Dagbók

Þriðjudagur 31.12.1996 - 31.12.1996 0:00

Gamlársdagur er hefðbundinn fundardagur ríkisráðsins. Þá koma ráðherrar til fundar hjá forseta Íslands að Bessastöðum, bera upp við hann erindi og þiggja síðan kampavínsglas til að kveðja gamla árið. Þegar við komum að forsetasetrinu um klukkan 10.30 var þar margmenni utan dyra og hafði komið í nokkrum rútum, var það líklega hluti þeirra ferðamanna, sem hingað koma til að fylgjast með áramótunum. Klukkan 14 á gamlársdag er önnur hefðbundin athöfn, það er afhending viðurkenningar úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins. Fer hún fram í húsakynnum RÚV í Efstaleiti. Að þessu sinni hlutu þau systkinin Sigrún og Þórarinn Eldjárn þessa viðurkenningu, 400 þúsund krónur hvor.

Mánudagur 30.12.1996 - 30.12.1996 0:00

Síðdegis mánudaginn 30. desember afhending menningarverðlauna Visa

Sunnudagur 29.12.1996 - 29.12.1996 0:00

Síðdegis sunnudaginn 29. desember var móttaka til heiðurs Aðalsteini Jónssyni, Alla ríka, manni ársins í Sunnusal Hótel Sögu. Frá Sögu héldum við beint í Hallgrímskirkju, þar sem Rut lék í hljómsveitinni með Mótettukórnum og einsöngvurum, þegar fluttir voru fjórir kaflar úr Jólaoratoríu Bachs undir stjórn Harðar Áskelssonar.

Sunnudagur 29.12.1996 - 29.12.1996 0:00

Síðdegis sunnudaginn 29. desember var móttaka til heiðurs Aðalsteini Jónssyni, Alla ríka, manni ársins í Sunnusal Hótel Sögu.

Föstudagur 27.12.1996 - 27.12.1996 0:00

Síðdegis föstudaginn 27. desember voru verðlaun Ásu Wright afhent í Norræna húsinu með tilheyrandi glæsibrag.

Miðvikudagur 25.12.1996 - 25.12.1996 0:00

Að kvöldi annars í jólum var það síðan Villöndin í Þjóðleikhúsinu, stórbrotið verk Ibsens og vel leikið, sérstaklega þótti mér gaman að sjá, hve mikið vinur minn Gunnar Eyjólfsson gerði úr hlutverki sínu.

Þriðjudagur 24.12.1996 - 24.12.1996 0:00

Við fórum í Hallgrímskirkju klukkan 18 á aðfangadagskvöld, enda var Bjarni Benedikt að syngja í kórnum hjá Þorgerði Ingólfsdóttur, móðursystur sinni, auk þess sem hann las pistilinn við góðan hljómgrunn.

Mánudagur 23.12.1996 - 23.12.1996 0:00

Í hádeginu á Þorláksmenn brá ég mér í skötu í Þjóðleikhúskjallaranum. Þótt ég gæti aðeins staldrað við í stutta stund, var það nóg til að gæða sér á réttunum á matarmiklu hlaðborðinu.

Sunnudagur 22.12.1996 - 22.12.1996 0:00

Sunnudaginn 22. desember klukkan 17 fór ég á jólatónleika Kammersveitar Reykjavíkur í Áskirkju, þar sem Roy Goodman stjórnaði, en hann hefur flutt og stjórnað tónlist á meira en 100 hljómdiskum. Var ánægjulegt að hitta hann og ræða við hann um hinar breyttu aðstæður í útgáfu á tónlist á diskum.

Miðvikudagur 18.12.1996 - 18.12.1996 0:00

Síðdegis mánudaginn 18. nóvember spurði Bryndís Hlöðversdóttir, þringmaður Alþýðubandalagsins, mig í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi um málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Svaraði ég með því að vísa til ræðu minnar um málið á Alþingi 12. nóvember. Þetta var Bryndís óánægð með og þingflokksformaðurinn, Svavar Gestsson, tók að belgja sig um hroka í garð Alþingis. Var þetta ekki í fyrsta sinn sem stjórnarandstaðan kvartar undan svörum okkar ráðherranna. Finnst mér þær umræður bera málefnafátæktinni best vitni. Auðvitað ráða ráðherrar með hvaða orðum þeir svara spurningum til sín. Þingmenn hafa rétt til að spyrja en ráðherrar skulu svara samkvæmt bestu vitund en ekki í samræmi við vilja spyrjandans, sem oft reynir að búa til einhverja pólitíska leikfléttu. Að kvöldi mánudagsins voru Brahms-tónleikar Kammersveitar Reykjavíkur í Listasafni Íslands.

