7.10.1997 0:00

Þriðjudagur 7.10.1997

Störf Alþingis hófust með skipulegum hætti í vikunni. Þriðjudag og miðvikudag voru umræður um fjárlagafrumvarpið. Stjórnarandstæðingar gerðu menntamál lítið að umtalsefni, enda erfitt að gagnrýna fjárveitingar til þeirra á þeirri forsendu, að um samdrátt sé að ræða. Að morgni fimmtudagsins var umræða utan dagskrár vegna Lánsjóðs íslenskra námsmanna, að þessu sinni um rétt nemenda í þeim deildum Háskóla Íslands, þar sem gilda fjöldatakmarkanir, til að fá tvisvar sinnum lán til náms á fyrsta ári. Hafði meirigluti stjórnar sjóðsins komist að þeirri niðurstöðu að hverfa bæri frá þessari skipan með vísan til jafnræðisreglna, ég andmæli ekki þeirri niðurstöðu en tel eðlilegt að ákvörðun um þetta komi í úthlutunarreglur að lokinni frekari lögfræðilegri athugun, jafnt á formi og efni málsins, en stjórn LÍN tók málið upp vegna álits umboðsmanns Alþingis um rétt hjúkrunarnema til námsláns.