Dagbók

Miðvikudagur, 31.12. 08. - 31.12.2008 5:04

Hjá mér er ekki fastur liður á gamlársdag að horfa á Kryddsíldina umræðuþátt Stöðvar 2 með forystumönnum stjórnmálaflokkanna. Heiti þáttarins þykir mér best, með því er haldið í þýðingarvillu í Morgunblaðinu á sínum tíma. Þar var heiti á umræðuþætti í danska útvarpinu, sjónvarpi eða hljóðvarpi, Krydsild, íslenskað sem kryddsíld, þegar þær Margrét Danadrottning og Vigdís Finnbogadóttir, forseti Íslands, voru þar saman - ef ég man rétt.

Með danska orðinu krydsild er því lýst, þegar skotið er úr tveimur gagnstæðum áttum, og segja má, að það hafi gerst á hótel Borg í dag, þegar Kryddsíldin var í loftinu, því að þá var bæði „skothríð“ innan dyra undir stjórn Sigmundar Ernis Rúnarssonar og utan undir stjórn einhverra annarra, sem segjast að vísu hafa verið stjórnlausir, en tókst að stöðva útsendinguna og eyðileggja auk þess tæki Stöðvar 2 og valda milljónaskemmdum að sögn Sigmundar Ernis.

Lögregla varð að beita piparúða til að rýma hótel Borg. Þá var sjúkralið kallað á vettvang til að hlú að þeim, sem urðu fyrir úðanum eða meiddust vegna mótmælanna.

Allt hefur þetta síðan dregið skrýtinn dilk á eftir sér eins og sjá má hér og á síðu Egils Helgasonar, sem á sínum tíma stjórnaði Kryddsíldinni, en finnst ekki mikið til hennar koma.

Má segja, að árið endi með dálitlum fjölmiðlastæl, þótt vissulega hefði hann mátt vera friðsamlegri og vingjarnlegri. Hvað er áunnið með því að trufla útsendingu umræðuþáttar? Er ekki ávallt verið að hvetja til þess, að rætt sé saman og leitast við að skýra málin?

Lögregla lýsir atburðum þannig:

Lesa meira

Þriðjudagur, 30. 12. 08. - 30.12.2008 23:32

Í dag kom í ljós, að enginn hafði sótt um embætti hins sérstaka saksóknara, svo að ég ákvað að framlengja umsóknarfrest til 12. janúar.

Að tillögu hæstaréttar skipaði ég Viðar Má Matthíasson varadómara í hæstarétti í stað Páls Hreinssonar, sem er formaður í rannsóknarnefnd á bankahruninu.

Umboðsmaður alþingis birti í dag álit sitt vegna kvörtunar í tilefni af skipun Þorsteins Davíðssonar í embætti héraðsdómara, sá hann „tiltekna annmarka“ á skipuninni.

Umboðsmaður gerði þá athugasemd við ákvörðun mína um vanhæfi mitt, að ég hefði tekið hana of seint í ferlinu. Ég tók hana, þegar málið var komið af umsagnarstigi og var lagt fyrir ráðherra til ákvörðunar. Ég hef almennt þann hátt á að koma ekki að ákvörðunum um skipanir í embætti, fyrr en á þessu stigi, og brá út ekki af þeirri reglu í þetta skipti.

Mánudagur, 29. 12. 08. - 29.12.2008 20:34

Fór síðdegis í Reykjanesbæ og sat þar fund með lögreglumönnum á Suðurnesjum, þar sem kynnt var nýtt skipurit lögregluliðsins og staðfest sú breyting, sem ákveðin hefur verið að tillögu þeirra Ólafs K. Ólafsson, sýslumanns Snæfellinga, Jóns Bjartmarz, yfirlögregluþjóns hjá ríkislögreglustjóra, og Halldórs Halldórssonar, fjármálastjóra lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en þeir tóku þrír að sér hinn 1. október sl. að leiða liðið inn í nýtt skipulag.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, sem tekur við lögreglustjóraembættinu hinn 1. janúar af Ólafi K. Ólafssyni, kynnti nýja skipuritið og svaraði spurningum lögreglumanna.

Að loknum lögreglumannafundinum hittum við fulltrúa sveitarstjórna á Suðurnesjum og var nýja skipulagið kynnt fyrir þeim og spurningum þeirra svarað.

Alþingi samþykkti breytingu á tollalögum, sem skyldi yfirstjórn tollamála frá lögreglustjóranum og setti undir tollstjóra, en nú er landið allt eitt tollumdæmi.

Með þessum ágætu og málefnalegu fundum í Reykjanesbæ lauk endurskipulagningu á embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum, sem ég kynnti í mars sl., þegar fyrir lá, að enn einu sinni stefndi í mikinn fjárhagsvanda hjá embættinu á þessu ári.

Miðað við allan hávaðann, sem var frá mars fram til loka september vegna tillagna minna um breytingar á embættinu, er fagnaðarefni, að lokaskrefið er stigið í góðri sátt og án þess, að menn séu í uppnámi.

Sunnudagur, 28. 12. 08. - 28.12.2008 19:04

Í Hönnunarsafninu við Garðatorg í Garðabæ er forvitnileg sýning á íslenskum jólaskeiðum.

Áhugamenn um lestur á netinu hafa tekið eftir því, að Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, hefur skrifað greinar á vefsíðuna www.amx.is og www.evropunefnd.is , en það er umræðuvettvangur sjálfstæðismanna um Evrópumál í aðdraganda landsfundarins 29. janúar.

Viðbrögðin við greinum Styrmis hafa verið mikil en ómálefnalegust á vefsíðu Egils Helgasonar, þar sem nafnleysingjar vaða uppi og ausa úr skálum reiði eða fávisku. Er með nokkrum ólíkindum, að Egill skuli sætta sig við, að þessi ósköp birtist á síðu undir nafni hans.

Mbl.is tilkynnti, að frá og með næstu áramótum yrðu menn að birta þar blogg-athugasemdir undir nafni.

Það hlýtur aðeins að vera spurning um tíma, hvenær verður látið reyna á ábyrgð þeirra, sem eru farvegir fyrir árásir nafnleysingja á nafngreinda menn á netinu.

Í dag ritaði ég pistil um efnahagsbrot hér á síðuna.

Laugardagur, 27. 12. 08. - 27.12.2008 18:16

 

Páll Magnússon, formannsframbjóðandi í Framsóknarflokknum, heldur áfram að ráðast á Samfylkinguna og saka hana um skort á stefnufestu í Evrópumálum. Hann gerir grín að Kristrúnu Heimisdóttur, aðstoðarmanni utanríkisráðherra, og Ágústi Ólafi Ágústssyni, varformanni Samfylkingarinnar, fyrir að koma fram á völlinn og segja, að víst hafi Samfylkingin mótað sér stefnu í Evrópumálum, þótt Stefán Jóhann Stefánsson, varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar, segi annað, en hann situr í þeirri nefnd flokksins, sem á að móta þessa stefnu.

22. febrúar 2003 sagði ég frá því hér á síðunni, að í aðdraganda þingkosninga þá um vorið hefði ég rætt við Össur Skarphéðinsson um niðurstöður í skoðanakönnun á vegum Stöðvar 2, sem sýndi, að meirihluti væri andvígur aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB). Það hefði komið mér á óvart, hve Össur gerði í raun lítið úr Evrópustefnu Samfylkingarinnar. Var hann þeirrar skoðunar, að ekkert þýddi að ræða ESB-aðild nema Sjálfstæðisflokkurinn hefði þar forystu. Þetta hefði verið annar tónn en áður hjá Össuri og taldi ég líklegast, að einhverjir ímyndarsérfræðingar hefðu sagt Össuri og Samfylkingunni, að til einskis væri að setja ESB-aðild á oddinn í kosningabaráttunni.  Ekki væri aðeins, að Össur talaði á annan veg um ESB og Ísland en hann hefði gert. Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, hefði einnig blásið málið út af borðinu í setningarræðu sinni á flokksþingi framsóknarmanna föstudaginn 21. febrúar, 2003.

Nú fimm árum síðar virðast forystumenn í Samfylkingu og Framsóknarflokki enn vera komnir í hár saman vegna Evrópumála og enn bíða þeir eftir því, hvað Sjálfstæðisflokkurinn segir. Páll Magnússon segir. að hafi Framsóknarflokkurinn verið „hækja“ Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn sé Samfylkingin „skækja“ Sjálfstæðsflokksins í núverandi ríkisstjórn.

Þetta orðbragð Páls er líklega til marks um nýja tíma í stjórnmálum. Ég tel það ekki til neinna bóta og ekki auðvelda neinum að gera upp hug sinn.

 

Föstudagur, 26. 12. 08. - 26.12.2008 2:59

Á andriki.is stendur hinn 25. desember:

Ef Ísland á ekki heima með evrópuþjóðum innan Evrópusambandsins að þínu mati hvar á Ísland þá heima í alþjóðasamfélaginu ef litið er til efnahagslegra, menningarlegra, pólitískra og stjórnskipulegra þátta ?

- Spurt á fundi einnar af Evrópunefndum Sjálfstæðisflokksins 22. desember 2008.

Spurningunni hér að ofan var beint til Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra sem var einn af gestum fundarins í Valhöll. Vefþjóðviljinn hefur svör Björns ekki á takteinum enda er það spurningin sjálf sem er klassík og mikilvægt sýnishorn um hugarheim forræðishyggjunnar. Hún skýrir svo vel þá nauðhyggju og trú á miðstýringu sem einkennir marga ESB-sinna.“

Ég svaraði á þann veg, að ég teldi Ísland ekki einangrað eins og málum væi nú komið. Við erum þátttakendur í alþjóðasamfélaginu á grundvelli fjölmargra alþjóðasamninga og þar á meðal við Evrópusambandið um viðskiptafrelsi og landamærafrelsi.

Styrmir Gunnarsson ritar grein á vefsíðuna www.evropunefnd.is og ræðir það hugsanleg friðkaup sjálfstæðismanna við Samfylkinguna um Evrópumálin. Styrmir segir:

„Í þeim fróðlegu umræðum, sem nú fara fram á vettvangi Sjálfstæðisflokksins um málefni Íslands og Evrópusambandsins hefur það sjónarmið komið fram, að þar sé á ferðinni friðþæging (appeasement) gagnvart Samfylkingunni til þess að koma í veg fyrir stjórnarslit. Með þeirri orðanotkun er raunverulega spurt, hvort Sjálfstæðisflokkurinn sé á leið til Munchen en nú í haust voru liðin 70 ár frá því að Neville Chamberlain sneri sigri hrósandi heim til Bretlands frá Munchen með pappírsblað, sem þeir höfðu sett nafn sitt á, hann og Adolf Hitler og Chamberlain taldi að mundi tryggja frið í heiminum um okkar daga.“

Egill Helgason tók kipp, þegar hann las þetta eftir Styrmi og segir:

Björn Bjarnason hefur skrifað, oftar en einu sinni að mig minnir, að umræðu um málefni ljúki sjálfkrafa þegar annar aðilinn fer að líkja hinum við Hitler eða nasista.

Skyldi þetta líka eiga við Styrmi Gunnarsson þegar hann líkir hugsanlegum aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið við samningana í München 1938?“

Lesa meira

Fimmtudagur, 25. 12. 08. - 25.12.2008 17:37

Á sínum tíma kannaði ég að hvatningu föður míns, hvort ekki væri rétt, að Jón Vigfússon, Bauka-Jón, væri sá í hópi forfeðra okkar, sem síðast hefði orðið biskup. Það reyndist svo. Í nýrri bók Jóns Þ. Þór. sagnfræðings, Bauka-Jón - saga frá sautjándu öld er haft eftir Oddi F. Helgasyni, ættfræðingi, að skráðir afkomendur Jóns og Guðríðar Þórðardóttur, konu hans, lífs og liðnir, séu liðlega 130.000 og þar af segir Jón Þ. Þór, að um 30.000 séu nú á lífi.

Jón Þ. Þór hefur ekki miklar heimildir um Jón að styðjast við en honum tekst að gera efni sínu góð skil með vísan til þess litla, sem til er um Bauka-Jón, og flétta það inn í aldarfarslýsingu og lýsingu á þeim breytingum, sem urðu á stjórn Danaveldis, þegar einveldi konungs og arfríkið kom til sögunnar árið 1661. Aðallinn missti vald sitt til að setja konungsefni skilyrði og nýr valdahópur embættismanna kom til sögunnar. Bauka-Jón hlaut upphefð sína og embætti frá þeim hópi, sem vildi einnig storka fulltrúum gamla kerfisins á Íslandi. Skýrt dæmi um það er, að konungur gerði Jón Vigfússon að biskupi á Hólum - en Jón var ekki prestlærður. Var þetta svar konungs og embættismanna hans við því, að Jón lét af sýslumannsembætti á Mýrum og í Borgarfirði vegna ásakana um að hafa stundað launverslun með tóbak auk þess að hafa móðgað embættismann konungs á þingi á Þingvöllum.

Af bókinni má ráða, að Bauka-Jón hafi verið virkur þátttakandi í einskonar uppreisn að ofan gegn ríkjandi kerfi, þar sem menn handgengir konungi gripu tækifæri á miklu breytingaskeiði til að umbylta stjórnarháttum, sem staðið höfðu um aldir. Byltingin tókst hins vegar ekki nema að hluta og bæði í Danmörku og á Íslandi át hún að nokkru leyti börnin sín. Jón Vigfússon andaðist á Hólum árið 1690 rétt í þann mund, sem hann var dæmdur frá biskupsembætti og eignum sínum á alþingi. Hæstiréttur hnekkti þeim dómi, þar sem ekki væri unnt að veitast að eignum hans látnum eða láta verk hans bitna á ekkju hans og börnum.

Sumir töldu Bauka-Jón göldróttan. Er það tímanna tákn, að orð Jóns Þ. Þór um galdra á sautjándu öld eigi erindi inn í þjóðmálaumræðu líðandi stundar, þegar Eva Hauksdóttir, eigandi Nornabúðarinnar, efnir til svartagaldurs á túninu fyrir framan stjórnarráðshúsið. Jón Þ. Þór segir: „Hvítagaldur var bannaður með lögum og lágu þungar refsingar við því að fara með hann, þótt ekki væru menn líflátnir fyrir þær sakir. Enn verra þótti þó að stunda svartagaldur, en hann var notaður í því skyni að valda öðrum tjóni. Ásakanir um að fólk stundaði svartagaldur tóku að skjóta upp kollinum þegar nokkuð var liðið á sautjándu öldina og frá 1654 til 1685 voru alls tuttugu Íslendingar brenndir á báli fyrir galdur og einn hafði verið brenndur áður, árið 1625.“

 

Miðvikudagur, 24. 12. 08. - 24.12.2008 15:35

Gleðileg jól!

Á vefsíðunni Bloomberg.com birtist í gær, Þorláksmessu, frásögn af ástandinu á Íslandi undir fyrirsögninni: Iceland 'Like Chernobyl' as Meltdown Shows Anger Can Boil Over. Vísanin til Tjsernóbíl-kjarnorkuslyssins 26. apríl, 1986 er höfð eftir Þórhalli Vilhjálmssyni, markaðsstjóra, sem sagði við fréttamanninn Ben Holland, sem búsettur er í Istanbúl: „Ísland er núna eins og Tsjernóbíl eftir sprenginguna. Allt virðist eðlilegt en það er geislavirkni.“

Á mbl.is var þetta sagt í tilefni af þessari frétt á Bloomberg.com:

„Versta kjarnorkuslys sögunnar varð í kjarnorkuverinu í Chernobyl þegar sprenging varð þar árið 1986. Að minnsta kosti átta þúsund manns létust í sprengingunni og eftirköstum hennar. “

Hvaðan mbl.is hefur töluna 8000 um mannfallið eftir kjarnorkuslysið, kemur ekki fram. Í skýrslu nefndar á vegum Sameinuðu þjóðannar, UNSCEAR-skýslunni frá 2001 segir, að rekja megi dauða 30 manns til kjarnorkuslyssins. Hafa frásagnir af hörmungum vegna þess verið taldar meðal mestu blekkinga 20. aldarinnar.

Frásögnin á Bloomberg.com sver sig í ætt við þá blaðamennsku, sem tengir Ísland heimi álfa, trölla og galdra, enda er galdranornin Eva Hauksdóttir meðal viðmælenda Bens Hollands. Þar kemur einnig  við sögu hinn sígldi herstöðvaandstæðingur, Stefán Pálsson. Hann undrast, að „ordinary people“ - ósköp venjulegt fólk - skuli ekki fjargviðrast yfir aðgerðasinnum í hópi mótmælenda, og Stefán telur réttmætt að ráðast á lögreglustöðina.

Gunnlaugur Guðmundsson, stjörnuspámaður, séra Birgir Ásgeirsson, prestur í Hallgrímskirkju. og Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor eru nefndir í veffréttinni.

Frásögnin er ekki beint til þess fallin að koma neinum í jólaskap. Hún er enn eitt dæmi um það, sem sagt er um land og þjóð vegna bankahrunsins. Sé hins vegar ekki meira að marka inntakið en allt, sem sagt var og átti ekki við rök að styðjast eftir Tsjernóbíl-slysið, er stærsta spurningin, hvort nokkru sinni tekst að koma hinu sanna og rétta á framfæri um Ísland og Íslendinga - eða hvort bankahrunið hvíli eins og illt ský yfir landi og þjóð, eftir að birtir að nýju.

Látum ekki skugga þessara atburða spilla þeim boðskap birtu og trúar, sem jólin flytja okkur!

 

 

 

Þriðjudagur, 23. 12. 08. - 23.12.2008 21:47

Ríkisstjórnin kom saman til fundar klukkan 09.30 í fundarsal forsætisnefndar alþingis í þinghúsinu. Af þeim þremur fundarsölum, sem ríkisstjórnin hefur notað, á meðan ég hef setið í henni, er þessi sá þægilegasti. Einnig skiptir miklu, að rými er fyrir framan hann, þannig að menn ganga ekki beint í flasið á fréttamönnum, sem bíða með myndatökumönnum og sitja fyrir ráðherrum að fundi loknum.

Í fjárlögum ársins 2008 er veitt 17 milljónum króna til að koma upp öryggiskerfi í kringum Bessastaði með þessari skýringu í greinargerð:

„Gerð er tillaga um 17 m.kr. framlag vegna kostnaðar við öryggismál á Bessastöðum. Um er að ræða útgjöld við uppsetningu á öryggishliði og öryggismyndavélum, auk búnaðar og nauðsynlegra lagna sem tengjast verkinu.“

Uppsetningin á þessum öryggisbúnaði markar þáttaskil í gæslu við forsetasetrið og endurspeglar breytt viðhorf í þessu efni hjá Ólafi Ragnari Grímssyni.

Á fréttavefnum www.amx.is má í dag lesa forvitnilegar tilvitnanir í þá Stefán Jóhann Stefánsson, varaborgarfulltrúa Samfylkingarinnar, um hálfkaraða Evrópustefnu Samfylkingarinnar og yfirboð Páls Magnússonar, formannsframbjóðanda í Framsóknarflokknum, gagnvart Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í ESB-aðildarmálum.

Mánudagur, 22. 12. 08. - 22.12.2008 22:07

Alþingi kom saman til fundar klukkan 09.30 og lauk fundum þess um klukkan 20.00 með samþykkt fjárlaga fyrir árið 2009 og fjáraukalaga 2008. Hraðinn við afgreiðslu fjárlaga hefur verið mikill og þungi hvílt á fjárlaganefnd og embættismönnum þings og ráðuneyta, sem að málinu koma. Næsta skref er að átta sig nákvæmlega á því, hvað í þessu öllu felst og hvernig unnt er að hrinda því í framkvæmd. Vafalaust munu ýmsar stofnanir kveinka sér undan tölunum, sem við blasa.

Klukkan 12.00 var ég í Valhöll og flutti þar stutta ræðu og svaraði spurningum um Evrópumál - en fundurinn var haldinn á vegum undirhóps Evrópunefndar Sjálfstæðisflokkksins og stjórnar Friðrik Sophusson, fyrrverandi varaformaður flokksins, honum. Hlutverk mitt var að ræða, stöðu okkar utan og innan Evrópusambandsins.

Samþætting og hagræðing er meðal þess, sem óhjákvæmilegt er að hafa að leiðarljósi í ríkisrekstri og annars staðar. Hinn 16. desember vakti ég máls í ríkisstjórn á aðgerðum í þessa átt að því er varðar starfsemi á mínu verksviði í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Vegna villandi forsíðufréttar um þau mál í Fréttablaðinu í dag, þar sem látið er í veðri vaka, að eitthvert frumkvæði sé á vegum utanríkisráðuneytis vegna varnarmálastofnunar, sem eigi í deilum við Neyðarlínuna vegna útreikninga hennar á sparnaði með brotthvarfi varnarsmálastofnunar, sendi dóms- og kirkjumálaráðuneytið frá sér fréttatilkynningu. Þar segir meðal annars:

„Ríkisstjórnin féllst hinn 16. desember sl. á tillögu Björns Bjarnasonar, dóms- og kirkjumálaráðherra, um að stefnt yrði að samþættingu verkefna og hagræðingu á starfssviði öryggis- og siglingamála. Var dóms- og kirkjumálaráðuneytinu falið að hafa forgöngu um viðræður dóms- og kirkjumálaráðuneytis, samgönguráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis, sjávarútvegsráðuneytis og utanríkisráðuneytis í því augnamiði að sameina krafta ríkisstofnana, sem tengjast siglingum, sjósókn, öryggi, löggæslu, eftirliti, sjúkra- og neyðarflugi sem og sjómælingum og rannsóknum í hafinu. Markmiðið er að auka hagræði og skilvirkni í rekstri þeirra stofnana sem hér um ræðir, en það eru einkum Landhelgisgæslan, Varnarmálastofnun, Siglingastofnun, Fiskistofa, Hafrannsóknarstofnun, Vaktstöð siglinga auk þeirra, sem sinna sjúkraflugi.

Með bréfi fjármálaráðuneytisins dags. 14. nóvember sl. er ráðuneytum falið að leita allra leiða til að draga úr ríkisútgjöldum með hliðsjón af forgangsröðun brýnustu verkefna og kjarnastarfsemi og huga að hagræðingu og skipulagsbreytingum eins og sameiningu stofnana.“

 

Sunnudagur, 21. 12. 08. - 21.12.2008 18:07

Daginn tekur nú að lengja að nýju. Veðrið var milt til gönguferðar í dag. Snjórinn hafði ekki verið troðinn á göngustíg í Öskjuhlíðinni, en hann var ekki of þungur undir fæti. Framkvæmdum er haldið áfram við hús Háskólans í Reykjavík í Vatnsmýrinni og sýnist unnið við að glerja neðstu hæðina, þótt ekki sé lokið við hina efstu.

Eiríkur Bergmann Einarsson, Evrópusérfræðingur á Bifröst, segir í grein í Fréttablaðinu í gær, að Íslendingar hafi ekki kosið að nýta fullveldisrétt sinn í stofnunum Evrópusambandsins. Fyrir þá, sem fylgjast með því, hvernig Ísland notar rétt sinn á grundvelli samningsins um evrópska efnahagssvæðið eða Schengen-samstarfsins, er þessi fullyrðing úr lausu lofti gripin.

Þá má vekja athygli á því, að tillögur Evrópunefndar, sem lauk störfum í mars 2007, miða að því, að Íslendingar nýti fullveldisrétt sinn enn meira en gert hefur verið til að gæta hagsmuna sinna í Brussel. Aðild að Evrópusambandinu er alls ekki skilyrði þess að nýta fullveldisréttinn í Brussel - samningurinn um evrópska efnahagssvæðið (EES) gefur Íslendingum gott tækifæri til þess.

Málflutningur aðildarsinna er ekki trúverðugur, þegar hann byggist að verulegu leyti á því, að gera lítið úr stöðu Íslendingar gagnvart Evrópusambandinu á grundvelli EES-samningsins.

Ég vek athygli lesenda síðu minnar, að nýtt hefti af tímaritinu Þjóðmálum kom út fyrir skömmu og er þar margt forvitnilegt að finna.

Klukkan 20.30 var ég Grafarvogskirkju og hlýddi á jólatónleika Lögreglukórs Reykjavíkur. Kirkjan var þéttsetin og var kórnum, einsöngvurum, Önnu Margréti Óskarsdóttur og Eiríki Hreini Helgasyni, hljóðfæraleikurum og Guðlaugi Viktorssyni, stjórnandi, vel fagnað.

 

Laugardagur, 20. 12. 08. - 20.12.2008 21:18

Alþingi kom saman til fundar klukkan 09.30 í morgun og lauk fundum um 17.30. Nokkur mál urðu að lögum en fjárlög ársins 2009 og fjáraukalög ársins 2008 eru enn óafgreidd.

Fyrir nokkru gerði ég hér á siðunni athugasemdir við Morgunblaðs-grein Reynis Eyvindarsonar, þar sem hann hvatti lesendur til að yfirgefa Sjálfstæðisflokkinn. Reynir svarar þessum athugasemdum í Morgunblaði, sem dreift er í dag en hefur útgáfudag á morgun.

Reynir telur, að óheimilt sé að skipa Þorstein Davíðsson og Ólaf Börk Þorvaldsson dómara, af því að þeir tengist Davíð Oddssyni. Ofstæki af þessum toga er ómálefnalegt og dæmir sig sjálft.

Reynir bendir á, að þeir, sem hafi gerst sekir eftir dómi um „verk sem er svívirðilegt að almenningsáliti“ þurfi uppreist æru til að geta boðið sig fram til þings. Því fer sem betur fer fjarri, að allir dómar séu um brot af þessu tagi, þess vegna þurfa ekki allir dæmdir menn uppreist æru til að geta boðið sig fram til þings. Séu lagaskilyrði fyrir hendi, er auk þess skylt að veita uppreist æru sé þess óskað.

Ég ætla ekki að deila við Reyni um sérgrein hans, verkfræði. Ef til vill þarf lögfræðikunnáttu til að átta sig á því, sem ég sagði um uppreist æru og þingmennsku.

Reynir getur alls ekki kennt Sjálfstæðisflokknum einum um kvótakerfið og hvatt fólk til að yfirgefa flokkinn og ganga í aðra flokka þess vegna. Hann staðfestir í svari sínu til mín, að allir flokkar eða forverar þeirra nema Frjálslyndi flokkurinn hafa komið að útfærslu kvótakerfisins á einn eða annan veg.

Reynir viðurkennir, að Ísland sé ekki gjaldþrota en lýkur grein sinni á þeim orðum, að Ísland sé meira en gjaldþrota!

Ég geri ekki lítið úr rökræðum af þessu tagi, þótt þær skili í raun engu, enda er Reynir fyrst og síðast að „pönkast“ á Sjálfstæðisflokknum, svo að vitnað sé í Reyni Traustason, ritstjóra DV. Tilgangurinn er að gera hlut Sjálfstæðisflokksins sem verstan, hvað sem tautar og raular.

Ragnarök fjórða og síðasta óperan í Niflungahring Richards Wagners var sýnd í stv2 í kvöld í uppfærslu Konunglegu sænsku óperunnar. 

 

Föstudagur, 19. 12. 08. - 19.12.2008 9:20

Ríkisstjórnin kom saman til fundar í alþingishúsinu í morgun í sal, þar sem áður var skrifstofa forseta Íslands og síðar mötuneyti alþingis, áður en skálinn var reistur við hlið þinghússins. Aðstaða er góð til að funda þarna og var það til dæmis gert 15. mars 2006, þegar boð bárust frá Bandaríkjastjórn um brottför varnarliðsins. Það eru þægindi af þessari aðstöðu í þinghúsinu, þegar annir eru miklar á þingi og menn þurfa helst að vera á tveimur stöðum í einu.

Þingmenn eru nú á lokaspretti fyrir jólaleyfi og í dag var tilkynnt, að menntamálanefnd hefði beint því til starfhóps menntamálaráðherra að útfæra reglur um auglýsingar RÚV og um leið varðandi eignarhald á fjölmiðlum. Þau mál verði að haldast í hendur. Nefndin fær frest fram til 15. febrúar. Með þessu er ákveðið að hætta við að svo stöddu að takmarka auglýsingar í RÚV en flytja hins vegar sérstakt frumvarp um nefskatt vegna RÚV.

Fjölmörg rök eru fyrir þessari ákvörðun nefndarinnar en vísan hennar til að settar verði reglur um eignarhald byggjast á því, að Baugur á 365 eða hvað sem fjölmiðlafyrirtækið um Baugsmiðlana heitir nú. Keppinautar Baugs á smásölumarkaði færa fyrir því skýr rök, að með öllu sé óviðunandi fyrir þá, að verða neyddir til að leggja fyrir fyrirtækið áætlanir sínar um auglýsingar, af því að ekki sé í nein önnur hús að venda, þegar hugað sé að auglýsingum í sjónvarpi.

Samkeppniseftirlitið sektaði í dag Baugsfyrirtækið Haga um 315 milljónir króna fyrir að misbeita ráðandi stöðu á markaði. Sagt er í niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins að brotið sé alvarlegt. Brotið snýr að verðstríði milli lágvöruverslana. Bónus er talinn hafa gengið allt of langt í að verja stöðu sína í samkeppni við Krónuna í verðstríði sem hófst í febrúar 2005.

