Dagbók: 1997

Miðvikudagur 31.12.1997 - 31.12.1997 0:00

Klukkan 10.30 var ríkisráðsfundur á Bessastöðum. Þar staðfestir forseti Íslands eða endurstaðfestir ákvarðanir, sem teknar hafa verið af ráðherrum eða Alþingi, en þurfa formlega staðfestingu forseta til að koma til framkvæmda. Þessum ákvörðunum hefur fækkað mikið vegna þess, að skipanir í opinber störf eru nú í höndum ráðherra eða forstöðumanna stofnana en koma ekki lengur til formlegrar undirritunar hjá forseta. Þannig leiða nýju háskólalögin til dæmis til þess, að menntamálaráðherra kemur ekki lengur að því að ráða prófessora eða aðra starfsmenn háskóla, hann skipar aðeins einn starfsmann hvers háskóla, það er rektor hans. Eftir ríkisráðsfundinn buðu forsetahjónin ráðherrum kampavín í glas. Klukkan 14.00 var efnt til hefðbundinnar athafnar á vegum Ríkisútvarpsins, þegar úthlutað er viðurkenningu eða viðurkenningum úr rithöfundasjóði þess.

Þriðjudagur 30.12.1997 - 30.12.1997 0:00

Klukkan 10.30 fór ég í Landsbankann sem formaður Þingvallanefndar í þeim gleðilega tilgangi að taka við einni milljón króna í styrk til merkinga í þjóðgarðinum en áður hafði bankinn styrkt nefndina til að gefa út nýtt göngukort fyrir Þingvelli. Þá fékk Jafningjafræðslan einnig jafnháan styrk frá bankanum, en á vegum hennar er unnið mikið starf gegn fíkniefnum meðal framhaldsskólanema og er hún orðin til fyrir samstarf Félags framhaldsskólanema og menntamálaráðuneytisins. Klukkan 20. 00 var frumsýning á 4 hjörtum í Loftkastalanum, leikriti eftir Ólaf Jóhann Ólafsson.

Mánudagur 29.12.1997 - 29.12.1997 0:00

Klukkan 15.30 var hefbundin athöfn hjá Visa, þegar afhent voru menningarverðlaun fyrirtækisins. Klukkan 20.00 var tilkynnt um íþróttamann ársins við hefðbundna athöfn á Hótel

Fimmtudagur 18.12.1997 - 18.12.1997 0:00

Háskólafrumvörpin samþykkt á Alþingi. Ég efni til fundar í ráðuneytinu með stjórnendum Kennaraháskóla Íslands og verkefnisstjórn vegna sameiningar skólanna og við förum yfir næstu skref. ----- Annars einkennast þessir síðustu dagar þinghaldsins af því hjá ráðherrum og þingmönnum, að þeir reyna að sameina að vera sem mest á Alþingi og sinna jafnframt ýmsu, sem rengist undirbúningi jólanna og má þar meðal annars nefna hefðbundin jólasamkvæmi með vinum og samstarfsmönnum. Boðað er til þingflokksfunda með skömmum fyrirvara og menn sitja og bíða eftir að umræðum ljúki til að geta tekið afstöðu til mála í atkvæðagreiðslum.

Sunnudagur 15.12.1997 - 15.12.1997 0:00

Var á þingfundi fram til klukkan eitt eftir miðnætti í umræðum um háskólafrumvörpin.

Sunnudagur 14.12.1997 - 14.12.1997 0:00

Fór á jólatónleika Kammersveitar Reykjavíkur, þar sem Rut lék einleik og fékk mjög góða dóma fyrir í Morgunblaðinu 16. desember.

Laugardagur 13.12.1997 - 13.12.1997 0:00

Atkvæðagreiðsla um fjárlagafrumvarpið eftir aðra umræðu þess hófst klukkan 14 á Alþingi og stóð í tvær klukkustundir. Klukkan 17.00 fór ég á tónleika Mótettukórsins og Kristjáns Jóhannssonar í Hallgrímskirkju. Síðan á málverkasýningu Sigurbjörns Jónssonar og loks til Sævars Karls, sem var að opna nýja verslun í Bankastræti.

