þrjú ár með lagaboði. Hvers vegna að draga úr sveigjanleikanum? Nemendur geta nú ráðið hve löngum tíma þeir verja til að ljúka framhaldsskóla. Talið um að brottfall sé meira hér en annars staðar er reist á því að borin eru saman epli og appelsínur.


5.      Stjórn ríkisútvarpsins. Ekki er til lýðræðislegri og gegnsærri aðferð við að velja stjórn ríkisstofnunar en að alþingi kjósi hana. Þeir sem eru andvígir þessari aðferð gæta annarlegra hagsmuna. Deilur um ríkisútvarpið fá nýja vídd starfi stjórn þess í umboði alþingis, þær þarfnast þeirrar víddar, þeim lýkur ekki.

Föstudagur 28. 06. 13 - 28.6.2013 22:00

Flugum heim með WOW í dag frá París, um 30 mínútna seinkun. Hin frjálslega framkoma flugþjóna í WOW-vélunum ber með sér að texti sé ekki lesinn af blöðum. Fyrir nokkrum áratugum var gert átak til að útrýma ensku-slettum úr flugmáli. Það tókst prýðilega. Flugþjónar WOW sem ávarpa „gesti“ í vélinni á íslensku ættu að forðast málvillur.

Fimmtudagur 27. 06. 13 - 27.6.2013 21:20

Lokadagur í París að þessu sinni. Mannfjöldi mikill á götum í gær og í dag enda hófust sumarútsölur í gær. Ég lét mér nægja að fylgjast með atganginum úr fjarlægð.

Fór með strætisvagni sem ók yfir Concorde-torg. Það hlýtur að taka á taugarnar að þurfa að brjótast yfir torgið oft á dag enda lét bílstjórinn í sér heyra með því að þeyta flautuna. Sé maður að flýta sér í París felst áhætta í að taka strætisvagn. Hitt sparar tíma að taka jarðlest.

Varð vitni að þegar strætóbílstjóri flautaði á leigubíl á götuhorni. Leigubílstjóranum var svo misboðið að hann rauk út úr bíl sínum og steytti hnefann við bílstjóraglugga strætisvagnsins um leið og hann hrópaði ókvæðisorð.

Miðvikudagur 26. 06. 13 - 26.6.2013 23:40

Í kvöld var Götterdämmerung, Ragnarök, lokaópera Hrings Niflungangs eftir Richard Wagner sýnd við gífurlega hrifningu í Bastillu-óperunni í París.

Þriðjudagur 25. 06. 13 - 25.6.2013 20:40

Við Place des Voges í París stendur íbúð þar sem Victor Hugo (1802-1885) bjó um tíma. Þar er nú safn helgað honum og að þessu sinni er þar kynntur stjórnmálamaðurinn Hugo. Var fróðlegt að ganga um og kynnast hve einarður hann var í baráttunni fyrir stjórnmálaskoðunum sínum. Hann var útlægur frá Frakklandi í 19 ár, flúði til Belgíu en bjó lengst á eyjunni Jersey. Hann barðist gegn dauðarefsingu og fyrir lýðveldi í Frakklandi. Þegar hann var jarðsunginn fylgdi honum ein milljón manna, líkamsleifar hans hvíla í Panthéon, við hlið fleiri franskra stórmenna. Hann er nú kunnastur fyrir Vesalinganna af því að þeim hefur verið breytt í söngleik.

Edward Snowden flaug frá Hong Kong til Moskvu með Aeroflot sunnudaginn 23. júní. Ólafur Vignir Sigurvinsson skýrir frá því þriðjudaginn 25. júní að hann hafi að morgni þess þriðjudags afpantað þrjár einkaþotur sem hann hafði til taks í Hong Kong til að flytja Snowden þaðan. Við hvað á að kenna þessa varkárni í þágu skjólastæðings síns?

Fréttastofa ríkisútvarpsins segir að The New York Times (NYT) segi að FBI hafi sent fulltrúa til Íslands sumarið 2011 vegna WikiLeaks. NYT hefur þetta eftir Ögmundi Jónassyni, þáverandi innanríkisráðherra, sem lét þess ekki getið við blaðið að hvorki ríkissaksóknari né ríkislögreglustjóri hefðu verið sammála mati ráðherrans.

Mánudagur 24. 06. 13 - 24.6.2013 21:15

Við gengum á friðsamri götu í París, á vinstri bakkanum, fyrir aftan akademíuna þegar lögreglumaður hrópaði á karlmann sem gekk fram hjá okkur og gaf honum fyrirmæli um að fylgja sér. Maðurinn átti sér einskis ills von, ferðamaður eins og við, og sagði við lögregluna að þarna hlyti að vera um misskilning að ræða, hann hefði ekki gert neitt af sér. Lögreglumaðurinn hélt nú ekki og hvessti sig með þungum fyrirmælum. Maðurinn lét segjast og elti lögreglumanninn en aðeins í fáeinar sekúndur þá veifaði lögreglumaðurinn hendi og gaf manninum leyfi til að halda sína leið sem hann gerði léttari á brún. Lögreglubíll ók á brott.

Þetta litla atvik situr í huganum til marks um hve varnarlaus einstaklingur getur verið sé ekki komið fram við hann af þeirri virðingu sem ber af þeim sem fer með vald til handtöku. Hefði ekki verið eðlilegt að lögreglumaðurinn ræddi við viðkomandi og segði honum hvers vegna hann skipaði honum að fylgja sér? Næsta skref við hina hvössu skipan var greinilega að setja manninn í járn.

 

Sunnudagur 23. 06. 13 - 23.6.2013 21:15

Viðtal mitt við Tómas Guðbjartsson, prófessor og skurðlækni, er komið á netið og má sjá það hér

Í dag var Siegfried ópera í Hring Niflungans sýnd í Bastillu-óperunni í París við mikla hrifningu. Þessi ópera ber með sér mestan léttleika af þeim fjórum sem mynda Hringinn. Sýningin hófst klukkan 14.00 og lauk kl. 19.10.