Hluti af samkeppni er að koma keppinaut á óvart með auglýsingu. Eigi keppinauturinn hins vegar auglýsingamiðilinn veit hann, hvað er auglýst, áður en það birtist almenningi og getur svarað keppinauti sínum samtímis, til dæmis með því að lækka verð meira í auglýsingu í sama tölublaði dagblaðs, eða jafnvel fyrir útgáfu blaðsins. Sjónarmið af þessu tagi hafa verið kynnt þingmönnum og til að bregðast við því, að ekki sé unnt að nýta aðstöðu af þessu tagi er óhjákvæmilegt að huga að eignarhaldi - stærsti smásöluaðili landsins hafi til dæmis ekki undirtök í fjölmiðlum.

Blaðamennirnir Jón Bjarki Magnússon og Símon Birgisson hafa í þessari viku lýst því, hvernig ritstjórnarvaldi á Baugsmiðlum og fyrrverandi Baugsmiðlum hefur verið beitt til að þóknast eigendum Baugs. Hvað með auglýsingavaldið? Skyldi því hafa verið beitt?

Bjarni Brynjólfsson, fyrrverandi ritstjóri Séð og heyrt, skrifar í dag grein, sem birtist á vefsíðu Egils Helgasonar. Þar er enn fjallað um fjölmiðlaásókn Baugs.

Lesa meira

Fimmtudagur, 18. 12. 08. - 18.12.2008 22:19

Klukkan 13.30 var ég í Bændahöllinni og ræddi þar við fulltrúa bænda um efni skýrslu Evrópunefndar og lýsti skoðunum mínum á tengslum Íslands og Evrópusambandsins.

Þingstörfum er fram haldið og í dag urðu mörg frumvörp að lögum, þar á meðal um að fresta því að stofna embætti héraðssaksóknara um eitt ár.

Settur ríkislögreglustjóri gaf í dag út ákæru á hendur fólki tengdum Baugi vegna skattskila. Helgi Magnús Gunnarsson. saksóknari efnhagsbrota, kom að gerð ákærunnar, en helsta frétt á forsíðu Fréttablaðsins er um, að ekki sé nóg að gert í fjárveitingum til efnahagsbrotadeildar.

Við vinnslu þessarar fréttar hafði blaðamaðurinn samband við mig og svaraði ég á þann hátt, sem birtist í blaðinu. Fréttin um svar mitt er svona:

„Undrast áhuga Fréttablaðsins

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra undrast áhuga Fréttablaðsins á fækkun starfsmanna efnahagsbrotadeildar. Það kemur fram í tölvupósti þar sem hann svarar hluta af spurningum blaðsins vegna málsins.

„Fréttablaðið hefur sem Baugsmiðill tekið því almennt illa undanfarin misseri að unnið sé að rannsókn efnahagsbrota og hefur blaðið og eigendur þess gagnrýnt mig, þegar aflað hefur verið fjár til að styrkja rannsóknir og saksókn vegna efnahagsbrota og talið að þeim fjármunum væri betur varið til annarra hluta,“ skrifar Björn.

„Hvað veldur sinnaskiptum blaðsins? Mér finnst það fréttapunkturinn í þessu máli frekar en krafa fjárveitingavaldsins um aðhald í ríkisrekstri í viðleitni stjórnvalda til að draga úr skaða bankahrunsins á þjóðarbúið.““

Við athugun á þróun starfsmannamála hjá efnahagsbrotadeild sýnist Fréttablaðið líta fram hjá því, að sérstakur saksóknari var skipaður í Baugsmálinu og réð hann til sín samstarfsmenn, sem unnu að rannsókn og ákæru vegna efnahagsbrota. Nú hefur alþingi samþykkt lög um sérstakan saksóknara vegna bankahrunsins.

Hinn 8. desember 2006 fékk Arnþrúður Karlsdóttir til viðtals við sig á útvarpi Sögu Jóhannes Jónsson, kenndan við Bónus, í tilefni af því, að hann hafði þá nokkrum dögum áður gefið 21 milljón króna til Mæðrastyrksnefndar og Hjálparstofnunar kirkjunnar. Jóhannes gaf þessa skýringu á fjárhæðinni: Mér fannst vel til fundið að hafa upphæðina þessa, það er að segja 21 milljón. Það var það sem Björn Bjarnason dómsmálaráðherra fór fram á í aukafjárveitingu til þess að greiða sínum manni laun, það er að segja Sigurði Tómasi.

Sigurður Tómas Magnússon var hinn sérstaki saksóknari í Baugsmálinu og þannig var talað til mín vegna kostnaðar við störf embættis hans af forráðamönnum Baugs á þessum tíma. Nú býsnast flaggskip Baugsmiðlanna hins vegar yfir því, að ég hafi ekki gert nóg til að útvega fé til að berjast gegn efnahagsbrotum!

 

Miðvikudagur, 17. 12. 08. - 17.12.2008 21:00

Klukkan 14.15 var ég í Skógarhlíð og tók þátt í því með Guðlaugi Þór Þórðarsyni heilbrigðisráðherra að afhenda töskur með upplýsingum um, hvernig staðið skuli að því að greina slasaða á björgunarvettvangi.

Reynir Traustason, ritstjóri DV, situr sem fastast í stólnum sínum, þótt hann hafi gerst sekur um ósannsögli um samstatarfsmann sinn. Reynir rökstyður setu sína meðal annars með þessum orðum í leiðara DV í dag:

„Jónas Kristjánsson, fyrrverandi ritstjóri DV, bloggaði eftirfarandi um málið [mál Reynis, þegar hann stöðvaði birtingu fréttar um Sigurjón Þ. Árnason]: „Vont er, ef Sigurjónsmálið leiðir til afsagnar Reynis Traustasonar sem ritstjóra. Ég vona bara, að fundur starfsmanna á ritstjórn DV leiði ekki til slíks. Hann er hæfasti blaðamaður og ritstjóri landsins um þessar mundir. Jafnvel þótt honum hafi orðið á í messunni í Sigurjónsmálinu. Sannkallaða kraftaverkamenn þarf til að stýra áskriftardagblöðum nú á tímum og Reynir er einn fárra slíkra.“

Þetta eru hlý orð frá Jónasi sem leggur til að beðist verði afsökunar á mistökum. Þeirri áskorun hans er tekið. Almenningur og blaðamenn DV eru beðnir afsökunar á því að fréttin birtist ekki, jafnvel þótt það hefði kostað blaðið lífsneistann. Jafnframt er ljóst að aldrei aftur mun óttinn við afkomuna stýra því hvenær fréttir birtast. Fréttin um Sigurjón er sú lexía sem dugir.“

Sama dag og Reynir leitaði þannig halds og trausts hjá Jónasi bloggaði Símon Birgisson um reynslu sína sem blaðamaður á DV sumarið 2005, þegar blaðið laut ritstjórn Jónasar Kristjánssonar og Mikaels Torfasonar, sem skjaldaði Reyni í Kastljósi 16. desember. Símon segir frá því, að þeir Jónas og Mikael hafi neitað að birta tvær fréttir sem Símon skrifaði um ákæru í Baugsmálinu og samvinnu milli The Guardian í London og Baugsmiðilsins Fréttablaðsins um birtingu ákærunnar og viðtala við þá Jón Ásgeir og Jóhannes, föður hans. Lyktaði málinu þannig að Símon tilkynnti ritstjórunum uppsögn sína.

Eigendahollusta þeirra Jónasar og Mikaels var ekki minni er Reynis – skjallbandalagið á sér augljósa skýringu.

Nú er unnt að horfa á Hrafnaþing, viðtal Ingva Hrafns Jónssonar við mig hinn 15. desember á netinu

Þriðjudagur, 16. 12. 08. - 16.12.2008 18:55

Þegar komið var til ríkisstjórnarfundar í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu kl. 09.20 í morgun, mælti lögreglan með því, að við færum inn í garð bústaðarins frá Suðurgötu og þaðan inn um eldhúsinnganginn.

Tæplega hundrað manna hópur mótmælenda hafði brugðist við hvatningu um að koma að bústaðnum til að hindra að ríkisstjórn gæti fundað þar. Meðal þeirra, sem hvöttu til mótmælanna var Eva Hauksdóttir í Nornabúðinni við Vesturgötu, en hún varð fréttaefni, þegar hún kom með gjallarhorn að lögreglustöðinni á dögunum til að hvetja fólk til að bjarga Hauki, syni sínum, úr prísundinni. Nokkrum dögum síðar eða 1. desember var hún með svartagaldur við stjórnarráðshúsið og hitti síðan seðlabankastjórnina í húsakynnum hennar.

Aðgerðasinnar voru horfnir af vettvangi, þegar ríkisstjórnarfundinum lauk. Lögregla hélt vel á málum og enginn var handtekinn.

Evrópumál eru mjög til umræðu á vefsíðunni Andríki er birt ótrúleg frásögn af fundi, sem Vaclav Klaus, forseti Tékklands, átti með þingmönnum af þingi Evrópusambandsins.

Þessi frásögn af forsetahöllinni í Prag bliknar þó í samanburði við frásagnir af símtali Reynis Traustasonar og Jóns Bjarka Magnússonar, sem ég sagði frá hér á síðunni í gær. Undir kvöld gaf Reynir út yfirlýsingu, þar sem segir meðal annars: „Í því tveggja manna trúnaðarsamtali sem átti sér stað fékk starfsmaðurinn hins vegar óvenjulega innsýn inn í baráttu sem frjáls fjölmiðill þarf að heyja.“ Reynir harmar, að RÚV hafi birt upptöku af símtalinu „óklippta“(!). Yfirlýsingunni lýkur á þessum orðum:

„Að lokum er komið þökkum til þeirra fjölmörgu sem undanfarinn sólarhring hafa séð ástæðu til að gerast áskrifendur blaðsins og munu fá að njóta þeirrar upplýsandi umfjöllunar sem DV hefur leitt að undanförnu.“

Þá vitum við það!

Í Íslandi í dag á Stöð 2 ræddu þau Agnes Bragadóttir blaðamaður og Sigurður G. Guðjónsson hrl. um Reyni Traustason og sögðu bæði, að hann ætti að hætta sem ritstjóri. Agnes vildi einnig, að hann yrði rekinn úr Blaðamannafélagi Íslands.

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, varaformaður Blaðamannafélags Íslands, var í Kastljósi með Mikael Torfasyni, fyrrverandi ritstjóra DV, þau töluðu mildilegar um Reyni en Agnes og Sigurður G. og ráði Þóra verður Reynir ekki rekinn úr blaðamannafélaginu, því að hún treysti sér ekki til að taka afstöðu! - Þóra Kristín virtist raunar telja við hæfi að leggja að jöfnu að ræða við Reyni Traustason og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra, í báðum tilvikum væri gott að hafa leynda hljóðnema. Spyrja má: Sætta íslenskir fjölmiðlamenn sig við, að þannig sé talað af umboðsmanni þeirra um þetta mál? Hafi Reynir Traustason veikt trúðverðugleika fjölmiðla, hvað segja fjölmiðlamenn um málsvörn Þóru Kristínar?

Mánudagur, 15. 12. 08. - 15.12.2008 22:43

Síðdegis hitti ég Ingva Hrafn Jónsson á sjónvarpsstöð hans og ræddi hann við mig í tæpar 40 mínútur í þætti sínum Hrafnaþingi. Hann spurði um stjórnarsamstarfið, Davíð, Evrópusambandið og hve lengi ég yrði ráðherra – sem sagt öll heitustu málin!

Þátturinn var sendur út á sjónvarpsstöðinni Inn kl. 20.00 í kvöld og verður þar síðan á 2ja tíma fresti þennan sólarhring og þá má einnig nálgast hann á vefsíðunni www.inntv.is – sjón er sögu ríkari.

Jón Bjarki Magnússon, fyrrverandi blaðamaður á DV, greinir frá því á vefritinu NEI í dag að Reynir Traustason, ritstjóri DV, hafi stöðvað birtingu greinar sem hann skrifaði um Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans í byrjun nóvember. Fréttin hafi snúist um, að Sigurjón væri að koma á fót ráðgjafarfyrirtæki í húsnæði Landsbankans og að hann vonaðist eftir verkefnum frá Landsbankanum. Yfirlýsing Jóns Bjarka hefst á þessum orðum:

„Ég finn mig knúinn, samvisku minnar vegna, að segja frá því að frétt sem ég skrifaði fyrir DV þann 6. nóvember síðastliðinn um Sigurjón Þ. Árnason fyrrverandi bankastjóra Landsbankans var stöðvuð. Þetta geri ég vegna þess að það er skylda mín gagnvart lesendum og fólkinu í landinu að upplýsa um slík mál. Ég hef reynt að sannfæra sjálfan mig í meira en mánuð um hið gagnstæða. Að best væri að gleyma þessu og þegja. Ég hef hinsvegar ekki gleymt þessu atviki, og ég get ekki þagað yfir því lengur. Ég tel það ekki vera ásættanlegt að einhverjir ónefndir aðilar úti í bæ geti stöðvað eðlilegan fréttaflutning. Ég get ekki gerst sekur um að vera þátttakandi í leynimakki og blekkingu í krafti auðvalds á þessum síðustu og verstu tímum.“

Lesa meira

Sunnudagur, 14. 12. 08. - 14.12.2008 15:51

Flaug norður til Akureyrar í blíðskaparveðri kl. 09.30 og tók þar klukkan 11.00 þátt í athöfn, þegar minnisvarði var afhjúpaður á horni Byggðavegar og Þingvallastrætis til að halda í heiðri um ókomin ár upphaf þess, að ráðist var í aðskilnað umboðsvalds og dómsvalds í héraði, eins og síðan var rakið á málþingi á vegum lagadeildar Háskólans á Akureyri rétt við minnisvarðann. Þar flutti ég ávarp.

Flaug til baka klukkan 13.40.

Klukkan 17.00 var ég á jólatónleikum Kammersveitar Reykjavíkur í Áskirkju, þar sem flutt voru verk eftir Jan Dismas Zelenka (1679-1745) frá Tékklandi.

Fjölmiðlar hafa spurt í dag: Ertu á leið úr ríkisstjórn? Þá hafa þeir einnig spurt: Er stjórnin að springa vegna yfirlýsinga Ingibjargar Sólrúnar frá því í gær um Evrópumál? Ég tek undir með Geir H. Haarde, forsætisráðherra: Það er ekki unnt að útiloka neitt!

Björn Ingi Hrafnsson er einn af útsendurum Baugs undir merkjum Fréttablaðsins og Stöðvar 2. Hann beitti sér á sínum tíma í þágu Baugs, þegar FL-Group vildi bjarga sér með því að ná í fé Orkuveitu Reykjavíkur. Þá barðist hann gegn Guðna Ágústssyni innan Framsóknarflokksins. Nú vinnur hann að því að fá landsfund Sjálfstæðisflokksins til að samþykkja aðild að Evrópusambandinu. Loks virðist hann hafa skoðun á því, hver eigi að verða næsti varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Líklegt er, að gæðastimpill frá Birni Inga megi sín lítils innan Sjálfstæðisflokksins, þótt hann hafi hrakið Guðna Ágústsson úr formennsku í Framsóknarflokknum.

Laugardagur, 13. 12. 08. - 13.12.2008 21:32

Á ruv.is segir í dag:

„Geir Haarde forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins segir að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar setji landsfundi Sjálfstæðisflokksins ekki afarkosti. Ingibjörg segir stjórnarsamstarfinu sjálfhætt ef Sjálfstæðismenn loka á Evrópusambandsaðild á aukalandsfundi flokksins í janúar.

Geir Haarde segir að ummæli Ingibjargar hafi ekki áhrif á ákvarðanatöku á landsfundinum. Ingibjörg sagði í hádegisfréttum útvarpsins að ríkisstjórnin yrði að svara kalli almennings um mannabreytingar í Seðlabanka, Fjármálaeftirlitinu og í sjálfri ríkisstjórninni. Geir segir ekki hægt að útiloka neitt í þeim efnum.“

Ég drep á ummæli Ingibjargar Sólrúnar, sem eru tilefni þessarar fréttar, í pistli mínum í dag.

Af bloggsíðum samfylkingarfólks má ráða, að það gleðjist yfir, að Ingibjörg Sólrún hafi dregið athygli frá niðurskurði á fjárlögum með þessum afskiptum af innri málum Sjálfstæðisflokksins - kalli þetta smjörklípu formannsins.

Föstudagur, 12. 12. 08. - 12.12.2008 20:53

Lögregluskóla ríkisins var slitið í Bústaðakirkju klukkan 14.00 og flutti ég þar ávarp.

Klukkan 16.00 boðaði Evrópunefnd Sjálfstæðisflokksins til kynningarfundar í Valhöll og þá var vefsíðan www.evropunefnd.is einnig formlega opnuð en hún er upplýsinga- og samskiptasíða nefndarinnar. Ráða mátti af spurningum allra, sem spurðu Kristján Þór Júlíusson, formann nefndarinnar og alþingismann, á fundinum nálguðust viðfangsefnið úr þeirri átt, að þeir voru í augljósum vafa um gildi aðildar að Evrópusambandinu /ESB) fyrir Ísland.

Samtök atvinnulífsins hafa gert könnun meðal félagsmanna sinna og spurt um áhuga á aðild að ESB. Mér er sagt, að 43% hafi verið hlynntir, 40% andvígir og 17% óvissir. Hvers vegna skyldi niðurstaðan ekki birt?

Höfundur Staksteina býsnast yfir því í dag, að ég hafi skammað Valgerði Sverrisdóttur hér á síðunni í júlí 2007 fyrir að vilja taka upp evru einhliða en síðan hafi ég skipt um skoðun og aðhyllst einhliða gjaldmiðlaskipti.

Í lok Staksteina er spurt um sinnaskipti mín með nokkrum þjósti:

„Hvenær hætti upptaka evru án aðildar að Evrópusambandinu að vera glapræði? Eða sérfræðingarnir sem höfðu uppi varnaðarorð að vera marktækir?“

23. ágúst 2007 efndi Rannsóknamiðstöð um samfélags og efnahagsmál (RSE) til ráðstefnu um stöðu gjaldmiðla. Þar komu til sögunnar sérfróðir menn, sem hvöttu til þess, að Íslendingar skiptu einhliða um gjaldmiðil. Að ráðstefnunni lokinni ritaði ég grein í tímaritið Þjóðmál undir fyrirsögninni: Evran er ekki lengur ESB-gulrót. 

Að óreyndu hefði ég ætlað, að jafnmikill áhugamaður um þessi mál og höfundur Staksteina, þyrfti ekki að stunda spurningaleik um afstöðu mína til evru og gjaldmiðilsskipta. Hitt er svo sérstakt íhugunarefni, að fundið skuli að því, að menn leiti fyrir sér í Evrópumálum og móti sér skoðanir á grundvelli eigin athuguna. Til hvers er alltaf verið að hvetja til þess, að menn kynni sér kosta og galla?

Fimmtudagur, 11. 12. 08. - 11.12.2008 22:01

Göran Persson, fyrrverandi forsætis- og fjármálaráðherra Svíþjóðar, var hér í heimsókn á miðvikudag og af því tilefni ræddi Kristján Jónsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, við hann um bankakreppuna, afleiðingu hennar og ráðgjöf hagfræðinga. Hér er vitnað í svar Perssons:

„Það er engin fræðigrein sem er jafn ofmetin og hagfræði, þetta snýst í reynd mikið um heilbrigða skynsemi. Ef menn bara gæta þess að sjá til að tekjurnar séu hærri en útgjöldin standa þeir sig ágætlega. En það er hefð fyrir því í Svíþjóð að fjármálaráðherrann sé fremur stjórnmálamaður en hagfræðingur. Það er ekki til neitt sem er jafn pólitískt og fjármálaráðuneytið. Það erfiða er ekki að skilja hvað beri að gera, það erfiða er að gera það, að koma á framfæri boðum um pólitískt ferli en ekki að gefa skipun um vísindalega umræðu á sviði hagfræði. Það er auðvelt að sjá hvað þurfi að lækka mikið útgjöldin til ákveðinna málaflokka en að fá pólitískan stuðning við ákvörðunina er allt annað mál. Það er kallað stjórnmál. Bestu fjármálaráðherrarnir sem við höfum haft í Svíþjóð hafa verið stjórnmálamenn. Þegar lögð hefur verið áhersla á að fá í embættið fólk með hagfræðilegan bakgrunn hefur það endað í ringulreið.“

Kristján segir: Formaður stjórnar íslenska seðlabankans er ekki hagfræðimenntaður og það veldur deilum... og Persson svarar:

„Seðlabanki þar sem ekki er til staðar í stjórninni einhver með þekkingu á alþjóðlegum stjórnmálum er illa staddur, það er mjög mikilvæg færni. Og sá sem nú stýrir bankanum er mjög hæfur á því sviði.“

Hvað skyldu hagfræðingarnir segja við þessu? Þess skal getið, að Persson er jafnaðarmaður og flokksbróðir samfylkingarfólksins.

Uffe Elllemann-Jensen, fyrrverandi utanríkisráðherra Dana, svaraði spurningum í Kastljósi kvöldsins og hvatti til þess, að menn létu ekki efnahagsrök ein leiða Ísland í Evrópusambandið, aðild snerist um pólitísk gildi og þar með meira en efnahagsmál.

Þegar sagt er, að Svíar og Finnar hafi gengið í Evrópusambandið eftir efnahagskreppu er þeirri stórpólitísku staðreynd sleppt, að þeir voru miklu frekar að flýta sér að yfirgefa hlutleysisstefnuna eftir hrun Sovétríkjanna. Kremlverjar voru á tímum kommúnismans andvígir því, að hlutlaus ríki, Austurríki, Finnland og Svíþjóð væru að gera sér dælt við Evrópusambandið, hvað þá að íhuga inngöngu þangað.

Miðvikudagur, 10.12. 08. - 10.12.2008 21:16

Alþingi samþykkti í dag samhljóða frumvarp mitt um sérstakan saksóknara til að rannsaka og hugsanlega ákæra í tilefni af saknæmum brotum vegna bankahrunsins. Næsta skref er að auglýsa embættið en frestur fyrir umsækjendur er tvær vikur, lögum samkvæmt. Í lögunum er mælt fyrir um hæfiskröfur umsækjenda en þess jafnframt getið, að 70 ára aldursregla gildi ekki og dómurum verði veitt leyfi frá starfi, verði þeir skipaðir.

Nú eru um tveir mánuðir liðnir frá því að ég kynnti í þingræðu áform mín um sérstakan saksóknara. Ég held, að á þessum tíma hafi öllum orðið æ betur ljóst, hve mikilvægt er að haga skipan mála á þennan veg. Í ræðunni varaði ég við nornaveiðum vegna bankahrunsins og endurtek þau varnaðarorð.

Því miður hefur margt gerst, sem vekur tortryggni og jafnvel ótta um, að ekki sé gætt fyllstu varúðar við meðferð gagna eða eigna eftir hrunið. Að mínu áliti er gagnsæi ekki nægilega mikið í störfum fjármálaeftirlitsins, meira að segja ekki gagnvart viðskiptaráðherra eins og birst hefur í umræðum um athugun KPMG á Glitni banka - umræðum, sem leiddu loks til þess, að KPMG dró sig í hlé. Í því sambandi hefðu viðbrögð við kortlagningu á vegum ríkissaksóknara á fyrstu stigum málsins, átt að hvetja til varúðar. Þar taldi ég ómaklega vegið að grandvörum embættismönnum, en allt kom fyrir ekki. 

Hér er skemmtileg frétt úr breska þinginu.

Ég óska Jóhönnu Kristjónsdóttur innilega til hamingju með heiðurinn.

Þriðjudagur, 09. 12. 08. - 9.12.2008 19:50

Lögreglumenn brugðust við af snerpu í morgun, þegar spurðist rúmlega 09.00, að hópur mótmælenda hefði tekið sér stöðu við ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu í þann mund, sem ráðherrar komu til fundar þar fyrir 09.30. Skömmu fyrir þennan tíma renndi ég í hlað og héldu lögreglumenn mótmælendum í skefjum, svo að unnt væri að ganga upp tröppurnar.

Þegar fundi lauk kl. 11.00 var einn mótmælandi enn á staðnum. Á vefsíðunni www.amx.is segir af þessu tilefni undir fyrirsögninni: Vinstri/grænn litur á mótmælunum:

„Við upphaf mótmælanna við Ráðherrabústaðinn í dag vakti athygli að Drífa Snædal, framkvæmdastjóri vinstri grænna var mætt á stéttina fyrir fram húsið, þó ekki tæki hún með neinum hætti þátt í þeim.

Björg Eva Erlendsdóttir, sem ritstýrir smugan.is, var einnig á staðnum til að fylgjast með og flytja ítarlegar fréttir af mótmælunum. Vinstri grænir eru „kjölfestufjárfestir“ í smugan.is.

Við tjörnina hvísla fuglarnir að sá hópur fólks sem gengið hefur lengst í mótmælum sínum að undanförnu, sæki styrk sinn til vinstri grænna. Forystumenn flokksins séu yfirleitt ekki langt undan þegar látið er til skarar skríða. Þannig var Álfheiður Ingadóttir, þingmaður flokksins, við mótmælin hjá lögreglustöðinni.“

Allsherjarnefnd alþingi skilaði í dag sameiginlegu áliti um frumvarp mitt um sérstakan saksóknara.

Mánudagur, 08. 12. 08. - 8.12.2008 20:09

Ég var nýfarinn úr þinghúsinu, þegar hróp voru gerð af pöllunum, á meðan Siv Friðleifsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, var í ræðustól. Lögregla var kölluð á vettvang og voru sjö handteknir. Þingvörður var fluttur á slysavarðstofu vegna meiðsla og tveir lögreglumenn, kona og karl, voru bitin og sparkað í hinn þriðja.

Í leiðara Morgunblaðsins í dag segir:

„Hugmyndir um að taka upp evruna einhliða hér á landi, án þess að ganga í Evrópusambandið, hafa skotið upp kollinum með reglulegu millibili undanfarin ár. Reglulega hafa verið gerðar úttektir á málinu og þreifað á því við Evrópusambandið. Niðurstaðan er alltaf sú sama. Einhliða upptaka evru er ekki raunhæfur kostur.

Margir töldu að málið hefði verið afgreitt í skýrslu Evrópustefnunefndar, sem Björn Bjarnason dómsmálaráðherra veitti forystu.“

Ég er einn þeirra, sem taldi málið ekki afgreitt með skýrslu Evrópunefndarinnar, sem ég veitti forystu. Mér þótti nefndin ekki fá fullnægjandi svör um málið. Hélt ég því áfram að skoða það, eftir að nefndarstarfinu lauk, eins og þeir vita, sem fylgst hafa með skrifum mínum um það. Umræður síðustu vikna sýna einnig, að full ástæða er til að velta þessum kosti vel fyrir sér í núverandi vanda. 

Alonso Perez, efnahagsráðgjafi ríkisstjórnar Ekvador, hélt í dag fyrirlestur í hátíðarsal Háskóla Íslands um einhliða upptöku dollars þar í landi árið 2000.  Af orðum hans í Kastljósi má ráða, að slík skipti ættu ekki að verða okkur ofviða.

Hér skiptast fjölmiðlar á að kalla á innlenda hagfræðinga til að segja af eða á um einhliða gjaldmiðlaskipti. Þeir komast ekki að einróma niðurstöðu frekar en svo oft áður.

Reynir Eyvindarson, verkfræðingur, ritar grein í Morgunblaðið í dag og hvetur sjálfstæðismenn til að yfirgefa flokk sinn. Meginrök hans eru þessi:

„Það er bara einn flokkur sem hefur ráðið vini sína og niðja í dómarastöður í trássi við mat til þess hæfra manna, einn flokkur sem hefur hjálpað dæmdum glæpamanni til að komast á þing fyrir flokkinn með því að gefa honum uppreisn æru. Einn flokkur hefur gefið fiskimiðin tryggum flokksmönnum sínum (jæja, Framsókn tók reyndar þátt í því), og einn flokkur var við stjórnvölinn allan tímann þegar Ísland sigldi í gjaldþrot.“

Fyrsta fullyrðingin um skipan „vina og niðja“ í dómarastöður er röng. Önnur fullyrðingin um að uppreist æru sé forsenda þess, að dæmdir menn geti boðið sig fram til þings er einnig röng. Þriðja fullyrðingin stenst ekki heldur, þegar til þess er litið, að Sjálfstæðisflokkurinn sat ekki í ríkisstjórn árið 1990, þegar kvótakerfið var endanlega fest í lög. Lokafullyrðingin lýsir ástandi, sem ekki varð, því að Ísland sigldi ekki í gjaldþrot. 

Sunnudagur, 07. 12. 08. - 7.12.2008 19:40

Herra Karl Sigurbjörnsson biskup vígði Guðríðarkirkju í Grafarholti klukkan 14.00 í dag, sóknarpresturinn dr. Sigríður Guðmarsdóttir þjónaði fyrir altari. Mikið fjölmenni var við hátíðlega athöfnina og síðan í kirkjukaffi í Gullhömrum, þar sem Niels Árni Lund, formaður sóknarnefndar, gerði grein fyrir byggingu kirkjunnar, sem aðeins tók 17 mánuði. Með því að kenna kirkjuna við Guðríði Þorbjarnardóttur er kirkja í fyrsta sinn kvenkennd hjá þjóðkirkjunni. Kaþólska kirkjan hefur kennt kirkjur hér við Maríu guðsmóður.