Föstudagur 12.12.1997 - 12.12.1997 0:00

Klukkan 11 var blaðamannafundur vegna samninga um árangursstjórnun. Klukkan 12 ritað undir samning um Viðskiptaháskólann í Reykjavík í Verslunarskóla Íslands. Klukkan 16.00 fundur með Bandalagi íslenskra listamanna.

Fimmtudagur 11.12.1997 - 11.12.1997 0:00

Fór um hádegisbilið til Keflavíkur vegna undirritunar skipulagsskrár um Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum. Fór síðdegis í heimsókn í Menntaskólann á Laugarvatni, þar sem ég opnaði formlega svonefndan ferðamálavef, sem er samstarfsverkefni skólans og sveitarfélaga í nágrenni hans. Skoðaði skólahúsnæði og heimavist en var síðan boðinn í glæsilegt kaffiboð á heimili skólameistarahjónanna. Vefsíðan er til marks um gagnlegt samstarf skóla og næstu nágranna hans.

Miðvikudagur 10.12.1997 - 10.12.1997 0:00

Efndi klukkan 14 til blaðamannafundar með nefnd um eflingu íþróttastarfs, sem kom til mín hinn 8. desember og skilaði áliti sínu.

Þriðjudagur 9.12.1997 - 9.12.1997 0:00

Fór á forsýningu á nýju James Bond-myndinni og skemmti mér vel eins og ég skýrði frá í símaviðtali við Rás-2 að morgni föstudagsins 12. desember

Sunnudagur 7.12.1997 - 7.12.1997 0:00

Fór um kvöldið á jólatónleika Fílharmóníu í Langholtskirkju

Laugardagur 6.12.1997 - 6.12.1997 0:00

Klukkan 11 sótti ég aðalfund Leiklistarráðs, flutti þar ávarp og svaraði fyrirspurnum.

Sunnudagur 30.11.1997 - 30.11.1997 0:00

Um kvöldið vorum við Rut flytjendur á aðventukvöldi í Víðistaðakirkju í Hafnarfirðu, hún lék á fiðlu sína og ég flutti ræðu .

Laugardagur 29.11.1997 - 29.11.1997 0:00

Þennan dag var flokksráðsfundur Sjálfstæðisflokksins haldinn að Hótel Sögu, en slíka fundi sækja álíka margir eða fleiri og sitja landsfundi annarra stjórnmálaflokka. Fyrir hádegi var rætt um sjávarútvegsmál og sat ég fundinn síðdegis. Sátum við ráðherrar flokksins fyrir svörum fundarmanna.

Laugardagur 29.11.1997 - 29.11.1997 0:00

Síðdegis fórum við á madrigala-tónleika Hamrahlíðarkórsins í Listasafni Íslands

Föstudagur 28.11.1997 - 28.11.1997 0:00

Um hádegisbilið flugum við Ásdís Halla og Árni Johnsen með Flugfélagi Íslands til Vestmannaeyja. Var tvísýnt um, hvort veður leyfði ferðina. Í Eyjum heimsóttum við Framhaldsskólann, grunnskólana og Listaskólann auk þess sem efnt var til almenns fundar um mennta- og menningarmál. Fórum við síðan með vél frá Flugfélagi Vestmannaeyja til Selfoss og vorum komin heim um níuleytið

Fimmtudagur 27.11.1997 - 27.11.1997 0:00

Klukkan 11 hófst fundur með skólameisturum framhaldsskóla af landinu öllu, en til þeirra er efnt tvisvar á ári. Er þar farið yfir sameiginleg mál og samskipti við ráðuneytið. Ég fór beint af skólameistarafundinum á Grand hótel, þar sem þá var hafið málþing um stráka í skólum, sem Karlanefnd jafnréttisráðs efndi til í samvinnu við menntamálaráðuneytið. Sóttu um fimm hundruð manns þingið, sem sýnir, að hér er á ferðinni málefni, sem vekur almennan áhuga. Um kvöldið fórum við Rut í Borgarleikhúsið og sáum okkur til ánægju sýningu Íslenska dansflokksins á Trúlofun í St. Dómingó.