Laugardagur 22. 06. 13 - 22.6.2013 22:40

Frakkar kvarta undan veðrinu, veturinn hafi verið kaldur og sumarið sé ekki byrjað þótt sólstöður séu að baki. Fréttir eru af flóðum í norðri og sumri og frekar vindasamt og kalt í París. Ástæðulaust er þó fyrir Íslending að kvarta, það er betra að fara í jakka en að geta ekki varist of miklum hita.

DataCell hefur sent frá sér tilkynningu um að það hafi engin tengsl við Ólaf Vigni Sigurvinsson sem lætur ljós sitt skína til aðstoðar Edward Snowden uppljóstrara og segist hafa þrjár flugvélar til taks til að flytja hann frá Hong Kong til Íslands fyrir hið minnsta 30 milljónir króna.

Yfirlýsing DataCell hafði ekki fyrr verið birt en Sveinn Andri Sveinsson hrl., lögmaður DataCell í máli gegn kreditkorafyrirtækjum, tók að tjá sig um flutning á Edward Snowden til Íslands. Ákæra Bandaríkjastjórnar á hendur honum leiddi til þess að fljúga yrði með hann í einum áfanga frá Hong Kong til Íslands.

Bein flugleið milli Hong Kong og Íslands er 9.509 km og tekur ferðin 12 tíma og 19 mínútur. Sveinn Andri segir við fréttastofu ríkisútvarpsins að vinir Snowdens [sem þó hafa aldrei talað við hann] hafi vél til taks sem geti farið þessa leið í einum áfanga.

Miðað við almennar upplýsingar um flugþol véla hefur Ólafur Vignir þrjár stórar Airbus- eða Boeing-vélar því til taks á kínverskum flugvöllum til að flytja Snowden frá Hong Kong en þar dvelst hann í „öruggu húsi“ lögreglu staðarins.

Því má velta fyrir sér hvaða tilgangi þessi fréttamatreiðsla á vegum manna sem hafa verið í tengslum við DataCell þjóni, hitt er þó ekki síður sérkennilegt að krásirnar séu gleyptar skýringa- og athugasemdalaust af fréttastofum sem segjast vandar að virðingu sinni.

 

Föstudagur 21. 06. 13 - 21.6.2013 20:25

Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, komst í fréttir 19. júní þegar hann hafði setið eitt ár í sendiráði Ekvador í London með því að beina athygli að uppljóstraranum Edward Snowden og áhuga WikiLeaks á að koma honum til Íslands. Síðan lét Ólafur Vignir Sigurvinsson, fyrrv. forstjóri DataCell, hafa eftir sér að hann hefði til taks einkaþotu í Kína til að fljúga Snowden til Íslands. Kristinn Hrafnsson, upplýsingafulltrúi WikiLeaks, segist hafa reynt að ná tali af íslenskum ráðherrum til að greiða götu Snowdens.

Enginn þessara manna hefur verið í beinu sambandi við Snowden. Ekki er vitað hvort um óbeðinn erindrekstur sé að ræða. Snowden nefndi Ísland í fyrsta samtalinu við The Guardian sem griðastað fyrir þá sem vilja frelsi í netheimum. Hann hefur síðar sagt að hann ætli að berjast fyrir rétti sínum, óski bandarísk stjórnvöld eftir framsali hans, frá Kína.

Hvað sem öðru líður tókst Assange og WikiLeaks að vekja athygli á sér með því að flagga Snowden og Íslandi. Almennt séð er ekki unnt að telja þetta spennandi félagsskap. Íslandi er enginn greiði gerður með því að teljast eiga aðild að honum.

Fimmtudagur 20. 06. 13 - 20.6.2013 21:00

Í dag skrifaði ég tvær greinar á Evrópuvaktina og lýsti áhyggjum vegna losarabrags á stefnu ríkisstjórnarinnar gagnvart ESB, annars vegar leiðara sem má lesa hér og hins vegar pistil á stjórnmálavaktina sem má lesa hér. Ríkisstjórnin verður að taka betur af skarið í málinu til að draga úr óvissu inn á við og út á við.

Parísarveðrið var gott í dag eftir mikla rigningu í morgun. Götulífið skemmtilegt og kaffihúsin þéttsetin.

Ég setti mynd úr Bastillu-óperunni inn á fésbókarsíðu mína eins og sjá má hér.

Miðvikudagur 19. 06. 13 - 19.6.2013 22:30

Á ÍNN má nú í kvöld og fram til 18.00 á morgun á tveggja tíma fresti sjá samtal mitt við Tómas Guðbjartsson, pófessor og hjarta- og lungnaskurðlækni, um störf hans sem læknis og stöðu læknisfræðinnar.

Í kvöld voru Valkyrjurnar eftir Richard Wagner sýndar í Bastillu-óperunni í París við engu minni hrifningu en í gærkvöldi þegar Rínargullið var sýnt. Hringur Niflungans er því hálfnaður í uppfærslu Bastillu-óperunnar í tilefni af 200 ára afmæli Wagners sem fæddist 22. maí 1813.

Í tilefni af ferðinni hingað til að horfa á Hringinn las ég bókina Athena Sings – Wagner and the Greeks, eftir M. Owen Lee, kaþólskan prest og prófessor emeritus í klassískum fræðum við háskólann í Toronto. Ég segi hið sama og einn lesandi bókarinnar á kápu hennar að ég hlusta og horfi á annan hátt á óperur Wagners eftir að hafa lesið þessa hnitmiðuðu bók.