Laugardagur 15.12.1996 - 15.12.1996 0:00

Laugardaginn 14. desember fórum við í Sólon Íslandus, þegar Cheo Cruz opnaði þar sýningu í boði Ester Ólafsdóttur, Karls Steingrímssonar og Lionel Dominique Véron. Síðan fórum við í Valhöll, þar sem ávarpaði jólagleði sjálfstæðismanna.

Föstudagur 13.12.1996 - 13.12.1996 0:00

Föstudagskvöldið 13. desember vorum við í Listasafni Íslands, þegar sýning Eiríks Smiths var opnuð.

Fimmtudagur 12.12.1996 - 12.12.1996 0:00

Fimmtudagskvöldið 12. desember fórum við Rut á jólatónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Langholtskirkju.

Þriðjudagur 10.12.1996 - 10.12.1996 0:00

Þriðjudaginn 10. desember kl. 13.00 flutti ég ávarp við upphaf málþings Verkfræðingafélagsins og Félags raungreinakennara um menntun til framtíðar.

Sunnudagur 8.12.1996 - 8.12.1996 0:00

Sunnudagskvöldið 8. desember fórum við Rut á fyrstu tónleikana í hinni nývígðu Grensáskirkju, þar sem Fílharmóníukórinn söng og Sigrún Hjálmtýsdóttir.

Föstudagur 6.12.1996 - 6.12.1996 0:00

Síðdegis föstudaginn 6. desember heimsótti Daði Guðbjörnsson listmálari mig í ráðuneytið og fórum við um ganga þess og skoðuðum myndir Daða, sem þar hanga um nokkurra vikna skeið, en ég ætla beita mér fyrir því, að reglulega verði í ráðuneytinu sýndar myndir íslenskra listamanna. Er Daði hinn fyrsti, sem tekur þátt í þessu verkefni.

Fimmtudagur 5.12.1996 - 5.12.1996 0:00

Síðdegis fimmtudaginn 5. desember fór ég í Þjóðarbókhlöðuna, þar sem Kvennasögusafnið var formlega opnað á þeim stað við hátíðlega athöfn.

Sunnudagur 1.12.1996 - 1.12.1996 0:00

Sunnudaginn 1. desember flaug ég til Kaupmannahafnar síðdegis og sat þar mánudaginn 2. desember fundi mennningarmálráðherra Norðurlanda fyrir hádegi og síðdegis menntamálaráðherranna. Flaug síðan heim með kvöldvélinni.

Sunnudagur 30.11.1996 - 30.11.1996 0:00

Laugardaginn 30. nóvember fór ég klukkan 11 á fund Leiklistarráðs, þar sem ég var fram yfir hádegi og ræddi meðal annars um hlut Ríkisútvarpsins, sem leikarar telja réttilega lítinn á starfsviði sínu. Komst ég þannig að orði, að erfitt væri fyrir mig að verja RÚV sífellt á þeirri forsendu, að með starfsemi þess væri ríkið að efla íslenska menningu. Erfiðleikarnir stöfuðu ekki síst af því, að hætta væri á, að enginn tryði mér, eftir að hafa fylgst með dagskránni. Klukkan 14 þennan sama laugardag fór ég á aðalfund Hins íslenska bókmenntafélags og hlýddi á fróðlegan og skemmtilegan fyrirlestur Páls Berþórssonar veðurfræðings um Vínlandsferðirnar. Klukkan 16 opnaði Karólína Lárusdóttir málverkasýningu í Gallerí Borg. Ég kom þangað nokkrar mínútur yfir fjögur og var þá salurinn orðinn fullur af fólki og margar myndir höfðu þegar selst. Sannaðist þar enn, hve mikilla vinsælda Karólína nýtur.

Miðvikudagur 27.11.1996 - 27.11.1996 0:00

Að kvöldi miðvikudagsins 27. nóvember fór ég á landsleik Dana og Íslendinga í handbolta. Var það ánægjuleg kvöldstund, þegar okkar menn unnu Danina með glæsibrag.

Miðvikudagur 20.11.1996 - 20.11.1996 0:00

Klukkan 18. miðvikudaginn 20. nóvember fór ég í fyrsta sinn og sat fyrir svörum í Þjóðarsálinni á Rás 2 og hafði gaman að því. Hafi menn vænst þess, að ég sæti undir miklum áföllum hlýtur þátturinn að hafa valdið vonbrigðum. Ég sá í Morgunblaðinu eftir að ég kom heim, að fomaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands hélt áfram að hnýta í mig í bréfadálki Morgunblaðsins. Vekur athygli mína, hve málflutningur hans er tilfinningalegur og persónulegur og þar með ómálefnalegur. Þarna blandar hann sér aftur í mál, sem ég hef sagt, að ég telji eðlilegt að bíða úrskurðar umboðsmanns Alþingis um. Enn á ný er bréfadálkur Morgunblaðsins notaður í málinu án þess að láta þess getið, að það sé til meðferðar hjá umboðsmanni Alþingis. Ég get ekki annað en endurtekið, að mér þykir málatilbúnaður af þessu tagi ekki benda til góðs málstaðar.