Ég fagna niðurstöðu vinstri/grænna í dag um, að efnt skuli til tvöfaldrar þjóðaratkvæðagreiðslu til að ákvarða stefnu þjóðarinnar gagnvart Evrópusambandinu. Þessa leið nefndi ég í samtali við Sigmund Erni í Mannamáli fyrr á árinu.

Össur Skarphéðinsson oftúlkaði Evrópustefnu vinstri/grænna sér í hag í Mannamáli Sigmundar Ernis í kvöld. Samtalið við Össur kom til sögunnar eftir opinberar kvartanir um, að enginn í Samfylkingunni vildi ræða við Sigmund Erni. Viðtalið var kynnt á þann veg, að Sigmundur Ernir hefði fengið fjölmargar spurningar frá hlustendum til að leggja fyrir Össur. Í þættinum komst Sigmundur Ernir hins vegar varla að, því að Össur talaði svo að segja samfleytt og gjarnan um sjálfan sig í þriðju persónu.

Laugardagur, 06. 12. 08. - 6.12.2008 20:36

Ég las bók Óla Björns Kárasonar í gær og í dag um hrun FL-Group og fékk þar gleggri sýn en áður á íslensku fjármálakrísuna. Í pistli um bókina hvet ég til þess, að leitast sé við að líta á stöðu okkar frá þessum sjónarhóli.

Bloggarar hreykja sér af því, að þeir skipti meiru fyrir umræðuna á líðandi stundu en fjölmiðlamenn. Í því felst mikil gagnrýni á fjölmiðlana og ætti að vera áhyggjuefni fyrir þá, sem þar starfa. Eigendavaldið hefur grafið undan fjölmiðlunum og umræða um annað en skiptir í raun máli, dregur úr skírskotun þeirra til almennings.

Markaðs- og miðlararannsóknir (MMR) hafa kannað hve mikið traust fók ber til fjölmiðla. Fréttastofa Sjónvarps er á toppnum með tæp 77% traust. Mbl.is er með tæp 64% og fréttastofa Stöðvar 2 með 49%. Fréttablaðið er með 45,2% og Vísir.is 32.5%.Viðskiptablaðið mældist með 29,8%, Eyjan.is 13,6% og DV 4,7%.

Enga undrun vekur, að DV sé á þessum lista, þótt hitt sé athyglisvert, hve langlægst þetta blað Hreins Loftssonar er á listanum, en Hreinn hefur boðað, að hann hafi hug á að komast inn í Árvakur hf. til að setja mark sitt á Morgunblaðið.

Föstudagur, 05. 12. 08. - 5.12.2008 22:28

Ég talaði við þá félaga Þorgeir og Kristófer í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag. Þeir spurðu mig um einhliða upptöku annarrar myntar.

Skoðun mín er skýr, ég er andvígur aðild Íslands að Evrópusambandinu en hlynntur því að skipta um gjaldmiðil, sé það talið skynsamlegt af hagfræðingum.

Ástæðulaust er að óttast hótanir Percys Westerlunds, sendiherra ESB á Íslandi, eða annarra talsmanna ESB, sem hafa í hótunum um refsingu, tækju Íslendingar upp evru einhliða. Meiri þungavigtarmenn um málefni ESB en Westerlund eins og Michael Emerson hafa rökstutt, hve fráleitt er, að ESB gæti beitt okkur einhverjum þvingunum vegna einhliða ákvarðana okkar um gjaldmiðil - þeir hafa einfaldlega ekkert um það að segja.

Hér heima fyrir mega talsmenn aðildar að Evrópusambandinu ekki heyra minnst á einhliða upptöku nýs gjaldmiðils, af því að þeir vita sem er, að með þvi missa þeir þá ástæðu fyrir aðild, að krónan sé ónýt. Þeir vilja löngu óvissuleiðina frekar en hina greiðfæru.

Eiríkur Guðnason, seðlabankastjóri, ritaði grein í Morgunblaðiði í dag til varnar krónunni, ef rétt er skilið, en heldur var hún máttlaus og ósannfærandi. Þegar evran var tekin upp einhliða í Svartfjallalandi, voru þeir, sem höfðu vald á myntsláttunni, einnig óhressir. Hitt er, að hér eru rafræn viðskipti svo mikil, að seðlaprentun skiptir afkomu þjóðarbúsins í raun mjög litlu.

Fimmtudagur, 04. 12. 08. - 4.12.2008 21:57

Michael Emerson hefur gegnt mörgum trúnaðarstöðum á vettvangi Evrópusambandsins og þekkir innviði þess betur en nokkur hér á landi. Hann ritar í dag grein í Fréttablaðið til stuðnings einhliða upptöku evru. Sjónarmið hans eru allt önnur en Percy Westerlunds, sendiherra ESB gagnvart Íslandi, sem búsettur er í Ósló og lætur ekkert tækifæri ónotað til að hræða Íslendinga frá því að fara að þeim ráðum, sem Emerson gefur í grein sinni.

Emerson segir ekkert í lögum Evrópusambandsins eða alþjóðalögum sem bannar neinum að afla sér evra og nota í sparnað, viðskipti, bókhald og millifærslur. Evran er fyllilega innleysanlegur gjaldmiðill og engar svæðisbundnar takmarkanir við notkun hennar. Hann nefnir síðan hið sama til sögunnar og ég gerði hér á síðunni 12. júlí sl.

Hann segir: „Fjármálakreppuna, sem ríður nú yfir heiminn og hefur komið sérstaklega illa niður á Íslendingum, má sannarlega kalla sérstakar aðstæður; hún á rætur að rekja til hinna fjárhagslegu höfuðborga heims, sem hafa valdið Íslandi miklum búsifjum.“

Emerson segir ekkert kveðið á um um peningastefnu í EES-samningnum og því engin lagaleg stoð fyrir efnahagslegum refsiaðgerðum í garð Íslands. Slíkri kröfu yrði því hiklaust vísað frá af dómstólum ESB og EFTA. Það sé líka illmögulegt að rifta EES-samningnum við Ísland, því það krefðist einróma samkomulags aðildarríkjanna 27, sem sé ólíklegt að myndi nást.

Emerson segir, að tíminn muni lækna þau pólitísku sár, sem kunni að myndast í samskiptum Íslands og ESB með einhliða ákvörðun Íslendinga um evru og segir réttilega, að fyrir Íslendinga sé spurningin um gjaldmiðilinn brýn og aðkallandi, spurningin um inngöngu í ESB sé það ekki.

Þegar þetta er lesið, hljóta ýmsir að líta í eigin barm, sem hafa látist vita, að okkur yrði voðinn vís, ef við tækjum ákvörðun um evruna á eigin forsendum en ekki Evrópusambandsins.

Miðvikudagur, 03. 12. 08. - 3.12.2008 19:05

Í þessum skrifuðu orðum er Sölvi Tryggvason í Íslandi í dag að sauma að Agnesi Bragadóttur, blaðamanni á Morgunblaðinu, vegna þess að hann telur hana hafa skrifað ógætilega um Jón Ásgeir Jóhannesson og Hannes Smárason. Sigurður G. Guðjónsson, hrl., er í þættinum en þau Agnes eru vikulegir gestir hjá Sölva, sem spurði Agnesi, hvernig henni litist á að Hreinn Loftsson, fyrrverandi stjórnarformaður Baugs, eignaðist Morgunblaðið. Sigurður G. telur fréttastofu RÚV vera komna í pólitískt stríð við stjórnendur RÚV.

Atli Gíslason, þingmaður vinstri/grænna, sker sig úr þeirri samstöðu, sem mótast hefur milli forystumanna stjórnmálaflokkanna undir forystu forseta alþingis vegna rannsóknarnefndar í tilefni af bankahruninu. Hann ber fyrir sig sjónarmið um hugsanlegt vanhæfi dómara og gefur þar með til kynna, að ekki hafi verið hugað að því til hlítar við gerð frumvarpsins, en eins og ég hef þegar sagt, var frumvarpið lengur í smíðum en ella vegna afstöðu vinstri/grænna, sem stóðu að lokum að flutningi þess.

Atli hreyfir ekki aðeins vanhæfissjónarmiðum vegna þessa frumvarps, því að hann gaf til kynna í umræðum um sérstakan saksóknara, að ég væri vanhæfur til að skipa þennan saksóknara vegna ummæla, sem ég hefði viðhaft í Baugsmálinu! Hæstiréttur hafnaði hins vegar þessari vanhæfiskröfu við meðferð Baugsmálsins og mannréttindadómstóllin í Strassborg hafði kæru vegna þessa að engu og vísaði henni frá.

 

 

Þriðjudagur, 02. 12. 08. - 2.12.2008 21:30

Klukkan 17.00 var ég Iðnó á fundi hverfafélaga sjálfstæðismanna í Vestur- og miðbæ og Austurbæ-Norðurmýri um efnið: Ísland og öll hin löndin. Vorum við Bjarni Benediktsson, alþingismaður, frummælendur og var lagt fyrir okkur að svara þessum spurningum:


· Er Ísland að einangrast?
·         Hvaða kostir standa opnir í gjaldeyrismálum?
·         Hvernig er vænlegast að vega kosti og galla ESB aðildar?

Sagt er frá fundinum á mbl.is og nær sú frásögn nokkru af því, sem kom fram.

Kári Sölmundarson setti fundinn fyrir hönd fundarboðenda, hann bloggar einnig um hann og segir:

„Sem annar af skipuleggjendum þessa fundar var ég mjög ánægður með hann og tel fundi sem þennan sanni fyrir mér tilganginn með því að taka þátt í pólitísku starfi á milli kosninga eða vera “dindill” í Sjálfstæðisflokknum eins og Egill Helgason kallaði mig á heimasíðu sinni. Þarna voru málefnin rædd á opinn og jákvæðan máta og án upphrópanna sem fylgt hafa hinum svokölluðu “mótmælafundum”.  Þarna kom í fyrsta sinn fram vilji Bjarna til að skoða aðild að Sambandinu þótt hann viðurkenndi að það eina sem við hugsanlega höfum þangað að sækja sé gjaldmiðill sem að mörgu leiti á undir högg að sækja.

Það sem ekki kemur fram í frétt mbl.is, er að allir fundarmenn sem tóku til máls voru eindregið á móti því að sækja um aðild að Sambandinu og sáu alla kosti betri í gjaldmiðilsmálum en að ganga í ESB til að taka upp Euro.

Eftir þennan fund og fleiri sem ég hef sótt er ég mjög efins um að á næsta landsfundi Sjálfstæðisflokksins verði stefnan sett á Evrópu.“

Ég tek undir með Kára um einarða andstöðu þeirra, sem spurðu okkur Bjarna, gegn ESB. Þar er greinilega um djúpa sannfæringu hjá mörgum að ræða og verður henni ekki haggað með mati á kostum og göllum ESB-aðildar.

Í tilefni af fullveldisdeginum ritaði ég grein á nýjan vefmiðil amx.is, sem hóf göngu sína í dag. Leiði ég líkur að því, að 90 ára sé fullveldið orðið of gamalt fyrir ESB-sinna.


 

Mánudagur, 01. 12. 08. - 1.12.2008 21:47

Ég ók framhjá stjórnarráðshúsinu í þann mund, sem Eva Hauksdóttir efndi til vargastefnu eða svartagaldurs gegn ríkisstjórn og embættismönnum á blettinum framan við húsið. Fámennur hópur veifaði svörtum flöggum og einu rauðu og svörtu. Norðanvindurinn lék um fánana og var það eina lífsmarkið með þessu furðuverki. Ég skil ekki hvernig Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, sjónvarpsfréttamaður mbl.is, gat komist að þeirri niðurstöðu, að uppátækið hefði vakið „talsverða athygli“ eins og hún orðaði það.

Trúverðugleiki fjölmiðlamanna bíður hnekki, þegar þeir leitast við að mikla fjölda þátttakenda í mótmælum, enda hljóta þau að snúast um annað en talningu á þeim, sem koma til þeirra - eða hvað? Gangan niður Laugaveg var ákaflega fámenn í dag og aðeins nokkur hundruð manns sinntu kalli um þjóðfund á Arnarhóli. Að honum loknum hélt hópur fólks að seðlabankahúsinu og inn í anddyri þess í óþökk húsráðenda og lögreglu. Mótmælendur hurfu af vettvangi án vandræða.

Barack Obama, verðandi Bandaríkjaforseti, kynnti Hillary Clinton sem utanríkisráðherra sinn í dag. Ekki ber það mikinn vott um breytinguna, sem hann boðaði í kosningabaráttunni. Valið er talið til marks um, að Obama hafi óttast áhrif Hillary í öldungadeildinni. Hitt er dregið í efa, að heilindi verði milli þeirra í ríkisstjórn, sem dragi úr líkum á samhæfðri framkvæmd utanríkisstefnunnar.

Sunnudagur, 30. 11. 08. - 30.11.2008 15:10

Háskólastarfsemi á Bifröst hefur verið öflug og er ánægjulegt að heimsækja staðinn og finna þann kraft, sem í honum býr. Kom mér nokkuð á óvart, að Lilja Mósesdóttir, sem kenndi við skólann, en er nú tekin til starfa við Háskóla Íslands, skyldi ýja að því í einhverri umsögn sinni eða ræðu vegna bankahrunsins, að undirrótin gæti leynst í skorti á hagfræðilegum eða viðskiptafræðilegum rannsóknum hér á landi meðal annars vegna háskóla á borð við Bifröst og Háskólann í Reykjavík.

Engum háskólamanni hér á landi, hvar sem hann starfar kom áreiðanlega til hugar, hvílík umskipti gætu orðið hér í fjármálalífinu á skömmum tíma, þótt ýmsir sæju blikur á lofti. Ágúst Einarsson, rektor Háskólans á Bifröst, var vissulega í þeim hópi.

SSF-blaðið, sem gefið er út af Samtökum starfsfólks fjármálafyrirtækja, birti í mars 2008 viðtal við Ágúst um framtíðarhorfur í fjármálageiranum. Hann var spurður, hve slæmt ástandið væri, hvort íslensk fyrirtæki væru á „heljarþröm og fjöldauppsagnir“ á næsta leiti. Segir blaðið, að Ágúst hafi svarað báðum spurningunum neitandi og hefur orðrétt eftir honum:

„Mörg blaðaskrifin eru yfirborðskennd og lýsa frekar því að vilja fjalla um spennu og ágreining eins og nútímafjölmiðlun snýst nær alfarið um hérlendis. Hins vegar tel ég að fjármálafyrirtæki muni fækka eitthvað fólki á næstunni og meira hugsa um kostnaðinn en minna um tekjuhliðina, sem hefur verið einblínt á til þessa. Þetta ástand leitar jafnvægis.“ svarar Ágúst og bætir við að tímabundin niðursveifla eftir mjög langt uppgangstímabil sé eðlileg, jafn eðlileg og rigning eftir langt góðviðristímabil. „En því má ekki gleyma að á eftir rigningunni kemur aftur sól.““

Ágúst vill að hugað sé að aðhaldi með ofurlaunum og kaupréttarsamningum og segir: „Það er gott fólk sem vinnur í fjármálageiranum hérlendis, bæði á toppnum og annars staðar, en þarna eru engin ofurmenni enda eru þau ekki til nema í teiknimyndasögum.“ Hann hvetur til þess, að yfirmenn fjármálafyrirtækja taki til varnar fyrir þau í fjölmiðlum og skýri stöðuna með upplýstum hætti, almenningur sé skynsamur og vilji ábyrgan málflutning um banka eins og annað.

Hinn 5. nóvember 2008 var rætt við Ágúst í kvöldfréttum hljóðvarps ríkisins í tilefni af frásögnum um framgöngu æðstu stjórnenda Kaupþings. Þá sagði Ágúst:

„Nei þeir eiga ekkert erindi. Þetta fólk á allt að fara. Nú gildir öllu að það er að hafa traust í viðskiptum. Við erum búin að missa mannorð okkar erlendis og það gengur þá ekki að við höldum áfram að grafa undan öllu trausti hér innanlands með því að láta það fólk vinna að því sem að hugsanlega hefur misnotað aðstöðu sína með þessum hætti eins og sagt hefur verið frá í fréttum. Það er ekki búið að dæma svosem í málinu en allt þetta fólk hvar sem það er á raunverulega að koma sér í burtu. Og við verðum að reyna að endurreisa þetta samfélag með nýju fólki. “

Laugardagur, 29. 11. 08. - 29.11.2008 18:04

Á ruv.is má lesa í dag (feitletrun mín):

„Hörður Torfason, skipuleggjandi mótmælanna á Austurvelli segist búast við meiri mannfjölda en nokkru sinni, eða síðan 11.október þegar laugardagsmótælin hófust...Hörður segist vera í góðri samvinnu við lögregluna, hann ítrekar að fólk verði friðsamlegt. Hvort komi til átaka sé meira á ábyrgð lögreglunnar.“

Þarna birtir ruv.is endursögn af viðtali hljóðvarps ríkisins við Hörð í hádegisfréttum. Þegar á reyndi, hafði Hörður rangt fyrir sér um fjölda mótmælenda, þeir urðu færri en laugardaginn 22. nóvember. Fráleitt er að halda því fram, að það sé á ábyrgð lögreglu, hvort komi til átaka og Herði til álitshnekkis að fara með slík öfugmæli.

Í gær birtist mynd af lögreglumönnum í Morgunblaðinu með frétt um aukið launamisrétti karla og kvenna hjá hinu opinbera. Að birta þessa mynd með frétt um þetta efni er fráleitt, því að efni hennar á ekki við um lögregluna.

Í sjónvarpsauglýsingu er hvatt til þess að menn versli bók í Office one - hvers vegna er auglýsingin bara höfð á ensku? Þar mundu menn nota sögnina buy en ekki trade, þegar hvatt er til þess, að menn kaupi eitthvað í verslun. Málfátækt lýsir vissulega kreppu, en hún á ekkert skylt við bankahrun.

Kolbrún Bergþórsdóttir segir í Morgunblaðinu í dag:

„Steingrímur J. Sigfússon reiddist Birni Bjarnasyni á þingi og kallaði til hans fúkyrði og þreif svo í öxl Geirs Haarde. Geir fyrirgaf samstundis en ég veit ekki með Björn. Hann lítur stundum út eins og hann fyrirgefi ekki neitt. “

Þetta er dæmigert fjölmiðlahjal. Málið snýst hvorki um svip minn né fyrirgefningu Geirs. Það snýst um, að menn haga sér hvorki á þingi né annars staðar á þann veg, sem Steingrímur J. gerði.

Þegar Rudi Giuliani réðist gegn afbrotum í New York var það gert undir þeim formerkjum, að hvorki ætti að afsaka stór né smávægileg brot. Taka yrði á öllu. Hér hrópa menn á rannsókn og nauðsyn þess að kalla stjórnmálamenn og aðra til ábyrgðar - en síðan er samstundis tekið til við að bera blak af því, sem er ámælisvert, þótt smátt sé í sniðum. Var einhver að spyrja um trúverðugleika?

Í dag ritaði ég pistil á síðuna mína um LÍÚ og nýjan galdmiðil, vanda fjölmiðla, Bubba og byltinguna og Eið og sendiskýrsluna.

Föstudagur, 28. 11. 08. - 28.11.2008 23:56

Lög um stjórn á streymi gjaldeyris voru samþykkt um kl. 05.00 í morgun á þingi.

Sáum Hart í bak eftir Jökul Jakobsson í Þjóðleikhúsinu í leikstjórn Þórhalls Sigurðssonar. Gunnar vinur minn Eyjólfsson lék af snilld. Áhorfendur fögnuðu innilega.

Í dag flutti ég ræðu á aðalfundi Dómarafélags Íslands.

Páll Magnússon, útvarpsstjóri RÚV, kynnti í dag rúmlega 700 m. kr. sparnað hjá ríkisfélaginu, sem annars hefði siglt í fjárhagslegt þrot, þrátt fyrir öruggar tekjur, sem nú eru að breytast í nefskatt. 

Fréttir af fjárhagslegri stöðu annarra fjölmiðla vekja ugg um framtíð þeirra. Þeir virðast geta orðið gjaldþrota eins og önnur fyrirtæki við þessar ótrúlegu aðstæður, þótt slíkt hafi mörgum þótt óhugsandi.

Fimmtudagur, 27. 11. 08. - 27.11.2008 19:49

Frumvarp forseta alþingis og flokksformanna um sérstaka rannsóknarnefnd vegna bankahrunsins var til fyrstu umræðu á alþingi í dag. Einnig var rætt um þingsályktunartillögu frá utanríkisráðherra um samninga vegna IceSave-reikninganna. Loks kom þingflokkur sjálfstæðismanna saman klukkan 18.00 og samþykkti, að lagt yrði fram frumvarp viðskiptaráðherra, þar sem heimild er veitt til að stjórna gjaldeyrisstreymi til varnar krónunni, þegar opnað verður fyrir viðskipti með gjaldeyri.

Þau koma þannig eitt af öðru fyrir þingið mál, sem snerta bankahrunið. Fráleitt er að láta eins og með því hruni hafi verið sveigt að rétti þingmanna til að flytja lagafrumvörp. Má helst skilja umræður í Spegli hljóðvarp ríkisins á þann veg, að alþingi eða íslenskir þingmenn standi eitthvað sérstaklega illa varðandi rétt þingmanna til að flytja frumvörp.

Fullyrðingar í þessa veru standast ekki og skrýtnast er að heyra þær frá þeim, sem telja bestu stjórnarhættina ríkja á vettvangi Evrópusambandsins. Í stjórnkerfi þess er það aðeins framkvæmdastjórnin, sem getur lagt löggjafarmál fyrir Evrópusambandsþingið, þingmenn þar hafa engan slíkan tillögurétt. Þeir geta hins vegar samþykkt bænaskrár til framkvæmdastjórnarinnar.

Eva Hauksdóttir, sem varð landsfræg um síðustu helgi í tengslum við árás á lögreglustöðina við Hverfisgötu, ritar í dag á vefsíðu sína:

„Þann 9. nóvember í fyrra gól ég seið gegn stóriðjustefnunni á Austurvelli. Vinnubrögðum alþingis var reist níðstöng, enda er hlutverk þingsins sem útverði lýðræðisins löngu orðið hlálegt. Ég særði vættir landsins til aðgerða“

Hún segir einnig:

„Nú þarf að gera enn betur og klára dæmið. Ég ætla því, þann 1. desember að halda vargastefnu við Stjórnarráðið. Ég mun særa fram reiði þjóðarinnar í vargslíki, vættum landsins til hjálpar.“

Miðvikudagur, 26. 11. 08. - 26.11.2008 21:58

Eftir hrópin í þingsalnum á mánudag, þegar vantraustumræðan rann út í sandinn vegna framgöngu Steingríms J. Sigfússonar, hefur hann ásamt þingflokki vinstri/grænna fallist á, að lagt verði fram frumvarp um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls bankanna 2008 og tengdum atburðum. Var frumvarpið lagt fram á þingi að loknum fundum þingflokka í dag.

Vantraustið var flutt í trausti þess, að stjórnarandstöðunni tækist að kljúfa stjórnarflokkanna. Hið gagnstæða gerðist. Stjórnarandstaðan klofnaði og hlaut frekar háðulega útreið, þegar Steingrímur J. missti stjórn á skapi sínu.

Á vefsíðunni Aftaka eru þeir, sem telja sig og málstað sinn skipta miklu til stuðnings því, að fólk komi saman á Austurvelli síðdegis á laugardögum að hvatningu Harðar Torfasonar. Höfundar síðunnar lýsa sér þannig:

„Við erum partur af þeirri andstöðu sem nú vex með degi hverjum. Við sinnum okkar sjálfskipaða hlutverki í baráttunni og það gerum við stolt.“

Þeir á Aftöku vanda ekki kveðjurnar til „Björns Bjarnasonar, rasista og valdníðings, auk sérsveitarhvolpana hans, sem hlakkar í þegar þeim leyfist að leika sér með piparúða og önnur vopn.“

Þeir ávarpa mann, sem gert hefur myndband, sem þeim er ekki að skapi, á þennan veg:

„En sértu hræddur og óttistu byltingu og valdarán, skaltu vera það. Reiði fólks eykst og eykst. Fólk er til alls líklegr því það er orðið hundleitt á því að mótmæla á ,,hefðbundinn” hátt; hátt sem yfirvöld taka ekkert mark á.

 Pétur: Drífðu þig ofan í kjallara og feldu þig.“

Er þetta til marks um hið nýja lýðræði eða umræður í anda þess?

 

Þriðjudagur, 25. 11. 08. - 25.11.2008 6:52

Fjölmiðlar hafa áhuga á atvikinu í þinginu í gær, þegar Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri/grænna, missti stjórn á skapsmunum sínum undir ræðu minni, eins og sjá má og heyra á þessu myndbandi og ég lýsti hér á síðunni í gær. Fjölmiðlamenn hafa velt því fyrir sér, hvort Steingrímur J. hafi danglað í öxlina á Geir H. Haade, forsætisráðherra, þegar hætti við að stara á mig í ræðustólnum. Þeir Steingrímur J. og Geir vilja gera gott úr málinu.

Fyrrverandi þingmaður sendi mér tölvubréf, þar sem sagði meðal annars:

„Maður horfði orðlaus á framkomu SJS í þinginu í fréttatíma sjónvarps  í kvöld. Held að annað  eins hafi aldrei gerst í  sölum Alþingis.  Hvernig  skyldi standa á því  að  til  forystu í flokkunum  lengst  til  vinstri,  Alþýðubandalagi og   og  svo  VG   veljast  ævinlega orðljótustu  menn  sem  náð hafa  kosningu á  Alþingi.  Skrítið.“

Hér er ræða mín í heild með frammíköllum Steingríms J. 

Hitt stenst ekki, að ég hafi farið með rangt mál um, að áform um hina sérstöku rannsóknarnefnd á vegum þingsins hafi tafist vegna afstöðu visntri/grænna undir forystu Steingríms J. Mér skilst hins vegar, að nú sé málið komið á beinu brautina og ber að fagna því.

Ég hef sett inn á síðuna útskrift á viðtali Sölva Tryggvasonar við mig í þættinum Ísland í dag hinn 19. nóvember sl.

Þá hef ég sett inn á síðuna ræður, sem ég flutti á alþingi 21. nóvember í fyrstu umræðu um frumvarp mitt um sérstakan saksóknara vegna bankahrunsins.

Helga Vala Helgadóttir, fjölmiðlakona, bloggari og laganemi, segir á vefsíðu sinni í dag (feitletrun mín):

„Annað dæmi get ég nefnt. Í því tilfelli var það Björn Bjarnason sem hringdi í gsm símann minn. Hann var sömuleiðis að skamma mig fyrir umfjöllun í Speglinum. Benti mér sömuleiðis á að ég skyldi vara mig á því að þetta væri ríkisfjölmiðill og því ekki sjálfsagt að vera með umfjöllun þar sem gagnrýndi stjórnvöld svona. Undir lá vissulega að hann hefði völd til að láta mig fara. Þetta var á þeim tíma sem Spegillinn átti fótum sínum fjör að launa í samskiptum við útvarpssstjórann Markús Örn Antonsson og fleiri innanhússmenn sem ég nenni ekki að nefna. Hírakíið var algjört, stjórnmálamennuppnefndu útvarpsþáttinn og millistjórnendur ræddu við umsjónarmanninn sem átti svo að koma skilaboðum áleiðis til vinnudýranna. Aldrei nokkurn tímann, ekki einu sinni, fundum við fyir því að við nytum stuðnings þeirra sem við störfuðum hjá. Eingöngu sívaxandi hlustun á þáttinn, auk hróss frá almennum kjósendum hvatti okkur áfram á þeirri braut sem við vorum á.

 

Lesa meira

Mánudagur, 24. 11. 08. - 24.11.2008 21:56

Tillaga stjórnarandstöðunnar um vantraust á ríkisstjórnina var til umræðu á alþingi frá 13.30 til 19.00 og lauk henni með því, að tillagan var felld með 42 atkvæðum gegn 18. Athygli vakti, að Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður frjálslyndra, greiddi atkvæði gegn tillögunni, þótt Guðjón A. Kristjánsson, flokksformaður hans, væri flutningsmaður tillögunnar.

Ég var meðal ræðumanna og þegar ég lét þess getið, að ástæðan fyrir því, að ekki hefði verið flutt tillaga um rannsókn á bankahruninu á vegum alþingis, væri tregða Steingríms J. Sigfússonar, formanns vinstri/grænna, til samkomulags um slíka tillögu á vettvangi alþingis.

Eftir að ég hafði sagt þetta umturnaðist Steingrímur J. í þingsalnum og öskraði að mér: Étt'ann sjálfur! Ég sneri mér að forseta þingsins, Ragnheiði Ríkharðsdóttur og spurði, hvort framkoma þingmannsins væri þess eðlis, að una ætti við hana. Forseti brást við og hélt ég áfram máli mínu en þá strunsaði Steingrímur J. ógnandi að ræðustólnum og mátti ætla, að hann hefði ekki stjórn á reiði sinni, þegar hann starði illilega til mín, áður en hann gekk að forsætisráðherra og hvíslaði einhverju í eyra hans. Ég sagði þessa framgöngu Steingríms J. enn vera til marks um, að með tillögunni vildi stjórnarandstaðan ýta undir ófrið í stað þess að stuðla að sáttum og samstarfi á þessum örlagatímum.

Hér er sagt frá þessu atviki á visir.is og hér er sagt frá því á mbl.is.

