Dagbók: ágúst 1996

Laugardagur 31.8.1996 - 31.8.1996 0:00

Klukkan 9.15 að morgni laugardagsins 31. ágúst hófst ráðstefna Skýrslutæknifélagsins um skólastarf og upplýsingatækni. Flutti ég ávarp við upphaf hennar og hlýddi síðan á nokkur erindi, þar til ég varð að fara til að búa mig undir för á Kirkjubæjarklaustur, þar sem við Rut voru gestgjafar í kvöldverði á ársfundi norrænu UNESCO-nefndanna. Komum við aftur síðdegis sunnudaginn 1. september. Á ráðstefnu Skýrslutæknifélagsins var ánægjulegt að heyra mikið lof borið á rit menntamálaráðuneytisins Í krafti upplýsinga, þar sem gerð er grein fyrir stefnunni við notkun upplýsingatækni í þágu mennta og menningar.

Föstudagur 30.8.1996 - 30.8.1996 0:00

Föstudaginn 30. ágúst klukkan 15.00 var athöfn í Borgarholtsskóla, þegar nýbyggingar hans voru formlega afhentar skólameistara hans. Klukkan 17.00 var opnaður leikskóli í nýjum garði við Háskóla Íslands. Þaðan héldum við beint út á Reykjavíkurflugvöll í afmæli Landhelgisgæslunnar og um kvöldið vorum við síðan á frumsýningu á Hinum kúnum í Kaffileikhúsinu.

Miðvikudagur 28.8.1996 - 28.8.1996 0:00

Að morgni miðvikudagsins 28. ágúst fórum við Rut af stað til Keflavíkuflugvallar klukkan hálfsex um morgunin til að taka á móti hinum sigursælu íþróttamönnum okkar, sem sóttu Ólympíuleika fatlaðra í Atlanta. Klukkan 20 um kvöldið hófst 10 ára afmælisfagnaður Íslenska útvarpsfélagsins hf. í Perlunni en þar hafði ég verið beðinn að flytja ávarp, sem ég gerði um klukkan 21.30. Líklega hefur það farið fyrir ofan garð hjá flestum, því að kliðurinn var svo mikill og hátalarakerfið veikburða, að aðeins þeir, sem næstir stóðu heyrðu. Um klukkan 23 var ég síðan í beinni útsendingu á Stöð 2 í tilefni afmælisins.

Föstudagur 13.8.1996 - 13.8.1996 0:00

Menningarlífið er að fara af stað að nýju, þótt lítið hlé hafi raunar orðið yfir sumarið. Föstudagskvöldið 13. september fórum við á frumsýningu á verki Árna Ibsens í Borgarleikhúsinu og kvöldið eftir á frumsýningu verks Karls Ágústs Úlfssonar á Litla sviði Þjóðleikhússins, sunnudagskvöldið 15. september lék Erling Blöndal Bengtson á sellóið sitt í Bústaðakirkju á vegum Kammermúsikklúbbsins og hóf hlustendur yfir stund og stað. Síðdegis föstudaginn 13. september flutti ég ræðu á Foreldraþingi Heimilis og skóla og klukkan 9 að morgni laugardagsins 14. september flutti ég ræðu við upphaf málþings á vegum Stofnunar Sigurðar Nordals , í tilefni 10 ára afmælis hennar, eftir hádegið fórum í stutta stund út í Viðey með sjálfstæðismönnum úr Reykjavík og síðan í afmælishóf Stofnunar Sigurðar Nordals , áður en farið var í leikhúsið.