Miðvikudagur 26.11.1997 - 26.11.1997 0:00

Klukkan 17 efndi málefnanefnd Sjálfstæðisflokksins um upplýsingamál til málþings um tölvunarfræðslu. Var þetta fróðlegur fundur, sem snerist um það, hvernig skólakerfið getur brugðist með markvissum hætti við nýjungum og svarað breyttum kröfum. Um kvöldið fór ég í Laugardalshöllina og sá landsleik Íslands og Hollands í körfuknattleik. Var hann skemmtilegur og stóðu okkar menn sig með prýði, þótt ekki tækist þeim að sigra.

Þriðjudagur 25.11.1997 - 25.11.1997 0:00

Klukkan 17 fór ég í Apple-búðina og tók þar þátt í útgáfuhátíð geisladisksins eða marmiðlunarbókarinnar Stafakarlar eftir Bergljótu Arnalds en þar er að finna gagnvirka sögu, sem er hugvitsamlega samin og gerð.

Mánudagur 24.11.1997 - 24.11.1997 0:00

Mér brá þegar ég sá fyrirsögn á viðtali við konu í Degi, að hún væri eins og Björn Bjarnason. Við nánari athugun kom í ljós, að hún hafði gaman að því eins og ég að horfa á spennumyndir á borð við Die Hard. Þetta mánudagskvöld skaust ég í Kringlubíó og sá vel gerða lögreglumynd frá Los Angeles. Minnti andrúmsloftið á það, sem mátti kynnast í sögum Raymonds Chandlers, þótt blóðsúthellingarnar væru meiri þarna en hjá honum.

Sunnudagur 23.11.1997 - 23.11.1997 0:00

Sunnudaginn 23. nóvember klukkan 13.30 var séra Karl Sigurbjörnsson vígður til biskups yfir Íslandi í mikilli athöfn í Hallgrímskirkju. Vorum við Rut komin í kirkjuna um 13.15 og hún var rétt fyrir 16.00, þegar við gengum út úr henni og sýnir það eitt, hve umfangsmikil athöfnin var. Gaf það henni nýtt yfirbragð, að hún skyldi fara fram í Hallgrímskirkju. Þótt ég skilji vel áhuga Dómkirkjumanna á því að halda fram hlut sinnar kirkju og tel rök þeirra mæla með því, að slíkar athafnir fari þar fram, gefur valið á Hallgrímskirkju færi á að hefja athöfn sem þessa upp í annað veldi, ef ég má orða það svo. Glaður var ég, að sjá vin minn séra Þóri Stephensen í kór Hallgrímskirkju með öðrum prestum, því að ég heyrði hann flytja í útvarp sannfærandi rök fyrir hönd Dómkirkjunnar og lýsa efasemdum um, að sér gæfist færi á að taka þátt í vígsluathöfninni vegna anna í Viðey. Þegar mikill mannfjöldi kemur saman til stórhátíðar í stórri kirkju eins og Hallgrímskirkju skapast einstakt andrúmsloft og er ánægjulegt, að við höfum nú aðstöðu til að kynnast kraftinum, sem í felst í þessum hátíðum með aðstoð stórorgels og frábærra tónlistarmanna og kóra. Það hefur gildi í sjálfu sér að nýta sér slíka aðstöðu, þótt virða beri trúarlegar og sögulegar hefðir.

Laugardagur 22.11.1997 - 22.11.1997 0:00

Laugardag 22. nóvember sótti ég þann hluta málþings um Kristni í þúsund ár, sem snerist um hlut Þingvalla.

Föstudagur 21.11.1997 - 21.11.1997 0:00

Föstudag 21. nóvember var efnt til lokaðs málþings í menntamálaráðuneytinu um samræmd próf og setti ég það með ræðu .