Sunnudagur, 23. 11. 08. - 23.11.2008 21:43

Skruppum í Þjóðminjasafnið og skoðuðum ljósmyndasýningu Vigfúsar Sigurgeirssonar. Það er skemmtilegt að sjá, hve ljósmyndadeild safnsins nýtur sín vel, eftir að flutt var í endurnýjuð húsakynni safnsins. Safnbúðin er einnig góð og þar má meðal annars sjá afrakstur ljósmyndadeildarinnar í mörgum glæsilegum bókum. Ein mynd Vigfúsar er frá Hrafnseyri 1961, þegar Ásgeir Ásgeirsson, forseti Íslands,  fór þangað í tilefni af endurreisn fæðingarstaðar Jóns Sigurðssonar. Á myndinni má sjá varðskipið Óðinn úti á Arnarfirðinum. Það minnti mig á, að ég var skipverji um borð í þessari ferð með forsetann en að lokinni athöfn á Hrafnseyri var siglt til Ísafjarðar.

Ég skrifaði einnig pistil á vefsíðu mína og áréttaði þar skoðun mína um hættuna á því, að bankaleynd væri teygð og toguð til að leyna upplýsingum, sem ætti að segja frá eftir bankahrunið.

Laugardagur, 22. 11. 08. - 22.11.2008 19:16

Í dag milli fjögur og fimm var ráðist á lögreglustöðina við Hlemm eins og lýst er hér og hér. Tilefni handtöku þess, sem mannfjöldinn vildi frelsa, var ekki, að hann hefði dregið Bónusfána að húni alþingishússins. Á síðunni www.aftaka.is segir: „En ástæða handtökunnar virðist ekki vera fánagjörningurinn, heldur gamall dómur sem Haukur [hinn handtekni] hefur ekki enn setið af sér.

Sumarið 2006 tók Haukur þátt í aðgerðum á vegum umhverfishreyfingarinnar Saving Iceland og var dæmt að greiða 200 þúsund króna sekt í ríkissjóð. Í stað þess að borga ákvað hann að sitja dóminn af sér í fangelsi.“

Hauki var sleppt úr prísundinni við Hlemm, eftir að ónafngreindur velgjörðarmaður greiddi sektina í ríkissjóð.

Katrín Oddsdóttir, laganemi, flutti ræðu á Austurvelli og hvatti til meiri hörku í mótmælum og sagði þjóðina ekki ætla að láta kúga sig. Félagi í svonefndri neyðarstjórn kvenna, Margrét Pétursdóttir, sveipaði styttu Jóns Sigurðssonar bleikum dúki í tilefni útifundarins og myndir birtust í sjónvarpi af konum, sem köstuðu eggjum í þinghúsið.

Femínistar hafa af þunga risið gegn því, sem þær telja hatur í sinn garð og má þar nefna þessa frásögn af síðunni feministinn.is:

„Karlahópur Femínistafélagsins hélt Hitt undir yfirskriftinni „Er í lagi að hata femínista?“ á Grand Rokk þriðjudagskvöldið 18. mars 2008. Erindi fluttu Katrín Oddsdóttir sérfræðingur í mannréttindum, Atli Gíslason alþingismaður og Sóley Tómasdóttir varaborgarfulltrúi. Fundarstýra var Magga Pé.

Öll gerðu þau Katrín, Atli og Sóley neikvæða umræðu um femínisma að umfjöllunarefni, ekki síst á netinu, og hvernig eigi að bregðast við. Katrín sagði að slíkt ofbeldistal, eða „hate speech“, væri ólöglegt samkvæmt íslenskum lögum og alþjóðalögum og ætti aldrei rétt á sér. Hún sagði að ofbeldistalið virkaði, það hefði áhrif og mælti með því að það væri rakið og kært. Ef látið er óáreitt að fordæma femínista opnar það gluggann til að fordæma aðra hópa, sagði Katrín. Það var skondin tilviljun að sá fjandskapur sem var til umræðu minnti á sig í bókstaflegri merkingu á fundinum því Katrin var nokkrum sinnum trufluð í ræðu sinni af snyrtilegum og velklæddum herramanni, nokkuð við skál, sem var uppsigað við málflutning hennar. Hann hvarf fljótlega af vettvangi.“

Föstudagur, 21. 11. 08. - 21.11.2008 18:38

Flutti framsöguræðu fyrir frumvarpi um sérstakan saksóknara til að rannsaka sakamál vegna bankahrunsins. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar tóku frumvarpinu almennt vel nema Jón Magnússon, þingmaður frjálslyndra, sem gerði athugasemd við formið.
Orðaskipti urðu milli okkar Sivjar Friðleifsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, um orð í ræðu Davíðs Oddssonar, seðlabankastjóra, sl. þriðjudag. Taldi Siv, að þau mætti skilja á þann veg, að lögreglu hefði borist ábending vegna Kaupþings en ekki hefði verið brugðist við henni. Ég taldi hins vegar, að orðalag Davíðs gæfi til kynna, að ástæða hefði verið að snúa sér til lögreglu en það hefði ekki verið gert.
 
Atli Gíslason, þingmaður vinstri/grænna, vék ranglega að athugun á vegum ríkissaksóknara og taldi með vísan til ræðu, sem ég flutti 17. október á 100 ára afmæli lagakennslu, að ég kynni að vera vanhæfur til að skipa sérstakan saksóknara. Ég mótmælti þessari skoðun harðlega en þá stóð Álfheiður Ingadóttir, þingmaður vinstri/grænna, upp og svaraði með ásökunum um, að ómaklegt væri að víkja orðum að Atla, þar sem hann hefði horfið af þingfundi. Ég sagði, að menn gætu ekki hindrað, að þeim yrði svarað með því að hverfa af þingfundi.
 
Stjórnarandstaðan hefur flutt tillögu um vantraust á ríkisstjórnina. Hún krefst sérstakrar meðferðar á alþingi, þar á meðal útvarpsumræðna. Oftast snúast svona tillögur í höndum flutningsmanna og þjappa þeim saman, sem á er ráðist. Að líkindum eflir tillagan þannig samstarf stjórnarflokkanna, þótt flutningsmenn stefni að öðru.
 

Fimmtudagur, 20. 11. 08. - 20.11.2008 6:10

Olli Rehn, stækkunarstjóri Evrópusambandsins (ESB), sagði í samtali við fréttastofu RÚV, að það tæki að minnsta kosti fjögur ár, að Ísland yrði aðili að ESB, eftir að sótt yrði um hana, fyrst yrði Króatía aðili. Þetta hlýtur að koma þeim á óvart, sem hafa látið eins og dygði að smella fingri og við yrðum aðilar að ESB.

Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri Granda, ritar grein um ESB-mál í Morgunblaðið í dag og minnir lesendur á, að mikilvægi sjávarútvegs í þjóðarbúskapnum sé að aukast og nauðsynlegt sé að gæta hagsmuna hans í öllum umræðum um ESB-aðild. Stuðningsmenn hennar verði aldrei trúverðugir nema þeir takist á við þann vanda, sem sjávarútveginum verði búinn með aðild. Eggert Benedikt segir:

„Á sama hátt getur sjávarútvegurinn ekki hundsað kröfu ýmissa atvinnugreina og borgara landsins um stöðuga mynt sem treystandi sé á. Ef krónan er dauð og evran, og þar með ESB, er eini kosturinn, þá þýðir lítið að loka augunum fyrir því.“

Birt var niðurstaða könnunar Capacent Gallup frá 29. til 31. október á afstöðu Íslendinga til upptöku evru og aðildar að ESB. 1300 voru spurðir, svarhlutfall var 69,1%. Hlynnt aðild reyndust 51,8%, óviss 21,1% og andvíg 27,1%. Hlynnt evru 63,8%, óviss 15,7% og andvíg 20,5%.

Ég er ekki sammála Eggert Benedikt, að evra og ESB-aðild skuli lögð að jöfnu. Segi ég þetta enn, þrátt fyrir allar umræður undanfarið, sem hnigið hafa til annarrar áttar.

Í norska blaðinu Aftenposten birtist í dag grein eftir Janne Haaland Matlary, prófessor í stjórnmálafræði við háskólann í Ósló, undir fyrirsögninni: Hvað þýðir það fyrir Noreg ef Ísland gengur í ESB? Prófessorinn telur, að Íslendingar sæki um aðild að ESB, jafnvel fyrir jól, og hefur það eftir Percy Westerlund, sendiherra ESB á Íslandi með búsetu í Ósló. Þetta hafi sendiherrann sagt nýlega í gestafyrirlestri í háskólanum og talið, að Ísland yrði hugsanlega komið í ESB árið 2010. Ísland þyrfti að ná efnahagslegum stöðugleika og hann fengist með evrunni, að mati sendiherrans, og evran krefðist ESB-aðildar.

Prófessorinn segir, að mótmælt sé í þágu ESB-aðildar í Reykjavík, 70% þjóðarinnar vilji í ESB, Geir H. Haarde forsætisráðherra hafi skipað nefnd, sem ljúka eigi störfum á skömmum tíma, svo að stjórnmálamenn geti fótað sig á nýrri stefnu, ríkisstjórnin sé svo óvinsæl, að hún eigi sér fátt til bjargar, og ESB sé neyðarhöfn í ofviðrinu.

Lesa meira

Miðvikudagur, 19. 11. 08. - 19.11.2008 2:56

Fór í hádeginu í alþingishúsið. Þegar að því kom, var fámennur hópur fyrir framan húsið, hélst fólkið í hendur og heyrðist mér einhverjir púa, þegar ég gekk í áttina að dyrum skálans, nýbyggingar við hlið þinghússins. Ég þekkti Ómar Ragnarsson og heilsaði honum, hélt síðan áfram för minni og varð að beygja mig meira en síðast, þegar svona hópur var við húsið, til að komast undir handlegg Ómars og þess, sem stóð við hlið hans. Þarna þekkti ég einnig Katrínu Jakobsdóttur, varaformann vinstri/grænna.

Skömmu eftir að ég hafði sest til matar í skálanum, kom Jón Magnússon, þingmaður frjálslyndra, og spurði mig, hvort ráðherrabíll fyrir utan væri á mínum vegum. Ég kvað já við því og sagði Jón mér þá, að kastað hefði verið í hann eggjum. Jón Geir, bílstjóri minn, fór á bílnum til að þrífa hann, en þegar ég gekk með Illuga Gunnarssyni alþingismanni út úr skálanum var enginn sjáanlegur við þinghúsið. Urðum við Illugi samferða í góða veðrinu út Austurstræti og upp Arnarhól.

Á mbl.is er sagt frá því, að samtökin Nýir tímar hafi staðið fyrir þessum aðgerðum við þinghúsið en þau berjist fyrir því að ríkisstjórnin víki og tímabundin þjóðstjórn verði skipuð. Að það markmið náist með því að kasta eggjum í ráðherrabíla, finnst mér ólíklegt.

Sagt var frá þessari færslu hér á síðuna á mbl.is og klukkan 20.30 höfðu nokkrir sagt álit sitt á fréttinni. Forvitnilegt er að kynnast hinum ólíku viðhorfum, sem birtast í blogginu um fréttina. Ummælin eru enn svæsnari hjá Agli Helgasyni eftir færslu hans um þessa frásögn mína. Egill telur, að vald ráðherra sjáist af því, hvar ráðherrabílum er lagt. Álitsgjafar hafa mörg viðmið við ályktanir sínar!

Hér má sjá myndir af því, hver stóð að eggjakastinu á mannlausan bílinn. Ekki er rétt að segja, að bíll sé grýttur, þegar kastað er í hann eggi, auk þess sem grýttur er með ý en ekki í.

Irma Erlingsdóttir, forstöðumaður RIKK, rannsóknastofnu í kvenna- og kynjafræðum hjá Háskóla Íslands, var meðal ræðumanna á borgarafundinum á NASA að kvöldi mánudags 17. nóvember. Í ræðu sinni komst hún meðal annars svo að orði:

Lesa meira

Þriðjudagur, 18. 11. 08. - 18.11.2008 8:35

Björn Guðmundsson framahaldsskólakennari ritar grein í Morgunblaðið í dag undir fyrirsögninni: Frjálshyggjuflónin og fúafenið. Þar ræðst hann að Sjálfstæðisflokknum og síðan Samfylkingunni og lýkur grein sinni á þessum orðum (feitletrun mín):

„En bæði sjálfstæðismenn og samfylkingarfólk ættu að hugsa til þess að almenningur mun þvinga fram kosningar með handafli ef þarf. Brynvarðir bílar Björns Bjarnasonar munu ekki koma í veg fyrir það.“

Þegar ég las lokasetningu greinarinnar, sem hér er feitletruð, taldi ég mig í raun ekki þurfa að taka mark á öðru, sem í henni stendur. Hvernig getur höfundur rökstutt þá skoðun, að brynvörðum bílum á mínum vegum verði beitt til að koma í veg fyrir, að hér verði efnt til kosninga?

Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, flutti ræðu í morgun á fundi Viðskiptaráðs. Ræðan var fréttaefni allan daginn, enda hefur hún að geyma mat Davíðs á bankahruninu.

Davíð vék oftar en einu sinni á hlutverki fjölmiðla í ræðu sinni. Í gærkvöldi var haldinn um 700 manna borgarafundur á NASA. Þar var einnig rætt um hlut fjölmiðlamanna, eins og lýst er hér á vefsíðunni Nei.

Björg Eva Erlendsdóttir var meðal annars þingfréttari fréttastofu hljóðvarps ríkisins. Hún sat fyrir svörum á NASA-fundinum í gær og á vefsíðunni Nei segir:

„Björg Eva Erlendsdóttir sagðist ætla að reyna að skýra hvers vegna fjölmiðlar séu ekki sterkari en raun ber vitni. Því miður hafi spillingin náð inn í fjölmiðlana – auðmenn hafi haft afskipti af ritstjórn. „Einn ætlaði að kaupa blað til að leggja það niður,“ sagði hún. „forysta Sjálfstæðisflokksins hefur árum saman haft puttana í fréttaflutningi Ríkisútvarpsins. Sjálfstæðisflokkurinn fór mikinn á Ríkisútvarpinu ár eftir ár, fyrst sjónvarpinu en svo í fréttaflutningi öllum, svo liggur við að fréttastofan hafi orðið málgagn flokksins. Þeir sem ekki tóku þátt voru lagðir í einelti. Sumir hrökkluðust burt en aðrir þrauka þarna enn. Það hefur verið nauðsyn á flokksskírteinum á fréttastofum Sjónvarpsins síðasta áratug. Afskiptunum lauk aldrei.““

Ég skora á Björg Evu að rökstyðja þessa fullyrðingu sína um afskipti Sjálfstæðisflokksins með dæmum, því að þarna gefur hún til kynna að samstarfsmenn hennar hafi starfað sem handbendi Sjálfstæðisflokksins við flutning frétta.

Mánudagur, 17. 11. 08. - 17.11.2008 5:39

Alþingi verður svipminna og leiðinlegra, eftir að Guðni Ágústsson, þingmaður Framsóknarflokksins, hverfur þaðan. Forseti alþingis hóf þingfund í dag kl. 15.00 á því að lesa tilkynningu frá Guðna um brotthvarf hans af þingi.

Við Guðni höfum um árabil setið saman í ríkisstjórn, svo að ekki sé minnst á Þingvallanefnd. Okkur tókst ávallt að leysa úr málum í góðri sátt og kveð hann sem vin á hinum pólitíska vettvangi, þótt flokksbönd hafið skilið á milli okkar.

Bjarni Harðarson, flokksbróðir Guðna og samþingmaður á Suðurlandi, kvaddi alþingi fyrirvaralaust á dögunum. Hann segir þetta um brottför Guðna úr formannsstóli Framsóknarflokksins, sem einnig var kynnt í dag (feitletrun mín):

„Líklega er það rétt hjá Guðna að eftirláta flokkinn því fólki sem hefur nú um langt skeið beitt öllum meðulum til að ná þar völdum. Leyfa þeim sem eyðilagt hafa flokksstarfið allt þetta kjörtímabil að spreyta sig. Kannski rís flokkurinn í höndum þessa fólks þegar við framsóknarmennirnir erum farnir.

Við Guðni ræddum þessa ákvörðun í gærkvöldi og ég studdi hann heilshugar í því sem hann er að gera. Ekki vegna þess að mér hugnaðist þessi lending, heldur vegna þess að ég tel að þær aðstæður sem honum voru skapaðar í flokknum hafi verið utan þess sem hægt sé að leggja á nokkurn mann.

Þegar þessi orð eru lesin, hljótum við, sem utan stöndum, að spyrja, hvað í ósköpunum sé á seyði í Framsóknarflokknum. Hvernig hefur verið vegið að Guðna? Af hverjum?

Steingrímur Hermannsson, fyrrverandi formaður flokksins, sem sat miðstjórnarfund hans laugardaginn 15. nóvember segir á visir.is „Deilan á laugardaginn snérist um gagnrýni á alla forystu flokksins og sérstaklega á ráðherrana sem voru í ríkissjórn á þessum árum. Það var ekkert sérstaklega deilt á Guðna heldur á forystuna í heild sinni sem tók þátt í þessum hrunadansi.““

Í sama mund og sagt var frá afsögn Guðna á Stöð 2 var því slegið fram, að hann hækkaði í launum við afsögnina. Mátti skilja þetta á þann veg, að Guðni væri að segja af sér til að fá hærri laun. Skömmu síðar var Guðni beðinn afsökunar með þessum orðum á visir.is

„Í frétt Vísis í dag og á Stöð 2 í kvöld var því haldið fram að Guðni Ágústsson, fráfarandi formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi þingmaður, fengi hærri laun á eftirlaunum á næsta ári heldur en hann þiggur í dag. Það er rangt og biður Vísir Guðna afsökunar á því.

Guðni fær í dag um 843 þúsund krónur í mánaðarlaun sem þingmaður en mun fá 560 þúsund krónur á mánuði í eftirlaun. “

Lesa meira

Sunnudagur, 16. 11. 08. - 16.11.2008 18:10

Við litum inn á risamarkað í Rangárhöllinni á Gaddastaðaflötum við Hellu á leiðinni austan úr Fljótshlíð. Þar voru mörg söluborð og margt um manninn.

Dagur íslenskrar tungu var haldinn hátíðlegur í dag en afmælis Jónasar Hallgrímssonar var minnst á þennan hátt í fyrsta sinn árið 1996.

Ég ritaði pistil á síðuna mína í dag og velti fyrir mér Fréttablaðinu og eigendahollustu þess.

Tilkynnt var undir kvöld, að samkomulag hefði tekist milli íslenskra stjórnvalda og Evrópusambandsins vega IceSave reikninganna. Um það hefur verið deilt, hvernig háttað er ábyrgðum á innistæðureikningum samkvæmt Evrópugerð, sem snertir bankaviðskipti yfir landamæri. Evrópusambandinu er mikið í mun, að enginn vafi ríki um þessa ábyrgð. Vandi okkar Íslendinga er, að Evrópugerðin er óljós og þar er alls ekki tekið mið af því, að heilt banka- eða fjármálakerfi hrynji eins og hér gerðist.

Sé vafi um ábyrgð á grundvelli þessarar gerðar, vegur hann að trausti á allri bankastarfsemi á evrópska efnahagssvæðinu. Samningsstaða Íslands er því sterk í málinu, þótt þrengt sé að hagsmunum landsins með því að tengja IceSave óskyldum málum. Þeir, sem til slíkra ráða grípa, treysta ekki á eigin málstað.

Þegar samið er, hafa báðir nokkuð til síns máls. Ég hef aldrei hallast að þeirri skoðun, að samningar séu svik, þegar deilur milli ríkja eru leystar. Mér heyrist örla á því sjónarmiði í gagnrýni stjórnarandstöðu á samninginn um IceSave.

Það er siðaðra þjóða háttur að ljúka deilum með samkomulagi - hins vegar má ekki greiða samninga of dýru verði eða afsala sér rétti til að halda lagaskilyrðum til haga og nýta lögfræðilega túlkun til hins ýtrasta.

Laugardagur, 15. 11. 08. - 15.11.2008 22:33

Var í Hveragerði klukkan 13.00 og flutti ræðu hjá rannsóknarlögreglumönnum, ræddi embætti sérstaks saksóknara, endurskoðun lögreglulaga og skipan rannsókna á vegum lögreglu. Að loknu erindinu svaraði ég spurningum.

Deilt er um, hvað menn vissu í aðdraganda bankahrunsins og hvernig við skyldi brugðist fyrir utan gagnrýni á stjórnmálamenn og opinbera eftirlitsaðila.

Hitt er síðan sérstakt íhugunarefni, hvernig tekið er á málum á líðandi stundu, hvað sagt er og hvernig fjölmiðlar túlka atburði. Á leiðinni úr Hveragerði hlustaði ég á þátt á rás 1, Stjörnukíkinn, þar sem meðal annars komu fram sjónarmið 10. bekkinga á málefnum dagsins. Sumir sögðust vera hættir að hlusta á fréttir, af því að þær væru allttaf um það sama og neikvæðar. Fram kom, að á sínum tíma hefði verið rætt um fuglaflensinu og hættuna af henni en hún hefði ekki komið, þrátt fyrir hræðslufréttir í fjölmiðlum. Hvort eitthvað væri meira að marka þá núna?

Bloomberg er miðill, sem sérhæfir sig í fjármálafréttum. Þar birtist í gær frétt eftir Tasneem Brogger og Helgu Kristínu Einarsdóttur undir þeirri fyrirsögn, að Íslendingar mótmæltu því, að ríkisstjórnin gæti ekki náð samkomulagi við alþjóðagjaldeyrissjóðinn. ´

Sagt er, að þúsundir Íslendinga muni fara út á göturnar á morgun (það er í dag laugardag) og mótmæla því, að ríkisstjórninni haf ekki tekist að fá 6 milljarða dollara lán frá slþjóðagjaldeyrissjóðnum. Talið er, að 20.000 manns eða 6% þjóðarinnar muni fara út á götur Reykjavíkur og er Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, borinn fyrir þessum tölum. Haft er eftir honum, að ástæða fyrir þessum mikla fjölda mótmælenda sé reiði almennings vegna skorts á upplýsingum. Hann segir engan fá neinar upplýsingar!

Samkvæmt fréttum í kvöld er talið, að 6000 manns hafi verið á Austurvelli í dag. Líklegt er, að rifist verði um þessa tölu fram eftir vikunni og ætla ég alls ekki að blanda mér í þær deilur. Á hinn bóginn er ástæða til að undrast frétt eins og þá, sem Bloomberg birti og hafði eftir Andrési Magnússyni, ef þeir, sem að fréttinni standa, vilja hafa eigin áreiðanleika og Bloombergs í heiðri.

Bloomberg hafði ekki hugmynd um, hverju átti að mótmæla í dag og ég heyrði ekki um neinn. sem mótmælti seinagangi alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Heimildarmenn Bloombergs kunna þó að hafa verið meðal mótmælenda með spjöld í samræmi við efni fréttarinnar.

Á leiðinni frá Hveragerði hlustaði ég á Stjörnukíkinn á rás 1 eins og áður sagði en á leiðinni til Hvergerðis slökkti ég á þættinum Í vikulokin á rás 1 vegna vaðalsins í stjórnanda þáttarins. Er furðulegt að gestir þátta eigi fullt í fangi með að komast að vegna þarfar gestgjafans fyrir að láta ljós sitt skína.

Föstudagur, 14. 11. 08. - 14.11.2008 19:18

Miðstjórn og þingflokkur sjálfstæðismanna komu saman í Valhöll í hádeginu í og sátu fram undir 15.30. Þar voru teknar ákvarðanir um að flýta landsfundi frá hausti 2009 til loka janúar og setja á laggirnar nefnd, Evrópunefnd, undir formennsku Kristjáns Þórs Júlíussonar, alþingismanns, til að fara yfir samskipti Íslands við ríki Evrópu, Evrópusambandið (ESB) og alþjóðasamfélagið í heild í ljósi þeirra breytinga, sem hafa orðið og eru að verða í heiminum.

Eindrægni ríkti á fundinum í stuðningi við tillögu Geirs H. Haarde, flokksformanns og forsætisráðherra, um þessi efni. Ákvörðun þessara stofnana flokksins sýnir, að innan hans er vilji til þess að efna til opinna lýðræðislegra umræðna um stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna við gjörbreyttar aðstæður.

Í ræðu, sem ég flutti hinn 17. október sl., kom fram sú skoðun, að nú þyrftu Íslendingar að búa sig undir nýja sjálfstæðisbaráttu til að styrkja stöðu sína. Ég tel, að í dag hafi Sjálfstæðisflokkurinn stigið fyrsta formlega skrefið á þeirri braut. Vilji Sjálfstæðisflokkurinn standa undir nafni á hann að sjálfsögðu að leiða þessa baráttu.

Eins og vék hér að í gær nefndi Dominique Strauss-Kahn, forstjóri alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Ísland til sögunnar í viðtali við kínverskt fjármálarit, þegar hann ræddi um þjóðir, sem hefðu orðið illa úti og leitað hefðu til sjóðsins. Þá hefur komið fram, að innan Evrópusambandsins er mönnum kappsmál að semja við Ísland um túlkun á tilskipun innan sambandsins um ábyrgð vegna gjaldþrots banka - ella kunni allt traust á bönkum að hverfa. 

Ísland er í margra augum víti til varnaðar - dæmi um, hve illa getur farið vegna skorts á skýrum og samhæfðum alþjóðareglum, sem nú er leitast við að móta og rætt verður um á fundi leiðtoga 20 ríkja í Washington um helgina. Ríkisstjórnir og fjármálafurstar annars staðar óttast, að þeir eigi eftir að lenda í sama vanda og ríkisstjórn Íslands og líkur á því hefðu aukist, ef ekki næðust samningar milli Íslands og ESB vegna IceSave.

Sjálfstæðismenn ætla að ræða alla þessa þætti, þótt tengslin við Evrópu beri að sjálfsögðu hæst. Ef menn vilja nálgast málið á þann hátt, að einblína á aðild að Evrópusambandinu, er sjónarhornið of þröngt með hliðsjón af hagsmunum Íslendinga og sögulegum tengslum við Bandaríkin. Viljum við eiga öll alþjóðasamskipti í gegnum Brussel?

Ríkissjónvarpið leitaði álits þriggja manna á ákvörðun sjálfstæðismanna í fréttum sínum í kvöld. Steingrímur J. Sigfússon, sem er á móti ESB-aðild, sagði flokkinn vera á villigötum. Össur Skarphéðinsson, sem vill ESB-aðild, taldi flokkinn hafa batnað í dag. Baldur Þórhallsson, sem vill ESB-aðild, en er fræðimaður, sagði flokkinn mundu lenda í vandræðum, ef skipun nefndarinnar og ný dagsetning landsfundar leiddi ekki til ESB-aðildarstefnu flokksins. Enginn þessara manna var óhlutdrægur 

Fimmtudagur, 13. 11. 08. - 13.11.2008 9:15

Gretar Mar Jónsson spurði mig um varalið lögreglu á þingi í morgun en var að ræða um héraðslögreglumenn. Í svari mínu sagði ég, að komið hefði í ljós, eftir að reglugerðin var gefin út í október um fjölgun héraðslögreglumanna, að henni þyrfti enn að breyta og fjölga í fleiri umdæmum úr 8 í 16. Það hefði nú verið gert og yrði heildartala héraðslögreglumanna því um 280.

Á ruv.is má lesa í dag:

„Dominique Strauss-Khan, forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, gagnrýnir Íslendinga harðlega í viðtali við kínverskt fjármálatímarit og segir augljóst að það geti ekki gengið að bankakerfið hér á landi hafi orðið 12 sinnum stærra en íslenska hagkerfið.

Strauss Khan er mjög harðorður í garð Íslendinga og segir orðrétt: ,,Tökum Ísland sem dæmi, þar sem bankarnir þróuðust þannig að heildareignir í bankakerfinu íslenska voru 12 sinnum hærri en þjóðarframleiðsla landsins. Augljóslega getur það ekki gengið. Og einmitt af þeim orsökum þurfum við fleiri alþjóðlegar reglur til að koma í veg fyrir að svona staða geti komið upp aftur."“

Þegar viðtalið er lesið sést, að ekki er unnt að taka undir feitletruðu orðin í fréttinni á ruv.is. Eitt er að gagnrýna harðlega og annað að nefna dæmi um, hvernig getur farið, ef bankakerfi verður stærra en efnahagskerfi þjóðríkis þolir, eins og hér gerðist. Ísland er nefnt sem víti til varnaðar og þess vegna þurfi nýjar alþjóðareglur. Sjálfsgagnrýni er góð og gild en hún má ekki ganga út í öfgar.

Þessi túlkun á viðtalinu við forstjóra alþjóðagjaldeyrissjóðsins endurspeglar þá sterku liti, sem fjölmiðlar nota til að lýsa stöðu mála hér á landi. Stundum dettur manni í hug, að ástæða sé til að draga andann djúpt og hugsa sig um, áður en ýmislegt er sagt um Ísland innan lands og utan.

Mér var send mynd, sem átti að vera úr Politiken.dk þar sem sett hafði verið inn fyrirsögn á þýsku yfir ljósmynd af Ólafi Ragnari Grímssyni í tilefni af ræðu hans hjá danska sendiherranum í Reykjavík en þar var ræðu Ólafs Ragnars við Sportpalast-ræðu Göbbels. Trúði ég þessu í fyrstu en undraðist síðan, að hið danska blað gerði sig marklaust á þennan veg, og tók til við að leita að tilvísun á vefsíðu þess en fann ekki.