Sunnudagur 17.11.1996 - 17.11.1996 0:00

Sunnudaginn 17. nóvember fór ég klukkan 14 í viðtalsþátt Kristjáns Þorvaldssonar á Rás 2 og síðdegis sótti ég Dómkirkjuna, þar sem Hið íslenska biblíufélag stóð fyrir upplestri úr nýrri þýðingu Gamla testamentisins í tilefni af degi íslenskrar tungu.

Laugardagur 16.11.1996 - 16.11.1996 0:00

Laugardagurinn 16. nóvember, fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, var annasamur, enda í fyrsta sinn efnt til dags íslenskrar tungu í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar á tillögu minni um það efni 16. nóvember 1995. Klukkan 10 fór ég á haustfund kennara í Reykjavík og á Reykjanesi og flutti þar ræðu . Þaðan fór ég á málræktarþing Íslenskrar málnefndar í Háskólabíói og flutti ávarp og tók þátt í pallborðsumræðum. Klukkan 15 var hátíðleg athöfn í Þjóðarbókhlöðunni, þegar Auður Laxness afhenti Landsbókasafni Íslands-Háskólabókasafni handrit Halldórs eiginmanns síns. Klukkan 17 stóð menntamálaráðuneytið síðan fyrir athöfn í Listasafni Íslands, þar sem Vilborgu Dagbjartsdóttur voru veitt verðlaun Jónasar Hallgrímssonar. Þar flutti ég ræðu og gerði grein fyrir þeirri ákvörðun að stofna til dags íslenskrar tungu. Er ég þeirrar skoðunar, að strax í fyrstu atrennu hafi dagurinn tekist vel.

Föstudagur 15.11.1996 - 15.11.1996 0:00

Eftir að hafa verið í Garðaskóla í hádeginu 15. nóvember, fór ég í jarðarför Guðmundar Arnlaugsssonar, fyrrverandi rektors Menntaskólans við Hamrahlíð. Síðdegis tók ég þátt í hófi með forráðamönnum Fræðslumiðstöðvar bíliðngreina, sem fagnaði þeim merka áfanga, að Borgarholtsskóli er tekin til starfa, en þar er fræðslumiðstöðin með starfsemi sína.

Fimmtudagur 14.11.1996 - 14.11.1996 0:00

Klukkan 11 að morgni 14. nóvember fór ég í Tæknigarð og hlýddi á jarðeðlisfræðinga lýsa gangi mála í Vatnajökli frá því fyrir gos og fram yfir jökulhlaupið. Bendir margt til þess, að eldgosahrina kunni að vera að hefjast í Vatnajökli. Bauð ég þingmönnum að sitja þennan fræðslufund, sem háskólarektor undirbjó að minni ósk. Því miður sáu aðeins fjórir þingmenn sér fært að þiggja boðið. Síðdegis 14. nóvember ræddum við Svavar Gestsson saman á Bylgjunni undir stjórn Skúla Helgasonar. Jafnframt veitti ég Rás 2 og sjónvarpsstöðvunum viðtöl um málefni LÍN.

Miðvikudagur 12.11.1996 - 12.11.1996 0:00

Þingstörfin voru töluverð í vikunni, umræður um LÍN og listamannalaun 12. nóvember, fyrirspurnir hinn 13. nóvember og umræða utan dagskrár um einelti í skólum hinn 14.

Þriðjudagur 12.11.1996 - 12.11.1996 0:00

Að morgni þriðjudagsins 12. nóvember fór ég í heimsókn í Flataskóla í Garðabæ undir leiðsögn Sigrúnar Gísladóttur skólastjóra.

Laugardagur 9.11.1996 - 9.11.1996 0:00

Síðdegis laugardaginn 9. nóvember skrapp ég í sýningarsalinn Önnur hæð að Laugarvegi 37, þar sem sýning eftir Lawrence Weiner var að hefjast. Hitti ég listamanninn og ræddi við hann um verk hans, en á veggi sýningarsalarins hefur hann ritað um þau áhrif, sem dagsljós og silfurberg hafa til að móta liti. Þarna var frekari stoðum skotið undir þá skoðun, að sköpunarmætti mannsins séu lítil sem engin takmörk sett, en okkur skorti hins vegar mörg kunnáttu og dirfsku til að nýta þennan mátt til opinberra afreka. Er ánægjulegt, hve margir heimsþekktir brautryðjendur á sviði myndlistar kunna að meta aðstæður hér á landi bæði vegna náttúru landsins og þess andrúmslofts í listalífi, sem þeir kynnast. Af viðræðum við innlenda kunnáttumenn ræð ég, að þeim finnst þeir, sem að ferðamálum starfa, ekki átta sig nægilega vel á gildi þessarar staðreyndar. Kemur það heim við reynslu mína.