Grísku harmleikirnir snerust um gríska guði. Wagner notar form þeirra til að semja harmleik um norræn goð. Óðinn, Frigg og Freyja auk Loka eru allt persónur sem við Íslendingar þekkjum. Owen tekur sérstaklega fram að Brynhildur sé íslensk en hún er dóttir Óðins og forystukona Valkyrjanna sem færa látna stríðsmenn til Valhallar og vekja þá þar til lífs að nýju. Þungamiðja Valkyrjanna er að Brynhildur óhlýðnast föður sínum og drepur ekki Sigmund, hálfbróður sinn. Vegna þessa snýr Óðinn baki við Brynhildi og leggur á hana að hún muni sofa í vafurloga þar til hugrakkur og frjáls maður játi henni ást og bjargi henni.

Í grísku harmleikjunum eru almennt tvær persónur eða í mesta lagi þrjár á sviðinu í einu og ræða saman en kórinn boðar áheyrendum það sem gerist eða er í vændum. Í Hringnum leiða ofast tvær stundum þrjár persónur saman hesta sína á sviðinu en hljómsveitin segir söguna með stefjunum, leitmotífs, sem Wagner tileinkar persónum eða hlutum.

Þriðjudagur 18. 06. 13 - 18.6.2013 21:58

Í febrúar 2012 keyptum við miða á Hring Niflungans eftir Richard Wagner í Bastillu-óperunni í París. Í kvöld var for-óperan, Rínargullið, sýnd við gífurlega hrifningu áheyrenda.

L'Opéra Bastille stendur við Bastillutorgið í París. Carlos Ott, kanadískur-ungverskur arkitekt, var í nóvember 1983 valinn til að teikna hana eftir alþjóðlega samkeppni með þátttöku um 1.700 arkitekta. Húsið var tekið í notkun 13. júlí 1989. Salurinn rúmar 2.700 manns, hljómburður er góður og sviðsbúnaður er sagður með eindæmum fullkominn. Hljómsveitargryfjan tekur 130 manns og komu hljóðfæraleikararnir allir upp á sviðið í lok sýningar í kvöld og voru hylltir innilega með söngvurunum.

Rínargullið er um tvær og hálfklukkustund í flutningi, án hlés. Philippe Jordan er hljómsveitarstjóri en Gustav Krämer leikstjóri.

Nú verður Hringurinn fluttur allur í Bastillu-óperunni fram til og með 26. júní, fjórar óperur um 15 klukkustundir samtals. Fyrstu sýningar í þessa einu heildarsýningu í París í tilefni af 200 ára afmæli Richards Wagners hófust í Bastilluóperunni árið 2010.

Mánudagur 17. 06. 13 - 17.6.2013 20:25

Flugum kl. 06.40 með WOW air til Parísar, lentum þar 12.10 að staðartíma. Þetta var í fyrsta sinn sem ég flýg með WOW air. Farið er í land í Terminal 3 á Charles de Gaulle flugvelli. Framganga flugfreyja er með öðrum hætti en í Icelandair-vélunum.

Sunnudagur 16. 06. 13 - 16.6.2013 23:55

Blíða var í Fljótshlíðinni og ég sinnti heystörfum á skikanum við bæinn eins og hér má sjá.

Laugardagur 15. 06. 13 - 15.6.2013 23:55

Í dag lýsti ég undrun minni á tveimur málum í pistlum á Evrópuvaktinni annars vegar á fullyrðingum Þorsteins Pálssonar um fullveldisskerðingu alþingis í ESB-málinu og hins vegar á útleggingu fréttastofu ríkisútvarpsins á blaðamannafundi Gunnars Braga Sveinssonar og Ŝtefan Füles í Brussel. Þakkarvert er að fréttastofa ríkisútvarpsins hafi ekki fréttamann að staðaldri í Brussel.

Augljóst er að ESB-aðildarsinnar leggja sig alla fram um að gera stefnu ríkisstjórnarinnar í ESB-málinu sem tortryggilegasta. Talið er þó jafn innantómt og endranær þegar því er haldið að þjóðinni að hún verði sett út af sakramentinu fyrir að móta sér skoðun í ESB-málum sem fellur ekki að aðildarstefnunni. Þetta er alrangt.

Mesta undrun vekur innan ESB að ríkisstjórn Íslands hafi sótt um aðild 2009 í óþökk meirihluta þjóðarinnar. Í Brussel skilja menn ekki heldur inntak þeirrar stefnu að mestu skipti að ljúka ESB-viðræðum með einhvers konar niðurstöðu svo að hana megi fella í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hér á landi hefur dvalist Dani frá Brussel til að segja íslenskum áheyrendum hve sjávarútvegsstefna ESB sé að verða góð að norskri og íslenskri fyrirmynd. Færeyingar og Grænlendingar eru í ríkjasambandi við Danmörku. Grænlendingar sögðu sig úr ESB 1985 vegna skilningsleysis innan sambandsins á hagsmunum þeirra meðal annars í sjávarútvegsmálum. Engum færeyskum stjórnmálaflokki dettur í hug að setja ESB-aðild á dagskrá sína, það jafngilti pólitískum dauðadómi.

Föstudagur 14. 06. 13 - 14.6.2013 23:30

Ók í dag fram og til baka frá Reykjavík í Reykholt í Borgarfirði og síðan úr Reykjavík í Fljótshlíðina. Milli 17.00 og 18.00 var nær samfelld röð frá Mosfellsbæ um göngin í Borgarnes, vegurinn er einbreiður og þess vegna myndast langar raðir á eftir þeim sem aka undir 90 km. Þetta kallar á hættu við framúrakstur þegar spenna myndast.

Á leiðinni austur fyrir fjall eru tvær akgreinar frá brekkunni við Lækjarbotna og upp á Hellisheiði með fáeinum einbreiðum spottum. Umferðin er mun léttari þar sem menn vita að tækifæri gefast til framúraksturs.

Fyrir um 30 árum ók ég víða í Frakklandi þar sem skilyrði voru svipuð og á leiðinni upp á Hellisheiði, skipst var á einbreiðum og tvíbreiðum spottum og þótti góð lausn fyrir sunnan París þar sem nú eru hraðbrautir.