Miðvikudagur 19.11.1997 - 19.11.1997 0:00

Miðvikudagskvöld 19. nóvember fórum við Rut á gestaleiksýningu frá Litla leikhúsinu í Vilníus og Þjóðleikhúsinu í Litháen á Stóra sviði Þjóðleikhússins. Var þetta glæsileg sýning á Grímudansleiknum - Maskarad eftir Mikhaíl Lermontov.

Laugardagur 1.11.1997 - 1.11.1997 0:00

Klukkan 10 hófst Íþróttaþing í nýjum og glæsilegum sal í Grand hótel. Var hann þéttsetinn enda fyrsta þing hins nýja Íþrótta- og ólympíusambands Íslands. Flutti ég þar ávarp.

Föstudagur 31.10.1997 - 31.10.1997 0:00

Vél Íslandsflugs frá Bíldudal lenti um hádegisbilið, en klukkan 14.30 efndi ég til blaðamannafundar um nýja skýrslu um þátttöku stúlkna og kvenna í íþróttum með Hönnu Katrínu Fredriksen blaðamanni, sem var formaður nefndar, sem samdi skýrsluna á grundvelli ályktunar Alþingis. Klukkan 17.30 kom síðan Þorvaldur Friðriksson, fréttamaður hjá RÚV, til mín og tók við mig viðtal um ferð Kínaforseta til Bandaríkjanna, sem var útvarpað í fréttaauka á laugardegi, 1. nóvember. Hafði lítill tími gefist hjá mér til að huga að því viðfangsefni, en eftir að hafa haft erlendar fréttir og alþjóðamál sem áhugaefni í áratugi er eins og maður búi þar að þekkingu, sem auðvelt er að grípa til með skömmum fyrirvara og tengja við atburði líðandi stundar. Að verulegu leyti endurtekur sagan sig, þótt þátttakendur í atburðunum séu aðrir eins og umgjörðin.

Miðvikudagur 29.10.1997 - 29.10.1997 0:00

Þennan dag kom ég aftur til starfa eftir ferðalag okkar Ásdísar Höllu til Parísar og London. Eftir að hafa verið nokkra daga í burtu þarf alltaf dálítinn tíma til að koma skrifborðinu í samt lag og ná utan um þau mál, sem safnast saman. Þessi tími var stuttur að þessu sinni, því að strax að morgni fimmtudagsins flaug ég til Bíldudals og kom ekki aftur fyrr en um hádegi föstudaginn 32. október. Þess vegna var þéttraðað á allan miðvikudaginn frá morgni til kvölds. Viðtöl fyrir hádegi og fundir síðdegis. Klukkan 18. 30 fór ég síðan inn á Stöð 2 til að vera þar í beinni útsendingu upp úr sjö í Íslandi í dag. Voru hugmyndir um flutning stýrimanna- og vélstjóranáms úr Sjómannaskólahúsinu þar til umræðu. Var einnig drepið á það mál á fundinum á Patreksfirði næsta kvöld. Er greinilegt, að margir taka þessar hugmyndir nærri sér. Klukkan 20 fórum við Rut í Þjóðleikhúsið og sáum frumsýningu á leikritinu Grandavegur 7. Var þeirri stund vel varið.

Miðvikudagur 22.10.1997 - 22.10.1997 0:00

Síðdegis fór ég í Borgarleikhúsið og tók þar þátt í kynningu á vegum Sjóvá- Almennra á nýju umferðarfræðsludiski, sem nota má í geisladrif á tölvum til að læra umferðarreglur og að aka bíl.

Þriðjudagur 21.10.1997 - 21.10.1997 0:00

Umræður voru á Alþingi í fjögur frumvörp, sem ég flyt þar, það er um háskóla, um Kennara- og uppeldisháskóla, um Örnefndastofnun og um breyting á lögum um bæjarnöfn. Var mest rætt um fyrsta frumvarpið og gekk Svavar Gestsson helst fram fyrir skjöldu af hálfu stjórnarandstöðunnar. Daginn eftir var öllum frumvörpunum vísað til meðferðar í menntamálanefnd þingsins.

