Dagbók: júní 2011

Fimmtudagur 30. 06. 11. - 30.6.2011

Í dag kom út veftímaritið Stjórnmál og stjórnsýsla . Útgefandi þess er Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála. Hún er rannsóknar- og þjónustustofnun stjórnmálafræðideildar og hennar samstarfsaðila og starfar sem sjálfstæður aðili í tengslum við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Ásta Möller, fyrrverandi alþingismaður, stjórnar stofnuninni.

Að þessu sinni skrifa ég grein í tímaritið undir fyrirsögninni: Þegar Rumsfeld lokaði Keflavíkurstöðinni og lýsi ég þar aðdraganda þess að bandaríska varnarliðið hvarf héðan af landi brott 30. september 2006. Upphaf greinarinnar er á þessa leið:

„Nýlega birtist vefsíða með gögnum Donalds Rumsfelds, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna frá 20. janúar 2001 til 18. desember 2006 Gögnin á síðunni staðfestu þá skoðun mína að Rumsfeld hefði ráðið úrslitum um lokun Keflavíkurstöðvarinnar.

Rumsfeld segir í ævisögu sinni Known and Unknown sem kom út í febrúar 2011: „Iceland was a wake-up call for me. If it was that hard to change our posture there changes elsewhere in the world would even be more difficult (bls. 304).“ Af þessum orðum má draga þá ályktun að reynsla Rumsfelds af því að loka Keflavíkurstöðinni hafi ráðið miklu um framgöngu hans annars staðar.

Sagan um brottför varnarliðsins er öðrum þræði lýsing á stjórnarháttum í Washington. Hvað eftir annað erum við minnt á að stóru ríkin ráða að lokum. Viðfangsefni stjórnenda annarra ríkja er að laga sig að aðstæðum án þess að fórna megin hagsmunum
þjóða sinna.

Þegar Ásta Möller mæltist til þess að ég ritaði þessa grein óskaði hún þess sér staklega að ég lýsti þætti mínum í umræðum um varnarmálin undanfarin 20 ár. Í greininni leitast ég við að verða við þeirri ósk.“

Greinina má lesa hér.

Í þessu sama hefti af Stjórnmálum og stjórnsýslu birtist ritdómur eftir Ólaf Ísleifsson, hagfræðing og lektor við Háskólann í Reykjavík, um bók mína Rosabaug yfir Íslandi og má lesa hann hér.

Miðvikudagur 29. 06. 11. - 29.6.2011

Í dag ræddi ég við Einar Má Guðmundsson rithöfund í þætti mínum á sjónvarpsstöðinni ÍNN. Tilefnið var ný bók hans Bankastræti núll sem ég skrifa einnig um í nýjasta hefti tímaritsins Þjóðmála sem er verið að dreifa til áskrifenda og í verslanir.

Ég hvet menn til að lesa bók Einars Más til að kynnast því hvernig rithöfundur skrifar sig inn í samtímann á eftirminnilegan hátt. Allt annar og heilbrigðari tónn er í málflutningi Einars Más en þeirra rithöfunda sem lögðu Baugsmönnum lið fyrir bankahrun. Frá þeim segi ég í Rosabaugi yfir Íslandi sem nú er kominn í 2. prentun.

Í samtali okkar minntist Einar Már þess að hann hefði á sínum tíma verið rekinn frá Stöð 2 sem pistlahöfundur en frá því segir hann í Hvítu bókinn sem hann sendi frá sér fyrir nokkrum misserum. Hún vakti mikla athygli í útlöndum.

Einar Már telur fráleitt að leggja á skattgreiðendur að axla tap af rekstri einkabanka. Í dag samþykkti gríska þingi fyrri hluta aðgerða ríkisstjórnar Grikklands sem miða að því að þýskir og franskir bankar tapi engu þótt gríska ríkið sé gjaldþrota, grískir skattgreiðendur standi undir skuldum ríkisins við bankana.

Breska vikuritið The Spectator birti í leiðara sínum 25. júní ádrepu vegna harðræðis ESB og AGS gagnvart Grikkjum sem blaðið líkir við sadisma jafnframt vekur blaðið athygli á því að Íslendingar hafi sýnt skynsemi með því að axla ekki skuldir einkarekinna banka. Blaðið telur það mesta blessun Íslendinga á þessum örlagatímum að standa utan evru-svæðisins.

Þriðjudagur 28. 06. 11. - 28.6.2011

Ótrúlegur munur var á lofthita í Fljótshlíðinni í dag miðað við kalda norðanáttina í gær. Nú er dagurinn farinn að styttast aftur og sumarið tæplega komið hér á suðurlandi hvað þá heldur fyrir norðan.

Fyrirtækið Tal efnir nú til söluherferðar hér í 105 Reykjavík. Kynningarseðill er sendur og síðan ganga sölumenn í hús og bjóða 44% lægri gjöld en Síminn og 31% lægri gjöld en Vodafone. Hvort þjónustan er hin sama veit ég ekki. Verðmunurinn er hins vegar sláandi.

Stórmerkilegt var að hlusta á Michael Porter Harvard-prófessor í Kastljósi kvöldsins þegar hann hvatti til mikillar sóknar Íslendinga í jarðvarmamálum. Hann sagði meðal annars eftir því sem stendur á mbl.is:

„Ég held að hér ríki of mikil svartsýni. Hún er að hluta vegna viðbragða við gríðarlega niðurdrepandi niðursveiflu í efnahagslífinu sem fæstir Íslendingar bera ábyrgð á. Erlendar fjárfestingar, sem snúast um hátækni, vel launuð störf og þátttöku landsins í hagkerfi heimsins á mikilvægu sviði eru gríðarlega mikilvægar. En ég held að  þjóðin tengi með einhverjum hætti erlendar fjárfestingar við fjármálahrunið. En vandamálið var ekki að erlend fyrirtæki kæmu til Ísland og gerðu þar eitthvað af sér.“

Þetta er rétt hjá Porter. Hann lagði áherslu á að einkaaðilar yrðu að taka frumkvæði til að mynda hér jarðvarmaklasa sem myndi skila sér margfalt og styrkja innviði samfélagsins. Þetta yrði þó ekki gert án þess að pólitísk forysta yrði einnig skýr. Allir vita að þar stendur hnífurinn í kúnni.

Fram til 9. apríl skýldu ráðherrar sér á bakvið Icesave, yrði ekki sagt við afarkostum Breta og Hollendinga myndi enginn erlendur fjárfestir koma til landsins. Þetta voru ósannindi eins og annað sem ríkisstjórnin sagði fyrir 9. apríl um Icesave. Ríkisstjórnin sjálf er helsti þröskuldurinn í vegi erlendrar fjárfestingar.




Mánudagur 27. 06. 11. - 27.6.2011

Fyrir hrun var blásið á allar viðvaranir um að íslensku bankarnir væru á rangri leið. Þegar Morgunblaðið birti fréttir um þetta efni og vísaði meðal annars í úttektir á vegum Danske bank var talað um öfund Dana vegna þess hve Íslendingum vegnaði vel í fjármálaheiminum.