Föstudagur 8.11.1996 - 8.11.1996 0:00

Föstudaginn 8. nóvember sat ég fund með samstarfsnefnd háskólastigsins í Háskóla Íslands, ræddum við þar meðal annars hugmyndir um nýja rammalöggjöf fyrir háskólastigið. Kom þar fram, sem vitað ætti að vera, að misjafnlega er staðið að því að velja rektora háskólanna hér. Staðan er auglýst bæði á Akureyri og í Kennaraháskólanum. Dómnefndir meta hæfi umsækjanda, á Akureyri skipar ráðherra síðan rektorinn en í Kennaraháskólanum fer fram atkvæðagreiðsla innan skólans. Fyrirkomulagi við val rektors Háskóla Íslands verður að breyta til þessarar áttar. Síðdegis föstudaginn 8. nóvember komu nokkrir tugir nemenda úr Framhaldsskóla Austur-Skaftafellssýslu á minn fund í ráðuneytinu. Hittumst við þar á 4. hæð og bauð ég þeim gosdrykki og snúða. Erindi þeirra var að afhenda mér undirskriftalista, þar sem mótmælt er tillögum um niðurskurð á fjárveitingum til skólans. Sagði ég rangt, að vegið væri að tilvist skólans með þessum tillögum. Hins vegar hlytu fjárveitingar að taka mið af því starfi, sem fram færi í skólanum. Hann gæti ekki fengið sömu fjárhæðir og verknámsskólar, þegar nær eingöngu væri um bóknám að ræða. Að kvöldi föstudagsins var síðan opnuð málverkasýningin Á vængjum vinnunnar eftir Edvard Munch í Listasafni Íslands og kom í minn hlut að flytja ávarp við það tækifæri.

Fimmtudagur 7.11.1996 - 7.11.1996 0:00

Fimmtudaginn 7. nóvember tók ég þátt í umræðum á Alþingi um Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna og einnig um svonefndan bandorm ríkisstjórnarinnar í tengslum við fjárlagafrumvarpið 1997. Hugtakið bandormur nær yfir tillögur til breytinga á mörgum lögum, sem falla undir mörg ráðuneyti, eru slík frumvörp því jafnan flutt af forsætisráðherra. Stjórnarandstæðingar lýstu mikilli hneykslan á því ákvæði í bandorminum, sem lýtur að heimild fyrir menntamálaráðherra til setja reglur um innheimtu á 1500 kr. gjaldi vegna þeirra, sem endurinnrita sig í próf eða áfanga í framhaldsskólum. Tilgangur heimildarinnar er ekki síst sá að hvetja nemendur til að vanda vel til ákvarðana sinna um áfanga, hér er um að ræða stjórntæki til hagræðingar frekar en nýjar álögur á námsmenn.

Miðvikudagur 6.11.1996 - 6.11.1996 0:00

Miðvikudaginn 6. nóvember svaraði ég fyrirspurn á Alþingi um það, hvort unnið væri samkvæmt verkefnaáætlun gegn útlendingaandúð í skólum.

Sunnudagur 3.11.1996 - 3.11.1996 0:00

Eftir að hafa farið í messu til sr. Halldórs Gröndals síðdegis sunnudaginn 3. nóvember fórum við Rut í heimsókn í Tækniskóla Íslands, sem var með opið hús og kynnti fjölbreytt nám sitt. Þaðan fórum við á þrjár málverkasýningar og síðan í Þjóðminjasafnið á tónleika alþjóðlega tónlsitarhópsins Sequentia, sem flutti eddukvæði með eftirminnilegum hætti. Um kvöldið fór ég síðan í troðfulla Laugardalshöllina og sá landsleik Eista og Íslendinga í handbolta.

Laugardagur 2.11.1996 - 2.11.1996 0:00

Laugardaginn 2. nóvember flutti ég ávarp við upphaf málþings um handverk í Norræna húsinu. Var þar fullt út úr dyrum, sem staðfestir hinn mikla og vaxandi áhuga, sem er á þessum málum hér á landi. Það var einnig troðið út úr dyrum í Háskólabíói síðdegis laugardaginn 2. nóvember á 80 ára afmælistónleikum Karlakórsins Fóstbræðra.

Föstudagur 1.11.1996 - 1.11.1996 0:00

Föstudaginn 1. nóvember fór ég fyrir hádegi út af ríkisstjórnarfundi til að flytja ávarp við upphaf aðalfundar Skólastjórafélags Íslands.