Tvíbreiðir kaflar á nokkrum stöðum milli Reykjavíkur og Borgarness mundu jafna umferðarhraðann mikið og minnka spennu, sömu sögu er að segja um spölinn milli Hveragerðis og Selfoss. 

Í kvöld er sýnd kvikmynd í sjónvarpinu um Þór en Snorri Sturluson miðlaði vitneskju um hann á sínum tíma. Gestum í Reykholt fjölgar jafnt og þétt og kynna sér sýninguna Saga Snorra sem opnuð var í mars á þessu ári á vegum Snorrastofu.

Fimmtudagur 13. 06. 13 - 13.6.2013 23:10

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hóf embættisrekstur sinn erlendis í Brussel. Hann hitti fyrst Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóra NATO, á fundi í höfuðstöðvum bandalagsins og sagði ríkisstjórnina vilja vinna nánar með bandalaginu en vinstri stjórnin með VG-liða innan borðs, yfirlýsta NATO-andstæðinga, gerði.

Það var skynsamlegt hjá ráðherranum að setja NATO fyrst á dagskrá sína. Ekki er ólíklegt að ýmsir innan bandalagsins og í höfuðborgum bandalagsríkjanna hafi undrast þegar íslenskur dipólmat sem aldrei hefur gegnt embætti sendiherra var skipaður fastafulltrúi Íslands hjá NATO í stað hins þaulreynda sendiherra Þorsteins Ingólfssonar sem hverfur nú frá Brussel eftir heilladrjúgt starf. Yfirlýsing hins nýja utanríkisráðherra auðveldar nýjum sendiherra vandasamt starf, enginn getur efast um hið pólitíska umboð fastanefndar Íslands.

Utanríkisráðherra átti síðdegis klukkustundar fund með Ŝtefan Füle, stækkunarstjóra ESB, og skýrði honum frá ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að gera hlé á ESB-viðræðunum. Síðan héldu þeir 10 mínútna blaðamannafund á mjög vinsamlegum nótum enda hefði verið fráleitt ef því sem íslenskir kjósendur og kjörnir fulltrúar þeirra hafa ákveðið hefði verið illa tekið af embættismanni ESB. Eins og fram kemur í frásögn Evrópuvaktarinnar af blaðamannafundinum gaf Füle tvisvar til kynna á honum að vegna aðildarviðræðnanna og aðildar Íslands að EES hefði skapast sérstakt samband milli Íslands og ESB sem bæri að styrkja.

Það var einkennilegt að fréttamaður ríkisútvarpsins  á blaðamannafundinum skyldi ekki spyrja við hvað stækkunarstjórinn ætti með hinu sérstaka sambandi sem hann sæi fyrir sér. Hér má sjá þáttinn.

Í Spegli ríkisútvarpsins var að sjálfsögðu rætt við góðvin þáttarins, Eirík Bergmann Einarsson, sem skynjaði hótanir af hálfu ESB á fundinum og taldi að Füle hefði svarað Ólafi Ragnari Grímssyni fullum hálsi. Auðvelt er að nálgast blaðamannafundinn í heild á netinu og leggja mat á hvort orð á honum falli að hræðsluáróðrinum sem Eiríkur Bergmann flutti í Speglinum. Ég tel að um of- og rangtúlkun sé að ræða hjá góðvini Spegilsins. Fundurinn var vinsamlegur og án hótana.  Gunnar Bragi kom Füle til hjálpar þegar hann var spurður hvort það væri vegna ágalla í aðlögunarferlinu að Íslendingar hefðu ekki áhuga á aðild. Gunnar Bragi sagði svo ekki vera þetta væri einfaldlega afstaða meirihluta Íslendinga sem hann hefði kynnt.

Nýr utanríkísráðherra styrkti mjög stöðu sína inn á við og út á við með Brusselferðinni.

Miðvikudagur 12. 06. 13 - 12.6.2013 21:40

Í franska blaðinu Le Monde er í dag heilsíðugrein um Ísland í tilefni af ummælum Edwards Snowdens uppljóstrara um að hann geti vel hugsað sér að sækja um hæli undan bandarískri réttvísi á Íslandi. Hér má lesa lauslega þýðingu Evrópuvaktarinnar á þessari grein.

Það sem kemur á óvart er að menn skuli líta þannig á að IMMI, áform um að breyta Íslandi í net-griðastað af einhverju tagi, veiti einhverjum skjól. Hér er um að ræða þingsályktunartillögu sem samþykkt var einróma. Það er ekki gæðastimpill og tryggir ekki að henni verði hrundið í framkvæmd.

Við blasir af greininni í Le Monde að Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, notar athyglina sem orð Edwards Snowends hafa beint að Íslandi til áróðurs fyrir sjálfa sig og IMMI en þó skín í gegn að ekki er þar um neitt að ræða sem vekur sérstaka hylli meðal Íslendinga. Birgitta talar um IMMI sem varanlegt viðfangsefni af því að alþingi hafi samþykkt ályktunina um árið. Hún ætti að kynna sér örlög allra þjóðþrifamálanna sem ályktað hefur verið um á alþingi.

Almennt og án tillits til þess sem Edward Snowden sagði eru tengslin við Julian Assange, afskipti hans og annarra WikiLeaks-manna af IMMI-ályktuninni og framganga Birgittu Jónsdóttur frekar óskemmtileg landkynning.

Þriðjudagur 11. 06. 13 - 11.6.2013 22:30

Þeir sem minnast umræðna sumarið 2009 um aðildarumsókn að ESB muna væntanlega hneykslan Össurar Skarphéðinssonar á þeirri tillögu að þjóðin yrði spurð álits á málinu, það yrði lagt í hennar dóm í atkvæðagreiðslu hvort sækja ætti um aðild. Þetta taldi Össur hina mestu goðgá. Honum mundi á skömmum tíma takast að skjóta Íslandi inn í ESB. Það mætti engan tíma missa, þjóðin yrði spurð að leikslokum.