Það er ekki aðeins, að orð erlendra manna eru túlkuð um of heldur er einnig leitast við að færa orð innlendra manna í of dramatískan búning og dreifa þeim þannig.

Í Bandaríkjunum fer nú fram leit að manni, sem dreifði ósannindum á vefsíðum um Söru Palin, en finnst ekki, þegar að er gáð - hann sagði til dæmis ranglega, að hún vissi ekki, hvað Afríka væri! Bárust þau tíðindi um heim allan.

Málefni Íslands voru til umræðu í fyrirspurnatíma á sænska þinginu í dag og á vefsíðu Carls Bildts utanríkisráðherra má lesa:

Lesa meira

Miðvikudagur, 12. 11. 08. - 12.11.2008 7:13

Klukkan 13.00 var athöfn í alþingishúsinu en þá opnaði landskjörstjórn vefsíðu um kosningar og kosningafræði www.landskjor.is

Lagadeild Háskólans í Reykjavík efndi í dag til umræðna um lögfræðileg álitamál á umbrotatímum og má skoða slæður frá ræðumönnum hér.

Þórdís Ingadóttir dósent ræddi um gildi yfirlýsinga ráðamanna að þjóðarétti. Þegar efni er hennar er skoðað á vefsíðunni, sést, að ríki geta gengist undir þjóðréttarlegar skuldbindingar með einhliða yfirlýsingu. Vegna eðli starfa þeirra eru eftirfarandi ráðamenn sjálfkrafa taldir hafa umboð til að skuldbinda ríki: þjóðhöfðingi, forsætisráðherra og utanríkisráðherra.

Þórdís fór síðan yfir álitamál um það, hvort um væri að ræða undantekningu frá þessari meginreglu eða hvort unnt væri fyrir þjóðir að skorast undan að vera bundnar af slíkum yfirlýsingum. Nefndi hún dæmi til að skýra málið. Þar kemur meðal annars fram, að Malí hafi haldið því fram, að yfirlýsing þjóðhöfðingja á blaðamannafundi hefði einungis verið „a witticism of the kind regularly uttered at press conferences“.

Sama dag og þetta erindi var flutt bárust fréttir frá Noregi af frásögn sendiherra Noregs hér á landi af orðum Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, í hádegisverðarboði Lasse Reimann, sendiherra Dana á Íslandi, í bústað hans við Hverfisgötu föstudaginn 7. nóvember. Hádegisverðinn sátu sendiherrar erlendra ríkja á Íslandi.

Í norska blaðinu Klassekampen er hinn 12. nóvember á forsíðu vitnað í frásögn norska sendiherrans undir risafyrirsögninni: Islands president í skandalelunsj: Skjelte ut Sverige og Danmark. Þetta má íslenska á þennan hátt: Forseti Íslands í hádegisverðarhneyksli: Skammaði Svía og Dani. Sagt er, að diplómatar hafi verið „sjokkeraðir“ undir ræðu forsetans.

Inni í blaðinu er ítargrein um efnið undir fyrirsögninni: Inviterer Russland - Býður Rússlandi - undir er stór mynd af Ólafi Ragnari og í inngangi fréttarinnar segir á norsku: „Islands president Ólafur Ragnar Grímsson sjokkerte diplomatene i Reykjavik, da han skjelte ut Islands nære allierte og tilböd Russland a bruke Keflavik-basen.“

Blaðið segir, að forseti Íslands hafi minnt sendiherrana á mikilvægi N-Atlantshafs fyrir Norðurlönd, Bandaríkin og Bretland, en ríkin virtust ekki viðurkenna þá staðreynd. Íslendingar mundu þá leita nýrra vina, þeir ættu kannski frekar að bjóða Rússum að nota Keflavíkurstöðina. Þá hefði rússneski sendiherrann orðið undrandi á svipinn og sagt brosandi, að Rússland þyrfti ekki á aðstöðunni að halda.

Lesa meira

Þriðjudagur 11. 11. 08. - 11.11.2008 20:55

Fyrir réttri viku var allt að sjóða upp úr í fjölmiðlum, vegna þess að ekki væri nóg að gert til að rannsaka fjárþrot bankanna. Ráðist var að mér. ríkissaksóknara og Boga Nilssyni, fyrrverandi ríkissaksóknara, á röngum forsendum. Í dag var ég á rúmlega 90 mínútna opnum fundi í allsherjarnefnd alþingis og ræddi efni nýs frumvarps um sérstakan saksóknara til að fjalla um refsiverða þætti fjárþrotsins auk annarra mála.

Frumvarpið var lagt fram á alþingi í dag. Þar er meðal annars það nýmæli, sem hvergi er á Norðurlöndum, að veitt er heimild til að falla frá ákæru á hendur þeim, sem veitir lögreglu eða saksóknara upplýsingar vegna gruns um afbrot - ákvæði um uppljóstrara eða „litla landsímamanninn“ og sagt er hér á landi. Nú bregður svo við, að fjölmiðlar hafa lítinn eða engan áhuga á þessu máli.

Fundurinn í allsherjarnefnd hófst klukkan 11.00 og honum lauk um 12.30. Hann má sjá hér

 • Opinn fundur með dóms- og kirkjumálaráðherra 11. nóvember 2008
 • Bjarni Harðarson, þingmaður Framsóknarflokksins í suðurkjördæmi, sagði af sér þingmennsku í dag, eftir að hafa orðið uppvís um skammarlegt prakkarastrik gagnvart Valgerði Sverrisdóttur, varaformanni Framsóknarflokksins, þegar hann ætlaði að fela aðstoðarmanni sínum að dreifa til fjölmiðla úr nafnlausu netfangi gagnrýnisbréfi tveggja framsóknarmanna í Skagafirði á Valgerði - þá varð Bjarna á að senda pukurtilmæli sín til aðstoðarmannsins til fjölmiðla.

  Bjarni sat með mér í Þingvallanefnd og kynntist ég honum helst á þeim vettvangi þann stutta tíma, sem hann sat á þingi. Þar hreyfði hann tillögu um breytingu á byggingarskilmálum sumarbústaða, sem hefur kallað á vinnu innan nefndarinnar, án þess að henni sé lokið við brottför hans.

  Prakkarastrik Bjarna er utan þess, sem þingmenn eiga að venjast í samskiptum sín á milli. Í pólitísku tilliti er það til marks um hatrömm átök innan Framsóknarflokksins og sýnir, hve slæm áhrif Evrópudeilur hafa á andrúmsloft innan flokka. Þurfa menn að kynda undir slíkar deilur á þessum örlagatímum? Ekki framsóknarmenn.

  DV heldur áfram stríði við lögregluyfirvöld og Morgunblaðið og telur sig geta sannað eitthvað um viðbúnað lögreglu með hálfkveðnum vísum og hreinum uppspuna. Getsakir DV um starfshætti lögreglu eru blaðinu síst til framdráttar.

   

   

   

   

   

  Mánudagur, 10. 11. 08. - 10.11.2008 9:48

  Helsta forsíðufyrirsögn Fréttablaðsins er: Óttast hörð viðbrögð við einhliða upptöku. Með þessum orðum er vísað til svara Ólafs Darra Andrasonar, hagfræðings ASÍ, við spurningu blaðsins um einhliða upptöku evru. Hann óttast, að við fáum hörð viðbrögð frá Brussel.

  1999 varð Bernard Kouchner, núverandi utanríkisráðherra Frakka, landstjóri á vegum Sameinuðu þjóðanna í Kosovo, hann ákvað einhliða upptöku þýsks marks þar í landi og síðan evru, án þess að verða ofsóttur af valdamönnum í Brussel. Kouchner er nú forseti ráðherraráðs Evrópusambandsins. Er líklegt, að hann leggi fæð á Íslendinga fyrir að feta í fótspor hans?

  Velvakandi Morgunblaðsins sefur á verðinum, ef marka má bréf í dálki hans í dag, þar sem Hafsteinn Sigurbjörnsson ræðst að mér og segir mig „endanlega“ firrtan „allri heilbrigðri skynsemi“ hvorki meira né minna. Hvers vegna? Jú með því að láta Valtý Sigurðsson, ríkissaksóknara, og Boga Nilsson, fyrrverandi ríkissaksóknara, rannsaka mál tengd bankahruninu og það, sem Hafsteinn kallar „fjárglæfra“ sona þeirra.

  Allt er þetta rangt hjá Hafsteini. Ég fól þeim Valtý og Boga ekki neitt, þeir hafa alls ekki verið að rannsaka einstök mál og fimmtudaginn 6, nóvember ritaði Valtýr mér bréf og sagði forathugun á sínum vegum lokið.

  Hafsteinn lýkur þessu dæmalausa bréfi sínu á þessum orðum:

  „Dómsmálaráðherra skipar ríkissaksóknara til að rannsaka gjörðir sona sinna og þjóðin horfir orðlaus á. Hversu lengi ætlar þjóðin að láta þetta líðast?

  Ef einhverjir ættu að vera orðlausir vegna þessa bréfs eru það þeir, sem vita hið sanna og rétta í málinu og hafa margsinnis leitast við að skýra frá því. Hafsteinn hefur því miður ekki fylgst með gangi málsins og Velvakandi lætur sig engu skipta, hvað birtist undir nafni hans.

  Á tímum sem þessum er ábyrgð allra mikil, þar á meðal fjölmiðla, til að halda trúverðugleika sínum og trausti. Birting þessa bréfs í Velvakanda sýnir, að þar er allt birt, hvort sem það er satt eða logið, tímabært eða ótímabært. 

  Páll Ásgrímsson hdl. skrifar grein í Morgunblaðið í dag um stjórnarsetu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, sem hann telur stangast á við lög. DV bregst illa við.

  Lesa meira

  Sunnudagur, 09. 11. 08. - 9.11.2008 18:47

  Skrifaði pistil í dag um kjör Obama, fjórða valdið og þekkingarvald.

  Í listasafni ASÍ er yfirlitssýning á verkum Gylfa Gíslasonar, teiknara og myndlistarmanns, sem andaðist árið 2006. Í tilefni af sýningunni hefur verið gefin út vegleg bók, Gylfi Gíslason, sem lýsir ævi, störfum og verkum Gylfa.

  Ég kynntist Gylfa í störfum mínum í Þingvallanefnd. Hann hafði mikinn og einlægan áhuga á Þingvöllum og lagði mikið af mörkum til kynningarefnis um þjóðgarðinn auk þess að skapa mörg eftirminnileg listarverk tengd honum.

  Á Kjarvalsstöðum er sýningin Augnasinfónía, myndlist Braga Ásgeirssonar í sextíu ár. Er fróðlegt að ganga um austursal safnins og kynnast verkum Braga allt frá fyrstu árum hans fram á þessa öld. Þá hefur verið gefin út vegleg sýningarbók um Braga og verk hans.

  Bragi var í marga áratugi myndlistargagnrýni Morgunblaðsins og hefur ritað ógrynni af greinum í blaðið um sýningar heima og erlendis, strauma og stefnur.

  Áhugi The New York Times á því, sem hér er að gerast, er ótrúlega mikill, eins og kemur fram á forsíðu blaðsins í dag. Önnur langa forsíðufréttin um Ísland á skömmum tíma.

  Laugardagur, 08. 11. 08. - 8.11.2008 20:34

  Halla Gunnarsdóttir (Sigurðssonar) er þingfréttaritari Morgunblaðsins og ritar þar þingbréf á laugardögum um störf alþingis í vikunni, sem er að líða. Í dag hófst bréf hennar á frásögn af mótmælum á Austurvelli. Þá segir: „Fyrir tæpum tveimur vikum var fullt út úr dyrum á brogarafundi í Iðnó. Færri fengu tækifæri til að tjá sig en vildu og mörgum var heitt í hamsi. Í dag munu eflaust margir mæta á borgarafund kl. 13 og færa sig að honum loknum á Austurvöll til að mótmæla.“

  Halla Gunnarsdóttir var auglýstur ræðumaður á fundinum í Iðnó og birtist galvösk í sjónvarpsfréttum frá honum með stóryrði* á vörunum. Gunnar Sigurðsson stendur fyrir þessum fundum.

  Mótmælendur á Austurvelli töldu það málstað sínum til framdráttar að draga orrustufána, Bónusfánann, að húni á alþingishúsinu og síðan kasta í það eggjum og tómötum. Sjónvarpsmenn spurðu mótmælendur á Austurvelli á þann veg, að þeim þótti augljóslega skiljanlegt, að þessi atlaga væri gerð að þinghúsinu.

  Í dagbókarfærslu í gær velti ég fyrir mér, hvort unnt væri að treysta á óhlutdrægni fjölmiðlafólks í þessari orrahríð allri. Ég hef fengið ábendingar um, að fleiri velti þessu fyrir sér.

  Annars bar það til fréttnæmra tíðinda á fundinum í Iðnó, að Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, taldi það meira en vel koma til greina að hækka skatta, auk þess sem hann varði verðtryggingu lána af miklum þunga.

  *es. Halla Gunnarsdóttir sendi mér ræðu sína á fundinum og sé ég, að of sterkt er að orði kveðið hjá mér að nota orðið stóryrði um hana, þótt hún hafi birst mér þannig í hita fundarins, sem sýndur var í sjónvarpinu - þetta er ljóðrænt ávarp til Björgólfs Guðmundssonar.

  Föstudagur, 07. 11. 08. - 7.11.2008 19:09

  Hér hef ég sett inn viðtal Freys Eyjólfssonar við mig í Síðdegisútvarpi rásar 2 fimmtudaginn 6. nóvember.

  Í samtali okkar Freys er vikið að framkomu Evrópusambandsins og einstakra aðildarríkja þess í okkar garð. Ekki er unnt að setja þar öll ríki undir sama hatt eins og sannaðist í dag, þegar fréttir bárust af 200 milljóna evru lánstilboði Pólverja til okkar. Samband Íslendinga og Pólverja hefur verið mikið og gott undanfarin ár vegna hins mikla fjölda Pólverja, sem hér hafa verið við störf. Þá hafa pólsku Karmelnunnurnar í Hafnarfirði í mörg ár beðið fyrir landi og þjóð. Nú leggur pólska ríkið okkur lið með þessum góða hætti - megi það verða öðrum fyrirmynd innan Evrópusambandsins.

  Föstudagsumræður í ljósvakamiðlum eru oft forvitnilegar til að átta sig á hitamálum.´

  Á rás 2 ræddu þingmennirnir Bjarni Harðarson, Framsóknarflokki, og Katrín Jakobsdóttir, vinstri/græn, saman, án þess að upplýsa neitt. Þau ræddu til dæmis rannsóknir á bankahruninu, án þess að átta sig á því, hver eru viðfangsefnin í því efni - ég fer inn á það í viðtalinu á rás 2. Vanþekkingin var síðan notuð til að ráðast á ríkisstjórnina.

  Í Kastljósi stjórnaði Jóhanna Vilhjálmsdóttir samtali þeirra Bjðrns Inga Hrafnssonar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Mér finnst merkilegt, hvað Björn Ingi tekur mikið upp í sig í umræðum um þessi mál öll með vísan til aðildar hans á REI-hneykslinu. Þar vörðust sjálfstæðismenn í borgarstjórn, þegar Björn Ingi vildi draga Orkuveitu Reykjavíkur inn í ævintýraferð undir leiðsögn FL Group.

  Krafan um upplýsingamiðlun af hálfu stjórnvalda er hávær og mikil. Hún stafar meðal annars af því, að þjóðin treystir ekki einkareknum fjölmiðlum til að segja alla söguna - þeir eru allir í eignarhaldi, sem tengist bankahruninu á einn eða annan  hátt. Þegar einkareknu fjölmiðlarnir veitast að stjórnmálamönnum eða embættismönnum fyrir óhlutdrægni vegna tengsla við aðila að bankahruninu er holur hljómur í þeim aðfinnslum. Dæmin um sjálfsritskoðun í þágu eigenda eru svo mörg og skýr, að tilgangslaust er að afneita henni.

  Fimmtudagur, 06.11.08 - 6.11.2008 18:33

  Í dag fékk ég bréf frá Valtý Sigurðssyni ríkissaksóknara, þar sem hann telur rétt að framkvæma þá tillögu mína að koma á laggirnar sérstöku embætti saksóknara. Ríkissaksóknari var ekki að rannsaka starfsemi bankanna, eins og skilja mátti af frétt í hljóðvarpi ríkisins, hann var að kortleggja umfang málsins, sem kann að koma inn á borð ákæruvaldsins og telur að tvennt þurfi að gera: Kalla til erlenda sérfræðinga, en umfang þess verkefnis, er hann að kanna, og hins vegar að samþykkja frumvarp, sem ég er með í smíðum um sérstakan saksóknara.

  Ég tel, að þessi vinna Boga Nilssonar og Valtýs auðveldi okkur að takast á við framhaldið. Hvorugur var að rannsaka einstök mál. Það er ekki verkefni ríkissaksóknara heldur Fjármálaeftirlits og lögreglu og þangað eiga menn að snúa sér með kærur.

  Næsta skref af minni hálfu er að leggja fram frumvarp um sérstakan saksóknara.

  Hér birti ég útskrift af samtali Kristófers Helgasonar við mig í Bylgjunni þriðjudaginn 4. nóvember.

  Í DV í dag er forsíðufrétt með mynd af mér um vígbúnað íslensku lögreglunnar til að lemja á almenningi. Byggist þetta á einhverri rannsókn blaðsins, sem á að hafa leitt í ljós endurgerð bíla fyrir lögregluna. Þetta er birt, þótt margar orðsendingar hafi gengið milli mín og blaðamannsins í gærkvöldi, þar sem ég sagðist ekki hafa neina vitneskju um þetta og spurði hann að lokum, hvort hann væri að skrifa um rétt land. Í tilefni af fréttinni hefur lögreglan sent frá sér tilkynningu í dag og segir ríkislögreglustjóri:

  „Í DV í dag er fullyrt að lögreglan í landinu sé að "vígbúast gegn fólki".   Þetta er uppspuni.  Ekki er verið að útbúa nýja óeirðabíla fyrir lögreglu eða breyta strætisvagni í fjarskiptamiðstöð, eins og blaðið fullyrðir. “

  Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir:

  „Vegna fréttar í DV í dag um meintan vígbúnað lögreglu skal tekið fram að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er ekki að láta útbúa eða breyta bifreiðum sem nota á við óeirðastjórn og er heldur ekki að láta breyta strætisvagni í fjarskiptamiðstöð.“

  Uppspuni DV hefur gefið fjölmörgum nafnleysingjum í bloggheimi til að ausa yfir mig skít og skömm. Kannski var markmið blaðsins einmitt að kalla slíkt fram?

  Það var skemmtileg upplyfting að sjá nýju Bond-myndina í kvöld. Mæli með henni fyrir þá, sem vilja dreifa huganum.

  Miðvikudagur, 05.11.08. - 5.11.2008 21:28

  Barack Obama vann verðskuldaðan sigur í forsetakosningunum í Bandaríkjunum. Hann stóð sig einstaklega vel í kosningabaráttunni. Fundið var að reynsluleysi hans, en á það var bent, að maður, sem safnaði svo miklum fjármunum frá almenningi og sigraði kosningavél Clinton-hjónanna innan eigin flokks, hlyti að búa yfir miklum hæfileikum. Hann sigðraði kosningavél repúblíkana einnig örugglega, en hún hefur löngum verið talin öflugri en flest önnur slík kosningatæki.

  Í nýjasta þjóðarpúlsi Gallups (nóvember 2008) er spurt um viðhorf Íslendinga til nokkurra þjóða, þar á meðal Bandaríkjamanna, 22% eru jákvæðir, 34% hlutlausir og 44% neikvæðir. Jákvæðni í garð Bandaríkjamanna hefur minnkað mikið í stjórnartíð George W. Bush, 2001 voru 76% Íslendinga jákvæð í garð Bandaríkjamanna en 22%.

  Líklegt er, að fleiri þjóðir en við hafi misst álit á Bandaríkjamönnum síðustu átta ár, enda er sigri Obama vel tekið um allan heim. Framsóknarmenn fagna sigri Obama með þeim orðum, að hann sé flokksbróðir þeirra og Samfylkingin er sömu skoðunar. Hið skrýtna er, að demókratar eru almennt, þótt þeir séu taldir vinstra við miðju í Bandaríkjunum, til hægri við Sjálfstæðisflokkinn. En hvað gera menn ekki til að geta fagnað sigrum annarra?

  Ræða Obama, þegar hann fagnaði sigri í Chicago, verður talin til hinna merkustu í sögu Bandaríkjanna, þegar fram líða stundir, og oft mun vitnað til hennar, enda tímamótin vissulega einsök.

  Nokkrum klukkustundum eftir að Obama flutti sigurræðu sína hélt Dmitri Medvedev, forseti Rússlands, fyrstu stefnuræðu sína og þótti margt í henni minna á kalda stríðið. Rússar ætla að setja skotpalla fyrir skammdrægar Iskander-eldflaugar í Kaliningrad við Eystrasalt, þar sem Litháen og Pólland mætast. Er þetta svar þeirra við bandaríska eldflaugavarnarkerfinu í Póllandi og Tékklandi. Þá sakaði hann Bandaríkjamenn um að fylgja „eigingjarnri“ utanríkisstefnu, þegar Rússar áttu í átökum við Georgíumenn sl. sumar.

  Barack Obama tekur nú til við að velja menn í ríkisstjórn sína og utan Bandaríkjanna beinist athygli einkum að utanríkisráðherra og varnarmálaráðherra. Vegna reynsluleysis í utanríkis- og öryggismálum er talið, að hann muni treysta mjög á góða ráðgjafa í þessum málaflokkum. Miklu meira en John McCain hefði gert. Þess vegna hugsa starfsmenn hugveita sér gott til glóðarinnar við valdaskiptin nú.

  Þriðjudagur, 04.11.08. - 4.11.2008 8:46

  Ómar Ragnarsson er reyndur fréttamaður til margra ára en hefur nú snúið sér að stjórnmálum sem forystumaður Íslandshreyfingarinnar. Hann heldur úti vefsíðu til að rækta samband við kjósendur. Þar segir hann í færslu:

  „3. Dómsmálaráðherra skipar tvo menn til að standa að hvítbók um fjármálahrunið og rannsaka hlut fyrirtækja þar sem synir þeirra eru í forsvari og flæktir í málin svo og tengdasonur ráðherrans.“

  Dæmalaust er að lesa þetta. Ég hef ekki skipað neina menn til að semja hvítbók um fjármálahrunið. Ríkissaksóknari átti frumkvæði að því að hafin yrði kortlagning vegna mála, sem tengdust fjármálahruninu, til að búa í haginn, ef til lögreglurannsókna kæmi. Þetta er að sjálfsögðu engin hvítbók um málið og gerð hennar er ekki á mínu forræði. Ríkssaksóknari fékk Boga Nilsson til að vinna að þessu verkefni, ég skipaði hann ekki. Bogi er ekki að rannsaka neitt, það verkefni verður á könnu sérstaks saksóknara nái hugmyndir mínar fram að ganga.

  Spurning hefur vaknað um hæfi Valtýs Sigurðssonar ríkissaksóknara og Boga Nilssonar til að vinna þessa undribúningsvinnu. Ég hef svarað henni á þann veg, að lögum samkvæmt eigi þeir síðasta orð um hæfi sitt. Ég mun að sjálfsögðu huga að eigin hæfi, þegar ég tek ákvarðanir, sem varða þessi mál öll.

  Eftir að hafa lesið þessi orð Ómars Ragnarssonar vaknar spurning um hæfni hans í málinu. Skyldi hann vera maður til að hafa það, sem réttara reynist, og leiðrétta þessi ummæli sín?

  Es. undir kvöld ritaði Ómar á vefsíðu sína:

  „Á vefsíðu sinni segist Björn Bjarnason ekki hafa skipað Valtý Sigurðsson og Boga Nilsson til verka við hvítbók og átelur mig fyrir ummæli þar að lútandi á vefsíðu minni. Ég skal fúslega hafa það er sannast reynist í þessu máli og biðja Björn Bjarnason afsökunar á því að bendla hann um of við þetta mál.

  Ég hefði gjarna viljað gera þetta í formi athugasemdar á vefsíðu hans en mér sýnist að það sé ekki hægt.“

  Ég þakka Ómari.

   

  Mánudagur, 03.11.08. - 3.11.2008 20:44

  Mér virðist þess misskilnings gæta um hlut þeirra Valtýs Sigurðssonar ríkissaksóknara og Boga Nilssonar, fyrrverandi ríkissaksóknara, að verkefni þeirra sé að rannsaka eða stjórna rannsókn einstakra mála, sem kunna að spretta af hruni bankanna og vísað er til lögreglu.

  Málsmeðferðin er tvíþætt.

  Í fyrsta lagi að kortleggja stöðuna, átta sig á umfangi og stofna til tengsla við þá, sem þegar eru teknir til við að rannsaka einstök mál, án þess að um lögreglumál sé að ræða. Þetta starf er að fara af stað. Ríkissaksóknari telur, að líklega þurfi erlenda sérfræðinga til að átta sig á öllum þráðum til að heildarmyndin fáist. Hann hefur kynnt málið fyrir allsherjarnefnd alþingis.

  Í öðru lagi að rannsaka einstök mál í samvinnu við lögreglu. Hugmynd mín er, að þarna komi sérstakur saksóknari til sögunnar og er frumvarp um hann á lokastigi í vinnslu á mínum vegum.

  Hvert skref, sem stigið hefur verið í þessu máli, hefur verið kynnt á opinberum vettvangi. Ríkissaksóknari kynnti hugmynd um kortlagninguna, ég samþykkti hana og skýrði fyrst frá henni á alþingi. Ég lít á hana sem nauðsynlegan og tímabæran undirbúning undir sakamálarannsóknina sjálfa, verði efnt til hennar, og viðleitni til að búa skipulega í haginn fyrir hana, einfaldlega til marks um vönduð vinnubrögð.

  Í bandarísku kosningabaráttunni hafa málsvarar Baracks Obama snúist harkalega til varnar, þegar þeir telja vegið að frambjóðanda sínum með áburði um eitthvað vegna tengsla við einhvern (guilt by association). Neikvæð barátta af þessu tagi hefur ekki skilað andstæðingum Obama öðru en skömm. Hvarvetna verða menn að gæta sín, þegar vegið er að heiðarleika og mannorði annarra. Þegar ég kynnti alþingi hugmyndir mínar um rannsókn réttvísinnar vegna bankahrunsins, varaði ég við nornaveiðum. Mér finnst enn ástæða til þess.

  Hér segir frá því, að breskir íhaldsmenn krefja Alistair Darling sagna um vitneskju hans og aðgerðir vegna íslensku bankanna í London.

  Hér er fróðleg grein um undirrót bankahrunsins, meira að segja Alan Greenspan hefur viðurkennt, að hann var of trúaður á, að fjármálamarkaðsmenn mundu sjálfir þekkja sín takmörk. Hödundurinn bendir þeim, sem vilja kynna sér hættur stjórnlausra áhættufjárfestinga, að kynna sér reynslu Íslendinga.

   

  Sunnudagur, 02.11.08. - 2.11.2008 11:16

  Hér er grein í The New York Times um fjármálakrísu okkar Íslendinga, sem vert er að lesa.

  Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og menntamálaráðherra, hefur verið víða í viðtölum undanfarið og nú síðast í kvöld hjá Sigmundi Erni í Mannamáli á Stöð 2. Athygli beinist einkum að því, sem hún segir um samskipti Íslands og Evrópusambandsins. Hún áréttaði á skýran hátt í samtalinu við Sigmund Erni, að skoðun hennar væri í fullu samræmi við Evrópustefnu flokksins, sem mótuð var á síðasta landsfundi hans, að afstaða til ESB ætti að byggjast á mati á hagsmunum þjóðarinnar. Hún taldi, að þeir atburðir, sem nú hefðu gerst, krefðust nýs hagsmunamats. Þetta er skynsamleg afstaða og stangast á við óðagot og uppnám þeirra, sem láta eins og unnt sé að smella Evrópufingri og leysa allan okkar vanda.

  Að leggja meiri merkingu í þessi orð Þorgerðar Katrínar en það, sem hún sagði, ber vott um skoðun álitsgjafanna en ekki hennar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ávallt mótað utanríkisstefnu sína á köldu mati á þjóðarhagsmunum en ekki óskhyggju.

  Enn sannast í dag, hve misráðið var að bregða fæti fyrir dreift eignarhald á fjölmiðlum, þegar allir miðlar fyrir utan RÚV og Viðskiptablaðið virðast komnir á eina hendi. Þorgerður Katrín sagðist að vísu ekki átta sig til fulls á því, hvað gerst hefði miðað við fréttir dagsins.

  Kannski eru ekki öll kurl komin til grafar. Látið er í veðri vaka, að Nýi Landsbankinn hafi knúið fram kaup Jóns Ásgeirs Jóhannessonar á fyrirtæki, sem áður var að mestu í hans eign. Að óreyndu hefði mátt ætla, að viðskipti af þessum toga væru fortíðarvandi.