Eftir bankahrunið tóku menn að býsnast yfir því að enginn hefði vitað neitt í sinn haus og nú hefur verið höfðað landsdómsmál á hendur Geir H. Haarde með vísan til þess að hann hafi ekki sem forsætisráðherra tekið réttar pólitískar ákvarðanir í aðdraganda bankahrunsins.

Ástæða er til að rifja þetta upp í dag, 27. júní, þegar Össur Skarphéðinsson heldur með fríðu föruneyti til Brussel til að hefja hinar „eiginlegu samningaviðræður“ um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Váboðar um að Össur sé á rangri leið í ESB-málinu eru alls staðar. Meirihluti þjóðarinnar er andvígur aðild. Kröfur Íslands og ESB eru ósamrýmanlegar í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum. ESB er í upplausn. Þaðan hafa borist boð frá stækkunarskrifstofu ESB sem benda til þess að þar á bæ vilji menn hægja mjög á viðræðunum við Ísland eða jafnvel gera hlé á þeim. Össur sagði hins vegar í Brussel að hann vildi flýta viðræðunum!

Þegar við blasir betur en nú að Össur leiddi þjóðina í ógöngur með því að stjórna ESB-málinu „listilega“, svo að notað sé orð Þorsteins Pálssonar, sem er í samninganefnd fyrir Össur, verður spennandi að vita hvort einhverjum dettur í hug að stefna honum fyrir landsdóm vegna þess að hann tók rangar ákvarðanir um samskipti Íslands og ESB og olli þjóðinni tjóni bæði fjárhagslegu og vegna orðspors hennar.

Sunnudagur 26. 06. 11. - 26.6.2011

Spenna magnast nú á evru-svæðinu vegna atkvæðagreiðslu í gríska þinginu fyrir lok vikunnar um efnahagsaðgerðir sem ráða munu úrslitum um hvort Grikkir verði áfram gjaldgengir á evru-svæðinu eða ekki.

Það er í raun með ólíkindum að fylgjast með sviptingunum í kringum evruna vegna skuldavanda Grikkja. Æ fleiri tala nú um evru-kreppu en vanda Grikkja, Portúgala eða Íra. Gjaldmiðilssamstarfið hefur misheppnast, spurningin er hvort unnt verði að koma því á réttan kjöl eða ekki.

Stórundarlegt er hvernig þeir bregðast við evru-vandanum og Schengen-vandanum hér á landi sem vilja Ísland inn í ESB.

Egill Helgason fjallar um efnahagsmál líðandi stundar eins og ófarirnar megi rekja til Ronalds Reagans og Margaret Thatcher sem stjórnuðu í Bandaríkjunum og Bretlandi fyrir rúmum 20 árum. Þetta er ótrúleg vitleysa. Hvergi í Evrópu sjást þess merki að menn fyllist ofurtrú á því að ríkisvaldið geti með aukinni skattheimtu og höftum leyst efnahagsvandann. Aðeins hér á landi er skatta- og haftastefnu beitt og afleiðingarnar eru hörmulegar. Hvarvetna annars staðar í Evrópu er leitast við að takmarka hlut ríkisins til að komast sem fyrst út úr kreppunni. Varla heldur Egill að Reagan og Thatcher hafi komið á evrunni? Hún er að reynast hinn mikli skaðvaldur innan Evrópusambandsins.

Grímur Atlason segir í bloggi sínu að við Hjörleifur Guttormsson séum sammála í afstöðunni til Schengen-samstarfsins og höllumst að einhvers konar þjóðernislegri lýðskrumsstefnu. Hjörleifur hefur skrifað á móti Schengen-aðildinni. Það hef ég hvergi gert, þvert á móti hef ég mælt með henni. Ég tel hins vegar stórhættulegt að hætt hafi verið allri sérgreindri Schengen-hagsmunagæslu af hálfu Íslands í Brussel.

Hinar „eiginlegu samningaviðræður“ fulltrúa Íslands og ESB hefjast á morgun. ESB-aðildarsinnar hafa nú í tæp tvö ár kvartað undan skorti á „upplýstri umræðu“. Hún verður hvorki byggð á því að Reagan og Thatcher séu undirrót alls ills innan ESB né að við Hjörleifur Guttormsson séum sammála um afstöðuna til Schengen og þar með þjóðernislegir lýðskrumarar yst til hægri!

Laugardagur 25. 06. 11. - 25.6.2011

Leiðtogar ESB ríkjanna tóku ákvarðanir sem snerta okkur Íslendinga sem Schengen-þjóð á fundi sínum í Brussel 23. og 24. júní.

Í fyrsta lagi féllust þeir ekki á tillögu frá framkvæmdastjórn ESB um breytingu á því ákvæði Dublin-reglnanna un hælisleitendur sem snýr að því hvar eigi að afgreiða umsókn þeirra um hæli á Schengen-svæðinu. Það ber áfram að gera í því ríki þar sem koma fyrst inn á svæðið. Vegna vandræða Grikkja við afgreiðslu hælisumsókna hefur mannréttindadómstóll Evrópu sagt að ómannúðlegt sé að endursenda hælisleitendur þangað til að fá mál sín afgreidd. 47.000 hælisleitendur eiga umsóknir sínar óafgreiddar í Grikklandi.

Í öðru lagi samþykktu leiðtogarnir að Schengen-ríki hefðu heimild til að taka upp vegabréfaeftirlit á innri landamærum Schengen-svæðisins ef eftirlitskerfi á ytri landamærunum dygði ekki vegna sérstakra aðstæðna eins og nú þegar tugir þúsunda streyma frá N-Afríku til Evrópu.

Um nokkurra ára skeið hafði dómsmálaráðuneytið sérstakan fulltrúa til að fylgjast með framvindu Schengen-mála í Brussel, undirbúa og taka þátt í fundum um málið en íslenskur ráðherra á rétt til setu í ráðherraráði Schengen-samstarfsins. Þessari hagsmunagæslu hefur nú verið lokið í sparnaðarskyni.

Ég er fylgjandi þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu enda sé hagsmuna þjóðarinnar gætt á öllum stigum þátttökunnar í samræmi við reglur um það efni. Íslendingum ber einnig að fara eftir Dublin-reglunum.

Í umræðum um evruna og hinn mikla vanda hennar eru hinn sameiginlegi gjaldmiðill og Schengen-samstarfið nefnd sem þeir þættir þar sem samstarf Evrópuríkjanna hefur náð lengst en nú sé hvoru tveggja stefnt í voða vegna innri ágreinings.