Allar spár Össurar um framvindu ESB-málsins hafa reynst rangar. Hann skilur við málið verra en hálfkarað þegar hann sest í stjórnarandstöðu eftir „hamfarir“ eigin flokks í þingkosningunum þar sem ESB-aðildin var helsta bjargráðið í kosningaloforðunum.

Nú bregður svo við að Guðmundur Steingrímsson í Litlu-Samfylkingunni og Össur á höfuðbólinu keppa á þingi um hvor verði fyrri til að flytja tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald ESB-viðræðnanna – tillögu um sama efni og Össur taldi fráleita fyrir fjórum árum. Uppgjöf Össurar er með öðrum orðum algjört í þessu máli. Nú rökstyður hann tillögu sína á þennan hátt:

„Því telja flutningsmenn þingsályktunartillögunnar að það þjóni óskráðri friðarreglu þingsins og sé því farsælt fyrir vellíðan og hagsmuni þjóðarinnar að þing og ríkisstjórn sammælist um að eyða þessari óvissu [í ESB-málinu] sem fyrst. Farsælast sé því fyrir alla að útkljá deiluna um framhald viðræðnanna með þjóðaratkvæðagreiðslu sem haldin verði við fyrstu hentugleika.“

Össur og Samfylkingin höfðu ekki „vellíðan og hagsmuni þjóðarinnar“ að leiðarljósi í fjögur ár hvorki í ESB-málinu né öðrum stórmálum. Besta pólitíska úrræðið til að bæta vellíðan þjóðarinnar og gæta hagsmuna hennar var að losna við Samfylkinguna úr ríkisstjórn.

 

Mánudagur 10. 06. 13 - 10.6.2013 23:10

Edward Snowden sem lak upplýsingum um aðgang bandarískra njósnastofnana að netþjónum bandarískra stórfyrirtækja leitaði til Hong Kong áður en hann upplýsti um hlut sinn að málinu. Fjölmiðlamenn víða um heim furða sig á staðaravalinu vilji hann ekki verða framseldur til Bandaríkjanna. Það kunni að vísu að taka langan tíma að ljúka öllum formsatriðum í Hong Kong en þaðan séu menn framseldir til Bandaríkjanna sé þess óskað af yfirvöldum þar og öllum skilyrðum sé fullnægt.

Í sjónvarpsviðtali sem blaðamenn The Guardian tóku við Snowden í hóteli í Hong Kong sagðist hann íhuga að sækja um hæli á Íslandi vegna sögu landsins við að verja frelsi á Internetinu. Líklega vísar hann hér til frásagna í bókum um Julian Assange hjá Wikileaks og dvöl hans og félaga á Íslandi með Birgittu Jónsdóttur og fleirum við smíði þingsályktunartillögu, IMMI-tillögunnar svonefndu, sem var samþykkt einróma á þingi en er síðan lítið annað en orð á blaði þótt til hafi orðið hópur fólks í kringum hana sem bauð fram undir merkjum Pírata og fékk þrjá menn kjörna á þing 27. apríl sl.

Óljóst er hvað Bandaríkjastjórn ætlar að gera í máli Snowdens, upplýst hefur verið hver lak sem léttir á spennu í málinu. Birgitta Jónsdóttir alþingismaður lét lengi eins og hún yrði handtekin eða gæti að minnsta kosti ekki um frjálst höfuð strokið færi hún til Bandaríkjanna. Þetta reyndist allt ímyndun og í dag var talað við hana frá San Fransisco og hún spurð um Snowden.

Þeir sem kunna að vera í sambandi við Snowden héðan verða að útskýra fyrir honum að hann á ekkert erindi til Íslands vilji hann fá skjól vegna sérstakra laga um Internetið og frelsi í sambandi við það. Engin slík lög hafa verið sett þótt einhverjir láti greinilega í annað skína miðað við misskilninginn víða um lönd.

Á sínum tíma hitti ég Pírata í Þýskalandi sem höfðu komið hingað til lands til að kynnast hinum nýju IMMI-lögum en gripu í tómt af því að ekkert frumvarp hafði verið samið, þeim þótti ekki líklegt að hér yrði nokkurn tíma gengið til þess að samþykkja slík lög þar sem enginn virtist hafa á því áhuga eða getu,

Sunnudagur 09. 06. 13 - 9.6.2013 23:00

Þegar Ólafur Ragnar Grímsson kallaði Sigmund Davíð Gunnlagsson, verðandi forsætisráðherra, á sinn fund í þann mund sem stjórnarmyndun lauk var spurt hér í dagbókinni: Hvað vakir fyrir Ólafi Ragnari?

Nú um helgina er helsta pólítíska fréttin að Sigmundur Davíð segi ESB-málið „fullveldismál“ og þess vegna sé ekki athugavert að Ólafur Ragnar hafi rætt það við þingsetningu þótt forseti Íslands eigi ekki að skipta sér af utanríkismálum. Spurning er hvort Ólafur Ragnar hafi komið þeirri hugmynd að hjá verðandi forsætisráðherra þegar þeir hittust miðvikudaginn 22. maí á Bessastöðum að í stjórnskipun landsins sé einskonar „grátt svæði“ þar sem forsetinn geti sagt meira en ella um stjórnmál og álitamál.

Kenningasmíði af þessu tagi er ekki fjarri Ólafi Ragnari og næsta skref kann að verða að Svanur Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði, komi í Spegilinn hjá fréttastofu ríkisútvarpsins og útlisti þetta allt Ólafi Ragnari í hag svo að hann geti enn lagt net sín á ný mið.

Sætti ríkisstjórn og alþingi sig við að forseti Íslands færi út vald sitt á þennan hátt hlýtur að reyna á það fyrir þriðja armi ríkisvaldsins, dómsvaldinu, hvar embættismörkin eru með vísan til stjórnarskrárinnar. Spurning er hvernig hanna eigi atburðarás til að unnt sé að láta á valdmörkin reyna fyrir dómstóli.