Sunnudagur 19.10.1997 - 19.10.1997 0:00

Klukkan 19.00 var ég í beinni sjónvarpsútsendingu á Stöð 2 og ræddi þar um samskipti Íslands og Kína í þætti um fréttir liðinnar viku. Um kvöldið voru fyrstu áskriftartónleikar Kammersveitar Reykjavíkur á þessu starfsári í Listasafni Íslands.

Laugardagur 18.10.1997 - 18.10.1997 0:00

Klukkan 11 flutti ég stutt ávarp við upphaf málþings í Menntaskólanum við Sund um málefni og stöðu skólans. Hafði ég tíma þar til að hlusta á framsöguræður, sem allar voru hinar fróðlegustu. Sjálfstæði framhaldsskólanna er að aukast og jafnframt tel ég, að þeir muni í vaxandi mæli keppa um nemendur, að minnsta kosti hér á höfuðborgarsvæðinu og þess vegna beri skólunum að skerpa sjálfsmynd sína og gera nemendum með skýrari hætti en til þessa grein fyrir því, hvað þeir hafa að bjóða. Almennt voru ræður manna jákvæðar á þessu málþingi, sérstaklega finnst mér skemmtilegt að heyra í fulltrúum nemenda, bæði hér og við vígslu nýja skólahússins í Garðabæ voru fulltrúar nemenda hvað jákvæðastir og mest í mun að gera skólann sinn betri og halda merki hans hátt á loft. Klukkan 16 tókum við þátt í hátíð Rithöfundasambands Íslands að Dyngjuvegi 8, þar sem sambandið var formlega að flytja aðsetur sitt í hús, sem Gunnar Gunnarsson reisti sér um 1950. Davíð Oddsson beitti sér fyrir því sem borgarstjóri að húsið var keypt á sínum tíma og skyldi það notað í þágu listamanna. Hefur ráðstöfun þess nú verið ákveðin með þessum hætti. Í minn hlut kom að afhenda Ingibjörgu Haraldsdóttur, formanni Rithöfundasambandsins, gjafabréf frá nokkrum velunnurum rithöfunda, sem gefa þeim myndir Gunnars sonar skáldsins úr Fjallkirkjunni og myndskreyttan texta úr Sonnettusveig, hanga þessar um 150 myndir á veggjum Dynguvegs 8 og gefa stofunum þar sérstakan svip.

Föstudagur 17.10.1997 - 17.10.1997 0:00

Klukkan 9 flutti ég ræðu við upphaf málþings sem menntamálaráðuneytið boðaði til um samstarf heimilis og skóla.Var þetta fyrsta málþing um þetta efni og vonandi leggur það grunn að nánara samstarfi heimila og skóla. Allar rannsóknir sýna, að hlutur foreldra við menntun barna sinna skiptir miklu máli. Ég hef verulegar áhyggjur af því, hve umræður um skólamál verða oft neikvæðar og straumarnir eru of mikið á þann veg. Er ég sannfærður um að nánari tengsl skólanna við foreldra og forráðamenn barna styrki stöðu skólanna sem stofnana. Klukkan þrjú flutti ég ræðu á afmælisráðstefnu SÁÁ um hlutverk ríkisins í forvörnum og meðferð. Síðan lá leiðin í álverið í Straumsvík, þar sem hin nýi hluti þess var formlega tekinn í notkun. Þótt skömm sé frá að segja, hafði ég aldrei áður komið inn á athafnasvæði álversins. Var einstaklega glæsilega og með skipulegum hætti staðið að þessari athöfn allri.

Laugardagur 11.10.1997 - 11.10.1997 0:00

Fór í Listasafn ASÍ og var við opnun sýninga Vilhjálms G. Vilhjálmssonar og Erlu Þórarinsdóttur.

Föstudagur 10.10.1997 - 10.10.1997 0:00

Fórum í Gerðarsafn í Kópavogi, þar sem kynntar voru teikningar að Tónlistarhúsi Kópavogs, og skoðaði einnig sýningar þriggja listmálara í safninu Eggerts Péturssonar, Helga Þorgils Friðjónssonar og Kristins G. Harðarsonar. Um kvöldið fórum við á frumsýningu óperunnar Cosi van tutti í Íslensku óperunni.