  Þegar G. Pétur Matthíasson var fréttamaður hjá RÚV hreykti hann sér af því að lesa aldrei vefsíðu mína, hann þoldi ekki skoðanir mínar. Nú er hann upplýsingafulltrúi vegagerðarinnar og bloggar á eigin vefsíðu um, að ég eigi að láta af stjórnmálastörfum vegna skoðana minna á Evrópumálum. Hann segir: „Veröld Björns hefur vissulega lengi verið köld og svört og hvít og ástæðulaust fyrir hann sjálfan að breyta því en því meiri ástæða fyrir Sjálfstæðimenn að gefa honum frí og okkur hinum frí frá honum og hans sýn á sína fálita veröld. “
  G. Pétur er enn við sama heygarðshornið og þegar hann var óhlutdrægur, opinber fréttamaður.

  Laugardagur, 01.11.08. - 1.11.2008 20:14

  Flugvélin frá Boston lenti klukkan um 05.50 í morgun vel á undan áætlun.

  Í dag skrifaði ég pistil á vefsíðuna og reyndi að glöggva mig á umræðunum um fjármálakrísuna. Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins sem kom síðdegis kemur fram, að fylgi Sjálfstæðisflokksins er 22,3% samkvæmt Gallup-könnun, Samfylkingin fær 36,9%, vinstri/græn 26,9%, 7,8% framsókn, tæp 80% segjast hafa misst trú á krónunni.

  Í Reykjavíkurbréfi blaðsins undrar höfundurinn sig á því, að ég skuli hafa vitnað í Ívar Jónsson, sem benti á að álagið á krónuna hefði minnkað með brotthvarfi útrásarinnar, af því að Ívar er marxisti að mati höfundarins.

  Eitt er að efast um dómgreind Ívars, af því að hann er marxisti, annað að halda því fram, að því er virðist í alvöru, að við Ívar höfum rangt fyrir okkur, þar sem Íslendingar kunni einhvern tíma að nýju að ráðast í útrás! Hér má segja. Den tid, den sorg og spyrja: Hvers vegna ekki að horfast í augu við núverandi vanda og gera áætlun um aðgerðir gegn honum? Hvers vegna vill höfundur Reykjavíkurbréfs forðast það eins og heitann eld?

  95 ára saga Morgunblaðsins einkennist af raunsæi og rökfimi stjórnenda þess, þegar mest hefur reynt á þrek og þol þjóðarinnar. Að láta óskhyggju og útúrsnúninga ráða ferð er sögulegt stílbrot við ritstjórn blaðsins.

  Föstudagur, 31.10. 08. - 31.10.2008 17:37

  Málþingi CSIS lauk hér í Washington DC um hádegisbilið eftir umræður um stöðu Rússlands og gasflutninga landleiðina til Evrópu.

  Rússar glíma við mikla efnahagserfiðleika auk þess sem framleiðsla þeirra á olíu og gasi er að dragast saman, meðal annars vegna þess að ekki hefur verið fjarfest í endurnýjun eða vinnslu á nýjum slóðum.

  Heimferðin hefst síðdegis með flugi til Boston og þaðan heim í kvöld.

  Látið er í veðri vaka, að nýtt líf hafi færst í kosningabaráttu Johns McCains og fleira ungt fólk lýsi yfir stuðningi við hann af ótta við skattahækkanastefnu Baracks Obama.

   

  Fimmtudagur, 30.10.08. - 30.10.2008 20:28

  Í morgun flutti ég fyrirlestur á málþingi Center for Strategic and International Studies (CSIS) hér í Washington DC en málþingið er haldið undir heitinu: Transatlantic Energy Forum og flutti ég fyrirlesturinn undir dagskrárliðnum: The Melting Arctic: Competition or Cooperation? Sherri Goodman, ráðgjafi hjá Center for Naval Analysis (CNA), kynnti bandarísk sjónarmið um þetta málefni.

  Athygli á auðlindanýtingu og siglingum á og við Norðurheimskautið vex jafnt og þétt. Þess er beðið, að forseti Bandaríkjanna kynni nýja heimskautastefnu en sú, sem nú er fylgt, er löngu úrelt. Er talið hugsanlegt að þessi stefna verði kynnt fyrir forsetaskiptin í janúar 2009. 

  Scott Borgerson, frá Council on Foreign Relations, flutti einnig erindi á málþinginu, en hann hefur hvatt eindregið til þess að Bandaríkjastjórn láti meira að sér kveða við Norðurheimskautið og ritaði um það grein í Foreign Affairs, fyrr á árinu, eins og ég hef sagt frá hér á síðunni.

  Hinn 9. október sl. samþykkti þing Evrópusambandsins með 597 atkvæðum gegn 23 en 41 sat hjá, að skora á framkvæmdastjórn ESB að tryggja sér sæti áheyrnarfulltrúa hjá Norðurheimskautsráðinu. Framkvæmdatjórnin birtir líklega fyrir áramót stefnu í sína í heimskautamálum. Erfitt er að sjá rök fyrir því, að ESB eigi erindi inn á Norðurheimskautið.

  Það liggur í loftinu hér í Washington, að Barack Obama verði næsti forseti Bandaríkjanna og greinilegt er, að ýmsir, sem nú starfa hjá hugveitum á borð við CSIS og CNA, eru að búa sig undir að komast til starfa hjá nýjum forseta og ríkisstjórn.

  Það bendir ekki til þess, að áhuginn á, að Ísland verði tafarlaust aðili að Evrópusambandinu, risti djúpt, þegar ný Gallup-könnun sýnir vinstri/græn bæta við sig mestu fylgi og Samfylkinguna dala. Sjálfstæðisflokkurinn lendir í þriðja sæti í könnuninni og verður Kolbrúnu Bergþórsdóttur og fleirum þar með að þeirri ósk sinni, að flokknum sé refsað fyrir hrun fjármálakerfisins.

  Pólitíska staðan er flókin og verður spennandi að vinna úr henni. Ég tel til dæmis nauðsynlegt að ræða utanríkismál af meiri þunga og alvöru en gert hefur verið undanfarin ár, þegar allt hefur verið einfaldað í kringum útrás og ESB, ekki-ESB.

  Deilt er um of mikinn hlut RÚV á auglýsingamarkaði. Hvað með hugmyndamarkaðinn? Til dæmis Evrópusambandssinnana Hallgrím Thorsteinsson og Egil Helgason? Hvað segir Páll Magnússon um þá?

   

   

  Miðvikudagur, 29.10.08. - 29.10.2008 14:38

  Það er sólbjart en dálitið kaldur gustur hér í Washingon. Síðar í dag hitti ég Thad Allen, yfirmann bandarísku strandgæslunnar, og rita undir yfirlýsingu með honum um samstarf strandgæslunnar og Landhelgisgæslu Íslands. Þá ræði ég einnig við embættismenn bandaríska utanríkisráðuneytisins.

  Ég sé að menn eru að æsa sig á netinu vegna greinar, sem ég ritaði í Morgunblaðið í dag um breytta stöðu í evruumræðunni eftir fall bankanna. Ég undrast enn, hver grunnt er á persónulegu skítkasti hjá þeim, sem tala eins og aðild að evrurlandi og Evrópusambandinu sé okkar eina bjargráð. Hvers vegna ræða þessir menn ekki málin á jákvæðum og málefnalegum nótum í stað þess að setja sig á háan hest og tala niður til þeirra, sem vilja viðra önnur sjónarmið? Breytir það í raun engu fyrir krónuna, að alþjóðaumsvif bankanna heyra sögunni til? Hvað með jöklabréfin? Hver verða örlög þeirra? Ef háum vöxtum var haldið uppi til að þjóna jöklabréfunum, hver er nú staðan að því leyti?

  Ég hef oft áður sagt og endurtek enn, að í augum margra er engin umræða um Evrópumál, nema hún byggist á blindri ósk um aðild að Evrópusambandinu.

  Þegar rætt er viðmælendur hér í Washington og hugað að hinum áratugalöngu tengslum Íslands og Bandaríkjanna, svo að ekki sé minnst á mikilvægi Bandaríkjamarkaðar, flug, ferðaþjónustu og áhuga bandarískra fyrirtækja á að fjárfesta á Íslandi, er sú spurning áleitinn, hvort Íslendingar yrðu betur settir, ef þeir yrðu að leggja lykkju á leið sína til Brussel, til að rækta samband sitt við Bandaríkin - ég tel, að svo sé ekki. Tvíhliða samskipti við Bandaríkin ber að rækta áfram án Evrópusambandsins sem milliliðs.

  Þriðjudagur, 28.10.08. - 28.10.2008 14:04

  Tveir þingmenn spurðu mig um hið sama í óundirbúnum fyrirspurnum á alþingi, það er dóm hæstaréttar frá 23. október um bann við áfengisauglýsingum. Ég taldi dóminn mikilvæga túlkun á 20. gr. áfengislaga og hann mundi auðvelda ákæurvaldinu að bregðast við gegn þessum auglýsingum.

  Klukkan 17.05 flaug ég af stað til New York og þaðan til Washington DC, þar var ég kominn inn á hótel rétt fyrir 01.00 að staðartíma eða 05.00 að íslenskum tíma. Nú er það af, sem áður var, að flogið var til Baltimore vegna funda í Washington og komið þangað um kvöldmatarleyti að tíma heimamanna.

  Mánudagur, 27.10.08. - 27.10.2008 21:56

  Við Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, vorum viðmælendur Jóhönnu Vilhjálmsdóttur í Kastljósi í kvöld. Umræðurnar voru dálítið skrýtnar að því leyti, að undir okkur voru bornar deilur Björgólfs Thors Björgólfssonar og Seðlabanka Íslands, sem eiga rætur að rekja til samtals við Björgólf Thor, sem verið var að flytja í Kompási Stöðvar 2 og við Guðni sátum í Kastljósi. Að vísu hafði hluti Kompáss verið fluttur áður og þar kom fram, að hefði Landsbanki Íslands (LÍ) fengið 200 milljón punda fyrirgreiðslu í seðlabankanum fyrir hádegi mánudaginn 6. október, hefði það komið í veg fyrir, að ábyrgðir vegna IceSave reikninga féllu á Íslendinga vegna þess, að fjármunirnir hefðu tryggt flýtiafgreiðslu breska fjármálaeftirlitsins á því, að IceSave yrði sjálfstæð eining en ekki hluti LÍ.. Seðlabankinn hefur sagt, að LÍ hafi óskað eftir „fyrirgreiðslu að fjárhæð 200 milljónir punda frá Seðlabanka Íslands vegna útstreymis sem orðið hefði í útibúi þeirra í Bretlandi auk 53 milljóna punda láns vegna dótturfélags Landsbankans í Lundúnum.“ Hins vegar hafi ekki verið minnst á flýtiafgreiðslu breska fjármálareftirlitsins í þessu samhengi. Björgólfur Thor hefur mótmælt þessari yfirlýsingu seðlabankans.

  Í Kastljósinu benti ég á, að ekki væri deilt um, að LÍ hefði farið fram á 200 milljónir punda, hitt væri ágreiningsefni, hvort vitað hefði verið, að fyrirgreiðslan myndi greiða fyrir málum vegna IceSave hjá breska fjármálaeftirlitinu. Ég hefði ekki neina vitneskju um það og gæti því ekki tekið aftsöðu til þess þáttar. Vorum við Guðni sammála um nauðsyn óhlutdrægrar úttektar með aðkomu erlendra aðila. Þegar ég benti á, að slík úttekt kynni að kosta hundruð milljóna, sagði Guðni, að ekki ætti að hugsa um kostnað í þessu sambandi og samsinnti ég því.

  Oftar en einu sinni hef ég vakið máls á því hér á síðunni, að ég var ósammála þeirri ákvörðun Matthíasar Johannessens ritstjóra Morgunblaðsins, að efna ekki til uppgjörs við kommúnista og kommúnismann á síðum blaðsins. Matthías vildi sýna þeim blíðu, sem áttu um sárt að binda og ekki setja salt í sár þeirra.

   

  Lesa meira

  Sunnudagur, 26. 10. 08. - 26.10.2008 18:10

  Í sundi snemma í morgun hitti ég glöggan mann, sem sagðist hafa séð þau feðginin Kolfinnu og Jón Baldvin Hannibalsson við mótmælaiðju sína við ráðherrabústaðinn í sjónvarpsstöðinni BBC World þá fyrr um morguninn. Þykja það tíðindi víðar en hér, að Jón Baldvin hrópi á nýja tíma á þessum tröppum. Vegna skorts á myndefni til að setja með fréttum héðan, áttu fámenn mótmælin og fánabrennur greiða leið á erlendan fjölmiðlamarkað, þótt myndirnar gefi síður en svo rétta mynd af því, hvernig íslenska þjóðin bregst við erfiðleikum sínum.

  Á mbl.is má lesa síðdegis í dag: „Mér finnst okkar norrænu kollegar vera fyrst að átta sig núna hvað þetta er alvarleg aðstaða. Hvað þetta geti haft mikið í för með sér fyrir íslenska þjóð. Og mikilvægi þess að finna heildstæða lausn á þessu máli,“ segir Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, sem í dag ávarpaði ráðstefnu þar sem fjallað var um norrænu víddina í Evrópusamstarfinu.“ 

  Í lok fréttarinnar segir: „Diana Wallis, varaforseti Evrópuþingsins, var viðstödd ráðstefnuna og að sögn Árna Páls styður hún ekki aðgerðir bresku ríkisstjórnarinnar.“

  Allt lofar þetta góðu um framgang íslensks málstaðar á erlendum vettvangi og hughreystandi að fá þessar fréttir um að nú sé Árni Páll að koma áhrifafólki í skilning um stöðu okkar. Hætta er þó á því, að áhugi erlendra fjölmiðla sé meiri á tröppuhrópum Jóns Baldvins í loðfeldinum en upplýsandi ræðum Árna Páls.

  Áhyggjur vekur, hve erlendar fréttir fá lítið rými í íslenskum fjölmiðlum. Metnaðarskortur á því sviði leggst eins og farg á fjölmiðlun auk þess sem hún þrengir sjónarhorn, þegar alþjóðastraumar skipta þjóðina meiru en nokkru sinni fyrr.

  Laugardagur, 25.10.08. - 25.10.2008 19:31

  Klukkan 10.00 var ég í Grensáskirkju, þar sem kirkjuþing var sett við sérstaklega hátíðlega athöfn, enda var minnst 50 ára afmæli þess. Var ég meðal þeirra, sem fluttu ávörp og hér má lesa framlag mitt.

  Fleirum en mér hefur þótt skrýtið að sjá Jón Baldvin Hannibalsson flytja æsingaávarp á tröppum ráðherrabústaðarins í dag en um það fjalla ég meðal annars í pistli, sem ég setti á vefsíðu mína. Hér er nákvæmasta lýsingin á mótmælafundinum við ráðherrabústaðinn.

  es. Egill Helgason virðist túlka pistil minn þannig að ég sé með spuna gegn EES-samningnum útaf IceSave-reikningum, af því að ég segi Jón Baldvin hafa hreykt sér af því að hafa breytt Íslandi í frelsisátt með því að draga okkur sjálfstæðismenn til stuðnings við hann. Ég tek undir með þeim, sem telja þetta í besta falli langsótt hjá Agli ef ekki ofurviðkvæmni fyrir öllu, sem varðar samskipti við Evrópusambandið.

  Hitt er of snemmt að segja, hvernig Evrulandið kemur frá bankakreppunni - veikleiki þess felst í því, að ekkert fjárveitingavald tengist seðlabanka Evrópu og erfitt er að stilla saman ákvarðanir hans og gífurlegt fjárstreymi úr ríkissjóðum einstakra Evrulanda til að halda eigin bönkum á floti. Líklegt er, að öll Maastricht-skilyrði, sem áttu að koma í stað sameiginlegs fjárveitingavalds, fjúki út í veður og vind í þessu fárviðri í fjármálaheiminum. Hvað gera evrubændur þá?

  Föstudagur, 24.10.08. - 24.10.2008 20:38

  Í dag var tilkynnt, að sameiginleg niðurstaða hefði náðst í viðræðum fulltrúa ríkisstjórnarinnar og alþjóðagjaldeyrissjóðsins IMF um hvernig unnt yrði að standa að því, að Ísland fengi tveggja milljarða dollara lán frá sjóðnum. Ríkisstjórnin kom saman klukkan 14.00 í ráðherrabústaðnum og samþykkti tillögu forsætisráðherra um þetta efni. Áður hafði niðurstaðan verið rædd við aðila vinnumarkaðarins, stjórnarandstöðu og í utanríkismálanefnd.

  Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, kynntu niðurstöðuna á blaðamannafundi eftir ríkisstjórnarfundinn og klukkan 15.00 kynntu fulltrúar IMF hana í húsakynnum ríkissáttasemjara, en Ásmundur Stefánsson, fráfarandi ríkissáttasemjari, er forsætisráðherra til aðstoðar við samhæfingu og stjórn viðræðna.

  Niðurstaðan ætti að auðvelda samstarf við ríkisstjórnir, sem hafa lýst áhuga á að leggja okkur lið við að komast út úr gjaldeyrisvandanum. Með þessu er stigið markvert skref út úr bankahruninu en ljóst er, að ferðin öll verður erfið og sársaukafull fyrir marga.

  Þingflokkur sjálfstæðismanna veitti Geir H. Haarde umboð fyrr í vikunni til að ljúka málum gagnvart IMF með fyrirvara um, að lyktirnar leiddu ekki til samþykkis á afarkostum Breta. Þingflokkurinn kom saman klukkan 16.00 og þar voru atburðir dagsins ræddir en Ásmundur Stefánsson sat hluta fundarins.

  Víðar en hér á landi ræða menn nauðsyn þess að endurskoða reglur um fjármálakerfi til að tryggja eftirlit með því betur. Fyrrverandi yfirmaður breska fjármálaeftirlitsins telur, að breska ríkisstjórnin hafi beitt Íslendinga rangindum, eins og kemur fram í The Daily Telegraph.

   

   

   

   

  Lesa meira

  Fimmtudagur, 23. 10. 08. - 23.10.2008 22:36

  Nú hefur samtal þeirra Árna M. Mathiesens, fjármálaráðherra, og Alistair Darlings, fjármálaráðherra Breta, í síma að morgni þriðjudagsins 7. október sl. verið birt, bæði í Kastljósi og á mbl.is.

  Það var tímabær ráðstöfun að birta þetta samtal opinberlega og á íslensku, svo að allri þjóðinni mætti verða ljóst, hvað fór á milli fjármálaráðherranna. Að sjálfsögðu er ekkert í þessu samtali, sem gaf bresku ríkisstjórninni tilefni til hinna harkalegu aðgerða, sem hún greip til gagnvart íslenskum fyrirtækjum í Bretlandi.

  Þá er einnig með ólíkindum, hvernig Darling kaus að túlka þetta samtal í útvarpsviðtali í Bretlandi að morgni miðvikudags 8. október.

  Óvildarorð í garð Árna vegna þessa samtals eiga engan rétt á sér, nema menn vilji afflytja það, sem hann sagði í annarlegum tilgangi. Raunar er erfitt að sjá, hvaða öðrum tilgangi það þjónar en að spilla stöðu Íslands í hinni alvarlegu deilu við Bretland um IceSave-reikningana.

  Alistair Darling hringdi, þegar ríksstjórn sat á fundi í stjórnarráðshúsinu, og gekk Árni út af fundinum til samtalsins og skýrði okkur meðráðherrum sínum frá orðaskiptum, strax að þeim loknum. Ekki hvarflaði að neinum okkar, að þarna hefðu fallið orð, sem yrðu bresku ríkisstjórninni tilefni til að setja íslensk fyrirtæki á hryðjuverkalista.

  Miðvikudagur, 22. 10. 08. - 22.10.2008 20:25

  Framganga Sigmars Guðmundssonar í Kastljósi í kvöld, þegar Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sat fyrir svörum hjá honum, var ekki til þess fallin að auðvelda neinum að átta sig á hinni alvarlegu stöðu þjóðarbúsins og skynsamlegustu leiðum út úr henni.

  Ég hef oft áður vitnað til þess, að helsta verkefni stjórnmálamanna sé að bregðast við atburðum, eftir því sem atburðirnir eru stærri og alvarlegri þeim mun meira reynir á þá, sem leiða þjóðir. Undir forystu Geirs H. Haarde hefur ríkisstjórnin brugðist við hruni íslenska bankakerfisins með töku dramatískra ákvarðana til að forða þjóðarbúinu frá því að verða hruninu að bráð.

  Nú skiptir mestu að gefa sér þann tíma sem þarf til að átta sig á stöðunni og við það hafa stjórnvöld notið samstarfs við alþjóðagjaldeyrissjóðinn, IMF, og nú fleiri erlenda sérfræðinga. Geir sagði í samtalinu við Sigmar, að þessir menn væru hér til að leggja okkur lið en ekki til að skapa ný vandamál.

  Þegar fjármálakerfi riðar til falls, segir sig sjálft, að tjónið verður mest, þar sem yfirbyggingin er hæst og undirstaðan minnst eins og hér. Umsvif bankanna voru alltof mikil með hliðsjón af íslenska hagkerfinu. Nú er sagt, að þetta hefðu stjórnmálamenn og eftirlitsstofnanir átt að sjá og grípa í taumana. Hvað með alþjóðleg matsfyrirtæki? Fjölmiðlamenn? Eða bankamennina sjálfa? Árið 2006 kom alvarleg viðvörun og mönnum tókst að vinna sig úr þeim vanda, án þess að sjá nægilega að sér - síðan fór fjármálaheimurinn allur á annan endann.

  Sagan verður skoðuð og kallað til ábyrgðar í samræmi við niðurstöðu þeirrar athugunar. Hún breytir hins vegar ekki nauðsyn þess, að rétt sé brugðist við núna. Undir forystu Geirs H. Haarde er það gert með samstöðu innan ríkisstjórnar.

  Við upphaf bankahrunsins hér á landi var látið að því liggja, að Seðlabanki Íslands hefði spillt fyrir Glitni hf. með því að fá lán frá Bayerische Landes Bank (BLB). Nú hefur Erwin Huber, fjármálaráðherra Bæjaralands, sagt af sér, þar sem tap BLB er meira en talið var og bankinn hefur farið fram á 5,4 milljarði evra úr bankabjarglánasjóði þýska ríkisins og talið er, að BLB þurfi einn milljarð evra að auki til að styrkja eiginfjárstöðuna. BLB er fyrstur þýskra banka til að leita á náðir bankabjarglánasjóðsins. Vandræði BLB eru rakin til gjaldþrots Lehman Brothers í Bandaríkjunum.

  Þriðjudagur, 21.10.08. - 21.10.2008 19:05

  Ríkisstjórnin kom saman í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í morgun, en þar höfum við hist til fundar oftar en áður síðustu daga. Aðstaða til ríkisstjórnafunda er góð í húsinu, herbergið bjart og hlýlegt. Þar sem fundað er, var á sínum tíma svefnherbergií. Í stofunni á neðri hæðinni hefur verið gerð aðstaða til að efna til funda með fréttamönnum, en þeir bíða gjarnan fyrir utan bústaðinn og sitja fyrir ráðherrum, þegar þeir koma út. Í bjartviðrinu og kaldri stillunni í dag hafði þeim verið borið kaffi út á stétt.

  Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, sat þennan fund ríkisstjórnarinnar, en hún kom til landsins frá New York laugardaginn 18. október eftir nokkurra vikna dvöl ytra. Eftir aðsvif á fundi í tengslum við framboð Íslands í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna gekk hún undir uppskurð vegna æxlis í höfði. Er fagnaðarefni, hve vel aðgerðin heppnaðist og Ingibjörg Sólrún hafi snúið að nýju til starfa.

  Síðdegis hittist þingflokkur sjálfstæðismanna á fundi í alþingishúsinu og ræddi stöðu mála á löngum fundi. Mikil samstaða er meðal þingmanna flokksins til allra meginmála miðað við stöðu þeirra, eins og hún var kynnt á fundinum.

  Mánudagur, 20. 10. 08. - 20.10.2008 20:04

  Ég hef sett inn á síðuna útskrift af samtali okkar Sigmundar Ernis Rúnarssonar á Stöð 2 í gærkvöldi.

  Í The New York Times birtist í dag leiðari undir fyrirsögninni Collateral Damage, þar er fjallað um hið afleidda og sameiginlega tjón, sem orðið hefur, vegna þess að ríkustu þjóðir heims, sem hafa verið trilljónum dollara til að bjarga eigin fjármálakerfum. hafa ekki varið milljörðum dollara til að bjarga fátækari þjóðum, sem ollu ekki vandræðunum en urðu engu að síður fórnalömb þeirra.

  Bent er á, að lönd í Mið- og Austur-Evrópu, þar sem vestrænir bankar ráði mestu í fjármálalífinu, séu sérstaklega illa sett. Úkraína hafi beðið Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um 14 milljarða dollara og Ungverjaland hafi fengið 5 milljarði dollara frá sjóðnum.

  Eftir að hafa rakið vanda ýmissa þróunarþjóða, segir leiðarahöfundurinn og nú birti ég enska textann:

  „The world's richest countries have exhibited enormous myopia (skammsýni) throughout the crisis - originally scurrying for ad hoc individual "solutions" that worsened the collective mess. Less than two weeks ago, Washingon and Brussels allowed Iceland to go bust.“

  Ég hef notað orðið skammsýni um ákvarðanir Bandaríkjastjórnar í varnar- og öryggismálum hér á N-Atlantshafi. Nú notar The New York Times það orð um stefnu stjórnvalda í Washington og Evrópusambandsins í Brussel gagnvart Íslandi, sem hafi verið „leyft“ að fara á hausinn!

   

  Sunnudagur, 19. 10. 08. - 19.10.2008 20:57

  Sat fyrir svörum hjá Sigmundi Erni í þætti hans Mannamáli á stöð 2 klukkan 19.10. Við ræddum stöðu mála eftir bankahrunið, rannsóknir á vegum ríkissaksóknara, stjórnarsamstarfið og Rússalánið, svo að eitthvað sé nefnt.

  Sigmundur Ernir er vel undirbúinn, þegar hann tekur viðtal sem þetta. Spurningar hans eru beinskeyttar og hann virðist ekki hafa að markmiði að slá sér upp á kostnað viðmælenda sinna.

  Um þessa helgi beinist athygli fjölmiðlamanna að samskiptum okkar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og hvaða ákvarðanir verða teknar með vísan til aðildar okkar að sjóðnum og vilja hans til að lána þeim þjóðum, sem glíma við vanda vegna bankakreppunnar.

  Eins og ég vík að pistli, sem ég ritaði á vefsíðu mína í dag, er hafið ferli í átt til nýrrar alþjóðastofnunar um fjármálafyrirtæki og starfsemi þeirra. Í því efni hefur verið bent á, að til sé alþjóðastofnun um heilbrigðismál (WHO), matvæli (FAO), viðskipti (WTO) og menningarmál (UNESCO) en engin um fjármálastarfsemi. OECD, efnahags- og framfarastofnunin, hefur lítið komið við sögu í bankahremmingunum. Alþjóðabankinn (World Bank) og alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) gegna sínu hlutverki, án þess að hafa eftirlit með fjármálastofnunum. BIS, Bank of International Settlement, í Basel í Sviss er seðlabanki seðlabankanna - yfir honum hvílir einskonar dularhjúpur eins og fjármálakerfinu öllu. Alþjóðasamstarf í nýrri mynd til að auka gegnsæi og öryggi í rekstri fjármálafyrirtækja yrði til þess að endurvekja traust á þessari mikilvægu atvinnustarfsemi.

  Laugardagur, 18. 10. 08. - 18.10.2008 13:11

  Klukkan 16.00 hélt Antonin Scalia, hæstaréttardómari frá Bandaríkjunum, fyrirlestur á hátíðarmálþingi Háskóla Íslands í hátíðarsal skólans í tilefni af 100 ára afmæli lagakennslu. Salurinn var þéttsetinn og gerður góður rómur að máli Scalia, enda er hann einstakur fyrirlesari.

  Scalia er eindreginn talsmaður þess, að dómarar haldi sig við bókstaf laganna í dómum en fari ekki inn á svið löggjafans. Að hans mati er þróunin til þeirrar áttar og nefndi hann til marks um það bæði dóma frá Bandaríkjunum og mannréttindadómstóli Evrópu í Strassborg. Segir hann, að með vísan til mannréttinda telji dómarar sig geta gengið mun lengra en góðu hófi gegni í niðurstöðum sínum. Það sé ekki þeirra hlutverk að setja lög heldur kjörinna fulltrúa á þjóðþingum.

   

  Föstudagur, 17. 10. 08. - 17.10.2008 18:50

  Lagadeild Háskóla Íslands hélt hátíðarmálþing í dag í tilefni af 100 ára afmæli lagakennslu í landinu. Ég flutti þar ávarp og ræddi meðal annars vanda okkar vegna bankavandans og hvernig ég teldi hann sneri að lögfræðingum.

  Síðdegis ræddi ég málið við þá Þorgeir og Kristófer í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni.

  Í leiðara Morgunblaðsins í dag er tekið þau sjónarmið, sem ég setti fram í þingræðu sl. miðvikudag.

  Fréttir bárust í dag um, að Ísland hefði ekki náð kjöri í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Tyrkir fengu 151 atkv., Austurríki 133 atkv. og 87 atkv. Ég taldi á sínum tíma rétt, að tekið yrði þátt í þessari kosningabaráttu, því að það væri eins og að þjálfa fyrir Ólympíuleikana. Væntanlega verður skrifuð skýrsla um málið, svo að unnt sé að draga af því lærdóm.