Rætt er um nauðsyn þess að koma á fór millidómstigi meðal annars til að létta málum af hæstarétti. Þörfin fyrir stjórnlagadómstól vex í réttu hlutfalli við óvissu um valdmörk á æðstu stöðum sem nú þegar kallar á ný hugtök til að sníða umgjörð um afskipti forseta Íslands af stjórnmálum.

Laugardagur 08. 06. 13 - 8.6.2013 23:10

Nú má sjá samtal mitt við Kristínu Völundardóttur, forstjóra útlendingastofnunar, á ÍNN frá 5. Júní á netinu ná í það hér.  Við ræðum reglur um hælisleitendur og fleira. Hið sérkennilegra er að þeim fjölgar sem sækja um hæli eftir því sem afgreiðsla hælisbeiðna lengist. Það virðist hafa aðdráttarafl að þurfa að bíða sem lengst eftir afgreiðslu yfirvalda.

Fimmtudagskvöldið 6. Júní minntist Sinfóníuhljómsveit Íslands þess að nú í vor eru 200 ár liðin frá fæðingu snillingsins Richards Wagners. Flutt voru verk eftir Wagner og söng Bjarni Thor Kristinsson bassi í nokkrum þeirra. Ríkharður Örn Pálsson, tónlistargagnrýnandi Morgunblaðsins, sagði meðal annars í umsögn um tónleikana:

„Eins og ymprað var á í tónleikaskrá hefur tónlist Wagners víða átt erfitt uppdráttar eftir 2. heimsstyrjöld, og m.a.s. sums staðar verið bönnuð eftir uppgjörið við Þriðja ríki nazista og Helförina - jafnvel þótt höfundur gæti séð hvorugt fyrir, þrátt fyrir persónulegan ímugust sinn á gyðingum. Fer þar skýrt dæmi um ruglandi áhrif nútíma rétthugsunaráráttu, er sakir söguvanþekkingar megnar ekki að setja sig inn í umhverfi genginna kynslóða. Allt um það ná nú sem betur fer nógu margir að greina á milli manns og tónverks, enda hefur Wagner á seinni árum m.a.s. oft verið fluttur í Ísrael.“

Í raun er ótrúlegt hve mönnum verður tíðrætt um nasista og Hitler þegar minnst er á Wagner þótt hann hafi aldrei getað gert sér í hugarlund að Þjóðverjar og heimurinn allur yrði ofurseldur hinni grimmdarlegu hugmyndafræði og harðstjóra hennar. Nasistar virkjuðu Wagner og tónlistarverk hans sér í vil en áköfustu talsmenn hugmyndafræðinnar og vinir Hitlers í Wagner-fjölskyldunni voru Bretar en ekki Þjóðverjar.

Í tilefni afmælis Wagners fóru félagar í Wagner-félaginu hér á landi í Reykholt og þökkuðu áhrif Snorra Sturlusonar á Wagner með því að gefa Snorrastofu vangamynd af tónskáldinu.

Föstudagur 07. 06. 13 - 7.6.2013 23:10

Í dag var sagt frá samkomulagi sem gert hefði verið um leigu á tveimur björgunarþyrlum til fjögurra ára. Landhelgisgæslan gerði samninginn að fenginni heimild Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra. Í tilkynningu ráðuneytisins segir:

„Með leigusamningnum hefur verið eytt þeirri óvissu sem ríkt hefur í þyrlubjörgunarmálum Landhelgisgæslunnar. Í framhaldi af þessari niðurstöðu mun ráðherranefnd um ríkisfjármál taka ákvörðun um tímasetningu útboðs vegna kaupa á langdrægum björgunarþyrlum sem framtíðarlausn í þyrlubjörgunarmálum þjóðarinnar.“ 

Á sínum tíma hafði verið tekin ákvörðun um leið til að kaupa nýjar björgunarþyrlur í samvinnu við Norðmenn. Horfið var frá henni eftir hrun og í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttir var stofnað til óvissu um þetta mikilvæga mál eins og svo mörg önnur. Henni hefur nú verið eytt rætist það sem segir í tilkynningu innanríkisráðuneytisins.

Þarna er því sagt frá mikilvægu skrefi í öryggismálum þjóðarinnar sem fær minna rými í fréttum en frásagnir af viðhaldi á þyrlum gæslunnar eða skortur á þeim.

Fimmtudagur 06. 06. 13 - 6.6.2013 23:40

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, gekk lengra en nokkru sinni fyrr inn á hinn pólitíska völl við setningu alþingis í dag. Hann sagði augljóst að hann hefði haft rétt fyrir sér í stjórnarskrármálinu, lýðveldisstjórnarskráin hefði staðist áraun hrunsins og óþarft væri að taka upp nýja stjórnarskrá vegna þess. Þá áréttaði hann skýrar en hann hefur áður gert andstöðu sína við aðild Íslands að ESB og sagði samtöl við evrópska áhrifamenn auk þess hafa sannfært sig um að innan ESB væri hvorki vilji né geta til að ljúka aðildarviðræðunum við okkur.

Ég hef aldrei viðurkennt rétt forseta Íslands til að ganga inn á hinn pólitíska völl, hvorki með pólitískum yfirlýsingum eða á annan hátt. Þar fyrir utan er ég sjaldan sammála pólitískum yfirlýsingum hans, ég er það þó að þessu sinni.

Aðförin að lýðveldisstjórnarskránni var hneyksli. Í ESB-málinu lýsir Ólafur Ragnar skoðun sem fellur að því sem ég hef sagt, einkum á Evrópuvaktinni, að innan  ESB vilji menn ekki fá nei frá Íslendingum og því dragi ESB viðræðurnar á langinn, þá vill ESB ekki gefa neitt eftir í sjávarútvegsmálum og þess vegna hefur framkvæmdastjórnin sett málið í salt.