Fimmtudagur 25.10.1996 - 25.10.1996 0:00

Fimmtudaginn 24. október fór ég í heimsókn í Verslunarskóla Íslands. Ræddi við skólastjóra, fulltrúa skólanefndar og Verslunarráðsins, skoðaði skólann og ávarpaði nemendur á Marmara og síðan kennara í kaffistofu þeirra. Er ekki vafi á því, að þessi skóli, sem er eini einkaskólinn af 37 framhaldsskólum, stendur ákaflega vel að vígi. Lét ég í ljós áhuga á því að taka með einum eða öðrum hætti þátt í því, að unnt yrði að koma Verslunarháskóla á fót, en lóð undir hann bíður við hlið Verslunarskólans í Kringlunni. Síðdegis fimmtudaginn 24. október var ég síðan við upphaf Kvikmyndahátíðar í Reykjavík og sá myndina Brimbrot eftir Lars von Trier. Tek ég undir með þeim, sem telja hana í hópi merkari mynda.

Miðvikudagur 23.10.1996 - 23.10.1996 0:00

Miðvikudaginn 23. október var efnt til fundar í Borgartúni 6 og bundinn endi á tæplega tíu ára starf við skipulag á Grímsnes- Grafnings- og Þingvallahreppum. Tók ég þátt í þeirri athöfn sem formaður Þingvallanefndar og ritaði undir skipulagsuppdráttinn.

Þriðjudagur 22.10.1996 - 22.10.1996 0:00

Þriðjudaginn 22. október vorum við Rut viðstödd, þegar bókmenntaverðlaun kennd við Halldór Laxness voru afhent í fyrsta sinn. Flutti Skúli Björn Gunnarsson verðlaunaþegi skemmtilega ræðu, þegar hann þakkaði heiðurinn.

Laugardagur 19.10.1996 - 19.10.1996 0:00

Laugardaginn 19. október tók ég klukkan 13 þátt í upphafi ráðstefnu á vegum útvarpsréttanefndar um ofbeldi á ljósvakanum. Flutti ég þar ræðu. Klukkan 18.00 þennan sama laugardag flutti ég ávarp við upphaf sýningar á verkum úr listaverkagjöf Ásgríms Jónssonar í Listasafni Íslands. Að kvöldi þessa sama dags fórum við á frumsýningu á leikritinu Svaninum á vegum Annars sviðs og Leikfélags Reykjavíkur á Litla sviðinu í Borgarleikhúsinu.

Mánudagur 14.10.1996 - 14.10.1996 0:00

Mánudaginn 14. október milli 17 - 19 var ég í húsakynnum sjálfstæðismanna í Grafarvogi og ræddi við þá, sem þangað komu og vildu hitta mig. Var það skemmtileg stund.

Föstudagur 11.10.1996 - 11.10.1996 0:00

Föstudagskvöldið 11. október fórum við í leikhús í Hafnarfirði og sáum Birting eftir Voltaire á mjög skemmtilegri sýningu.

Þriðjudagur 8.10.1996 - 8.10.1996 0:00

Þriðjudaginn 8. október var 1. umræða fjárlaga og stóð hún frá hádegi fram yfir miðnætti. Nokkuð mæddi á mér vegna gagnrýni á framlög til menntamála. Er þó meira gert úr þeim sparnaði en efni standa til. Fyrr þennan sama dag tók ég þátt í fundi með skólameisturum framhaldsskóla af landinu öllu og ræddi við þá um þessi mál. Hinn 8. október síðdegis efndum við Rut til móttöku í Ráherrabústaðnum fyrir stjórn og verðlaunahafa Móðurmálssjóðs, ritstjóra og fréttastjóra, í tilefni af því, að 150 ár voru þann dag liðin frá fæðingu Björns Jónssonar, ritstjóra og ráðherra, enn Móðurmálssjóðurinn var stofnaður í minningu hans. Jónas Kristjánsson, ritstjóri DV, fékk verðlaun úr sjóðnum að þessu sinni.

Sunnudagur 6.10.1996 - 6.10.1996 0:00

Sunnudaginn 6. október flutti ég ávarp á 50 ára afmæli Fósturskóla Íslands og eftir það brugðum við Rut okkur á sex listsýningar í Reykjavík og Kópavogi

Laugardagur 5.10.1996 - 5.10.1996 0:00

Laugardaginn 5. október skaust ég af menntaþingi út í Melaskóla og flutti ávarp á 50 ára afmælishátíð skólans.

Föstudagur 4.10.1996 - 4.10.1996 0:00

Föstudaginn 4. október klukkan 16 var ég við upphaf Prentmessu í Laugardalshöll og flutti þar ávarp. Er ótrúlegt að fylgjast með tækniframförunum á þessu sviði.

Fimmtudagur 3.10.1996 - 3.10.1996 0:00

Fimmtudagskvöldið 3. október fór ég á frumsýningu Djöflaeyjunnar mér til góðrar skemmtunar.