Föstudagur 24. 06. 22. - 24.6.2011

Nú er Fjalladrottningin mín borin, tvær gimbrar komu í heiminn hjá Viðari í Hliðarbóli sl. nótt. Hér má sjá mynd af Fjalladrottningunni sjálfri:

Fjalladrottning 24/6/11Hún hefur valdið mörgum höfuðverk hér í sveitinni enda hélt hún sig á fjöllum í nokkra vetur þar til hún birtist eftir öskufallið mikla úr Eyjafjallajökli í fyrra. Þá gekk hún innan úr Þórólfsfelli fram hlíðina. Var hún í nokkrar vikur að Hliðarbóli en stökk þaðan þegar öskufallinu lauk. Hún lét ekki ná í sig í smalamennskunni sl. haust. Var gert grín að því á þorrablótinu að ekki hefði náðst í hana. Að morgni sunnudagsins eftir blótið stóð hún hins vegar við fjárhúshliðið að Fljótsdal og beið þess að opnað yrði fyrir henni. Fjalladrottningunni var að sjálfsögðu fagnað og einnig af hrúti þegar hún kom í Hlíðarból. Hér má sjá hana með gimbrunum sínum:

Fjalladrottning með lömb











Nú er að sjá hve lengi hún lætur sig hverfa eftir að hún fær frelsi að nýju á afréttinni.

Fimmtudagur 23. 06. 11. - 23.6.2011

Önnur prentun bókar minnar Rosabaugur yfir Íslandi kom út í dag. Hún hefur verið uppseld hjá útgefandanum, Bókafélaginu Uglu, í tvær vikur. Salan varð meiri og örari en ég vænti.

Tal Steingríms J. Sigfússonar í Kastljósi kvöldsins um breytingar á bílaeign landsmanna og aðra slíka hluti þegar hann var gagnrýndur fyrir aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar í vegamálum var ósannfærandi. Það leiddi einnig enn á ný í ljós ágreining milli Steingríms J. og Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra um aðgerðir í vegamálum. Þegar Steingrímur J. lýsti eldsneytisverði hér á landi í lægri kantinum spurði Helgi Seljan Kastljósmaður hann hvort ekki ætti að líta á verðið í samhengi við kaupmátt. Steingrímur J. komst upp með að svara ekki spurningunni.

Á forsíðu Morgunblaðsins í dag er sagt frá því að öll verktakastarfsemi í landinu sé að lamast vegna verkefnaskorts. Þá kemur einnig fram að við blasi alvarlegur læknaskortur. Þetta eru váboðar um verra samfélag undir vinstri stjórn.

 

Miðvikudagur 22. 06. 11. - 22.6.2011

Ég sé að Bubbi Morthens bloggar á Pressuna í dag um Rosabaug yfir Íslandi og segir meðal annars:

„Ég var að lesa bókina hans Björns Bjarnasonar þar sem hann reynir að færa sönnur fyrir því að óhamingja Íslands sé Jóni Ásgeiri að kenna og vinum hans og vinum vina hans. Gott og vel, menn reyna að skrifa söguna upp á nýtt!“

Þegar ég las þessar fyrstu setningar í umsögn Bubba um bókina sá ég í hendi mér að hann hafði lesið aðra bók en ég skrifaði. Bók mín er ekki nein ný uppskrift að sögunni. Þvert á móti rekur hún sögu Baugsmálsins samkvæmt opinberum heimildum.  Ég er ekki að sanna neitt nýtt í Baugsmálinu. Á hinn bóginn er ég sannfærður um að kynni menn sér bókina sjái þeir bakhlið málsins. Þá bendi ég á hve undarlegt er að þessa máls sé ekki getið í skýrslu rannsóknarnefndar alþingis þar sem kvartað sé undan skort á opinberu eftirliti.

Af umsögnum nokkurra manna um bók mína, þar á meðal Bubba, dreg ég þá ályktun að því fari fjarri að undir stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar hafi verið búið svo um hnúta að gegnsæi ríki um þátttöku manna í viðskiptalífinu og þeir sem gengu hart fram við að tæma banka innan frá séu ekki að búa sig undir að verða þátttakendur í nýrri sveiflu. Því til stuðnings bendi ég á þessi orð Bubba þegar hann fjallar um bók mína:

„Útrásarvíkingar hafa aldrei verið orsökin fyrir hruninu, þeir voru og eru afleiðing stefnu Davíðs Oddsonar og þeirra manna sem voru hvað harðastir í því að láta drauma sína rætast og notuðu Ísland og þá sem landið byggja sem tilraunardýr. Draumur þeirra varð að martröð og núna reyna þeir að endurskrifa söguna einn af öðrum.“

Þessi orð stangast á við allt sem er satt og rétt þegar litið er til þess sem gerðist á árunum fyrir bankahrunið. Þurfi einhverjir að endurskrifa söguna til að rétta hlut sinn vegna bankahrunsins eru það þeir sem Bubbi tekur að sér að hvítþvo í pistlum sínum. Er sorglegt að sjá það leggjast fyrir Bubba að ganga erinda fjármálafursta með þessum ósannindum.

Þriðjudagur 21. 06. 11. - 21.6.2011

Lengsti dagur ársins og manni finnst varla að sumarið sé komið. Í dag var að vísu ekki eins loftkalt og verið hefur. Kannski  er veðrið að breytast til batnaðar.

Við litum í gær inn á sýninguna Myndin af Þingvöllum í Listasafni Árnesinga, Hveragerði, en Einar Garibaldi Eiríksson er sýningarstjóri. Þetta er forvitnileg sýning og vel þess virði að líta inn í hið myndarlega hús listasafnsins í Hveragerði. Einar Hákonarson listmálari reisti húsið af miklum stórhug á sínum tíma.

Meirihluti borgarbúa treystir Hönnu Birnu Kristjánsdóttur best til að gegna embætti borgarstjóra eða rúm 50% en um 17% treysta Jóni Gnarr. Þá segjast um 44% munu kjósa Sjálfstæðisflokkinn ef efnt yrði til borgarstjórnarkosninga nú. Flokkurinn í Reykjavík undir forystu Hönnu Birnu nýtur um 10 prósentustiga  meira fylgis en Sjálfstæðisflokkurinn á landsvísu samkvæmt síðustu könnun.

Jón Gnarr og Besti flokkurinn eru í frjálsu falli eins og eðlilegt er miðað við hvernig haldið er á stjórn borgarinnar. Jón Gnarr situr í embætti sínu í umboði Dags B. Eggertssonar og Samfylkingarinnar. Hvar sem Samfylkingin kemur að stjórn mála er eitthvers konar klúður.


Mánudagur 20. 06. 11. - 20.6.2011

ESB-aðildarsinnar eru að færa sig upp á skaftið þegar dregur að því að fulltrúar Íslands og ESB setjast að viðræðum um efnisþætti eftir að svonefndri rýnivinnu er lokið. Efnisviðræðurnar hefjast 27. júní að sögn Stefáns Hauks Jóhannessonar, formanns íslensku viðræðunefndarinnar.