Taki ríkisstjórn Sigmundar Davíðs ekki af skarið í ESB-málinu í anda ræðu Ólafs Ragnars bíður hennar meiri pólitískur vandi en skapast af því að stöðva viðræðurnar og hafna öllum fagurgala og fjárgjöfum frá ESB.

Ók í dag gömlu leiðina um Hvalfjörð og yfir Dragháls að Hraunfossum og Barnafossi þar sem hitinn var um 18 gráður. Áði í Reykholti og tveir gestir mínir frá Þýskalandi kynntust Snorra Sturlusyni og þáttum úr Íslandssögunni undir leiðsögn séra Geirs Waage. Hvarvetna var aðstaða til móttöku ferðamanna prýðileg og var nokkur fjöldi þeirra við fossana, í Reykholti og við Deildartunguhver.

Miðvikudagur 05. 06. 13 - 5.6.2013 22:00

Í dag ræddi ég við Kristínu Völundardóttur, forstjóra útlendingastofnunar, í þætti mínum á ÍNN. Við ræddum um málefni á verksviði stofnunarinnar. Á fyrstu mánuðum þessa árs hafa 98 sótt um hæli en voru alls 115 á síðasta ári, undanfarin þrjú ár hafa hælisleitendur á þessum fyrstu mánuðum ársins verið 30 talsins. Aukningin er þess vegna í raun gífurleg á þessu ári.

Kristín gaf enga skýringu á hvað veldur þessari breytingu. Ég dreg hins vegar þá ályktun af samtali okkar að ástæðan sé fyrst og síðast að ekki hafi verið tryggður nægilegur mannafli til að afgreiða beiðnir hælisleitenda í stofnun Kristínar og innanríkisráðuneytinu.

Þótt undarlegt sé fælir langur biðtími eftir afgreiðslu á hælisbeiðni fólk ekki frá að leggja fram beiðnina. Skattgreiðendur í ríkinu þar sem beiðnin er til afgreiðslu bera kostnað af dvöl hælisleitandans á meðan mál hans er til afgreiðslu. Kristín sagði að nær undantekningarlaust kærðu hælisleitendur úrskurð útlendingastofnunar til innanríkisráðuneytisins, nú bíða fleiri mál afgreiðslu í ráðuneytinu en hjá stofnuninni.

Um tíma fjölgaði óafgreiddum hælisumsóknum mjög í Noregi, lengri málahali kallaði í raun á fleiri umsækjendur. Til að snúa málum til betri vegar ákváðu norsk stjórnvöld að ráða 300 lögfræðinga til að úrskurða um umsóknir hælisleitenda og minnkaði bunkinn um mörg þúsund á tiltölulega skömmum tíma vegna hraðari afgreiðslu auk þess sem afgreiðsluhraðinn hafði í för með sér að hælisleitendum fækkaði.

Þegar að öllu er gáð er skynsamlegra að verja meira fé til að afgreiða hælisbeiðnir en að láta hælisleitendum fjölga jafnt og þétt, fjölgunin kallar á aukið fé til að standa undir kostnaði við dvöl fólksins á meðan mál þess er til afgreiðslu.

Ríkisvaldið getur ekki vikið sér undan að taka á þessum málum. Skipulagið ber að miða við skjóta og vandaða málsmeðferð opinberra aðila sem afgreiða mál á skömmum tíma með vísan til gegnsærra laga og alþjóðasamninga.

Næst má horfa á samtal okkar Kristínar klukkan 22.00 í kvöld síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Þriðjudagur 04. 06. 13 - 4.6.2013 20:50

Lengsta orðið (63 stafir) í þýsku lögbókinni:

Rindfleischetikettierungsüberwachungsaufgabenübertragungsgesetz

er horfið. Það var sett í hana vegna reglna gegn kúariðu í sambandslandinu Mecklenburg-Vorpommern og vísar til þess að með lögum er ákveðið hvernig megi framselja eftirlitshlutverki vegna merkinga á nautakjöti. Orðið var 18 stöfum lengra en lengsta orðið í ensku Oxford orðabókinni. Það er orðið pneumonoultramicroscopicsilicovolcanoconiosis um lungnasjúkdóm.

Á vefsíðunni SpiegelOnline segir að tæknilega séu engin takmörk fyrir hve orð geta orðið löng í þýsku og þar tengi menn saman orð til að lýsa einhverju Überschallgeschwindigkeitsflugzeug er orðið yfir hljóðfráa þotu. Fussballweltmeisterschaftsendrundenteilnehmer lýsir knattspyrnuliði sem komist hefur í heimsmeistarakeppni í knattspyrnu.

Kapitänskugelschreiber er kúlupenni skipstjóra.

Donaudampfschiffahrtsgesellschaftskapitänskugelschreiber er kúlupenni skipstjóra hjá Dónár-gufuskipafélaginu.

Donaudampfschiffahrtsgesellschaftskapitänskugelschreibertinte hér hefur blek verið sett í kúlupennan

Donaudampfschiffahrtsgesellschaftskapitänskugelschreibertintenfachgeschäft hér er nefnd til sögunnar verslun sem selur blek í þennan penna.

Donaudampfschiffahrtsgesellschaftskapitänskugelschreibertintenfachgeschäfts-führer hér er síðan forstjóri blekverslunarinnar kominn í hópinn. Þetta er 81 stafur.

Lengsta orðið í þýsku Duden-orðabókinni er Kraftfahrzeug-Haftpflichtversicherung, ábyrgðartrygging bifreiða, ekki nema 36 stafir.

Á vísindavef Háskóla Íslands er spurt hvort vaðlaheiðarvegavinnuverkfærageymsluskúraútidyralyklakippuhringur sé lengsta orð  á íslensku Guðrún Kvaran prófessor segir að ekki sé hægt að fullyrða um slíkt .