Þriðjudagur 1.10.1996 - 1.10.1996 0:00

Strax eftir þingsetningu 1. október fór ég í 70 ára afmæli Ísaksskóla, þar sem afhjúpað var fallegt glerlistaverk eftir Leif Breiðfjörð.

Mánudagur 30.9.1996 - 30.9.1996 0:00

Mánudaginn 30. september hélt Sjónvarpið upp á 30 ára afmæli sitt. Af því tilefni var ég kallaður í beina útsendingu í fréttatíma þess auk þess sem ég flutti ávarp í afmælishófi í sjónvarpshúsinu sama kvöld.

Föstudagur 6.9.1996 - 6.9.1996 0:00

Síðdegis föstudaginn 6. september sátum við síðan 20 ára afmælishátíð félagsvísindadeildar Háskóla Íslands. Að morgni föstudagsins rammaði ég ríkisstjórnarfund inn með viðtali við Andreu Willi, utanríkisráðherra Liechtenstein, sem einnig fer með menningarmál í landi sínu, klukkan 9 og fulltrúa frá Hamborg klukkan 11.30, en þeir hafa verið hér í boði menntamálaráðuneytisins til að undirbúa kynningu á íslenskri barnamenningu í heimaborg sinni haustið 1997.

Fimmtudagur 5.9.1996 - 5.9.1996 0:00

Síðdegis fimmtudaginn 5. september tókum við Rut þátt í hátíðarhöldum í nýja og glæsilega Hæstaréttarhúsinu

Miðvikudagur 4.9.1996 - 4.9.1996 0:00

Miðvikudagsmorgna eru viðtalstímar hjá ráðherrum. Þegar þingið situr ekki veiti ég viðtöl allan miðvikudaginn.

Mánudagur 2.9.1996 - 2.9.1996 0:00

Um hádegisbilið mánudaginn 2. september hélt ég til Kaupmannahafnar og sneri heim aftur með kvöldvélinni þriðjudaginn 3. september. Tilefnið var norrænn ráðherrafundur um 5. rammaáætlun Evrópusambandsins um rannsóknir og vísindi. Er unnið að þeirri stefnumótun um þessar mundir og hafa Norðurlöndin leitast við að samræma sjónarmið sín. Höfum við ráðherrarnir sent bréf til Edith Cresson, sem fer með þessi mál í framkvæmdastjórn ESB. Voru þau meðal annars til umræðu á fundinum í Kaupmannahöfn. Í tengslum við fundinn var ritað undir samkomulag milli ríkisstjórna Norðurlandanna um aðgang að háskólamenntun. Þar er gert ráð fyrir greiðsluskyldu ríkjanna, annarra en Íslands, en samkvæmt samkomulaginu, sem gildir í 3 ár skal greiða 22.000 DKR fyrir 75% námsmanna, sem eru í háskóla einhvers staðar á Norðurlöndunum.

Laugardagur 31.8.1996 - 31.8.1996 0:00

Klukkan 9.15 að morgni laugardagsins 31. ágúst hófst ráðstefna Skýrslutæknifélagsins um skólastarf og upplýsingatækni. Flutti ég ávarp við upphaf hennar og hlýddi síðan á nokkur erindi, þar til ég varð að fara til að búa mig undir för á Kirkjubæjarklaustur, þar sem við Rut voru gestgjafar í kvöldverði á ársfundi norrænu UNESCO-nefndanna. Komum við aftur síðdegis sunnudaginn 1. september. Á ráðstefnu Skýrslutæknifélagsins var ánægjulegt að heyra mikið lof borið á rit menntamálaráðuneytisins Í krafti upplýsinga, þar sem gerð er grein fyrir stefnunni við notkun upplýsingatækni í þágu mennta og menningar.

Föstudagur 30.8.1996 - 30.8.1996 0:00

Föstudaginn 30. ágúst klukkan 15.00 var athöfn í Borgarholtsskóla, þegar nýbyggingar hans voru formlega afhentar skólameistara hans. Klukkan 17.00 var opnaður leikskóli í nýjum garði við Háskóla Íslands. Þaðan héldum við beint út á Reykjavíkurflugvöll í afmæli Landhelgisgæslunnar og um kvöldið vorum við síðan á frumsýningu á Hinum kúnum í Kaffileikhúsinu.