Embættismenn utanríkisráðuneytisins sömdu álit meirihluta utanríkismálanefndar alþingis með það í huga að þeir hefðu frjálsar hendur við að móta samningsmarkmiðin í viðræðunum við ESB og haga viðræðunum þannig að ekki skærist í odda milli þeirra og embættismanna ESB. Þessa skoðun rökstuddi ég í pistli sem ég skrifaði hér á síðuna í dag.

Eitt af því sem vinstri-grænir í ríkisstjórn og á alþingi hafa gert til að árétta að þeir séu andvígir aðild að ESB er að segjast vera andvígir því að Ísland sæki um svonefnda IPA-styrki, það er ESB-aðlögunarstyrki. ESB-aðildarsinninn Baldur Þóhallsson hafði ekki fyrr sest á alþingi sem varamaður en hann spurði flokksbróður sinn, Össur Skarphéðinsson, um IPA-styrkina, hvernig gengi að sækja um þá. Þrátt fyrir annir í þinglok svaraði Össur á stundinni, hann hefði séð til þess að sótt hefði verið um sjö styrki. Baldur tengdi styrkina hugsanlegri ESB-aðild eins og eðlilegt er, annars gæti Össur ekki sótt um þá. Össur tók fram í svari sínu að verkefnin tengdust ekki ESB-aðildinni! Hér má lesa um þetta.

Spurning Baldurs og svar Össurar eiga að sýna embættismönnum ESB að Össur ráði ferðinni í ESB-málum innan ríkisstjórnarinnar. Líta beri á mótbárur VG sem æfingar til heimabrúks sem tefji á engan hátt fyrir því að aðildaráformin nái fram að ganga,

Sunnudagur 19. 06. 11. - 19.6.2011

Fljótshlíðarveðrið var fagurt í dag þótt lofthitinn hefði mátt vera meiri.Við tókum þátt í því að fara með fé upp að Reynifelli vestan við Þríhyrning. Þaðan heldur það inn á afréttina. Þegar stigið er í þurrt grasið kemur ryk úr sporinu, líklega aska. Merkilegt er að þetta skaði ekki öndunarfæri fjárins.

Í dag bárust fréttir um að Jelena Bonner, mannréttindafrömuður í Rússlandi og ekkja Andreis Sakharovs friðarverðlaunahafa hefði látist í Moskvu 88 ára að aldri. Ég heimsótti hjónin í Moskvu í mars1987 eins og ég lýsti í Morgunblaðinu á þeim tíma en frásögnin er endurbirt í bók minni Í hita kalda stríðsins. Mér er þessi heimsókn mjög minnisstæð og hef síðan haft ljósmynd af mér með þeim hjónum, sem birtist með frásögn minni, í skrifstofum vinnustaða minna.

Ógjörningur er að eiga rökstuddan orðastað við Ólaf Arnason, dálkahöfund á Pressunni, um hegningarlagabrotið sem leiddi til þess að Jón Ásgeir Jóhannesson í Baugi var dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi 5. júní. Ólafur heldur því fram að bókhaldsbrot Jóns Ásgeirs hafi verið minniháttar þótt hann hafi verið dæmdur til refsingar fyrir meiriháttar bókhaldsbrot með allt að 6 ára refsiramma, sambærilegum og fyrir fjárdrátt.

Að Ólafur skuli halda áfram að væna mig um vísvitandi, ómaklega árás á Jón Ásgeir með augljósri ritvillu um refsingu hans er í anda þess málflutnings í þágu Baugsmanna sem ég lýsi í bók minni Rosabaugi yfir Íslandi. Ég hélt að dylgjur af þessu tagi væru hluti fortíðarskrifa þeirra álitsgjafa sem tóku málstað Baugsmanna fram að bankahruni.


Laugardagur 18. 06. 11. - 18.6.2011

Ég sé að Gunnlaugur Júlíusson, langhlaupari með meiru, hefur lesið bók mína Rosabaug yfir Íslandi á nýlegri ferð sinni til Parísar og skrifar vinsamlega um hana eins og lesa má hér. Hann víkur meðal annars að þeim sem hafa látið eins og þeir séu að skrifa um bókina en komast ekki yfir að ég skuli hafa skrifað hana og lýsa í raun frekar óvild sinni í minn garð en því sem í bókinni segir.

Önnur prentun bókarinnar ætti að koma á markað í næstu viku og þá kemur hún einnig út á rafrænu formi fyrir þá sem eiga iPad. Ég á ekki slíkt tæki en Jón Axel Ólafsson sýndi mér bókina í því á dögunum og vakti það undrun mína, sannkallað undratæki.

Þeir sem lesa bókina á iPad og eru nettengdir við lesturinn geta með því að slá á tilvitnanir í rafrænar heimildir skoðað frumheimildina sjálfa. Í raun má einnig setja tengingar í þingræður hvort heldur ritað mál, hlustun eða áhorf þeirra í slíkar bækur auk þess sem unnt er að tengja þær við efni sem geymt er í hlaðvörpum.

Eftir lausleg kynni af iPad og því sem unnt er að gera með því tæki og nýjustu snjallsímum, sem eru í raun bæði hljóðnemar og sjónvarpsmyndavélar, heyra síður eins og þessi hér, svo að ekki sé talað um hefðbundnar bækur, brátt til veraldar sem var.





Föstudagur 17. 06. 11. - 17.6.2011

Þjóðhátíðin var með hefðbundnu sniði í Fljótshlíðinni. Um 300 manns komu saman í Goðalandi, þar sem séra Önundur Björnsson flutti ávarp og Guðrún Ásmundsdóttir leikkona hátíðarræðu í minningu Tómasar Sæmundssonar og Sigríðar konu hans. Þá fengu þeir sem reka hótel Fljótshlíð viðurkenningu. Loks nutu gestir glæsilegra kaffiveitinga á vegum kvenfélagsins.

Hrafnseyri0012Myndin hérna við hliðina er tekin á varðskipinu Óðni fyrir 50 árum, 17. júní 1961. Áhöfnin myndar heiðursvörð þegar herra Ásgeir Ásgeirsson, forseti Íslands, yfirgefur skipið við Hrafnseyri í Arnarfirði. Hann flutti þar ræðu þegar áform hans um endurreisn Hrafnseyrar í minningu Jóns Sigurðssonar urðu að veruleika. Ég er einn þeirra sem mynda heiðursvörðinn. Gunnar Vigfússon sendi mér þessa mynd á dögunum en Vigfús Sigurgeirsson, faðir hans, tók hana.

Fimmtudagur 16. 06. 11. - 16.6.2011

Ólafur Arnarson álitsgjafi ritaði um Rosabaug yfir Íslandi á vefsíðuna Pressuna í dag, Umsögnin var eins og við mátti búast úr þeirri átt. Ég átti ekki von á því að Ólafur yrði sammála skoðun minni á Baugsmálinu. Eitt er að vera ósammála höfundi annað telja það bók til lasts að höfundur hafi skoðun. Ólafur fann að því að prentvillupúkinn hefði tekið fram fyrir hendur á mér. Hann er hins vegar svo óheppinn að sjálfur fer hann rangt með brotið sem leiddi til refsingar yfir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni. Ólafur segir það hafa verið „minniháttar“ bókhaldsbrot - það var hins vegar meiri háttar og varðar við almenn hegningarlög.