Fimmtudagur 9.10.1997 - 9.10.1997 0:00

Flutti setningarávarp í hátíðarsal Háskóla Íslands á þriðju ráðstefnu norrænna sagnfræðinema um norræna sjálfsmynd í fortíð og samtíð. Um kvöldið fór ég á frumsýningu kvikmyndarinnar Perlur og svín í Stjörnubíói

Þriðjudagur 7.10.1997 - 7.10.1997 0:00

Störf Alþingis hófust með skipulegum hætti í vikunni. Þriðjudag og miðvikudag voru umræður um fjárlagafrumvarpið. Stjórnarandstæðingar gerðu menntamál lítið að umtalsefni, enda erfitt að gagnrýna fjárveitingar til þeirra á þeirri forsendu, að um samdrátt sé að ræða. Að morgni fimmtudagsins var umræða utan dagskrár vegna Lánsjóðs íslenskra námsmanna, að þessu sinni um rétt nemenda í þeim deildum Háskóla Íslands, þar sem gilda fjöldatakmarkanir, til að fá tvisvar sinnum lán til náms á fyrsta ári. Hafði meirigluti stjórnar sjóðsins komist að þeirri niðurstöðu að hverfa bæri frá þessari skipan með vísan til jafnræðisreglna, ég andmæli ekki þeirri niðurstöðu en tel eðlilegt að ákvörðun um þetta komi í úthlutunarreglur að lokinni frekari lögfræðilegri athugun, jafnt á formi og efni málsins, en stjórn LÍN tók málið upp vegna álits umboðsmanns Alþingis um rétt hjúkrunarnema til námsláns.

Laugardagur 4.10.1997 - 4.10.1997 0:00

Klukkan 14.00 var opnuð sýning í Þjóðarbókhlöðu í tilefni af 150 ára afmæli Prestaskólans. Klukkan 17.00 var boðið til veislu vegna 100 ára afmælis Æskunnar. Klukkan 20.00 sóttum við tónleika á vegum Félags íslenskra tónlistarmanna í Listasafni Íslands, þar sem einleikarar frá Norðurlöndum komu fram.

Föstudagur 3.10.1997 - 3.10.1997 0:00

Klukkan 17.00 fórum við í Fjölbrautarskólann í Garðabæ og tókum þátt í hátíðahöldum vegna þess að skólinn er fluttur í nýtt húsnæði. Var fjöldi manns þar í hátíðarskapi. Flutti ég ávarp og síðan skoðuðum við glæsilegt skólahúsnæðið. Athygli mína vakti, að sjónvarpið sá ekki ástæðu til að vera á staðnum og segja frá þessum merka viðburði í sögu skólans eða þróun framhaldsskólakerfisins, þótt það hafi hins vegar sent menn á vettvang, þegar nemendurnir komu frá Sauðárkróki. Þótti mér athöfnin í Garðabæ ekki síður markverð þennan dag en síðasta sprengingin í Hvalfjarðargöngum. Klukkan 20.00 opnaði ég sýningu í Listasafni Íslands á verkum Gunnlaugs Schevings. Er ástæða til að hvetja sem flesta til að sækja þessa merkilegu sýningu.

Fimmtudagur 2.10.1997 - 2.10.1997 0:00

Klukkan 13.00 flutti ég ávarp á ráðstefnu um markaðssetningu á netinu, sem haldin var í Loftkastalanum. Þegar ég kom þangað uppgötvaði ég, að mér hafði láðst að setja ræðuna í töskuna mína. Sem betur fer var löng röð ráðstefnugesta að skrá sig til þátttöku og skaust Jón Ásbergsson, framkvæmdastjóri Útflutningsráðs, með mig í ráðuneytið að sækja ræðuna og komum við aftur í tæka tíð. Klukkan 14.00 hitti ég nemendur úr framhaldsskólanum á Sauðárkróki, sem hjóluðu í bæinn til að árétta nauðsyn þess, að heimavistarbygging væri reist við skólann en nefnd vinnur nú að undirbúningi málsins.