 

Mánudagur 03. 06. 13 - 3.6.2013 22:55

Í dönsku sjónvarpsstöðinni DR2 mátti í kvöld sjá þátt í heimildamyndaröð sem Arte og fleiri sjónvarpsstöðvar standa að og snýst um Kína og þróun þjóðlífsins þar frá örbirgð til auðlegðar. Þar sagði einn kínverskra viðmælenda að í landinu ríkti nú „markaðs-lenínismi“. Lýsir það stjórnarháttunum vel: markaðurinn kemur í staðinn fyrir Marx en stjórnskipulagið er reist á kenningu Leníns.

Deng Xiaoping arftaki Maós gaf fyrirmæli um að fólk ætti að stefna að því að verða ríkt. Stefnunni var hrundið í framkvæmd á hinn skipulega hátt sem við höfum séð síðustu 30 ár. Kínverskt þjóðfélag hefur tekið algjörum stakkaskiptum undir stjórn flokks 80 milljón manna í 1300 milljón manna samfélagi. Æðsta stjórn er í höndum níu manna stjórnmálaráðs sem endurnýjast á 10 ára fresti eftir leynilegum leiðum.

Í fréttum dagsins var sagt að menn hefðu áhyggjur af efnahagsástandinu í Kína. Þar væri vöxtur ekki nógu mikill, ekki „nema“ 7 til 8% í ár en hann hefur verið 9,22% að meðaltali frá 1989 til 2013. Þegar fréttamenn BBC ræddu þetta í morgun hlógu þeir af því að þetta væri kallaður efnahagsvandi og minntust fréttanna af evru-svæðinu þar sem vöxtur hangir í 0% eða í Bretlandi þar sem talið er að hagvöxtur verði 0,3% í ár.

Tæki sig einhver til hér á landi núna, færi að fordæmi Dengs og hvetti fólk til að setja sér að markmiði að græða og safna fé til að styrkja samfélagið og njóta lífsins gæða yrði sá hinn sami líklega úthrópaður sem óvinur haldinn illum 2007-anda. Deng áttaði sig á að í þjóðfélagi þar sem enginn er hvattur til dáða eru engin afrek unnin og ekkert gerist.

Sunnudagur 02. 06. 13 - 2.6.2013 23:30

Klukkan 10.00 í morgun hófu félagar í Atrium kvartettinum að flytja 15 strengjakvartetta eftir rússneska tónskáldið Dmitri Sjostakovitsj í Norðurljósum í Hörpu og luku þeir flutningnum klukkan 21.52, nákvæmalega á þeim tíma sem boðað var í dagskránni. Gert var hádegis- og kvöldverðarhlé í um klukkustund í hvort skipti og auk þess voru fáein styttri hlé. Kvartettinum var fagnað innilega að loknu þessu afreki, andlegu, líkamlegu og listrænu. Hljóðfæraleikararnir eru allir rússneskir, fæddir 1978 og 1979.

Nokkur hópur áheyrenda fylgdist með tónleikunum allan daginn. Ég hlustaði frá 15.40 og hreifst af áræði og færni hljóðfæraleikaranna. Viti ég rétt er þetta í fyrsta sinn sem kvartettinn tekst á við þessi mögnuðu verk, öll á einum degi á tónleikum. Þau hafa leikið alla kvartettana inn á hljómdiska og búa sig undir að endurtaka heildarflutninginn annars staðar en á Listahátíð í Reykjavík, hafi þau staðist áraunina hér að eigin mati.

Áheyrendur voru dolfallnir yfir að hafa fengið þetta tækifæri til að njóta frábærrar tónlistar Sjostakovitsj á þennan einstæða hátt.

Laugardagur 01. 06. 13 - 1.6.2013 22:15

Beint áætlunarflug Icelandair til St. Pétursborgar í Rússlandi hófst í dag.  Þetta er í fyrsta sinn sem boðið er upp á beint áætlunarflug á milli Íslands og lands í Evrópu utan Schengen-samstarfsins – fyrir utan Bretland sem er í ESB. Flogið verður tvisvar í viku til 17. september. Hinn mikli munur á Bretlandi og Rússlandi er að Rússar þurfa vegabréfsáritun til Íslands en ekki Bretar. Áritun til Íslands opnar Rússum leið um allt Schengen-svæðið.

Samhliða því sem þetta flug hefst tekur sendiráð Íslands að sér útgáfu vegabréfsáritunar af sendiráði Dana sem annast hefur þessa þjónustu við þá sem hafa viljað áritun til Íslands.

Íslendingar hafa kynnst því að hingað kemur fólk án áritunar frá löndum utan Schengen-svæðisins, eyðileggur skilríki sín og sækir um hæli sem flóttamenn en leitast síðan við að laumast vestur um haf. Reglur segja að þetta fólk eigi að leita heimildar til dvalar á Schengen-svæðinu í „upphafslandi“ á svæðinu – nú verður Ísland slíkt „upphafsland“ gagnvart þeim sem koma frá Rússlandi.


Í dag hófst sýningin Íslensk myndlist 1900-1950: Frá landslagi til abstraktlistar á Kjarvalsstöðum. Listasafn Reykjavíkur kynnir sýninguna sem sögulegt yfirlit íslenskrar myndlistar frá 1900-1950 þar sem hátt í tvö hundruð málverk og höggmyndir eftir 40 listamenn séu til sýnis í Vestursal og Kjarvalssal. Verkin á sýningunni koma víða að, frá listasöfnum, stofnunum og einkasöfnum. Mörgum verkanna á sýningunni er lýst sem mikilvægum í íslenskri listasögu og hafa ekki verið sýnd um langt árabil. Ólafur Kvaran, fyrrverandi forstöðumaður Listasafns Íslands, er sýningarstjóri.

Sýningin hlýtur að draga að sér marga gesti enda er mjög þess virði að gefa sér tíma til að skoða hana.