Hér má sjá þátt minn á ÍNN frá því 15. júní þegar ég ræddi við Andra Árnason hrl., lögmann Geirs H. Haarde, í landsdómsmálinu. Þeir sem hafa fylgst með málinu og umræðum um pólitíska hlið þess ættu að skoða þennan þátt og fá sýn á lögfræðilega hlið þess. Með því átta þeir sig betur en ella á því hve fráleit málshöfðunin og ákæran er.

Miðvikudagur 15. 06. 11. - 15.6.2011

Í dag ræddi ég við Andra Árnason hrl.,verjanda Geirs H. Haarde í landsdómsmálinu, í þætti mínum á ÍNN. Þátturinn er sendur út á tveggja tíma fresti og síðasta sinn klukkan 18.00 á morgun og síðan að nýju um næstu helgi.

Enginn sem hlustar á Andra getur efast um að einkennilega er staðið að málinu af hálfu alþingis og saksóknara að fyrirmælum þess. Málið er lagt fyrir dómara með ákæru án þess að í henni sé að finna hinn minnsta rökstuðning. Nefnd alþingis sem undirbjó ákæruna hafði ekki upp neina viðleitni til að sinna rannsóknarskyldu sem eðlilegt að liggi að baki ákæru. Ákvörðunin er reist á pólitísku mati og saksóknari alþingis tekur fram í ákærutexta sínum að hann fari að fyrirmælum þingsins.

Ég dreg í efa að lögfræðingarnir í rannsóknarnefnd alþingis, Páll Hreinsson hæstaréttardómari og Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður alþingis, hafi talið skýrslu sína til alþingis hæfilegt skjal að baki ákvörðunar um ákæru Nefnd Atla Gíslasonar, þingmanns vinstri-grænna, stóð hins vegar þannig að málum að skýrsla rannsóknarnefndarinnar dygði til ákæru auk þess sem Atli bar fyrir sig álit sérfróðra manna. Þetta skjól Atla á bakvið sérfróða menn virðist ekki halda vatni.

Andri fer hörðum orðum um óvandaða ákæru í samtalinu við mig. Ég spurði hann hvernig ákæran stæði í samanburði við kröfur dómara til efni ákæru í Baugsmálinu. Svar hans sýndi að landsdómsákæran kolfellur yrði sama kvarta beitt á hana og notaður var í Baugsmálinu. Telur landsdómur sig bundinn af fordæmum frá hæstarétti í sakamálum þar? Það á eftir að koma í ljós.

Frá því að alþingi samþykkti ákæruna hefur meirihluti þess skipað sér í lið með saksóknara sínum með lagabreytingu sem bindur að sjálfsögðu dómaranna. Andri taldi víst að löggjafinn mundi ekki blanda sér meira í málið. Ég tel að ekki eigi að útiloka neitt í því efni. Einbeittur vilji meirihluta þingmanna til að ná sér niðri á Geir H. Haarde og Sjálfstæðisflokknum er slíkur að líklegt er að ekki verður neins svifist til að ná fram sakfellingu.

Þriðjudagur 14. 06. 11. - 14.6.2011

Undarlegt þótti mér að lesa árás Guðmundar Andra Thorssonar rithöfundar á Hannes Hólmstein Gissurarson í Fréttablaðinu í morgun. Þar veittist Guðmundur Andri að Hannesi fyrir að fræða nemendur um yfirburði markaðshagkerfisins í samanburði við sameignarstefnuna.

Erfitt er að túlka þessa grein rithöfundarins á annan veg en sem málsvörn fyrir sósíalisma og sameignarstefnu. Þjóðfélagsskoðun hans á undir högg að sækja alls staðar í Evrópu ef marka má úrslit kosninga og gífurlegan vanda tveggja vinstristjórna sem enn sitja við völd innan ESB, á Spáni og í Grikklandi.

Í ESB-ríkjum er ekki þörf á Hannesi Hólmsteini til að sannfæra kjósendur um að skynsamlegt sé að kjósa þá sem vilja minnka ríkisumsvif í stað þeirra sem hafa ofurtrú á ríkisafskiptum. Hér á landi hafa slík afskipti nú þróast á þann veg að leitað er að gjaldeyri í vösum og veskjum manna á leið úr landi í Leifsstöð Er þetta gert samkvæmt sérstökum fyrirmælum úr Seðlabanka Íslands.

Hlálegt er einnig við grein Guðmundar Andra að fyrir hrun skipaði hann sér í sveit með Samfylkingunni sem þótti ekki nóg að gert til að skapa sem mest svigrúm fyrir þá sem rithöfundurinn kallar nú „útrásardólga“. Þá lét hann sig ekki heldur muna um að skrifa dálka sína í helsta málgagn Baugsmanna, Fréttablaðið.

Helsta frétt á RÚV í dag hefur verið um Íslendinga í norska hernum sem meðal annars hafa verið sendir til Afganistan. Fyrir 30 árum fórum við Kjartan Gunnarsson saman til Líbanon að landamærum Ísraels og hittum Arnór Sigurjónsson sem þá var lautinant í norska hernum við friðargæslu á þessum slóðum. Þetta var átakasvæði eins og ég lýsti í greinaflokki sem birtist í Morgunblaðinu á sínum tíma og birtist einnig í bók minni í Hita kalda stríðsins.

Mánudagur 13. 06. 11. - 13.6.2011

Í dag skrifaði ég pistil um viðtökur á bók minni Rosabaugur yfir Íslandi. Áhuginn á henni er mikill og er hún uppseld. Önnur prentun er væntanleg. Ég er ekki frá því að áhugi sé á efninu erlendis þótt nálgast yrði viðfangsefnið á annan hátt á erlendum markaði. Hvort ég ræðst í umritun bókarinnar fyrir erlendan markað hef ég ekki ákveðið. Hitt er víst að Baugur var umsvifamikill í Danmörku og Bretlandi. Þá er aðferðin sem beitt var hér á landi til að virkja stjórnmálamenn og fjölmiðlamenn í lið með hinum ákærðu þekkt víða um lönd. Að því leyti á efni bókarinnar erindi til annarra sem kunna að glíma við eigendur risafyrirtækja. Eitt er þó víst að hvergi hefur nokkurt fyrirtæki á borð við það sem Baugur var náð sambærilegum tökum á fjölmiðlamarkaði og hér reyndist unnt.

Hinn 1. júní ræddi ég við Birgi Ármannsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, í þætti mínum á ÍNN. Hér má sjá þáttinn.

Sunnudagur 12. 06. 11. - 12.6.2011

Loksins kom sumardagur í Fljótshlíðinni. Nokkuð öskuryk er í grasrótinni þegar ég slæ og raka. Fíngerð aska leggst á hús og bíla.