  Sérfræðingar Europol - Evrópulögreglunnar - sögðu á blaðamannafundi, að afmetamínverksmiðjan, sem lögregla lokaði í gær, sé hin fullkomnasta, sem þeir hefðu séð, og framleiðslan hefði áreiðanlega verið ætluð til útflutnings.

  Á vefsíðu BBC News er rætt um fjármálavanda Ungverja og beiðni þeirra um aðstoð hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þeir telja illkvittni sé þeim líkt við Íslendinga eins og hér má sjá:

  „Portfolio quality is deteriorating and will continue to deteriorate but banks are working with a fairly significant profit margin which provides a nice buffer,“ Peter Felcsuti, chairman of the Hungarian Banking Association, said in an interview to Reuters.

  Mr Felcsuti rejected the idea that Hungary would see the same fate as Iceland, whose government seized control of all three of the nation's leading banks recently.

  „A comparison with Iceland is unjust and possibly even malicious. There are few if any similarities," said Mr Felcsuti.“

  Fimmtudagur, 16. 10. 08. - 16.10.2008 19:27

  Í morgun flutti ég framsöguræður fyrir tveimur frumvörpum á alþingi, það er breytingu á hegningarlögum og lögum um kirkjugarða o. fl.

  Frumvörpin voru til meðferðar á síðasta þingi. Allsherjarnefnd hafði afgreitt hegningarlagafrumvarpið frá sér en það komst ekki til lokaafgreiðslu, þar sem Atli Gíslason, þingmaður vinstri/grænna, kaus að hengja gælumál sín, sem ekki höfðu hlotið meðferð eða afgreiðslu í allsherjarnefnd, utan á frumvarp mitt og olli þar með ágreiningi um afgreiðslu þess við atkvæðagreiðslu.

  Þetta er dæmalaus og óþingleg aðferð við að reyna að koma málum fram, án þess að um þau sé rætt til hlítar í þingnefnd. Atli var við sama heygarðshornið í ræðum sínum í morgun. Hann talaði eins og hryðjuverkahugtakið væri of óljóst samkvæmt frumvarpinu, þótt það snúist einmitt um, að skýra hugtakið betur, en í hinu orðinu sagði hann, að líta bæri á nauðgun og heimilsofbeldi sem hryðjuverk.

  Í frumvarpinu er meðal annars veitt heimild til upptöku eigna, þegar augljóst er, að viðkomandi getur ekki fært sönnur á, hvernig hann aflaði tekna til að kaupa viðkomandi eignir. Þessu ákvæði mætti til dæmis beita gegn þeim útlendingum, sem hér eru, stunda enga launaða vinnu, en aka um á dýrum bílum og búa ríkulega. 

  Þegar Alti Gíslason gengur fram, sem sérstakur málsvari þess, að komið sé til móts við lögreglu og henni auðvelduð störf við nýjar og erfiðar aðstæður, ættu menn að minnast þess, að hann misnotar þingsköp gegn réttarbótum til að auðvelda baráttu gegn skipulagðri glæpastarfsemi og hryðjuverkum.

  Lögregla á höfuðborgarsvæðinu og tollgæsla sýndu í dag, hve þessar stofnanir og starfsmenn þeirra eru megnugir, þegar lokað var amfetamínverksmiðju í Hafnarfirði eftir margra mánaða eftirlit og eftirfylgni. Í frásögn lögreglu af uppljóstrun þessa máls má ráða, að framleiðslugeta verksmiðjunnar hafi verið svo mikil, að hún gæti hafa átt að sinna útflutningi.

  Birgir Ármannsson, formaður allsherjarnefndar, benti einmitt á það í þingumræðunum í morgun, að við setningu laga hér um hryðjuverk yrði að hafa í huga, að hér gætu menn leitað skjóls, ef slík lög væru ekki, til að búa sig undir hryðjuverk í öðrum löndum. Íslenska hryðjuverkalöggjöfin tekur mið af alþjóðlegu hættumati og alþjóðlegum skuldbindingum, að ætla að fella nauðgun og heimilisofbeldi undir hana er í ætt við þá ákvörðun Gordons Browns að beita breskum hryðjuverkalögum gegn Landsbanka Íslands í Bretlandi.

  Miðvikudagur, 15. 10. 08. - 15.10.2008 18:43

  Í dag flutti ég ræðu í umræðum á alþingi um stöðu bankanna. Á ruv.is er sagt frá henni á þennan veg:

  „Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, boðaði sérstaka rannsókn á fjármálakreppunni og falli þriggja stærstu banka landsins á Alþingi í dag. Til stendur að stofna sérstakt rannsóknarembætti til að skoða kærur um meinta refsiverða verknaði sem tengjast falli bankanna.

  Markmiðið er að kanna, hvort tilefni sé til lögreglurannsóknar á grundvelli laga um meðferð opinberra mála. Skýrsla mun liggja fyrir eigi síðar en í árslok 2008. Á grunni hennar verður tekin ákvörðun um saksókn.

  Dómsmálaráðherra hefur fundað með ríkissaksóknara og óskað eftir því bréflega að embættið afli staðreynda um starfsemi bankanna þriggja, útibú þeirra og fyrirtækja í þeirra eigu, tilfærslu eigna, einkum á síðustu mánuðum starfseminnar. Markmiðið er að kanna hvort tilefni sé til lögreglurannsókna.

  Skýrsla með niðurstöðum rannsóknarinnar á að liggja fyrir í árslok. Á grunni hennar verður tekin ákvörðun um saksókn. Ríkissaksóknari verður í samstarfi við Ríkisendurskoðun, Fjármálaeftirlitið og skattrannsóknarstjóra. Ráða þarf sérstaka starfsmenn til að vinna skýrsluna og því þarf að tryggja verkinu fjármagn, sem Björn hét á Alþingi að gera. Hann sagði jafnframt að unnið væri að lagafrumvarpi í dómsmálaráðuneytinu um umgjörð þessarar rannsóknar.

  Björn segir að stofnað verið til tímabundins rannsóknarembættis sem taki við rannsókn á kærum um meinta refsiverða verknaði sem sprottnir séu af eða tengist falli bankanna. Ráðinn verði sérstakur forstöðumaður þessa embættis sem starfi í nánu samstarfi við hverja þá opinberu stofnun, innanlands eða utan, sem geti lagt lið við að upplýsa mál og greiða fyrir rannsókn þeirra. Embættið starfi undir forræði ríkissaksóknara sem, gæti ásamt forstöðumanni að ákvarða hvaða rannsóknarverkefni falli til þess, sagði Björn á Alþingi í dag.

  Björn sagði mikilvægt að hrapa ekki að ályktunum, gefa sér ekki fyrirfram að lög hafi verið brotin. Hann sagði jafnframt að eðlilegt væri að velta fyrir sér að koma á fót nefnd með fulltrúum allra þingflokka sem hefði eftirlit með rannsókninni.“

  Ég feitletra tvær setningar í þessari frétt, því að þær eiga ekki við rök að styðjast. Í bréfi mínu til ríkissaksóknara er ekki að finna neina ósk til hans heldur staðfesti ég, að ríkissaksóknari hafi tjáð mér, að hann ætlaði að hafa forystu um gerð skýrslu. Það þarf ekki sérstök lög til að semja þessa skýrslu, hins vegar ætla ég að leggja fram frumvarp um það, hvernig staðið verði að rannsókn á kærum um meinta refisverða verknaði, sem sprottnir séu af eða tengjast falli bankanna.

  Þriðjudagur, 14. 10. 08. - 14.10.2008 23:08

  Kammersveit Reykjavíkur efndi til fyrstu tónleika á vetrardagskránni í kvöld, voru þeir í Þjóðmenningarhúsinu með verkum eftir Smetana og Dvorcak, tvo Tékka, enda eru tónleikar vetrarins helgaðir tékkneskri tónlist.

  Afleiðingar þess, að ríkið hefur tekið stærstu bankana þrjá til sín og tryggt innlend umsvif þeirra, eru að skýrast. Eins og við var að búast, tekur einhvern tíma að skapa traust á ný í gjaldeyrisviðskiptum.

  Ég verð var við mikla reiði í garð Breta, enda var framkoma Gordons Browns í okkar garð með ólíkindum. Heima fyrir í Bretlandi er spuninn á þann veg, að hann sé með því að þjóðnýta bankana fyrirmynd annarra, meira að segja Bandaríkjamenn feti í fótspor hans. Hvað sem öðru líður er líklegt, að hann afli sér stundarvinsælda með ruddaskap í okkar garð og íhlutunarstefnu gagnvart breskum bönkum. Hve lengi þetta tvennt dugar til að fleyta honum áfram, kemur í ljós.

  Í hildarleik eins og þeim, sem nú er háður í fjármálaheiminum, kemur í ljós, hverjir hafa þrek til að horfast í augu við viðfangsefni líðandi stundar og hverjir kjósa frekar að tala um eitthvað allt annað. Tal um eitthvað allt annað skilar engu en getur verið spennandi viðfangsefni, sérstaklega fyrir fjölmiðlamenn, sem forðast flókin úrlausnarefni eða hafa ekki burði til að skilja þau og skýra fyrir öðrum, sem er jú meginhlutverk fjölmiðla.

  Í gær vitnaði ég hér í dagbókinni í dr. Gunna, af því að ég safna ummælum þeirra, sem brjótast undan ritstjórnarvaldi eigenda sinna. Dr. Gunni kunni ekki að meta, að ég vitnaði í orð hans (skyldi hann hafa fengið skömm í hattinn?). Hann segir í dag:

  „Sjálfur Björn Bjarnason vitnar í lítlfjöllegan mig v/ játninga minna um ósýnilega sjálfsritskoðunarvaldið. Þetta finnst honum spennandi karlinum, ennþá hjakkandi í gömlum og einskisnýtum hjólförum. Þetta gefur honum kannski von um að heimurinn sé ennþá svart/hvítur en ekki í hommafánalitunum, eins og hann er.“

  Ég játa, að „einskisnýt" hjólför þekki ég ekki og ekki var ég að vitna dr.-inn með fánaliti í huga heldur vegna þess, sem hann sagði. Hann hlýtur að standa við það - eða hvað? 

   

   

   

  Mánudagur, 13.10.08. - 13.10.2008 19:43

  Í SpiegelOnline er rætt um skjálfandi víkinga á Íslandi vegna yfirvofandi þjóðargjaldþrots og sagt meðal annars:

  „Iceland's economic miracle was wrecked by a new generation of financial market jugglers who took advantage of the new spirit of optimism in the country's burgeoning financial center. The sky seemed the limit after the country's banks were privatized just 10 years ago.“

  Dr. Gunni gerir upp við ýmsa viðskiptajöfra á vefsíðu sinni í dag og þar má meðal annars lesa þetta:

  „Sjáiði hvað ég er kræfur? Eitt af því fjölmarga góða við hrunið er að maður er ekki lengur HRÆDDUR við þetta lið. Hvernig er hægt að vera hræddur við lið með skít upp á bak sem búið er að koma landinu á kúpuna? Auðvitað þorði maður ekki að tala hreint út eða segja eitthvað því þetta lið átti ALLT. Ég held að hvað sem fólk reyni að stinga hausnum í sandinn með að eignarhald hafi engu skipt þá sé það einfaldlega rangt. Hin ósýnilega hönd sjálfsritskoðunar hvíldi alltaf á lyklaborðinu. Allavega mínu.“

  Fyrir utan að skrifa á vefsíðu sína er dr. Gunni meðal annars fastur penni á (Baugs?) Fréttablaðinu. Af ofangreindri tilvitnun má ráða, að eigendavaldið hefur haft veruleg áhrif á það, hvernig dr. Gunni lék á lyklaborðið.

  Í Berlingske Tidende er í dag sagt frá því, að Dmitri Medvedev, forseti Rússlands, hafi í viðtali við Komsomol Pravda sagt, að Rússar yrðu að eignast fleiri flugvélamóðurskip - þeir eiga nú eitt, Aðmírál Kuzbetsov, og þar um borð var forsetinn, þegar hann lét þessi orð falla. Fylgdist hann með tilraunaskoti á nýrri eldflaug, sem skotið var 11.574 km frá Barentshafi til Kyrrahafs og sló þar öll fyrri met. Eldflaugaskotið var liður í æfingum Rússa til að styrkja kjarnorkuherafla sinn. Medvedev sagði, að Rússa skorti ekki fé til að smíða fleiri flugvélamóðurskip, vandinn væri skortur á nægilega stórum skipasmíðastöðvum. Forsetinn sagði, að fyrir árið 2020 yrðu einnig smíðum fleiri herskip og eldflaugakafbátar.

  Sunnudagur, 12. 10. 08. - 12.10.2008 12:40

  Matthew D'Ancona, ritstjóri The Spectator, ritar um bankakreppuna og stríð Gordons Browns í The Sunday Telegraph í dag og segir meðal annars:

  „The faintly ludicrous confrontation with Iceland and Brown's use of anti-terrorist legislation to seize Icelandic assets reminds me of the Robert De Niro movie Wag The Dog, in which a ruthless spin doctor confects a war with Albania to distract attention from the US President's political troubles "What difference does it make if it's true? If it's a story and it breaks, they're gonna run with it," says De Niro's character.“

  Í The New York Times í dag er sagt frá því, að Íslendingar bjóði pönnukökur með sultu og rjóma í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna á lokadögum baráttunnar um sæti í öryggisráðinu.

  Egill Helgason tók snarpt viðtal við Jón Ásgeir Jóhannesson í Silfri Egils í dag. Egill sætir ámæli fyrir framgöngu sína en ver sig á visir.is með því að hafa reiðst fyrir hönd þjóðarinnar, hvorki meira né minna.

  Þegar horft er á viðtalið, vaknar sú spurning, hvort hafði meiri áhrif á stöðu Baugs, sem riðar nú falls að sögn Jóns Ásgeirs, gjaldþrot Lehman brothers í Bandaríkjunum eða Glitnis. Jón Ásgeir vísaði í þessi gjaldþrot til skiptis í samtalinu. Þá sagðist hann ekki geta sagt, hverjar skuldir Baugs væru, af því að hann vissi ekki, hvert gengi íslensku króunnar væri. Skrýtið, að Egill skyldi ekki biðja Jón Ásgeir að nota aðra mynt til að lýsa skuldastöðunni.

  Á vefsíðunni T24 segir, að Sir Philip Green vilji kaupa eignir Baugs með 240 milljarða króna afslætti.

  Laugardagur, 11. 10. 08. - 11.10.2008 22:05

  Flokksráðs- og formannafundur Sjálfstæðisflokksins var haldinn í dag og að honum loknum hittist þingflokkur sjálfstæðismanna í Valhöll. Hér segi ég frá fundinum.

  Nú skiptir mestu fyrir okkur Íslendinga, að vel sé haldið utan um eignir bankanna í höndum ríkisins. Ekki síst er mikið í húfi varðandi innlánsreikninga í IceSave í Bretlandi og Hollandi og skuldbindingar íslenska ríkisins vegna þeirra - þær munu ráðast af því, hve þungt þessi byrði leggst á okkur íslenska skattgreiðendur.

  Í BBC heimssjónvarpinu var önnur frétt í kvöld, að Sir Philip Green væri að sækjast eftir eignum Baugs. Fréttamaður BBC staddur í Reykjavík sagði, að fyrir menn með góð fjárráð væri unnt að gera góð kaup á Íslandi um þessar mundir. Birt var mynd af Jóni Ásgeiri Jóhannessyni í Baugi og síðan listi yfir eignir Baugs í Bretlandi, sem vektu áhuga manna á borð við Sir Philip (sem var einhvers staðar kallaður Sir Green í íslenskum fjölmiðli).

  BBC sagði einnig frá viðræðum íslenskra og breskra embættismanna um, hvernig ætti að leysa deiluna um IceSave reikningana í Bretlandi. 

    

   

  Föstudagur, 10. 10. 08. - 10.10.2008 17:47

  Ríkisstjórn kom saman klukkan 09.30 og fór yfir stöðu mála. Á fundinum skýrðist enn frekar en áður, að Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, virðist ekki hafa haft réttar upplýsingar í höndum í gær, þegar hann veittist að Íslendingum, lýsti þjóðina vera orðna gjaldþrota eða á hraðri leið þangað, og taldi réttlætanlegt að beita hryðjuverkalögum gegn íslenskum bönkum ef ekki íslenskum fyrirtækjum í Bretlandi.

  Síðdegis hringdi Hollendingur og lýsti, hve illa væri talað um Ísland og Íslendinga í Hollandi. Þar væri gefið í skyn, ef ekki beinlínis sagt, að Landsbanki Íslands hefði opnað netbanka í Hollandi síðastliðið vor, fengið fólk til að leggja þar inn fé til að bæta lausafjárstöðu sína, nú kæmist enginn inn á vefsíðuna, peningarnir væru horfnir úr landi og Landsbanki Íslands horfinn auk allra starfsmanna hans í Hollandi. Þetta væri ófögur lýsing fyrir orðspor Íslands og Íslendinga og gegn henni yrði að snúast.

  Í dag var tilkynnt, að fríblaðið 24 stundir hefði komið út í síðasta sinn og Fréttablaðið og Morgunblaðið hefðu runnið inn í sama útgáfufyrirtæki, Árvakur. Hvar er samkeppniseftirlit? Hér er líka stórt spurt hjá virtum álitsgjafa.

  DV er ekki undir Árvakurshatti - lifir það í samkeppni við nýja risann? Sagt er að feðgarnir, sem ritstýra DV , reki það fyrir svo lítið fé, að hvorki léleg söludreifing né uppsögn áskrifta ógni fjárhagslegum styrk blaðsins. Viðskiptablaðið fékk nýtt útlit í dag. Skyldi sú upplyfting duga til að blaðið lifi, þótt Exista deyi?

  Nú ættu þeir, sem voru miður sín, þegar talað var um Baugsmiðla en ekki Árvakursmiðla, að ná gleði sinni. Það kemur í ljós, hvort skírskotun til eigenda á rétt á sér eftir lestur blaðanna undir hatti Árvakurs.

  Nú þarf ekki lengur að ræða um fréttastofu hljóðvarps ríkisins eða sjónvarps ríkisins, því að kynningin er í upphafi hvers fréttatíma: Fréttastofa ríkisútvarpsins - útvarp er samheiti yfir hljóðvarp og sjónvarp. Þarna eru menn ekki hræddir við að kenna sig við eigandann.

  Fimmtudagur, 09. 10. 08. - 9.10.2008 8:47

  Þingflokkur sjálfstæðismanna kom tvisvar saman til fundar í dag, í hádeginu og síðan að nýju 16.30. Rætt var um framvindu mála og hver ættu að viðbrögð við henni auk þess sem lagt var á ráðin um næstu skref og aðgerðir. Geir H. Haarde, forsætisráðherra, nýtur óskoraðs trausts þingflokksins við úrlausn hinna gífurlega erfiðu viðfangsefna.

  Í atburðarás af þessum toga er erfitt að sjá fyrir, hvað þykir fréttnæmast. Í dag var það afstaða bresku ríkisstjórnarinnar til hinnar íslensku vegna þess, sem Bretar telja óviðunandi framgöngu íslenskra stjórnvalda og banka gagnvart reikningseigendum í Bretlandi.

  Í ljós hefur komið, að sveitarstjórnir um allar Bretlandseyjar hafa lagt fé inn í íslenska banka og þær sæta nú mikilli gagnrýni fyrir að fara svo óvarlega með fé skattgreiðenda. Gordon Brown, forsætisráðherra, leitast við að varpa ábyrgðinni á herðar íslenskra stjórnvalda á sama tíma og hann hallmælir íslensku bönkunum. Bresk stjórnvöld hafa gengið á eignir þeirra í Bretlandi og þar á meðal banka í eigu Kaupþings.

  Hér á landi er sagt, að upptaka breska fjármálaeftirlitsins á banka Kaupþings hafi riðið Kaupþingi að fullu og Sigurður Einarsson, fráfarandi stjórnarformaður Kaupþings, rakti ákvörðun Breta til orða, sem Davíð Oddsson lét falla í Kastljósi að kvöldi þriðjudags 7. október, eins og sjá má á forsíðu Morgunblaðsins í dag.

  Þegar leið á daginn var harka breskra stjórnvalda rakin til „misskilnings“ í samtali Árna M. Mathiesens, fjármálaráðherra, við Alistair Darling, fjármálaráðherra Breta, að morgni þriðjudagsins 7. október, það er áður en Davíð ræddi við Sigmar Guðmundsson í Kastljósi.

  Geir H. Haarde ræddi við Darling í síma í dag og taldi sig hafa komið málinu í sæmilegt, diplómatískt horf, en um svipað leyti fer Gordon Brown fram með ódiplómatískri hörku gagnvart Íslendingum í Sky sjónvarpsstöðinni. Geir hefur skýrt þetta sem sambandsleysi innan bresku ríkisstjórnarinnar.

  Geir mótmælti því harðlega í hádeginu, að Bretar hefðu beitt hryðjuverkalöggjöf til að hrifsa eigur íslensku bankanna. Brown var kannski að svara þeim ummælum á Sky en líklega var hann frekar að beina athygli að Íslendingum til að létta þrýstingi af sér og bresku ríkisstjórninni, enda hefur hún mikið á sinni könnu vegna vandræða breskra banka.

  Í sögulegu ljósi verður þessi flétta í allri þessari dramatísku atburðarás ekki talinn til þess mikilvægasta, sem gerist hjá okkur á líðandi stundu - samskipti Bretlands og Íslands hafa tekið margar dýfur í aldanna rás. Hitt held ég, að komi öllum stjórnmálamönnum á óvart í Bretlandi og hér á landi, hve vel íslensku bankarnir höfðu komið ár sinni fyrir borð í Bretlandi. Að láta sér til hugar koma, að öll þau viðskipti hafi verið á ábyrgð íslenskra skattgreiðenda, er í raun ótrúleg bíræfni.

  Lesa meira

  Miðvikudagur 08. 10. 08. - 8.10.2008 22:19

  Klukkan 13.15 var ég í Háskóla Íslands og flutti fyrirlestur um Schengen-samstarfið hjá meistaranámsnemum Baldurs Þórhallssonar prófessors.

  Ríkisstjórnin kom saman til fundar klukkan 15.00 til að ræða stöðu fjármálakerfisins og viðbrögð innan lands og utan við neyðarlögunum frá því á mánudag og því, sem síðan hefur gerst.

  Alþjóðaviðbrögðin eru nokkuð hörð og ekki síst frá ríkisstjórn Bretlands, sem lýsti hneykslan sinni á því, að ábyrgð á greiðslum af reikningum Icesave banka Landsbanka Íslands í Bretlandi yrði ekki varpað á herðar íslenskra skattgreiðenda.

  Fulltrúar frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eru staddir hér á landi og hafa þeir ráðherrar, sem fara með forystu vegna vanda fjármálakerfisins, það er forsætisráðherra, fjármálaráðherra, iðnaðarráðherra og viðskiptaráðherra, rætt við þá um stöðu mála og næstu skref.

  Klukkan 16.00 hófst fundur í þingflokki sjálfstæðismanna en í upphafi hans fylgdumst við með blaðamannafundi forsætisráðherra og viðskiptaráðherra í Iðnó. Blaðamannafundurinn var tvískiptur, annars vegar á íslensku og hins vegar á ensku fyrir hinn fjölmenna hóp erlendra blaðamanna, sem hingað er kominn.

  Þingflokksfundurinn stóð fram yfir klukkan 19.00.

  Sigurjón Árnason, bankastjóri Landsbanka Íslands, var í Kastljósi og skýrði þróun mála frá sínum bæjardyrum. Hann telur, að bakland íslensku bankanna, það er stærð gjaldeyrisvarasjóðs og innviðir Seðlabanka Íslands, hafi ekki haldist í hendur við vöxt bankakerfisins. Síðan hafi það gerst í fárviðrinu undanfarið, að vestrænar þjóðir hafi ekki lagt okkur nægilegt lið. Sigurjón sagði, að fráleitt væri í þeirri stöðu, sem nú er, væri fráleitt að hverfa frá krónunni.

  Fréttir frá Evrópu sýna, að nú reynir verulega á innviði Evrópusambandsins, þegar hvert ríki leitar eigin leiða til að leysa bankakreppuna. Seðlabanki Evrópu ákveður vexti og peningamagn fyrir 320 milljón íbúa á evrusvæðinu, en hann ræður engu um það, hvernig einstök ríki ráðstafa skattfé almennings - sú ráðstöfun er á valdi einstakra ríkisstjórna og beita þær því valdi af sífellt meiri þunga til að bjarga eigin fjármála- og bankakerfi.

  Þriðjudagur, 07. 10. 08. - 7.10.2008 8:34

  Tilkynnt, að Rússar vilji lána Seðlabanka Íslands stórfé til að tryggja gjaldeyrisforðann. Minnir á það, þegar Bretar settu löndunarbann á íslenskan fisk í landhelgisdeilunni 1952 til 1953 og Sovétmenn tóku að kaupa af okkur fisk og við olíu af þeim. Hér er skýrt frá því, að Seðlabanki Íslands hafi sagt of mikið í fyrstu tilkynningu sinni um málið.

  Í frétt The New York Times um óvissuna á fjármálamörkunum segir í dag:

  „The immediate danger, economists say, are countries in Eastern and Central Europe, like Bulgaria and Estonia, which run steep trade deficits and are vulnerable to a sudden flight of foreign capital.

  Iceland, with an overheated economy and suffocating foreign debt, may prove to be the first national casualty of the crisis. On Monday, threatened by a wholesale financial collapse, the government in Reykjavik assumed sweeping powers to intervene in its banking industry.

  “We were faced with the real possibility that the national economy would be sucked into the global banking swell and end in national bankruptcy,” Prime Minister Geir H. Haarde said on Monday.

  But with global growth slowing sharply, the problems could spread to larger emerging markets, even China, which has a hefty current account surplus and immense foreign reserves.“

  Berlingske Tidende lýsir stöðunni þannig:

  „På Island vedtog man i går en redningsplan, hvor staten samler de islandske banker op. Men samtidig tvinges bankerne til at frasælge udenlandske aktier, og det kan betyde et storudsalg af ejerposter i Danmark.“

  Mánudagur, 06. 10. 08. - 6.10.2008 19:28

  Ríkisstjórnin var boðuð til fundar klukkan 08.30 í morgun og fyrir hann var lagt frumvarp til laga um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o. fl. eins og frumvarpið um heimild til fjármálaeftirlitsins til inngrips í starfsemi fjármálastofnana heitir. Ríkisstjórnin gekk frá frumvarpinu af sinni hálfu fyrir klukkan 09.30 en þá héldu Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, til fundar við formenn stjórnarandstöðunnar.

  Ríkisstjórn hafði komið saman til fundar að kvöldi sunnudags 05. 10. 06 í Ráðherrabústaðnum og síðan var efnt til funda í þingflokkum stjórnarinnar fram undir miðnætti. Þá töldu menn, að íslenska fjármálakerfið gæti staðist áraun heims-bankakreppunnar án beinnar íhlutunar ríkisins. Síðar kom í ljós, að vonir um þetta voru tálvonir.

  Vissulega hafði það komið til tals í umræðum síðustu daga, að ef til vill yrði nauðsynlegt að grípa inn í fjármálakerfið á annan hátt en þegar Glitnir banka var bjargað. Ríkisstjórnin vildi hins vegar í lengstu lög segja nokkuð eða gera, sem gæti truflað baráttu bankanna fyrir eigin lífi. Þess vegna var Geir H. Haarde mjög varkár í sínum orðum og mátti sæta gagnrýni á þann veg, að hann hefði ekki neitt að segja, þegar eftir var gengið um lánalínur frá útlöndum og annað slíkt.

  Þingflokkur sjálfstæðismanna kom saman klukkan 15.00 og þar var frumvarpið lagt fyrir þingmenn og kynnti Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra það í fjarveru Geirs H. Haarde, sem var að búa sig undir ávarp til þjóðarinnar, sem hann flutti í sjónvarpi og útvarpi klukkan 16.00. Þar lýsti hann því, hvernig fyrir fjármálakerfi þjóðarinnar væri komið. Við hlustuðum á hann í þingflokksherberginu og að máli hans loknu var honum klappað verðskuldað lof í lófa.

  Þingfundur var settur klukkan 16.30 og þar var frumvarpinu dreift, rétt fyrir klukkan 17.00 var settur nýr fundur og frumvarpið tekið til umræðu og hafði Geir H. Haarde framsögu, formenn stjórnarandstöðu flokkanna fluttu stuttar ræður og lýstu stuðningi við, að frumvarpið fengi skjóta ferð í gegnum þingið.

  Klukkan 18.00 efndi Geir H. Haarde til blaðamannafundar í þinghúsinu fyrir innlenda og erlenda fjölmiðlamenn. Þessi aðgerð ríkisstjórnarinnar vekur nokkra athygli erlendis.

  Klukkan 21.30 var boðað til þingfundar að nýju og varð frumvarpið að lögum 23. 20. Síðan efndum við sjálfstæðismenn til þingflokksfundar í tæpa klukkustund og ræddum atburði dagsins. 62 þingmenn tóku þátt í atkvæðagreiðslunni, en óvenjulegt er, að þingfundir séu svo vel sóttir.

  Á vefsíðu The Economist má meðal annars lesa þetta í dag:

  Lesa meira

  Sunnudagur, 05. 10. 08. - 5.10.2008 18:46

  Þegar fylgst er með fjölmiðlamönnum, sem standa í rigningarsuddanum fyrir utan Ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu, mætti halda, að þar væri upphaf og endir þess, sem við er að glíma í fjármálaheiminum.