Miðvikudagur 28.8.1996 - 28.8.1996 0:00

Að morgni miðvikudagsins 28. ágúst fórum við Rut af stað til Keflavíkuflugvallar klukkan hálfsex um morgunin til að taka á móti hinum sigursælu íþróttamönnum okkar, sem sóttu Ólympíuleika fatlaðra í Atlanta. Klukkan 20 um kvöldið hófst 10 ára afmælisfagnaður Íslenska útvarpsfélagsins hf. í Perlunni en þar hafði ég verið beðinn að flytja ávarp, sem ég gerði um klukkan 21.30. Líklega hefur það farið fyrir ofan garð hjá flestum, því að kliðurinn var svo mikill og hátalarakerfið veikburða, að aðeins þeir, sem næstir stóðu heyrðu. Um klukkan 23 var ég síðan í beinni útsendingu á Stöð 2 í tilefni afmælisins.

Föstudagur 13.8.1996 - 13.8.1996 0:00

Menningarlífið er að fara af stað að nýju, þótt lítið hlé hafi raunar orðið yfir sumarið. Föstudagskvöldið 13. september fórum við á frumsýningu á verki Árna Ibsens í Borgarleikhúsinu og kvöldið eftir á frumsýningu verks Karls Ágústs Úlfssonar á Litla sviði Þjóðleikhússins, sunnudagskvöldið 15. september lék Erling Blöndal Bengtson á sellóið sitt í Bústaðakirkju á vegum Kammermúsikklúbbsins og hóf hlustendur yfir stund og stað. Síðdegis föstudaginn 13. september flutti ég ræðu á Foreldraþingi Heimilis og skóla og klukkan 9 að morgni laugardagsins 14. september flutti ég ræðu við upphaf málþings á vegum Stofnunar Sigurðar Nordals , í tilefni 10 ára afmælis hennar, eftir hádegið fórum í stutta stund út í Viðey með sjálfstæðismönnum úr Reykjavík og síðan í afmælishóf Stofnunar Sigurðar Nordals , áður en farið var í leikhúsið.

Mánudagur 17.6.1996 - 17.6.1996 0:00

Þjóðhátíðardaginn 17. júní fórum við að heiman rúmlega 10 til að vera komin tímanlega í Alþingishúsið og búa okkur undir þátttöku í skrúðgöngu þaðan út á Austurvöll, þar var setið fram undir 11, þegar messa hófst í Dómkirkjunni, sem stóð til 12, þegar Lýðveldissjóður efndi til hátíðarfundar í Alþingishúsinu, undir kl. 13 var ég komin heim og klukkan 13.30 hófst Háskólahátíð í Laugardalshöll, sem stóð til kl. 16.00, klukkan 17.30 var athöfn að Bessastöðum, þar sem forseti Íslands sæmdi mig stórriddarakrossi fálkaorðunnar og síðan tókum við þátt í veislu þriggja bræðra, sem þennan dag útskrifuðust úr Háskóla Íslands.

Sunnudagur 16.6.1996 - 16.6.1996 0:00

Sunnudaginn 16. júní tók ég þátt í 200 ára afmæli Bessastaðakirkju og flutti þar ávarp í nafni ríkisstjórnarinnar í fjarveru dóms- og kirkjumálaráðherra.

Laugardagur 15.6.1996 - 15.6.1996 0:00

Laugardaginn 15. júní fór ég á tónleika píanósnillingsins Kissins - glæsileg listræn frammistaða.

Fimmtudagur 13.6.1996 - 13.6.1996 0:00

Fimmtudaginn 13. júní fór ég um kvöldið á Listahátíðartónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Miðvikudagur 12.6.1996 - 12.6.1996 0:00

Miðvikudaginn 12. júní fór ég norður á Húsavík og flutti ræðu um nýju framhaldsskólalögin á aðalfundi þeirra. Um kvöldið í Þjóðleikhúsið á Ævintýrakvöld Kammersveitar Reykjavíkur, þar sem var hljómsveit, söngur, brúðuleikhús og ballett.

Mánudagur 10.6.1996 - 10.6.1996 0:00

Mánudaginn 10. júní hitti ég hóp erlendra blaðamanna, sem voru hér í sambandi við norræna fundi. Þeir höfðu meiri áhuga á utanríkismálum og forsetakosningunum en mennta- og menningarmálum. Um kvöldið fór ég á Ljóðakvöld Listahátíðar í Loftkastalanum.

Mánudagur 27.5.1996 - 27.5.1996 0:00

Síðdegis á annan í hvítasunnu, 27. maí, fórum við Rut í heimsókn í Iðnskólann í Hafnarfirði. Var það eini tíminn til að fá tækifæri til að skoða sýningu nemenda í hönnunardeild skólans. Að kvöldi 27. maí er síðan fyrirhuguð ferð í Þjóðleikhúsið til að sjá leikrit þeirra Skagfirðinga, Sumarið fyrir stríð.

Sunnudagur 26.5.1996 - 26.5.1996 0:00

Sunnudaginn 26. maí fór ég á leik Íslands og Danmerkur í körfubolta í Laugardalshöllinni.