Fundum alþingis fyrir sumarleyfi lauk í gærkvöldi. Mest athygli beinist að flausturslegu frumvarpi Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um stjórn fiskveiða. Það er kallað minna frumvarpið því að einhver stærri vitleysa er til í öðru frumvarpi. Frumvörpin eru samsuða á stefnu Samfylkingarinnar og vinstri-grænna líklega með ívafi frá Frjálslynda flokknum sem ekki á lengur mann á þingi en hins vegar fyrrverandi formann sinn, Guðjón Á. Kristjánsson, sem sérlegan ráðgjafa Jóns um sjávarútvegsmál.

Helsta afrek þeirra Jóns og Guðjóns til þessa er að heimila svonefndar strandveiðar. Þar láta þeir að sér kveða sem hafa hagnast á því að selja frá sér kvóta en geta ekki hætt að veiða og byrja því upp á nýtt með ástundun strandveiða án kvóta. Í Frjálslynda flokknum hefur mönnum löngum verið tíðrætt um svonefndan gjafakvóta og vísa þar til þeirra sem fengu kvóta upphaflega í samræmi við veiðireynslu. Nú standa þeir Jón og Guðjón fyrir sannkölluðum gjafakvóta-bónusi, það er þeir sem hafa selt kvótann sinn geta hafið strandveiðar eins og ekkert sé.

Laugardagur 11. 06. 11. - 11.6.2011

Sótti brautskráningarhátíð Háskóla Íslands í Laugardalshöll klukkan 14.00 í dag í tilefni af 100 ára afmæli skólans. Nú eru um 14.000 manns í skólanum, meiri hluti konur. Athöfnin tók um tvo tíma og var allt skipulag til fyrirmyndar og Kristín Ingólfsdóttir rektor flutti gott ávarp.

Þegar ég gekk frá Laugardalshöll að Ásmundarsafni sá ég að eigendur bíla höfðu verið sektaðir fyrir að leggja upp á grasið fyrir vestan höfuðstöðvar ÍSÍ. Lögreglunni ætlar að ganga illa að kenna bílstjórum að virða bannið við að leggja þarna. Kannski hefst það með tímanum en vissulega fælist í því þjónusta við bifreiðaeigendur að sett yrðu skilti á þessum stað til að minna rækilega á bannið við að leggja bílum.


Föstudagur 10. 06. 11. - 10.6.2011

Í vikublaðinu Fréttatímanum segir í dag að Rosabaugur sé í 2. sæti á sölulista Eymundsson en samkvæmt auglýsingu sem birtist í gær hefur bókin verið í 1. sæti tvær vikur í röð. Hvaðan blaðið hefur upplýsingar sínar veit ég ekki.


Ég hef hins vegar unnið að því að búa bókina undir 2. prentun og í tilefni af því farið yfir hana og ákveðið að biðja Morgunblaðið að birta eftir eftirfarandi fyrir mig:

Rosabaugur

Bók mín Rosabaugur yfir Íslandi hefur hlotið góðar viðtökur og er uppseld hjá útgefanda.

Við undirbúning 2. prentunar sá ég mér til leiðinda fáeinar villur, einkum Rosabaugur_Kapa_HiResstafa- eða frágangsvillur.  Verst þótti mér að við lokafrágang bókarinnar, við heimildavinnu um dóm hæstaréttar 5. júní 2008, urðu mér á þau leiðu mistök að segja Jón Ásgeir Jóhannesson sakfelldann fyrir fjárdrátt. Með því vakti alls ekki fyrir mér að gera á hlut hans og bið ég hann afsökunar á mistökunum. Jón Ásgeir hlaut dóm samkvæmt 15. ákærulið fyrir meiri háttar bókhaldsbrot samkvæmt 2. mgr. 262 gr. almennra hegningarlaga en var sýknaður að öðru leyti af  ákæruliðum 2 til 17. Hann hlaut engan dóm samkvæmt 19. ákærulið eins og skilja má af texta mínum á bls. 368.  Þetta leiðrétti ég hér með og mun einnig gera í 2. prentun bókar minnar sem væntanleg er á markað innan skamms.

Ég þakka lesendum áhuga þeirra á bókinni og góð orð um hana. Bið ég þá velvirðingar á þeim villum sem hér eru nefndar.

Björn Bjarnason

 Þessi boðskapur á ekki siður erindi til lesenda síðu minnar.

Eftir að ég birti þetta hér að ofan ræddi vefsíðan Eyjan við Jón Ásgeir Jóhannesson sem sagðist ætla að „stefna Birni Bjarnasyni fyrir meiðyrði vegna rangfærslna í bók Björns, Rosabaugi yfir Íslandi“. Þá sagði Jón Ásgeir:

„Það er augljóst að Björn skrifaði þetta í bókina vitandi að hann væri að fara með rangt mál. Hver trúir því að hann hafi ekki vitað hvernig dómur féll í Baugsmálinu þegar hann skrifar 400 síðna bók um málið? Þetta sýnir best innræti Björns og hversu langt hann er tilbúinn að ganga.

Ég sakna þess að hann birti ekki tölvupósta á milli hans og Jónínu Ben. eða samtal hans og Óskars Magnúsonar sem varð til að sá síðarnefndi slapp við Baugs skattamálið. Hlutur hans hlutur í því máli var fimm sinnum stærri en sá hlutur sem menn fóru á eftir mér með.“

Ég verð að halda þessum ummælum til haga stefni Jón Ásgeir mér. Forvitnlegt að fá nánari skýringar á þeim.



Fimmtudagur 09. 06. 11. - 9.6.2011

Pétur Gunnarsson skrifaði ritdóm í Fréttablaðið í dag um Rosabaug og gaf bókinni þrjár stjörnur. Egill Helgason heldur áfram að skammast í minn garð vegna bókarinnar og gefur mér nú nafngiftina „kommúnistaveiðari“. Hann hallar sér að Inga Vilhjálmssyni sem skrifaði um bókina í DV en þeir Egill og Reynir Traustason, ritstjóri DV, koma báðir við sögu í bókinni.

Nú er bókin á þrotum hjá útgefanda. Hann býr sig undir aðra prentun enda getur hann ekki annað pöntunum ef ég skil rétt. Fyrir aðra prentun gefst mér færi á að fara yfir textann og laga misfellur sem því miður má finna eins og verða vill þegar svo víða er leitað fanga.

Síðdegis leit ég inn í gamla hótel Loftleiðir sem nú hefur hlotið nýtt yfirbragð og nefnist Reykjavík Natura. Mér sýndust breytingarnar hafa heppnast vel, á fyrstu hæð er allt miklu léttara og bjartara en áður.