  Glíman hér á hliðstæður víða. Við sjáum þó ekki fréttamyndir frá öðrum löndum, þar sem hlaupið er á eftir fólki upp og niður tröppur. Almennt láta fjölmiðlamenn sér nægja að bíða eftir því, að þeir, sem vitað er, að skýra frá niðurstöðu flókinna umræðna, geri það.

  Arnold Schwarzenegger, ríkisstjóri í Kaliforníu, sneri sér sl. fimmutdag til bandaríska fjármálaráðuneytisins með ósk um sjö milljarða dollara stuðning, til að unnt yrði að gera ríkissjóði Kaliforníu kleift að standa við greiðsluskuldbindingar sínar. Skuldabréfamarkaðurinn hefur lokað á Kalíforníu og þess vegna getur ríkið ekki brúað fjárhagslegar skuldbindingar fram að jólum, þegar von er á söluskattstekjum af jólasölu í verslunum.

  Angela Merkel, kanslari Þýskalands, tilkynnti síðdegis, að þýska ríkið ábyrgðist alla sparifjárreikninga í landinu. Tilkynningin var gefin eftir neyðarfund kanslarans með þýska seðlabankanum og fjármálaeftirilitinu. Ástæðan er erfið staða þýska fasteignalánabankans Hypo Real Estate, en vandræði hans má rekja til þess, að hann fékk ekki 35 milljarði evra að láni. Unnið er að björgunaraðgerðum fyrir bankann en hann geldur þess, að bankar eru hættir að treysta hver öðrum og halda því aftur af sér við lánveitingar. Merkel segir, að stjórnendur fjármálastofnana eigi að sæta ábyrgð fyrir „ábyrgðarlausa framgöngu“ sína.

  Þýska ríkisstjórnin fetar með sparifjárábyrgð sinni í fótspor Íra og Grikkja. Fjármálasérfræðingur BBC telur, að breska ríkisstjórnin geti ekki látið sinn hlut eftir liggja.

  Ríkisstjórnir Belgíu, Hollands og Lúxemborgar ákváðu í síðustu viku að leggja fram 11,2 milljarði evra til að bjarga stórbankanum Fortis og eignaðist þá hvert ríki 49% af hlut bankans í sínu landi. Aðgerðin varð ekki til að treysta stöðu bankans og sl. föstudag ákvað hollenska ríkisstjórnin að þjóðnýta þann hluta af starfsemi bankans, sem er í Hollandi.

  Í kvöld tilkynnti Yves Leterme, belgíski forsætisráðherrann, að ríkisstjórn Belgíu mundi gera ráðstafanir vegna Fortis, áður en evrópskir hlutabréfamarkaðir verða opnaðir á morgun. Vandi Fortis hófst á síðasta ári, þegar hann tók höndum saman við Royal Bank of Scotland og spánska bankann Santander um að kaupa hollenska bankann ABN Amro fyrir 70 milljarði evra.

  Þessi lýsing á þróun mála í öðrum löndum bregður í raun ljósi á viðfangsefni, sem blasir við stjórnvöldum í öllum löndum. Við þessar aðstæður verður hver og einn fyrst og síðast að hugsa um eigin hag.

   

  Laugardagur, 04. 10. 08. - 4.10.2008 20:06

  Jafnt í Reykjavík sem París komu menn saman í dag til að ræða aðgerðir vegna hinnar alþjóðlegu fjármálakreppu. Eftir að Bandaríkjaþing ákvað að verja mætti 700 milljörðum dollara til að tryggja bandaríska fjármálakerfið, er talið líklegt, að aukin festa hafi skapast.

  Í Reykjavík hittust ráðherrar, verkalýðsforingjar, atvinnurekendur og bankastjórar. Leitað var leiða til að mynda víðtæka samstöðu um leið til að tryggja stöðu íslenska fjármálakerfisins.

  Í París hittust forseti Frakklands, kanslari Þýskalands og forsætisráðherrar Bretlands og Ítalíu auk seðlabankastjóra Evrópu og forsætisráðherra Lúxemborgar, en hann tók þátt í fundinum sem talsmaður fjármálaráðherra 27 ESB-ríkja. Tilgangur fundarins var að ákveða, hvaða úrræði myndi best duga til að treysta evrópska fjármálakerfið.

  Fjármálaráðherra Finnlands sagðist sætta sig illa við, að þessi hópur mann tæki ákvarðanir fyrir öll ESB-ríki um þessi efni.

  Helstu fréttir fjölmiðla af fundinum í Reykjavík voru þess efnis, að sett yrði það skilyrði fyrir sameiginlegu átaki fyrir íslenska fjármálakerfið, að Íslendingar óskuðu eftir aðild að Evrópusambandinu - það er þeir yrðu í sömu stöðu og ESB-þjóðirnar, sem biðu í dag eftir niðurstöðunni í París.

  Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði í sjónvarpsfréttum RÚV, að þessar fréttir um ESB-skilyrðið ættu ekki við rök að styðjast. Fundirnir í dag hefðu alls ekki snúist um það mál. Morgunblaðið er þó með forsíðufrétt um þetta sunnudaginn 4. október!

   

  Föstudagur, 03. 10. 08. - 3.10.2008 20:59

  Björn Ingi Hrafnsson, markaðsritstjóri Fréttablaðsins, ritaði forsíðufrétt blaðsins í gær um, að Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, hefði nefnt þjóðstjórn á fundi ríkisstjórnarinnar þriðjudaginn 30. september og einnig á öðrum fundi. Í kvöld sagði Björn Ingi frá því í Íslandi í dag á Stöð 2, að hann hefði þetta frá heimildum innan ríkisstjórnarinnar. Fyrir sérhverja ríkisstjórn er alvarlegt, ef ekki er unnt að ræða þar mál milli manna eða við þá, sem koma á hennar fund, án þess að blaðamönnum sé sagt frá því, sem á fundinum gerist. Miðað við andann í stjórnarsamstarfinu þykir mér með nokkrum ólíkindum, að Björn Ingi fari með rétt mál um heimild sína fyrir þessari frétt.

  Jónas H. Haralz sagði í Spegli RÚV í kvöld, að í sinni tíð sem efnahagsráðgjafi hefði tíminn frá 1967 til 1969 verið hinn erfiðasti. Þá hefði undirstaða efnahagsstarfsemi þjóðarinnar hrunið. Nú væri yfirbyggingin í hættu.

  Ég man vel þessa tíma. Þá taldi faðir minn, að ástandið kynni að kalla á þjóðstjórn, en úr henni varð ekki og ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks leiddi þjóðina í gegnum vandann og lagði grunn að endurnýjun hagkerfisins, sem skilaði betri lífskjörum fyrir alla á undraskömmum tíma.

  Að menn velti fyrir sér þjóðstjórn hátt og í hljóði er frekar til marks um, að þeir telji brýnt að samhæfa alla krafta þjóðarinnar, pólitíska sem aðra, en þeir sjái slíka stjórn sem einhverja töfralausn á vandanum - ég er þeirrar skoðunar, að svo yrði ekki við núverandi aðstæður.

  Forsíðu nýjasta heftis The Economist prýðir mynd af manni, sem stendur fremst á sprunginni bjargbrún og horfir ofan í hyldýpið og fyrirsögnin er: World on the edge. Þetta er einnig fyrirsögn aðalleiðara blaðsins og þar er ein millifyrirsögnin: What's the Icelandic for "domino"? Með spurningunni er vísað þess, hve margir bankar hafa lent í vandræðum og þurft opinbera aðstoð undanfarið, þar á meðal hafi Ísland bjargað Glitni. Og á bls. 69 segir um þá björgun: The Icelandic government has taken a 75% stake in Glitnir, a bank with outrageous reliance on gummed-up wholesale funding markets. Ég ætla ekki að íslenska þessa döpru setningu.

  Fimmtudagur, 02. 10. 08. - 2.10.2008 22:46

  Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins kom saman til fundar í Valhöll klukkan 11.00 og er augljóst, hvert var helsta umræðuefni þar.

  Klukkan 13.00 var ég í Von, húsi SÁÁ við Efstaleiti, og setti þar málþing um félagslegar forvarnir og gat þess í ræðu minni, að við qi gong félagar fengjum þrisvar í viku afnot af fundarsalnum til æfinga.

  Klukkan 19.50 flutti Geir H. Haarde, forsætisráðherra, stefnuræðu sina og síðan voru umræður um hana til klukkan rúmlega 22.00.

  Ég tek undir með Össuri Skarphéðinssyni iðnaðarráðherra, sem lýsti undrun sinni á því, hvernig Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, talaði um samning ríkisstjórnarinnar við stjórn Glitnis um kaup á hlutabréfum í bankanum og gerði hann grunsamlegan.

  Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, og Birkir J. Jónsson, samflokks- og samþingmaður hennar í Norðausturkjördæmi, gældu við aðild Íslands að Evrópusambandinu. Með því eru þau í senn að biðla til Samfylkingar og ögra Guðna Ágústssyni innan Framsóknarflokksins. Þeir Össur Skarphéðinsson og Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, voru einnig með hugann við Evrópusambandið í ræðum sínum.

  Öllum ræðumönnum bar saman um, að sýna ætti samstöðu þvert á flokkslínur til að leiða þjóðina út úr hinum hrikalega vanda, sem ógnar fjármálakerfi landsins. Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri/grænna, vill, að forystumenn stjórnmála og atvinnulífs verði lokaðir inni í Höfða og fái ekki að stíga þaðan út, fyrr en þeir senda frá sér hvítan reyk til marks um, að sameiginleg leið hafi fundist út úr vandanum.

  Miðvikudagur, 01. 10. 08. - 1.10.2008 18:16

  Alþingi var sett í dag séra Anna Pálsdóttir flutti góða prédikun í Dómkirkju, það setur hátíðlegri svip en áður á athöfnina í þinghúsinu, að þar leikur strengjakvartett ættjarðarlög.

  Forseti Íslands flutti ræðu, sem snerist um að gleyma ekki fullveldisdeginum 1. desember og gæta þess, sem áunnist hefur með útfærslu fiskveiðilögsögunnar. Skýrari varnaðarorð gegn aðild að Evrópusambandinu hefur núverandi forseti ekki flutt yfir þingheimi, síðan hann barðist gegn aðild að evrópska efnahagssvæðinu sem þingmaður í upphafi tíunda áratugs síðustu aldar.

  Ég sé að glöggir bloggarar sakna þess, að forseti skyldi ekki ræða um uppnámið í fjármálakerfinu. Vissulega hefði verið forvitnilegt að hlusta á skilgreiningu Ólafs Ragnars á stöðu útrásarfyrirtækjanna um þessar mundir. Að vísu má segja, að í orðum hans hafi komið fram, að hann teldi ekki ástæðu til að gera of mikið úr viðfangsefni líðandi stundar miðað við það, sem áður var. Dregið skal í efa. að þessi samanburður sé réttmætur.

  Í fjölmiðlamálinu gekk Sigurður G. Guðjónsson hrl. fram fyrir skjöldu til að verja hagsmuni auðmanna gegn almannavaldi. Þegar Glitni er bjargað af almannavaldi gengur Sigurður G. Guðjónsson hrl. fram fyrir skjöldu í þágu auðmanna, af því að þeir telja sig tapa á því, að almannavald bjargi Glitni.

  Er ekki komið nóg af þessum söng í fjölmiðlum?  

   

  Þriðjudagur, 30. 09. 08. - 30.9.2008 21:30

  Í dag setti ég Ólaf Kristófer Ólafsson, sýslumann Snæfellinga, lögreglustjóra á Suðurnesjum til 1. janúar 2009, Jón Bjartmarz aðstoðarlögreglustjóra og Halldór Halldórsson var settur fjármálastjóri embættisins. Allt eru þetta menn með mikla og góða reynslu hver á sínu sviði. Ég stefni að því að auglýsa síðan embættið laust til umsóknar frá 1. janúar 2009.

  Jón Ásgeir Jóhannesson kyrjar sama, gamla óvildar- og samsærissönginn um Davíð Oddsson, þegar ríkisstjórnin hefur ákveðið að koma í veg fyrir, að Glitnir sigli í þrot, eftir að Þorsteinn Már Baldvinsson, bankaráðsformaður, gekk á fund Davíðs í Seðlabanka Íslands og skýrði honum frá því, að bankinn gæti ekki einn og óstuddur tekist á við endurfjármögnunarvanda.

  Trúir því einhver, að vandi Glitnis sé Davíð Oddssyni eða ríkisstjórninni að kenna? Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, gekk meira að segja ekki svo langt að segja það í Kastljósi kvöldsins. Skrýtið, að hún skyldi ekki spurð, hvað Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, hafi verið að gera í húsakynnum Seðlabanka Íslands nóttina, sem ákveðið var að bjarga Glitni.

  Jón Ásgeir var í hátíðarviðtali í Íslandi í dag á Stöð 2 í kvöld og lagði Sindri Sindrason fyrir hann spurningarnar, en eins og Egill Helgason segir, var Sindri til skamms tíma talsmaður Jóns Ásgeirs.

  Þórhallur S. Gunnarsson, stjórnandi Kastljóss, skýrði frá því, að Jón Ásgeir hefði neitað að koma í þáttinn og meira að segja bannað fréttastofu RÚV að viðtal hennar við sig yrði sýnt í þættinum. Hvað skyldi ritstjórnarvaldið ná langt út fyrir Baugsmiðlana?

  Mánudagur, 29. 09. 08. - 29.9.2008 22:32

  Í morgun var skýrt frá því, að ríkið hefði eignast 75% í Glitni hf fyri 84 milljarði króna. Forráðamenn Glitnis leituðu aðstoðar hjá Seðlabanka Íslands sl. fimmtudag og við svo búið hófst ferli, sem lauk með því, að ákveðið var að ríkið hlypi undir bagga með bankanum.

  Geir H. Haarde, forsætisráðherra, færði góð rök fyrir þessari óvenjulegu ráðstöfun á tveimur fundum, sem ég sat með honum í dag, og auk þess á fundi með fréttamönnum og í Kastljósi sjónvarps. Er enginn vafi á því, að þessi ráðstöfun er best til þess fallin af þeim úrræðum, sem fyrir hendi voru, eftir að Glitnismenn leituðu til ríkisins.

  Greinilegt er, að á Baugsmiðlinum DV er mönnum ekki skemmt yfir þessari þróun eins og best sést á þessari klausu, sem birtist á dv.is kl, 21.11 í kvöld:

  „Vakið hefur athygli hve kært er með Davíð Oddssyni seðlabankastjóra og Lárusi Welding, forstjóra Glitnis. Lárus er talinn hafa skipt um húsbónda um helgina til að tryggja sína stöðu. Innan úr Glitni heyrist að hann sé ekki lengur par hrifinn af þeim eigendum sem enn fara með stjórn bankans og hann sjái ekki sólina fyrir seðlabankastjóranum.“

  Að lýsa einhverjum sem aðdáanda Davíðs Oddssonar er hið versta, sem unnt er að segja um nokkurn mann í DV.

  Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, hefur smitast af Davíðs-fóbíunni, ef marka má skrif hennar á eigin vefsíðu vegna sviptinganna í kringum Glitni. Fyrirsögn á pistli hennar er þessi: „Davíð var við stýrið - Geir farþegi um borð“.

  Skrif Valgerðar eru aðeins til marks um óvild hennar í garð sjálfstæðismanna. Hún víkur meðal annars að því, að Landsbanki Íslands hafi fagnað aðgerðinni til bjargar Glitni og segir: „Landsbankinn telur aðgerðina jákvæða auk þess sem hún muni leiða til tækifæra á frekari sameiningu fjármálastofnana hér á landi. - Einn af stjórnarmönnum í Landsbanka Íslands er Kjartan Gunnarsson fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins.“

  Furðulegust eru þó viðbrögð Baugsskáldsins Hallgríms Helgasonar.

  Lesa meira

  Sunnudagur, 28. 09. 08. - 28.9.2008 17:36

  Morgunblaðið birtir viðtal við Jóhann R. Benediktsson, fráfarandi lögreglustjóra, í dag. Þar er margt kúnstugt gefið til kynna eða hálfsagt. Haraldi Johannessen ríkislögreglustjóra þykir miður, hvaða hátt Jóhann hefur á að kveðja starfsbræður sína, en óskar honum velfarnaðar á nýjum starfsvettvangi, eins og segir hér. Þá hefur verið send yfirlýsing í nafni Lögreglustjórafélags Íslands. Henni lýkur á þessum orðum:

  „Lögreglustjórafélagið harmar því þær illskeyttu og persónulegu árásir sem ráðherra og einstakir starfsmenn lögreglukerfisins hafa þurft að sæta og kallar þess í stað á málefnalegar umræður um starfsemi lögreglunnar og skipulag hennar.“

  Kosið var til þings Austurríkis í dag, en boðað var til kosninganna með skömmum fyrirvara, þegar upp úr sauð í samsteypustjórn stóru flokkanna í landinu. Jafnaðarmenn fóru með stjórnarforystu en stjórnin sprakk ekki síst vegna þess, að forystumenn flokksins sendu opið bréf til útbreiddasta blaðs landsins Kronen Zeitung eftir nei-niðurstöðuna í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Lissabon-sáttmálann á Írlandi og sögðust vilja þjóðaratkvæðagreiðslu um sáttmálann í Austurríki, ef á honum yrði hin minnsta breyting vegna afstöðu Íra. Með því tryggðu þau flokki sínum stuðning blaðsins, sem nær til þriggja milljóna lesenda eða 43% Austurríkismanna.

  Kronen Zeitung studdi á sínum tíma aðild Austurríkis að Evrópusambandinu en Hans Dichand, 87 ára eigandi blaðsins, hefur skipt um skoðun á sambandinu. Sagt er, að þar ráði mestu sú krafa Brusselvaldsins, að orðið Marmelade sé afmáð og þess í stað notað orðið Konfitüre. Hans Dichand mótmælti þessu „diktati“ frá Brussel á forsíðu blaðs síns og skipaði sér síðan í forystu þeirra, sem vilja tryggja „fullveldi“ Austurríkis og nýtur sú afstaða stuðnings meirihluta þjóðarinnar.

  Fyrstu tölur í Austurríki sýna, að jafnaðarmenn halda forystu meðal flokka, fyrrverandi samstarfsflokkur þeirra, Þjóðarflokkurinn, er næststærstur en flokkur yst til hægri, Bandalag um framtíð Austurríkis, jók fylgi sitt. Heinz-Christian Strache, formaður flokksins, hefur farið mikinn gegn „einræðisöflum“ í Brussel og myntinni, sem hann kallar „teuro“, en þar tengir hann saman orðin euro og „teuer“, það er dýr á þýsku. 

  Carl Bildt, utanríkisráðherra Svía, hefur áhyggjur af niðurstöðu austurrísku kosninganna. Spurning hvort þau hafa áhrif á kosningarbaráttunni um sæti í öryggisráði SÞ, þar sem við keppum um sæti við Austurríkismenn. Um árið setti Evrópusambandið Austurríki í skammarkrókinn vegna mikils fylgis kjósenda við flokka yst til hægri.

  Laugardagur, 27. 09. 08. - 27.9.2008 16:14

  Ég óska Gunnlaugi Júlíussyni til hamingju með að hafa lokið ofurhlaupinu. Í raun virðist ofurmannlegt að geta staðist þessa áraun en sýnir, hve þjálfun, úthald og sálarstyrkur skipta miklu. Fyrr í sumar vann Benedikt Hjartarson það afrek að synda yfir Ermarsund. Við höfum því eignast tvo ofurmannlega afreksmenn á þessu sumri. Til hamingju!

  Í dag birti Morgunblaðið stutta athugasemd eftir mig sem svar við Staksteinum blaðsins í gær.

  Ég fagna leiðara Morgunblaðsins í dag, þar sem tekið er undir það sjónarmið, að til lítils sé að tala um hreyfingu á starfsliði hjá ríkinu, ef ekki megi hrófla við neinu.

  Reynir Traustason, ritstjóri DV, óskaði eftir því, að ég færði rök fyrir máli mínu ella bæði hann og blað hans afsökunar. Rök mín er að finna hér.

  Föstudagur, 26. 09. 08. - 26.9.2008 22:03

  Ég vil þakka mjög góð viðbrögð og kveðjur frá mörgum vegna Kastljóss í gærkvöldi, þar sem ég svaraði spurningum Sigmars Guðmundssonar í tilefni af því að Jóhann R. Benediktsson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, hefur ákveðið að biðjast lausnar.

  Í pistli, sem ég ritaði á síðuna mína í dag, vík að þætti þessa máls og þeim furðulega áburði DV, að lausnarbeiðni Jóhanns eigi upptök sín í einhverju atviki á Keflavíkurflugvelli í ágúst 2002 og ég hafi átt þar hlut að máli sem dómsmálaráðherra, þótt ég hafi ekki tekið við því embætti fyrr en að loknum kosningum 2003. 

  Þessi fréttaflutningur og sögutúlkun DV  er í góðu samræmi við margt annað, sem sagt hefur verið opinberlega vegna brottfarar Jóhanns og náinna samstarfsmanna hans. Er þar ekki allt sem sýnist. 

  Fimmtudagur, 25. 09. 08. - 25.9.2008 21:10

  Í morgun tók ég þátt í aðalfundi Sýslumannafélags Íslands, sem haldinn var á Hvolsvelli, flutti ég þar erindi um endurskoðun lögreglulaga og svaraði fyrirspurnum fundarmanna. Umræður um lögreglumál hafa verið mikil á opinberum vettvangi undanfarið og er kveikjan að þeim að nokkru minnisblað frá mér sem sent var í júlí og óskað svara við fyrir 15. september en í því er fjallað um álitaefni, sem tengjast endurskoðun lögreglulaga. Hefur þetta kveikt umræður víða og kallað á, að tekin sé afstaða til mála, sem setja almennt ekki svip á umræður um lögreglumál.

  Nú hafa sjónarmið allra umsagnaraðila verið kynnt mér og fór ég yfir þau á fundinum í morgun. Næsta skref er að vinna málið áfram og verður það gert innan ráðuneytisins.

  Staða mála á hjá lögregluembættinu á Suðurnesjum setur svip sinn á fréttir og ræddi ég við útvarps- og sjónvarpsmenn í dag. Mig undrar að vera sakaður um einelti í garð Jóhanns R. Benediktssonar. Þeir menn, sem þannig tala, vita einfaldlega ekki, hvað í hugtakinu felst.

  Jóhann R. Benediktsson setti sig upp á móti þeirri tillögu minni, að tollstjórn yrði aðskilin frá lögreglustjórn. Á fundi sýslumanna í dag var einhugur um að þetta ætti að gera og stofna eitt tollumdæmi í landinu.

  Atli Gíslason, þingmaður vinstri/grænna, fer mikinn og slær um sig sem málsvari lögreglumanna. Hinn 13. mars 2008 vildi hann hins vegar „ bíða með að vopna lögreglu þar til hún verður fyrir skotárás,“ svo að vitnað sé í fréttir Stöðvar 2. Sjá nánar hér:

  Stöð 2 fréttir !3. 03. 08.

  „Atli Gíslason, þingmaður Vinstri-grænna, vill bíða með að vopna lögreglu þar til hún verður fyrir skotárás. Þetta sagði hann í samtali við Bítið á Bylgjunni þar sem sýknudómur yfir tveimum Litháum frá í gær var til umræðu. Lögreglufélag Reykjavíkur segir dóminn hneyksli.

  Lesa meira

  Miðvikudagur, 24. 09. 08. - 24.9.2008 21:07

  Fór fyrir hádegi í Háskólann á Bifröst, þar sem ég flutti fyrirlestur klukkan 13.00 um forvirkar rannsóknarheimildir og rakti efnisþætti slíkra heimilda og stiklaði á stóru um umræður um málið hér á landi. Katrín Theodórsdóttir lögmaður var einskonar andmælandi á fundinum en ég sagðist sammála sjónarmiðum hennar. Jón Ólafsson prófessor stjórnaði umræðum eftir ræður okkar og lögðu fjölmargir fram spurningar til mín.

  Eftir stutta viðdvöl í borginni hélt ég austur í Fljótshlíð til að búa mig undir fund með Sýslumannafélagi Íslands á morgun, þar sem ég mun gera grein fyrir stöðu mála varðandi endurskoðun lögreglulaga. Eins og við er að búast, eru töluverðar umræður um lögreglumál á opinberum vettvangi og tengjast þær meðal annars því, að nýlega rann út frestur umsagnaraðila um minnisblað mitt um næstu breytingar á lögreglulögunum.

  Við komuna austur settist ég við tölvuna og svaraði spurningum fjölmiðlamanna eftir fund Jóhanns R. Benediktssonar, lögreglustjóra á Suðurnesjum, með starfsmönnum sínum klukkan 17.00 í dag í safnaðarheimilinu í Keflavík, þar sem hann tilkynnti þeim, að hann mundi láta af störfum 1. október nk. Þrír náustu samstarfsmenn hans, sem farið hafa með fjármála- og starfsmannastjórn láta einnig af störfum.

  Jóhann telur það fyrirslátt, þegar ég segi ákvörðun mína um að auglýsa embættið á Suðurnesjum byggða á því mati, að um allt annað embætti sé að ræða en skipað var í fyrir fimm árum. Engum ætti þó að vera betur ljóst en Jóhanni, hvernig embættið hefur breyst, eftir að sýslumannsembættið á Keflavíurflugvell varð nafnið tómt og síðan aflagt, enda arfleifð úr kalda stríðinu. Launakjör embættismannsins eru til dæmis allt önnur og þó ekki væri nema vegna þeirra er æskilegt að hafa alveg hreint borð, sem fæst með auglýsingu. Ef Jóhann veit meira um það en ég, hvers vegna ég tók þessa ákvörðun, væri gott að hann upplýsti mig og aðra um það.

  Jóhann R. Benediktsson hefur aldrei gagnrýnt stefnumörkun mína í lögeglumálum, hvorki í einkasamtölum né á fundum. Hann hefur til dæmis lýst sérstökum áhuga á forvirkum rannsóknarheimildum og vann í þeim anda sem sýslumaður á Keflavíkurflugvelli.

  Ég kveð Jóhann og samstarfsmenn hans með þökk fyrir samfylgdina síðan 1. janúar 2007 og óska þeim velfarnaðar á nýjum starfsvettvangi.

  Ég sé á visir.is, að Bjarni Harðarson, þingmaður Framsóknarflokksins hér í Suðurkjördæmi, ætlar að gera afsögn Jóhanns að pólitísku þrætuefni. Við því er að sjálfsögðu ekkert að segja. Við ákvörðun mína fór ég að lögum og verður henni ekki breytt, hvorki af Bjarna né öðrum, þótt menn séu henni ekki sammála. Ég legg til, að Bjarni leggist frekar á árar með okkur, sem róum lífróður til að halda Suðurnesjaembættinu á réttum kili, en hann eyði ekki tímanum í að deila, aðeins til að stunda þrætulist.

  Þriðjudagur, 23. 09. 08. - 23.9.2008 20:51

  Ríkisstjórnin hélt 100. fund sinn í morgun og kom Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, starfandi forsætisráðherra, með ljúffenga, heimabakaða tertu til hátíðabrigða.

  Síðdegis ræddi ég við þá Þorgeir og Kristófer í þætti þeirra, Reykjavík síðdegis, á Bylgjunni. Umræðurnar snerust um lögreglumál. Ég sagðist eiga ríkan þátt í þeim umræðum, sem nú færu fram, þar sem ég hefði í byrjun júlí sent frá mér minnisblað um breytingar á lögreglulögum og óskað umsagna fyrir 15. september. Þetta hefði hvatt menn til að velta öllum hliðum málsins fyrir sér og þegar kappsfullir menn ættu  í hlut setti keppnisskapið svip á umræðurnar. Ég væri hins vegar viss um, að niðurstaða næðist í sátt og samlyndi.

  Danska ríkisstjórnin hefur samið við DF, danska þjóðarflokkinn, um útlendingamál, en síðan í júlí hefur Birthe Rönn Hornbech, innflytjendamálaráðherra, staðið í ströngu vegna ásakana um stjórnleysi í útlendingamálum og vandræða eftir dóm Evrópusambandsdómstólsins, sem braut í bága við danskar reglur um fjolskyldusameiningu, það er svonefnda 24 ára reglu.

  ESB-dómstóllinn felldi 25. júlí dóm í svonefndu Metock-máli. Samkvæmt honum er ESB-ríkjum bannað að krefjast þess, að ríkisborgarar utan EES-svæðisins skuli hafa fengið löglegt dvalarleyfi í örðu EES-ríki til að fá viðurkennda fjölskyldusameiningu með ESB-borgara, sem hefur nýtt sér réttinn til frjálsrar farar.

  Danska ríkisstjórnin segist munu fara að dómnum. DF heldur því fram, að útlendingamál séu undir dönsku fullveldi og þess vegna eigi ekki að fara eftir niðurstöðu í Metock-málinu.

  Í því skyni að sporna gegn óheppilegum afleiðingum af Metock-dóminum - það er gegn aukinni hættu á ólöglegum innflytjendum, eru ríkisstjórnin og DF sammála um að setja útlendingastofnuninni nýjar eftirlitskröfur, sem munu hafa almenna þýðingu fyrir opinber afskipti af fjölskyldusameiningu í tengslum við ESB-borgara.