Sunnudagur 25.5.1996 - 25.5.1996 0:00

Að kvöldi laugardagsins 25. maí fórum við Rut í leikhúsferð til Hafnarfjarðar og sáum hið margrómaða leikrit Himnaríki eftir Árna Ibsen.

Sunnudagur 14.4.1996 - 14.4.1996 0:00

Í hádegi sunnudaginn 14. apríl buðum við Völu Flosadóttur, Evrópumeistara í stangarstökki kvenna, til hádegisverðar í Ráherrabústaðnum. Með henni voru ungmenni, sem eru í Sidney 2000 hópi Frjálsíþróttasambands Íslands, þjálfari þeirra, stjórn sambandsins og móðir Völu.

Föstudagur 12.4.1996 - 12.4.1996 0:00

Föstudaginn 12. apríl síðdegis skaust ég út af fyrirlestri Mayors í Háskóla Íslands, þegar hann var tekinn til við að svara fyrirspurnum, til að stjórna aðalfundi Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, sem ég hef gert í mörg ár. Að kvöldi föstudagsins fórum við á frumsýningu á leikriti Jónasar Árnasonar í Borgarleikhúsinu. Laugardagskvöldið fórum við síðan og sáum Þrjár stórar konur í Tjarnarbíói en það er eftir Edward Albee. Ólíkari verk er vart unnt að sjá.

Miðvikudagur 10.4.1996 - 10.4.1996 0:00

Miðvikudaginn 10. apríl var Jónmundur Jensson, góður sjálfstæðismaður, jarðsunginn frá Neskirkju. Síðdegis fimmtudaginn 11. apríl kom fulltrúaráð Listahátíðar í Reykjavík saman til fundar og var dagskrá hennar samþykkt.

Þriðjudagur 9.4.1996 - 9.4.1996 0:00

Tónleikar Hamrahlíðarkórsins í Listasafni Íslands þriðjudagskvöldið 9. apríl voru merkilegur viðburður. Þar voru eingöngu flutt lög eftir íslensk tónskáld.

Sunnudagur 10.3.1996 - 10.3.1996 0:00

Klukkan 10.30 að morgni sunnudags 10. mars fór ég biskupsmessu í Jósepskirkju í Hafnarfirði. Þar voru níu kaþólskir biskupar samankomnir.

Laugardagur 9.3.1996 - 9.3.1996 0:00

Klukkan 9.30 að morgni laugardagsins 9. mars var ég við upphaf aðalfundar Bandalags íslenskra skáta og flutti þar ávarp. Þaðan fór ég beint til fundar við blaðamenn fréttablaða á landsbyggðinni, sem voru í endurmenntun í Tæknigarði hjá Sigrúnu Stefánsdóttur hjá Endurmenntunarstofnun HÍ. Ræddum við um skólamál í um það bil klukkustund. Klukkan 14 hófust menningardagar BÍSN með hátíðlegri athöfn í Kennaraháskóla Íslands. Um kvöldið var síðan árshátíð Heimdallar í Þjóðleikhúskjallaranum, þar sem við Rut vorum heiðursgestir. Birti ég ávarp mitt þar annars staðar á heimasíðunni.

Föstudagur 8.3.1996 - 8.3.1996 0:00

Í hádegi föstudaginn 8. mars kom í minn hlut að opna Framadaga í Þjóðarbókhlöðunni með rektor Háskóla Íslands. Það er Aisec, félag viðskiptafræðinema við HÍ, sem stendur fyrir þessum dögum til að efla tengsl nemenda og fyrirtækja. Voru um 40 fyrirtæki með kynningar í Þjóðarbókhlöðunni og er framtakið enn til marks um dugnað nemenda. Síðdegis föstudaginn fór ég síðan í Borgarnes til að ræða um flutning grunnskólans við fulltrúa sveitarfélaganna.

Fimmtudagur 7.3.1996 - 7.3.1996 0:00

Síðdegis á fimmtudag sótti ég aðalfund Eimskips, þar sem greint var frá frábærum árangri á síðasta ári. Að kvöldi fimmtudags var ánægjuleg frumsýning Herranætur MR á rússnesku leikriti, Sjálfsmorðingjanum.

Mánudagur 4.3.1996 - 4.3.1996 0:00

Mánudag, þriðjudag og miðvikudag var ég í Kaupmannahöfn. Mánudag og fram að hádegi á þriðjudag sat ég fund Norðurlandaráðs um Evrópusamstarfið. Eftir hádegi á þriðjudag var fundur norrænna menntamálaráðherra og fyrir hádegi á miðvikudag norrænna menningarmálaráðherra. Á mánudagskvöld voru afhent bókmennta- og tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs. Á þriðjudagskvöldið sá ég Amlóða-sögu, frumlegt leikrit eftir Svein Einarsson með íslenskum leikurum, sem sýnt var í Café Teatern í Kaupmannahöfn.