Miðvikudagur 08. 06. 11. - 8.6.2011

Rosabaugurinn

er í efsta sæti hjá Eymundsson aðra vikuna í röð. Þeir sem eru á gömlu Baugsblöðunum DV og Fréttablaðinu hafa valið þann kost að þegja um bókina í tvær söluvikur hjá Eymundsson. Nú rjúfa þeir þögnina og reyna að gera bókina tortryggilega vegna höfundarins eins og sjá má á umsögn í DV í dag eftir Inga Vilhjálmsson sem er ósammála mati mínu en hrekur ekki neitt af því sem ég kynni til að rökstyðja það. Mér sýnist á skrifum hans að við verðum seint sammála. Ég uni því vel.

Stöð 2 hefur gert nokkuð veður út af því að Össur Skarphéðinsson sagðist á alþingi sjá snertipunkta við framsóknarmenn í tengslum við fiskveiðistjórnun. Flutti stöðin af þessu fréttir í fleiri en eitt skipti og bar orðin meðal annars undir sjálfa Jóhönnu sem vildi ekki ganga gegn Össuri heldur svaraði út í hött eins og venjulega þegar að henni er sótt. Orð Össurar eiga í raun ekkert skylt við fiskveiðistjórnun þau voru flutt til að árétta hve Jóhanna væri einsýn í málinu en hann víðsýnn og þar með betur til þess fallinn en Jóhanna að leiða Samfylkinguna inn á nýjar pólitískar veiðilendur.

Eyjan er vettvangur stuðningsmanna Össurar í valdabaráttunni sem er háð innan Samfylkingarinnar. Þar víkja menn úr vegi til að ergja Jóhönnu og fylgismenn hennar. Þegar litið er yfir sviðið í flokknum sýnist Össur sigurstranglegastur sem eftirmaður Jóhönnu.


Þriðjudagur 07. 06. 11. - 7.6.2011

Sigurður G. Guðjónsson hrl. gerir þá athugasemd á Eyjunni í dag við bók mína Rosabaug að hann hafi ekki skrifað leiðara í Blaðið 27. september 2005, sama dag og Davíð Oddsson sagði skilið við ráðherraembætti. Davíð gladdist einmitt á þeirri stundu yfir leiðara Blaðsins sem hann taldi að Sigurður G. hefði skrifað (bls. 163) og fullyrti ég það síðan á bls. 168. Gekk ég að því vísu að skoðun Davíðs væri rétt enda tæp sex ár frá því að henni var lýst án athugasemda frá Sigurði G. Verði bókin prentuð að nýju, sem ekki er ólíklegt vegna góðrar sölu á henni, læt ég þessarar ábendingar Sigurðar G. getið.

Landsdómsmálið gegn Geir H. Haarde var þingfest í dag. Stuðningsmenn hans efndu til fundar í Hörpunni síðdegis til að sýna honum samstöðu. Vegna annarra skuldbindinga komst ég ekki á fundinn. Ég hef hins vegar skráð mig á síðuna www.malsvorn.is og hvet alla rétthugsandi menn að sýna Geir stuðning á þann einfalda hátt.


Mánudagur 06. 06. 11. - 6.6.2011

Geir H. Haarde efndi til blaðamannadundar í dag og gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum vegna ákæru á hendur sér sem þingfest verður í landsdómi á morgun. Hann sagðist hafa fengið aðgang að öllum gögnum sem lögð voru fyrir þingmannanefnd undir formennsku Atla Gíslasonar, þingmanns vinstri-grænna.  Gögnin sýndu að aðeins einn sérfræðingur nefndarinnar, Geir nafngreindi hann ekki, hefði talið ástæðu til að nefndin  stefndi ráðherrum fyrir landsdóm.

Eftir blaðamannafund Geirs sneri visir.is sér til Atla Gíslasonar sem sagði:

„Ég lít svo á að nefndin [þingmannanefndin innsk. blm.] hafi tekið faglega ákvörðun, það eru skiptar skoðanir um það. Við fengum mjög færa lögvísindamenn til að ráðleggja okkur í þessari nefnd og ég taldi mig skila faglegri niðurstöðu. Að þetta séu pólitísk réttarhöld, ég er bara ósammála þeim ummælum fullkomlega."

Mér þótti undarlegt að lesa þetta mat Atla Gíslasonar í ljósi þess sem hann sagði um Baugsmálið og ég birti í Rosabaugi. Atli sagði:

„Upphafið [að Baugsmálinu] var pólitískt og eftirleikurinn eftir því. Ég er ósáttur við niðurstöðuna í málinu - menn uppskera eins og þeir sá. Málið var aðför frá upphafi til enda. Þetta er áfall fyrir réttarvörslukerfið."

Atli efaðist sem sé ekki um að húsleit lögreglu hjá Baugi, rannsókn hennar og ákæra hafi verði pólitísk en neitar því hins vegar að ákæra nefndar á vegum alþingis undir hans formennsku sé pólitísk. Hvernig dettur manninum í hug að bjóða nokkrum slíkan málflutning? Geir H. Haarde sýndi svart á hvítu á blaðamannafundi sínum að nefnd Atla vann starf sitt á skammarlegan hátt, rannsakaði ekki neitt sjálf heldur lét við það eitt sitja að gefa út ákæru að sögn Atla í skjóli ráðgjafar lögvísindamanna, en aðeins einn þeirra af öllum sem nefndin fékk til liðs við sig veitti þeim þetta ráð.

Sunnudagur 05. 06. 11. - 5.6.2011

Rut, kona mín, opnaði í dag gestum hlöðu okkar í Fljótshlíðinni með tónleikum . Hlaðan tónleikarHún lék með Richard Simm píanóleikara, fyrir fullu húsi, um 70 manns. Hljómaði tónlistin vel við góðan fögnuð. Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri í Rangárþingi eystra, flutti ávarp að loknum tónleikunum og einnig vinur okkar Kjartan Gunnarsson fyrir hönd gesta.

Það rigndi í morgun en létti til upp úr hádegi og hann hékk þurr fram yfir tónleikana.  Auðveldaði það okkur að gefa Hlaðan tónleikar 2gestunum kaffi.




Umræður um Rosabauginn halda áfram og á vefsíðu Samfylkingunnar Eyjunni er sagt frá nýlegri fésbókar-færslu starfsmanns bókabúðar í miðborg Reykjavíkur. Ber  færslan yfirskriftina: „Örleikrit úr bókabúð“.  Þar segir:

Þorvaldur Gylfason [prófessor í hagfræði og blaðamaður á Fréttablaðinu]: „Á meðan enginn sér mig, eruð þið með bókina hans Björns Bjarna hérna uppi við?“

Ég: „Nei, við erum ekki með hana í sölu.“

Þorvaldur Gylfason: „Gott hjá ykkur!“

Mér er sagt að afgreiðslumaður í bókabúðs Máls og menningar hafi sagt að ég bannaði sölu bókarinnar í þeirri búð. Þetta er ekki rétt. Ég kem ekki nálægt vali á bókaverslunum.  Þorvaldur kemur við sögu í bókinni vegna skrifa hans í Fréttablaðið. Augljóst er að ýmsar söguhetjur vilja sem minnsta dreifingu bókarinnar. Ég læt lesendum eftir að dæma ástæður þess.

 

Laugardagur 04. 06. 11. - 4.6.2011

Í dag birtist viðtal Kolbrúnar Bergþórsdóttur við mig í Sunnudagsmogganum. Þar ræðum við um Rosabaug yfir Íslandi. Ég átti erindi í N1 á Hvolsvelli. Þar er bókin til sölu.

Ég er þakklátur fyrir athyglina sem bókin fær. Hún er meiri og magnaðri en ég vænti og sýnir að áhugi er á því að brjóta Baugsmálið til mergjar. Því má ekki gleyma að árum saman var málið helsta fréttaefnið í landinu.

Ég vek athygli á vefsíðunni www.malsvorn.is þar sem lýst er stuðningi við Geir H. Haarde vegna landsdómsmálsins. Þetta eru pólitísk réttarhöld að undirlagi Steingríms J. Sigfússonar og annarra manna í hópi vinstri-grænna sem hafa aldrei lagt í uppgjör vegna hinnar pólitísku arfleifðar sem þeir gæta, það er kommúnismans og sósíalismans. Þegar gera hefði átt upp við þá eða þeir hefðu átt sjálfir að gera upp við arfleifðina hlupust þeir undan ábyrgðinni.

Í pólitískri arfleifð þeirra felast hins vegar óteljandi dæmi um pólitísk réttarhöld yfir andstæðingum. Þeir vilja nú ein slík hér á landi yfir Geir H. Haarde og Sjálfstæðisflokknum. Orð Steingríms J. um að hann hafi greitt atkvæði með ákæru á hendur Geir með „sorg í hjarta“ er eins og sniðið að kenningu kommúnista um hina „sögulegu nauðsyn“.

Svavar Gestsson leit á það sem hlutverk sitt í Icesave-málinu að sjá til þess að klína því að Sjálfstæðisflokkinn með aumlegum samningum við Breta og Hollendinga. Sú tilraun til pólitískra hefnda snerist í andhverfu sína. Hið sama hlýtur að gerast í landsdómsmálinu fái skynsemin ráðið. Framganga saksóknarans bendir því miður ekki til þess að hún sé í hávegum höfð.

Föstudagur 03. 06. 11. - 3.6.2011

Þorbjörn Þórðarson á Stöð 2 ræddi við mig í kvöldfréttum um bókina mína í tilefni af því að hún var söluhæst hjá Eymundsson. Má sjá viðtalið hér.

Þóra Arnórsdóttir ræddi við um bókina í Kastljósi. Má sjá samtalið hér.

Fimmtudagur 02. 06. 11 - 2.6.2011

Í bók minni um Baugsmálið ræði ég ítarlega um Baugsmiðlanna og lýsi meðal annars samskiptum þeirra Gunnars Smára Egilssonar og Sigurðar G. Guðjónssonar en hinum síðarnefnda var bolað frá Norðurljósum til að rýma fyrir Gunnari Smára. Var greinilega kalt á milli þeirra. Það staðfestist enn eftir að Gunnar Smári hefur verið kjörinn formaður SÁÁ, því að þá skrifar Sigurður G. á fésbókarsíðu sína að best sé „fyrir þá sem leggja SÁÁ lið fjárhagslega að halda í féð svo Smárinn [Gunnar] noti það ekki til að kaupa prentsmiðju eða stofna blað í Las Vegas. Enginn veit hvar hann ber niður þegar fjárfestingagállinn er á honum.“

Jón Sigurðsson, fyrrverandi seðlabankastjóri og formaður Framsóknarflokksins, skrifar grein á Pressuna um að fjárhagsvandi ríkja á evru-svæðinu sé ekki evrunni að kenna. Hann hallast greinilega að sjónarmiðum Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, sem flutti ræðu í þessa veru í Singapore eins og sjá má á evropuvaktin.is Í kvöld var rætt við utanríkisráðherra Portúgals í Hardtalk á BBC. Hann var ósammála Merkel og taldi að yrði ekki tekið á evru-málum og innflytjendamálum væri hætta á innri sprengju í ESB. Það væri ekki unnt að horfa fram hjá vanda jaðarríkja evru-svæðisins.

Jón Sigurðsson segir í grein sinni að jaðarríkin geti sjálfum sér um kennt. Hann vill kannski eins og Jean-Claude Trichet, seðlabankastjóri Evrópu, koma á fót fjármálaráðuneyti evru-svæðisins til að setja jaðarríkin í bóndabeygju? Trichet flutti ræðu um þetta í dag og má kynna sér efni hennar hér.

Grein Jóns boðar spennandi umræður um ESB-mál á vettvangi Framsóknarflokksins eftir að Ásmundi Einari Daðasyni, formanni Heimssýnar, er fagnað á þennan hátt við inngöngu hans í flokkinn. Má segja að Jón Sigurðsson sé kaþólskari en páfinn í útleggingu sinni á boðskapnum í þágu evrunnar.

Miðvikudagur 01. 06. 11. - 1.6.2011

Eymundsson birti lista yfir sölu bóka síðustu viku í morgun. Bók mín Rosabaugur yfir Íslandi var efst á listanum yfir metsölubækur. Þessi gleðilega niðurstaða er í samræmi við þann áhuga á bókinni sem víða birtist mér.

Í dag ræddi ég við Birgi Ármannsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, í þætti mínum á ÍNN . Við ræddum um störfin á alþingi. Birgir gerði glögga grein fyrir umræðum um það hvernig Steingrímur J. Sigfússon færði Íslandsbanka og Arion-banka í eignarhald kröfuhafa sem nú eru vogunarsjóðir eða aðrir sjóðir sem hafa mestan áhuga á að hagnast á því að knýja skuldara til að endurgreiða lán sín með vöxtum og verðtryggingu. Birgir taldi að Steingrímur J. hefði beitt sömu aðferð við að losa ríkið við þessa tvo banka og hann og Svavar Gestsson beittu við gerð Icesave I samningsins, það er þóknast kröfuhöfum og láta almenning standa undir kostnaðinum.

Þegar ég hlustaði á hvernig RÚV sagði frá umræðunum sem fram fóru í þinginu í morgun um eignarhaldið á bönkunum var lítið sagt efnislega frá málinu og að mestu látið við það sitja að birta einhverjar gamlar lummur eða upphrópanir Steingríms J. um Sjálfstæðisflokkinn. Þó var sagt frá því að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segði það vekja spurningar af hverju íslensku bankarnir högnuðust um milljarða á sama tíma og heimilin og fyrirtækin væru í algerri lægð.

Áttar fréttastofa RÚV sig ekki á því hvað er að koma í ljós varðandi bankana og eignarhald á þeim? Einkavæðing Steingríms J. fór fram með leynd. Tilgangur hennar var hinn sami og hjá honum í Icesave-málinu að koma sjálfum sér í skjól en láta aðra sitja uppi með að greiða skuldirnar til erlendra lánardrottna.